Tindferð 158
Lómagnúpur við Skeiðarárjökul
laugardaginn 21. júlí 2018
í 2ja daga ferð í Skaftafell
þar sem gengið var á Kristínartinda frá tjaldstæðinu daginn eftir
- sjá sértindferðasögu á þá tinda í tindferð 159 hér -

Lómagnúpur
í blankalogni og mývarg
funheitu veðri en rigningardumgungi uppi

Í sárabætur fyrir aflýsta 3ja daga gönguferð norður á Strandir vegna rigningar alla dagana
helgina 21. júlí var tekin skyndiákvörðun um að skella sér á suðausturhluta landsins
þar sem eina skaplega gönguveðrið var...
og freista þess að ganga á Kristínartinda í Skaftafelli og á Lómagnúp...
... sem gáfu okkur blanklalogn og mun hlýrra veður en í allt sumar í höfuðborginni...
þó reyndar væri rigningardumbungur ofan á Lómagnúp...
Kyngimögnuð fegurð í báðum göngum og algerlega ógleymanleg ferð...

----------------------------------------------

Þetta er sagan af Lómagnúpsgöngunni fyrri dag ferðarinnar... laugardaginn 21. júlí...

Lagt var af stað klukkan sex um morguninn frá Reykjavík... í rigningu alla leiðina nánast... þarna efuðumst við ekki um þá ákvörðun að hafa breytt strandagöngunni í 2ja daga fjallgöngu með aðgang að öllu dótinu sínu í bílnum... hefðum ekki viljað vera í tjaldi norður á ströndum með ótrygga möguleika á að fá bát til að sækja okkur hvenær sem er... hugsanlega með illfærar eða ófærar ár til að vaða... en ákvörðunin var erfið þar sem mikill undirbúningur og tilhlökkun hafði verið innan hópsins vikurnar og mánuðina á undan... Drangaskörð og Hvalá með fossunum sínum Drynjandi og Rjúkandi... bara þessi nöfn fá mann til að langa að skoða þá...

En... svona var nefnilega spáin fyrir Strandirnar þessa þrjá daga sem við ætluðum að ganga:

... já, spáð úrhellisrigningu á föstudeginum og rigningu meira og minna um allt land alla þessa helgi
en smá glæta á að sól og úrkomulaust yrði á suðausturlandi... jafnvel von um sól og heiðskíru þar á sunnudeginum...
og þetta rættist...

Það var ekki fyrr en við komum á Kirkjubæjarklaustur að rigningin hætti...
dumbungurinn var meira að segja ennþá á Vík... og við vorum úrkula vonar...

... en fallegar morgunmyndir af Lómagnúp frá Birgi inn á Toppfarahópinn á fb gladdi hjartað...
vorum við virkilega að fara í þessa sól sem þarna var ?

Lómagnúpur geislaði um morguninn en fékk reyndar svo á sig skýjahuluna þegar á leið...
enn eitt dæmið um að nóttin og morguninn er oft besti tíminn til að vera upp á fjallstindi...

Þjálfarar höfðu ekki mikinn tíma til að undirbúa sig fyrir tvær göngur á fjöll sem þeir höfðu aldrei gengið á áður...
því eftir að hafa legið yfir leiðum, vöðum, flóðatöflum og fréttum af Ströndum...
var skyndilega verið að pakka fyrir allt öðruvísi ferð...
og verið að ganga á allt öðruvísi slóðum en meðfram sjónum vestur á fjörðum...

Kortið af Skaftafelli er ansi mikið notað síðustu árin enda höfum við þrætt tindana þar...
... og árbók Ferðafélags Íslands frá 1993 eftir Hjörleif Guttormsson er alger veisla
en þar mátti lesa um báða tindana...

... en við náðum reyndar bara að lesa okkur til um Lómagnúp og nálægð hans við Núpsstaðaskóg...
en þar leika árnar Núpsá og Súlá stórt hlutverk í aðkomu að skóginum og Lómagnúp
og við vissum ekkert hvernig þessi jeppaslóði væri inn með fjallinu að austan...

Við nutum góðs af gps-slóð frá Ragnari Antoníussyni frá Wikiloc af Lómagnúp
og frá Leifi Hákonarsyni af Kristínartindum
en Leifur er sá sem við höfum oftast stuðst við öll árin með Toppfara
og Ragnar sá næst oftasti en fyrstu árin í klúbbnum var oft ekkert að lesa á veraldarvefnum
um sum fjöllin nema frá þessum tveimur mönnum...

Takk Leifur og Ragnar... við þekkjum ykkur ekkert... en mjög gaman að fá að feta í fótspor ykkar í gegnum tíðina...
þessar tvær fjallgöngur helgarinnar hefðu verið mun erfiðari fyrir okkur að skipuleggja
ef við hefðum ekki haft gps-slóðirnar ykkar til að styðjast við þegar efast var um leiðarval :-)

Þegar komið var að Lómagnúp um 9:30 leytið eftir styttri akstur en áætlaður var frá borginni (4 klst.)
var hann í skýjunum... en Kristínartindar fjær stungust upp úr jöklinum í fjarska og voru löngu vaknaðar
(sjá þær rétt hægra megin við Lómagnúp, hvassari Skarðatindur og svo lægri tvíhnúka Kristínartindar).

En við horfðum á skýin lyftast af Lómagnúp meðan við keyrðum að honum og meðfram honum...

Ótrúlegt að sjá þetta... þegar að honum var komið var hann skýlaus á brúninni...
þá hefðum við þurft að vera þarna uppi...

Þar sem þjálfarar voru mjög tímanlega... mæting var kl. 10:00 við fjallsrætur Lómagnúps og klukkan var 9:30
ákváðu þeir að keyra inn eftir honum og kanna veginn... hversu langt kæmumst við ?

Vegurinn var í skínandi góðu lagi... fólksbílafær ef lítið er í lækjunum þarna...
og Núpsáin austar og aldrei að ógna veginum enda varnargarðar á leiðinni sem við ókum stundum upp á...

Í fjarska glitraði Öræfajökull og Vatnajökull...
Skaftafellsfjöll... Kristínartindar... Skarðatindur... Hvannadalshnúkur... Hrútsfjallstindar... Rótarfjallshnúkur...

Inn frá var blankalogn, steikjandi hiti og mý um allt... þetta var dásamlegt veður...

Sólin skein og fjallið var tilbúið... Jón og Arngrímur og Björn og Svavar komu keyrandi á eftir okkur
en það vantaði helming hópsins svo við keyrðum til baka og sóttum þau við fjallsendann í suðri...

Þar beið Agnar á útilegubílnum sínum þar sem fjórir geta sofið... tær snilld...

Sigga Sig og Heimir mætt... sem og Birgir og Helga Björk...

Þá var að keyra aftur inn eftir...

... um 5 km aðra leið meðfram Lómagnúp til norðurs að upphafsstað göngunnar
þar sem Núpsáin sker sig alveg að fjallinu...
bara að keyra þarna inn eftir var ævintýri út af fyrir sig og mjög skemmtileg upplifun...

Bílunum var lagt við Núpsá í mikilli veðurblíðu og hlýjindum sem aldrei hafa komið í Reykjavík í sumar...
um 16 stiga hiti og blankalogn...

Við gengum meðfram ánni á grjótinu til að byrja með og áttum að fara upp í kjarrið í hlíðarnar hérna...
en gerðum það ekki... heldur héldum okkur við ána inn eftir...
g fengum það því óþvegið í bröttum brekkunum innar...

Notaleg byrjun á göngunni og allir himinlifandi og óendanlega þakklátir með veðrið...
"Pant ekki vera í bauti ltjaldi núna í rigningu og þoku norður á ströndum"...

Brátt brattnaði árbakkinn og við fórum að klöngrast í grjótinu...

... þar til engin önnur leið var möguleg en að hækka sig í bröttum hliðarhalla upp í hlíðarnar...

Ekki teknar myndir á verstu köflunum og EKKI hægt að mæla með þessari leið...
það er stígur gegnum þykkt kjarrið ofar í hlíðunum sem við fórum í bakaleiðinni sem er mun betri...

Þetta var dæmigerð leið að hætti Toppfarahússins en ekki æskileg þarna
því ef maður hefði dottið eða runnið þá var það bara hylurinn í Núpsá sem tók á móti manni...
ekki besta byrjunin á langri göngu að lenda þar og þurfa að fljóta sig upp á bakka einhvers staðar...

En... við vorum til í allt í þessu blíðskaparveðri og nutum hvers skrefs þarna upp
og án efa ekki allir sammála kvenþjálfararnum með hversu varasöm þessi leið var
hún er að verða fullmikið varkár kannski með aldrinum... :-)

Súlutindar lengst til vinstri þessir hvössu... byrjunin á Núpsstaðaskóg... og Súlujökull sem gefur af sér Súlá að renna niður sem vestasti hluti af Skeiðarárjökli... og Núpsáin hér neðan okkar... en ef Súláin sameinast Núpsáin ofarlega þarf að fara yfir þær báðar á leið í Núpsstaðaskóg og þá er yfirferðin sérlega varasöm enda mæla menn ekki með akstri hér yfir nema fleirbíla og á stórum bílum með vana bílstjóra... þar sem mörg alvarleg óhöpp hafa orðið hér...

Þeim mun sætara var því að fara þessa leið að hún var krefjandi...
allir mættir voru í banastuði...

Ofan árinnar tók við hliðarhalli út að Seldalsöxlinni efst á mynd...

Litið til baka... sjá má bílana á sandinum við ána...

Ilmandi birki... spriklandi lækjarsprænur... mýið á fullu... sumarið í hnotskurn...

Okkur datt ekki í hug að kvarta undan mýinu...

Úr fjallinu runnu lækir í stríðum straumum eftir því öllu...

... bara þessir smáu fossar eru botnlaus ægifegurð sem hvergi er hægt að fanga nægilega vel...

Stundum voru þeir stærri... Seldalsáin hér...
og stundum minntu þeir aðeins á stuðlabergssleginn Svartafossinn í Skaftafelli...

Vargskýla var klárlega málið í þessari göngu og það reyndi á að vera með hana...

Örn, Svavar, Arngrímur, Heimir, Sigga Sig., Björn Matt., Helga Björk, Birgir, Agnar og Jón Odds
en Bára tók mynd... já... þrjár konur og átta karlmenn...

Þegar ofar var komið sáum við vel inn að Núpsstaðaskógi þar sem tveir bílar voru á tveimur stöðum allavega...
þarna höfðu menn greinilega haft næturstað og voru á göngu á svæðinu...
en göngur í Núpsstaðaskógi og upp á Súlutinda er á verkefnalista Toppfara og verður pottþétt farið eitt árið...

Nokkrir fengu mýbit í þessari göngu...
en Arngrímur og Jón voru við öllu búnir eftir reynslu sumarsins af lúsmýi í Borgarfirði og bitmýi á Hellismannaleið...

Ofan af Seldalsöxlinni gengum við inn Hvirfildalinn
og vorum búin að sjá á kortum að best var að fylgja ánni neðst frekar en að þræða hliðarhalla ofar í hlíðunum...

Nestisstund í mývarg... þetta var alvöru sumar !

Við spáðum í sveppina... að bæta einum við sósu kvöldsins... en þessi var eitraður héldu menn...

Hvirfildalur var fagur... friðsæll... hlýr...

Stuðlaberg varðaði hann að hluta...

... si svona á miðri leið þegar við litum upp...

Einkennandi útstingandi staparnir í Lómagnúp eru í raun margir
og varða allar frístandandi þrjár hliðar hans...

Heill heimur af móbergi en í honum eru tvær syrpur af áberandi kubbabergi og stuðluðu basalti
að sögn Hjörleifs Guttormssonar (Árbók FÍ 1993)...

Hann myndast á einni milljón ára... elsta lagið er neðst og talið vera 2,5 milljónir gamalt... efsti hlutinn talinn 1,5 milljón ára...
móbergslögin af "dalsheiðargerð" og myndast undir jökli við ruðning gosefnis inn á milli berggrunnsins og jökulíssins ofar...
... "mótaður af hafróti við lok síðasta jökulskeiðs og oft fyrr á ísöldinni þegar sjór hefur gengið upp að honum
eins og aðrir múlar á þessu svæði"... bls. 30.

Samkvæmt gps-slóðinn var farið upp á þessum slóðum en Örn hefði viljað fara innar í dalinn og þar upp öxlina...

Við gengum eftir kindagötum sem lágu meðfram Hvirfildalsánni en fórum fljótlega að hækka okkur...

Ansi langur dalur og dásamlegur...

Fossaröðin hinum megin dalsins... utan í Birninum... sem nær hæstur í rúmlega 1.000 m hæð
en var í skýjunum eins og aðrir tindar norðan við Lómagnúp...

Við skoðuðum leiðina upp... gegnum skarðið sem þarna var... stórgrýtt og smá klettabelti í því en lítil grjóthrúga
í því miðju sem virtist fær séð úr fjarlægð... við mátum það svo að ráðlegast væri að fylgja slóðinni
og ekki fara innar í dalinn... en það má vel vera að þar sé betri leið upp...
líklegast er þó alltaf yfir þessi klettabelti að fara sem geta vel verið farartálmi þegar nær er komið...

Þétt hækkun og við fórum hver á sínum hraða...
Súlutindar í Núpsstaðaskógi þarna í fjarska...

Falleg leið og mosavaxin til að byrja með...

Fossarnir í Lómagnúp eru óteljandi... bara í einu fjalli takk fyrir...

Hörkugöngumenn í þessari ferð og þetta sóttist vel...

Frábær stærð á hóp... samstaða og takturinn eins...

Ofar jókst brattinn... og skyndilega vorum við komin í þokusúldina sem lá yfir fjallinu...

Hér þveruðum við undir klettinum í áttina að skarðinu
og Arngrímur tók í stórt grjót í veggnum sem fór af stað og valt niður alla brekkuna...
hann valt frá og varð ekki meint af en þetta hefði getað farið verr...
Honum eflaust mikið brugðið og ekki skemmtileg upplifun...
minnti okkur á að það er aldrei svona grjóti að treysta...
þau geta einfaldlega losnað og gefa ekki endilega stuðning þegar togað er í þau...
sbr. grjótið sem Steinunn fékk yfir sig á Elliðatindum hér um árið 2011...

Hér fórum við í regnjakkana... hundsvekkt með reykvíska veðrið sem var mætt á svæðið
eftir alla blíðuna um daginn...

Nokkuð bratt en vel fært alla leið í skarðið...

Hjarta handa Katrínu sem við vissum að hefði svoleiðis vilja vera með í þessari ferð ásamt Guðmundu Jóni...

Komin að skarðinu þar sem fyrstu menn mátu aðstæður...

Þetta minnti mikið á Pólland og batta skarðið þar sem við snerum við sökum hálku í klettunum í september 2016...

KLettaklöngur eins og í Slóveníu... Póllandi... og Frakklandi...
já evrópsku alparnir eru nákvæmlega svona þar sem ekki er jökull... klöngur í stórgrýttum klettum...

Fyrstu menn komnir upp skarðið og segja þetta ekkert mál...

Heimir skellti sér upp í þennan helli meðan fremstu menn könnuðu aðstæður...
þarna var notalegt að vera... þurrt og fínt sagði hann :-)

Klöngrið gekk mjög vel upp í skarðið og við fórum varlega...  gættum þess að velta ekki við grjóti...
og ekki koma af stað grjóthruni... en svona staður er sérlega hættulegur þegar fáir fara um
þar sem ekki er búið að velta við lausum steinum og greiða leiðina að ráði...

Við vorum fegin að komast upp og veltum leiðinni fyrir okkur...
ættum við að fara sömu leið til baka eða spá í norðvesturöxlina...
en nei... þetta yrði ekkert mál til baka...
og við tók leyndum kvíði yfir bakaleiðinni hjá sumum eins og oft áður þegar farið er svona varasama leið upp
en reynslan er búin að kenna manni að þessi kvíði er nánast alltaf óþarfi...
bakaleiðin gengur alltaf betur fyrir sig en kvíðinn sagði til um...

Uppi á Lómagnúp tók við nokkurra kílómetra ganga í grjóti og mosa upp og niður hóla og hæðir...

Lítið skyggni en heilmikið landslag...
líklega ekki mikið skemmtilegra í skyggni þar sem nærumhverfið skyggir hvort eð er á fjærumhverfið...

Nesti á miðri leið í súldinni... og við reyndum að vera ekki svekkt með súldina...

Þaulvön að kyngja vonbrigðunum með rigninguna í sumar...
kyngdum við enn og aftur og vonuðum að það myndi létta til því ekki var þetta þykkt yfir...

Þjálfarar voru með merktan punkt norðar á fjallinu sem hæsta punkt... settur út frá merkingu á korti og mældist hann 778 m hár... þar var lítil varða og hálf kotlegt eitthvað... Svavar minnti að mun stærri varða væri á hæsta tindi en hann gekk á Lómagnúp fyrir mörgum árum síðan...
og því var það okkar niðurstaða að þessi varða hér... með stærri vörðunni... sem var sunnar og mældist 779 m hár væri hinn eiginlegi tindur...

Sjá hér... fyrri tindurinn vinstra megin mældist 779 m og svo hæsti 782,1 m skv. þessu sniði.
Sjá miðju sniðsins þar sem hækkunin upp og niður er á brúnunum ofan við þjóðveg eitt
en brúnirnar eru mun lægri en efstu tindar uppi á stapanum.

Það var freistandi að snúa við ofan af hæsta tindi og láta þar við sitja...
þýðingarlaust að ganga í þessum rigningardumbungi fram á einhverjar brúnir sem sýndu ekkert nema þokuna...
en við ákváðum að láta okkur samt hafa það og ganga þessa 3,5 km aðra leið... sem þýddi 7 km viðbót í heildina...
í þeirri von að þessi tiltölulega þunna skýjaslæða myndi hreinsast af fjallinu á meðan og við fá útsýnið ofan af brúnunum...
og sóttist þessi röska ganga mjög vel alla leið að brúnunum...

Æðakerfið á Lómagnúp var á fullu... að græða upp grjótið...

Brúnirnar eru meira en 100 m lægri en hæstu tindar fjallsins... en þarna var mesta landslagið uppi á fjallinu...

Ógnarstærð stapans skynjaðist okkur vel þó ekkert væri skyggnið
og okkur setti hljóð þegar gengið var eftir þessum brúnum...

Hrikaleikurinn var áþreifanlegur þó stóra samhengi fjallsins við umhverfi sitt sæist ekki...

Við þrjóskuðumst við að ná hæsta punkti á þessum brúnum og röktum okkur því eftir þeim til suðausturs...

Eltum slóðann að mestu og reyndum aðeins að færa okkur á brúnirnar en það hafði enga þýðingu...

Eins gott að fá koma ekki grjóthruni, berglosi eða skriðum af stað...
þessi hugsun er almennt fjarri manni en fréttir síðustu vikurnar á Íslandi hafa svolítið breytt því...

Síðasti kaflinn á mjög greinilegum slóða...

Bergið dulúðugt og virtist sífellt vera að reyna að segja okkur eitthvað...

Það var eins gott að fara varlega á þessum stað...

Brúnirnar mældust 686 m háar og þar var því miður ekkert að sjá...
en við heyrðum vel í umferðinnin á þjóðvegi 1... þarna rétt fyrir neðan...

Það var bara 1,3 km í beinni línu niður að bílnum hans Agnars...
í stað þess að þurfa að ganga alla leið til baka...

Til baka röktum við okkur eftir slóðanum neðan við brúnirnar...

Sátt með tindinn og fjallið... en ekki skortinn á útsýninu efst...

Hörkuhópur á ferð og við örkuðum til baka eftir fjallinu...

Upp og niður dældir, hóla og hæðir... reyndum að spara orkuna og fara sem stystu leið...

Sólin öðru hvoru að skína í gegnum skýin... þetta var svo grátlega þunnt að það var sárt...

Neðar tók að birta til og við sáum fram á brúninar þar sem grjótbrekkan beið...

Stuðlaberg í sumum hólunum þarna uppi...

Dásamlega heitt þó blautt væri...

Svo þykknaði aftur í þokunni...

Við kyngdum enn og aftur og tókum þessa grjótbrekku í nefið niður...
eftir smá áminningu þjálfarar um að fara varlega og ekki koma af stað grjóthruni og vera bara örugg með sig...
þetta yrði ekkert mál...

Sem það auðvitað var...
í hópi sem gerir ekki annað en klöngrast alla þriðjudaga...

Einmitt vegna þessa staðar hér...
erum við alltaf að klöngrast og velja verri leiðir en þær auðveldustu á þriðjudögum...

Til þess að okkur sé þetta tamt...
þegar á reynir að taugakerfi og stoðkerfi vinni vel saman...

... og það er bókstaflega engin önnur leið í boði til að komast niður...

Fegin að vera komin í gegnum skarðið fórum við á fljúgandi gleðinni niður með því...

... en áfram í brattri brekku og heilmiklu grjótbrölti...

Og höfðum sem betur fer vit á að njóta... meðal annars þessa stuðlaða foss hér neðar í skarðinu...

Hvílík smíð... af náttúrunnar hendi...

Komin út í hlíðarnar frá grjótinu...

Æj, það var óskaplega gott að fá smá skyggni neðar...

Litið til baka upp í skarðið... tiltölulega saklaust að sjá neðar... en illfærara þegar nær dró...
undantekning frá þeirri almennu reglu sem við höfum lært í þessum klúbbi, að yfirleitt eru leiðir léttari þegar nær er komið...
en einmitt nefnilega ekki alltaf...
eitt af fáum dæmum um hið gagnstæða er þetta skarð hér sem er illfærarar þegar nær er komið...

Grasbrekkurnar niður úr skarðinu í dalinn voru dásemdin ein...

Íslensk sumarfegurð af bestu gerð...

Friðurinn... fegurðin... tærleikinn... óbyggðin... var drukkin, þreifuð, ilmuð og séð af öllum mögulegum skilningarvitum...

Neðar ætluðum við að nesta okkur í þriðja sinn í göngunni áður en síðasti kaflinn yrði genginn að ánni og meðfram henni...

Sjá aftur upp eftir öllu saman...

Batman á hauk í ansi mörgum hornum meðal Toppfara... og elskar nestispásurnar...

Bakaleiðin meðfram Hvirfildalsánni að Núpsá var eiginlega flogin í sumarsælunni...

Batman þreyttur og farinn að hvíla sig þegar hópurinn var þéttur...

... það er almennt merki um að nú sé farið að síga í hjá öllum...

Ljósmyndasnillingar Toppfara ráku augun í hjarta ofan í polli...

Því miður ekki í fókus hjá þjálfara... en hvílík snilld hjá Siggu að finna þetta !

Þegar komið var út úr dalnum blasti Skaftafellið allt við okkur og fjallasýnin undir háskýjunum...

engin rigning á svæðinu og greinilegt að við höfðum einfaldlega gengið upp í blaut ský ofan á Lómagnúp
enda rigndi hvergi annars staðar á svæðinu að sögn þeirra sem voru í Skaftafelli þennann dag...

Ansi þungbúið samt enn á fjallinu... en það átti aldeilis eftir að breytast þegar á leið meðan við gengum...

Tignarleikur þessa fjalls er einstakur... einn stapi af mörgum á Lómagnúp...

Fossarnir... maður minn...

Einn af mörgum á leið okkar til baka... dásamleg fegurð...

Nú gengum við slóðann alla leið niður að bílunum í stað þess að þræða með ánni eins og um morguninn...

Sniglar um allt á stígnum...

Duluð Lómagnúps var yfirþyrmandi og krafturinn eftir því þegar gengið var meðfram honum til baka...

Svart stuðlabergið hér og þar...

Skógurinn þéttist eftir því sem neðar og utan dró...

Gil og gljúfur skorin inn á mörgum stöðum í austurhlíðum...
skyldi vera göngufært upp í einhverjum þessara gilja... líklega ekki...

Núpsáin mætt fagurblá og friðsæl að sjá...

Litið til baka... farið að létta til yfir jöklinum...

... og orðið léttara yfir fjallinu...

Skaftafellsfjöll að næla sér í kvöldsólina... og smá regnbogi þar sem rigningin kvaddi með virktum...

Kvöldhúmið lagðist yfir Lómagnúp og hann slakaði svo á að skýin leystust smám saman upp...

Og við byrjuðum að svekkja okkur... á útsýninu sem var farið að gefast ofan af brúnunum...

Himininn varð smám saman blár og fagur...

Og ysti... syðsti hluti Lómagnúps hristi af sér dumbunginn sem tekið hafði af okkur skyggnið fyrr um daginn...

Þetta fjall... það er hreinlega heill heimur út af fyrir sig...

Komin í bílana eftir rúma átta tíma... í blankalogni og hlýju veðri...

Sólin í Skaftafelli lofaði góðu en þar ætluðum við að gista um nóttina...

Birgir og Heiða Björk fengu sér smá fótabað í Núpsá eftir gönguna
sem var vel þess virði...

Hinir nærðu sig og hvíldu eftir frábæra en ansi langa 10 klukkustunda göngu...

Alls 20,8 km skv. þessu gps-tæki...

en þau sýndu frá 23,0 - 19,8 km eftir því hvaða tæki var spurt...
... á 10:13 klst...

Kyngimagnaður staður og þrátt fyrir útsýnisleysið uppi voru kynni okkar af Lómagnúp hreint ævintýri...

Við tók akstur út með fjallinu og hann stakur og sér er þess virði að fara þó menn gangi ekki á fjallið
því við blasir öll austurhlið fjallsins sem er mikið listaverk...

Brúnirnar orðnar skýlausar... en við vorum ekkert að svekkja okkur... farin að hugsa um tjald og næsta dag...

Haf þökk kæri Lómagnúpur...

... fyrir ægifegurð frá fyrsta skrefi... nei, fyrsta hjólfari inn með þér...

Við heimsækjum þig bara aftur síðar... þegar borðið er hreint þarna uppi...

Veðurspáin var greinilega að rætast...

... heiðskíran sem beið okkar daginn eftir á Kristínartindum var að mæta á svæðið...

Alls 21,7 km á 10:03 - 10:13 klst. upp í 782 m hæð með alls hækkun upp á 1.209 m.

Keyrt af þjóðvegi 1 inn með slóðanum hér hægra megin alla leið að Núpsánni og gengið inn með Seldal alla leið í Hvirfilsdal
og hann genginn inn og upp grjótskarðið (en skoða má aðra leið innar samt) þaðan sem gengið er á tindana tvo á fjallinu og fram á brúnirnar
og farið sömu leið til baka...

Sjá slóðina á wikiloc:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=27413340

Aksturinn yfir Skeiðarársand... Núpsá... Súlá... eða sum sé svokölluð Núpsvötn...
var greiður og stuttur yfir í tjaldstæðið í Skaftafelli...

Og þar skein sólin í dásemdarblíðu...

Svala var mætt á svæðið fyrir Kristínartinda... og við slógum upp tjaldborg hjá henni...

Ekkert mál að tjalda þegar veðrið er svona hagstætt
eins og það er svo oft í Skaftafelli ef veðrið er gott þar á annað borð...

Kjötsúpan hennar Siggu var flutt á svæðið af Svölu þar sem Sigga gleymdi henni í frystinum um morguninn
og gat hringt í Svölu sem kippti henni með þegar hún fór úr bænum...

Heimir með nýjar græjur til að elda... kubbur sem logaði greitt...

Þegar búið var að tjalda fóru hæstu tindar landsins að stingast upp úr skýjunum...

... og við fylgdumst með...

Orðnir hreinir á korteri... Hrútsfjallstindar og Hvannadalshnúkur...

Dyrhamarinn... sælla minninga frá í fyrra.. svakalegasta jöklagangan í sögu okkar...

Hrútsfjallstindarnir allir fjórir... við verðum að fara á hina einn daginn...
bara búin að ganga á þann hæsta sem er greiðfærastur...

Sólin sest og tindarnir mættir... svona var veðrið fram á næsta dag...

Við skelltum í okkur góðum kvöldmat og einum köldum með...
prísuðum okkur sæl með að vera ekki í tjaldstað á Ströndum í rigningu...
og fórum snemma í háttinn því okkar beið önnur eins krefjandi ganga daginn eftir...
á Kristínartinda í Skaftafelli... beint frá tjaldstæðinu...

Kristínartindar rísa sunnan við Skarðatind milli Skaftafellsjökuls og Morsárdals...
það er varla til hrikalegri staður til að vera á á landinu...

... enda reyndist tindurinn sá gefa okkur eitt fegursta ef ekki allra fegursta útsýni sem gefst af einum fjallstindi...
við auglýsum hér með eftir tindi sem gefur glæsilegra útsýni en Kristínartindar...

Sjá ferðasöguna af þeim hér:
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir