Tindferð 72 - Baksviðs milli Hafnarfjalls og Skarðsheiðar:
Blákollur - Geldingaárháls - Ytri Svartitindur - Hrossatungutindur - Rauðahnúkafjall - Innri Svartitindur - Þverfell - Skálafjall
laugardaginn 17. mars 2012

Fáfarnir fjallshryggir
um magnaðan fjallasal á fjölbreyttri leið í gullnu skyggni
með fágæta sýn á tignarlega tinda Skarðsheiðar, Hróarstinda og Hafnarfjalls
...eff fimm í tilefni ársins ;-)...



Rósa, Guðmundur, Anton, Björn, Lilja Sesselja, Hugrún, Katrín, Ingi, Jóhanna Fríða, Hjölli, Gylfi, Sylvía, Lilja Kr., Jóhanna Karlotta, Ósk, Súsanna, Jóhann Pétur, Anna Sigga, Gerður, Örn og Kjartan og Dimma laaaaangflottasta
en Bára tók mynd...

.... á eggjuðum tindi Blákolls með sjávarsýnina í vestri í baksýn...
... það hefðu ekki mikið fleiri komist á hópmynd hér ;-)

Laugardaginn 17. mars fóru 22 Toppfarar magnaða gönguleið baksviðs milli Hafnarfjallls og Skarðsheiðar þar sem farið var bratta leið upp á Blákoll og þrætt með töfrandi fögrum hrygg hans upp á tind og niður um annan eins norðaustan megin efst í botni Hafnardals yfir á ævintýralega tinda fjallshryggjarins sem rís milli hinna tveggja þekktu fjallgarða og leyndi þessi leið sannarlega á sér með snæviþöktum hálum snjóbrekkum, frosnum klettum og þriðju lengstu snjórennibraut í sögu klúbbsins þar sem við renndum okkur niður rúma hundrað metra á fljúgandi fart...

Eftir að vera búin að koma helming bílaflotans fyrir neðan Fálkakletta og Bolakletts á þjóðvegi 50... og leggja hinum helmingnum neðan við sumarbúðirnar við Ölver var lagt af stað kl. 9:30... í ísköldum vindi sem næddi um allt en björtu og fallegu veðri...

Veðurspáin verið glimrandi góð fyrir þessa helgi en vindur hafði þó bætt í sólarhringinn fyrir gönguna
og það stóðst með meiri sól og útsýni en við máttum von á miðað við spánna...

Þegar búin að fresta þessari göngu um viku vegna veðurs og því var okkur ekki til setunnar boðið... nokkrir með sárt ennið í bænum að vinna sem höfðu sannarlega ætlað síðustu helgi en svona hefur þessi vetur verið... varla hlé á slagviðrum, óveðrum, hvassviðrum... og öðrum ólyfjan í veðurkortunum... svona dagur var því dýrmætur...

Gengið var rúma 2 km til að byrja með á jafnsléttu nánast sunnan megin Blákolls með Kötlum (tjarnirnar) þar sem göngufæri var ekki fýsilegt upp með vesturöxlinni vegna glerhálra snjóskafla efst sem engan veginn láta undan hálkubroddunum og hefðu þurft jöklabrodda (mannbrodda) á hvern mann en þjálfarar ákváðu þá að fara um Hálsgil til að útiloka ekki alla þá sem ekki eiga jöklabrodda til þessarar göngu... fyrir utan að finnast það ekki nægilega öruggt að fara upp vesturöxlina þar sem fannirnar hörðu efst liggja nánast samfleitt niður í gljúfrið í miklum bratta og slysahættan því mikil ef menn renna af stað... þó þeir kunni ísaxarbremsu...

Snjóskaflinn í Hálsgili var freistandi til að byrja með... en á korti heimamanna heitir það Ölversgil...

...og endaði á að lokka okkur upp allan fyrsta kaflann eftir að allir voru komnir á hálkubroddana...

Orðinn ansi harður ofar en alltaf nægilega góður til að höggva spor með skónum...

Dimma var í essinu sínu og skoppaði fótaviss milli göngumanna upp alla þessa brekku
með sína náttúrulega hálkubrodda á fótunum...

Akrafjallið ljómaði í suðri og neðan okkur birtist smám saman stórfenglegt mynstrið
í
Geldingaárflötum og Geldingaárskógi í vetrarbúningnum eins og listavel ofið veggteppi...

Sjá myndband af uppgöngunni á þessum kafla:
http://www.facebook.com/photo.php?v=2804925249436

Slysahættan á þessum kafla var umhugsunarverð. Þegar gengið er um langan, brattan snjóskafl geta menn runnið skyndilega af stað og þar sem útivistarfatnaðurinn er rennsleipur er mjög erfitt að stöðva sig. Við gengum þarna upp í sporum sem menn höggva gjarnan í svona hópi ef ekki eru hálkubroddar með í för en með tilkomu hálkubroddana hafa menn upp á síðkastið komist almennt í erfiðara færi upp svona brekkur en þá má ekki gleymast að þegar það er orðin raunverulega hætta á að slasast við að renna niður svona brekku þá ættu menn að vera með ísexi í hönd og kunna tökin á að stöðva sig á ferð. Nú hefur þetta verið margrætt í okkar hópi áður og reynslan sýnt að þegar menn eru mjög vanir að ganga með göngustafi þá verða þeir ansi óstöðugir með ísexi í hendi en þetta þekkja allir sem gengið hafa með fólk á jökla svo það felst ákveðin slysahætta einfaldlega í því að sleppa stöfunum og taka upp exina en...

Það gefur hins vegar tilefni til að æfa sig oftar á að ganga með ísexina við hönd og sleppa stöfunum svo það sé manni tamanlegra að nota hana og geta brugðið henni á fönnina ef maður rennur af stað. Fáir í hópnum þennan dag voru með ísexi við hönd en þjálfari minnti menn á að ef þeir rynnu af stað að setja þá þyngdarpunktinn á fáa staði, hné og olnboga til að ná frekar að stöðva sig (í stað hné og ísexi ef ísaxarbremsa) og eins hæla og olnboga ef menn eru á bakinu en að okkar mati eru hálkubroddarnir ekki þannig gerðir að þeir skapi almennt slysahættu við að stöðva sig með hælunum eins og jöklabroddarnir gera sem eiga alls ekki að fara í fönnina ef menn renna af stað, þar sem þeir þeyta mönnum til og frá svo þeir missa algerlega stjórn á rennslinu og valda oft ökklabroti eða öðrum áverkum við snöggt höggið af að fá broddana í fönnina á fullri ferð. Í sæmilega bröttum brekkum sem ekki eru glerhálar heldur smá snjór ofan á fönninni dugar vel að stöðva sig með eigin þyngdarpunktum en sé gengið í mjög hálum, löngum,bröttum skafli er ekkert að stöðva mann sem fer af stað annað en ísexi eða eitthvað fyrir neðan.

Við vorum í sólskinsskapi og allt í umræðunni... Eyjafjallajökull, Þverártindsegg, Kverkfjöll
og aðrar spennandi ferðir að baki eða framundan með Toppförum, fjölskyldunni  eða öðrum ferðafélögum...

Þessi leið var brött og langdregin
en aldeilis búin að ganga vel á
snjóskaflinum í sterkum og þéttum hópi en ofar tóku grjótskriðurnar við...

... þar sem farið var sikksakk til að draga úr hallanum...

Færið með besta móti, miðað við það sem búast mátti við þar sem við vorum undir það búin að þurfa að snúa frá tindinum vegna hálku...
nægilega
mjúkt til að móta spor í skaflana og skriðurnar...

Smám saman fóru allir myndarlegu tindarnir í austri ofan af Skarðsheiðinni að kíkja á þennan stórskrítna gönguhóp...

... sem þrjóskaðist við að ná rúmlega 600 m hækkun á 1,7 km kafla...

Skyndilega vorum við komin á austari hrygg Blákolls sem við röktum okkur eftir alla leið á tindinn...

... á stórkostlegri leið þar sem allur Hafnardalurinn tók að opnast okkur...

... og veisluborðið laugardaginn 17. mars birtist í heild...

Anton og Kjartan með Hróarstinda vinstra megin hinum megin Hafnardals...

Þetta var fámenn tindferð þar sem nokkrir af sterkustu og ástríðufyllstu göngumenn klúbbsins létu sig ekki vanta frekar en fyrri daginn... ... ...hefðarkonurnar Gerður og Katrín og höfðinginn Björn þar á meðal...

Sannkallaður heiður að njóta félagsskapar þessa fólks á fjöllum
og ekki annað hægt en taka ofan fyrir þeim og leiðangrinum í heild sem kláraði þennan erfiða göngudag
sem var rétt að byrja þarna efst á Blálolli...

Hvass norðanvindur blés hressilega á köflum upp með brúnunum meðan við gengum hrygginn upp á tind...
...svo snjórinn feyktist um okkur með
hrikalegt landslagið fyrir neðan og ofan allan hringinn....

... og við börðumst við að taka myndir þegar ekki var snjókófið til að grípa þessa gullmola sem alls staðar birtust...



Anton eðalofurmaður á tindi Blákolls sem gerist ekki mikið koll-legri...
... þar var eingöngu pláss fyrir einn mann á tindinum...

Við komum okkur fyrir eins og hægt var í 22ja manna hópi... það var eins gott að við vorum ekki fimmtíu...

Útsýnið óborganlegt yfirr allan Hafnardal og fjallstinda hans...

Hafnarfjallsöxl syðri hér í vestri...
Fjallið sem við gengum
þriðjudaginn 10. mars og lentum í versta þriðjudagsóveðri í sögu Toppfara....

Vesturhnúkur á Hafnarfjallsöxl nyrðri, Suðurhnúkur, Gildalshnúkur, Miðhnúkur og Katlaþúfa á Hafnarfjalli
með
Giljatungu og Giljatunguhnúk framar sitthvoru megin við Gildal vestan megin og Skarardal austan megin
en ofan hans koma fjallsrætur
Hróarstinda sem hér sjást á mynd...

Hróarstindar í allri sinni samanþjappaðri dýrð... með Hafnardalinn og Hafnará neðan við sig og fjær á bak við eru Miðhnúkur og Katlaþúfa.
Fjærst hægra megin glittir í
Bolaklett eða hluta Fálkakletta sem rísa ofan bílanna okkar um morguninn, Skálafjall og Þverfell
sem við enduðum á síðar um daginn.

Nestistími á einum glæsilegasta fjallstindi sem gefst...
Blákolli í
722 m mældri hæð (716 m)...

http://www.facebook.com/photo.php?v=2804394956179

Við söknuðum Hönnu sem kom Blákolli á kort Toppfara með ógleymanlegum hætti á þriðjudagskvöldi í mars 2011...
en tókum hópmynd henni til heiðurs í staðinn ;-)

Fyrsti tindur af átta kominn í safnið þennan dag...

Niður hrygginn var farið til baka að norðurhrygg Blákolls sem án efa er fáfarinn...
... með gönguleið dagsins framundan... sjá breiðan fjallshrygginn sem rís austan Hafnarfjalls  og vestan Skarðsheiðar...
Geldingaárháls, Hrossatungutindur, Ytri Svartitindur, Rauðahnúkafjall og Innri Svartitindur...
ef rétt er með farið eftir heilmiklar vangaveltur út frá kortum og sögnum heimamanna...

Norðurhryggurinn er að mestu hulinn sjónum...

...nema menn séu staddir í Hafnardalnum...

Magnaður útsýnisstaður yfir Hafnardalinn með nyrsta hlutann á Hafnarfjallsöxl syðri vestast hér á mynd (þar sem við vorum í versta veðrinu til þessa á þriðjudegi um daginn), Gildal, Giljatungu og Giljatunguhnúk fyrir miðri mynd með Vesturtind Hafnarfjallsöxl nyrðri), Gildalshnúk, Miðhnúk og Katlaþúfu á Hafnarfjalli efst á mynd, Skaradal hægra megin og neðstu fjallsrætur Hróarstinda sem eru út af mynd hér.... bókstaflega allir tindar á þessu svæði komnir í safn Toppfara í nokkrum ógleymanlegum þriðjudagsgöngum eða tindferðum...

Færið gott í mjúkum snjónum með grjótskriðurnar neðar
en þó glerhálka á köflum undir snjónum sem hálkubroddarnir unnu vel á hjá flestum...

Við héldum okkur á hryggnum en vorum örugg með aflíðandi brekku neðar...

... og saklausan dalinn þar fyrir neðan...

Litið til baka fyrir þessa gönguleið neðan frá...

Skyndilega urðu menn varir við þrjá haferni sveimandi yfir okkur...

...og menn náðu sumir ágætis myndum af þeim... tók Lilja Kr bestu myndina?

Hann leyndi sannarlega á sér norðurhryggurinn og skipti um svip í hverju skrefi...

Mætti jafnvel fá nafn og það gæti verið freistandi að telja hann sem sértind...
en við látum gott heita að sinni á okkar átta tinda gönguleið þennan dag
sem mönnum finnst sjálfsagt ansi vel talið þó okkur finnist það auðvitað alveg rökrétt;-)

Hafnaráin að renna niður í vestur um Hafnardal vestan við Ytri Svartatind og sunnan við Dalamót en norðan Dalamóta heitir Grjóteyrardalur eða Tungudalur eftir kortum, nema hvort tveggja sé með Grjóteyrará rennandi í norður þaðan meðafram klettabeltinu sem við enduðum gönguna á síðar um daginn.

Aðal-fjallshryggur dagsins með Rauðahnúkafjall, Hrossatungutind, Ytri Svartatind og Geldingaárháls framundan...
ásamt
Skessuhorni, Heiðarhorni og Skarðshyrnu sem við áttum eftir að njóta í seilinarfjarlægð að manni fannst
ofan af honum síðar um daginn...

Sjá svipmikinn gíginn sem sést eingöngu vestan megin frá og sunnan...
Virðist ekki hafa nafn nema
Votuklettar eigi við um klettana hans og Hestadalsbrúnir séu hamrarnir norðar?
Hrossatungugilin Ytra og Innra lengst vinstra megin á mynd og ofan þeirra Hrossatundutindur eða Hrossatunguhnúkur sunnan hæsta tindsins sem hlýtur að heita Rauðahnúkafjall... nema allur hryggurinn heiti það  og svo séu tindarnir með hin nöfn dagsins...
sem gæti vel passað því sumir hnúkarnir eru rauðir á sumrin en aðrir dekkri...

Þá gæti sá hæsti hæglega heitið Hrossatundutindur miðað við örnefnin í kring...

Ofan af norðurhrygg Blákolls lækkuðum við okkur fyrir á meginhrygg dagsins...

Þarna gengum við upp vinstra megin og eftir hryggnum á hæsta tind sem er í hvarfi
og niður um oddinn þarna efst og dekkri hrygginn hægra megin á myndinni.

Þarna skildur leiðir og Gylfi og Lilja Sesselja gengu til baka um tunguna milli Hálsgils og Koppakofagils
en Hálsgil nefnist
Ölversgil á kortum heimamanna...
Koppakofagil er hins vegar eins á öllum kortum... svoleiðis nafn dettur engum í hug að skálda upp, deila um eða efast um ;-)

Veðrið og skyggnið einstaklega fallegt en vindur var talsverður fyrri hluta dagsins með skafrenningi á stöku stað...

Einna mest þennan kafla upp á hrygginn í suðri þar sem við settum upp skíðagleraugun
sem Ósk lýsti svo réttilega að væri "eins og að fara inn í hús" ;-)

Göngufærið var krefjandi þennan dag...

Ef ekki var farið um snarbrattar skriður þá voru það harðnaðar snjóbrekkur eða hálir klettar
...á milli þess sem við örkuðum hratt milli tinda um mjúkar lendurnar...

Jebb... þarna fórum við upp vinstra megin og niður hægra megin...

Frostið mældist -8°C  þennan dag og -19°C í vindkælingu...

Snjórinn enda helfrosinn og gaf stundum ekki mikið eftir... þessir hálkubroddar eða keðjubroddar voru alveg að gera sig á þessari leið...

Dressmannliðið... ;-)

Við urðum að taka mynd af okkur með fyrsta tindinn að baki... þrátt fyrir snjófjúkið:

Anna Sigga, Guðmundur, katrín, Björn, Jóhann Pétur, Gerður, Hugrún, Ingi, Ósk, Jóhanna Karlotta, Jóhanna Fríða, Lilja Kr., Örn,
Kjartan, Sylvía, Anton, Rósa, Súsanna og Hjölli með Dimmu fremst á mynd en Bára tók mynd.

Við tóku ávalar bungurnar milli fallegra tinda sem voru hver með sínu sniði... gígbarmar, klettar, hjallar, hnúkar...

Geldingaárháls sá fyrsti að baki hér á mynd ásamt Blákolli og Innri Svartitindur framundan aftan við þennan gíg...

Blákollur og Geldingaárháls kvöddu með virktum....

Dalamót Hafnardals og Grjóteyrardals... með sjálfa Baulu eins og hvítan pýramída þarna lengst í fjarska...

Hún nær athyglinni hvert sem maður fer vestanlands...

Við tók leið meðfram gígnum svipmikla sem vantar nafn á...

Hér bauð Jóhanna Fríða upp á leik þar sem menn duttu út ef þeir höfðu gert eitthvað af sér...
Súsanna vann enda manneskja af miklum heilindum ;-)

Gígbarmurinn...

Gígur sem gaman væri að sjá að sumarlagi í samhengi mosans, grjótsins, malarinnar, moldarinnar og gróðursins...

Geldingaárháls og Blákollur í baksýn ofan af gígbarminum...

Komin enn lengra með Blákoll lengst í burtu með Hafnardalinn hægra megin, Geldingaárháls og bungurnar á milli...

... á leiðinni upp á Ytri Svartatind...

Hafnarfjallið á vinstri hönd eða vestan megin gönguleiðarinnar...

Hróarnir, Miðhnúkur, Katlaþúfa og Þverfell.

Heilu heimarnir fyrir fótum vorum...

... heimsálfur og eyjur úr snjó..

Katlaþúfa, Þverfell og Tungukollur... sem við röktum okkur um í óborganlegri göngu á haustfagnaðinum 2010...

... þar sem við töldum níu tinda og nefndum þá sem ekki áttu nafn... eflaust umdeilanlegt en þarft okkur sem erum að ganga reglulega á þessar slóðir og betra að hafa nafn á hverjum tindi eða hnúk til að skilja betur leiðir og leiðarval þangað til aðrar nafngiftir koma í ljós...

Ofan af Ytri Svartatindi, í 636 m hæð, gátum við loksins barið fegustu fjallstinda Skarðsheiðarinnar augum frá sjaldgæfum útsýnisstað þar sem Skessuhorn, Skessukambur, Skarðskambur, Heiðarhorn og Skarðshyrna risu hver öðrum fegurri og tignarlegri...

Jú aftur hópmynd...

Þetta var eintakt skyggni og útsýni...
Við vissum ekkert hvort við myndum nokkurn tíma vera á þessum stað aftur með þessa sýn á þessa fögru Skarðsheiðartinda...
...
snjórinn/kuldinn/móðan? samt að trufla myndatökuna sem er ekki nógu skýr...

Hugrún, Hjölli, Guðmundur, Örn, Sylvía, Kjartan, Anton og Anna Sigga.
Jóhann Pétur, Björn, Ósk, Katrín Kj., Súsanna, Gerður, Ingi, Jóhanna Fríða, Jóhanna Karlotta, Rósa og Lilja Kr.
en Bára tók mynd og Dimma var komin með nóg af myndatökum ;-)

Þetta er heimasvæði Inga Skagamanns sem farið hefur hér um allt einsamall eða með fjölskyldu sinni...

Að sögn hans vilja sumir heimamenn meina að Skarðshyrna heiti Skessuhorn enda eru Skessubrunnar neðan hennar og Skessusæti...  heimamenn gefa stundum lítið fyrir sum kort þegar þeir eru spurðir... sem einfaldar ekki málin þegar rýnt er í örfefni á kortum á okkar gönguleiðum og heilu tindarnir eða fjöllin hafa hvergi nafn eða eru ekki í samræmi milli korta og er t. d. map-source gps-tækjanna einna óáreiðanlegast...

Áfram var haldið í brakandi blíðu... upp á dökkan hnúk sem við töldum heita Hrossatungutind... í 638 m mældri hæð...

Ofan hans reis svo hæsti tindur dagins... Rauðahnúkafjall...

Hópurinn með Skessukamb (okkar nafngift, er nafnlaus á kortum), Skarðskamb og Heiðarhorn í fjarska í austri...

Súsanna, Sylvía, Jóhanna Karlotta, Katrín og Guðmundur með Heiðarhorn og Skarðshyrnu í baksýn...

Þetta voru einstakar slóðir
...svæviþaktar og glitrandi í mars-sólinni...

Skessuhornið í allri sinni dýrð...

Þarna stóðum við í blindaþoku á miðnæturgöngu í júlí 2010 og rifjuðum upp slysið á Skessuhorni í mars 2009
og eigum enn eftir að fara þarna upp í góðu veðri með skyggni og útsýni...
Skessuhorn er komið á dagskrá sem tindferð í lok
ágúst 2013...

Þessa leið verðum við að fara síðar að sumarlagi þar sem litir landslagsins fá þá að njóta sín
með spriklandi sumarið rennandi niður árnar með dölunum beggja vegna...

Hróarnir, Miðhnúkur og glittir í Gildalshnúk hæstan á Hafnarfjalli, Katlaþúfa, Þverfell og glittir í Tungukoll hægra megin...

Síðar um daginn sáum við vel hvernig hamrabeltið á Klausturstunguhól nær utan um hann að norðan og austan líka...
Magnað landslag á tindinum þeim...

Eins og hendi væri veifað... dró skyndilega fyrir sólu... skýjabreiðan sem við sáum leggjast yfir höfuðborgina fyrr um daginn náði loksins í skottið á okkur þegar við stoppuðum utan í suðurhlíðum Rauðahnúkafjalls og fengum okkur nesti í annað sinn þennan dag... en skyggni hélst vel á svæðinu áfram þó eitthvað dimdi yfir Skarðsheiðinni...

Við vorum sannarlega heppin að ná þessari sýn á hana áður en skýin tóku við
að ekki sé talað um éljaganginn undir kvöldið á akstursleiðinni heim...
 eða sunnudaginn... og vikuna framundan eins og hún leit út í veðurspánni...

Rauðahnúkafjall endaði á að teljast fimmti tindur dagsins og sá hæsti á fjallshryggnum (mældur 781 m)...

Nokkrum tugum hærri en Blákollur sem var fyrsti tindur dagsins...

Færið langtum erfiðast upp á hann

Glerhart svellið undir grunnu hríminu en menn gáfu ekkert eftir...
...orðnir vel sjóaðir eftir hálku og bratta kílómetrana sem voru að baki...

En hér játaði Dimma sig sigraða og rann niður nokkra metra og gerði margar tilraunir til að komast sjálf upp
áður en Ingi tók hana í fangið og bar upp versta kaflann...

Hún var hins vegar ekki lengi að slíta sig lausa um leið og færið batnaði...

... og hlaupa alla leið upp á efsta tind...

 ...og þræða kattarhryggjarlegu leiðina til norðurs...

...sem var ansi mjó efst en örugg neðar...

Loksins tókum við að lækka okkur... yfir á Innri Svartatind sem hlýtur að vera þessi og mældist 725 m hár...

Bungan fyrir neðan heitir Þverfell og verður að teljast sem einn tindur dagsins
þar sem hún skagar til vesturs á leiðinni og við gengum um hana á niðurleið fremur en að sleppa henni ef farið er norðar eða austar...

Brekkan á Innri Svartatind var ekki árennileg úr fjarska eftir frostið og hálkuna hingað til...

...en reyndist fljótfarin og greið þegar á reyndi...

Uppi var víðsýnt til norðurs og vesturs um Borgarfjörðinn...
Þessi tindur var
töffari sem vildi láta til sín taka og neitaði okkur um niðurleið norðan megin...
...eftir að hafa fellt
fararstjórann við í glerhálli brekkunni...

... svo Örninn fann skárri leið niður... en í sömu hálkunni... sem þýddi að annað hvort renndu menn sér niður...

En það tækifæri létu mestu ævintýramennirnir náttúrulega ekki framhjá sér fara...
á meðan aðrir harðheituðu að láta bjóða sér slíka glannaskap eins og
Dimma hér sem horfir á eftir Antoni leggja af stað...

 ...svo hoggin voru spor í hjarnið sem Ingi gerði hér fyrir öftustu menn...

Og Dimma endaði í fanginu á Jóhönnu Fríðu sem brölti upp brekkuna aðra ferð
og renndi sér af hjartans lyst fullt í fangi... klárlega
snjóbrekkudrottning Toppfara ;-)

Litið til baka á Innri Svartatind á leið á Þverfellið... sjöunda og næstsíðasta tind dagsins sem mældist 651 m hátt...

Ofan Fálkakletta á Skálafjalli ef svo kallast fjallið allt ofan þeirra var merktur síðasti tindur dagsins
og sá áttundi í
469 m hæð... 

Þaðan lá beinast við að fara beint af augum niður hjallana á en þeir eru hömrum girtir í umsvifamiklum stöllum... og til öryggis... af því það er tímafrekt að leita öruggrar niðurgönguleiðar... og sérstaklega krefjandi þegar hópurinn er orðinn þreyttur eftir langan dag... ákváðu þjálfarar að freista niðurgönguleiðar um langa snjóbrekku suðvestan við Fálkaklettana....

Fálkaklettarnir vestan megin sem þjálfurum sýndust frekar ókleifir nema um snjóbrekkuna...
en við sáum svo að voru færir yzt við brekkuna sjálfa efsta hjallann....

Kjartan, Jóhanna Fríða og Rósa... með allra sterkustu göngumönnum klúbbsins...

Kjartan fór með Erni að kanna mögulega niðurgönguleið um snjóskaflinn
sem þjálfarar höfðu komið auga á suðvestan við klettahjallana...

Jú, þetta var löng en örugg brekka þakin snjó frá toppi til táar... ekkert nema lungamjúkir snjóskaflar neðar og hvergi stallar, grjót, gil né gljúfur... það var ekki spurning að renna sér þarna niður og Kjartan lét vaða... og Hugrún á eftir... og hinir ævintýramennirnir...

Brekkan sú reyndist enn eitt kryddið í ferðinni á eftir glæsilegum tindahryggjunum... svo sterkt krydduð reyndar að á meðan sumir urðu bókstaflega ölvaðir af hlátri eftir lendingu... voru aðrir sem tóku á stóra sínum við að fara þarna niður... en þarna var farið á samstöðunni þar sem hver hjálpaði öðrum eins og þurfti...

Guðmundur þar á meðal en hann gekk upp hálfa brekkuna til að sækja stafi sem urðu eftir hjá Hjölla? á niðurleið
og hann var því síðasti maður niður brekkuna:

http://www.facebook.com/photo.php?v=2804828007005

Telst okkur til að þetta sé þriðja lengsta snjóbrekkan í sögu Toppfara á eftir Súlu-brekkunni úr Glerárdal 2009 og gamla góða snjóskaflinum á Hvalfelli sem farinn var tvö vor í röð þar til eitt vorið að hann var horfinn vegna snjóleysis...

Threesome-ið Ósk, Bára og Ingi: http://www.facebook.com/photo.php?v=10150696851878249
... það virkar ekki niður snjóbrekkur... við snerum 90° á hliðina á miðri leið ;-)
Uppástunga Inga um að vera í
halarófu reynist líklega mun betri kostur...

Slysahættan við að renna niður snjóskafl eins og þennan fyrsta þennan dag felst í raun ekki í því að renna í snjónum sjálfum, þó það geti reyndar skrapað andlit og búnaður kastast í viðkomandi (sbr. ísexin sem hjóst í læri konunnar á göngu Ferðafélags Íslands á Hrútsfjallstinda 2010?) heldur í því hvar og hvernig menn lenda á grjóti eða öðru sem liggur neðar þegar snjóskaflinum sleppir.

Ef brekkan er mjög löng geta menn skoppað ansi langt inn á grýtið, lent illa og slasast alvarlega sbr. kristín Gunda þegar hún gekk á Þverfellshorn í Ljósagöngu Fjallasteina í desember 2010. Ef ekkert er fyrir neðan eins og þessa snjóbrekku nema lungamjúkur snjórinn langar vegalengdir er slysahættan óveruleg og tilvalið tækifæri að spreyta sig í að renna niður langar brekkur ;-)

Síðasta hluta ferðarinnar fórum við hífuð niður með Fálkaklettum eftir krefjandi göngu um stórkostlega gönguleið á svipmiklum slóðum með fjölbreyttum viðfangsefnum... þar sem ólíkt landslag varð á vegi okkar í breytilegu veðri og skyggni... þar sem hálkan sló tóninn mestan partinn.. og sólin réði lengstum ríkjum svo varla var svo að við tækjum eftir vindinum... enda gleðin alltumlykjandi í þéttum hópi skríkjandi göngumanna sem létu ekki allt fyrir brjósti sér brenna...

... og áttu eftir að rifja upp óborganlegu stundirnar á þessari leið dögum saman vikuna á eftir...

Kjartansbrekka
... nefnd hér með í höfuðið á þeim sem fyrstur lagði í hann... verður okkur ógleymanleg í sögunni...

Síðustu tæpu tvo kílómetrana gengum við um mosaslegnar aflíðandi lendur og þúfótt landslag við þjóðveg 50 um Borgarfjörð...
 sem sagði ekkert til um þann
töfraheim sem leynist bak við fjöllin um þessa mögnuðu gönguleið milli Hafnarfjalls og Skarðsheiðar...

Gönguleið sem þennan dag mældist okkur alls 16,9 km á 8:01 - 8:09 klst. upp í 781 m hæst með 1.525 m hækkun alls miðað við 68 m upphafshæð og 6 m endahæð... milli átta tinda ef sanngirni skal gætt hvað varðar landslag og örnefni á leiðinni...

Tindferð sem fer í sérflokkinn
hvað landslag,veður, útsýni, stemmningu og erfiðleikastig varðar!

Næsta tindferð á dagskrá eftir viku um átta tinda kringum Flekkudal á Esjunni... til að halda réttri áætlun... mun léttari gönguleið en þessi en lengri vegalengd með stórkostlegum útsýnisstöðum norðan megin og sunnan Esjunnar... vonandi láta færri sig vanta en þessi óborganlegi kjarni sem aldrei klikkar í tindferðunum... það er grátlegt að fleiri njóti ekki uppskeru eins og þessarar hér um Blákoll og Rauðahnúkahrygg eftir krefjandi þriðjudaga vikum saman í vetur... svona göngudagar eru engum líkir...

Allar ábendingar hvað nafngiftir varðar vel þegnar, ekkert heilagt í þessu af okkar hálfu
heldur eingöngu viðleitni til þess að koma nöfnum á þá hnúka og tinda sem við gengum um þennan dag.

Allar myndir þjálfara úr ferðinni hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T72Blakollur8TindaGanga270312#

... og frábærar myndir leiðangursmanna á fésbókinni ;-)

Og vetrarfjallamennskunámskeið á dagskrá í vikunni...
...aldeilis gott að læra, rifja upp og æfa t. d. ísaxarbremsu eftir allar þessar snjóbrekkur ;-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir