Tindferð 69 - Eyrarþúfa Þverfjall og Skessukambur á Skarðsheiði
laugardaginn 7. janúar 2012

 


Skýjum ofar á Skarðsheiði
... í þungu færi og perlukenndri hrímþoku... en hífandi göngugleði...


Nýárstindferð Toppfara var á Eyrarþúfu, Þverfjall og Skessukamb á Skarðsheiði í lygnu og hlýju veðri en frosti ofar í þokudumbungi allan tímann sem næstum því lyfti sér ofan af fjallgarðinum á köflum fyrir hífand gleði göngumanna... sem hlógu sig upp á 1.048 m hæð þrátt fyrir krefjandi göngufæri og perlandi þoku neðar sem breyttist í nístandi hrímþoku í kuldanum upp úr 800 m hæð þar sem allt fraus sem frosið gat í rakanum...

Útsýni því miður lítið á þessum svipmiklu útsýnisslóðum en þó fengum við eftir pöntun... eins og oft áður...nokkurra sekúndna sýn niður á Skessuhornið af norðurbrúnunum sem gaf okkur innsýn í það svipmikla veisluborð sem tignarleg Skarðsheiðin býður upp á þegar vel liggur á henni í góðu skyggni... en það var magnað eins og alltaf að upplifa það bókstaflega að vera skýjum ofar þessi örfáu augnablik þegar við fengum eitthvurt skyggni og sáum skýjabreiðuna liggja eins og sæng neðan okkar yfir öllu láglendinu...

Ætlunin var að ganga á fimm tinda kringum Súlárdal með viðkomu á tveimur kömbum á norðurbrúnunum en þungt göngufæri í blautum snjó alla leið á tindinn sneri leiðangursmönnum til baka ofan af þriðja tindi án viðkomu á tveimur síðustu þar sem stuttur sólargangurinn gaf ekki færi á frekari afrekum í þessu veðri, skyggni og færð... og þó erfitt hafi verið að ná ekki öllu takmarki dagins með hringleið eins og jafnan er háttur þessa hóps, hvað þá með alla þessa sterku göngumenn í för, voru flestir fegnir að ævintýrið varð ekki flóknara þegar fljótlega fór að skyggja á niðurleið og síðustu kílómetrarnir gengnir í myrkri og þungri bleytu þar sem þreytan fór að segja til sín...

Lagt var af stað frá þjóðvegi 504 eftir yfirhalningu þjálfara um snjóflóðahættu og snjóþunga á svæðinu sem Þórarinn, bóndi að Hlíðarfæti hafði upplýst þjálfara um og fullyrt að ekki hefði eins mikill snjór verið á þessu svæði í 10-15 ár... þjálfarar enda heldur áhyggjufullir með göngufærið og lögðu frá byrjun upp með að hugsanlega yrði ekki hægt að halda áætlun vegna þessa og vonuðust til að ná allavega Skessukambi.

Þeir báðu Inga að vera til aðstoðar með leiðina milli Skessukambs og Skarðskambs þar sem hann var búinn að fara hana áður... þar sem þeir höfðu sjálfir ekki farið þessa leið um Skarðsheiðina þó gengið hafi þeir um hana alla beggja megin frá... en lærðu þá lexíu að á þessum árstíma og í raun alltaf er best að vera búinn að fara um hverja þúfu gönguleiðarinnar áður en farið er með hópinn í tindferð... eins og nánast alveg hingað til hefur verið vinnuregla þjálfara... til að vita nákvæmlega hvernig landið liggur í þokunni... undir snjónum... í myrkri... sama hvað menn geta undirbúið sig vel og eru orðnir vanir að lesa í kort, gps, ferðasögur og landslag í seilingarfjarlægð í fyrri göngum...

Þegar Örninn var búinn að leiðrétta stefnuna í byrjun göngunnar var stefnt á fyrsta tind dagsins, Eyrarþúfusem rís í mynni Súlárdals
og lokar dalnum nánast en þúfan sú mældist 500 m og var auðgengin í blautu snjófæri.

Dagsbirtan kom fljótlega eftir að gangan hófst og veðrið var með besta móti, hlýtt og lygnt
en heldur blautara en spáð var með rennvotum þokudumbungi yfir öllu sem vætti okkur laumulega yfir daginn...

Göngugleðin þeim mun skærari úr því orkan fór ekki í útsýnisflug og einstakur andi Toppfara sveif yfir lendum Skarðsheiðarinnar...

Óskar, Guðmundur Jón, Lilja Sesselja, Áslaug, Kristína gestur, Súsanna, Katrín og Kristjana nýliði.

Sæmundur, Ingi, Steinunn, Heiðrún, Guðmundur, Súsanna, Þór og Kristína með Díu í forgrunni.

Eftir Eyrarþúfu sem náði sér í fyrstu tæpu 5 kílómetra dagsins tók Þverfjall við eftir að farið var yfir Miðdalsá í mynni Miðdals en dalsmynnið það endar í gljúfri milli Eyrarþúfu og Súlna sem loka dalnum í suðri og mynda einstakt landslag á þessum slóðum sem lítið naut sín fyrir þoku og snjófargi... Eyrarþúfa enda á framtíðardagskránni sem þriðjudagsfjall að sumri til...

Uppgönguleið Þverfjalls var þungfær í snjónum en aflíðandi og hvorki hálka né snjóflóðahætta svo ofvirkustu göngumenn urðu að finna sér eitthvað annað til dundurs og hentu snjóboltum í fremstu menn ...  ;-)

Lilja Kr., Kristína gestur og Ágústa ásamt hópnum neðar...

Skyndilega fór að opnast fyrir skyggni og við sáum niður á Eyrarþúfu, niður í gljúfur Miðdalsár
og austur yfir á Miðfjall og Eyrarkamb sem gaf okkur ógleymanlega nýársgöngu árinu fyrr...

Hjölli með uppgönguleiðina að baki þar sem göngufærið sést vel...

Þegar upp á Þverfjall var komið í rúmlega 700 m hæð var útsýnið horfið
og lítið sást nema næstu skref og hamrarnir niður í Súlárdal...

Göngufærið enn snjóþungt, hvergi hálka og ennþá hlýtt en létt gola farin að leika við göngumenn...

Lilja Kr. Kjartan, Steiniunn og Anton en aftar eru Björgvin og Katrín vinstra megin og Árni og Örn hægra megin.

Saumaklúbburinn réði ríkjum þennan dag þar sem gönguklúbburinn bauð ekki upp á annað en þoku...

Greið leið upp með Þverfjalli yfir á meginland Skarðsheiðarinnar en á þessum kafla skein sólin aðeins í gegn
og sérkennilega mjúk og litrík birta lék um þennan kafla upp á Skessukamb...

Skyndilega í rúmlega 800 m hæð kólnaði og voti klæðnaðurinn og búnaðurinn fór að frjósa... við höfðum gengið yfir landamæri Skarðsheiðarinnar þar sem allt getur gerst og veður og vindar á láglendi hafa ekkert að segja um ástandið þarna uppi... ástand sem flugmenn og aðrir hafa jafnan lýst sem "sér veðurkerfi Skarðsheiðarinnar" óháð öðru sem gerist í kringum hana... við höfum áður kynnst þessu svæði... svæði þar sem allt var hrímað í rúmlega þúsund metra hæð á Heiðarhorni í lok júní síðasta sumar... svæði þar sem allt hefur verið helfrosið og flughált í fyrri göngum Toppfara í þessari hæð á Skarðsheiði... þangað til núna því þó frostið næði til göngumanna var nýfallin snjórinn áfram mjúkur og hvergi hálku að fá alla leið upp í rúmlega þúsund metra hæð...

Birtan dulúðuga... með friðsæld sem sjaldnast næst nema á fjöllum...

Í þessari töfrandi friðarbirtu náðum við tindi Skessukambs sem mældist 1.035 - 1.050 m hár á gps-tækjum þjálfara...

Þórarinn bóndi á Hlíðarfæti bætti vel í þessa vörðu síðasta sumar...

Tveir af gestum göngunnar, þau Árni G. og Ragna tóku með sér 2ja manna neyðarskýli sem kom sér vel í kuldanum á tindinum til snæðings og hentar sérlega vel ef athafna þarf sig eitthvað í erfiðu veðri að ekki sé talað um að geta hlúð að slösuðum eða veikum í skjóli... en þjálfarar eru með eitt slíkt í farteskinu...

Sjá vefsíðu:

Nestistíminn á Skessukambi...

Menn orðnir ansi vanir að snæða við öll hitastig og veður...

Það var mikilvægt að borða til að fá hita í líkamann fyrir niðurgönguleiðina...

Já, þjálfarar voru búnir að ákveða stuttu fyrir tind að lengra yrði ekki farið og snúið til baka sömu leið fremur en að fara áfram inn með brúnum Skarðsheiðarinnar á Skarðskamb og niður með Tungukambi sem líklegast væri vel fær í þessu blauta snjófæri eða út með Skarðsdal... það var  því miður ekkert útsýni að hafa í þessu skyggni, stutt í rökkur, þungt göngufæri og ástand göngumanna misgott fyrir frerkari barning við ótroðnar slóðir og tafsamar vangaveltur um leiðarval sem óneitanlega beið okkar ef við hefðum haldið upphaflegri áætlun
...þó flestir væru í góðu standi...

Skyndilega... þarna sem við snæddum... birtist Skessuhornið... í allri sinni dýrð... tignarlegt og bratt... lengst í burtu fannst manni...

Þennan útsýnisstað að Skessuhorni verðum við að heimsækja aftur í betra skyggni og bara standa og njóta...

Þeir sem voru snöggir til náðu góðri mynd af dýrðinni... áður en hún hvarf aftur í þokumistrið sem lá yfir heiðinni en við vorum ekki söm eftir þessa sýn og þá tilfinningu sem engin leið er að lýsa áhrifunum af... að standa á fjallsbrún með skýjabreiðuna yfir öllu láglendinu
og vera bókstaflega skýjum ofar ...

Efri: Finnbogi, Árni G., Ísleifur, Kristína, Þór, Jóhanna Fríða, Jón Atli, Soffía Jóna, Súsanna, Hjölli, Katrín, Guðmundur Jón, Örn, Elsa Þóris, Ari, Árni E., Slvía, Kjartan, Lilja Steinunn Th, Lilja Sesselja, Björgvin, Áslaug, Ragna, Ágústa, Óskar Wild og Anton.
Neðri: Ingi, Sæmundur, Heiðrún, Kristjana, Vallý, Sigga Rósa, Steinunn, Irma, Steini P., Björn og Lilja Kr.
en Bára tók mynd og Día var eini ferfætlingurinn í ferðinni enda passaði hún hjörðina sína vel ;-)

Niðurleiðin gekk greitt til baka með ægifagurt útsýni til bjartra göngumanna sem hrímast höfðu uppi ;-)

Sigga Rósa, Ágústa, Áslaug og Björn með Díu í forgrunni...

Kjartan, Hjölli, Árni E., Sæmundur og Anton.
Sylvía og Árni G.

Steinunn Th, Ari, Steini P., Irma, Ísleifur og Sylvía.

Lilja Kr., Jón Atli og Jóhanna Fríða.

Sigga Rósa, Steinunn, Björgvin og Soffía Jóna.

Kristjana, Kristína, Þór og Ari.

Guðmundur Jón, Katrín Kj., Elsa Þóris og Súsanna.

Heiðrún, Óskar, Lilja Sesselja og Ingi.

Sylvía, Finnbogi, Örn og Steini P.

Súsanna og Vallý með fánann blaktandi frosinn í rakanum og kuldanum...

Endilega sendið mynd af þeim sem ekki náðust á þessar mini-hópmyndir!

Heilinn fer á flug á fjöllum...

...og samveran skapar tengsl sem aldrei slitna...

Día var drottning dagsins...

...hrímuð sem aldrei fyrr svo hárflygsurnar duttu frosnar af henni... en hún lék á als oddi og fann til mikillar ábyrgðar yfir hópnum
svo þeir sem ekki fylgdu fyrirmælum þjálfara í byrjun göngunnar um að vera í slóðan fararstjóra fengu það óþvegið ;-)

Á Þverfjalli fór að rökkva og langa brekkan niður í Miðdalinn var farin í blautu skyggni þar sem rakinn bræddi frostið aftur af göngumönnum
og við gengum í funhitanum sem dagurinn hafði byrjað á...

Miðdalur... fremstu menn komnir yfir hinum megin
og síðustu menn á leið niður í dalbotn þar sem Miðdalsá var þveruð á samfelldri snjóbreiðu...

Allir vanir að ganga í myrkri með höfuðljós og því var myrkrið sem við tók ekkert að flækja málin... en síðustu kílómetrarnir  um Eyrarþúfu tóku í og skiluðu mönnum lúnum en þakklátum í bílana eftir alls 16,3 km á 8:40 - 9:02 klst. upp í 1.050 m hæð með 1.109 m hækkun alls miðað við
65 m upphafshæð.

Með göngu dagsins bættum við í safnið Eyrarþúfu (500 m) sem rís eins og skjólsælt hlið framan við Súlárdal, Þverfjalli ( 884 m) sem rís milli Miðdals og Súlárdals og loks nafnlausa kambshorninu sem rís ofan af norðurbrúnum Skarðsheiðarinnar og við kjósum að nefna Skessukamb (1.048 m) í samræmi við nafngiftina á kortum af Skarðskambi vestar þar sem Skessuhorn tengist meginlandi Skarðsheiðarinnar út frá þessum kambi til norðurs.


Súsanna, Ingi, Heiðrún og Lilja Kr.

Brjálað stuð eftir göngu eins og vanalega...

... og dagurinn endaði á jeppasafaríi þar sem Ingi dró bíl Björgvins nokkrum sinnum upp á svellhálan veginn þar sem ekkert dugði nema hálkubroddar til að athafna sig en Björgvin komst loks leiðar sinnar á gömlum heils árs dekkjum með því að minnka loftið í þeim og aka mjúklega ofan á svellinu að þjóðvegi eitt... bílfærið reyndist erfiðasta verkefni dagsins sem segir margt um veturinn 2011-2012...

Alvöru göngudagur með fólki í hæsta gæðaflokki ;-)

Sjá myndir leiðangursmanna á fésbókinni
og myndir þjálfara hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T69SkessukamburSkarSheiI070112  

Myndband þjálfara á fésbók sem lýsir vel færð og skyggni á hæsta tindi dagsins á Skessukambi:
http://www.facebook.com/video/video.php?v=2413276818470
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir