Tindferð 66
Hekla sunnudaginn 23. október 2011

Hrímhvítar hraunslóðir
á heitri Heklu


Rauðkembingar, Mundafell, Krakatindur, Rauðufossafjöll og hluti Botnafjalla í fjarska.
Sjá Mundafellshraun fyrir miðri mynd en það rann.. sjá síðar.

Alls sigruðu 26 Toppfarar fjalladrottningu Suðurlands í dásamlegu veðri á dulúðugum slóðum
þar sem
logn og gola, sól og þoka, frost og þýða, brakandi ferskur snjór og göldróttur jarðhiti...
buðu upp á
ógleymanlegar stundir á þessu magnaða eldfjalli sem engu líkist...

Lagt var af stað úr bænum kl. 7:00 á sunnudagsmorgni þar sem spáin var ágæt þann dag þó heldur hefði hún versnað síðustu tvo sólarhringana... eftir að hafa horft á tvær síðustu helgar sem hvorugar voru hæfar til göngu... ekki einu sinni þegar lengra var litið aftur í tímann til fyrstu helgar í október og árshátíð Toppfara var haldin... sem þýddi að þetta var fjórði laugardagurinn í röð sem ekki viðraði til fjallgöngu og því var þessi sunnudagurinn gripinn glóðvolgur...

Og hvílíkur dagur... morguninn var gullinn með Hekluna tandurhreina eftir fyrstu snjóþvotta vetrarins
og lokkaði hún okkur til sín tignarleg og freistandi....

Bílfærið upp eftir var eins og best var á kosið þó komið væri síðari hluti af október en þetta vissum við þar sem Jóhannes og Lilja höfðu ekið þarna upp eftir deginum áður og kannað aðstæður þar sem þau voru að velta því fyrir sér að leggja gangandi af stað fyrr um morguninn vegna tímaskorts en af því varð þó ekki vegna veikinda sem var miður.

Veðrið var yndislegt í upphafi göngunnar kl. 9:37 með Hekluna heiða fyrir framan okkur og morgunsólargyllingu á himni
en heldur svalt í veðri eða 1°C skv bílamælum.

Snjólínan náði niður að Skjólkvíum í rúmlega 500 m hæð
og við gengum því í vetrarfæri frá upphafi en þurftum ekki á hálkubroddum að halda.

Valafell og Valahnúkar í baksýn með Ágúst, Thomas og Irmu í grunnum, mjúkum snjónum.

Sjá stikuna við stíginn sem þegar er nú hulinn snjó þangað til í sumar..

Hekla framundan eins og drottning í brúðarkjól með okkur í slörinu skreyttu dökkum hraunmolum...

Ísleifur, Anna Sigga, Alma, Sæmundur, Steinunn, Jóhanna Fríða, Irma, Anton, Stefán Alfreðs, Uros, Thomas og Ingi lengst til hægri.

Í fjarska opnaðist hálendið austan Langjökuls og brátt Hofsjökuls með Jarlhetturnar eins og snjóperlur í vestri og Kerlingarfjöll í norðri.

Eitthvað ferskt og tært við færið um þessar fallegu hraunslóðir í fjallsrótunum
sem nauðsynlegt er að kynnast líka að sumri til þar sem
svartur og rauður takast á alla leið upp á tind.

Góður gönguhraði á hópnum sem var í takt allan þennan dag svo lítið skildi á milli
enda voru það aðallega ljósmyndararnir sem drógust aftur úr...

Morgunskuggar í friðsælli fjallasýn...

Hvert andartak var brakandi ferskt í dagrenningunni og við þorfðum varla að trúa þessari réttu stund á réttum stað í lófa okkar...

Brátt fór færið að þyngjast sem þýddi að fremsti maður varð að troða snjóinn fyrir þá sem á eftir komu,

Örn vildi klára verkið alla leið þó allajafna sé æskilegra að menn skiptist á við slíkt verk sem tekur mikla orku á nokkrum mínútum.

Stefán Alfreðs tróð snjóinn við hlið hans honum til samlætis og Ingi skerpti á færinu...

Snjóþokumistrið lagðist svo allt í einu á tindinn okkur til mikilla vonbrigða...
...fengjum við ekki að upplifa toppinn hreinan eins og hann var búinn að vera allan morguninn...
...hefðum við átt að leggja af stað úr bænum kl. 6:00....
...við sem vissum að seinnipartinn átti veðrið að þyngjast og ætluðum aldeilis að vera nógu snemma í því, því klukkan tvö átti að hreinsast frá tindinum aftur áður en aftur þyngdi yfir með kvöldinu....

Gylfi Þór, Alma, Lilja Sesselja, Ingi, Torfi, Vallý, Ágúst og Anna Sigga.

Björn, Thomas, Anton og Uros með Valafell og Valahnúka í fjarska og Rauðuskál nær.

Fegurð þessa dags verður aldrei með orðum lýst, né ljósmyndum
sem fönguðu þó mörg af þeim óteljandi fögru
augnablikum sem greiptust inn í mann af þessari töfraveröld eldfjallsins...

Enn vestan megin við hrygginn og þokan að gæla við efsta tind en þetta var allt ósköp þunnt og við trúðum á það besta...

Beygjan upp á hrygginn þar sem við fórum lengra til hægri í erfiða veðrinu um páskana
og lentum í harðfenni utan í bungunni efst á mynd...

Litið til baka með hópinn að tínast inn.

Litirnir tærir og skyggnið eins langt og augað eygði... smám saman kom dýrðin í ljós...



Kerlingarfjöllin snjóhvít í fjarska eins og dýrgripir með ísilagt hraun Heklu nær eins og skraut í forgrunni...

Komin á hrygginn og skyggnið orðið betra efst...

Færið orðið mjög þungt og fararstjóri tók sér reglulegar hvíldir í mokstrinum...

Morgungullið augnablik...

Örn fararstjóri, Sæmundur, Stefán Alfreðs, Arnar, Guðrún Helga og Ísleifur ofl.

Elsa, Jóhanna Fríða, Soffía Rósa, Gylfi, Torfi, Anton og Ingi.

Soffía Rósa, Gylfi, Lilja Sesselja, Alma, Torfi, Katrín, Anna Sigga, Anton og Uros og Thomas hægra megin.

Torfi, Katrín, Guðmundur, Anna Sigga, Stefán, Anton, Vallý, Irma, Björn, Ísleifur og Uros.

Anna Sigga, Ágúst, Anton, Vallý, Ísleifur og Uros.

Anton, Vallý, Irma, Ísleifur og Uros.

Uros og Björn.

Snjórinn... ferskari, tærari, hreinni... en nokkuð annað...

Komin upp með hryggnum og hraunbreiðan neðar að baki með Rauðkembinga hægra megin og Valafell og Valahnúka lengst í fjarska
og enn lengra
Kerlingarfjöllin sjálf sem sumir í hópnum hafa skíðað um...

Rauðkembingar, Mundafell, Krakatindur, staparnir í Rauðufossafjöllum og hluti Botnafjalla í fjarska.
Sjá Mundafellshraun fyrir miðri mynd en það rann í gosinu árið 1913...

Sjá samantekt á rituðum heimildum af gosum í Heklu:

http://www-old.isor.is/~ah/hekla/gossaga.html

Skuggarnir og snjór

... með útsýni til fjallakrans Langjökuls í norðvestri...

Hekla er ekki síðri uppgöngu að vetri til með þessa botnlausu fegurðarsvipi í umhverfinu...

Ósnert jörð eins langt og augað eygði en Ágúst var í sambandi við vini sína sem óku upp í Hrafntinnusker þennan sama dag og maður nokkur, Róbert að nafni kom í humátt á eftir okkur síðar um daginn en hann kannaðist við hópinn þar sem nokkrir meðlimir höfðu gengið á Hrútsfjallstinda með honum síðasta vor... helgina þegar gosið hófst í Grímsvötnum og þau urðu að keyra norðurleiðina heim.....

Skuggi ljósmyndarans... Langjökull með Rauðafell, Högnhöfða, Hlöðufell, Skjaldbreið, Jarlhettur og Bláfell í fjarska...

Sauðafellsvatn nær í jarðlitunum og Anton benti okkur svo á lónin öll þegar ofar dró.

Sólin reis og hitaði sífellt meira til mótsvægis við kuldann sem líka reis með hverjum metranum ofar sjávarmáli...

Hraunið í Heklu lék sér við snjóinn rétt eins og skýin gerðu við goluna fyrir ofan okkur...

... og við bara upplifðum...

Takmark dagsins...

Tindurinn orðinn hreinn aftur en snjóþokan hélt áfram að leika sér við hann
og fór í feluleik þegar við komum nær til að auka enn á áhrifin af göngunni um þetta lifandi fjall...

Hópurinn þéttur við nýjasta hraun Heklunnar sem er torfært í sumarfæri en dúnamjúkt og töfrandi að vetri til...

Lilja Sesselja, Gylfi, Sæmundur, Torfi, Alma, Anna Sigga, Ágúst ofl.

Þarna bað Hekla okkur um að koma í feluleik og það var ekki hægt annað en segja í þessum ævintýralega umhverfi...

Hópurinn þéttur fyrir síðasta kaflann upp.

Útsýnið til austurs yfir hálendið alla leið upp í Hrafntinnusker, Torfajökuls, Vatnajökuls...

Fjöllin í nágrenni Heklu bíða spennt eftir heimsókn Toppfara næstu árin
en þar toga
Krakatindur, Rauðufossafjöll og Laufafell mest í mann...

Thomas í snjóþokunni...
hann tók meistaralegar myndir í þessari ferð sem og fleiri ferðum Toppfara - sjá myndasíðu hans sem er veisla:

http://thomasfle.smugmug.com/Landscapes/Hekla-23October-2011/19717263_X8TPzM#1547760359_s7MFK6b

Leikar hófust og við drógumst inn á svæði sem þessi hópur hefur aldrei upplifað áður í þessum búningi...

Af þessum heimi eða öðrum...?

Ævintýri í hverju skrefi og við læddumst andaktug um snjóslegið hraunið...

... þar sem snjótröll leyndust í hverjum í mola...

... og spor þeirra sem á undan fóru voru eina sönnun þess að maður var ekki kominn í andaheima...

Steinunn, Vallý, Katrín og Irma í völundarhúsi Heklu...

Jarðhitinn merkjanlegur gegnum snjóinn þar sem volgt hraunið kom í ljós í óða önn að rífa ofan af sér ísbreiðuna...

Við gengum eftir hrygg Heklu en niður eftir honum liggur 5-5,5 km löng sprunga fjallsins sem getur opnast hvar sem er við eldgos
sbr. fyrri eldgosasögur sem meðal annars má lesa af vefsíðu
Hálendismiðstöðvarinnar Hrauneyja:

http://hrauneyjar.is/IS/Ahugaverdir-stadir/Hekla,-eldfjallid-vidfraega_231/default.aspx

Guðmundur, Björn, Ingi, Vallý, Sæmundur, Soffía Rósa, Stefán, Thomas og Ísleifur.

Stutt eftir á tindinn...

Við gengum ótrauð gegnum þokuna og Örn fylgdi punkti á gps...

Þessi kafli er alltaf fagur á að líta... veðursorfin bungan slegin hrauni að sumri, íshröngli að hausti til og snjó að vetri...

Stálkassinn með gestabókinn

...var falinn í ísnum en af fenginni reynslu kraflaði Örn hann uppi úr snjónum og Stefán kom svo með ísexina til að skafa utan af honum því helmingur hópsins var að sigra fjallið í fyrsta sinn og vildu menn náttúrulega merkja við sína viðveru...

Til hamingju með að sigra Heklu í fyrsta sinn:

Ísleifur, Guðmundur, Katrín, Arnar, Anna Sigga, Elsa, Anton, Thomas, Guðrún Helga.
Ágúst, Soffía Rósa, Sæmundur, Irma og Uros.

Upprifjunarmynd:

Sjá staðsetningu stálkassans með gestabókinni þann 30. maí 2009 á fjölskyldugöngu
en þá var kassinn
grafinn inn í ísvegginn sem smám saman safnast þarna upp með vetrinum:


Hugrún og Steinunn Hannesdætur, Örn, Ketill og Arnar Jónsson.

Sjá stálkassann vinstra megin á mynd í samanburði við göngumenn
og ísvegginn sem þarna er ennþá þann 30. maí yfir 2ja metra hár!

Áfram var haldið á síðari tindinn... þarna var kalt og vindurinn blés óhindraður á okkur í fyrsta sinn þennan dag... menn orðnir svangir, sérstaklega þeir sem ekki höfðu nærst vel í matarpásunni fyrr um daginn og ætlunin var að borða í skjólinu sem gjarnan ríkir milli tindanna...

Björn, Elsa, Irma, Guðrún Helga, Arnar, Gylfi, Ágúst og Lilja Sesselja.

Heit sprungan vel merkjanleg á þessum kafla þar sem ísinn er ekki enn búinn að ná að læsa sig yfir allan tindinn...

Eftir því sem líður á veturinn eykst þetta misgengi í ísnum og maður gengur með ísvegg á vinstri hönd (austan megin) þar sem hitinn nær að hindra uppsöfnun snjó og íss hægra megin (vestan megin)...

"Gólfhitinn" á Heklu bókstaflega bræddi snjóinn fyrir augum okkar...

Það var einhvur hróplegur ósamræmanleiki við kurlaðan ísinn fljótandi ofan á hlýju hrauninu nánast án snertingar...

Vel mátti sjá hvernig hitinn bræðir sig línulega gegnum snjóinn hundruði metra niður eftir tindunum eftir hryggnum en á næstu mynd má sjá hvernig þessi skil hér að ofan eru orðin mjög skýr þegar líður á veturinn og ísveggur hefur myndast austan megin til móts við snjólaust hraunið vestan megin:
 

Frá 30. maí 2009 þar sem gengið er á hrauni með bráðnandi snjó vestan megin en kaldan ísveggina hægra megin.

Þarna milli tinda átti að borða nesti en fremstu menn vildu klára síðari tindinn enda ansi stutt í hann og úr því varð...

Magnað umhverfi frosts og funa bókstaflega í stanslausu stríði á tindum Heklu allan ársins hring...

Síðari tindur Heklu (syðri) hefur alltaf mælst aðeins hærri en sá fyrri (nyrðri) en í þetta sinn mældum við báða tindana undir 1.500 metrum sem hefur aldrei gerst áður í okkar 4. og 5. ferð þarna upp á tindana. Hekla lyftist upp í gosstöðu og hefur verið í þeirri stöðu í nokkur ár núna enda hafa menn vænst goss í tæp tvö ár og því var sérkennilegt að mæla hana lægri en nokkru sinni áður eða 1.487 m og 1.494 m.

Fyrri mælingar á Heklu:
Taka skal með fyrirvara þar sem gps-tækin eru brigðul en engu að síður forvitnilegt að velta þessu fyrir sér:
2007: 1497 og 1504 m, 2009 í maí: 1501 og 1507 m og 2009 í ágúst: 1502 og 1507 m.
(Fórum ekki á tindinn vorið 2011 og var ekki með gps tæki í enn fyrri ferð á Heklu).

Róbert sem var einn á ferð og fór í fótspor okkar þangað til hann náði okkur og var samferða upp á efstu tinda
en hann var ekki lengi að stinga okkur af á niðurleiðinni...

Síðari tindurinn... svo ægifögur bunga gegnum tíðina og nú hvít af snjó...


Arnar, Guðrún Helga, Elsa, Katrín, Ingi, Guðmundur og Ísleifur.

Kuldinn beit grimmt á efstu tindum þar sem golan tók við af brakandi logni uppgöngunnar
og
Ingi mældi frostið -13°C í vindkælingu...

En við létum okkur hafa það að borða nesti við þessar aðstæður
sem kryddaðist af
útsýni yfir allt Suðurlandið sem opnaðist skyndilega á
hárréttu augnabliki þegar við settumst niður
eftir vangaveltur um hvort við skyldum leita í skjólin milli tindanna eður ei...
Björn hafði rétt fyrir sér, útsýnið opnaðist þegar við kæmumst upp... ;-)

Fjallsrætur Heklu sunna megin erur heillandi og ekki spurning að ganga þar um síðar...
í næstu Heklugöngu frá Næfurholti í fótspor
Björns og Ketils sem gengu fyrst á Heklu árin 1955 og 1956...

Í lok nestistímans var farið á hundavaði yfir helstu staðreyndir um Heklu og gos hennar þar sem veðrið bauð ekki upp á notalega fræðslustund  en það voru víst orð Mála og Menningar sem fóru misvel í menn og þjálfari vitnaði í en þar stendur að Hekla sé "víðfrægasta fjall landsins og það illræmdasta þar sem ekkert fjall hefur gosið jafnoft á síðari tímum og valdið jafnmiklum spjöllum, enda gnæfir fjallið yfir blómlegustu byggðum Íslands" sem sé "á síðari tímum"... og voru nokkrir sunnlendingar með í för sem lifað hafa með eldfjallinu alla sína tíð og eiga forfeður sem jafnan hafa rifjað upp hinar ótrúlegustu frásagnir af barningi sínum við afleiðingar eldgosa Heklu...

Eyjafjallajökull tignarlegur og orðinn hvítur eins og Hekla í byrjun vetrar...
Eigum við að ganga á hann um páskana ef til þess viðrar...?

Það eru ekkert nema hörkutól í þessum hópi... borðandi nestið í bítandi frosti og ískaldri gjólunni bara til að fá útsýni...

Heklufarar:

Efri: Jóhanna Fríða, Guðmundur Jón, Anton, Katrín, Uros, Elsa Þóris, Björn, Örn, Guðrún helga, Thomas, Arnar, Ágúst, Torfi, Alma og Róbert.
Neðri: Ísleifur, Stefán Alfreðs., Anna Sigga, Lilja Seselja, Vallý, Irma, Ingi, Steinunn, Sæmundur, Gylfi og Soffía Rósa en Bára tók mynd.

Við komum hita í okkur aftur á leiðinni til baka og nutum sólbauganna yfir tindum og bungum Heklunnar...

Sjá hér fróðleik um fyrirbærið á vef Veðurstofunnar en baugurinn gengur hér yfir göngumenn:
http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/893

Endalaus móða á myndavélinni kom í veg fyrir góðar myndir á toppnum og skemmdi aðrar 
en flestar myndavélar virkuðu ekki í þessum
kulda sem þarna beit...

Bráðnandi snjórinn á heita hluta tindsins...

Sprungan heita sem tíðrætt er um í þessari frásögn og aldrei hefur greinst viðlíka vel og nú...

Smám saman læsti Hekla kuldaklóm sínum utan um okkur svo menn fóru að renna saman við umhverfið...

Arnar, Guðrún Helga, Jóhanna Fríða, Stefán, Anton og fleiri.

Katrín Kjartans og Guðmundur Jón bættust í hóp Toppfara í ársbyrjun 2011 og hafa mætt í nánast hverja einustu göngu síðan... en þau hafa gengið á fjöll árum saman, meðal annars með Toppatrítlurum sem við höfum oft gengið í fótspor á, en þau hjónin eru meðal sterkustu göngumanna Toppfara... og skal þess og getið að Katrín er ein af þremur elstu heiðurskonum Toppfara sem mæta í erfiðustu göngur hópsins og gefa ekkert eftir...

Björn og Anton... sannir fjallamenn sem mæta óháð öllu... bókstaflega öllu...

Ísdrottningar Heklu

Alma, Katrín, Lilja Sesselja, Anna Sigga, Vallý, Irma, Elsa, Jóhanna Fríða, Bára og Steinunn...
Á mynd vantar því miður Soffíu Rósu sem var farin á undan..

Elsa Þóris var ísilögð frá toppi til táar en hún er einn ötulasti og sterkasti göngumaður klúbbsins og gefur aldrei eftir...

Vallý var svört og hvít eins og Hekla og með henni var kærkomin gleðin sem öllu munar á fjöllum sem annars staðar í lífinu...

Í annað sinn á árinu ísilagðist hópurinn á fjalli...
eins og í Grjótárdalnum á Skarðsheiði í nýársgöngunni...

Niðurleiðin var greið um sömu slóð og á uppleið þar sem skyggni var lítið til að byrja með... en tilhneigingin er alltaf sterk til að leita beint niður á við sem gæti óvart endað í jöklinum litla norðvestan megin í Heklu í lélegu skyggni, en hann er að hluta þakinn gjósku, hvað þá snjósköflum eins og þennan dag og best að vera ekkert að þvælast nálægt honum...

Ísfólkið:

Efst: Guðmundur jón, Irma, Elsa Þóris, Torfi, Soffía Rósa, Thomas, Björn, Ingi, Arnar, Guðrún Helga, Ísleifur, Uroš og Ágúst.
Neðar: Örn, Sæmundur, Alma, Stefán Alfreðs., Lilja Sesselja, Anton, Katrín, Jóhanna Fríða og Anna Sigga.
Neðst: Steinunn, Vallý og Gylfi Þór en Bára tók mynd.

Björn var á sinni þriðju göngu með Toppförum á Heklu og í annað sinn á árinu en um páskana urðum við að snúa við vegna veðurs...
Hann sigraði Heklu í fyrsta sinn árið
1955 með skátunum og þá var gengið frá Næfurholti... en við tókum endanlega ákvörðun um það þennan dag að feta í fótspor hans og Ketils næst þegar við göngum á eldfjallið... við erum komin með stefnumót við Heklu í lok ágúst 2013...

Við fórum beint niður mjúkar snjóbrekkurnar....

Það var gott að hvíla fæturna og renna hálfpartinn niður....

Ingi var sá eini sem mætti með snjóþotuna...

Smám saman komumst við niður úr þokunni og landslagið birtist allt aftur neðan fjallsins...

Steinunn, Sæmundur, Soffía Rósa, Thomas, Ísleifur og Katrín...

Sífellt hærra hitastig og ísinn tók að bráðna utan af okkur....

Síðdegissólin skein á tinda fjær og nær...

Degi var tekið að halla og við máttum vera þakklát með dag eins og þennan...

Með fjallakrans Langjökuls í fjarska, m. a. Jarlhetturnar okkar frá því í september...

Fegurðin enn á himni sem jörðu...

Nú með sólina að hníga í suðvestri en ekki rísa í suðaustri...

Þegar við litum til baka var enn skýjaðra á Heklunni en fyrr um daginn, hvað þá morguninn þegar hún var heiðskír...
við fengum greinilega það besta úr henni þennan dag...

Gönguhraðinn jafn og þéttur... hópur dagsins var í takt allan tímann og enginn í vandræðum...
nema helst með
lúxusvandamál eins og að takmarka myndatökur því hvert fótmál og hver sekúnda var veisla...

Bílarnir í sjónmáli við Skjólkvíar með Skjólkvíarhraun svipmikið á vinstri hönd vestan megin við hrygg Heklu....
en það rann
1970 og segir svo frá úr vefsíðu www.hamfarir.is:

1970 Anno Domini

"Klukkan 21.23 hinn 5. maí hófst enn eitt gosið í Heklu. Að þessu sinni opnaðist hin eiginlega Heklugjá ekki nema allra suðvestast og aðalgosið var úr sprungum við rætur Hekluhryggs að suðvestan og norðaustan.
Gjóskufallið var að mestu yfirstaðið eftir um tvo klukkutíma. Í fyrstu goshrinunni náði gosmökkurinn í um 15 km hæð og gjósku-uppstreymi var um 10.000 m3/s. Heildarrúmmál gjóskunnar nam um 70 milljónum rúmmetra. Gjóskan barst til norðurs og fengu bændur í ofanverðum sveitum norðanlands illa að kenna á henni, en hún var mjög flúormenguð. Um 7500 kindur drápust af flúoreitrun.
Fyrstu 20 stundir gossins var hraunrennsli að meðaltali um 800 m3/s. Hraunrennsli í suðvestanverðri Heklu lauk 10. maí, en í hliðargígum, norðaustan í fjallinu, 20.maí. Þann 20. maí opnaðist einnig ný gossprunga, um 1 km norðan við norðausturgígana og úr henni rann hraun án afláts til 5. júlí. Á henni hlóðst upp gígaröð sem nefnist Öldugígar og er stærsti gígurinn á henni um 100 m hár. Heildarflatarmál hraunanna úr þessu gosi er um 18.5 km2 og heildarrúmmálið ekki fjarri 0.2 km3.

Gos þetta var oft nefnt "túristagos" vegna þess hversu aðgengilegt það var til áhorfs. Gosið hefur manna á milli gengið undir nafninu Skjólkvíagosið".

Sólarlagið í lok göngunnar var jafn fagurt og sólarupprásin í upphafi göngunnar...

Síðustu metrarnir niður að bílunum á sínum hraða hver í geislandi gleði með gullinn dag á fjöllum
þar sem sumir geystust í bæinn en aðrir fengu sér ís eða mat á heimleið
í vímunni sem ljúflega rann af manni dagana á eftir... eða er enn að renna...

Magnaður dagur á fjöllum
upp á alls 14,7 km á 7:32 - 7:41 klst. upp í 1.494 m hæð með 1.262 m hækkun alls miðað við 520 m upphafshæð.

Sjá síðustu göngur hópsins á tind Heklu.
Gula slóðin er það sem við gengum núna 23. október 2011, rauði tilraunin sem við gerðum um páskana 2011
og
sú fjólubláa fyrsta gangan okkar í september 2007 þar sem ekið er þá upp slóðann sem við fáum glöggt í þessari göngu og nær upp á öxlina sem sparar rúma 2 km aðra leið og um 200 m hækkun.
Gangan í ágúst 2009 er nánast alveg eins og sú sem við gengum núna í október og því er hún ekki inni í þessari samantekt.

Skrítið að sjá hæðartölurnar ekki ná yfir 1.500 m eins og í öllum fyrri göngum okkar á fjallið... það má spyrja sig...
ekki það að gps-tækin eru ótrúlega sveiflukennd en samt... ;-)

Sjá frábærar myndir á fésbókinni www.facebook.com
og
myndasíðu þjálfara:https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T66Hekla231011

En hér eru einstakar myndir Thomasar Toppfara sem hreinn unaður er að skoða:
http://thomasfle.smugmug.com/Landscapes/Hekla-23October-2011/19717263_X8TPzM#1547760359_s7MFK6b

Sjá fróðleik um Heklu og önnur íslensk eldfjöll á vefsíðunni Hamfarir.is og aðrar vefsíður:

http://islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/hekla.html

Upplýsingar um öll Heklugos og annar frábær fróðleikur í Heklusetrinu Leirubakka:
http://www.leirubakki.is/Default.asp?Page=257

Upplýsingar af vef Hálendishótelsins í Hrauneyjum:
http://hrauneyjar.is/IS/Ahugaverdir-stadir/Hekla,-eldfjallid-vidfraega_231/default.aspx

Frá veðurstofunni frá því í síðasta gosi árið 2000:
http://hraun.vedur.is/ja/heklufrettir.html

Veðurstofan varðandi viðbrögð við eldgosi utandyra:
http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/eldgos_vidbrogd/

Sjá vefmyndavélina á Búrfelli af Heklu á veðurstofuvefnum:
http://www.ruv.is/hekla.

Sjá Hekluvöktun varðandi járðskjálfa og eldgosahættu:
http://hraun.vedur.is/ja/hekluvoktun

Vangaveltur um öryggi Heklugangna:
 http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/24/hekla_togar_i_ferdafolk/ 
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir