Töfrandi Tindfjallajökull
upp brattan Ými og fagra Ýmu
í stafalogni og steikjandi blíðu

Kröfuganga ársins fimmtudaginn 1. maí var farin í magnaðan sal Tindfjallajökuls í brakandi sól og blíðu allan tímann og stórfenglegu útsýni og skyggni sem gerist ekki betra. Ein flottasta tindferðin í sögunni enn og aftur og það sex dögum eftir ofurgöngu á Heklu í sama blíðviðrinu... ótrúlegt hreint út sagt !

Lagt var af stað kl. 9:53 í 612 m hæð sem var lítið ofar en í fyrri ferð hópsins á Ými í apríl 2009 en við hefðum svo sem getað keyrt alla leið upp í Neðsta skála, en tókum ekki þá áhættu þar sem allt yrði brakandi blautt eftir heitan dag og reynslan hefur kennt okkur að það sé betur farið með tímann að ganga fyrr af stað en spara sér 1-2 km ef klukkutími fer í að draga bíla í lok dags...


Mynd fengin að láni frá Katrínu Kjartans af fésbók - takk Katrín mín !

Kjartan fékk hins vegar vin sinn til að keyra sig upp í Efsta skála og Óskar Wild keyrði líka alla leið enda þrjú fjallaskíði með í för og Óskar gat tekið loft úr dekkjunum sínum... og þar með féllu flestir í þá freistingu að láta keyra bakpokana sína upp eftir fyrstu kílómetrana sem var ekki spurning... en þessi fimm þrjóskuðust við og vildu æfa burðinn alla leið... Jóhann Ísfeld, Leifur Fjallafólki, Bára, Guðmundur Jón og Örn fararstjóri.

Ansi notalegt að taka fyrstu tvo kílómetrana án bakpokans...
það munaði alveg um það á löngum göngudegi...

Framundan var einn fallegasti fjallasalur á einfaldri jöklagöngu á Íslandi...
Tindfjallajökulsdalur sem umkringdur er tindum sem við höfum gengið á alla síðustu ár...

Eyjafjallajökull glitraði líka í fjarska...
en var mun skýsæknari en Tindfjallajökull þennan dag og stundum með hettu ofan á sér...
eitthvað sem aldrei gerðist okkar megin...

Gengið var greitt og fljótlega vorum við komin í Neðsta skála þar sem jepparnir tveir biðu með farangurinn...

Skíðin, bakpokarnir og línurnar...

Menn tíndust inn á stuttum tíma og gönguhraðinn þennan dag var í ágætum takti
þó sumir væru að mæta í göngu eftir margra mánaða hlé...

Flottur hópur á ferð og stemmningin brakandi góð eins og veðrið...

Vinur Kjartans,  Sigurbergur Logi Benediktsson frá Stóru Mörk undir Eyjafjallajökli... hinum megin Markarfljóts, var sérlega skemmtilegur viðkynningar... afi hans hefur ferðast um allt þetta svæði og á heiðurinn af mörgum örnefnunum þarna
enda var hann í sveit á bænum Fljótsdal innst við jeppaafleggjarann...

Þar með hófst gangan með öllum innanborðs...

... líka skíðamönnunum... en Gunnar var reyndar sá eini sem ekkert skíðaði fyrr en á niðurleið...

Óskar og Kjartan renndu sér hins vegar niður brekkurnar ef færi gafst eins og hér...

Þeir félagar voru á Eyjafjallajökli ásamt Gylfa og Jóhannesi sama dag og við vorum á Heklu
og eins voru þeir á fjallaskíðum á Siglufirði fyrr í vetur í sömu brakandi blíðunni alla þessa daga... 
hvílíkur blíðskaparvetur !

Gengið rösklega í hitanum og sólinni og svitinn bogaði... meira eða minna en á Heklu, það var misjafnt hvort Hekluförum fannst þetta heitara veður og fór líklega meira eftir því í hvaða standi hver og einn var og hvernig búinn... í þessari ferð sólbrunnum við allavega eitthvað meira enda mun lengur í snjó en á Heklu...

Svala gekk kröfugöngu fyrir hönd Toppfara þennan dag...

... og krafðist sól og blíðu í Toppfaraferðum... sem henni var veitt med det samme...
og við þökkuðum henni óspart fyrir herlegheitin í veðrinu :-)

Brátt var komið í Miðdal...

... miðskálann þar sem við snæddum síðla morgunmat í steikjandi sólbaði...

Vigdís gestur, Lilja Sesselja, Ásta Guðrún, Ástríður og Bestla.
Jóhann Ísfeld, Katrín, Jón og Valla fyrir aftan.

Aðalheiður Eiríks., Ósk og Sigga Sig.

Súsanna, Svala, Steinunn Þ., og Jóhanna Karlotta.

Jóhanna Karlotta, Irma, Doddi og Magnús.

Örn, Jóhann Ísfeld, Jón og Valla.

Eftir góðan mat var haldið af stað upp í dalinn...

Strákarnir á skíðunum og náðu ágætis hraða á köflum...

Gunnar, Óskar Wild og Kjartan... töffarar inn að beini :-)

Bleiku stelpurnar fengu mynd af sér líka...

Súsanna, Áslaug, Lilja Sesselja, Sigga Sig og Ásta Guðrún.

Við stöldruðum oft og lengi við á þessari leið og virkilega dóluðum okkur þennan dag...

... á milli þess sem við gengum rösklega heilu kaflana án þess að gefa eftir..

Brátt risu tindar Tindfjallajökulsdals upp úr ísbrekkunum...
Búri og Hornklofi.

Litið til baka með Þríhyrning þarna lengst í fjarska og nær er Vörðufell sem við höfum reyndar ekki gengið á...

Hvílíkur fjallasalur !

Við tókum andann á lofti og fórum smá hring með hvaða tindur væri hvað...
enda aldrei séð þá svona hvíta né í svona góðu skyggni...

Búri - Hornklofi - Tindur og félagar - Gráfell.

Að lenda í dalnum sjálfum, Haki á vinstri hönd
og lengst í fjarska birtust Ýmir og Ýma ofan við Búraskarð með Búra alhvítan og Hornklofa brattari...

Hey, bíðið... náðum mynd af þeim með Ými og Ýmu...

Hér var hægt að renna sér á skíðunum...

Kjartan með slæm hælsæri og hafði skipt við Óskar um skíðaskó til að reyna að laga vandamálið...
en það átti ekki eftir að nægja því miður...

Úff, þetta var svo fallegt...

Tindur... sem fjöllin þarna öll eru kennd eftir fór að rísa handan við skarðið milli Hornklofa og Gráfells...

Litið til baka... hitinn var steikjandi þarna og það bogaði af mönnum...

Eins gott að drekka vel, bera á sig vörn og ekki vera of lengi berskjaldaður í sólinni...

Hornklofi... við rifjuðum upp magnaða hringleið okkar þarna um alla tinda Tindfjallajökuls að Ými og Ýmu undanskildum í september 2010...
ein flottasta tindferðin í sögunni og með þeim erfiðari... en þá fengum við lítið skyggni og gengum í dulúðugri þoku sem létti svo þegar leið á síðasta hlutann svo við verðum að ganga á þessa tinda aftur í góðu skyggni...

Utan í Haka hækkuðum við okkur í Búraskarð en úr því rennur ágætis gil í lækjarsprænu niður í dalinn...

Ansi tignarlegt að sjá en um leið saklaust svona hvítt af snjó... grátt var það af ösku þarna um árið eftir gosið í Eyjafjallajökli þá um vorið og jökullinn enn undir grjótinu að hluta...

Flottur hópur á ferð..

Litið til baka á leið upp brekkuna...

Gunnar var með lítinn farangur fyrir utan skíðin
sagðist eingöngu bera um 13 kg sem var ansi vel sloppið með skíðunum...

Óskar Wild, Kjartan, Jóhann Ísfeld og Súsanna.

Saxi... hæsti útvörðurinn þarna... allur grýttur og gróðurlaus... en nú ansi saklaust í vetrarbúningnum...

Gráfell í baksýn og svo Eyjafjallajökull sem gældi við skýin á efstu tindum af og til þennan dag...

Skíðamennirnir gengu ekki inn að skarðinu eins og við heldur hækkuðu sig fyrst allverulega til að ná þessum kafla á rennsli...

... og svo fóru þeir af stað...

... og enduðu hér í brekkunni...

Bláfell og svo Haki nær...

Þetta var sannkallað töfralandi skíðamanna og göngumanna...

Búraskarð í seilingarfjarlægð... þaðan væru bara rúmir tveir kílómetrar á Ými...

Skíðamennirnir urðu að ganga þennan kafla upp eins og við...

Búri og smá aukatindur í skarðinu... rautt grjót þegar snjónum sleppir...

Menn í hvílíku formi eftir langar og strangar æfingar og tindferðir síðustu vikur...

Nú fór Ýmir að kíkja á okkur...

Og Þríhyrningur þegar litið var til baka...

Gunnar, Áslaug, Sigga Sig., Jóhanna Karlotta og Ásta Guðrún... eðalfólk sem forréttindi er að ganga með...

Grýttar hlíðar Saxa eru brattar og seinfærar síðla sumars en fínar svona í snjónum...

Ýmir var ansi freistandi að sjá...

... og hinir tindarnir í suðri... Búri og Hornklofi...

Ferskleiki þessa dags stendur upp úr ásamt blíðviðrinu...
þetta var sannarlega endurnæring á sál og líkama...

Nú sást Ýma líka að kíkja...

Eyjafjallajökull á milli tinda...

Við kláruðum upp brekkuna úr skarðinu...

Þyrlan sem við sáum stinga sér niður úr Fljótshlíðinni...
þennan dag hlekktist þyrlu á á Eyjafjallajökli án teljandi vandræða á fólki
og var sótt nokkrum dögum síðar, en það var víst ekki þessi þar sem hún sást á stæðinu sínu í Fljótshlíðinni í lok dags...

Spjall við góðan vin á svona degi á göngu er ómetanlegt með öllu...

Saxi að koma í ljós í allri sinni reisn ofan og austan við Búraskarð...

Tindur að rísa úr hryggnum sínum...

Á jökuljaðrinum sunnan megin blasti Þórsmörkin við okkur
sem og gönguleiðin öll yfir Fimmvörðuhálsinn með Magna og Móða skerandi sig úr með sína svörtu gígbarma
sem búnir voru að bræða snjóinn ofan af sér...

Katrín og Guðmundur fremst í flokki og tvö af þónokkuð mörgum sem gengu þennan dag og höfðu einnig gengið á Heklu langa og stranga ferð frá Næfurholti helgina á undan eða fimm dögum fyrr sem er magnað afrek...

Saxi var ansi fagur að austan...

Lítið fór fyrir jöklalínum í fannferginu þessa tvo kílómetra sem eftir voru að Ými...
 enda lá okkur á þar sem kvenþjálfarinn hafði áhyggjur af skýjafarinu sem gæti ógnað skyggninu...
en það voru óþarfa áhyggjur, því sólin fór aldrei og skyggnið var fullkomið allan daginn meðan við vorum á göngu...

Þrír af hæstu tindum landsins á dagskrá á hringferð um öskjubarm Öræfajökuls í lok maí...
það verður dúndurferð sem menn eiga skilið að uppskera eftir þennan magnaða vetur sem er að baki...

Örninn fékk góða fylgd þennan dag... Jóhann Ísfeld og Aðalheiður...

Magnús hér fremstur en hann er einn margra nýliða vetrarins sem hafa mætt vel og tekið tindferðirnar með trompi...
þannig komast menn vel inn í hópinn og ná strax góðu valdi á öllum göngunum...

Örninn valdi uppgönguleið norðan megin utan í klettinum vinstra megin á tindinum...

... m. a. til að sneiða hjá snjóflóðahættusvæði enda voru nýleg snjóflóð utan í Ými...

Fínasta leið og fögur var hún...

Litið til baka með fjöllin vestan Tindfjallajökuls að koma í ljós...

Færið enn gott og ekki blautt...

Guðmundur með snjóflóðið neðan við hrygginn...

Fara þurfti í brodda upp efsta kaflann á Ými sem var brattur og hnúkóttur... minnti ansi mikið á Snæfellsjökul...

Örninn fór fyrstur og kannaði leiðina alla leið upp...

Brátt komu hinir eftir því hvernig þeim gekk að brodda sig og þræða sig upp og láta ekki afvegaleiða sig á leiðinni...

Þetta var veisla...

... enda bros á hverju andliti...

Litið til baka... drjúg brekka og brött en vel fær í góðu færi og veðri...

Skíðamennirnir fóru í broddana sína og settu skíðin á bakið...

Nú var ísexin komin í lófann og gott að hafa hana til stuðnings upp brekkuna
sem var tvískipt og mun lengri síðari kaflinn sem ekki sést hér á mynd...

Það var ekki hægt annað en vera í sjöunda himni...

...með jöklagöngu sem stóðst samanburð við þær flottustu í sögunni...

... sem er alltaf jafn ótrúlegt að upplifa...

... enda mergjuð leið...

... í þessari ótrúlegu rjómablíðu...

... og ljómandi félagsskap...

Sjá Heklu bak við Súsönnu sem er hér efst... og Ásgrindur sem varða Tindfjallajökul að norðan...

Irma og Bestla... með sterkustu göngumönnum Toppfara...

Ekki hægt að hugsa sér betri félagsskap...

Litið til baka niður brekkuna... Ágúst ljósmyndari á leið upp...

Komin upp í skarðið þar sem Ýma heilsaði ansi tignarleg...

Allt var fagurt... nær og fjær...

Fyrstu menn að skila sér upp á efsta tind...

...meðan hinir dóluðu sér í skarðinu að taka myndir...

Þetta var jú staður til að eyða endalausum tíma í myndatökur og "njóta-legheit"...

Ágúst eðaljósmyndari naut veislunnar eins og hinir myndatökumennirnir...

Síðustu menn upp...

Sigurinn var ansi sætur á hæsta tindi Ýmis í 1.475 m mældri hæð
sem er nákvæmlega sama tala og við mældum 18. apríl 2009 þar sem skyggni var ekkert af tindinum...

Uppi var algert logn og steikjandi sólarblíða...

Útsýnið magnað...

...og skyggnið eins og það gerist best áður en sumarmistrið tekið yfir..

Það var eins gott að mynda þessa stund almennilega :-)

Ekki miklar líkur á að ná þessum tindi í viðlíka veðri aftur...

Ekki hægt að vera á betri stað á betri tíma:

Efri: Ágúst, Gylfi, Ásta Guðrún, Magnús, Örn, Doddi, Jóhann Ísfeld, Óskar Wild, Gunnar, Leifur, Jón, Guðmundur Jón, Lilja Sesselja og Jóhanna Karlotta.
Neðri: Súsanna, Ósk, Sigga Sig., Irma, Áslaug, Steinunn Þ., Valla, Aðalheiður Eiríks., Katrín Kj., Ástríður, Vigdís, Bestla og Svala en Bára tók mynd.

Aðstæður gátu ekki verið betri svo Ýma var ekki spurning...

Góð leið niður af Ými austan megin yfir á Ýmu...

... og vel hægt að mæla með því að fara þar upp á Ými ef menn treysta sér ekki í brattan vestan megin
en þá þarf að fara hliðarhallann norðan eða sunnan megin megin í Ými til að komast yfir í skarðið milli þessara tinda.

Rauðufossafjöll, Löðmundur, Laufafell ofl....

Ýma var mýkri og fagurlimaðri en Ýmir frá okkar sjónarhorni og ekki eins hvöss uppgöngu...

... hún leit brattari út en hún svo reyndist...

Litið til baka á síðustu menn að skila sér niður af Ými...

Skvísurnar... þ.e.a.s. ofurmennin í Toppförum !... nutu hverrar sekúndu...

Skugginn af Ýmu ofan úr hlíðum hennar...

Mjög góð leið í þessu færi og veðri...

... og ansi falleg þegar litið var til baka yfir á Ými...

Sjá mátti eldri spor undir snjónum eftir göngumenn fyrr í vor...

Það var ekki mikið pláss á tindinum...

Útsýnið svakalega fallegt yfir á Hornklofa, Tind og félaga
og eins niður á Merkurleið og Emstruleið...

Við vorum hífuð af gleði á tindinum og tókum myndir af öllu og öllum...

Forvitnileg framtíðarleið upp á Tindfjallajökul... við verðum að fara þessa næst .-)

Fjallabakið allt... Laugavegsleiðin að stórum hluta sem bíður okkar í sumar...

Skytturnar þrjár sem eiga svipaða mynd af sér á Snæfellsjökli fyrir tveimur árum...
 Ástríður, Ósk og Ásta Guðrún.

Eðalgöngumennirnir Gunnar, Valla og Jón.

Vinirnir Sigga Sig., Áslaug og Óskar Wild.

Þjálfaranir Bára og Örn.

Hafnfirsku skvísurnar og ofurmennin Súsanna og Svala.

Urðum að taka aðra hópmynd hér !

Og skvísumynd !

Og strákamynd !

Niðurgangan gekk glimrandi vel...

... í sama góða færinu en þó aðeins blautara er leið á daginn...

Fórum norðan megin utan í Ými...

Skíðamennirnir þurftu að fara upp á Ými til að komast á skíðin til að geta skíðað aðal-kikk-leiðina...
ofan af hæsta tindi Tindfjallajökuls...

Hekla í baksýn er þar toppuðu nokkrir tugir Fjallagarpa og gyðja sama dag í sömu blíðunni...

Litið til baka... því miður ekki alveg í fókus þessi mynd...

Hér var færið betra og lítil snjóbráð norðan megin...

... svo við bara strunsuðum undir Ými...

Hnúkurinn hans allur ísilagður en er snjólaus og líparítgulur að sumri til...

Þetta var dagur stanslausra magnaðra augnablika...

... hvenær og hvert sem litið var...

Snjórinn ferskur og fagur...

... og tindarnir eftir því...

Farið var svipaða leið niður af Ými þegar hliðarleiðinni sleppti...

Saxi hér í fjarska...

Sjá snjóflóðið sem við sáum falla fyrr um daginn á leið að Ými...

En nú tókst Erninum að framkalla enn stærra snjóflóð...

...með því að sveifla sér með ísexinni ofan af snjóhengjunni í einskærri leikgleði...

...sem minnti okkur óþyrmilega á hversu snöggt þetta getur gerst...

Það var ekki annað hægt en taka mynd af Heklu og Hekluförunum sem gengu 33 km á 13:38 klst. fimm dögum áður upp á Heklu frá Næfurholti sem var ansi krefjandiferð... og mættu á þriðjudagsæfingu á Grænavatnseggjar, Djúpavatnseggjar og Grænudyngju sem var alls 7,3 km... sem gerir alls 62 km á sex dögum... en menn æfa nú grimmt fyrir hringleið um öskjubarm Öræfajökuls þar sem þrír af hæstu tindum landsins eru í sigtinu...

Ofan af Ými skíðuðu Óskar Wild og Gunnar...

... með okkur á hliðarlínunni að skjálfa af áhyggjum og aðdáun...

... ansi fallegt að sjá þá renna sér í þessum ferska snjó alla leið niður og yfir í Búraskarð...

Þeir náðu að skíða nánast alla leið án þess að þurfa að ganga...

Okkar hinna beið að arka leiðina alla til baka...

... sem var lítið mál í þessu fagra landslagi...

Sumir jafnvel ekki búnir að fá nóg og vildu ganga á fleiri tinda á svæðinu...

... en þetta var nóg að mati þjálfara enda vorum við ekki komin í bæinn fyrr en hálftíu um kvöldið
og vinnudagur daginn eftir...

Tindur nú kominn með sólina vestan megin við sig...

Sólin enn hátt á himni á þessum magnaða árstíma...

...sem gerir maí-mánuð að einstökum jökla-háfjalla-ævintýramánuði áður en sumarið tekur við...

Við máttum vera þakklát með okkar mini-jöklaferð sem reyndist major...
og gæti endað á að standa upp úr öðru á árinu ásamt Heklu þar sem það er aldrei að vita hvernig Öræfajökullinn fer...

Farið var utan í Saxa og hinum megin við Haka í bakaleiðinni eins og árið 2009 til að tapa sem minnstri hæð...

... og allir voru sammála því þar sem snjórinn var eflaust enn blautari neðar...

... og hitinn enn meiri niðri í dalnum...

... og var það fínasta leið...

... skreytt smá brölti um snjóhengjuna milli Saxa og Haka...

... sem var orðin ansi lúin fyrir síðustu menn...

... sem fóru þá bara ofar upp í hengjuna...

Eyjafjallajökull fjærst, Bláfell vinstra megin við miðju og svo Haki framundan.

Smá áning að skipta og drekka...

Hitinn enn steikjandi og sólin beint í andlitið...

Síðustu kílómetrarnir meðfram Haka og niður með skálunum var áfram í sömu brakandi blíðunni...

... og stórfenglegu útsýninu niður á suðurströnd landsins
að Þríhyrningi, Vestmannaeyjum, Surtsey og hafinu öllu...

Hér með verða Ýmir og Ýma aldrei söm í okkar augum
þarna sem þau standa hlið við hlið upp úr fjallasalnum sínum milli Eyjafjallajökuls og Heklu þegar litið er til þeirra frá Suðurlandsvegi...

Síðasta nestispása dagsins... með Bláfellið framan við Eyjafjallajökul...

... og á vinstri hönd fjallasalur Tinds...

Ekkert mál að strunsa nokkra kílómetra eftir góða nestispásu...

... en ansi þungt færi sem tók í og var ágætis áminning um hvernig þetta getur orðið í snjóbráðinni er líður á daginn...

Neðsti skáli í augsýn og bílarnir okkar glitrandi í sólinni enn neðar...

Það var betra að ganga í snjófleðaförunum þar sem þau höfðu þjappað snjóinn eitthvað...

Ósk sneri sig í einum skaflinum en arkaði áfram af sömu elju og alltaf einkennir hana...

Sjá förin eftir skíðamennina sem höfðu verið þarna áður að leika sér einhverjum dögum fyrr...

Óskar og Gunnar tóku smá aukaferð upp eftir á móti okkur...

...til að fá eina ferð enn niður á skíðunum...

Ekki leiðinlegt... :-)

Stutt eftir og sólin tekin að halla...

Litið til baka ofan af skarðinu við Neðsta skála með hópinn að skila sér inn...

Skytturnar þrjár standa saman allar sem ein...
englar á ferð með jákvæðnina, eljuna og brosið að vopni sem allt sigrar...

Wild-bíllinn komst upp með að fara upp í Neðsta skála með því að tæma vel úr dekkjunum til baka
enda Óskar fyrrum atvinnubílstjóri og vissi vel hvað hann var að gera :-)

Alls 22,6 km á 9:42 klst. upp í 1.475 og 1.469 m hæð með alls hækkun upp á 1.019 miðað við 612 m upphafshæð.

Mergjuð ferð
sem enn og aftur er með þeim allra flottustu í sögunni og skákar mörgum flottustu jöklaferðum.
Einstök veðurblíða eins og á Heklu og brakandi flottur félagsskapur...

Það er einfaldlega ekki hægt að biðja um meira... hvílíkur dýrðarinnar dagur !

Allar ljósmyndir þjálfara hér:
https://picasaweb.google.com/104852899400896203617/T108YmirYmaTindfjallajokull010514#
Og magnaðar ljósmyndir leiðangursmanna á fésbók.
 


 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir