Tindferð 107 Hekla frá Næfurholti
laugardaginn 26. apríl 2014

Hekla
í fótspor höfðingja frá Næfurholti
á afreksgöngu í blankalogni og sól á töfrandi fagurri  leið

Næst erfiðasta ganga Toppfara og ein sú allra fegursta frá upphafi var laugardaginn 26. apríl 2014
þegar gengið var með nokkrum af óþreytandi ofurmennum klúbbsins á fjalladrottningu Suðurlands, Heklu
í fótspor höfðingja Toppfara, þeirra Björns Matthíassonar og Ketils Arnar Hannessonar
sem gengu svipaða leið á eldfjallið árin 1956 og 1957...

Lagt var stað kl. 9:07 frá saklausu bæjarhlaðinu við Næfurholt um fjárhúsin suðvestan megin undir Bjólfelli...

Öræfajökulsfarar meirihluti leiðangursmanna...
einbeittir í þjálfun sinni fyrir þrjá af hæstu tindum landsins í einni göngu sem stefnt er að í lok maí...

Ósk, Ásta Guðrún, Guðmundur Jón og Katrín.

Veðrið gat ekki verið betra.... blankalogn og háskýjað...
sem átti svo eftir að verða heiðskírt fljótlega er leið að hádegi...

Gengið var inn með ánni að skarðinu milli Stritlu og Bjólfells...

... þar sem við höfðum brölt um fyrir ári síðan á göngu um Bjólfell og félaga í nöpru vorveðri með snjóflygsurnar fjlúgandi um allt...

Búrfellið skreytti fyrsta hluta leiðarinnar í norðan megin og við rifjuðum upp jólagönguna á það síðasta nóvember...

Þegar komið var upp í Mosana blasti Heklan við ægifögur og stór um sig...

Nærmynd... aðeins að fela sig í skýjunum sem svo hurfu með öllu síðar um morguninn sem fyrr segir...

Farið var rösklega gegnum Mosana og kjarrið sem gefur þessu svæði eflaust ansi notalegan svip þegar líður á sumarið...

Fljótlega komin í skarðið norðan við Gráfellið þar sem við snerum síðast upp á í stað þess að halda áfram upp hálendið...

Bjólfell fjærst vinstra megin og efst, þá Stritla, Hádegisfjall, Langafell og svo Gráfell vinstra megin...
með Mosana - sléttuna á milli fjalla og hraunbrúnina sem við röktum okkur meðfram...

Hraunin frá Heklu renna hvað út í annað... misgömul og misúfin...

Það var magnað að koma upp á hraunbrúnirnar og sjá hraunbreiðurnar allar undan eldfjallinu...
Selsundsfjall, Miðmorgunshnúkur og Botnafjalll í fjarska...
fjöll sem komin eru á vinnulistann :-)

Jú, tökum fyrstu hópmyndina hér með hraunið allt í baksýn og Rauðöldu í endann og svo drottninguna trónandi yfir öllu...
Ósk, Aðalheiður Ei., Þórey gestur, Arnar, Jóhann Ísfeld, Steinunn Sn., Njóla, Örn, Guðmundur Jón, Rósa, Ásta Guðrún og Ólafur V.
Sigga Sig, Katrín Kj., Björn Matt, Sigríður Arna, Gerður Jens., Irma og Lilja Sesselja en Bára tók mynd.

Það var veisla framundan...

...dúnmjúkar hraunbreiður í miklu ævintýralandi sem á sér sérstakan sess í lífi okkar hér með...

...algerlega nýr heimur að upplifa...

Þarna verðum við að koma aftur síðar og ganga á fjöllin sem enn eru ógengin á svæðinu...

Við fylgdum kindagötunum sem voru þónokkrar þarna um allt...

... og enduðum á góðum nestisstað...

Fyrsta pásan af nokkrum í þessari ferð enda langt og strangt framundan...

Heklan tók að rífa af sér á þessum tímapunkti og við fylgdumst með henn opnast alveg á nokkrum mínútum...

Eðalvinkonur Aðalheiður og Njóla... ásamt Ólafi Vigni :-)

Eftir góða næringu var haldið af stað áfram upp hraunið...

Við fylgdum nákvæmum leiðbeiningum bóndans að Næfurholti, Ófeigs Ófeigssonar sem sagði okkur að sneiða framhjá Rauðöldu hægra megin og fara skarðið milli hennar og Rauðölduhnúks... þangað væru ágætis kindagötur að fylgja en eftir það yrðum við að gæta þess að fara ekki beint í úfna hraunið ofar eins og menn hafa stundum gert og er allt of tafsamt, heldur halda okkur við hraunbrúnina upp að Langöldu...

Þetta stóðst algerlega þó stundum hefðum við hikað þegar ofar dró og hraunið virtist ófært með öllu...

Það var nefnilega gott að lenda í smá úfningum þennan fyrstakafla til að finna á eigin skinni hversu illfært úfið hraun er...

Kynjamyndirnar voru um allt... lítill fílsungi teygði hér út ranann...

Litið til baka... algert ævintýraland að fara þarna um...

Hvílíkir litir á þessari leið og það svona snemma vors...

Stundum smá torfærur en almennt góð leið...

... en svo úfnaði það...

... allt var laust í sér og iðaði undan okkur...
svo þetta tók langan tíma þó hraunið væri tiltölulega mosagróið...

Ekki langur kafli en mjög tafsamur og tók af allan vafa um að
það er varla hægt að klöngrast yfir hvaða hraun sem er nema gefa sér marga klukkutíma aukalega við það !

Mikill léttir að klára hraunið og komast í skarðið milli Rauðöldu og Rauðölduhnúks... sem voru ansi freistandi en við ákváðum að vera skynsöm og halda stefnu á Heklu og frekar ná þessum tindum í bakaleiðinni ef tími eða orka gæfist, og það reyndist skynsöm ákvörðun þar sem þetta átti eftir að vera afskaplega langur dagur... og því var ákveðið að ofangreind fjöll bíða betri tíma á komandi ári 2015 í sértindferð :-)

Skaflinn milli fjalla var langur og góður fyrir fæturna...

Höfðingi Toppfara, Björn Matthíasson, með í för en við vorum að ganga í fótspor hans þessa leiðina frá því hann fór hana árið 1956 með félögum sínum:

"Þetta var löng og ströng ganga, sem rifjaði upp gamlar minningar frá því fyrir 58 árum síðan.
Ég man það bara eitt úr þeirri göngu að við gengum lengi í nýja hrauninu sem þá var 9 ára gamalt, mjög egghvasst og hvergi mosagróið. Skórnir okkar voru leðurskór sem eyðilögðust meira og minna í hrauninu, þannig að við urðum að grípa í strigaskóna þegar á reyndi.
Það var snjólaust alla leiðina, en það rauk upp úr holum víða á fjallinu, frekar draugalegt.
Ensku skátarnir, gestir okkar, voru frekar hræddir við þetta umhverfi og fegnir að komast niður".

Ketill Arnar Hannesson, hinn höfðingi Toppfara sem því miður hefur ekki getað verið með okkur síðustu mánuði vegna veikinda, gekk og á Heklu 1957 ásamt eiginkonu sinni Auði Ástu Jónasdóttur (en þau unnu við Búrfellsvirkjun á þessum árum?) (foreldrar Báru, þjálfara) og þau lýstu þessu svipað...

"...hraunið var illfært og fór illa með skóna, þetta var löng leið og torfær og veðrið síbreytilegt, gott til að byrja með en þoka kom á efsta tindi... við vorum með fjórar pönnukökur í nesti og ekkert meira... tvær á mann... og vatnsflösku... minnir að við værum með kóka kóla með okkur í glerflösku en kannski misminnir mig með það, var kókið komið á þessum tíma?... þorðum ekki að fá okkur snjó þegar við vorum búin með vatnið af því það var sagt að mætti ekki... við tjölduðum fyrir neðan og lögðum af stað um sex um morguninn og vorum komin til baka einhvern tíma um kvöldið... menn trúðu því ekki að við hefðum farið þarna upp og enn í dag halda sumir því fram að við hefðum aldrei farið þarna upp... en við gerðum það... ég man svo skýrt eftir leiðinni... get ennþá kallað fram veðrið í huganum og andrúmsloftið á leiðinni upp og hvernig allt var þarna uppi rjúkandi heitt og sérstakt... við ætluðum að skoða okkur meira um uppi en þegar þokan skall á þá flýttum við okkur niður því hún var köld og hráslagi í henni... við vorum ekki svo vel klædd... þetta var hálf hættulegt að vera þarna uppi í svo mikilli hæð... skil ekki hvernig við fórum að þessu svona þegar maður hugsar um það núna.... (Auður Ásta Jónsdóttir, 2014).

Sigríður Arna, Aðalheiður, Lilja Sesselja og Njóla með fjallgarðana sunnan Langjökuls í baksýn fjær og Langafell og félaga nær...

Skaflinn var langur og hæfilega mjúkur...

Hann sást úr bústað þjálfara í Landsveitinni út maí-mánuð sem áberandi hvít rönd niður milli fjallanna...

Súmmað að... Heklan hvít og fersk að sjá... hvílíkt takmark dagsins !

Ofar var hópnum safnað saman...

Smá pása meðan þjálfarar réðu ráðum sínum... Ófeigur bóndi hafði sagt okkur að halda strikinu upp af þessu gili en ekki freistast til að fara of snemma út í hraunið sem virtist eiginlega illfært eða allavega mjög torfært en við sáum heldur ekki sérlega góða leið meðfram Rauðölduhnúk og veltum fyrir okkur að fara upp á hann til að komast fyrir hraunið...

Örn fór á undan meðan menn hvíldust og kíkti upp með hrauninu á leiðina sem bóndinn mælti með...
já, það var fínasta leið utan í jaðrinum á því við brekkurnar...
ef við héldum okkur í þeim ætti þetta að sleppa... sem það og gerði...

Skaflarnir nýttust vel þegar þeir gáfust...

Og svo var farið upp þá ofar til að sneiða hjá þessu illfæra hrauni sem hér sést og hefur runnið í sínum tíma alla leið að Rauðöldu...

Eflaust erfiðara að sumri til en samt vel fært ef menn halda sig í jaðrinum og sneiða með eldri brekkunum...

Hvílíkir litir í þessari ferð !

Skaflarnir voru nýttir eins og hægt var til að þurfa sem minnst að fara út í hraunið...

En stundum komumst við ekki hjá því og þá var sláandi hversu seinfært þar var yfir...

Langalda framundan á vinstri hönd og bara eftir að komast yfir þennan hraunkafla...

Þetta gekk ótrúlega vel miðað við hvernig okkur leist á þetta fyrst en samt tafsamt..
sjá Rauðölduhnúk brúnan í baksýn og Bjólfellið og félaga blá enn lengra í burtu...

Síðasti kaflinn að Langöldu... mestmegnis á snjó með hrauni skreyttum jöðrum á köflum...

Langalda... mjúk og falleg og átti eftir að gefa okkur síðasta nestistíma dagsins á niðurleiðinni um kvöldið...

Litið til baka... sjá úfið hraunið, Botnafjall, Miðmorgunshnúkur og Selsundsfjall
og svo Rauðölduhnúkur lengst til hægri...

Mikið spjallað og víman í hámarki á þessum framandi, hraunuðu slóðum...

Uppi á Langöldu var sami steikjandi hitinn... blankalogn og sól... brakandi veisla...

Efri: Aðalheiður Eiríks., Þórey gestur, Arnar, Rósa, Örn, Steinunn Sn., Ólafur Vignir, Lilja Sesselja, Jóhann Ísfeld, Ósk S., Njóla, Guðmundur Jón, Ásta Guðrún, Sigga Sig.
Neðri: Gerður Jens., Irma, Björn Matt, Katrín Kj., Sigríður Arna en Bára tók mynd.

Útsýnið ofan af efsta hluta Langöldu til Heklu var magnað...

Litið til baka með Rauðölduhnúk og Bjólfell í baksýn...

Sólin komin hátt á loft og hitinn enn rísandi og magnaðist í giljum og dældum...

Heilu hraunrennurnar nýttust sem gönguslóði...

Snjór enn í öllum giljum...

Alveg hreint töfrandi landslag...

Björninn var miðjumaður þennan dag og í toppformi
enda á leið á Sveinstind 24. maí með FÍ þar sem hann komst ekki okkar helgi á Öræfajökulinn...

Við vorum farin að velta fyrir okkur uppgönguleiðinni
þar sem svipmikið landslagið í vesturhlíðum var farið að sjást ansi vel...

Góður gönguhraði þennan dag og almennt gengið í þéttum hópi...

Hitinn af heitum svörtum sandinum og rjúkandi mosanum sést vel á þessari mynd...

Brátt varð landslagið gróðurlausara...

... við vorum að komast upp að Höskuldsbjalla sem er einn gígurinn af mörgum á þessu svæði...

Færið gott og slapp vel í bakaleiðinni líka...

Sjá rjúkandi hitann af hrauninu hér...

Stórmerkilegt landslagið á Heklu sífellt greinanlegra...
þarna voru heitir gígar, brattar snjóbrekkur, ísilagðir hamraveggir...

Litið til baka í hitamistrinu...
Rauðölduhnúkar og svo Bjólfellið og félagar neðar...
komin ótrúlega langt frá bílunum...

Langur kafli þarna upp og menn orðnir ansi þyrstir og svangir þegar áð var við Höskuldsbjalla...

Nærmynd... gátum ekki beðið eftir að skoða þessar brekkur aðeins betur...

Kærkomin nestistími...
hér urðum við að hlaða okkur vel fyrir síðasta kaflann upp sjálfa Hekluna alla leið á tindinn
þar sem næsta nestispása yrði síðar um daginn...

Tindfjallajökullinn logaði í austri...
og átti eftir að töfra okkur upp úr skónum fimm dögum síðar fimmtudaginn 1. maí í einni flottustu jöklagöngunni í sögunni...
 sem var ótrúlegt eftir annan eins dag á Heklu í sama botnlausa blíðviðrinu...

Nýlegt hraunið á Heklu ofar undir bröttustu brekkunni...

Hér kom snjórinn sér vel gegnum úfið landslagið...

Hraunrennan sem átti eftir að vera okkar uppgönguleið framundan...

Litið til baka eftir Selsundsfjalli og félögum...
ein samfelld gígaröð langt niður á láglendi enda er Hekla og stórt svæði þar í kring ein megineldstöð
og í raun eldgosahætta á frekar stóru svæði þarna í kring...

Höskuldsbjalli vinstra megin... enn einn gígurinn en þennan gengum við ekki á að sinni...

Stórt takmark framundan virðist nálægt þegar þangað er stefnt, en er lengra en það sýnist...

Við komum okkur upp brekkurnar... þurftum aldrei að spá í snjóflóðahættu þennan dag,
þar sem brekkurnar voru annað hvort of aflíðandi (undir 30° halli) eða við gengum í þunnum snjó og á hrauni eins og þarna upp...

Eyjafjallajökullinn glitraði í sömu blíðunni... þar sem fjórir Toppfarar... Óskar Wild, Kjartan, Jóhannes og Gylfi
skíðuðu niður rjúkandi flottar brekkurnar í sama blíðskaparveðrinu
en við heyrðum í þeim þegar þeir voru komnir upp á topp og við komin í ellefu hundruð metra hæð...

Vestmannaeyjar og þríhyrningur...
saga okkar á þessum stöðum er í sama hágæðaflokkinum og þessi Hekluferð sem við vorum stödd í...

Botnafjall, Miðmorgunshnúkur og Selsundsfjall með Háafjall neðar en austar voru svo trippafjöllin...

Bjólfell og félagar... með sléttuna Mosa á milli sín...
Þarna gengum við hringleið vorið 2013 í svolítið vetrarlegu veðri í byrjun apríl

Brekkan sem nú tók við tók í í hitanum...

Það var hálfgerður Spánar-andi yfir þessu öllu saman...
Búrfell í Þjórsárdal í baksýn...

...og allt Langjökulssvæðið enn fjær...

Búrfell í Þjórsárdal.
alveg ótrúlega flott útsýni úr þessum hlíðum Heklu ekki komin lengra upp...

Skýjaslæðurnar niðri á láglendi komu aldrei til okkar...

Brátt komu hrikalegir hamrarnir úr hraunrennunni í ljós eftir því sem ofar dró...

Við vorum sannarlega stödd í töfralandi virks eldfjalls með ægilega sögu...

... sögu sem rann niður hlíðarnar í alls kyns myndum...

... og gapti við okkur hvert sem við fórum...

Stórskornir og eldheitir gígar vörðuðu greinilega rjúkandi heita leiðina á tindinn...

Þetta mikilúðlega landslag kom okkur á óvart... þetta var engin hefðbundin langdregin brekkuganga...

Hún var sannarlega vel þess virði að fara ef menn kæra sig á annað borð um að sækja jafn langan veg upp og þarna megin...

Við vorum eins og flugur flögrandi um stórvaxna gígana lekandi niður brattar brekkurnar...

Ekki hentugt að þvælast þarna um í þoku
þar sem gígarnir sjást ekki endilega frá öllum hliðum og liggja djúpir og faldir um allt...

"Gullna hliðið" var þessi renna kölluð þar sem menn skiluðu sér upp gígbarminn með annan gíg gapandi djúpan fyrir neðan...

Öllum fagnað fyrir að komast gegnum hliðið...

Sjá grýlukertin hálfbráðnandi ofan af börmunum...

Annar gígur ofar...

Litið til baka með Höskuldsbjalla dökkan þarna neðar... hann verður fyrr dökkur og snjólaus en aðrir og menn spyrja gjarnan bóndann að Næfurholti hvort hitinn sé farinn að rjúka úr Heklu og von sé á gosi þegar þeir taka eftir þessum áberandi dökka bletti utan í henni suðvestan megin... en svo er ekki, hann bræðir einfaldlega snjóinn fyrr af sér...

Axlargígurinn suðvestan megin í Heklu var risavaxinn...

Og við þræddum okkur upp með brúnum hraunrennunnar...

...sem ætlunin var fyrst að ganga um en hún var heit og snjórinn bráðnandi ofan á hrauninu svo það var ekki góð leið...

... og endaði í dýpra gili neðar...

Hvílíkt landslag...

Nú opnaðist meira um útsýnið niður á Fjallabakið allt...

Litið til baka... óskaplega langt niður á Bjólfellið sem var kennileiti bílanna þennan dag...

Hitinn var rjúkandi í axlargígnum enda hluti af syðri enda hraunsprungunnar
sem liggur 5,5, km eftir Heklunni frá suðvestri til norðausturs...

Við röktum okkur eftir brún gígsins...

... sem voru magnaður útsýnisstaður af náttúrunnar hendi...

Annar gígur sunnan megin...

Fjallabakið... þarna ætlum við eitthvurt sumarið að ganga um "bak við Heklu" eins og Anton og fleiri Toppfarar hafa beðið um :-)

Við sáum vel handan gönguleiðarinnar um Laugaveginn sem var sláandi flott...

Göngufærið ennþá gott... og átti ekki eftir að verða sérstaklega slæmt miðað við það
sem oft gerist við göngur á jökli eða um snævi þaktar leiðir að vori í svona steikjandi hita eins og þennan dag...

Nú voru síðustu brekkurnar framundan en ótrúlega langt samt eftir enda teygir Hekla sig vel til suðvesturs niður af efstu tindum...

Þarna fórum við að rekast á og ganga yfir og jafnvel óvart ofan í bráðnandi snjósprungur...

... þar sem hitinn af Heklu er óðum að bræða ofan af sér snjóinn neðan frá...

Við sniðgengum þetta eins og mest við máttum...

... þó stundum væri ansi erfitt að sjá hvar þessar "hitasprungur" væru...

... enda fór svo að Örn og Rósa sem gengu fremst
gengu skyndilega ofan í eina sem brast undan þeim svo þau lágu í valnum en varð ekki meint af...

Sjá bráðnandi hraunið að koma undan snjónum...

Rjúkandi hitinn í axlargígnum...

Litið til baka þar sem við komum upp...

Sérstakur snjórinn á þessum efsta kafla... brakandi óreglulegur...

Hitasprungan niður eftir hlíðunum...

Efsta brekkan alla leið á hæsta tind... við vorum að verða komin...

Sjá snjóinn blómkálslegan...

Langjökull í allri sinni víðfeðmi og tindarnir hans allt í kring...

Þetta var ein snjóborg þarna upp... harður á milli þess sem hann var mjúkur og gaf eftir ofan á heitu hrauninu...

Það var þægilegra að fara bara rennuna síðasta kaflann...

Litið til baka eftir hitasprungunni...

Ofan af tindinum hér...

Upp vorum við komin á syðri tindinn eftir 16,16 km göngu eða svo á rétt rúmum 8 klst.
og klukkan var rúmlega fimm...

Það var eins gott að taka vel til matar síns eftir langa göngu og annað eins framundan til baka...

Hitinn af fjallinu og hitinn af sólinni vermdi allt...

Krakatindur sem hefur verið í sigtinu síðan 2013... við förum á hann einn daginn... ósköp er hann lítill að sjá svona ofan af Heklu...

Aðalheiður las upp fallegt ljóð á tindinum... af henni stafar dásamlegum anda sem ekki er hægt að lýsa... eingöngu njóta...

Björn fór með Gunnarshólma orðrétt og spaklega... ekki í fyrsta sinn sem við fáum að njóta ljóðaþekkingar hans á fjalli :-)
Hvílíkur afreksmaður og fyrirmynd fyrir okkur hin... hélt sér í miðjum hópi á þessari göngu og í toppformi...
eins og í mörgum öðrum erfiðustu ferðum Toppfara gegnum söguna...
Við ætlum öll að feta í fórspor hans eins og heilsan leyfir !

Það var ráð að taka myndir af sér á þessum stað...
margir að sigra Heklu í fyrsta sinn sem er ansi smart að gera um þessa fáförnu og erfiðu leið...

Á nyrðri tindinum þar sem gestabókin og sólarsellan er sást til mannaferða...
6 manna fjallaskíðamenn frá Íslandi með erlendum gestum...

Fjallabakið til norðurs... Krakatindur, Löðmundur og Rauðufossafjöll ofl.

Hvað sáum við eiginlega langt til norðausturs ?

Til suðurs... Mýrdalsjökullinn og Laugavegsgönguleiðin að hluta....

Eyjafjallajökull og Tindfjallajökull...

Auðvitað fórum við yfir á nyrðri tindinn...

Snjórinn bráðnandi undan hitanum og brast ófyrirséð undir okkur í tíma og ótíma
svo betra var að fara meðfram hitasprungunni...

Kornóttur og veðurbarinn snjórinn að bráðna undan sólinni að ofan og Hekluhitanum að neðan...

Einstakt landslag sem hvergi fæst viðlíka og þarna...

Lognið svo mikið að hitinn rauk beint upp af tindinum...

Fjallaskíðagengið... þau kölluðu sig hvað aftur... það var eitthvað flott og áræðið nafn...
Þrjú íslensk og þrír erlendir gestir frá Austurríki...
Skíðuðu svo niður norðan megin og ætluðu á Eyjafjallajökul daginn eftir... bara geggjað :-)

Við máttum fara að koma okkur til baka... farið að kvölda og rúmir16 kílómetrar framundan niður úr 1.500 m hæð...

Sigga Sig. safnaði hraumolum og vikri í listaverkin sín
og átti svo eftir að gefa okkur Hekluförum hverju og einu glerbjöllu með dinglandi hraunmola og vikurkenndri skál...
hvílíkur dýrgripur !

Það var erfitt að geta ekki verið lengur þarna uppi í þessu fallega veðri og skyggni...

Sólarsellan sem var ekki þarna síðast þegar við vorum á Heklu að okkur minnir...

Sífellt verið að auka vöktunin á fjallinu sem vonandi gefur möguleika á að sjá fyrr fyrir Heklugos en með hálftíma fyrirvara eða svo...

Sjá bráðina af nyrðri tindinum yfir á syðri tindinn þegar við snerum loks til baka á "okkar" tind...

Magnað !

Þarna var klukkan orðiin sex og kominn tími til að arka af stað niður...

En það varð að taka eina hópmynd á tindinum með fjallabakið allt í baksýn !

Ekki til flottari staður til að vera á en á tindi Heklu þennan einstaklega flotta dag:

Efri: Ósk, Guðmundur Jón, Aðalheiður Ei., Þórey gestur, Rósa, Björn Matt, Örn, Sigríður Arna, Jóhann Ísfeld, Ólafur Vignir og Njóla.
Neðri: Bára, Ásta Guðrún, Katrín Kj., Lilja Sesselja, Irma, Gerður Jens, Arnar og Sigga Sig.

Ofurmenni hér á ferð og ekkert annað !

Niðurgönguleiðin var nánast alveg sú sama og upp í mót...

Ansi langt niður á Mosabreiðuna - gulu sléttuna sem þarna sést lengst í fjarska við Bjólfellið og félaga...

En vel gekk þetta... þjálfari gaf skýr fyrirmæli um að halda hópinn og nýta sameiginlegar pásur frekar en að stoppa í tíma og ótíma því slík stopp eru fljót að teygja vel á tímanum fyrir hópinn í heild og menn fóru vel eftir þessu, enda er þetta með hröðustu niðurgöngum í sögunni...

Orðið aðeins dýpra í snjónum eftir heitan daginn...

...en samt slapp þetta ótrúlega vel...

Sólin farin að vera lengi ansi hátt á lofti svona í lok apríl sem gerir mönnum kleift að leyfa sér aðra eins ofurlanga göngu og þessa...

Katrín og Guðmundur með Toppfaramerkið á bakpokanum en Katrín átti svo eftir að sjá um hóppöntun á þessu merki fyrir hópinn í maí sem var afskaplega vel þegið af þjálfurum :-)

Núna bakaði sólin okkur í andlitið á niðurleið...

 ...sem tók í þegar mest allur "vetrarfatnaðurinn sem þjálfarinn skipaði öllum að taka með" var ofan í þungum bakpokanum ásamt jöklabroddunum og ísexinni sem aldrei nýttust í þessu sumarfæri og sumarveðri sem bókstaflega réð öllum ríkjum....

Þetta var með heitustu dögum í sögunni eins og margt annað í þessari ferð sem sló nokkur met...

Minnti á Þríhyrning á köflum...

Frábær samstaða á niðurleiðinni og þétt stemmning...

Svo margar fallegar myndir teknar í ferðinni að það er erfitt að velja úr...

Það var hálfpartinn skíðað niður í snjóbráðinni þegar gaf á brattann...

... en menn ótrúlega sprækir á löngum degi...

Sem fyrr segir, ekki gott að vera þarna í slæmu skyggni því landslagið er síbreytilegt og ófyrirsjáanlegt...

Útsýnið orkugefandi á þessari löngu leið...

Jú, rösklega var farið enda vildi Örn halda vel áfram til að komast gegnum allavega fyrri torfæra hraunkaflann
sem beið okkar talsvert neðar, áður en myrkrið skylli á sem var skynsamlegt...

Tímasparandi rötunarlega séð að strauja gegnum slóðina okkar fyrr um daginn
og þurfa ekki að þreifa sig gegnum þoku, lesa í landslagið né elta gps-punkta...

Fegurðin þennan dag...

Langa brekkan að baki og ávalar bungurnar eftir sem var forréttinda-verkefni...

... í samanburði við hraunið sem var svolítið kvíðavekjandi verkefni í minninu
eftir að hafa þreifað sig gegnum það á tveimur krefjandi köflum á uppgönguleið...

Svo við nutum þess meðan það varði að strjúkast eftir saklausum snjónum á sléttunum...

... yfir hraunhóla sem voru vel færir upp og niður...

Dýrðarinnar dagur... sem fer langt með að jafnast á við gosgönguna sem er sú allra flottasta í sögunni...
Það er þess virði að takast á við mjög krefjandi verkefni því það situr sterkar eftir en fátt annað í sálinni...

Litið til baka á eldfjallið...

Jæja... hraunið tók loks við...

... en þetta var einhvern veginn greiðfærara til baka en á uppleiðinni þrátt fyrir þreytuna...

Vorum barasta snögg að komast að Langöldu...

... þar sem hópmyndin var tekin fyrr um daginn... en mikið var þetta öðruvísi í bakaleiðinni...
sól og skuggar aðrir, aðkoman ofan frá og hinum megin...  litirnir aðrir í kvöldhúminu en morgunskímunni...
Stundum eru gönguleiðir fram og til baka ekkert til að kvarta undan því sjónarhornið er náttúrulega allt annað...

Hérna voru menn orðnir ansi svangir og þyrstir og langeygir eftir smá hvíld
sem var plönuð ofan á Langöldu áður en fyrri erfiði hraunkaflinn tæki við...

Heklan farin að fjarlægjast og við vorum strax farin að finnast ótrúlegt að hafa farið þarna upp...

Hvílík mýkt á fagurmótaðri Langöldunni...

Loksins hvíld, matur, drykkur...

... í brakandi kvöldsól og útsýni yfir allt Suðurlandið og til suðvesturs...

Örninn valdi vel niðurgönguleiðina og fann betri leið til baka en á uppleið um lengri og stærri snjóskafla
enda ansi kærkomið að geta staðið ofan á Langöldu og metið allt landslagið niður að Rauðöldu í góðri birtu sem enn gafst...

Þessi leið reyndist frábær og stytti gönguna um einhverja hundruð metra fyrir utan að einfalda yfirferðina talsvert...

Litið til baka með síðustu menn að koma niður af Langöldu...

Við komumst samt ekki hjá því að fara gegnum úfna hraunkafla...

... og stórbrotnara var það en á uppleið...

... og svo fallegt að þreytan komst lítið að...

Við vorum óðara komin niður að Rauðölduskarðinu...

... sem við ætlum að ganga aftur um síðar í sérstakri Rauðölduferð árið 2015...

Þetta er sérstakur heimur sem menn bara verða að komast í návígi við...

Kvöldroðinn að taka við þennan síðasta kafla frá Rauðöldunum...

... og himininn varð smám saman óskaplega fagur...

... í þessum einstaka friði sem ríkti allan þennan dag...

Í þessum polli náum við okkur nokkur í vatnssopa á tómar flöskurnar... magnað að vera svo þyrstur að maður krjúpi eftir vatni á svona stað... svolítið litað vatnið af rauðu og gulu... hva, örugglega afskaplega hollt og fullt af járni og óskilgreindum, náttúrulegum næringarefnum... hvað er eiginlega hrárra og lífrænna en þetta,?...maður bara spyr á þessum hráustu og lífrænustu tímum :-)

Skarðið okkar með langa skaflinum...

Höfðinginn og listamaðurinn...

Litið til baka á Hekluna í kvöldhúminu... roðaslegin í sólarlaginu...

Já, þetta var sannarlega langur dagur...

Síðasta þétting á hópnum eftir Rauðölduskarð með síðari hraunkaflann framundan...

....sem Örn ætlaði líka að sniðganga betur á niðurleið svipað og slapp svo vel um Langölduhraunið...

Enginn til í langsótt brölt um mjög illfært hraun eins og um morguninn...

... svo hann prófaði að elta kindagöturnar neðar...

... og fann þessa líka flottu leið á góðum götum alla leið upp og niður dúnmjúka hólana...

Mikið gott að þurfa ekki að þreifa sig um hraunið...

Heklan að kveðja sólina í hinsta sinn þennan dag...

Kvöldsólarloginn var alveg í stíl við fegurðina sem þessi dagur var frá upphafi til enda...

Farið að skyggja um leið og sólin settist...

... en við sáum vel til og vorum komin niður á Mosana áður en það varð verulega skuggsýnt...

Við hefðum ekki viljað fara um hraunkaflana í myrkrinu...

Um mosana straujuðu menn hver á sínum hraða en orðið svo skuggsýnt síðasta kaflann niður um skarðið við Stritlu að aftasti þjálfari hafði áhhyggjur af þeim sem hvorki nutu fremsta né aftasta þjálfara en þar er helst að menn geti villst af leið þegar hópurinn dreifist um langan veg á niðurleið... en það voru óþarfa áhyggjur... menn héldu hópinn í sjónmáli að mestu, einhverjir fóru á undan fremsta þjálfara og einhverjir fóru yfir Næfurholtslæk á erfiðari stað en á uppleið en allir skiluðu sér svipaða leið um fjárhúsin að bílunum...

...þar sem NB skyndilega fór að blása fyrsta vindinum þennan dag...
í óvæntum nöprum norðanvindi rétt við bílana sem kom okkur í opna skjöldu
og sló okkur hálf harkalega út úr logninu sem ríkt hafði allan þennan dag... ótrúlegt alveg !

Það blés vindur um Landsveitina allan þennan dag og mönnum fannst lygilegt að það hefði verið logn á Heklu svo við vorum sannarlega í sérstökum töfraheimi eldfjallsins, enda mun þessi ganga standa upp úr nánast öllum okkar ferðum í sögunni þegar tímarnir líða..

Alls um 33 km +/- eftir því hvaða gps tæki fær að ráða og hvað hver og einn tók mikið af aukakrókum á löngum degi...
á 13:38 - 13:45 klst. upp í 1.503 m hæð með 1.484 m hækkun alls miðað við 121 m upphafshæð.

Sjá hér fyrri hluti leiðarinnar - rúmast ekki á góðu korti nema klippa hana í tvennt !

Síðari hluti leiðarinnar.

Gula línan leiðin okkar þennan dag frá Næfurholti um suðvesturöxlina upp á tind suðvestan megin
og rauða línan hefðbundin leið á Heklu norðaustan megin
sem við fórum m. a. í október 2011 og var 14,9 km eða rúmlega helmingi styttri.

Hjartans þakkir elsku vinir með hreint út sagt stórkostlegan göngudag sem eftir vandlega íhugun telst okkur þjálfurum til næsterfiðustu göngu Toppfara frá upphafi, á eftir gosgöngunni miklu árið 2010 og ýtir þar með Hrútsfjallstindum (langtum fleiri og lengri pásur og hægari göngutími), Botnssúlunum öllum fimm (styttri vegalengd) og Jökulsárgljúfrum (léttari leið) ofl. mögnuðum ofur-göngum niður um eitt sæti... en þetta er alltaf afstætt NB...

Upp úr stendur sannkallað afrek á fullkomnum deg um ævintýralega og töfrandi fallega leið
upp suðvesturhlíðarnar á Heklu sem alltaf blasa við okkur á Suðurlandi
og verða okkur aldrei samar eftir þennan dag.

Haf þökk elsku Björn Matthíasson fyrir allan þinn innblástur, kraft, elju og ekki síst vináttu gegnum árin...
fyrir að vera okkur hinum þessi ómetanlega dýrmæta fyrirmynd sem við getum fetað okkur í fótspor á !

Allar ljósmyndir þjálfara hér:
https://picasaweb.google.com/104852899400896203617/T107HeklaFromNFurholt260414?noredirect=1#

Og magnaðar myndir leiðangursmanna á fésbók !


Sigga Sig., Örn, Aðalheiður Ei., Irma, Jóhann Ísfeld, Lilja Sesselja, Katrín Kj., Ósk, Bára, Ásta Guðrún og Guðmundur Jón.

Fimm dögum síðar... gengu ellefu Heklu-farar líka á Tindfjallajökul í 29 manna ferð alls 22,6 km sem var í sömu brakandi blíðunni... við máttum vart mæla af þakklæti fyrir aðra eins veislu á tæpri viku... sumir mættu jafnvel líka á þriðjudagsæfinguna á Grænavatns- og Djúpavatnseggjar og Grænudyngju sem var 7,3 km (og gengu svo enn meira í vikunni á eftir eins og í morgungöngur FÍ í byrjun maí !)... svo þessi vika þegar Hekla og Tindfjallajökull voru gengin á sex dögum með einni þriðjudagsgöngu á milli eða alls um 62 km verður alltaf kölluð "ofurvikan" í sögunni :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir