Hrikaleg
Jökulsárgljúfur
Þrjátíu Toppfarar lögðu Ísland
undir fót helgina 17. - 19. júní og
heimsóttu eitt stórbrotnasta svæði
landsins
Hrikaleikur landslagsins var ólýsanlegur og við vorum
óskaplega smá í tröllvöxnu
landslaginu
Gönguleiðin breyttist stöðugt frá fyrsta skrefi til þess síðasta með viðkomu á göldróttum slóðum sem skiptu litum, formum, áferðum, ásýndum ofan í sumarlegum gljúfrunum og uppi á hrjóstrugu hálendinu... í áhrifamiklu landslagi allan tímann... og skilaði okkur dauðþreyttum í notalegt tjaldstæðið í Ásbyrgi eftir 35,4 km á 11:45 - 12:02 klst. upp í 399 m hæð með um 250 m hækkun og 600 m lækkun miðað við 314 m upphafshæð og 31 m endahæð..
Mynd tók Óskar Ingólfsson
Wildboys á tímastilli með klettahlaupum ;-) ...þar sem við tók grillveisla og íslenskt sumarkvöld fram á nótt í stilltu og fallegu veðri í Ásbyrgi... veðri sem var skínandi gott báðar næturnar þrátt fyrir norðankuldann og sannfærði okkur endanlega um að tjald er málið í sumarferðum Toppfara næstu árin... ----------------------------------- Jökulsárgljúfur - bók Sigrúnar Helgadóttur - stórfengleg bók - must read ! Fróðleikur í ferðasögunni sem
hér fer á eftir er að mestu fenginn úr einstakri bók
Sigrúnar
Helgadóttur Jökulsárgljúfur frá árinu 2008
Ferðalagið hófst með akstri frá Reykjavík um áttaleytið að morgni sautjánda júní þar sem við gerðum okkur heilmikið ferðalag úr vegalengdinni og komum við í Borgarvirki Húnavatnssýslu, í Kantrýbæ á Skagaströnd, ísbúð á Akureyri og loks kvöldmáltíð á Gamla Bauknum á Húsavík. Helmingur hópsins var þegar
kominn norður og einhverjir sameinuðust okkur á Húsavík en aðrir
skiluðu sér fyrr eða síðar í Ásbyrgi Með þessu móti varð ferðalagið áreynslulaust og svo afslappað að við vorum komin í Ásbyrgi áður en við vissum af...
Veðurspáin var ekki sérlega góð fyrir þessa helgi á norður- og austurlandi... norðaustanátt, kuldi en hægur vindur þó og úrkomulítið... veðrið á leiðinni norður var ekki beisið... ískaldur norðangarrinn og við vissum ekki hvað við vorum búin að koma okkur í... þar til við lentum á Húsavík þar sem veðrið var með ágætum... logn og skýjað... rétt eins og í Ásbyrgi þar sem friðsældin ein og dæmigert íslenskt sumarveður réð ríkjum...
Anton og Helga konan hans og Jóhannes, Lilja B., Elsa Inga og Anton Pétur voru mætt á svæðið nóttina áður og voru virkilega að hafa það notalegt þegar við mættum... á borðum var m. a. nýveitt fiskmeti frá Antoni veiðimanni...
Morguninn eftir fórum við með bílum Fjallasýnar í suður vestan með Jökulsánni að Dettifossi og tók aksturinn mun styttri tíma en heimamenn höfðu áætlað eða innan við klukkustund, þar sem ástand vegarins var með ágætum og engin umferð á leiðinni. Fínt veður í tjaldinu um nóttina, logn og um 5°C og smá skúr, fínasta veður um morguninn, skýjað og lygnt... en í rútunni læstist þokan um okkur á leið upp á hálendinu og rigningin með... Við byrjuðum því á að klæða okkur í gallann þegar út úr rútunni var komið og reyna að svekkja okkur ekki á því að fá ekkert skyggni því það sást lítið sem ekkert lengra en 1-200 metra... en um leið og við lögðum af stað gangandi kl. 8:36 var þokudumbungurinn tekinn að lyfta sér og umhverfið opnaðist fyrir okkur eins og spilaborg tröllvaxinna bjarga... í háskýjuðu veðri með stöku sólargeislum það sem eftir lifði dags...
Það var hins vegar gott að vera vel gallaður fyrir Dettifoss því fossrigningin fór um allt svæðið og rennbleytti stígana sem eru blautir allt árið um kring úr frá fossinum. Það var sérkennilegt að vera þarna einsömul á ferð á þessum vinsæla ferðamannastað... ekki sála fyrir utan okkur nema einn bíll austan árinnar...
Lítið í ánni og vatnsmagnið því hvorki mikið né gruggugt eins og gjarnan er yfir sumartímann... við vorum það snemma á ferðinni að vetrarhamurinn var enn í ánni á þessum slóðum... en fengum þá frið í staðinn til að dóla okkur ein að vild um svæðið...
Sjá mynd til samanburðar tekin í
könnunarleiðangri þjálfara í júlí 2010
Dettifoss er öflugasti foss Evrópu,
45 m hár og
100 m breiður...
Mynd til samanburðar frá síðasta sumri í júlí þar sem stærð fossins, grugg hans og kraftur sést vel.
Frá Dettifossi lá leiðin um björg og sand niður á
Hafragilsundirlendið sem er merkt
sem krefjandi gönguleið á öllum
kortum á svæðinu
Á niðurleiðinni var kaðall til stuðnings og sóttist þetta vel í stórum hópi gegnum einstigið niður...
Góðar tröppur niður en engu að síður gott
að hafa kaðalinn þar sem lítið má út af bregða
Við tók ævintýraland Jökulsárinnar...
niður með botnlausri fegurð hennar... Sumarið var komið niðri í gljúfrunum... þó enn ríkti vetur upp á hálendinu...
Jón Atli tók þessa mynd... á vélina sína... sem hann lánaði þjálfara góðfúslega um morguninn... þar sem hans vél gaf sig í byrjun göngunnar... Hann bjargaði nánast lífi og sál þjálfarans með þessu láni...
Farið var um björg og skriður, kletta og móa... og gönguleiðin var greiðfærari á verstu köflunum en þjálfarar áttu von á...
Fossvogur... fagur og dimmblár... litir saklauss ferskleikans og lífsreynds jökulsins í vatninu voru magnaðir...
Þessi kafli virtist hættulegur að sjá...
...en stígurinn var góður og vel breiður fyrir göngumenn sem eru öllu vanir við að fóta sig...
Í björgunum... eins og heimamenn kalla Jökulsárljúfrin... urðum við bókstaflega bergnumin á ýmsum stöðum á leiðinni...
Þarna stöldruðum við við og fundum tröll og kletta... fiska og fugla... plöntur og pöddur...
Upp úr því var farið ekki síðri leið en niður...
Upp að risavöxnum stuðlabergshömrunum sem nánast gleyptu okkur...
Iðagræn og blómleg sveitin milli bjarga... með járnað grjótið neðanvatns...
Hvernig tímdum við að yfirgefa þennan stað... þarna hefði maður getað tjaldað og dólað sér heilan dag...
Inn var farið með Hafragili.. og bergvatnsánni sem
þarna rann svo tær og friðsæl Bergvatnsá er eldra orð yfir Lindá. Ár á Íslandi eru flokkaðar í þrennt; Jökulsár sem renna frá skriðjöklum og jökuljöðrum, Dragár sem flytja aðallega yfirborðsvatn (nýlega úrkomu) til sjávar og Lindár (Bergvatnsár) sem flytja vatn frá stöðuvötnum sem geyma bæði að litlum hluta nýlegt vatn af úrkomu en aðallega eldra vatn, grunnvatn sem leitað hefur upp á yfirborðið og safnast saman í smáar og stórar ár eða stöðuvötn.
Fremstu menn komnir yfir og upp... lengst fyrir ofan... Stuðlaberg: Stuðlaberg myndast þegar fast efni dregst saman og minnkar þannig rúmmál sitt við kólnun og storknun. Hraunlög springa þegar þau kólna og sprungurnar mynda sem næst rétt 90° horn á kolnunarflötinn en í hraunlögum er kólnunarflöturinn efra og neðra borð laganna en gangar spinga út frá vinstri og hægri hliðarfleti rifjunnar í jarðskorpunni sem þeir myndast í. Flestir stuðlar eru fimm- eða sexhyrndir en geta verið frá þremur upp í níu hliða og ræðst hornafjöldi af kristallastærð og dreifingu efnisins. Öll hraun springa og stuðlast reglulegt stuðlaberg myndast eingöngu ef vatn eða hringlaga kólnunarfletir valda því að stuðlabergið verður sveiplaga og alsett stuðlabergsklösum eins og t. d. í Hljóðaklettum og öðrum stöðum í Jökulsárgljúfrum (Íslenski jarðfræðilykillinn).
Stuðlabergið lék stórt hlutverk í þessari göngu og átti hug okkar allan þennan dag.... Sjá afganginn af snjósköflunum utan í berginu...
Það var hreinlega freistandi að kasta af sér skóm og sokkum og vaða út í á táslunum til að finna gersemar...
Hafragil... var eitt af ógleymanlegustu stöðunum á leiðinni...
Upp var farið hinum megin gilsins á
slóða sem enn
kom á óvart því þrátt fyrir bratta og víðsjárvert landslag
Birkið er algengasta trjátegundin í gljúfrunum /
Ásbyrgi... á eftir því koma víðir (loð- og gul-) og
reynitré...
Komin upp úr Hafragilsundirlendi... einum
tignarlegasta göngukafla leiðarinnar sem er vel þess virði að
taka sem hringleið
Við tóku brúnirnar á kafla eftir gljúfrunum... stórgrýtt og smágrýtt, sandur og möl, mosi og lyng... Lyngmóar eru algengasta gróðurlendið á þessu svæði, gjarnan stórþýft og í þeim vaxa fyrrnefndar trjátegundir ásamt ýmsum gerðum plantna eins og bláberja-, kræki-, beiti-, og sortulyng, fjalldrapa, eini, holtasóley og sauðamerg...
Veðrið lék við okkur þennan dag þrátt fyrir allt... lygnt allan tímann, stöku gola á berskjölduðum köflum en annars lognmolla ef skjól... úrkomulaust nema í upphafi við Dettifoss þó oft mátti halda að það færi að rigna... háskýjað allan tímann svo við máttum vel sjá landslagið allt nær og fjær... og sólin skein meira að segja á nokkrum köflum og var oft eins og næstum því að brjótast alla leið niður til okkar í eitt skipti fyrir öll... Það eina sem var okkur ekki í hag var kuldinn... ekki mikið meira en um 5° stiga hiti þegar verst lét... heitara í sólinni... en það er einfaldast að klæða kulda af sér... miklu erfiðara að klæða af sér úrkomu og vind á langri göngu... við hefðum ekki getað farið þessa gönguleið nema í hagstæðu veðri... til þess var hún of löng...
Litið til baka yfir farinn veg...
Hin ægilega Jökulsá á fjöllum var friðsæl þennan
dag... full af bergvatni... lítið af jökulvatni
og því óvenju tær og róleg...
Varla farið að vora uppi á gljúfurbarminum... haustlegt ef eitthvað var...
Í Gljúfrunum hafa greinst 240 háplöntur... 90
tegundir mosa... 120 tegundir
fléttna... 90 tegundir
stórsveppa...
Lilja B., Súsanna, Lilja Sesselja, Hildur Vals og Guðrún Arndís með Gljúfrin í baksýn... Hlaupin á 17. og 18. öld: Í upphafi 18. aldar sýnist fjandinn hafa orðið laus. Á 24 ára tímabili, frá 1707 til 1730 urðu sex stórhlaup í ánni og í raun mun fleiri því flest hlaupanna komu í mörgum gusum á nokkurra mánaða tímabili. Engu líkara en að á þessum tíma hafi verið langvarandi eldvirkni undir Dyngjujökli þar sem gaus í hrinum með nokkurra ára hléum á milli. Lýsingar eru til af afleiðingum flestra þessara hlaupa. Í gljúfrum árinnar drápust ernir, fálkar og hrafnar á hreiðrum sínum en neðan þeirra flæmdis áin um láglendið allt frá Víkingavatni í vestri til Núpa í austri. Á þessum tíma voru þarna margir bæir og sel og mikil tún og engi. Í hamförunum fórust mörg hundruð fjár, tugir hesta og eitthvað af nautgripum. Áin bar með sér klakastykki á stærð við fjöll og land fór á kaf í grjót og aur svo bestu slægjur breyttust í bláan sand. Áhrifin náðu allt til hafs. Þar sem áður höfðu verið hafnir og menn róið til fiskjar var sandurinn einn. Þegar ósköpunum linnti voru nokkrir bæir og sel farin í eyði. Stórbýli sem sjálf stóðu utan flóðasvæðanna svo sem Ás í Kelduhverfi og Skinnastaðir í Öxarfirði höfðu misst víðfeðm engi í grjót og sand. Menn virðast þó í flestum tilfellum hafa getað forðað sér en áttu stundum fótum fjör að launa og hímdu á húsrjáfrum á meðan flóð sjötnuðu. Ekki er vafi á að hlaup þessi hafa verið gríðarlega mikil og sjálfsagt ekki ólík þeim hlaupum sem nútímamenn hafa séð fara niður Skeiðarársand. Engu að síður hafa þessi sögulegu hlaup verið smámunir hjá þeim hamfarahlaupum sem einhverjum árþúsundum fyrr æddu niður farveg Jökulsár og skópu gljúfrin sem við hana eru kennd. (Bls. 33 - 34).
Eftir gljúfurbarmana frá Hafragilsundirlendi tóku
Ytra og Syðra Þórunnarfjall við... Þórunn átti að hafa flúið Svartadauða (1402-1404) til þessara fjalla þar sem um bráðsmitandi sjúkdóm var að ræða... en þegar harðnaði í dalnum og allur matur uppurinn svo valinn var smaladrengur til að slátra... á hún að hafa smakkað fyrst og sagt kjötið óætt með öllu, haldið til byggða og komist að því að pestin geysaði ei meir... en síðar viðurkennt að hafa logið til um kjötið... það hafi verið það besta sem hún hafi nokkurn tíma smakkað en hún hafi ekki þorað að viðurkenna það þar sem hún hafi óttast að hún yrði þá næst í sláturröðinni þar sem hún var vel í holdum... Síðar hafa menn véfengt sögu þess sem er of lygileg til að vera annað en sönn að einhverju leyti... þar sem Þórunn var barn að aldri þegar Svartidauði geysaði... en sagan gæti passað við Bólusótt sem fór um landið árið 1431 þegar Þórunn var ráðskona á besta aldri að Ási...
Hamfarahlaup Jökulsár á Fjöllum: Í einstakri bók Sigrúnar Helgadóttur um "Jökulsárgljúfur - Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli" má lesa um tilurð Jökulsárgljúfra, dýra- og plöndulíf, jarðsögu og mannlífssögu... Þar má lesa m. a. að kenningar um að hamfarahlaup hafi myndað jökulsárgljúfur og nágrenni hafi fáir véfengt. Lengi vel töldu menn að jarðskjálftar hefðu mótað landslag gljúfranna... og lífsseig allt fram á síðari hluta 20. aldar var kenningin um að Ásbyrgi væri jarðfall... en þegar menn uppgötvuðu að í hluta jarðvegar svæðisins vantaði heilu Heklulögin fóru menn að átta sig á að svo virtist sem heilu jarðlögin hefðu skafið burt af svæðinu... smám saman mótuðust kenningar um hamfarahlaup Jökulsár á fjöllum og greinir menn á um stærð og gerð þeirra en nú er talið að hamfarahlaup hafi orðið í Jökulsá á Fjöllum fyrir um 7100 árum, 4600 árum, 3000 árum og 2000 árum... elstu hlaupin líklega þegar jökulstíflur brustu og lón brutust fram en þau yngri fremur orsakast af eldgosum undir jökli, t.d. í Bárðarbungu, Kverkfjöllum eða Dyngjujökli... Í þessum hamfarahlaupum er talið að runnið hafi 200þús til milljón rúmmetra á sekúndu, fyllt Jökulsárgljúfrin öll og flætt um nágrenni þeirra og mótað landið með rofi og seti... en stærstu hlaupin hafa farið yfir 1400 ferkílómetra lands og eru með stærstu flóðum sem vitað er um í veröldinni... (bls. 26 - 28).
Í Hólmatungum var kærkomið salerni og borð sem við ákváðum að nesta okkur við þó lautin sé vinsælli hjá sumum í klúbbnum... Jón Atli, Brynja, Rósa - Auður, Lilja K., Einar Sig.
Elsa Inga, Anton Pétur, Arnar - Guðrún Helga, Anton, Guðrún Arndís.
Eftir pásuna tók stórfenglegt landslag Katlana neðan við Hólmatungur við... staður sem ekki er í leiðinni þar sem taka þarf krók niður að ánni og veldur að er ekki eins þekktur né vinsæll og Hljóðaklettar, en ekki síðri og í raun fegurri að margra mati...
Tærar lindár renna þar saman við grugguga jökulánna... ár sem komið hafa langan veg og hefðu ekki skolast þessa leið til sjávar nema af því hamfarahlaup fyrri tíða hafa opnað þennan stórbrotna þverskurð gegnum landslagið...
Bergið farið að gefa sig undan beljandi ánni...
sem erfitt var reyndar að sjá fyrir sér þennan dag
Holandi bergið smám saman til allra hliða... algerlega magnaður staður...
...og stundum holað í gegn svo sjá mátti vatnið undir manni...
Jökulvatn og lindarvatn Jökulsárinnar á Fjöllum...
Sjá mynd til samanburðar í könnunarleiðangri
þjálfara í júlí 2010
Það var erfitt að yfirgefa þetta ævintýraland Katlana...
Í
ferðabók Þorvaldar Thoroddsen sem ferðaðist um Ísland
alls 17 sumur í röð árin 1881 - 1889 "Þegar nær dregur Svínadal, verður landslag við ána einkennilega fagurt og svo stórkostlegt að illt mun vera að finna á Íslandi annað eins. Gljúfrin þar eru orðin breiðari og skorin niður í þverhníptum stöllum. Syllur og stallar niður undir á eru grasi vaxnir, víða birkiskógur og víðir. Smágil safnast saman og mynda dálitla á er fellur niður í gljúfrin. Heitir hún Hólmsá. Landslag hér er mjög fagurt, þverhníptir hamrar og gljúfur, klettastrókar í ýmsum myndum, fljótið með iðukasti, froðu og fossum og svo allt reifað í grasi og skógi (bls. 383-384)".
Litil til baka niður að Kötlunum...
Við tóku Hólmárfossar sem fönguðu mann ekkert síður en Katlarnir og verða manni ógleymanlegir fyrir lífstíð.
Hvílík fegurð í þessum hvítfyssandi vatnsföllum innan um iðagrænt birkið og brakandi ferskan vatnagróðurinn...
Í listilegri bók Sigrúnar má lesa um skóglendi... að í náttúrulegum skógum séu tré af öllum stærðum og gerðum þar sem dauð tré standa áfram en falla loks og rotna á skógarbotninum og eru mikilvægur hlekkur í lífkeðju skógarins, næring og skjól fyrir sveppi, smádýr og plöntur. Þegar stór tré falla myndast glufur fyrir minni og yngri tré að taka við og vaxa en þannig endurnýjar skógurin sig hægt og hljótt með tímanum. Skógarhögg þar sem fleiri tré eru fjarlægð en þau sem fá að vaxa gengur á skóginn og hann endar eingöngu í kjarri(bls 48). Í bók Sigrúnar má lesa að skógurinn í Ásbyrgi hafi verið nýttur frá landnámi með mikilli auðsæld Ásverja sem bjuggu á svæðinu á fyrstu öldum byggðar. Mikið var hins vegar gengið á skóginn svo hann lét á sjá og skv. heimildum frá 18. öld var hann orðinn illa farinn vegna ofnýtingar en lifað af fram á 20. öld þegar hagur landsmanna vænkaðist og ekki voru sömu not fyrir timbrið og áður (bls. 47). Þá segir í bókinni af framleiðslu járns á fyrstu öldum Íslandsbyggðar þar sem notast var við mýrarrauða með því að bræða járnið úr rauðanum með gífurlegu magni af viðarkolum. Víða í Jökulsárgljúfrum má rekast á holur í jörðina sem eru rúmlega 1,5 m í þvermál og eru taldar gamla kolagrafir sem kúffylltar með tjákurli sem síðan var kveikt vel í og byrgt yfir með mold og torfi svo loft kæmist ekki að brunanum en þá slokknaði á gröfinni og viðurinn kolaðist. Án kola var heimilið örkola, úrkola vonar um lífsbjörg... það er tær snilld að lesa þessa bók...
Í Hólmsárfossum urðu litirnir eins ferskir og tærir og þeir geta orðið í náttúrunni...
Ólýsanleg fegurð sem erfitt var að slíta sig frá... og engar myndir geta sýnt... enn einu sinni á þessari leið...
Við tók Stallá meðfram
Stöllum og var þetta
einn af þessum hlutum leiðarinnar sem lítið eru þekktir
Hrikalegt og einhvern veginn yfirvegað
stuðlabergið fyrir ofan mann
kallaðist á við spriklandi en friðsama Stallánna fyrir neðan
Sumir stuðlarnir lentir í ánni og maður fann
jafnvægið í landslaginu sem þarna hefur lifað saman gegnum þykkt
og þunnt um árþúsundir...
Kyngimagnaður friður og yfirvegun náttúrunnar sem maður andaði inn um öll vit og reyndi að geyma í hjarta sér...
Þetta var eina áin sem vaða þurfti yfir á leiðinni þar sem alls staðar annars staðar voru göngubrýr... en það var yndislegt að skola tærnar og viðra fæturna á löngum göngudegi... eftir á að hyggja var þetta nauðsynlegur hluti af því að komast gegnum þessa löngu göngu með ferska fætur...
Þúfubjarg... grjótið sem hlaðist hafði upp ofan á
stuðlunum fangaði athygli okkar...
Gloppa... töfrandi fagur nestisstaður fyrir þá sem þarna vilja á... en við áttum stefnumót við Kirkjuna í Hljóðaklettum... Gloppa leynir á sér því austan hennar, þangað sem við fórum ekki en þar er djúpt niðurfall sem ganga má úr i stóran helli undir klettinum en hellirinn var notaður sem beitarhús í Svínadal, ekki síst á útmánuðum þegar enn var mikill snjór á svæðinu.
Við tóku Hljóðaklettar...
Nafn þeirra er tilkomið af smábergmáli sem
heyra má af ánni...
Landslagið varð hlýlegra og gróskumeira...
Litirnir dýpri og andstæðurnar sterkari...
Í Jökulsárgljúfrum eru rúmlega 100 tjarnir... stórar og smáar.. hyldjúpar eða grunnar svo þær þorna í þurrkatíð... sumar eru gamlir fosshyljir, aðrar reglulega lagaðir skessukatlar... eða holur sem mynduðust þegar eðjan æddi niður farveg sinn og ýmsilegt lét undan...
Talið er að fyrir um
9000 árum hafi 6 km löng bogin
eldsprunga opnast eftir endilöngum árdalnum
Karl og
Kerling... og Tröllahellir...
þekktustu klettarnir í Jökulsárgljúfrum...
Sólin leit við á þessum kafla og fylgdi okkur gegnum alla Hljóðaklettana...
Tröllkarkinn í Hljóðaklettum... stórskorinn með stóran stein í kjaftinum... Hann á að hafa reynt að hrifsa til sín smaladreng sem plataði hann til að bryðja grjót sem drengurinn þóttist tyggja... svo gleymdi tröllkarlinn sér við að reyna að tyggja grjótið að sólin náði honum við dagrenningu...
Jökulsársorfnir steinar og stuðlað berg...
Þetta var sannkallaður töfraheimur...
Í bók Sigrúnar má lesa vangaveltur um skálaveðrun... eða býkúpuveðrun þar sem víða í bergveggjum Jökulsárgljúfra eru undarlegar holur, eins og litlar skálar sem mynda óreglulegt mynstur. Sambærilegt mynstur er helst að finna meðfram sjávarströndum en talið er að dökku hlutar bergsins sem dreifast um það eins og rúsínur í jólaköku veðrist hraðar en ljósi hlutinn í berginu og detti úr berginu svo eftir standa holurnar eins og rúsínur hafi verið plokkaðar úr jólakökunni... bls. 168.
Óborganlegar tröppurnar í Hljóðaklettum tóku við gegnum klettaborgina...
...svo oft mátti ekki á sjá hvort manngert væri eður raðað niður af náttúrunnar hendi...
Af mörgum talinn einn fegursti hluti gönguleiðarinnar og
líklega sá þekktasti...
Hljóðaklettar eftir Einar Benediktsson: ... Undranna sönghöll hér er mér
svo nær Nú sit ég við bergsins
blakka vegg Er nokkuð svo helsnautt í
heimsins rann
Við stefndum til kirkju... og lögðumst til hvílu... fengum frið... í tám og fótum... jafnvel sálinni með smá blundi...
Besti áningarstaður leiðarinnar og kærkomin hvíld eftir langan veg að baki eða rúma 24 km... og aðra 11 km framundan...
Nonni, Dóra, Guðrún Helga og Arnar með Drífu að hvílast...
Þær systur gerðu það skynsamlegasta í stöðunni og lögðust til svefns þennan hálftíma sem við tókum þarna til að hlaða batteríin...
Anton Pétur plástraði sig eins og fleiri þennan dag enda mæddi ansi mikið á fótunum langa vegalengd...
Hópmynd með tímastilli al la Óskar sem alltaf tekur með sér stóran þrífót í ferðir sínar...
Efri: óskar, Einar Sig.,
Valdís, Nonni, Arnar, Guðrún Helga, Anton Pétur, Guðrún Arndís,
Anton, Lilja B., Jóhannes, Svala, Rósa, Örn, Sæmundur, Súsanna,
Jón Atli og Lilja Sesselja.
Við tókum þetta sálrænt í köflum... rúmlega 6 km eftir að brún Ásbyrgis og svo einhverjir rúmir 3 km þaðan í tjaldstæðið... þetta er ekkert...
Ekki dró úr ægilegri fegurð leiðarinnar á þessum kafla...
Tjarnir og björg sem aldrei fyrr og ilmandi hlýr gróðurinn plataði mann úr fötunum...
Berggangurinn nyrst í Hljóðaklettum er talinn hafa bægt hlaupunum frá Rauðhólum þannig að eftir standa hreinir gígarnir þar með gjalli og öllu saman ólíkt Hljóðaklettunum sjálfum þar sem vatnsflaumurinn hefur tekið allt lauslegt með sér og eftir standa gígtapparnir..
Sigga Sig staldrar við eina smíðina sem gafst á að líta í bergganginum þar sem sjá mátti lagskiptinguna í bergganginum með stuðlana innst.
Við gengum gegnum bergganginn og svo meðfram honum upp á klettana...
Útsýnisgatið á bergganginum...
Mögnuð gönguleið...
Rauðhólarnir tóku við í brakandi hrauni...
Með einstöku útsýni til baka yfir Hljóðaklettana... þetta var eins og í teiknimynd...
Þetta er sveitin hans Óskars Wild... hann þekkti
hverja fjallsþúfu og deildi því með okkur...
Búið var að loka gönguleiðinni yfir Rauðhólana svo við þurftum að snúa við niður á stíginn sem liggur meðfram Rauðhólunum...
Sunnlenska blóðið tók sérstaklega eftir
öskusandinum sem var um allt þarna... undir birkinu. mosanum og
lynginu...
Gullnir litir gróðursins í síðdegissólinni og við fengum enn einu sinni nýtt landslag til að njóta...
Síðasti kaflinn eftir niður að brún Ásbyrgis var gróðurmikil og hlý...
Stöku símtal á leiðinni enda langur dagur... Sigga Sig kom frá Akureyri eftir að hafa útskrifað yngstu dótturina sem stúdent úr Menntaskólanum á Akureyri deginum áður þann 17. júní við mikil hátíðarhöld eins og MA er einum lagið... hana munaði ekkert um að mæta í Ásbyrgi frá Akureyri með því að vakna kl. 4:30 og lenda fyrir klukkan 07:00 í rútuna um morguninn... og keyra aftur til baka eftir gönguna um kvöldið...
Í kvíunum fram að Ásbyrgi liggja heilu brúnirnar undan hamfarahlaupunum sem mokað hafa út byrgi í gljúfrabrúnina
Þar leyndust enn einu útgáfurnar af tjörnum gegnum
bergholur og hella...
Skyndilega vorum við komin fram á brún Ásbyrgis í einu fegursta augnabliki göngunnar... stórbrotið landslag í smæð okkar göngumannanna og við gleymdum allri þreytu með því að leggjast fram á brúnirnar og bara njóta í hljóðri aðdáun yfir einu fallegasta náttúruundri Íslands... Sumarmorgun í Ásbyrgi eftir Einar Benediktsson ... Ásbyrgi prýðin vors prúða
lands Sögn er að eitt sinn um
úthöf reið
Aðalhópmynd ferðarinnar með forláta þrífót Óskars... hann lagði á sig klettahlaup ofan af brúninni til að ná hópnum á mynd... það var þess virði... að ganga alla þessa leið þó ekki væri nema til að vera nákvæmlega þarna... á þessari brún... í þessum skógivöxnu björgum... þar sem hitinn fer nokkra daga í hverjum sumarmánuði yfir 20°C skv. veðurmælingum áranna 1999 - 2007...
Síðustu kílómetrar dagsins voru gengnir með
austurbrúnum Ásbyrgis gegnum skóg, klappir, hraun og mjúka
moldarstíga
Okkur var ekki ætlað annað en taka síðasta áfangann almennilega... með smá klöngri niður Tófugjá þar sem reipi var til stuðnings...
Léttleiki yfir því að hvíldin var nærri
og yfirþyrmandi þakklæti með einstakan göngudag að baki tókust á
þessa síðustu metra...
...þar sem við grilluðum í brjálaðri samvinnu...
borðuðum snilldarkvöldverð...
Þversnið göngunnar í heild. Lagt af stað í 314 m hæð, lækkað sig niður í 236 m í Hafragilsundirlendi og minna í Kötlum og Hljóðaklettum áður en við lentum niðri í Ásbyrgi í beinni línu um Þjófugjá í 31 m yfir sjávarmáli eftir alls um 35,4 km á 11:45 - 12:02 klst. með alls hækkun upp á um 250 m hækkun og 600 m lækkun.
Gönguleiðin í heild frá Dettifossi að Ábyrgi með viðkomu í Hafragilsundirlendi, Hólmatungum og Hljóðaklettum. Sannarlega ein
stórbrotnasta gönguleið landsins að baki... Svona dagur í óbyggðum er ómetanlegur... Sjá frábærar myndir Óskars Wildboys:
http://wildboys.123.is/album/Default.aspx?aid=208285
Sjá allar
myndir þjálfara hér: Nokkar
fróðlegar vefsíður tengt ferðinni:
|
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|