Æfingar alla þriðjudaga frá janúar út mars 2011
birt í öfugri tímaröð:

Vífisfell 4. apríl með Ástu Henriks og Hildi Vals - Toppfaraferð í Perú
Helgafell í Hafnarfirði 29. mars með Birni Matt og Sæmundi - Toppfaraferð í Perú
Blákollur Hafnarfjalli 22. marsmeð Hönnu - Toppfaraferð í Perú
Esjan 15. mars í umsjón Hjölla - Toppfaraferð í Perú
Eyrarfjall 8. mars
Snjóspuni á Esjunni 1. mars
Gráu hnúkar 22. febrúar
Smáþúfur 1. febrúar
Mosfell 25. janúar
Æfing féll niður 18. janúar á Smáþúfur vegna veðurs
Esjan 11. janúar
Akrafjall 4. janúar


Vífilsfell með Ástu Henriks og Hildi Vals.
þriðjudaginn 4. apríl 2011

Ferðirnar tvær í fyrra, 3. og 5. apríl voru frábærar. Fyrri ferðin (könnunarleiðangur), með Hildi og Snædísi var ævintýri líkust. Gengum upp í miklum snjó en autt var á toppnum og gengum við þar inn í gufubað. Uppgufunin var svo mikil og hlý. Þetta var alveg ný fjallaupplifun.

Seinni ferðin var líka æði.

Leit út fyrir úrhellisrigningu...

 ...en svo rættist úr veðrinu.

Snjór yfir öllu...

og flestir fóru á rassinum niður :)

Hjartansþakkir elsku Ásta og Hildur - þetta var greinilega geggjuð ferð ;-) 

 

 


Helgafell í Hafnarfirði með Birni og Sæmundi
þriðjudaginn 29. mars 2011

Hellaferðin féll niður vegna snjóalaga og því var farið á Helgafellið.
 

 

Blákollur Hafnarfjalli
Þriðjudaginn 22. mars 2011 undir leiðsögn Hönnu skagakonu

Sögumaður: Björn Matthíasson

"Lagt var stað af bílastæðinu fyrir neðan Ölvers-skálann á Blákollinn sem frá veginum séð virtist vera hið mesta sakleysisfjall. Alls voru 23 Toppfarar í ferðinni og var byrjað á að ganga um hlaðið á Ölversskálanum þar sem sumir höfðu gist í sumarbúðum endur fyrir löngu og lært að hrópa B Í B L Í A N -- ÞAÐ ER BÓKIN MÍN!!!

Gengið var norðvestan megin upp með fjallskambinum,
nokkurn veginn í sömu átt og við gengum á Hróarstinda í handboltagöngunni hér um árið.

Foringi okkar, hún Jóhanna Hauks, tók brátt strikið upp bratta hlíðina, en enn var ekki þörf á broddum,
þótt brátt hafi komið í ljós að þeirra var svo sannarlega þörf.



Við tók snarlegt klettabelti þar sem hinir fráari réttu öðrum þurfandi hjálparhönd.

Komið var upp á kamb þar sem staldrað var við,
og er þessi ljósmynd eina gagnið um að þessi vaski hópur hafi verið þar á ferð. (Fyrsta áningin).

Jóhanna foringi var ekki mikið fyrir að stansa. Engar hvíldarpásur að gagni takk, bara stímt áfram. Og nú fór gamanið að verða að alvöru. Smám saman varð fjallskamburinn að síbrattari egg, þar sem horft var niður báðum megin, óvænlegt að láta sér skrika fótur. Smáklettabelti voru á fjallsegginni sem fólki gekk ekki betur en svo að komast yfir, en allt hafðist það þó. Hundarnir vísuðu veginn, skoppuðu fram og aftur eftir einstiginu, göngufólki til halds og trausts.

Svo virtist allan tímann sem næsti toppur yrði sá síðasti, en GPS tækin sögðu að það væru 600 metrar eftir, svo 400 og síðan smálækkandi tölur. Alltaf varð gangan erfiðari, eggin brattari og samtölin fátíðari. Greinilega kominn smáskrekkur í mannskapinn.

En Hanna gaf ekkert eftir. Engin pása. Ekkert sluks.

Loksins, loksins var tindinum náð. Þar var svo bratt að hópurinn komst ekki fyrir allra efst og því stefnan stax tekin niður á við um skriðurnar austan megin í fjallinu. Hanna stefndi öllum lóðbeint niður svo við myndum ekki detta fram af klettum sitt hvorum megin við niðurleiðina.



Í miðri brekku var loksins stansað. Kominn var höfuðljósatími. Já, og drekkutími. Loksins.

Eftir smástund var haldið áfram að skauta niður snævi þaktar skriðurnar og komið niður í dalverpið þar sem sigraða fjallið var á hægri hönd. Gengið í kolniðamyrkri eftir bílslóða aftur til baka að bílastæðinu.

Frábærri göngu lokið á rúmum þrem tímum. Hækkun ekki mæld, en þetta var með ævintýralegri þriðjudagsgöngum að vetri sem við höfum farið.

Sérstaklega skal þess getið að Kristín Gunda kom með og ætlaði í upphafi að fara aðeins upp eftir hlíðinni og snúa svo við eftir getu. En auðvitað fór hún alla leið. Ekkert nema harkan."

Elsku Hanna
Haf kæra þökk fyrir að lóðsa menn um eina eftirminnilegustu þriðjudagsgöngu í sögu klúbbsins ;-)
 

 


Esjan með Hjölla
þriðjudaginn 15. mars 2011
Móskarðahnúkar féllu niður vegna veðurs og því var farið á Esjuna.
 

 

Vetrarsól á Eyrarfjalli


Fyrsta brekka Eyrarfjalls með Skarðsheiðina í baksýn...
þ. á. m.
Grjótárdalinn sem er lengst til hægri og við gengum hringleið um í ólýsanlega fallegri ferð í byrjun ársins...
Þegar horft er á dalinn í þessari fjarlægð er engin leið að vita hvílíkir dýrgripir þarna leynast fjallamanninum... nema leggja í hann...

Enn eitt fjallið bættist í fjallasafn Toppfara þegar 28 manns gengu á Eyrarfjall í Hvalfirði þriðjudaginn 8. mars.

Gangan hófst í seinna lagi eða kl. 17:45 þar sem menn voru örlítið lengur upp í Hvalfjörðinn enn áætlað var vegna hálku og var mætingin dræmari en oft áður í vetur þrátt fyrir gott veður, en það skrifast á sjálfan sprengidaginn sem alltaf hefur verið fremur fámennur í mætingu.


Kjartan með ískristalla í gljúfrinu sem skartaði sínu fegursta í vetrarsólinni.

Gengið var upp Stardalinn meðfram Fossá sem var í klakaböndum.

Veðrið lék við okkur, froststilla og sól og kuldinn

Ingi tók að sér hlutverk smalans og fylgdi síðustu mönnum í forföllum Báru sem háir harða glímu við flensu og hyggst leggja hana af velli fyrir Perúferðina. Bestu þakkir fyrir hjálpina Ingi!

Gangan gekk mjög vel þrátt fyrir þungt færi á köflum og er þjálfari mjög sáttur við frammistöðu manna í kvöld.

Hanna næst á mynd vinstra megin... hún er ein af þeim sem ætla að leiðsegja félaga sína um spennandi fjall meðan Perúhópurnn er í burtu... Blákollur við Hafnarfjall verður í boði hennar en sá glæsilegi tindur hefur ekki verið genginn áður í klúbbnum ;-)

Mættir voru:

Rikki, María E., Halldóra Þ., Sigga Rósa, Gylfi Þór, Hildur Vaks., Anton, Irma, Jóna, Gerður B., Heiðrún, Elsa Inga, Lilja B., Ósk, Anna Sigga, Óskar Bjarki, Guðjón Pétur, Einar Rafn, Lilja Sesselja, Kjartan, Hjölli, Ingi, Hanna, Jón Atli og Björgvin.

Þá af voru níu Perúfarar mættir þetta kvöld sem voru að taka sína síðustu þriðjudagsgöngu fyrir brottför til Suður-Ameríku í rúmar þrjár vikur... og þrjú af leiðsögumönnum Toppfara meðan Perúhópurinn er í burtu,
þau Hildur Vals., Hanna og Hjölli sem halda uppi metnaðarfullri dagskrá í klúbbnum að þjálfurum fjarstöddum ásamt Birni og Ástu Henriks og kunnum við þeim ómetanlega miklar þakkir fyrir;-)

Þegar við komum upp á fjallið, tókum við stefnuna á hæsta topp fjallsins sem þó skartar ekki neinum áberandi tindi.  Þegar þarna var komið sögu var aðeins tekið að skyggja og Kári mættur á svæðið og farinn að blása á göngumenn...


Eilífsdalur sem er á á dagskrá á laugardaginn...
Uppleið um Þórnýjartind og niðurleið um Skálatind og Nónbungu með viðkomu á nokkrum mögnuðum útsýnisstöðum og tindum...

Fjallsýnin var glæsileg í kvöldvetrarsólinni og ótrúlega víðsýnt af ekki hærra fjalli.  Botnssúlurnar, Hvalfellið, Akrafjallið, Skarðsheiðin, Blákollur, Hafnarfjall,  Eilífsdalurinn, Þórnýjartindur, Tindstaðafjall, Dýjadalshnjúkur o. fl.
skörtuðu sínu fegursta í kvöldsólinni.

Eftir  stutt stopp á toppnum var stefna tekin á Svartaklett og gengið eftir brúnum hans.

Á leiðinni niður voru lúmskir hálkublettir undir snjónum og margir komnir í hálkukeðjur en Sigga Rósa varð fyrir því óhappi að hrasa og úlnliðsbrotna og sendum við henni hlýja strauma og batakveðjur... ekki veitir af... að fara með gips á framhandlegg til Perú er meira en flestir kjósa sér.  Fararstjóri frétti ekki af þessu óhappi fyrr en í lok göngu, en félagar hennar hlúðu vel að henni eins og þessum klúbbi er von og vísa ;-) 

Gengnir voru 7,4 km á 2:55 til 3:05 klst. upp í 490 m mælda hæð með 452 m hækkun miðað við 38 m upphafshæð..

Skemmtilegur hringur á fjalli sem er ekki nema 478 m hátt,
en með ótrúlega mikilli fjallasýn á alla kanta.
 

 

Snjóspuni á Esjunni


Vallý, Kári Rúnar, Einar Rafn, Jóna og félagar...

Alls mættu 44 Toppfarar á Esjuspunaæfingu þriðjudaginn 1. mars þar sem við gengum óhefðbundna leið upp að steini.  Örn mætti einn að þessu sinni þar sem Bára var sárlasin heima með hálsbólgu og slappleika og ákvað að freista þessa að rífa úr sér pestina fyrir næstu tindferð sem fyrirhuguð er á laugardag ef veður leyfir. 


Skógarleiðin í Esjunni...

Gangan hófst á bílastæðinu við Mógilsá.  Við gengum svo yfir að kaffihúsinu og framhjá tveimur gróðurhúsum í skógræktinni.  Þar þræddum við okkur í gegnum skóginn eftir skemmtilegum skógarstíg og þræddum okkur upp talsvert hægra megin við hefðbundna leið. 


Hin ástæðan fyrir því að við mætum alltaf á æfingu... hláturinn og gleðin sem aldrei bregst... fyrir utan hreyfinguna og útiveruna...
Auður, Jóhannes og Lilja K. með restina af hópnum fyrir aftan.

Við þéttum hópinn reglulega og reyndum eftir besta megni að halda hópinn þar sem engin var Báran til að smala saman hópnum og passa upp á öftustu menn.  Steini Pé tók óumbeðið að sér að reka lestina og kunnum við honum bestu þakkir fyrir það. 

Við komum svo niður talsvert fyrir ofan áfanga fjögur við lækinn og losnuðum því við grjótbrekkuna og fórum bara nokkuð þægilega leið upp að hlíðinni.   Við tókum stefnuna á steininn enda eini punturinn sem fararstjóri var með á GPS úrinu fyrir utan bílastæðið sem er alltaf merkt inn í hverri göngu svo að við finnum nú örugglega bílana í bakaleiðinni ;-) 


Lilja K., Jóhannes, Ágústa, Roar, Gylfi þór., Auður, Brynjar og Gerður B.

Færið var frekar þungt, talsvert mikill snjór sem við tróðum megnið af leiðinni.  Það snjóaði á okkur megnið af göngunni en aldrei þessu vant var blankalogn á Esjunni, meira segja uppi við steininn og er þá mikið sagt.  Skal þess getið að klukkan 18:00 þetta kvöld voru 10 m/sek í Bláfjallaskála, 9 m/sek á Hellisheiði og 13 m/sek á Eyrarbakka svo við vorum réttum megin í fjallatilverunni ;-)

Eftir smá næringu við steininn héldum við niður hrygginn til að losna við mýrina.  Við fórum aðeins of mikið til hægri en réttum okkur fljótt af og fundum girðinguna góðu og héldum niður með henni og lentum skömmu síðar inn á hefðbundinni leið talsvert fyrir ofan brúnna þar sem leiðir aðskiljast á leiðunum tveimur upp á Þverfellshorn.  Við áfanga þrjú við brúnna var síðasta stopp og örkuðum við svo niður stíginn, eða u.þ.b. 1,3 km á hefðbundinni leið í þessari göngu af þeim 7,3 km sem við lögðum að baki á 3 klst og 14 mín fyrstu menn og c.a. 3:20 síðustu menn. 


Kári Rúnar og Ágústa eru tvö af sannkölluðum englum Toppfara...

Þetta var mesti snjór sem hópurinn hefur fengið á þriðjudagsæfingu í vetur og brugðu menn á leik og léku sér í snjónum.   Báru var sárt saknað á þessari æfingu og Örninn hálf vængbrotinn þegar að betri helminginn vantar.  Frammistaða Toppfara var framúrskarandi í kvöld eins og vænta mátti og stóðu nýðliðarnir sig mjög vel í þungu færi.

 

Mættir voru:

Alexander, Alma Möller, Anton, Auður, Ágústa, Ásta Bjarney, Björgvin, Björn, Bryndís Ásta, Brynjar, Einar Rafn, Elsa Inga, Gerður B., Guðmundur Jón, Guðjón Pétur, Gylfi Þór, Hanna, Helga Bj., Hjölli, Irma, Jóhann Pétur, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jóna, Katrín Kj., Katrín R., Kári, Kjartan, Leifur, Lilja B., Lilja K., María S., Ósk, Roar, Rósa, Súsanna F., Svala, Svanur, Torfi, Vallý, Þorsteinn Pé, Þóra og  Örn.

Þar af var Katrín Reynisdóttir að mæta á sína fyrstu æfingu og var hvergi aftast ;-)

 

Brekkubrölt á Gráu hnúkum


Lagt af stað með Dalakot framundan við hálsinn.

Alls mættu 63 félagar þriðjudaginn 22. febrúar og tóku fína æfingu í upp- og niðurgöngum á sjö hnúka norðaustan við Stóra meitil... eða kollóttu hnúkana sem rísa á hægri hönd þegar lagt er á Hellisheiðina frá Reykjavík til móts við skíðaskálann.

Veðrið var vorlegt í Reykjavík eins og síðustu daga þegar lagt var í hann úr bænum eða 6°C, sólskýjað og milt... annað var uppi á teningnum þegar komið var á Hellisheiðina þar sem var orðið blautt í veðri, gola og þungskýjað með sæmilegu gönguskyggni en litlu útsýnisskyggni.


Björn og Sirrý fjær ásamt Óla, Halldóru Gyðu og Ástu Þ. sem náðu í skottið á hópnum i byrjun.

Mættir voru:

Alexander, Alma M., Anna Sigga, Anton, Ágúst, Ágústa, Ásta S., Ásta Þ., Bára, Björgvin, Björn, Bryndís, Brynja, Dóra, Einar Rafn, Elsa Þ., Elsa Inga, Gerður Bj., Gerður J., Grétar Jón, Guðmundur G., Guðmundur Jón, Guðmundur K., Guðrún Helga, Gunnar Viðar, Halldóra Á., Halldóra Gyða, Halldóra Þ., Heimir, Hermann,  Irma, Jóhann, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Atli, Nonni, Jóna, Katrín, Kjartan, Leifur, Lilja B., Lilja Sesselja, María E., Óli, Ósk, Reynir, Rikki, Roar, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Roirrý, Sjoi, Snædís, Stefán A., Steini, Súsanna F., Sæmundur, Torfi, Vallý, Þóra og Örn.

Þar af voru Jóhann, Halldóra Gyða og Óli að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og bættist tíkin Von við hundahópinn en þau Kátur, Kolur, Skuggi og Tína sendu henni skýr skilaboð um hennar stað í hópnum ;-)

Margir mættir frá laugardagsgöngunni í Reykjadal sem er aldeilis flott frammistaða því þannig eru menn fljótir að komast í gott gönguform.


Fyrsti hnúkurinn

Lagt var af stað frá gamlan bragganum við eyðibýlið Dalakot og þrætt uppp með hálsinum í austri og upp á alla sjö hnúkana sem rísa þarna í hnapp.  

Færið vel blautt og snjóskaflarnir öruggir svo engar þurftum við hálkukeðjurnar að sinni.


Gengið ofan af öðrum og hæsta hnúknum með fimm síðustu hnúkana framundan

Hríms og mjalla hvíta lín
hylur kalinn svörðinn.
Hún er að búa um sárin sín
svona, blessuð jörðin.
Kristján Ólafson, skrifstofumaður á Húsavík - úr Þingeysk ljóð - tekið saman af Halldóri Blöndal fyrir Morgunblaðið í janúar 2011.



Hér á þriðja hnúknum náði Halldóra Þórarins, Perúfari hópnum eftir að hafa komið korteri of seint á æfingu
sem var ansi vel af sér vikið.

Ofan af fjórða hnúkinum var skyggni orðið enn þyngra í stað þess að lagast eins og vonir þjálfara stóðu til ("þetta er bara smá skúr, það er að verða bjart aftur") og lítið að sjá til suðurs að t. d.  Lakahnúkum og Stóra Sandfelli (til móts við Litla Sandfell hjá Geitafelli) sem við eigum enn eftir að ganga á.

Fimmti hnúkurinn fyrir miðri mynd.

Stóri meitill hægra megin í fjarska og ansi nálægt okkur þegar best lét svo freistandi hefði verið að skella sér þangað upp á löngu, björtu sumarkveldi... við eigum enn eftir að upplifa Stóra meitil í góðu veðri, hann hefur alltaf reynst okkur erfiður veðurfarslega séð eins og t. d. Vífilsfellið og reyndar mörg af fjöllunum við Hellisheiðina...

... svo það var ekkert skrítið að tíu stykki Skagamenn tóku sína æfingu á Akrafjalli þetta kvöld ("það er alltaf skítaveður á þessari Hellisheiði") og melduðu sig auðvitað inn til þjálfara í miðri göngu... - Vesturlandsdeildin klikkar ekki ;-)


Mynd frá Hönnu ;-) Þau fengu ekki úrkomu eins og við.

Á síðasta hnúknum var skyggni orðið ansi dimmt í ljósaskiptunum en við náðum flest að þrjóskast við að kveikja á höfuðljósunum og gátum nýtt sporin, snjóinn og ljósin af Hellisheiðinni (jú, ok, líka ljósin frá þeim fáu sem kveiktu þau) til að vísa okkur veginn til baka í bílana þar sem gengið var vestan megin við hæsta Gráhnúkinn.


Sjö hnúkar alls!

Fínasta æfing í brölti upp og niður brekkur á þægilegri leið sem er ansi svipmikil og falleg í mýkt sinni að sumarlagi (förum þarna um næst að hausti til!) og var andsrúmloftið notalegt og afslappað þetta kvöld - kannski einmitt í samræmi við dumbunginn... þar sem teknir voru í rólegheitunum einum saman alls 5,3 km á 2:00 - 2:08 klst. upp í hæst 416 m skv gps með alls 397 m hækkun miðað við 312 m upphafshæð.

 

Dýrindisganga
Tröllafossi um Þríhnúka og Haukafjöll


Með sólgleraugu í tilefni dagsins...og Haukafjöll í baksýn...

Alls mættu hvorki meira né minna en
62 manns á æfingu þriðjudaginn 15. febrúar og er það næstfjölmennasta ganga Toppfara frá upphafi og fjölmennasta vetraræfingin til þessa.

Til að flækja talninguna enn meira og bæta prikum á töfluna eða alls 67 manns þá gekk Vesturlandsdeildin á Skaganum alls 14 km frá bænum að Pyttunum neðan við Geirmundartind á Akrafjalli en þar voru á ferð þau Ingi og Heiðrún, Guðjón Pétur og María og Gurra, Perúfarar ;-)

Mættir voru:

Alma M., Anna Sigga, Anton, Auður, Ágúst, Ágústa, Ásdís Ósk, Áslaug, Bára, Björgvin, Björn, Brynjar, Dóra, Dúna, Einar Rafn, Elísabet, Elsa Þóris., Gerður B., Gerður J., Guðmundur Jón, Guðmundur K., Guðrún Helga, Gunnar Viðar, Halldóra Þ., Heimir, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Irma, Hanna, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Atli, Jón Júlíus, Jóna, Karl, Katrín K., Kjartan, Leifur, Lilja B., Lilja K., María E., Ósk, Óskar Bjarki,  Reynir, Rikki, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Sirrý, Sjoi, Skúli, Snædís, Stefán A., Steini J., Súsanna F., Svanur, Sylvía, Þorsteinn P. og Örn.

Þar af var Elísabet 11 ára, þeirra Gunnars og Maríu og nokkrir sjaldséðir hrafnar sem voru fagnað vel ;-)
Og Dimma, Día, Drífa, Kátur, Kolur, Tína o.fl.? skoppuðu með.


Leirvogsá.

Loksins fengum við skínandi gott og fallegt veður...!

... en þó runnu á okkur tvær grímur þegar við ókum austur eftir og skyggnið fallega sem prýtt hafði daginn í heiðskíru sólarveðri hvarf í snjóbyl þarna uppi í fjöllunum... og Ágústa festi bílinn í skafrenningi á leiðinni upp eftir... og við tókum okkur til við bílana í hvössum vindhviðum og snjóhríð... áttum við virkilega ekki að fá loksins eina góða göngu í friði og sátt við veðrið?...


Skálafell og Stardalshnúkar í fjarska baksýn með gljúfur Leirvogsár nær.

En skyndilega varð allt fallegt aftur...

Sólarlagið skreytti himininn í vestri og sló bleikum lit á  gönguleiðina og gullnum lit á fjöllin allt um kring
í töfrandi góðu skyggni það sem eftir leið kvöldsins...


Stardalshnúkar gylltir í baksýn.

Kannski varð allt gott aftur af því við settum upp öll þessi sólgleraugu til að taka sól-gler-augna-hóp-myndina í tilefni af fyrstu sólargeislunum aftur á æfingatíma... eða vegna þess að við gáfum ekki eftir og lögðum af stað með sextíuogtvö bros í nesti sem bræddi svo Leirvogsá og félaga að þeim þótti ekki tækt annað en brosa fallega á móti ;-)

Gengið var meðfram lækjarbakka Leirvogsár sem spriklaði sunnan við okkur og farið um gljúfrið þar sem minni lækur sameinast ánni. Þarna fórum við svo upp á brúnirnar þar sem gljúfrið þótti ekki fýsilegt í vetrarfæri þar sem eflaust þarf að bleyta skó eitthvað þegar klöngrast er á tæpustu klöppunum með köðlum til stuðnings (spennandi verkefni að sumri til þegar það er í lagi að bleyta sig aðeins við að vaða).

Þetta var skemmtilega tæpt á köflum meðfram ánni og góð tilbreyting frá fjallabrölti og brekkuþýfingum...

Alger mini-upphitun fyrir göngu um Jökulsárgljúfur í júní í sumar sem eru ægilega fögur og rúmast hvergi á ljósmyndum heldur eingöngu í minni þeirra sem leggja í hann... eins og göngu kvöldsins...

http://www.nordausturland.is/jokulsargljufur-i-vatnajokulsthjodgardi

Dýrðin lét ekki að sér hæða...

Tunglið kom brátt í ljós undan þessum litlu skýjaslæðum sem höfðu "óvart misst úr sér smá snjóhríð" ofan á okkur fyrr um kvöldið og litir ljósaskiptanna sveipuðu töfrablæ á umhverfið...

Sólarlagið

Fegurðin næst engan veginn á mynd frekar en fegurð kvöldsins í heild...

Team Orange

Maður stóðst ekki mátið að mynda þau svona óranskt í stíl við himininn ;-)

Örn, Alma M., Dóra, Guðmundur Jón, Skúli, Ágúst, Hanna og...
 og Stefán Alfreðs sem græjaði sig appelsínugulan hið snarasta fyrir myndina (það var ekki rigning þetta kvöld ;-))

Farið yfir litlu lækjarsprænuna sem sameinast Leirvogsá í gljúfrinu...

... með tunglið sem var búið að kveikja ljósið til að taka á móti gestunum í dalnum ;-)

Brekkur kvöldsins voru stuttar en ansi brattar á köflum... með tilheyrandi snjóbarningi en fölskvalaustri gleði
sem breytir okkur alltaf í
ærslafull börn að leik úti í snjónum eins og í gamla daga ;-)

Næturskin
Hjá hvílu minni um miðja nótt
sér mánageislar leika.
Mér fannst í svip ég hafa horft
á hrím um akra bleika.
Ég lyfti höfði hægt og sé
á himni mánann skína.
Ég halla mér og hugur ber
mig heim í ættbyggð mína.
(Kínverskt ljóð úr ljóðabókinni Ljóð úr austri, Kínversk og japöngsk ljóð frá liðnum öldum í þýðingu Helga hálfdánarsonar
Mál og menning í Reykjavík 1992 - bls. 52)..

Þegar Tröllafoss nálgaðist var birtan orðin of lítil fyrir góðar myndatökur sem var synd í þessu fallega landslagi sveipað ljósaskiptunum svo fegurðin verður að varðveitast í minningunum einum saman eins og svo oft í fjallgöngunum...

Tröllafoss hálfur í klakaböndum og tignarlegur í vetrarríki sínu...

Við gengum upp að honum og ofan við hann áður en við snerum í átt að Haukafjöllum en á leiðinni þangað stóðumst við ekki mátið og skelltum okkur upp á vestasta hnúkinn af hinum þremur klettóttu Þríhnúkum sem rísa eins og hnúar í landslaginu þarna og voru okkur ansi skemmtilegir yfirferðar síðasta sumar; http://www.fjallgongur.is/aefingar/12_aefingar_april_juli_2010.htm

Þaðan var stefnan aftur tekin á Haukafjöllin og útsýnisstaðinn væna sem rís við fjallsrætur Móskarðahnúka en þarna náðu  töfrar kvöldsins hámarki... í myrkrinu sem þó var ekki myrkt þar sem tunglið skein eins og yfirnáttúrulegt himnaljós yfir okkur og snjórinn endurvarpaði svo birtunni allt um kring í snilldarsköpunarverki sínu svo þeir fáu sem kveikt höfðu á höfuðljósunum slökktu á þeim og gengu eins og hinir bókstaflega ljóslausir flestir alla leið í bílana í nægilegri birtu tungls og snjós...


Ærslabelgirnir á leiðinni yfir á Haukafjöll ;-)

Alls 6,1 km ganga á 2:34 - 2:40 klst. upp í 188 m (Tröllafoss) - 267 m (vestasti Þríhnúkur) og 276 m (Haukafjöll)
með alls hækkun upp á
384 m miðað við 92 m upphafshæð.

Vetrardýrð
eins og hún gerist best... þrátt fyrir vindinn sem fylgdi okkur á köflum... og stöku snjóhríð... því gleðin sem geislaði af göngumönnum og þakklætið yfir góðu veðri, góðu færi, góðu skyggni og fallegu landslagi var of sterkt til að láta slíka smámuni á sig fá eftir brjáluð veður síðustu vikurnar ;-)

Það er ansi gott að skorta stundum til að kunna að meta góða hluti...
 

 

Í Roklandi við Helgafell
Glæsileg frammistaða í þriðju göngunni á árinu sem bætist við roksafnið...


Í miklum vindi á leiðinni í skjól með Helgafellið fyrir framan göngumenn - það var ótrúlega gott skyggni í þessum vindi!

Álfhamar
Undir hástokkum hrimbrýndra kletta
hrannir á strandborðum æða og detta,
þar bergnökkvinn mikli í brimhafs röst
beitir í norðrið grjótvörðu stefni.
Um fjallanna lyfting fallbylja köst
feykja snjólöðri, biturt og hast.
En heiðin við fannsvæfla hvílir sín efni
hjarnþiljum undir, í draumlausum svefni,
og dregur stormandann djúpt og fast.
Einar Benediktsson - Kvæðasafn 1964 - bls. 289.

Þrátt fyrir slæma veðurspá, úrtölubréf þjálfara ;-) og hvassan vind þegar á hólminn var komið mættu alls 19 manns á æfingu þriðjudaginn 8. febrúar og kreistu út ágætis æfingu í slæmskuveðri við fjallsrætur Helgafells í Hafnarfirði.


Við hraunbyrgið með Helgafellið í baksýn.

Hinir óttalausu:

Anton, Bára, Björgvin, Einar Rafn, Elsa Þ., Guðmundur Jón, Jóhannes, Jón Atli, Jóna, Katrín, Kjartan, Leifur, Súsanna F., Svala, Svanur, Sæmundur, Vallý og Örn... eða 7 konur og 12 karlmenn ;-)


Sæmundur og Anton í hraunbyrginu sem var eina alvöru skjólið á leiðinni.

Stefnan var að ganga um fjallsræturnar og vera í skjóli norðvestan við Helgafellið frá suðaustanáttinni sem var spáð þar sem hægt yrði að taka ágætis göngu fram og til baka meðfram hlíðunum en vindar blésu það grimmt að ekkert skúmaskot komst undan og þegar loks var komið að "skjólinu" við hlíðarnar bak við stóran stein var vindurinn síst rólegri heldur straukst með ofsa framhjá fellinu svo afráðið var að snúa við eftir 1,5 km göngu enda varla stætt né viðræðuhæft til að ráða ráðum sínum með áframhaldið ;-)


Katrín og Guðmundur Jón að moka sig gegnum snjóinn og vindinn.

Það var freistandi að ganga vestur yfir á Gvendarselshæðirnar þar sem ágætis skógur rís hinum megin í norðvesturhlíðum eins og Jóhannes, Kjartan og Anton stungu upp á og fínt að fara þar um í bakaleiðinni í skjóli, en þjálfarar treystu ekki leiðinni þar sem við fórum um mikið gjótusvæði þarna á milli í fyrra (hættulegt að fara um gjót-ótt svæði þegar snjór liggur yfir og felur gjóturnar sbr. slysið í fyrra þegar kona féll nokkra metra niður á göngu við Húsfell) og veðrið var það slæmt með bæði myrkur og úrkomu yfirvofandi að ekkert mætti út af bera svo þeir töldu best að halda sig á þekktri og léttari leið til baka.


Gvendarselshæðar-hópurinn:
Efri: Súsanna F., Björgvin, Reynir, Svanur, Elsa Þ., Kjartan og Jóhannes.
Svala, Sæmundur, Vallý, Örn og Jón Atli - vantar Anton á mynd.

Þegar aftur var komið að hraunbyrginu fékkst smá pása frá mesta vindinum og þá óx náttúrulega hugrekkið í samræmi við það svo þeim allra hörðustu var boðið upp á að reyna sig við hæðirnar sem rísa norðvestan megin við Helgafellið og nefnast allar Gvendarselshæð (ekki skrítið að maður muni þetta aldrei!) en við höfum alltaf farið yfir þessa hnúka á leiðinni að Helgafelli. 

Þrettán skelltu sér í slaginn með Erni á meðan við vorum sex sem héldum áfram niður að bílunum.

Gvendarselshæðarfarar fuku hálfpartinn upp hnúkana þar til komið var upp á brún en þar var svo hvasst að menn þurftu að leggjast á jörðina og fengu sumir þá tilfinningu að þeir gætu tekist á loft í uppstreyminu (uppstreymi sem hrafnarnir léku sér í þegar við vorum við hraunbyrgið) svo snúið var við hið snarasta (nema Jóhannes!) og komið sér niður í betra veður þar sem síðasti hlutinn til baka var farinn um gönguleiðina á sléttlendinu í vindrokum sem feyktu mönnum áfram til og frá alla leið að bílunum.

Við sem fórum styttra til baka fukum líka þó á láglendi væri og áttum erfitt með að fóta okkur í vindrokunum sem tuskuðu mann til alla leið að bílunum og felldu mann stundum niður í snjóskaflana eins og keilu... Það var sérkennileg tilfinning að finna að ofsinn var svo mikill á verstu köflunum að það var bókstaflega örlagarík ákvörðun að velja hvort maður tæki tvö skref upp á við yfir ca 20 - 30 cm háa klöpp eða sneiddi framhjá henni um snjóskafla sem héldu manni hreinlega stöðugri gegn vindinum... jahérnahér á saklausu láglendi og sléttlendi...

Maður fann að veðrið var að versna enn frekar eins og spáð var fyrir um... Hvernig var ástandið eiginlega hjá þeim sem fóru upp á hæðina...? Manni var ekki rótt þeirra vegna og það var ekki góð tilfinning þegar við komum að bílunum og maður leit til baka að hnúkunum og ekkert bólaði á hópnum.  Skyndilega sáum við einn mann á ferð niður hlíðarnar norðvestan megin, hann fór hratt og greitt yfir. Þetta gat ekki verið einn af okkar hópi, þau hefðu aldrei skipt liði í þessu veðri... var hann kannski að hlaupa eftir hjálp...hafði eitthvað komið fyrir... hvað voru þau að pæla að fara þarna upp...? Nei, þau hljóta að hafa snúið við... en afhverju sjáum við þau hvergi...?

Mínúturnar liðu og við urðum áhyggjufyllri með hverri þeirra en léttum okkur lundina með því að skemmta okkur við samsæriskenningar um að þetta væri Örn sem þarna færi um... hópurinn hefði rekið hann... hann farið í fýlu og hlaupið niður hæðirnar... ;-) Jafn skyndilega og við höfðum komið auga á manninn hlaupa niður hæðirnar nokkrum mínútum fyrr... í einni hláturrokunni... birtist Jóhannes okkur við bílana, þetta var sem sé hann sem var þarna á ferð... einn sá óttalausasti maður sem um getur í þessum fjallgönguklúbbi... þetta var honum líkt og NB honum gerlegt ;-)

Hin höfðu greinilega snúið við... en hvar voru þau?... skyndilega sáum við ljóstýrur í rökkrinu meðfram grindverkinu... minnti mann á kærkomnu sýnina í myrkrinu við nýrri gíginn við gosstöðarnar á Fimmvörðuhálsi 1. apríl 2010 þegar maður þekkti sína týndu menn á ljósaröðinni... kærkomin sjón sem greypist í minni manns um eilífð... Þarna við Helgafellið voru þau greinilega óhult miðað við nonverbal skilaboð af göngulagi og fasi... og skiluðu sér með sælubrosum að bílunum og áhrifamiklum lýsingum á mesta vindi sem þau hefðu nokkurn tíma lent í...


Jóna í einum "óvissuskaflinum" en þeir voru ansi misdjúpir og "gjótóttir".

Það er ekki af nýliðum þessa klúbbs skafið... í þetta sinn þeim Einari Rafni og Jónu, Guðmundi Jóni og Katrínu, Jóni Atla, Kjartani og Svani... þau mæta ótrauð í verstu veðrum þessa dagana og njóta þess greinilega að styrkjast og læra á sjálfan sig í vindum og bleytu, kulda og erfiðu færi...

Þetta kvöld uppskárum við versta veður sem við höfum fengið á þriðjudagsæfingu til þessa ef horft er á hve samfellt hið slæma veður var frá fyrsta skrefi þessarar æfingar til síðasta skrefs að meðtöldum vindinum efst á Gvendarselshæð því veðrið var afar slæmt allan tímann og hvergi skjól nema rétt í hraunbyrginu, varla við steininn og svo við bílana.

Við höfum fengið verri vind á verstu köflunum í þessum klúbbi þar sem menn hafa þurft að sitja af sér verstu hviðurnar, ganga tveir til fjórir kræktir saman og jafnvel skríða... en aldrei svona samfelldan slæman vind allan tímann.

Roksafnið:

Sjá sömu upprifjun og af Akrafjalli í byrjun þessa árs... nú bætist Akrafjall, tilraunin við Ok og tilraunin við Helgafell í Hafnarfirði við roksafnið...
... á eingöngu sex fyrstu vikunum það sem af er árinu
2011... sem segir ýmislegt um það ár þó ekki sé langt liðið af því...:

Syðstu Súlu 6. okt 2007 - Settumst ítrekað og lágum í verstu hviðunum...
Hvannadalshnúk um Virkisjökul 16. maí 2009 - gengum klukkustundum saman í hvössum vindi...
Háusúla 24. janúar 2009 - lágum og biðum af okkur vindhviðurnar...
Búrfelli og Leggjarbrjót 9. september 2009
- skriðum á tindinum og leiddumst niður...
 Bláfjallahrygg 5. desember 2009
- blotnuðum fljótt og kólnuðum í hvössum og blautum hliðarvindi...
Og Oki 29. janúar 2011 - gáfumst fljótlega upp og snerum við - orðin blaut og köld í restina af blautri úrkomu...

NB BÓKSTAFLEGA ENGUM TINDFERÐUM ÁRIÐ 2010!
...sem segir margt um það ár...
... og heldur ekki árið 2008 en þar voru nokkrar tindferðir erfiðar vegna veðurs þó ekki væri það ofsavindur...

...og eftirfarandi æfingum;
Sýlingarfell og Þorbjörn 14. júlí 2009,
Háahnúk 1. desember 2009
,
Stóra Reykjafelli 23. mars 2010
 Þríhnúkum 6. apríl 2010
.
og Akrafjalli 4. janúar 2011
hugsanlega fleiri
?


Einstök mynd Rögnu af tindferðinni á Háasúlu 24. janúar 2009 en sú tindferð á enn metið í versta veðri sem við höfum fengið í þessum klúbbi...
Þar var tekist á við marga áhættuþætti á sama tíma eða vind, frost, bratta, hálku, skafrenning og slæmt skyggni...

Áhættugreining í fjallgöngum:
Styrkleikar - veikleikar - ógnanir - tækifæri
SVÓT

Athugið vel að þegar lagt er í hann krappann eins og þennan þarf maður að skilgreina áhættuþættina sem mega ekki vera of margir til að tryggja að maður/hópurinn hafi vald á aðstæðum almennt og ef óhöpp verða (veikleikar / ógnanir). Áhættuþættirnir geta t. d. verið vindur, úrkoma, bleyta, kuldi, myrkur, hálka, bratti, fjarlægð frá byggð, hæð yfir sjávarmáli, göngufæri, landslag, bílfæri (fyrir björgun eða að komast til baka kaldur, slasaður, svangur...), gsm-samband, óþekkt leið, undankomuleiðir, búnaður, líkamsform, reynsla, dagsform, samheldni/hjálpsemi hópsins, andlegt atfervi o. fl.

Alltaf þarf að gera ráð fyrir að  það geti orðið óhapp og þá hvernig sé hægt að bregðast við því á þessum stað eða við þessar aðstæður (getum við farið með slasaðan mann út úr þessum aðstæðum (klettar, bratti, hálka), hverjir hafa kunnáttu (hjálparsveitarreynsla, heilbrigðismenntun, reynsla), líkamlegt atgervi (form, ástand, styrkur, næringarástand, líkamshiti o.fl.) eða andlegt atvervi (yfirvegun, hjálpsemi, ósérhlífni, sjálflægni, vinátta, fjölskyldutengsl, umhyggjusemi o.fl.) til að geta aðstoðað ef slys ber að höndum (sumir hafa meira en nóg með sig þegar á bjátar og sumir fúnkera ekki á slysstað) eða getum við haldist við í einhvern tíma þarna að bíða eftir hjálp (er skjól, snjór til að grafa sig í fönn, vatn til að drekka, búnaður til að hlúa að öllum, eitthvað að borða, menn nægilega vel búnir til að hafast við klukkustundum saman á sama stað? o.s.frv.). Þegar slys verður er nóg að það reyni á einn allra ofangreindra áhættuþátta til að illa fari og því þarf alltaf að vega og meta hvort lagt skal í hann eður ei.

Áhættuþættir þessarar æfingar voru m. a. ofsavindur (það var NB t. d. hægt að fjúka illa til og skellast niður á klappirnar og slasast þó við værum bara á sléttlendi og að mestu að ganga í snjó), berangur (lítið skjól), snjósöfnun (hætta á skafrenningin eða slæmu skyggni (snjóflóðahætta ef brekkur)), yfirvofandi myrkur (rúmri 1 klst. eftir upphaf göngu þar sem sólsetur var rúmlega 17:30 (myrkvar fyrr ef þungbúið NB)), yfirvofandi úrkoma (spáð meiri úrkomu er liði á kvöldið en aldrei að vita) og hátt hlutfall nýrra félaga í hópnum (þó nokkuð margir nýliðar á þessari æfingu og við verðum að gera ráð fyrir að menn séu ekki vanir öllu þó sumir nýliðar séu það).

Það sem var okkur í hag (styrkleikar/tækifæri) eru mikil reynsla hjá hluta af hópnum (þetta metum við t. d. alltaf fyrir allar tindferðir og hefur áhrif á hvað við ákveðum að gera í þeirri ferð), góður búnaður (allir á keðjum og vel búnir eftir lærdómsríkar fyrri göngur í erfiðum veðrum (maður býr vel að því að mæta í öllum veðrum !)), gott líkamsform (þeir sem mæta/æfa vel!), lítil hæð yfir sjávarmáli (vindurinn jókst strax þó maður færi bara upp á þúfubarð), vel þekkt leið (búin að fara margsinnis þarna um), dagsbirtan lungann úr göngunni (ekki var kveikt á ljósunum nema síðasta kaflann hjá Gvendarselshæðarhópnum), nálæð við byggð (hefðum aldrei farið mikið fjær byggð í svona veðri eins og t. d. í Bláfjöll), hitastig yfir frostmarki (+2°C) og engin úrkoma (sem betur fer, það var ekki öruggt og hefði breytt öllu mjög fljótt) o. fl.

Ef t. d. myrkur eða úrkoma hefðu bæst við vindinn eða skollið á þar sem við hefðum verið lengst upp frá eða jafnvel uppi á fjalli hefði voðinn verið vís og þess vegna vorum við t. d. búin að ákveða að fara ekki upp eftir Helgafellinu nema veðrið væri skaplegt og vildum halda okkur á þekktri leið. Að sama skapi skal bent á að við hefðum aldrei getað einu sinni tekið þessa æfingu ef myrkur eða úrkoma hefði bæst ofan á þennan vind í byrjun hennar, við hefðum þurft að hverfa frá, svo þetta slapp ansi vel með eingöngu þennan mikla vind og dagsbirtuna og við megum vera ánægð með að hafa tekist þetta miðað við aðstæður ;-).

Frábær stemmning og glæsileg frammistaða í hörkubarningi við veðrið !

Alls 3,3 km á 1:15 klst. upp í 150 m hæð með um 62 m hækkun miðað við 92 m upphafshæð.

Sólgleraugnagjörningurinn...
 sem átti að vera þetta kvöld til að fagna því að sólsetur er í fyrsta sinn eftir að æfing hefst síðan í haust verður í næstu viku á göngu að Tröllafossi og um Haukafjöll... vonandi í skárra veðri en þessu.. ;-)
 

 

Bjart aftur á Smáþúfum
með norðursljósum og stjörnuljósum í bakaleiðinni


Gengið upp eftir dalsmynni Blikdals með Hnefa í Lokufjalli hvítan fjær vinstra megin.

Loksins mættum við á æfingu í dagsbirtu... þriðjudaginn 1. febrúar í annarri tilraun á Smáþúfur í ár eftir að hafa þurft frá að hverfa á vigtarplaninu tveimur vikum áður í stormi... með réttu hefðum við fengið þessa kærkomnu birtu í fyrsta sinn á árinu í síðustu viku á Mosfelli en þá var ansi dimmt yfir í þungbúinni þokurigningunni...


Sirrý, Ásta Bjarney, Ásta H., Gylfi Þór og Lilja Sesselja... að ná hópnum í byjun en þau komu öll á Ok og létu sig ekki vanta á æfingu svona stuttu eftir tinderð sem er mikilvæg leið til að halda sér í góðu gönguformi.

Eftir góða stund við bílana þar sem menn voru að sumir hverjir að sjást í fyrsta sinn í birtu almennilega eftir myrkrið síðustu mánuði hófst þétt gangan upp dalsmynni Blikdals og með hvössum brúnunum að Arnarhamri og var færið hið besta með nægt frost í jörðu svo enginn sökk í leðjukenndan jarðveginn eftir rigningarnar síðustu daga.

Steini J., Gylfi Þór, Kjartan og Óskar Bjarki með tvö af markmiðum kvöldsins í baksýn; Smáþúfur vinstra megin á mynd og Arnarhamar hægra megin... og langa snjóskaflinn á milli í stóra gilinu sem nokkrir Toppfarar renndu sér niður um forðum daga þegar þau tóku sig nokkur til í lok maí og fengu brakandi blíðu - sjá myndasíðu Gylfa Þórs: http://gylfigylfason.123.is/album/default.aspx?aid=143982&lang=en



Örm "búmmar" á hópinn í beygjunni upp á brúnirnar með
Melahnúk, Dýjadalshnúk og Tindstaðafjall í baksýn en tvö fyrrnefndu eru á dagskrá síðar í ár... með sólina hátt á lofti á Dýjadalshnúk 25. maí... og í myrkri á Melahnúk 25. október...
http://www.fjallgongur.is/dagskrain.htm

Blikdalur er ótrúlega langur eða alls 7 km djúpur og skartar óteljandi lækjarsprænum beggja vegna og fögrum fossi í dalsbotni en við hringuðum hann á fjöllunum í mars á síðasta ári í fallegu veðri og frábærri stemmningu... og einn daginn væri gaman að ganga hann endilangan í sól og sumaryl:
http://www.fjallgongur.is/tindur34_blikdalsfjallahringur_200310.htm


Hópurinn að tygja sig með Hnefa í Lokufjali í baksýn.

Menn máttu varla vera að því að ganga... það var um svo margt að tala eftir hráslagann á Oki þar sem við lærðum heilmikið en það kemur þjálfurum ánægjulega á óvart hve glaðir menn eru með þá göngu þrátt fyrir stutta leið upp eftir og ljóst að klúbbmeðlimir hafa vit á að vera þakklátir með slíka búnaðaræfingu þar sem allt öðruvísi reynir á menn en í blíðskaparveðrum.


Brynjar og Ágúst að horfa til Reykjavíkur með Kjalarnes nær.

Á Arnarhamri í 498 m hæð var myrkrið skollið á og við tóku borgarljós á jörðu niðri og stjörnuljós á himni þarna sem við stóðum á þessum fagra útsýnispalli af náttúrunnar hendi. Við tók smá lækkun áður en við hækkuðum okkur svo upp á Smáþúfurnar sem voru hvítar af snjó og við vorum heppin að fá þar logn til að geta skoðað stjörnuhvolfið ofan okkar.

Ljóð

Undir kringlóttum himni,
með gulhvítri stjörnu,
geng ég einsamall
í gegnum nóttina.

Og jörðin er full af myrkri,
sem snýst í hringi
eins og mylluhjól.

Og jörðin stendur kyrr
inn í hringstreymi sínu,
og himininn sökkvir
stjörnu sinni
eins og bjúgmyndaðri perlu
í vatn myrkrursins.

Og stjarnan og ég
göngum þögul og undrandi
hvort fram hjá öðru
í gegnum nóttina.
Steinn Steinarr  - Kvæðasafn og greinar - Helgafell 1964 bls. 211.

Í bakaleiðinni léku norðurljósin sér vítt og breitt og glatt á himni yfir Hvalfirðinum í takt við hraðskreiða göngumennina sem skiluðu sér fyrstu menn niður eftir 6,8 km göngu á 2:30 klst. upp í 594 m mælda hæð með 534 m hækkun miðað við 60 m upphafhæð. Örn stóð ljósavörð eins og viti þar sem beygt var til vinstri ofan af  brúnunum niður úr dalnum að bílunum og síðustu menn skiluðu sér niður á 3:05 klst. í fylgd beggja þjálfara ;-)

Anton mætti með keðjubroddana frá Kahtoola og afhenti þeim sem voru búnir að panta áður en þeir fóru heim og takið eftir að Ellingsen er nú komin með í sölu þessa sömu brodda svo allir geta verið í góðum málum í hálkunni það sem eftir er vetrar!

Mættir voru 45 manns:

Alma M., Anna Sigga, Anton, Auður, Ágúst, Ágústa, Ásta Bjarney, Ásta H., Bára, Björgvin, Brynjar, Dúna, Gerður J., Guðmundur Jón, Gunnar Viðar, Gunnar L., Gylfi Þór, Hanna, Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Irma, Jón Atli, Katrín, Nonni, Kjartan, Leifur, Lilja K., Lilja Sesselja, Lísa, María E., Ósk, Óskar Bjarki, Rikki, Sigga Rósa, Sirrý, Sjoi, Snædís,  Stefán A.,. Steini J., Svanur, Sylvía og Örn.

Það er annað hljóð í febrúar en var í janúarmánuði sem hefur verið okkur ansi þungbær hvað veðurfar varðar... ekki það að meðlimir hafa almennt fagnað göngunum í krefjandi veðrum þar sem þær eru langtum lærdómsríkari en þær sem farnar eru í logni og góðu skyggni, en allt er gott í hófi og innan um barninginn sem við höfum staðið í það sem af er ári er gott að fá svona fallegar og friðsælar göngur eins og þessa á Smáþúfum ;-)

Takið eftir að á næstu æfingu á Helgafelli í Hafnarfirði er sólin ekki sest í byrjun æfingar í fyrsta sinn síðan í haust þegar við kvöddum hana á Úlfarsfelli og þeim sögulega viðburði fögnum við árlega með því að mæta með sólgleraugu á æfingu og tökum sólgleraugna-hópmynd í byrjun æfingarinnar... vonandi í einhverjum sólargeislum... en allavega birtu... ;-)
 

 

Í aurskriðum á Mosfelli

Birtuganga ársins var á Mosfelli þriðjudaginn 25. janúar í rigningu og þoku en hlýju og lygnu veðri. Alls voru hvorki meira né minna 58 manns mættir + hjónin Lilja B. og Jóhannes sem gengu fyrr af stað og svo átta manns á Skaganum á Akrafjalli svo ef allt er talið þá mættu alls 68 Toppfarar til göngu þetta kvöld á hinum ýmsu tímum og fjöllum:

Alexander, Alma M., Anna Sigga, Anton, Arnar, Auður, Ágústa, Ásdís Ósk, Ásta H., Bára, Björgvin, Björn, Bryndís Ásta, Brynja, Brynjar, Dóra, Dúna, Einar Rafn, Elísabet, 11 ára, Elsa Þ., Gerður B., Gerður J., Guðmundur Jón, Guðmundur K.,  G. Katrín, Guðrún Helga, Gunnar Viðar,  Heimir, Hildur V., Hólmfríður, Hrafnkell, Hulda, Irma, Hanna, Jóhanna Karlotta, Jóhannes,  Jóna, Kjartan, Lilja B., María E., Nonni, Ósk, Óskar Bjarki, Rikki, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Sirrý, Sjoi, Snædís, Steinunn, Súsanna F., Svala, Sylvía, Sæmundur, Torfi, Vallý, Þóra og Örn.

... og Dimma, Kátur, Sebra, Þula og...

Þar af voru Ásdís, Guðmundur Jón, Katrín og Ósk að mæta á sína fyrstu æfingu.

Gleðilegt var og að sjá Ölmu M. aftur á göngu eftir slysið á Akrafjalli í byrjun ársins og nú "útskrifast menn óðum af sjúkradeildinni" þó enn séu þar félagar sem er sárt saknað. 

Lítið fór fyrir birtunni sem skyldi fagnað með litríkum fatnaði og sól í sinni... en þó ýmislegt hefði mátt vera betra hvað birtuskilyrði varðaði - (við hefðum t.d. getað verið að ganga nánast alla æfinguna í einhveri birtu ef það hefði verið heiðskírt og snjór yfir öllu!) - þá vantaði ekki birtugjafann sem af félögunum stafaði, menn í geislandi stuði fyrir komandi vetrarferð um helgina í Húsafell að ganga á Ok þrátt fyrir ansi neikvæða veðurspá og sífellt þrengri húsakost á kvöldvöku þar sem stefnan er að borða og dansa fram á nótt í saklausu Gamla húsinu sem mun ekkert vita hvaðan á sig stendur veðrið og endar sjálfsagt í sveittu gufubaði fimmtíu háttstemmdra fjallgöngumanna...  bestu partýin þegar það er ekkert pláss...

Lagt var af stað í rökkri og rigningarúða og fljótlega tók...já, tók bókstaflega drullan við í öllu sínu versta veldi upp um alla skó og jafnvel ökkla og enn lengra í verstu tilfellunum...

Heilu aurskriðurnar tóku svo á móti síðustu mönnum upp heiðina og í bakaleiðinni aftur en engin hætta stafaði af þeim í litlum halla heldur voru þær fremur eins og mini-sýnikennsla um þann skelfilega raunveruleika sem blasir reglulega við erlendis í miklum rigningum eins og í t. d í Brasilíu þennan mánuðinn og í Perú í fyrra þegar hluti af Inkaslóðinni til Machu Picchu skemmdist.

Þetta var í annað sinn sem þessi klúbbur upplifir aurskiðu á göngu en hitt skiptið var á þessu sama fjalli, Mosfelli í vorleysingum í fyrra og sömu leðjudrullunni alla heiðina:
http://www.fjallgongur.is/aefingar/11_aefingar_jan_mars_2010.htm

Hulda og María voru fyrirsæturnar í leðjuslagnum... en þykkur rigningarúðinn gerði myndatöku nánast vonlausa ;-)
Takið eftir skónum hjá Maríu!

Þessi mynd náðist í einni tilrauninni - skór og stafur á kafi í drullu með aursletturnar upp að hnjám!

Þetta átti að vera birtuganga en breyttist í leðjugöngu og þokugöngu og bleytugöngu og handboltagöngu og Húsafellsundirbúningsgöngu... við hugsuðum um allt annað en birtuna sem átti að vera þema kvöldsins en vorum þeim mun bjartari í skapi og tali... menn túlkuðu birtuþemað hver á sinn máta og sumir jafnvel með brjóstbirtu-skilningi ;-) en Gunnar og María Perúfarar komu vel undirbúin á æfinguna með dóttur sína, Elísabetu 11 ára og var hvert þeirra með sitt ljós á göngunni... svona á að gera þetta !

Leðjuslagur dagins mældist 3,6 km á 1:24 klst. upp í 294 m hæð með 216 m hækkun miðað við 78 m upphafshæð... vetrarferð í Húsafell framundan næstsu helgi með langri göngu á Ok... hún verður söguleg eins og aðrar tindferðir...

Hvað sem öllu líður þá eru það forréttindi að hafa heilsu, form, svigrúm og þor til að ganga á fjöll...

Minnums þess að vera þakklát fyrir það að geta gengið á fjöll þrátt fyrir erfið veður eða erfiða færð og það í slíkum björtum félagsskap sem þessum með því að lesa ljóð eftir skáldið Jóhann Gunnar Sigurðsson sem lést 24ra ára úr berklum en náði að yrkja kvæði sem votta um harmsárs trega æskumannsins sem kveðja varð lífið ungur að árum en kvæðið birtan sem við ætluðum nú ólm að fagna þetta kvöld er allra fyrsti vorvísirinn þó langt sé í land af vetri enn:

Vorkveðja

Ég veit þú ert komin, vorsól.
Vertu ekki að fela þig.
Gægstu nú inn um gluggann.
Í guðs bænum kysstu mig.

Þeir eru svo fáir aðrir,
sem una sér hjá mér.
Já, vertu nú hlý og viðkvæm.
Þú veist ekki, hvernig fer.

Því það er annað að óska
að eiga sér líf og von
en hitta ð geta gengið
glaður og heill sín spor.
(Jóhann Gunnar Sigurðsson (1882-1906) - Skólaljóð 1978).
 

 

 


Æfing féll niður vegna veður
þriðjudaginn 18. janúar

Kolvitlaust veður var á vigtarlaninu við Blikdalinn þegar þjálfarar mættu á svæðið kl. 17:15 og varla stætt fyrir gangandi mann á bílastæðinu né bílana sjálfa sem rugguðu hreinlega til þegar menn mættu hver á fætur öðrum á æfingu...

Veðurspá var slæm þetta kvöld og ætlunin var að fara þá eingöngu upp á Arnarhamarinn og sleppa Smáþúfum en þegar veður versnaði á leiðinni út eftir með 18-20 m/sek á mælum og 26 m/sek í hviðum ákváðum við að ganga allavega inn dalinn og sjá til þar með að fara upp á brúnirnar... en þegar komið var á staðinn var ljóst að það yrði ekki einu sinni hægt með einhverju móti að ganga 100 m inn dalinn...

Sá sögulegi viðburður varð því í sögu Toppfara að aflýsa þurfti í fyrsta sinn æfingu eftir 169 æfingar sleitulaust frá því í maí 2007 þar sem oft hefur verið lagt af stað í krefjandi veðri og ræst vel úr með tilheyrandi útrás og búnaðarprófun... en í þetta sinn játuðum við okkur sigruð...

Það var beinlínis sársaukafullt að vísa öllu þeim 28 manns sem mættu... keyra til baka í bæinn þar sem veðrið var mun skaplegra - snjókoma og saklaus vindur í bænum versus hvassviðri og slydda við fjallsrætur - og fara út úr bílnum í fallegri snjókomu og "smá vindi" inn í hús til þess eingöngu að klæða sig aftur úr öllum fjallgöngufötunum og ganga frá búnaðinum hreinum og þurrum... eina sárabótin var handboltaleikurinn um kvöldið...

Árið 2011 byrjar sannarlega með hávaða og látum... það verður spennandi að sjá hvað gerist næsta þriðjudag þar sem þeir hafa bókstaflega allir verið erfiðir hvað veður varðar frá því árið byrjaði.. hvað ber árið 2011 eiginlæega í skauti sér???

... en þess skal getið að mættir voru þrátt fyrir allt þau:
Anna Sigga, Arnar, Auður, Áslaug, Bára, Björgvin, Bryndís, Einar Rafn, Elsa Þ., Guðmundur K., Guðrún Helga, Gunnar Viðar, Gylfi Þór, Hanna, Hermann, Hildur Vals., Irma, Jóna, Leifur, Lilja K., Lilja Sesselja, María E., Óskar Bjarki, Rikki, Sigga Rósa, Sirrý, Sylvía, Sæmundur, Þóra og Örn... 

Góð !

Ef það er erfitt að lesa þessar línur þá er það samt lúxus í samanburði við skyggnið sem við hefðum fengið á göngu í þessu veðri í myrkri...  sem sé ekki inni fyrir framan tölvuna heldur í hávaðaroki, kulda, bleytu og myrkri ;-)

... og þeir sem þraukuðu að lesa alveg ofangreindar línur fengu allavega eitthvað að reyna á sig  ;-)

Vísa vikunnar:

Ekki þekki ég þennan hól,
-þetta er hríðin meiri!
Þarna fauk í þetta skjól.
Þau eru töpuð fleiri.
Grímur Sigurðsson, bóndi á Jökulsá
Samantekt Halldórs Blöndal á Morgunblaðinu þann 19. janúar 2011 á ljóðum frá þingeyskum skáldum - bls. 36.)

ATH! Einhverjir voru að tala um að fara á Esjuna í staðinn miðvikudaginn 19. janúar - þjálfarar komast ekki en við við hvetjum menn til að mæta ef veðrið er skaplegt (nú er það virkilega orðið athugunarvert) - og ræða málið á fésbókinni!
 

 

 

110111 Esjan


Lilja Sesselja, Heiðrún Sirrý, Gunnar L. og Anna Sigga
en Heiðrún og Anna Sigga voru báðar á bæði á Skarðsheiðinni á laugardaginn og Akrafjalli á þriðjudaginn.

Vetrarsólhvörf

Stynur jörð við stormsins óð
og stráin kveða dauð,
hlíðin er hljóð,
heiðin er auð.

- Blómgröf, blundandi kraftur,
við bíðum, það vorar þó aftur.
Kemur skær í skýjunum sólin,
skín í draumum um jólin.
Leiðir fuglinn í för
og fleyið úr vör.

Arni sofa hugir hjá,-
þeir hvíldu dag og ár.
Stofan er lág,
ljórinn er smár.
- Fortíð, fram líða stundir,
sem fríkkar, því þróttur býr undir.
Hækka ris og birtir í búðum,
brosir dagur í rúðum.
Lítur dafnandi dug
og djarfari hug.

Vakna lindir, viknar ís
og verður meira ljós.
Einhuga rís
rekkur og drós.
- Æska, ellinnar samtíð,
við eigum öll samleið - og framtíð.
Aftni svipur sólar er yfir,
sumrið í hjörtunum lifir.
Blikar blóms yfir gröf,
slær brú yfir höf.

Bjarni Benediksson - Kvæðasafn - Gefið út á aldarafmæli skáldsins 1964 - bls. 16.
Ljóð göngunnar 3/2011 - Esjunni 11. janúar 2011.

Alls mættu hvorki meira né minna en 51 manns á 169. æfingu þriðjudaginn 11. janúar 2011 í krefjandi veðri og auðu færi eða léttskýjuð, A10 m/sek og 1°C. Það var hlýrra í veðri en síðustu daga en merkilegt nokk þá var mun meira rok þetta kvöld en vikuna áður þegar óveður geysaði um allt land og við gengum á Akrafjall í dularfullu logni. Nú var vindurinn þéttur en stöðugur og fyrirsjánlegur svo auðvelt var að hafa vald á aðstæðum ólíkt síbreytilegu vindhviðunum á Skarðsheiðinni síðasta laugardag (vindurinn fór hringi í kringum mann á Miðkambi og sló mann sérkennilega frá öllum áttum) og á Akrafjalli síðasta þriðjudag. Mótsagnirnar láta ekki að sér hæða því svo var nánast logn efst uppi við stein í 600 m hæð eftir strekkinginn frá ánni, en það var náttúrulega vestan megin við steininn i skjóli fyrir austanáttinni ;-)

 


Hólmfríður, Sigga Rósa sem rúllaði upp göngunni á Skarðsheiðinni þrátt fyrir liðþófaaðgerð á hné í nóvember, Ásta H. sem aldrei þessu vant var ekki í síðustu tindferð, Hrafnkell og loks Jóna og Einar Rafn sem voru á sinni fyrstu göngu með hópnum.

Mættir voru:

Anna Sigga, Auður, Ágústa, Ása H., Ásta S., Bára, Björgvin, Bryndís, Brynja, Brynjar, Einar Rafn, Gerður B., Gerður J., Gísli, Guðmundur G., Guðmundur K., Guðjón Pétur, Gunnar Viðar, Gunnar L., Gylfi Þór, Hanna, Heiðrún, Helgi Máni, Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Hólmfríður, Hrafnkell, Ingi,  Jóhanna Karlotta, Jóna, Karl Gústaf,  Kjartan., Leifur, Lilja K., Lilja Sesselja, María S., Roar, Rósa, Sigga Rósa, Sirrý, Sjoi, Stefán A., Súsanna F., Svala, Svanur, Sæmundur, Vallý, Þorsteinn J., Þóra og Örn.

Þar af voru Brynjar, Einar Rafn og Jóna að mæta ú sína fyrstu göngu með hópnum og er það hreinlega aðdáunarvert að sjá góða mætingu nýrri meðlima þessa dagana sem láta sig hafa það, jafnvel í fleiri en eina af þessum síðustu göngum þrátt fyrir vind og kulda.

Ótrúlega margir mættu frá Skarðsheiðargöngunni síðasta laugardag sem segir allt um orkuna sem slík ganga gefur mönnum og þýðir einfaldlega að menn komast í enn betra form með þessu móti og eru til alls færir næstu mánuði... t. d. á Hrútsfjallstindum, 24 tindum...


Vallý, Súsanna og Rósa sem báðar voru á Skarðsheiðinni og Akrafjalli, Brynja, Svala, Lilja Sesselja og Gylfi en Gylfa var vel fagnað á sinni fyrstu göngu eftir tognunina á Sveilfuhálsi í desember og því hafa bæði hann og Svala nú snúið aftur sem gefur von um að Kristín Gunda og Alma Perúfarar mæti einn daginn aftur til leiks... ásamt Ingu Lilju Perúfara sem jafnar sig nú eftir liðþófaaðgerð á hné... og Jórunni sem jafnar sig á ristarbroti í vinnunni...

 

Færið var því miður autt enn og aftur í vetur en á þessum árstíma - þ.e. í janúarmánuði - áður en við förum að fá aftur birtu í byrjun æfingar næstu mánaðarmót er oft töfrandi að ganga í svartnættinu með hvítan upplýsandi snjóinn um allt... en því er ekki að sælda að sinni og það eina sem við fengum var helfrosin jörð og ísklær utan um allt rakt á fjallinu sem er fljótt að flækja málin þegar bratti kemur inn í myndina enda völdu þjálfarar að taka hefðbundna leið upp sökum veðursins og sökum þessa því þá er nú betra að hafa snjóskaflana til að fóta sig upp um í brekkunum. og renna sér svo niður...

Lækurinn við áfanga fjögur var frosinn og háll og tókst að láta Gísla að renna af stað,  svo menn fóru ofar þar sem sprænan er að engu orðin og mýrin frosin í kring. Í hlíðinni sem oft er illfær að vetri til vegna hálku um allan stíg og í brekkunni ofar og neðar, var stígurinn nánast alveg auður en þó með eina frosna lækjarsprænu sem felldi Lilju Kristófers en henni varð ekki meint af. Furðulegt nokk þá var engin hálka á stígnum fyrir utan þessa einu sprænu og því fóru menn ekki í keðjur en þær græjur voru mikið í umræðunni um kvöldið eftir reynsluna á Skarðsheiðinni síðasta laugardag...

 

 

 

 


Brynjar í sinni fyrstu göngu með hópnum, Lilja K. sem tók lækinn með bossanum, Leifur sem var upptekinn á laugardaginn, Steini sem varð að læra á laugardaginn, Gunnar L. í sinni annarri göngu með hópnum og búinn að benda Ellingsen mönnum á keðjubroddana og Örn fararstjóri.

Alls 7 km æfingaganga á 2:24 - 2:43 klst. upp í 597 m hæð með 588 m hækkun miðað við 9 m upphafshæð.

Árið byrjar með hvelli...

Krefjandi vindur í öllum þremur fyrstu göngum hópsins sem er aldeilis annað en endalaust lognið árið 2010 og ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvort nú sé komið að skuldadögum fyrir logn-sukkið árið 2010 ;-)...  þeir sem mæta sama hvað þessa dagana... nokkrir m. a. s. í þrjár krefjandi göngur á átta dögum eiga nóg inni fyrir skuldinni og eru greinilega við öllu búnir ;-)
 

 

Afreksganga á Akrafjalli
...í ársbyrjun 2011...
... og fjallgöngu nr. 222 í sögu Toppfara...


Sólarlagið litaði leiðina vestur að fjallsrótum og lofaði góðu fyrir komandi ár...

Dagsetur

Grímudökkvar gráir stökkva,
geisla slökkva hátt og lágt.
Ljóssins nökkva í næturrökkva
nornir sökkva í vesturátt.

Hverfa skallar hvítra fjalla
Klæddir mjallarskrúða fljótt.
Skuggtjöld falla. Hlíðarhjalla
hjúpar alla þögul nótt.

(Blágrýti - Ljóð - Reykjavík 1951 - Sigurður Gíslason (afi Arnar þjálfara).
Ljóð vikunnar - 1/2011

Toppfarar hófu árið 2011 með stæl og létu hvorki vind, kulda né myrkur aftra sér frá því að ganga á hæsta tind Akrafjalls, Geirmundartind í 643 m hæð á tæpri 3ja og hálfs tíma kvöldgöngu þriðjudaginn 4. janúar 2011. Alls voru 41 manns mættir og þar af þrír nýir meðlimir sem fengu sannkallaða eldskírn með göngu sem verður að teljast afrek á þessum árstíma...

Enn og aftur vorum við minnt á að það rætist yfirleitt úr veðri þegar á hólminn er komið þar sem við vorum í góðu skjóli utan í norðuröxlinni gegn norðanvindinum alla gönguna utan smá gjólu efst uppi og neðst við fjallsrætur... og eina örlagaríka vindhviðu sem dró dilk á eftir sér...


Gerður Björnsdóttir, ein af nýjum meðlimum klúbbsins núna í janúar 2011 sem lét veðrið ekki aftra sér að mæta í fyrsta sinn með hópnum...
ásamt Jóhönnu Karlottu vinkonu sinni sem stefnir á 24 tinda ásamt mörgum öðrum Toppförum í ár...

Já, það verður ekki af þessu kvöldi skafið að það var lygilega gott veður miðað við vindinn þennan dag... en í öllu þessu skjóli sem gerði okkur náttúrulega grandalaus í tómri göngugleðinni tókst vindinum að koma sínu að eins og til að minna okkur á að við myndum ekki alveg sleppa... og feykti mjög snögg vindhviða sem gerði engin boð á undan sér síðasta hluta hópsins um koll neðan við eina brúnina svo Alma féll illa við og slasaðist á olnboga og afturenda og stóð eftir með hruflaðan olnboga (NB ekki gat á 66°N PrimaLoft úlpunni sem eru meðmæli!), tvær rifnar tvær buxur og mjög slæmt mar á rassvöðva sem ágerðist fram eftir kveldi.

Eftir að hafa jafnað sig á fallinu vildi hún samt halda áfram og var í sæmilegu ásigkomulagi þrátt fyrir allt, en afleiðingar fallsins jukust og komu betur í ljós þegar heim var komið og daginn eftir var hún í engu standi til stórræðna með slæmt mar í einum stærsta vöðva líkamans, hvað þá að fara á fjöll næstu daga, svo enn og aftur fengum við raunverulega að reyna það á eigin skinni í þessum hópi hve skjótt slysin gerast og hve óhjákvæmilegur fylgifiskur fjallgangnanna þau eru þrátt fyrir allt.


Sæmundur neðst sem stefnir ótrauður á 24 tinda og Sigurður í myrkrinu sem hefur mætt vel frá því hann kom í klúbbinn haustið 2010...
og fleiri óþekkjanlegir göngumenn...

Það var aðdáunarvert að sjá hversu margir voru mættir þetta kvöld og það fimm nýir / nýlegir félagar, þrátt fyrir slæmt veður um daginn, en spáin sagði að það myndi lægja með kvöldinu og veðrið fór augljóslega skánandi seinnipartinn, þó enn færu slæmar vindhviður um fjallsræturnar á milli þess sem við gerðum okkur klár í logni og myrkri rétt fyrir klukkan sex...

Ætlunin var ekki að fara í svaðilför eða taka nokkra áhættu enda myrkur og stór og breiður hópur á ferð svo við skyldum meta aðstæður þegar ofar væri komið og láta Guðfinnuþúfu í 420 m hæð nægja ef vindarnir blésu ofar eins og við áttum fastlega von á miðað við furðulegt lognið við fjallsrætur, jafnvel fara styttra en það, en hvorki sitja heima né breyta fjallinu á dagskránni (eins og kvenþjálfaranum lét sér detta í hug um morguninn þegar vindarnir voru sem verstir). Veðrið var framar vonum frá fyrsta skrefi og hélst gott alla leið svo vonin um að halda áætlun og ganga á Geirmundartind var ekki svo fráleit þarna við fjallsræturnar og fékk að rætast okkur öllum að óvörum þrátt fyrir allt, enda voru menn fegnir að hafa látið sig hafa það að mæta þetta kvöld...


Áslaug og Día... einar af sterkustu gönguhrólfum Toppfara sem fóru í nánast allar göngur klúbbsins árið 2010...

Þetta gat ekki verið betra fjall til að ganga á í þessari vindátt... skjól fyrir norðaustanáttinni undir norðuröxl Akrafjalls efst í Berjadalnum og við gengum sæl og glöð sífellt hærra og hærra í logni og góðu færi við stöku áramótaknús og fögnuð yfir því hve dagsbirtan var nærri þar sem sólarlagið hafði leikið listir sínar á himninum á leiðinni... hálftíma fyrr hefðum við verið í síðustu sólarskímunni á fyrstu skrefunum... dagsbirtan er í seilingarfjarlægð þessa dagana en við vekjum athygli á því að það er stórmerkileg lífsreynsla að vera svona þakklátur fyrir dagsbirtuna eftir að hafa mætt í fjallgöngur síðustu tæpa tvo mánuði í algeru myrkri frá upphafi... 

Það var heldur ekki hægt að kvarta undan færinu sem var snjólaust og grýtt alla leiðina upp á tind utan svellbungna og gallharðs snjóskafls efst við tröppurnar í Selbrekkunni í upphafi göngunnar, en þar hefði verið betra að allir hefðu fylgt fararstjóranum sem fór hægra megin við tröppurnar og sniðgekk hann þannig bæði svellbungur og snjóskaflinn, í stað þess að aftari hluti hópsins afvegaleiddist til vinstri frá tröppunum upp um hálkukaflann, en menn fótuðu sig samt vel alla leið þarna upp án vandræða.


Súsanna ein af ötulustu göngumönnum Toppfara sem mætir sama hvað... og Sif ein af nokkrum sjaldséðum hröfnum klúbbsins sem mættu þetta kvöld og ætla að gera átak í mætingu á nýju ári...

Hópurinn var í dúndurformi og fór rösklegar af stað en ætluninn var (planið var höfðingjahraði!) því nýárskrafturinn lét ekki að sér hæða hjá fremstu mönnum og fararstjóri átti meira en fullt í fangi með að halda aftur af stálhraustum undanförunum svo þetta endaði í hefðbundnum stoppum þar sem hópurinn var þéttur reglulega með tilheyrandi kólnun hjá fremstu mönnum ef þeir voru ekki nægilega vel búnir fyrir "bið á köflum". Uppi yfir okkur lýsti stjörnuhvolfið sem aldrei fyrr í lítilli ljósmenguninni þetta langt frá byggð og maður mátti varla vera að því að ganga fyrir fegurðinni sem alls staðar hvolfdist yfir okkur í óteljandi stjörnuhafi sem ekki sést í byggð fyrir borgarljósunum.

Þegar komið var upp á Geirmundartind í 647 m mældri hæð lýstu borgarljósin í Reykjavík, Akranesi, Borgarnesi og byggðunum allt um kring í myrkrinu umhverfis Akrafjallið í magnaðri sýn. Sigga Rósa hringdi á þessum tímabpunkti og meldaði sig, Rikka og Sólveigu Hansen á æfingu... (svona mæta sumir á æfingu!) en reyndar höfðu þau misst af æfingunni og farið á Helgafell Í Hafnarfirði í staðinn og lentu þar í ljósleysi og rötunarverkefni sem skilar sér beint í reynslubankann. Jebb, svona nokkuð er til fyrirmyndar, að taka eigin fjallgöngu ef menn ná ekki göngu með hópnum !

Uppi borðuðu menn loksins nesti og tilraun var gerð til að taka hópmynd á myndavél sem fraus strax í -11°C frostinu sem mælirinn sýndi á toppnum... þarna hefðum við átt að slökkva á ljósunum og njóta enn betur ljósadýrðarinnar bæði af náttúrunnar hendi - stjarnanna - ofan við okkur og af hendi mannanna neðan við okkur, en óþreyjan undan kuldanum (og hugsanlega undrun okkar sjálfra yfir að hafa náð alla þessa leið þrátt fyrir veðrið og óhappið á leiðinni upp) fékk hópinn til að hraða sér bara niður úr kuldanum aftur sömu leið til baka. Ef það hefði allt verið á kafi í snjó hefðum við getað fundið góðar snjóbrekkur til að renna okkur niður í Berjadalinn og gengið þaðan niður að bílunum... en snjór er orðið fjarlægt fyrirbæri okkur hér fyrir sunnan heiða og maður lætur sig bara dreyma meðan maður fylgir einhverjum fyrirséðum göngustíg í allt of miklu myrkri snjóleysisins (reyndar mjög falleg leið og ein sú fegursta í sólarlagi...).


Hópmyndin tókst ekki... við hefðum betur nýtt tímann í að slökkva ljósin og horfa til himins og 360° hringinn kringum fjallið í ljósadýrð næturinnar...

Afreksmenn kvöldsins voru:

Alma M., Anna Sigga, Anton, Auður, Ágústa, Áslaug, Ásta H., Bára, Björgvin, Björn, Bryndís, Elsa Þ., Gerður B., Gerður J., Guðmundur K., Guðjón Pétur, Gunnar L., Hanna, Heiðrún, Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Hulda, Ingi, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Kári Rúnar, María S., Óskar Bjarki, Rósa, Sif, Simmi, Sigurður, Súsanna F., Súsanna Á., Svala, Svanur, Sæmundur, Torfi, Þóra og Örn.

Þar af voru Bryndís, Gerður B. og Gunnar L. að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og þeir Guðmundur K. og Svanur í sinni annarri göngu og stóðu þau sig öll framar vonum hvað nýliða varðar sé haft í huga lengd göngunnar og aðstæður
(borgar sig bara að taka fyrsta skrefið og mæta...!).

... og sjaldséðir hrafnar eins og María S., Sif, Simmi, Súsanna Á. sem vonandi mæta oftar...

... og Svala eftir úlnliðsbrotið í nóvember...

...og Sigga Rósa, Rikki og Sólveig Hansen á "fjaræfingu"...

...og Dimma, Día, Dofri og Kolur...gættu okkar í myrkrinu...


Svala sem var gott að sjá aftur en hún var að mæta í fyrsta sinn eftir úlnliðsbrot á Úlfarsfelli í nóvember og Gunnar Lárusson sem var að mæta í fyrsta sinn með hópnum og stimplaði sig vel inn í hópinn ásamt hinum nýliðunum með því að taka rúmlega 3ja klst. kvöldgöngu í myrkri og kulda án þess að blikna...

Niðurleiðin sóttist hratt og slysalaust fyrir sig með smá gjólu í bakið efst, en aðallega blankalogni sem varð óraunverulegt þegar komið var niður í bílana niðri á láglendi, þar sem ískaldur vindurinn blés og rauntengdi okkur aftur við veðrið sem blés hvasst þennan janúardag í ársbyrjun 2011... þegar menn stóðu tvístígandi í byggð fyrr um daginn og tóku ákvörðun hver fyrir sig um hvort þeir skyldu leggja í hann eður ei... og létu úrtölur ekki draga úr sér... til þess eins að ná fyrsta fjalli ársins með dáð og bæta hörku-kvöldgöngu í reynslubankann...

Staðfesta er einkunnarorð þessarar göngu sem verður að teljast afrek miðað við veðurútlit og lengd göngunnar í svartasta skammdeginu... afreksgöngu upp á 6,9 km á 3:17 - 3:21 klst. upp í 647 m mælda hæð með 584 m hækkun miðað við 63 m upphafshæð.


Hópurinn á niðurleið á norðuröxlinni með borgarljós Akraness í fjarska...

Gleðin var ríkjandi og áræðnin gagnvart einstaklega spennandi ári 2011 var áþreifanleg innan hópsins enda ekki verri staðir en Perú, Hrútsfjallstindar, Jökulsárgljúfur, 24 tindar og Snæfjallaströnd að Jökulfjörðum framundan innan um mergjaðar tindferðir og krefjandi kvöldgöngur... en óhapp kvöldsins skyggði þó á fullkomið kvöldið og vert að velta eftirfarandi fyrir sér:

Lexíur kvöldsins eru þrjár:
...hið minnsta... fyrir utan öll smáatriðin sem hver einasta ganga í lífinu kennir manni
...til viðbótar því að koma manni í betra form en ef setið er eftir í bænum ;-)

Lexía nr. 1: Fall í vindhviðum:

Slysin eru óhjákvæmilegur hluti fjallgangnanna. Það er aldveg sama hve varlega er farið, hve menn eru reynslumiklir eða vel búnir, við munum aldrei fara algerlega slysalaust gegnum fjallamennsku í svona fjölmennum hópi með þetta margar fjallgöngur á ári hverju, því miður. Það eina sem við getum gert er að fara eins varlega og mögulega er unnt, vera eins vel búin og mögulega þarf, meta aðstæður rétt hverju sinni og læra af reynslunni. Þetta kvöld var nánast enginn vindur þrátt fyrir ríkjandi veðurofsa fyrr um daginn og hverfandi rok annars staðar en á okkar slóðum á Akrafjalli þar sem logn ríkti almennt.

Veðrið síðustu tvö ár hefur verið með eindæmum gott og lítið um svaðilfarir eins og fyrstu ár klúbbsins, sem dregur úr reynslu innan hópsins í erfiðum veðrum, en þó höfum við reglulega fengið á okkur mjög erfiða vinda síðustu tvö ár eins og t. d. í eftirfarandi tindferðum;
Háusúlu 24. janúar 2009,
Búrfelli og Leggjarbrjót 9. september 2009
og Bláfjallahrygg 5. desember 2009
(NB BÓKSTAFLEGA ENGUM TINDFERÐUM ÁRIÐ 2010!
(...sem segir margt um það ár...)


Á tindi Búrfells á Þingvöllum 9. september 2009 þar sem varla var stætt... og menn lágu í hrúgu saman undan vindinum... og leiddust niður...

...og eftirfarandi æfingum;
Sýlingarfell og Þorbjörn 14. júlí 2009,
Háahnúk 1. desember 2009,
Stóra Reykjafelli 23. mars 2010
og Þríhnúkum 6. apríl 2010...
og hugsanlega fleiri...


Á Stóra Reykjafelli  23. mars 2010 þar sem menn áttu erfitt með að fóta sig upp fyrir vindi og leiddust upp á verstu köflunum... 

Þetta eru allt saman göngur þar sem slæmir vindar réðu ríkjum svo varla var stætt á köflum og menn gjarnan þurft að leggjast ítrekað niður í mestu hviðunum. Þetta kvöld var vindurinn ekkert í líkingu við ofangreint og nánast enginn vindur í skjólinu mest alla leiðin, en kom þeim mun meira án fyrirvara í snöggri hviðu fram yfir brúnina og niður á aftasta hluta hópsins á meðan þeir sem ofar voru urðu einskis vart alla leiðina (sem betur fer urðu ekki fleiri fyrir hviðunni og ekki fleiri hviður). Af þessu má því læra að þegar ekki er gengið í stöðugum vindi heldur í skjóli frá vindi sem geysar hinum megin skjólsins, þarf að gæta varúðar við brúnir og skörð þar sem vindurinn nær skyndilega í gegn og þá með meiri ofsa en á opnu svæði... eins og vindar í skörðum hafa oft kennt okkur (sbr. sama súlnaskarðið í Botnssúlum bæði
á Syðstu Súlu 6. október 2007 og Háusúlu 24. janúar 2009).


Á Þríhnúkum 6. apríl 2010 þar sem ekki var hægt að skoða gíginn fyrir ofsaroki og menn komust ekki niður nema setja á sig skíðagleraugun fyrir höglum sem gengu hvasst og stöðugt í andlitið...

Einnig er mikilvægt að læra og muna að þegar vindur skellur á manni er best að gefa eftir og setjast niður sem fyrst og bíða vindhviðuna af sér, ekki berjast við að halda sér á fótum og snúast og jafnvel fara af stað með vindinum, því þannig feykist maður frekar og hraðar af stað og tekst frekar á loft, en þess skal getið að nokkrir innan hópsins hafa upplifað það á eigin vegum að takast beinlínis á loft í göngum, þó ekki hafi það gerst í göngum Toppfara nema þegar Óttar flaug af stað
á Syðstu Súlu 2007.


Á Syðstu súlu 6. október 2007 þar sem menn féllu margoft niður á löngum kafla og gátu ekki haldið sér standandi í skarðinu milli Syðstu súlu og Miðsúlu... og þar sem Óttar tókst á loft og brákaði hendina í fallinu...

Að lokum skal nefnt að alvarlega slysið okkar á Skessuhorni 28. mars 2009 þegar Sigga Sig slasaðist alvarlega þá var það létt vindhviða í bakið, mun saklausari en þetta kvöld, sem ýtti við öllum hópnum svo menn stungu niður fæti fram fyrir sig, en Sigga náði ekki að stinga niður fæti nægilega enda í miklum bratta og fljúgandi hálri ísilagðri snjóbrekku þar sem við vorum á leiðinni niður í jöklabroddum eftir talsverð átök við að fara upp á hrygginn og niður aftur í miklum bratta og hálku og versnandi veðri - NB algengara að slasast á niðurleið! - Sjá t. d. viðtal í tímaritinu Útivera - www.utivera.is og mýmargar aðrar umfjallanir á vefnum af slysinu (þjálfari alltaf á leiðinni að klára ferðasöguna!).

Slysin gera sjaldnast boð á undan sér, það er auðvelt að segja eftir á að maður hefði ekki átt að vera á þeim stað og þeirri stund þar sem slys verður (eftir að hafa ítrekað verið við erfiðari aðstæður án þess að lenda í slysi), en í hvert sinn sem þau gerast er nauðsynlegt að læra af reynslunni og gæta sín betur næst. Lognið gerði okkur grandalaus og gleymin því að vindur geysaði ofan við skjólið og þjálfarar hefðu getað verið ákveðnari í að halda hópnum betur neðan við brúnina vitandi að vindurinn hvessir meðfram brúnum og eins var það eftir á að hyggja ekki heillavænlegt að sumir í hópnum gengu ofan hópsins uppi á hryggnum mest alla leiðina.

 Það er ótvírætt okkar skoðun að það sé mikilvægt að fara út í erfiðum veðrum til að læra beinlínis á slíkar aðstæður eins og að þeir sýndu sem þekkja til af reynslunni og settust bara niður þegar hviðan skall á hópnum þetta kvöld (auðvitað er það ekki alltaf hægt og misauðvelt). Að sjálfsögðu förum við aldrei með hópinn út í mjög slæm veður en við munum aldrei geta komist undan krefjandi veðri og munum alltaf lenda í einhverjum tilfellum í slæmum vindi, hvössum vindhviðum, miklum kulda, bítandi frosti, fljúgandi hálku, lélegu skyggni og erfiðum aðstæðum... ef við á annað borð stundum fjallamennsku, sérstaklega allt árið um kring eins og þessir hópur gerir. Öruggast er að vera heima og leggja ekki af stað en meira að segja þar er maður ekki með öllu óhultur í þessu lífi svo ráðlegast er að gæta sín sem best, vera alltaf vel búinn, fylgja fararstjóra, sýna skynsemi við mat á aðstæðum, snúa við ef svo ber undir, sýna yfirvegun og vinna sem einn maður allt til enda ef óhöpp verða... og læra af reynslunni...


Á Háusúlu 24. janúar 2009 sem enn á metið í versta vindi sem við höfum lent í.. þar sem við féllum margoft eins og spilaborg allur hópurinn og þurftum að bíða færis liggjandi í ofsavindi í snjónum til að komast yfir skarðið milli Syðstu súlu og Miðsúlu... ferð sem snerti mann og breytti manni og gleymist aldrei...
Myndin er tekin þegar við erum komin úr veðurofanum á leiðinni niður til baka... enn þó í erfiðu veðri sem var "ekkert" miðað við ofar...

Lexía nr. 2: Sýna staðfestu óháð veðri :

Veðrið er nánast alltaf mun betra en áhorfist út um gluggann og því skal ekki láta veðrið aftra sér heldur mæta og meta aðstæður hverju sinni, snúa við og fara styttra ef þarf, en ekki sleppa æfingu því nánast alltaf er veðrið skaplegt og mun betra en nokkur þorir að vona þegar komið er á staðinn... og í flestum tilfellum lærir maður eitthvað nýtt um veðrið með því að mæta. Þetta læra allir þeir sem æfa úti við hinar ýmsu íþróttir til lengri tíma, ekki eingöngu fjallgöngur og er mjög mikilvægt að læra þessa lexíu, því þeir sem láta veðrið út um gluggann stjórna sér missa stöðugt af bæði dýrmætri útiveru í ágætis veðri (óteljandi dæmi sanna það í þessum klúbbi!) en einnig dýrmætri reynslu í krefjandi veðrum þegar gott er að vita á eigin skinni hvernig þau "haga sér við mann" (þó veðrið sé alltaf ófyrirsjáanlegt að einhverju leyti), til að geta betur tekist á við þau þegar slæm veður koma fyrirvaralaust eins og t. d. í margra daga göngum í óbyggðum eða þegar veður versnar skyndilega uppi á háum fjöllum eða í löngum dagsgöngum fjarri byggð.

Lexía nr. 3: Fylgja leiðarvali fararstjóra:

Fylgjum fararstjóra og afvegaleiðum ekki hópinn um slæma kafla. Margir voru smeykir við að fara yfir hálkublettinn og snjóskaflinn efst í tröppunum í Selbrekku í upphafi göngunnar þar sem aftari hluti hópsins lét afvegaleiðast, en Örn fór ekki um þennan kafla heldur hægra megin við tröppurnar þar sem ekki var hálka (sbr. þar sem við öll fórum á niðurleiðinni, algerlega án hálku!). Það er mjög eðlilegt að menn vilji þegar færi gefst fara annað en fararstjóri gerir og nauðsynlegt að vera sjálfstæður og hugmyndaríkur í þeim efnum, en við verðum að muna að við erum að ganga í fjölbreyttum hópi og ef menn fara um kafla sem eru erfiðir eða ekki á færi allra meðlima, sérstaklega nýlegri félaga sem jafnvel hafa aldrei gengið í myrkri áður, er nauðsynlegt að menn vari við eða stoppi þá sem á eftir koma og vísi mönnum frekar á slóðina sem fararstjóri valdi. Athugið vel að aftari hluti hópsins telur sig vera að fylgja fararstjóra með því að fylgja næsta manni fyrir framan sig og getur ekki alltaf séð (sérstaklega í myrkri) að hann er ekki lengur að fara um leiðina sem fararstjóri velur (líka aftasti fararstjóri sem nær ekki alltaf að hafa yfirsýn yfir allt göngusvæðið, m. a. fyrir myrkri, þoku og landslagi...).

 Þetta er auðvitað minniháttar mál og það var bara hollt og gott að fara um þennan hálkublett þetta kvöld, (enda allir með hálkubroddana tilbúna í bakpokanum sem hefði verið hægt að skella á skóna ef fleiri svona kaflar hefðu komið á leiðinni), en þetta er engu að síður umhugsunarvert og hluti af viðleitni okkar þjálfaranna til að gæta allra í hópnum og velja leiðir sem henta öllum þegar aðstæður eru ekki góðar (eins og í myrkri að vetri til), til þess m. a. að draga sem mest úr líkum á óhöppum innan hóps sem er missterkur og ekki allur í stakk búinn til að skella sér erfiðari kafla á eftir fremstu mönnum sem eru þaulvanir og eru jafnvel viljandi að ná sér í meira krefjandi göngukafla sér til þjálfunar
(þetta er orðið soddan dúndurlið ;-)).

En nóg um lexíur og alvarleika þó nauðsynlegt sé í háalvarlegri fjallamennskunni!
Þetta var sannkölluð
gleðiganga á Akrafjalli þrátt fyrir allt
þar sem tónninn var sleginn af hópi sem aldrei gefur eftir og mætir sama hvað...
 með brosi á vör og gleði í hjarta... hlátri á köflum og brosi í grennd öllum stundum sama hvað á gengur...
(Alma var farin í hláturinn með félögunum á köflum eftir óhappið!).

Árið 2011 bíður okkar...

... með mögnuðum ævintýrum framundan og nýjum glitrandi fjallaperlum í safnið...
...fyrsta perlan var
Geirmundartindur sem sumir voru að ganga á í fyrsta sinn...
...og það í myrkri, kulda og logni með hífandi rok alls staðar nema þar sem við gengum...
...næsta perla er
fyrsta tindferðin árið 2011...
...
nýársganga á nýjar slóðir á suðaustanverðri Skarðsheiði...
... frábær mæting og frábær veðurspá þrátt fyrir frost og smá vind...
... þar til annað sannast þegar nær dregur laugardeginum...
Njótum þess að hafa heilsu og form til þess að njóta slíkrar
dýrindisútiveru sem tindferðirnar eru næstkomandi laugardag ;-)

P.s...
Þjálfari ætlar að taka saman í sér undirsíðu hér á vefnum þau óhöpp sem hafa orðið í göngum Toppfara til að við getum öll, Toppfarar og aðrir sem nýta þessa síðu, lært af reynslunni og reynt að koma þannig enn betur í veg fyrir hvers kyns óhöpp - sjá síðar!
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is