Tindferð 171
Kotárjökull upp á Rótarfjallshnúk í Öræfajökli
laugardaginn 4. maí 2019

Kotárjökull
á Rótarfjallshnúk í Öræfajökli
ólýsanlegt...
ómetanlegt...
ógleymanlegt...


Ásdís, Maggi, Björgólfur, Gunnar, Georg, Birgir, Davíð, Ingi, Jóna Heiðar yfirleiðsögumaður, Bára.
Mike leiðsögumaður, Bjarnþóra, Sigríður Lár., Bjarni, Örn, Raggi leiðsögumaður, Agnar.
Kristín tók mynd (vill ekki vera á samskiptamiðlum).

Leið sem aldrei er farin... og verður seint leikin eftir... inn þröngan og brattan jökuldal...
... þverandi snarbrattar og glerharðar grjótskriður inn með Kotárjökli í Öræfum... með hyldjúpt gljúfrið fyrir neðan...
... með lítið hald á köflum svo fór um okkur flest... með rúllandi grjóthrunið ofan okkar...
... sem jókst með rísandi morgunsólinni sem hitaði frosinn hamravegginn...
... og veldur að þessi leið er e
kki gerleg almennt...
og líklegast ekki farin aftur...
Niður ísað grjótið... eða grýttan ísinn í raun...
... inn á kolsprunginn skriðjökulinn sem sorfið hefur hamrastálið sem hrundi úr...

... upp jökulísinn með sprungurnar á báða bóga og allt um kring...
yfir hverja snjóbrúna...  ... á fætur annarri...

...stundum á ská og í s-laga línum þar sem sprungur skáru sig nánast milli hvers manns í línunni...

... með mannheldum snjóeyjum sem rétt héldu...
eða gáfu undan svo bjarga þurfti Agnari sem hvarf allur ofan í eina...

Því reyndi vel á leiðsögumenn sem voru í hæsta gæðaflokki eins og alltaf,
þeir Jón Heiðar Andrésson og Ragnar Þór Þrastarson hjá Asgard Beyond
sem leiddu okkur af stakri yfirvegun og fagmennsku ásamt Mike yfir og gegnum ótal sprungur...
... sumar ógnarstórar og í röðum... svo margsinnis var óljóst hvort við kæmumst upp eftir, hvað þá á tindinn...
... og engum hugnaðist að snúa sömu leið til baka...

En á tindinn komumst við eftir 8,5 klst göngu upp í 1.847 m hæð á Rótarfjallshnúk...

... einn af sjö tindunum sem varða öskjubarm Öræfajökuls í Vatnajökli...
 ... og bauð upp á stórfenglega sýn yfir alla öskjuna og félaga sína,
Dyrhamar, Hvannadalshnúk, Snæbreið, Sveinstind, Sveinsgnípu og Hnappana...
algerlega ógleymanleg sýn...

Hér kristallaðist smæð mannsins sem aldrei fyrr...
hrikaleikur jökulsins minnti okkur sláandi og fallega í senn á ógnarstærð náttúrunnar
þar sem mannskepnan má sín svo lítils...

Hálftími uppi á einum af sjö toppum landsins...
... og svo eingöngu þrjá tíma niður... 
... í rúllandi gleðinni niður saklaust Sandfellið... þar sem þandar taugarnar gátu loksins hvílst á einfaldri niðurleið... 

... í besta færi nokkurn tíma á Öræfajökli... nefnilega furðulega lítilli sem engri snjóbráð alla leið niður...

... þar sem sólin, einn kaldur og græn jarmandi sveitin yljuðu okkur
og fóru mjúkum höndum um þreytta en himinlifandi leiðangursmenn fram á kvöld...
eftir 21,5 km jöklagöngu á 12 klst...

--------------------------------

Langtímaveðurspáin fyrir Rótarfjallshnúk var lygilega góð tíu daga fram í tímann
og breyttist ekkert dagana fyrir ferð...

Við krossuðum fingur og vonuðum það besta... minnug maímánaðar árið á undan 2018
þegar bókstaflega enginn helgi í maí gaf til göngu á Öræfajökli með góðu móti
og staðarhaldarar í Svínafelli sögðu ástandið með versta móti það árið fyrir sveitina í heild...

Logn... sól... svalt... og þetta rættist allt... nema það var mun hlýrra á leiðinni upp en frostið á tindinum sagði til um
og það var vindur á tindi Rótarfjallshnúks en annars logn og blíða allan tímann...

Og skýjafarið... var ekkert... það var heiðskírt allan tímann þar til seinnipartinn að skýjabólstrar sáust á himni
en þeir skreyttu bara myndirnar og skyggðu ekkert á okkur nema í smá tíma í nestinu á Línukletti...

Brottför úr bænum  kl. 14:00 á hefðbundnum tíma frá Össur þar sem við hittumst öll og réðum ráðum okkar
en Davíð kom með kort af Öræfajökli til að spá betur í leiðina sem við vorum að fara
þar sem hún var allt annað en hefðbundin og fæstir sem við töluðum við fyrir og eftir ferð áttuðu sig á hvaða óskapar skriðjökul við fórum upp til að komast á þennan tind sem fleiri þekktu og blasir við á hægri hönd þegar gengin er Sandfellsleiðin upp á Hvannadalshnúk
og er í raun smá skreppur frá þeirri leið... en við ætluðum að koma upp á hann úr öðrum jökuldal...
sunnan Sandfellssins þar sem engir fara...

Kappi var bíllinn hans Georgs kallaður... með Magga, Bigga og Davíð innanborðs :-)

Eldingin var bíllinn hennar Bjarnþóru með hana, Siggu Lár, Björgólf og Kristínu innanborðs :-)

Vaskur hét bíllinn hans Gunnars Viðars með Inga, Agnari og Bjarna meðferðis :-)

Þjálfarar voru á Batmanbílnum og tóku Agnar með sér í bæinn á sunnudeginum...
engin mynd tekin af þjálfarabílnum :-)

Smá viðgerðir á húddinu á bílnum hans Gunnars Viðars þar sem festingarnar höfðu losnað...
þessu var auðvitað reddað á Hvolsvelli :-)

Fragafellið og fossarnir... sem átti að vera janúar-tindferðin í ár, 2019... en ekki viðraði
svo farið var á Súlufell í sárabætur í snjókomu en stórskemmtilegri göngu...
og reynt að koma þessari göngu við fram eftir vetri en tókst ekki...
við stefnum á Fragafellið að ári í janúar 2020...

Lómagnúpur bað að heilsa og þakkaði fyrir síðast... í júlí í fyrra 2018...
þá fengum við fínasta veður alla gönguna þoku uppi og ekkert skyggni...
mikil synd en ævintýraleg leiðin inn með fjallinu austan megin að Núpsvötnum og upp dalinn var þess virði að fara að upplifa eitt og sér...
frá hæsta tindi Lómagnúps ar 7 km ganga fram og til baka að suðurbrúnunum í þoku en ágætis veðri...
og klöngrið upp á fjallið krafðist mikillar varkárni... jebb... mikið ævintýri a tarna...

Svo var gist í Skaftafelli um kvöldið... auðvitað var fjallið skýlaust þegar við komum niður og keyrðum í náttstað...
en daginn eftir var bjartari dagur og þá upplifðum við Kristínartinda í fyrsta sinn og það í sól og blíðu
og þar með bættist ein allta flottasta fjallgönguleið í safnið nokkurn tíma...

Sjá nýja veginn og þann gamla á brúnni yfir Skeiðarársand... sem nú er þurr meira og minna...

Og hér blöstu Kristínartindarnir sunnan Skarðatinds við þegar keyrt var í Skaftafell...
Aldrei munum við keyra inn Skaftafell aftur án þess að minnast þeirrar göngu
sem mun teljast til þeirra allra fegurstu frá upphafi sakir leiðarinnar sjálfrar milli skríðandi jöklanna beggja vegna...
sem og útsýnisins sem er með því tignarlegasta ofan af einum fjallstindi á landinu...

Gist í Svínafelli eins og öll síðustu ár... besti staðurinn... í smáhýsum
eða svefnpokaplássi bak við matsalinn eða í stóra húsi staðarhaldara að bænum sjálfum... eða í tjaldi...
allt eftir smekk hvers og eins... með aðstöðu til að grilla og borða eins og best verður á kosið....

Frábærir staðarhaldararnir að Svínafelli, Pálína og maður hennar sem hafa í öll þessi ár
gefið okkur sveigjanleika við pöntun og staðfestingu gistingar út frá veðri
sem öllu stjórnar um hvort farið verður eður ei á jökul þá helgina...

Við eigum að sjálfsögðu nú þegar pantaða gistingu hjá þeim fyrstu helgina í maí árið 2020 fyrir Hnappana :-)

Wildboys mættir á svæðið... og í tjaldi eins og alltaf... þau ætluðu fjallaskíðandi á Sveinstind frá Kvískerjum...
það voru fagnaðarfundir... og allir í sama hátíðarskapinu fyrir glimrandi dag sem var áþreifanlega nálægt úr þessu...

Smáhýsin í Svínafelli eru alger snilld... ekki mikið pláss en fínasta aðstaða ef menn vilja sleppa tjaldinu...

Það er eitthvað við Svínafell... þarna fáum við vorið og sveitina beint í æð...
kindurnar með nýju lömbin jarmandi... fuglasöngurinn sem aldrei fyrr...
allt að vakna og hækkandi sólin lofandi góðu sumri þegar vel lætur...

Svínafell er fyrir löngu orðinn vorboðinn mikli í huga þjálfara...
þangað mætir maður á föstudegi á stefnumót við sólina á hæsta jökli landsins...
og fer heim á sunnudegi með sólarkraftinn og sumarið í hjartanum ár eftir ár....

Bara aksturinn undir Eyjafjöllum er þess virði að fara þessa leið einu sinni á ári...
hvað þá gangan sjálf á jökul... og útilegan heila helgi innan um jarmandi lömb og fagnandi farfugla...

Toppfarar í tveimur vestustu smáhýsunum og þar fyrir aftan og svo í tjaldi og í mathúsinu sjálfu...

Síðasta innlit á veðurspánna um kvöldið lofaði góðu...
þetta gat ekki klikkað úr þessu þar sem engar veðrabreytingar voru væntanlegar næstu daga og því stöðugleiki í himinhvolfinu...

Ætlunin var að hitta á Jón Heiðar og félaga um kl. 21:00 í Svínafelli
en þar sem þeir sáu fram á töf um meira en hálftíma ákvað þjálfari að sleppa þessum undirbúningsfundi
svo við kæmumst sem fyrst í ró og í háttinn... og það var þess virði...

Vaknað kl. 4:00... og brottför undir 5:00 frá Svínafelli með leiðsögumönnum sem ætluðu bara að hitta okkur þá....

Næturfrost var um nóttina og skafa þurfti af bílunum en við hlógum nú bara að því enda nánast öll í húsi...
helgina á eftir var snjókoma á föstudagskvöldinu og hrímuð tjöld um morguninn
þegar Birgir gekk á Hrútsfjallstinda með Skúla Júl og félögum
svo þetta var nú ekkert í samanburði við það...

Leiðsögumennirnir mættir fyrir klukkan fimm... Ásdís, Ragnar þór, Mike og Jón Heiðar...

Skúli Júl og félagar á fjallaskíðum á leið á Sveinstind frá Kvískerjum vöknuðu á sama tíma og við
en áttu aðeins lengri akstur framundan að fjallsrótum og þau skiluðu sér 1-2 klukkustundum síðar niður það kvöldið...

Við þurftum hins vegar eingöngu að keyra smá spöl að Háöldu en skutluðum þjálfarabílnum að fjallsrótum Sandfells
þar sem ætlunin var að koma niður seinnipartinn svo við þyrftum ekki að bæta 1-2 km við göngu að bílunum þaðan
og þar var fjallaskíðahópur FÍ þá þegar lagður af stað upp á Hvannadalshnúk upp og niður Sandfellið
en þau komu niður um klukkutíma á eftir okkur þennan dag...

Verkefni dagsins... upp þennan skriðjökul vinstra megin og á þennan hæsta tind þarna uppi...

Forystulínan hans Jóns Heiðars:

Örn, Agnar, Jón Heiðar, Kristín, Bjarnþóra, Ásdís.

Þrjár línur... þrír leiðsögumenn...
það voru fjögur ónýtt pláss í ferðinni og ótrúlega margir sem hættu við sem var mjög miður því ferðin var svo söguleg...
svo við vorum eingöngu 14 Toppfarar á endanum... og því skellti Ásdís eiginkona Jóns Heiðars sér með...

Miðjulínan hans Mikes:

Ingi, Maggi, Mike, Davíð, Bjarni, Bára.

Öryggis- og endalínan hans Ragnars Þórs:

Sigríður Lár., Birgir, Raggi, Björgólfur, Gunnar Viðar og Georg.

Lagt af stað kl. 5:32... Kotárjökull framundan við Háöldu og Rótarfjallshnúkur trónandi efstur...
loksins fékk hann aðalhlutverk dagsins... því frá Sandfellsleiðinni að ofan er hann bara smá viðkomustaður
á leið upp eða niður hnúkinn og hrikaleikur hans hvergi sjáanlegur nema frá sjálfri öskjubrúninni þar sem hann rís efstur...

Veðrið fullkomið... logn og sólin að koma upp... auð jörð og frekar hlýtt...

Leiðin inn Háöldu er nokkuð vinsæl gönguleið erlendra ferðamanna fyrst og fremst...
áður en komið er á jökulinn sjálfan þar sem allir snúa við...
en við vorum öll að fara þarna í fyrsta sinn á þessar slóðir nema Jón Heiðar...

Mjög falleg leið og öðruvísi en aðrar aðkomur á skriðjöklana í Vatnajökli...

Leiðin framundan... mini-útgáfa af gönguleiðinni upp í Grunnbúðir Everest of fleiri álíka jökuldali...
inn þröngan dal með rísandi jöklana trónandi efst...

Jebb... strax orðið of heitt og menn fækkuðu fötum...

Lexían hér að taka aldrei með ullarpils í jöklagöngur þar sem von er á sól og góðu veðri
því það verður óskaplega heitt á jöklunum í slíku veðri
og þá er betra að vera ekki með bakpokann troðinn af neinu nema nauðsynlegum búnaði...
síðar ullarnærbuxur eða göngubuxur (já, alltaf erfitt að velja á milli þeirra) og svo hlífðarbuxur eru nóg...

Kaflinn upp að brúnum jökuldalsins þar sem við tókum andann á lofti...

Litið til baka út dalinn...

Kyngimagnaðar brúnir og sérstaklega skemmtilegt að sjá nýjar hliðar á Öræfajökli og ganga um slóðir
sem við höfum aldrei séð hvorki tangur né tetur af áður...

Gönguleið dagsins blasti núna við... sjá jökulinn fallandi niður
og hlíðarnar vinstra megin þar sem við áttum eftir að fara til að komast á jökulinn...*
framhjá þessum bröttu ísveggjum þarna neðan við sandinn...

Leit ekki sérlega greiðfært út í fjarska...
og fallið niður og hyldýpið sem skapast við mætingu jökulsporðsins við grjótið ekki árennilegt að sjá...

En Jón Heiðar var búinn að fara könnunarleiðangur í fyrra með nemendur í fjallaleiðsögn
þar sem okkar ferð aflýstist þá vegna veðurs sem var með eindæmum slæmt í maí mánuði árið 2018
þar sem bókstaflega engin helgi var fær til göngu...

... öfugt við helgarnar í maí þetta árið 2019
þar sem hver einasta helgi var í lagi þannig séð... einmitt svona öfgar höfum við upplifað maí mánuð í gegnum árin...
annað hvort allar helgar í lagi eða engin.. en oft bara ein eða tvær helgar...
og þá er bara að vona að helgin sem maður valdi sé sú rétta...
en við höfum alltaf verið sérlega heppin með það val og aldrei aflýst jöklaferðinni okkar nema í fyrra...

Við gengum gegnum grýtið inn eftir og neðan okkar var snarbratt og djúpt gljúfrið
sem jökulvatnið hefur sorfið í gegnum árþúsundin...

Sjá hér fall jökulsins niður og hvernig hann hopar smám saman og skilur eftir sig djúpt gljúfur...

Þetta var í fínasta lagi til að byrja með...
gott grip og nóg af lausum jarðvegi til að fóta sig og lítill halli til að byrja með...

Strax búið að skipta í þrjú lið eftir línunum
þannig að hver leiðsögumaður bar ábyrgð á sínum hóp að gæta hans yfir þennan hliðarhalla...

Mike, Ingi, Maggi, Bára, Bjarni og Davíð hér.

Sjá leiðina hér... ætlunin var að fara inn grýtta hlíðina og lenda niður á jöklinum
og þræða sig upp hann í endanum og svo yfir sprungurnar ofar og upp miðjan jökulinn yfir þversprungurnar eins og það kæmu fyrir
en til vara að fara upp á Sandfellið þar sem er fært ofar vinstra (norðan) megin ef sprungurnar eru ófærar yfirferðar...

Maggi fann mörg hjörtu á leiðinni... þjálfari fann bara þetta hér... en það gaf orku og englavernd sem skipti miklu..

Mynd frá Magga... enn gott hald í jarðveginum og þá var þetta ekkert mál...
þessi kafli er í raun vel fær ef jarðvegurinn er gljúpur sem reyndist ekki vera ofar og innar...
og eins ef ekki hefði verið fyrir grjóthrunið sem fór fljótlega af stað og var ástæðan fyrir hjálmunum fyrst og fremst...

Hér jókst brattinn og hliðarhallinn...
og því miður var jarðvegurinn hér frosinn þannig að haldið varð ekkert...
eina leiðin til að fóta sig var að stíga varlega með skóna á grjótið og vona að maður rynni ekki...
og nýta hverja nibbu til að fá smá hald... þetta minnti á klettaklifur á köflum þar sem hver nibba nýttist...

Engar myndir teknar á þessum erfiðasta kafla...
og öllum leið illa en líklega voru Örn og Ingi þeir einu sem ekki skulfu að ráði...
en ekkert af okkur myndi vilja endurtaka þennan kafla og leiðsögumenn sögðu eftir á að þeir hefðu ekki farið með hópinn þessa leið
ef þeir hefðu vitað af þessu færi og þessu mikla grjóthruni á leiðinni... það var einfaldlega ekki aftur snúið þegar á hólminn var komið...
jafn flókið að snúa öllum hópnum við eins og að klára bara inn eftir þegar staðan var orðin svona þetta innarlega...

Það hrundi reglulega úr brekkunum fyrir ofan okkur...
aðallega litlu grjóti sem skipti litlu máli en hefði þó getað fibað menn og fellt...
stöku sinnum komu stærri grjót og okkur fannst þau ansi stór sum þegar við horfðum á þau rúlla
síðar um morguninn niður þessar brekkur og við þá hólpin og komin úr brekkunni sjálfri...

Það var engan veginn æskilegt né þægilegt að vera í þessu frosna hliðarhalla
að þvera langa hlíð með hyldýpið fyrir neðan og rúllandi grjót ofan við sig...
eitt var að reyna að vanda sig við að fóta sig yfir...
annað að þurfa að passa á sama tíma að ekkert rúllandi grjót færi á mann...

Eitt skiptið straukst grjót við bakpokann hans Bjarna og þá varð manni ekki um sel...
enda sneri Jón heiðar við og kippti einhverju af sínu fólki yfir og eins fékk kvenþjálfarinn hjálparhönd frá Mike...

Og svo rann Björgólfur niður smá kafla en gat fótað sig aftur upp... ath betur ! 

Við vorum guðs lifandi fegin þegar þessum hliðarhalla var lokið og við komin á grjótbrúnirnar ofan við jökulinn sjálfan...

Hér átti að lóðsa alla niður að jökliinum síðasta skriðukaflann og við mátum aðstæður ofan frá brúninni...

Fínasta leið... en það var ís undir grjótinu og því runnu menn ofan á því
og því var ákveðið að kaðla menn niður... Raggi, Örn og Ásdís (og fleiri ?) fóru samt niður við góðan leik þó hægfara væri...
hræðsluskjálftinn eftir þverunina hafði tekið svolítið hugrekki úr flestum
og því létu hinir sig ekki hafa þetta brölt og þáðu að vera lóðsaðir niður...

Eftir á hefði það líklega gengið vel þar sem við erum svo vön að brölta bratt niður erfiða kletta, skriður og grjót
en það var í raun ekki á það hættandi að einhver rynni af stað né að menn sendu grjót hver ofan á annan því allt var ísað undir...

Sjá brekkuna séð neðan frá... og ísinn undir grjótinu...

Þetta gekk vel þó einn færi bara í einu en bæði Jón Heiðar og Mike tóku alla í sitt hvorri línunni...

Mynd frá Magga neðan frá... (eða er þetta mynd frá Bjarna ? ) ATH !

Komin fjær, mynd tekin af fyrstu mönnum niður...

Þetta var léttara en áhorfðist og við þaulvön að klöngrast og fara bara á afturendanum ef brattinn er mikill
svo já... við hefðum í raun getað farið hér niður án kaðals líklega...

Hér komin neðar og laus úr kaðlinum og gátum klöngrast sjálf afganginn af leiðinni...

Litið til baka síðasta kaflann án kaðlanna...

Og sjá leiðina enn fjær og neðar...

Niður á jöklinum fóru allir í belti og línur... nú var jökullinn framundan... langa leið yfir ótal sprungur...
eða eins og Jón Heiðar orðaði það meðan við dæstum og jöfnuðum okkur á ísuðu þveruninni í grjóthruninu
sem áfram glumdi reglulega í fyrir framan okkur...
"þetta var bara byrjunin... erfiðu og krefjandi kaflarnir voru ekki nándar nærri búnir"...

Sólarvörn á alla... framundan var steikjandi sólin á endurgeislandi jöklinum...
Ingi hvarf bak við hvíta vörnina og varð hálf ógnvekjandi útlits svo við skellihlógum...
en þetta reyndist vera einhvers lags pasta-krem sem situr þykkt á húðinni... :-)

Fórum í stuttar línur til að byrja með og hengdum því hluta af línunni í beltið...

Sama röðin á línunum og í byrjun... Jón Heiðar fremstur, Mike í miðjunni og Ragnar Þór aftastur
en öruggari mann var ekki hægt að biðja um aftast... á sama hátt og öruggari mann var ekki hægt að hugsa sér fremstan...

Mike vorum við rétt að byrja að kynnast en hann var syngjandi glaður og gefandi persónuleiki sem fræddi okkur heilmikið á leiðinni
og var sjálfur himinlifandi með leiðina, aðstæðurnar og veðrið og minnti okkur reglulega á hversu lánsöm við værum...
það var ekki sjálfgefið að vera á þessum stað á þessum tíma... enginn nema við... veðrið fullkomið... og leiðin alger veisla...

Allir klárir... frábær félagsskapur í þessari ferð og allir vel undirbúnir...

Mike hér að næla aukalínunni í Davíð...

Fyrstu skrefin upp Kotárjökulinn sjálfan... þetta var ólýsanlega gaman...

Litið til baka... sjá láglendið fram að sjó fjærst... einstakur staður að vera á...

Hamraveggurinn sem kom áfram mikið við sögu í göngunni þar sem hann söng reglulega hástöfum af vaxandi grjóthruni
og svo ítrekuðum snjóflóðum ofar svo við margsinnis litum til hans og upplifðum náttúruna fara léttum hamförum fyrir framan okkur...

Við gengum upp í sólina og manni hlýnaði verulega um leið... einstakt veður og ómetanlegt að vera þarna...

Sjá brattann til að byrja með upp á jökulinn...

Sprungurnar lágu niður í mót í sömu átt og við gengum og við fórum yfir nokkrar strax
og þetta gaf tóninn fyrir það sem var framundan...
ekkert nema sprungusvæði upp á sjálfan tindinn í tæplega 2.000 m hæð...

Þetta minnti á köflum á evrópsku Alpana eins og allar glæsilegustu gönguleiðirnar gera í Öræfajöklil í raun...
reyndar mun minna í sniðum allt saman en sömu lögmál stórskorinna fjalla undan hopandi jöklunum...
og nú í algerlega framandi landslagi að því leyti að við vorum að líta á alla þessa tinda í fyrsta sinn í lífinu...

Hamraveggurinn ægifagur og minnti á veggina sem liggja kringum Skaftafellsjökul
þegar gengið er á Kristínartinda og Svínafellsjökul þegar gengið er á Hrútsfjallstinda...

Fossar rennandi niður... grjóthrun... snjóflóð... það var brjálað að gera í þessum hömrum...

Litið til baka frá fremstu línu...

Og upp hér frá miðlínunni...

Ofar þurftum við að þvera yfir sprungurnar til að komast yfir á miðju jökulsins
þar sem langi kaflinn hófst upp í dalinn neðan við tindinn...

Sprungurnar voru bókstaflega um allt...

Það var ekkert annað í stöðunni en að ganga rólega og klofa yfir þær allar... ekki í boði að hika mikið eða lokast...
þetta var aldrei að fara að takast nema allir væru öruggir og yfirvegaðir...

Kvenþjálfarinn búinn að vera andvaka á köflum og kvíðin vikum saman fyrir þessum sprungum
eftir fall ofan í eina í Ítölsku Ölpunum árið 2017... þetta var prófraunin...
annað hvort yrði þetta í lagi og þá ekki hafa áhyggur af þessu meira...
eða þetta yrði skelfing og þá myndi hún endanlega hætta þessum jöklaferðum...
sem betur fer endaði þetta í fyrri kostinum... en þannig fer það ekki alltaf hjá þeim sem lenda í þessu...

Hvílíkt landslag að ganga um... Mike benti okkur á að vera þakklát... þetta fengju fáir að upplifa...

Komin yfir þverkaflann á sprungunum og nú voru bara framundan heilu raðirnar af sprungum þvert á okkar leið...

Farin að fækka fötum all verulega... nú reyndi á að vera ekki með of mikinn farangur...

Þetta gekk vel til að byrja með... lítið um miklar sprungur og við klofuðum bara yfir saklausar öðru hvoru...

Vorum nokkuð fljót yfirferðar...

Færið mjög gott... ekki of þungt né blautt...

Sjá snjóflóðið í hlíðinni þarna ofar...
og sprungurnar allar þvert og aðrar mun opnari þannig að sést í vegginn á þeim...

Þetta var ógnarinnar landslag... það var eins gott að vera með fagmönnum hér og að allir vissu hvað þeir ætti að gera...
við gætum hæglega lokast hér inni og því var gott til þess að vita að Jón Heiðar fór þessa leið í fyrra og var með varaplönin á hreinu...

Stundum þurfti að beygja framhjá og breyta leiðinni til að sniðganga mjög opnar sprungur...

Sjá sprungusvæðið hægra megin við hópinn...

Dýrðarinnar dagur... algerlega fullkominn... eini kuldinn og vindurinn var uppi á tindinum...

Litið til baka... mjög fallegt landslag...

Öðru hvoru stoppað og drukkið og nærst og fækkað fötum eða broddar lagfærðir...

Jón Heiðar þurfti stundum svigrúm til að kanna aðstæður og færa leiðina eftir sprungusvæðum
og var mjög öruggur og yfirvegaður öllum stundum...

Skyndilega vorum við stopp og við vorum mislengi að átta okkur á hvað hafði gerst...

Svo sá maður að það vantaði einn í fremstu línuna... Agnar var horfinn af yfirborði jarðar...
allur horfinn og Kristín og Bjarnþóra lágu í snjónum og héldu í línuna...
já... þetta var fljótt að gerast... 

Smám saman fréttist þetta niður að þriðju línu og við vorum öll viðbúin því að toga hann upp en það kom í hlut miðjulínunnar
sem kom fyrst að og Mike hófst strax handa við að senda björgunarlínu niður til hans með karabínu sem hann átti að næla í beltið sitt og svo toguðum við hann upp í miðjulínunni og þeir sem voru sitthvoru megin við hann héldu einnig við...
þetta var einhverjum okkar aðeins tamt þar sem við höfum æft þetta nokkrum sinnum í tveimur námskeiðum með Jóni Heiðari og félögum
og því mjög áhugavert að sjá þessa aðferð virka vel í raunveruleikanum...

Mynd Agnars ofan í sprunginni !

Agnar hélt ró sinni og varð ekki hræddur þarna niðri sagði hann og tók meira að segja af sér sjálfumynd
sem leiðsögumennirnir í Chamonix hefðu reiðst svakalega yfir...  en okkar leiðsögumenn voru rólegir yfir þessu virtist manni
þegar það fréttist síðar að hann hefði tekið myndir... fór líklega um 3 metra niður ef maður miðað við fæturna...
og sprungan var ekki skorin hrein heldur snjóbrýr niðri líka og hann stóð á einni
en þorði ekkert að hreyfa sig af ótta við að hún myndi losna undan honum... sem var rétt metið miðað við reynslusögur annarra af því að falla ofan í sprungur og upplifa snjóbrýrnar hrynja undan þeim ofan í hyldýpið...

Þetta tókst með fleiri en einni tilraun... aðalmálið var að hann gæti komið sér upp gegnum snjóbrúnna...
og hann kom allur hvítur upp úr... sjá liggjandi mann á myndinni í fjarska...

Lexíurnar eftir á
(blandað reynslu kvenþjálfarans frá Ítalíu 2017):

Vera alltaf ágætlega klæddur í jöklagöngu því manni kólnar strax ofan í sprungu (hvergi bert hold - stuttbuxur/stuttermabolur).
Vera alltaf með vettlinga og gera ráð fyrir að geta ekki farið í bakpokann ef maður dettur ofan í sprungu.
Halda ró og yfirvegun þeir sem eru uppi og hafa meðvitað þau áhrif á hópinn því ótti er mjög smitandi.
Vinna saman sem einn maður og hlýða skipunum leiðsögumanna.
Það myndast gífurlegt tog á línurnar þegar fallið er ofan í sprungu, bæði fyrir viðkomandi og þá sem eru næstir honum sem og þá sem eru í björgunarlínunni. Þegar viðkomandi er dreginn upp þá togast allir í björgunarlínunni í beina línu og þannig gæti maður lent á sprungu sjálfur meðan á því stendur ef sprungusvæðið er þétt. Þetta höfðum við smá áhyggjur af en bjargaðist, en það var sérstakt að finna að maður togaðist milli þeirra sem voru sitt hvoru megin við mann og gat því ekki sniðgengið ákveðinn stað heldur skoppaðist í beina línu miðað við línuna.
Mjög gott að fara á sprungubjörgunarnámskeið reglulega ef menn eru að fara í krefjandi jöklaferðir á hverju ári
því þá lærast þessi vinnubrögð og verða manni töm þegar á reynir.
Það var mjög gaman að sjá þessi handtök öll þau sömu og þegar við lærðum hjá Jóni Heiðari
í þau tvö skipti sem hann hefur kennt hópnum þetta.
Fyrir þann sem fellur ofan í sprungu og hugsanlega þá sem standa honum næstir og svo aðra í hópnum, þá er hugsanlegt að orkutapið við þessa uppákomu sé heilmikið. Adrenalín flæðir um æðarnar og gefur mikla orku til að bregðast við hættuástandi, en þegar það er afstaðið eru menn oft orkutæmdir algerlega og því nauðsynlegt að þeir fái að nærast og drekka og jafna sig, og gæta þarf þess það sem eftir er ferðar að þeim líði vel og séu í lagi og ástandi til að klára ferðina. Hjölli datt ofan í víðsjárverða sprungu á Sveinstindi árið 2014 og fékk algert orkufall í kjölfarið sem dæmi og eins fann Bjarnþóra líklega verulega fyrir þessu þegar leið á uppgönguna í þessari ferð 2019.
O.m.fl.

Enginn ótti eða óöryggi greip um sig þegar Agnar datt ofan í sprunguna né þegar við drógum hann upp
og því héldum við fljótlega ótrauð áfram för og stefndum á þennan tind sem var markmið dagsins...

Jón Heiðar hér að fara fram úr okkur eftir að Mike tók forystuna á smá kafla...

Fljótlega eftir atvikið með Agnar lendum við á miklu sprungusvæði þar sem Jón Heiðar varð að finna betri leið yfir
og því fórum við í S-laga línum yfir... þ.e. samsíða sprungunum og menn þá sitt og hvað til að taka fallið ef einhver færi ofan í
tók þetta talsverðan tíma fyrir Jón Heiðar og þá sem á eftir komu að finna nægilega örugga leið yfir...

Sprungurnar lágu þannig á milli hvers manns og því var þetta ekki árennilegt og alls ekki heppilegt ef einhver hefði farið hér niður
þar sem ekki var mikið svigrúm til að toga hann upp í löngum samfelldum línum án þess að vera sjálf að þvera stórar sprungur...


Mynd frá Magga (eða Bjarna ?).

Maggi og Bjarni voru duglegir að taka myndir þegar farið var yfir sprungurnar
en kvenþjálfarinn þorði ekki fyrir sitt litla líf að stoppa og smella af þegar farið var yfir...


Mynd frá Magga (eða Bjarna ?).

 


Mynd frá Magga (eða Bjarna ?).

 

Þetta leit ekki vel út...

Hvernig þorðu þeir að smella af... ? :-)

Svona var landslagið...

Eftir heilmikið sprungubrölt komumst við á öruggara svæði og gátum aðeins gengið í friði...

Matarpása með tindinn í seilingarfjarlægð að manni fannst... l
Leiðsögumenn drógu hring í kringum okkur sem þeir voru búnir að tryggja að væri sprungulaus og utan hans mátti ekki stíga...

Jón Heiðar og Ásdís... frábært par og mjög gaman að kynnast Ásdísi eftir heilmikil tölvupóstsamskipti gegnum árin :-)

Jón Heiðar giskaði á 2,5 - 3 klst. í tindinn gegnum það sprungusvæði sem var eftir
og manni fannst það ansi svartsýnt miðað við nálægðina við tindinn sem gnæfði yfir okkur...
 en hann reyndist hafa rétt fyrir sér... þetta tók ótrúlegan tíma þó manni fyndist við vera stanslaust að...

Jón Heiðar bauð okkur að fara upp á Sandfellið sem er hér í baksýn sem varaplan og fara þaðan upp á tindinn
en það væri ekki einföld leið frekar en það sem væri framundan
Ástæðan var sú að það væri hugsanlegt að við kæmumst ekki upp á tindinn vegna stórrar sprungu
sem liggur þvert undir tindinum eftir allir öskjubrúninni
og þá myndi bíða okkar að snúa við og fara Sandfellið til baka án þess að ná tindinum því þá væri tíminn útrunninn...
en við vildum frekar taka þennan sjens heldur en að fara Sandfellsleiðina efst því okkur fannst það ekki spennandi...

Það yrði alltaf ævintýri að fara þessa leið þó tindurinn kæmist ekki í safnið
þar sem hann er auðgenginn frá Sandfellinu einhvern tíma síðar...
Nú var bara að vona að þessi sprunga þarna efst væri í lagi...

Ekki minnkaði hitinn ofar... veðrið á jökli er sérstakt og reynir öðruvísi á en á öðrum fjöllum...
steikjandi hiti, oftast alger lognmolla og mikið endurkast af jöklinum...

Sjá sprungurnar undir tindinum...

Rótarfjallshnúkurinn sjálfur varinn sprungum á alla vegu nema frá öskjunni sjálfri...
svo stór og mikill að hann virtist alltaf rétt framundan...

Þessi kafli var bestur af allri leiðinni hvað varðar greiðfærni og því komumst við vel áleiðis hér
en leiðin var mun betri en leiðsögumennirnir áttu von á eftir það sem á undan var gengið og léttirinn var áþreifanlegur...

Leiðin orðin það saklaus og sprungulaus að Jón Heiðar og Mike gengu samsíða
og því gátum við í fyrsta sinn á jöklinum aðeins spjallað við næsta mann..

Stoppað öðru hvoru til að drekka og laga búnað...

... og bera á sig sólarvörn...

Komin nokkurn veginn við hliðina á honum...

Alsæla... að ganga svona í góðu færi á fannhvítum snjó með bláan himininn ofan okkar...

Sjá Sandfellið í baksýn... og sprungurnar neðan við Rótarfjallshnúkinn...

Tindurinn fallegur séður héðan... suðaustan megin...

Undanfararnir tveir... Jón Heiðar og Örn... sallarólegir alltaf hreint... og í toppformi báðir tveir alltaf hreint...

Hinir töffararnir... allir í góðum gír og góðu standi...

Það reynir meira á en ella þegar sólin skín svona skært...
hitinn og svitinn veldur miklu vökvatapi og mikilvægt að drekka vel...

Blautir bolir... rennblautt hár... rakir skór... þetta var auðvitað bara yndislegt í 1,5 kílómetra hæð eða svo...

Nú var að vona að stóra sprungan á öskjubarminum yrði til friðs... við trúðum ekki öðru...
annars yrðum við að snúa við og fara flókna og sprungna leið yfir á Sandfellið og þaðan tindalaus til baka niður...
leið sem Jón Heiðar var búinn að sýna okkur og var ekki spennandi því hún fól í sér heilmikla erfiðleika líka
og það án þess að ná tindi dagsins...

Bjarnþóra lenti í smá orkuskorti og broddarnir ullu henni miklum vandræðum... losnuðu af skónum svo lagfæra þurfti þá báða...
hún kvartaði aldrei og bað ósköp pent um að fá smá pásu til að laga þetta eða drekka þegar hitinn varð um of...
og lét sig á köflum hafa það að ganga í þeim lausum og skökkum þegar búið var að losa pásu eftir 5 mínútur sem hún vildi þá ekki færa til...
aðdáunarvert hvernig hún bar sig þrátt fyrir þessi vandræði og algert met í yfirvegun og hógværð hvað þetta varðar...

Vestari Hnappur kom smám saman í ljós við sjóndeildarhring...

Þetta minnti á sýnina á hann árið 2014 þar sem við ætluðu á alla tinda Öræfajökuls
en enduðum á að ná þremur hæstu tindum landsins þar sem kolsprungið landslag, tafir og lítið skyggni sneiddi af okkur minni tindunum...
erfiðasta ferð Toppfara frá upphafi... menn komu hálf grátandi niður eftir rúmlega 20 km göngu
en við erum enn að rifja hana upp með stjörnur í augum...

Vestari Hnappur er eini tindurinn sem við eigum eftir á öskju Öræfajökuls...
búin með Dyrhamar 2017 sem trónir á toppnum sem besta jöklaferðin frá upphafi...
Hvannadalshnúk þvisvar (2010, 2014 og 2017 (aukaferð án þjálfara) + tvær tilraunir áður, 2008 og 2009),
Snæbreið 2014, Sveinstind 2014 og 2016, Sveinsgnípu 2016 og svo núna Rótarfjallshnúk 2019...
og því eru Hnapparnir báðir einir eftir en sá Eystri er ekki genginn og líklegast ókleifur almennt...

Þetta var alveg að koma... tindurinn í sjónmáli og nánast seilingarfjarlægð... og við komin ansi hátt yfir Íslandi...

Raggi að aðstoða Bjarnþóru sem var mögnuð í þessari ferð sem fyrr segir
eins og Sigríður Lár sem var enn með hendina í spelku eftir aðgerð á fingri...
ofurkonur báðar tvær og með hugarfarið sem þarf í svona ferðir... jákvæðni, elju, þrautsegju og yfirvegun...
öðruvísi er þetta ekki gerlegt þegar verulega á reynir...

Nú var stutt eftir og eingöngu ein sprunga skildi okkur að frá tindinum...

Við vorum komin ansi nálægt leiðinni sem við fórum í 3ja tinda leiðinni árið 2014
þar sem við börðumst við sprungurnar tímunum saman eins og í dag...

Sjá hér skörunina á einum stað ofarlega við brúnina:

Rauða slóðin er 3ja tinda leiðin 2014 og gula er slóðin þennan dag 2019
Þær skarast á einum stað rétt við Rótarfjallshnúkinn.

Leiðsögumenn könnuðu sprunguna efst á meðan við spjölluðum þar sem þrjár línur sköruðust...

Tindurinn minnti á aðra jökultinda... helfrosna kletta sem verða snjólausir þegar líður á sumarið...
eins og Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull, Dyrhamarinn ...

Sprungan reyndist vel fær... og svo frosin að hluta að Jón Heiðar lét taka mynd af sér ofan á snjóbrúnni...
hann var dauðfeginn því þar með lauk síðustu alvöru hindrun þessarar flóknu leiðar upp á Rótarfjallshnúk
um skriðjökulinn Kotárjökul... vel af sér vikið...

Við vorum líka dauðfegin... langaði ekkert að snúa við og fara Sandfellið án þess að toppa þennan flotta klett...

Raggi var aftastur og gætti síðasta manns og var tilbúinn til sprungubjörgunar fremri manna...

Sjá tindinn og sprungurnar neðar...

Það var annað hvort að fara snjóbrúnna með því að stíga nokkur skref upp og treysta því að snjóbrúin myndi halda...
eða hoppa yfir sprunguna og lenda á hnjánum...
menn gerðu sitt og hvað og gekk vel hjá öllum enda allir komnir í ansi mikinn sprungugír eftir þessa klukkkutíma upp jökulinn :-)

Komin á tindinn... við fögnuðum mikið og vorum óskaplega þakklát og fegin...

Mögnuð sýn af hópnum að koma upp með Vestari Hnapp í baksýn...

Hér fóru allir úr línum og gátu um frjálst höfuð strokið uppi á tindinum...

Vestari Hnappur verður tindurinn í byrjun maí 2020...
vonandi í betri mætingu en í þessa ferð...
sorglega fáir í raun miðað við hvað við æfum mikið og erum vön sem hópur almennt...

Á Rótarfjallshnúknum sjálfum var helkuldi... vindur og ískalt... en útsýnið var á heimsmælikvarða...

Hér til Skeiðarárjökuls og fjallanna inn að Kjós þar sem Þumall og Miðfellstindur rísa hæstir...

Dyrhamarinn og Hvannadalshnúkurinn... í skýjunum því miður fyrir þá fáu sem þar voru þennan dag...
bara einn fjallaskíðahópur á vegum FÍ sýndist okkur...
vonandi voru þau ekki akkúrat þarna uppi í skýjunum...
og enginn gönguhópur að því er við best vissum sem er ótrúlegt eftir örtröðina síðustu ár á hnúknum...

Sveinstindur og Sveinsgnípa...

Skúli Júlíusson og félagar voru á fjallaskíðum á Sveinstindi
og að sögn Áslaugar þá sáu þau okkur á okkar hnúk en það var sama hvað við mændu, við sáum þau ekki hinum megin...
en þau enduðu á að sleppa Sveinstindinum sjálfum þar sem hann var of sprunginn og sneru við en náðu samt Sveinsgnípu...

Allir að skila sér inn með Vestari Hnapp í baksýn... mikill léttir og feginleikur með þennan dýrmæta áfanga...

Sjá hópinn þegar gengið var upp á Rótarfjallshnúkinn...

Sjá afstöðuna...

Útsýnið niður uppgönguleiðina og til sjávar...

Hluti af tindinum... og Kotárjökull fyrir neðan...

Útsýnið til vesturs að Lómagnúp og í átt til Reykjavíkur í raun...

Dyrhamar, Hvannadalshnúkur og Snæbreið í skýjunum en hún var eins og Skjaldbreið... ávöl askja...

Flottur tindur hann Rótarfjallshnúkur...

Aðeins nær... þorði ekki lengra út á brúnina...

Sprungusvæðið neðan við hann og Sandfellið hægra megin og leiðin okkar upp beint hér neðan við fjær...

Leiðin okkar niður hægra megin og svo lent á miðri Sandfellsleiðinni...

Enn ein myndin af Vestari Hnapp...

Við gáfum okkur góða stund hér uppi...

Allir að tínast upp til að njóta afrakstursins...

Teknar myndir af öllum og nokkrar fyrir félagartalið...

Knúsast og fagnað og óskað til hamingju og þakkað fyrir...

Einstök stund...

Þjálfararnir hæstánægðir með þennan áfanga...

Það var eins gott að taka myndir því þessa leið förum við ekki aftur...

Efri: Ásdís, Maggi, Björgólfur, Gunnar Viðar, Georg, Birgir, Davíð, Ingi, Jón Heiðar og Bára.
Neðri: Mike, Bjarnþóra, Sigríður Lár., Bjarni, Örn, Raggi og Agnar en Kristín tók mynd.

Enn meiri ský á Hvannadalshnúknum... við sáum hann auðan öðru hvoru en náði ekki mynd af því...

Nú var ráð að koma sér niður.. við vorum 8 klst upp...
eyddum hálftíma á tindinum og vorum 2,5 klst. niður... ansi vel af sér vikið...

Leiðin niður var farin í algerri afslöppun... hættulítil og einföld leið... loksins...
taugarnar enda búnar að fá nóg af útreikningum með hvernig skyldi hoppað yfir hina og þessa sprunguna...

Askja Öræfajökuls útbreidd og mjög skemmtileg sýn á hana frá Rótarfjallshnúknum...
sjá Snæbreið hér flata en fagurmótaða...

Litið til baka á Rótarfjallshnúkinn...

Fallegri sýn þegar fjær var komið... mögnuð mynd frá Erni...
ljósgeisli eins og blessun af himni ofan á tindinn sjálfan...

Hnúkurinn orðinn skýlaus að mestu...

Að sögn fjallaskíðamanna FÍ var ekki gerlegt að skíða niður hnúkinn þennan dag og þau voru í vandræðum á leið niður...
enda nokkuð á eftir okkur þó þau legðu hálftíma fyrr af stað of fóru þessa einföldu leið upp og niður
sem segir margt um hversu tímafrekur burðurinn er þó menn vinni sér inn mikinn tíma með því að skíða
en að sögn fjallaskíðamanna er það þess virði...

Sandfellsleiðin í fjarska vinstra megin en við fórum ekki inn á hana fyrr en mun neðar heldur snerum fyrr niður...

Litið til baka... hamrar Rótarfjallshnúks sjást hér aðeins...

Það var farið geyst niður...

... en Jón Heiðar varð samt að gæta að öryggi og ganga úr skugga með allar sprungur...

Tindurinn séður neðar og frá norðri...

Já... Jón Heiðar nýtur blessunar að ofan án efa... :-)

Rótarfjallshnúksfarar með tindinn sinn... ógleymanlegur áfangi...

Brátt komum við inn á Sandfellsleiðina...
það var meiriháttar að fara þessa leið og upplifa öræfajökulinn frá allt annarri hlið en áður...

Dyrhamarinn... þarna vorum við fyrir tveimur árum... ótrúlegt... sú ferð trónir efst...
og fleiri... það er erfitt að meta þetta...

Takk Rótarfjallshnúkur.... virðing alla leið fyrir þér...
þú átt hana meira skilið en svo að vera svona við hliðina á Sandfellsleiðinni sem segir ekkert um hvers lags dýrgripur þú ert...

Sjá Sandfellsleiðina úttroðna af skíðum fyrst og fremst...

Besta færið nokkurn tíma á jökli... engin snjóbráð... engin snjósósa... þetta var með ólíkindum...

Línuklettur eða Kaffi klettur... allir úr línum hér og smá áning...

Krummi búinn að komast á bragðið með hangiket og fleira frá göngumönnum í 700 ? (ath!) m hæð eða svo...

Við sáum ennþá tind dagsins... trónandi þarna hægra megin...

Gott að komast úr línu og geta sest og borðað og létt á sér...

Orðið skýjaðra skyndilega en svo hvarf það aftur...

Hjarta sem Maggi fann... hann var ötull hjartafinnari í þessari ferð...

Mike, Raggi og Jón Heiðar... afreksmenn dagsins... aðdáunarverðir drengir
sem enn og aftur gefa okkur ferð í algerum sérflokki sem fátítt og einstakt er að upplifa...
án þeirra hefðum við aldrei upplifað að fara þessa ósnortnu leið sem við varðveitum alla tíð...

Ásdís sem sér um skrifstofuna meðan strákarnir eru úti á vettvangi... það birti nú smá til við að fá hana á myndina :-)
Alltaf gott að hafa bæði kynin... dýnamíkin eykst og öfgar eða skuggar hvors kyns minnka
og kostirnir kallast fram og kristallast betur... já, kynin kalla það besta fram í hvort öðru svona almennt...

Nú gátum við loksins um frjálst höfuð strokið hvert og eitt með eigin gönguhraða
og því gerðist það sem alltaf gerist á þessum tímapunkti...
menn fara á eigin hraða og vel dreifist úr hópnum alla leið niður í bílana...

Yndislegt að geta straujað eftir getu og spjallað óðamála við næsta mann...

Litið til baka... enn á snjó sem var hagstætt fyrir skíðamennina...

En hér tók grjótið við og þeir urðu að pakka skíðunum á bakið...
og þar með drógust þeir klukkutíma aftur úr fremstu gangandi mönnum í okkar hópi...
 skelfing að bera þetta allt saman á bakinu niður allt Sandfellið... það verður einfaldlega að segjast eins og er...
alveg spurning hvort það borgi sig á móti sparnaðinum við að ganga snjóinn... jú... kannski... þeir segja það og maður trúir þeim...
en efast samt pínu... sérstaklega þegar þeir skiluðu sér niður í grasið með hárið út í loftið af pirringi út í skíðin á bakinu...

Við hins vegar skottuðumst niður grjót og skriður og vorum ekki lengi...

Áfram sama blíðan og orðið ansi hlýtt neðar...

Falleg leið á niðurleið... það verður ekki af Sandfellinu tekið sama hvað menn segja...

Magnað hversu sterkir göngumenn eru í þessum klúbbi þar sem aldurinn segir ekkert um getu og úthald...
þetta snýst greinlega allt um vilja og áhuga á að halda sér í góðu formi... ekkert um aldur eða fyrri störf...

Bílarnir í sjónmáli og grasið til að viðra tærnar og ískaldur á kantinum...

Stundum höfum við skilið eftir kalda hér...
en nú fórum við ekki hér upp svo það var ekkert nema heitir drykkir í bílunum...

Komin niður á 11:58 klst eftir 20,1 km sem mældist allt upp í 24,5 km á sumum tækjum og því reiknuðum við út 21,5 km...
klukkan bara hálf sex... þetta var ótrúlegur tími eftir jafn krefjandi og flókinn dag...

Best af öllu var að fara úr skónum og snerta grasið með iljunum...

Við drifum okkur svo að ná í bílana meðan hinir tíndust inn smám saman...
og þá blasti þessi sýn við... leiðin okkar upp þennan skriðjökul á þennan tind... ótrúlegt...

Að dreif erlenda ferðamenn sem voru að spá í leiðinni þarna upp
og átti hálf bágt með að trúa því að þetta væri meira en að segja það að fara um þetta landslag...

Við gátum séð förin eftir okkur upp jökulinn... var eins og smá strik í snjónum upp slétta kaflann...
sést illa á þessari mynd en sást vel með augunum...

Hér sést hversu langur kaflinn er þegar komið er upp fyrstu brekkuna á jöklinum sjálfum...
þ. e. kaflinn undir hnúknum sjálfum...

Nú var hægt að ná í ölið... Gunnar Viðar kom með kassa af bjór fyrir allt liðið
sem var vel í lagt og afskaplega vel þegið...

Aftur var sest í grasið og hvílst með einn volgan og ferðin viðruð...

Stelpurnar deildu einni lítilli dós... og það var nóg... þrjár konur í þessari ferð utan Ásdísar...
og ellefu karlmenn auk 3ja karlkyns leiðsögumanna eða 4 konur í 18 manna hópi alls...
vel af sér vikið en ef þær stöllur hefðu ekki skellt sér hefði Bára verið ein með Ásdísi...
það hefði nú ekki verið gott afspurnar fyrir Toppfara sem alltaf hafa státað af miklum ofurkonum...
Hvar eru þið stelpur ?
 ... eru breyttir tímar og minna um fólk og ofurkonur sem þorir og nennir að leggja á sig erfiðar ferði ?
... eða hvað er málið ?

Dásamlegir drengir og félagar á fjöllum...

Takk Gunnar !

Gunnar var í lokaundirbúningi fyrir Kaupmannahafnarmaraþonið og þessi ganga var liður í þeim undirbúningi
en hann hljóp svo 42,2 km þann 23. maí... sem var ansi vel af sér vikið...

Snillingar og frábærir félagar þessir menn...

Björgólfur, Ásdís og Jón Heiðar en Björgólfur var í sinni fyrstu ferð með Toppförum og skráði sig rétt fyrir ferðina
en hann er reynslumikill göngumaður og leiðsögumaður hjá Útivist...

Við knúsuðum leiðsögumennina okkar sem aldrei fyrr eftir þennan dag
og eigum þeim ævilangar þakkir skildar fyrir þessa ferð sem og hinar allar...

Smá áhyggjur af þeim í akstri heim en þau lofuðu að keyra varlega...

Fjallasýnin á Hvannadalshnúk beint ofan við ána og svo Rótarfjallshnúk hægra megin
var stórfengleg... þarna vorum við... og þarna höfum við oft verið... alls kyns leiðir upp og niður...

Hrútsfjallstindar rétt náðu svo að vinka líka áður en við keyrðum inn Svínafellið...
og við hugsuðum til Birgis sem þarna fer upp næstu helgi með Skúla Júl...
það verður annað eins ævintýri ef vel heppnast með veður því leiðin sú er alger veisla..

En því miður var ekki gott veður né skyggni þegar þeir fóru... mun verra en spáin sagði til um
og minnti okkur öll á að það er ekkert sjálfgefið í þessu...

Agnar fór þessa sömu helgi... þ. e. vikuna á eftir þessari ferð, á Þverártindsegg með Haraldi Erni
og þau fengu sól og skyggni og algerlega ógleymanlega ferð... já, þeir eru magnaðir þessir jökladagar í maí...

Maggi bauð upp á sjúss af íslensku brennivíni þegar menn voru búnir í sturtu...

Það beit ekkert á okkur...
við vorum svo hátt uppi eftir gönguna að það var varla hægt að finna á sér fyrir vikið :-)

Frárennslismálin fóru í viðgerð í Svínafelli þar sem salernin stífluðust en þessu var kippti í lag á sunnudeginum
en þýddi að við þurftum að brölta upp í útisalernin ofar í brekkunni um nóttina...
en æji, það var bara frískandi :-)

Allir með sitt á grillið og meðlæti með... ekkert flókið og langbesta fyrirkomulagið
því þannig sparast tími, peningar og sóun minnkar... það er okkar reynsla...

... og allir grilla og borða þegar hentar og þeir eru tilbúnir...

En þessi stund fyrir mat... hefur aldrei verið svona löng og ljúf...
við sátum í blíðri kvöldsólinni og nutum þess að viðra ferðina í tæpa tvo tíma...
aldrei haft svona langan tíma til þess atarna... yndislegt...

Líklega endaði þessi helgi á að vera hlýrri en helgarnar á eftir í maí...
því það varð ótrúlega kalt síðar í mánuðinum og heimskautaloft lét um landið út mánuðinn meira og minna
þó það væri sólríkt vikum saman á sunnanverðu landinu...

Því miður náðist ekki mynd af stelpunum og fleirum sitja hér í sólinni að njóta... mynd óskast...

En það var grínast með það að skýringin á þessari brotnu rúðu í húsinu
væru að strákarnir hefðu reynt að brjótast inn í kvennaskemmuna...

Olgeir keyrði si svona úr Reykjavík alla leið í Skaftafell til að vera með okkur um kvöldið og fagna áfanganum...
honum var vel fagnað af Sigríði sinni og þau nutu lífsins á leið í bæinn daginn eftir og fóru á virkilega fallega staði...

Örn, Gunnar Viðar, Bjarni, Birgir, Davíð, Ingi og Bára.

Sigríður Lár., Olgeir, Bjarnþóra, Georg, Maggi, Agnar og Bjarnþóra...
vantar Björgólf sem svaf yfir sig eftir sturtuna en mætti í matinn í seinna laginu :-)

Mergjað að sitja og borða saman og spjalla um daginn og fortíð og framtíð...
matsalurinn í Svínafelli er einstakur staður og í raun synd að það skuli ekki fleiri nýta sér þessa aðstöðu...

Þjálfarar þurftu að vera mættir á lokaleik Íslandsmeistarmóts í körfubolta hjá yngsta syninum
en þeir misstu af fyrri umferðinni á laugardeginum og vildu ekki missa af þeirri seinni á sunnudeginum
og fóru því snemma í bæinn eða kl. 8:00...
og sáu ekki eftir því þar sem sonurinn hampaði Íslandsmeistaratitlinum þriðja árið í röð
og þar með urðu hann og félagar hans fæddir 2005 í Fjölni sigursælasta körfuboltaliðið í sögu Fjölnis... (ath betur!)...

Fjallasýnin áfram kyngimögnuð og nú sáust Hrútsfjallstindarnir betur...
en þeir eru allra fegurstir af tindum Öræfajökulsins... og verða án efa gengnir aftur innan fárra ára í klúbbnum
enda kominn tími á að endurtaka göngu á þá og ná þá fleiri en þessum hæsta...

Kristínartindar og Skarðatindur... Miðfellstindur og Þumall...
stórkostlegir fjallatindar sem gleyma okkur aldrei... eða réttara sagt... við gleymum aldrei...

Auðmýkt og þakklæti stendur upp úr eftir þessa ferð...
eðal göngufélagar sem áttu skilið og nutu uppskerunnar í einlægri gleði og geislandi brosi...


Mike, Ragnar þór Þrastarson og Jón Heiðar Andrésson hjá www.asgardbeyond.is

... og aðdáunarverðir fjallaleiðsögumenn sem enn og aftur sýndu okkur hvers þeir eru megnugir
og hve framúrskarandi þeir eru á allan hátt...


Eitt af nokkrum hjörtum sem Maggi fann í ferðinni...

Ógleymanlegt... ómetanlegt... og einstakt ævintýri
sem fer í sérflokkinn og mun ávalt standa upp úr sem ein af okkar allra bestu ferðum Toppfara frá upphafi...

Sögulegt með meiru... ferðasagan er í vinnslu og verður ómetanleg aflestrar með tímanum :-)

Myndband af ferðinni hér: https://www.youtube.com/watch?v=8EhoZMGRVQ8

Gps-slóðin á Wikiloc:
https://www.wikiloc.com/mountaineering-trails/kotarjokull-upp-a-rotarfjallshnuk-oraefajokli-040519-36986969


Takk öll fyrir frábæra frammistöðu
og sérlega skemmtilega og gefandi samveru !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir