Tindferð 86: Súlárdalur Skarðsheiði laugardaginn 20. október 2012
Tungukambur - Skarðskambur - Skessukambur - Þverfjall -  Eyrarþúfa
 


Fimm tinda sigursæla
um Súlárdal í Skarðsheiði

Við gáfum ekki eftir og gerðum aðra tilraun til þess að taka fimm tinda hringinn kringum Súlárdal á í sunnanverðri Skarðsheiði laugardaginn 20. október og uppskárum brakandi flotta göngu í  rjómablíðu, heiðskíru og lygnu veðri, kristaltæru skyggni og stórfenglegu útsýni til allra landshluta...

Þetta var aukatindferð þar sem horft var til veðurs og blásið til brottfarar... átján manns mættir og þar af um helmingurinn sem líka hafði gert tilraunina í janúar en hinir ansi ánægðir að ná þessu þennan októberdag þar sem þeir voru vant við látnir í byrjun ársins...

Tungukambur framundan með Súlá á hægri hönd... fyrsti tindur dagsins...

Eyrarþúfa á hægri hönd... síðasti tindur dagsins...  sunnan við Þverfjall sem var næst síðasti tindur dagsins en hinir tveir, Skarðskambur og Skessukambur rísa á meginlandi fjallgarðsins norðan megin...

Veðrið lygilega gott... logn, heiðskírt og sólin að hita allt upp... hörkufrost síðustu daga gaf okkur tilefni til að klæða okkur vel, vera við öllu búin hvað veður varðar og með hálkubrodda, skíðagleraugu, lamhúshettur og álíka í bakpokanum... en þessi dagur fór mestmegnis í að fækka fötum eftir því sem sólin reis...

Brekkur Tungukambs voru þéttar... fyrst í grasi og mosa, svo grjóti og skriðum og loks í klettabeltum efst...

Útsýnið dásamlegt niður Svínadal og Hvalfjörð... alla leið yfir á Akrafjall...

Á hægri hönd okkar var Súlárdalur sem við skyldum hringa þennan dag... á vinstri hönd var Skarðsdalur sem Skarðshyrna og Heiðarhorn tróna yfir... algengustu tindarnir sem gengnir eru á Skarðsheiði þar sem Heiðarhorn er hæsti tindur hennar...

Ótrúlega margir göngumenn dagsins ekki gengið á Heiðarhorn þó það sé nú þegar búið að vera nokkrum sinnum á dagskrá klúbbsins... enda er Skarðsheiðin endilöng á dagskrá í júní á næsta ári þar sem við endum á efsta tindi... og lag að taka þann tind þá... maður sér þetta alveg fyrir sér... sólin hátt á himni og bráðnandi snjór í efstu hlíðum ;-)

Klettabeltið efst í Tungukambi virðist illkleift úr fjarlægð en eftir áralanga reynslu af óárennilegum klettabeltum sem eru ansi greiðfær þegar nær er komið... var þessi uppgönguleið búin að freista þjálfara lengi...

Enda var þetta lítið mál... ef ekki var komist með hryggnum sjálfum, var klöngrast meðfram honum og upp þar sem vel gafst og menn voru duglegir að finna sjálfir nógu spennandi leiðir...

Litið til baka þar sem sjá má hvernig vel er hægt að klöngrast upp á ýmsum stöðum
og ætti að vera fært þó kominn sé snjór ef menn eru á broddum... en miklar hálkubungur geti þó verið erfiðar...

Skarðsheiðin og Hafnarfjallið eru fjöllin hans Inga... ástríða hans á fjöllum leyndi sér ekki á þessum slóðum sem öðrum...

Síðasti kaflinn upp Tungukamb sem mældist 855 m með viðmiðun á korti heimamanna
en Ingi dreifði korti heimamanna af Skarðsheiðinni og Esjunni til þeirra sem mættu og restin fór út á þriðjudeginum á eftir ;-)

Leirársveitin útbreidd fyrir neðan...

Miðfellsmúli, Hvalfjörður, Akrafjall hægra megin og Eyrarfjall og vestasti hluti Esjufjallgarðsins í fjarska vinstra megin...

Súlárdalur á hægri hönd, Þverfjall og Eyrarþúfa, þvínæst Eyrarkambur sem við komum niður úr Grjótárdalnum í sögulegu nýársgöngunni 2011... og fjær eru Kambur þar sem við komum upp í þeirri göngu... enn fjær tóku svo fjallaperlurnar að glitra...Botnssúlur hér mest áberandi hægra megin á mynd með Soffíu Jónu og Önnu Siggu...

Hvalfjörður hægra megin, Eyrarvatn vinstra megin en það tengist svo Glammastaðavatni austan megin
og austast í Svínadal er Geitabergsvatn...

Ljúft var í veðri og dásemdin ein í lofti...



Fljótlega á tungukambi fór meginland Skarðsheiðarinnar að koma í ljós með Heiðarhorni, Skarðskambi og Skessukambi hvítum framundan...

Þar sem Toppfarar eru með leshóp undir foryztu Maríu Elíasdóttur og miðla gjarnan góðum bókum milli manna... kemur hér tilvísun í bók sem nú er á náttborði þjálfara... en það vill ótrúlega oft til að línur í bókum eftir íslenska höfunda eigi ansi vel við líf Toppfara á köflum:

Heimsljós eftir Halldór Laxnes - Helgafell 1967
Kafli 22 bls 109:

"Þeir voru komnir langt inn  á heiðina, byggðirnar sokknar, slétt yfir alla dali, firðirnir runnir undir fjöllin og fjöllin, þau voru gengin hvert inn í annað, aðeins efstu bungur þeirra bar hverja í aðra eins og lágar öldur á undirlendi, en við ysta sjónhring sá til hafs. Loftið hér efra var eins og tvö þúsund króna apótek sem maður hefur ævilangt þráð en ekki haft efni á að kaupa, svalandi og gleðjandi í senn, það fór ölvandi bylgjum um líkama piltsins, hann var ekki lengur hræddur. Súðin sem hann hafði kúrt undir í tvö ár, þaðan sem hann hafði verið reistur upp fyrir fáum stundum, var eins og hver önnur liðin saga sem kom honum ekkert við, hann var ekki lengur bágstaddasta vera jarðarinnar, öðru nær, hann var lifandi hluttaki í hinni heimsskynjuðu gleði fjallsins, óttaðist ekki framar neitt, ekki einu sinni ódauðleik sálarinnar..."

Áhrifamikill lestur um ungan dreng sem leggst í rúmið vegna barsmíða á bæ þar sem hann er sveitarómagi
og er borinn burt á hestbaki yfir heiðina þar sem örlögin eru önnur...

Göngufærið með besta móti... hvorki of hart né og mjúkt...

Tungukambur liggur sem hryggur alla leið að Skarðskambi...

Við gengum hann allan inn á meginlandið...

Magnaður hryggur sem lokar af milli Skarðsdals og Súlárdals... þetta voru síðustu vígi Skarðsheiðarinnar sem við sigruðum
þar sem við höfum nú lokið við hringgöngur um alla dali og hryggi þessa fjallgarðar...
og því lag að taka Skarðsheiðina endilanga í júní á næsta ári ;-)

Klöngrast var uppi á hryggnum eða meðfram honum eins og færið leyfði...

Sólin ólmaðist við að bræða snjóinn fyrir okkur og gera hann mjúkan og greiðfæran...

Ef skýjamistur bar fyrir sólu kólnaði um leið... en það gerðist bara í öfáar mínútur þennan dag...

Litið til baka eftir hrygg Tungukambs...

Eggjarnar milli Skarðskambs og Skessukambs... sem við áttum eftir að rekja okkur eftir...

Við tók meginlandið að Skarðskambi sem var tindur númer tvö þennan dag...

Litið til baka á Tungukamb sem sjá má hér þrengjast inn á heiðina
en dreifa sér fyrir miðju áður en hann rennur niður í kambi niður sunnan megin...

Litið til Skessukambs í austri sem tengir Skessuhorn við meginland Skarðsheiðarinnar...
þar sem við borðuðum nesti áður en við snerum við í nýársgöngunni í janúar s.l....

Himininn skrýddist sínu besta í tilefni dagsins og það var líkt og Skarðsheiðin tæki ofan fyrir gestum sínum af einskærri virðingu fyrir þeim sem ekki gefast upp... því hlýjastur var þessi dagur í sögu okkar á þessum fjallgarði sem geymir frost, gadd, hrím, vind, þoku, úrkomu og hálku eins og það mest getur verið á fjöllum í öllum okkar fyrri ferðum þarna um...

Ástríðugöngumennirnir Katrín og Guðmundur með Þverfjall í baksýn og Botnssúlurnar sem alltaf stela senunni lengra í austri...
en þau mæta nánast alltaf í allar göngur og sigruðu þær allar fimm með hópnum í júní í flottustu tindferð ársins að mati þjálfara...

Við sáum gönguhóp fara upp Skarðsdalinn í byrjun dagsins og veifuðum þeim frá Tungukambi... en sáum þau ekki meira þann daginn og fór að gruna hvort þar hafi farið leitarmenn þar sem nokkrar rollur sáust á ferðinni í dalnum fyrir ofan þau frekar en að þetta hafi verið gönguhópur...?

Þetta var einn af þessum dögum þar sem fagurt landslagið skrýddi ekki bara jörð heldur og himinn...

Tungukambur í allri sinni dýrð séð ofan af brúnum Skarðskambs...
og vinkonurnar Jóhanna Karlotta og Steinunn á góðu spjalli ;-)

Skarðshyrna og Heiðarhorn í vestri... ásamt Blákolli strítulaga og snjólaus hægra megin...

Á Skarðskambi sem var hæstur tinda dagsins - mældist 1.038 m hár
var brakandi logn og áhrifamikið útsýni yfir á Skessuhorn og Skessukamb...

...svo við stóðum andaktug og töldum jökla og fjöll í öllum áttum...

Hvorki myndir né sögur lýsa því sem fyrir manni verður á slíku augnabliki á stað sem þessum....

Vinir á fjöllum... Gerður Jens., Gylfi, Jóhanna Karlotta, Lilja Kr., Hildur R., og Steinunn...

Skessuhorn er tignarlegasti tindur Skarðsheiðarinnar og fær ómælda athygli hvar sem maður kemur að því...

Irma, Örn, Jóhannes, Arnar, Katrín, Hildur R., Thomas, Guðrún Helga, Guðmundur Jón.
Gylfi, Steinunn, Ingi, Gerður Jens., Anna Sigga, Lilja Kr., Soffía Jóna, Jóhanna Karlotta og Bára...

Mynd tekin ofan af atgeirinum hans Inga til að ná fjallasýninni ;-)

Hvílíkir litir... form... áferð... samsetning... listaverk náttúrunnar eins og það gerist flottast ;-)

Það kom að því að fara niður af Skarðskambi og halda yfir á Skessukamb... á milli eru eggjar sem ekki eru færar nema í góðri færð og við gerðum okkur ekki von um annað en þræða okkur neðan við þær þennan dag... en reyndumst heppnari en við héldum...

Farið var niður harðar snjóbrekkurnar þar sem sumir skelltu á sig hálkubroddunum til að vera öruggur...

... á meðan hinir skautuðu þetta bara öruggir og áhyggjulausir ;-)

Skýjafarið lét ekki af listfengninni...

Komið var niður í fallegt dalverpi sem naut sín vel í þessum snjófæri...

... niður skemmtilega brekku þar sem var næstum því hægt að renna sér á afturendanum...

Og við héldum ótrauð inn að eggjunum...

...alla leið fram á brúnirnar þar sem snarbrött norðurhlið Skarðsheiðarinnar tók við...

Frosnir klettar nær og Skessuhornið fjær...

Göngufærið frábært í snjóbráðinni...

...svo við komumst upp með að þræða okkur eftir öllum brúnunum...

...og skoða þessar eggjar í nálægð en þær voru víst tilefni til alls kyns myndlíkinga hjá strákunum
sem ekki verða hafðar eftir hér... ;-)

Guðrún Helga, Lilja Kr., Arnar, Irma, Soffía Jóna, Bára, Jóhanna Karlotta og Gylfi.

Ingi Skarðsheiðarkóngur með atgeirinn sinn en hann bauð félögum sínum í Toppförum um Skarðsheiðina endilanga í nóvember 2008 forðum daga en þau hrepptu erfitt veður og færi og urðu að sleppa Heiðarhorni og Skarðshyrnu og fara niður Skarðsdalinn þar sem tekið var að rökkva og mönnum farið að lengja svo eftir þeim að lögreglan var komin í málið vegna yfirgefins bíls á Draghálsi... en þau voru í góðum málum enda vant fólk á ferð... dagur sem við höfum rifjað ansi oft upp... eins og gjarnan er með ferðir þar sem vel reynir á menn og gefa manni nýja reynslu...

Ingi rifjaði meðal annars upp þegar svitadropi úr nefi hans skoppaði af gps-tækinu hans þennan dag eins og steinn... dropinn sá náði sum sé að frjósa á þessari sekúndnalöngu leið sinni niður af nefinu á gps-tækið... og menn rifuðu upp minningar af frosnum augnhárum sem límast saman og frosnum reimum sem staðið hafa beint út í loftið... og gárungar sögðu að menn hefðu ekki i lifað alvöru veður á fjöllum nema hafa slíka sögu að segja ;-)

Áfram var haldið eftir eggjunum í átt að Skessukambi...

Litið til baka eftir eggjunum með stingandi tánna á Skarðskambi í fjarska hægra megin...

Hvílíkar brúnir... það verður forvitnilegt að rekja okkur eftir þeim öllum frá upphafi til enda þann 8. júní næsta sumar... frá Mórauðahnúk við Dragháls í austurenda Skarðsheiðarinnar... eftir brúnunum um alla tindana sem rísa á meginlandi fjallgarðsins alla leið yfir á Heiðarhorn þar sem við rekjum okkur eftir Skarðshyrnu og Skessubrunna niður vesturenda hennar...

Og Skessuhornið sem aldrei virðist árennilegt en er vel fært í sumarfæri...
verður vonandi gengið í aukaferð næsta sumar ef gefur á gott veður einn daginn...

Sannarlega tignarlegur fjallgarður... enda höfum við þá ekki marga svona eins og norðanmenn og austanmenn...
... eins og gott að gera sér mat úr þessum eina almennilega sem gefst á suðvesturhorninu ;-)

Litið til baka á eggjarnar í heild með tindana skagandi upp úr en þeir eru ansi svipmiklir úr fjarlægð...

Nú var áð og fengið sér nesti númer tvö þennan dag... í sól og vetraryl... talandi um hlaupahópa og maraþon og Vestmannaeyjar og mataruppskriftir og jólagleði og Hornstrandir og...

Ekki ónýtur staður til að borða með Skessuhornið í bakið og sólina í fangið ;-)

Mál að koma sér aftur af stað og rifja upp fyrri kynni af þessum Skessukambi sem reyndist okkur svo dulur síðast... ;-)

Framar öllum vonum komumst við líka upp með að rekja okkur upp að Skessukambi eftir brúnunum
í stað þess að þurfa að fara meira aflíðandi leið sunnar á Þverfjallinu...

Klettabelti sem hægt var að fara um snjóskafl eða inn með geil...

Flestir völdu geilina af síðustu mönnum...

Lítið mál fyrir vikulega klöngrara...

...enda hægt að krækja sér alls staðar í...

Steinunn, Jóhanna Karlotta og Irma á góðum stað á góðum tíma... ;-)

Fallegt landslagið á brúnunum inn á meginlandið...

Litið til baka á Skarðskamb með Hróarstinda, Hafnarfjallið allt og fjöllin baksviðs þar sem voru gengin í febrúar í ár í baksýn...
og enn fjær glitraði jökullinn á Snæfellsnesi snjóhvítur og fagur...

Þetta var svalur staður með meiru...

Loks vorum við komin á Skessukambinn þar sem við borðuðum nesti í janúar í byrjun þessa árs
í engu skyggni nema eitt augnablik niður á Skessuhorn sem var sýn sem aldrei gleymist...

Sjá brúnirnar - eggjarnar þar sem við röktum okkur alla leið frá tindinum á Skarðskambi...
Rétt glittir í Skarðshyrnu og Heiðarhorn fjær...

Á Skessukambi var partý-stemmning... glaumur og gleði við myndatökur og fjalla-spekúlasjónir...
þar sem hvert augnablik var gullið í logninu og kyrrðinni...

Fyrri slóðir Toppfara um dali, kamba og tinda Skarðsheiðarinnar... þar sem við byrjuðum á nýársgöngunni í janúar 2010 á Hádegishyrnu og Mórauðahnúk í stórfenglegri bleikblárri skammdegisgöngu... tókum svo Grjótárdalinn þar sem allt hrímaði og fraus... og loks gönguna í byrjun þessa árs í úrkomu og engu skyggni...

Það var þess virði að gefast ekki upp og leggja aftur í hann...

Vinkonurnar Anna Sigga og Gerður Jens sem ferðast víða um heim... hafa þroskaðan smekk, víðsýnan hug, óbilandi fjallaástríðu og víla ekkert fyrir sér... en þær fóru saman til Eþíópíu fyrr á þessu ári og lentu í miklum ævintýrum...

Skessukambsogfélagar-farar... Lilja Kr., Hildur R., Soffía Jóna, Ingi, Anna Sigga, Gylfi, Guðmundur, Gerður, Jóhannes, Thomas, Arnar, Katrín, Irma, Guðrún Helga, Örn, Steinunn og Jóhanna en Bára teygði sig eins langt upp til að ná Skessuhorninu líka á mynd... ;-)

Það var raunverulega erfitt að yfirgefa þennan stað... útsýnið stórkostlegt í friðsældinni þarna uppi og við frestuðum því stöðugt að halda niður aftur þar til nánast allir voru farnir að ókyrrast... enda kosningar til stjórnlagaráðs um kvöldið og ráð að koma nú einhvern tíma í bæinn fyrr en eftir kvöldmatartíma ;-)

Við tókum dressmann á Þverfjallið beinustu leið suður niður í klakabundinn Súlárdalinn...

... með sólina bakandi okkur, snjóinn og landslagið allt um kring...

Þverfjallið liggur eins og Tungukambur breiður og grannur á víxl þar til hann endar sem kambur sunnan megin...

Litið til baka á Skarðskamb og eggjarnar sem nú eiga sér sögu í Toppförum... ;-)

Úr broddunum hér þeir sem voru þrjóskastir við að nota þá en nokkrir fóru aldrei í þá þennan dag...

Komin í mosann neðan við snjólínu og sólin farin að roðna lítillega...

Rösklega gengið í sterkum gönguhópi sem var samstilltur og í takt allan þennan dag...

Brekkan niður af Þverfjalli í Súlárdalinn...

Súlá háði sína orrustu við kuldann og var klaka-drifin á köflum en hafði yfirhöndina enn sem komið var...

Enn á fullu að renna innan um ásókn klakans frá öllum hliðum...

Mikilfengleg fegurð sem sumir hefðu viljað staldra lengur við...

...en þarna dvöldum við örugglega í allavega korter að stikla, drekka, mynda, njóta...

Ísfossarnir utar í gljúfrinu...

Súlárdalurinn með hrygginn okkar sögulega frá því í janúar 2011 í hríminu í baksýn...

Síðasti tindur dagsins var Eyrarþúfa sem merkilegt nokk lokar hálfpartinn Súlárdal og fær Súlánna til að þurfa að taka 90° beygju út úr dalnum meðfram Súlum sem svo heita tindarnir sem rísa í dalsmynni og verður spennandi að ganga á með Eyrarþúfu á þriðjudagsgöngu næsta sumar ;-)

Súlárdalur í allri sinni dýrð... með hluta af Tungukambi (tindur 1 þennan dag), Skarðskamb (tind 2), eggjarnar, Skessukamb að hluta (tind 3), Þverfjall (tind 4) og svo er myndin tekin af Eyrarþúfu sem var tindur fimm þennan dag... ;-)

Komið niður af Eyrarþúfu í síðdegissólinni...

Ekki langt í sólarlag enda klukkan rúmlega fimm í lok göngunnar...

Gengið var um graslendi, gróðurlendi og trjálendi í lokin...

Komið niður að skógræktinni sem bóndinn að Hlíðarfæti stendur að með miklum myndarskap... en við freistuðumst til að fara gegnum skóginn í stað þess að taka krókinn út eftir Eyrarþúfu... og komumst að því að það var enginn sparnaður í tíma með því þar sem tafsamt var að klöngrast upp og niður nokkra skurði á leiðinni... ;-)

Sól var tekið að halla í lok göngunnar og veislan tók enda...



...eftir
17,1 km á 8:28 klst. uppp í 1.038 m hæð hæst með 1.185 m hækkun alls miðað við 66 m upphafshæð.

Fimm göngur Toppfara á Skarðsheiði síðustu ár - vantar þrjár göngur inn á mynd, þá fyrri á Skessuhorn 2009, þá fyrri á Heiðarhorn 2007 og þá fyrri um Eyrarþúfu, Þverfjall og Skessukamb 2012.

Græna: Heiðarhorn og Skarðshyrna á kvöldgöngu á þriðjudegi 26. maí 2009.
Rauða: Skessuhorn á kvöldgöngu á þriðjudegi 5. júlí 2010.
Dökkblá: Nýársganga á laugardegi 2. janúar 2010.
Gul: Nýársganga á laugardegi 8. janúar 2011.
Ljósblá: Tindferð dagsins um Súlárdal 20. október 2012.

Auk þessa erum við búin að ganga á Mórauðukinn norðan undir Mórauðahnúk og ætlum á Mófell og Ok sem rísa norðvestar undir norðurvegg Skarðsheiðarinnar og Rauðahnúk vestan megin við Heiðarhorn á þriðjudagskvöldum næsta sumar...

... og tökum Skarðsheiðina endilanga 8. júní frá austurenda til vesturenda með viðkomu á öllum hennar tindum og útsýnisstöðum á meginlandinu ofan af brúnunum sem verður sætur sigur  ;-)

Dýsætur sigurdagur í veðri sem gerist ekki betra...
í samstilltum hópi sem forréttindi eru að njóta félagsskapar við á fjöllum ;-)

Allar ljósmyndir þjálfara úr ferðinni hér (teknar á tvær myndavélar með smá tímamismun sem er úr takti þar sem margar myndir voru teknar á skömmum tíma en sleppur almennt): https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T86Sulardalur20101202
... og myndaveisla leiðangursmanna á fésbók ;-)

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir