Tindferð 28 á Búrfell og Leggjarbrjót 10. október 2009

Baráttusigur á Búrfelli

Alls tóku 33 Toppfarar þátt í tindferðinni laugardaginn 10. október með krefjandi göngu í hvassviðri og logni og allt þar á milli. Gengið var frá Þingvöllum niður í Botnsdal um Leggjarbrjót með viðkomu á Búrfelli þar sem vaða þurfti Öxará tvisvar með ýmsum forvitnilegum tilþrifum og var gönguleiðin umhverfis hvassa hvíta tinda og haustliti á láglendi í háskýjuðu og úrkomulausu veðri með glæsilegri fjallasýn og fjölbreyttu landslagi eða NA17 og 7°C.



Lagt var af stað úr bænum
kl. 7:00 inn í Botnsdal þar sem bílar voru skildir eftir og rúta ók göngumönnum í Svartagil á Þingvöllum þar sem gangan hófst kl. 9:42. Í Svartagili beið Ágústa með tíkina sína Tínu en hundar máttu ekki fara í rútuna svo þær redduðu sér fari á Þingvelli :-)

Hér gengur hópurinn með Búrfell framundan.

Gengið var um vegaslóðann til að byrja með en svo var þrætt meðfram Öxará inn Öxárárdal og gljúfur árinnar skoðuð á leiðinni þar sem sprænur úr Fossabrekkum Syðstu Súlu runnu saman við ánna.

Hér með Syðstu Súlu í baksýn en Botnssúlur áttu eftir að hafa gætur á okkur allan þennan dag... og öfugt :-)

Eftir rúma 3 km göngu var komið að Öxará sem vaða þarf til að komast að Búrfelli og höfðu þjálfarar lagt upp með vaðskó, laxapoka eða plastpoka þar sem vaðið var grunnt og aðeins of dreift til að tryggt væri að allir kæmust yfir stiklandi á steinum.

Heldur var meira í ánni en í könnunarleiðangri þjálfara níu dögum áður en á mynd sést að Valgerður notaðist við plastpoka eins og flestir gerðu, Örn og Óskar Bjarki stikluðu á steinum, Íris Ósk, Roar og Gylfi Þór fóru berfætt yfir og Halldór fann ofar sinn stað yfir ánna stiklandi... Hver fór með sínu lagi og enginn var blautur eftir ævintýrið nema Bára og Hanna Rún sem fóru á svörtum ruslapokum yfir en stoppuðu úti í miðri á og náðu þannig að safna vatni inn að skóm.

Tíkin Tína var eini hundurinn með í för þennan dag og var hikandi við ár og læki.
Ingi hjálpaði henni yfir eina fossasprænuna úr Súlunum og Halldór lét sig ekki muna um að fara aukaferð yfir þetta vað til að sækja hana í fanginu en í síðara vaði yfir Öxará fór Ágústa sjálf með litla skinnið í bandi yfir.

Við tóku aflíðandi hlíðar Búrfells þar sem sneitt var framhjá stórgrýti og farið um mosagrónar grundir og stefnan tekin á suðausturhlíðina sem er mest aflíðandi þegar komið er úr austri þar sem óvíst var hvernig gengi að fara upp mesta brattann í miklum vindi og hálku (brekkan sem blasti beint við frá ánni og er almennt vel göngufær).

Vindurinn var farinn að blása óheyrilega með hverjum hækkandi metranum yfir sjávarmáli
og sumum var ekki orðið sama um
veðurhaminn.

Hanna Rún og Sæmundur hér á spjallinu þegar lagt var af stað eftir eina pásuna í nokkurn veginn skjóli,
Kári og Guðrún Helga að taka myndir, Heiðrún og Ingi að sýsla með farangur.

Ármannsfell í baksýn.

Útsýnið þennan dag var tært og fagurt undir úfnum himninum.

Hlíðar Ármannsfells lengst til vinstri, Tindaskagi, Klukkutindar, Hrafnabjörg og Kálfstindar.
Hekla, Tindfjallajökull og Eyjafjallajökull í skýjunum að mestu þennan dag.

Þingvallavatn með Arnarfell, Miðfell, Búrfell Grímsnesi, Ingólfsfjall og Grafningsfjöll í baksýn.

Þingvallavatn, Grafningsfjöll, Dyrafjöll og Nesjavallasvæði, Hengillinn, Þrengslafjöll og Bláfjallagarðurinn í baksýn.

Hópurinn var þéttur tvisvar á leiðinni upp suðurhlíðar Búrfellsins í verstu hviðunum þegar færi gafst á skjóli en annars var þetta barningur upp grjóti og klappir innan um harða snjóskafla og frosinn mosa með loforði um að tindurinn væri ekki langt í burtu... bara 100 m hækkun eftir... bara 400 m í tindinn...

Guðrún Helga og Örn á síðustu metrunum upp á topp með Skálafell, Móskarðahnúka og Esjufjallgarðinn í baksýn.

Á Skálafelli var skv. veðurstofu þennan dag NA16 m/s en 30 m/s í verstu hviðunum sem var líklega það sem var okkar verkefni í efri hlíðum Búrfellsins þennan dag.

Hópurinn safnaðist saman á tindinum og reyndi að njóta útsýnisins sem sjaldan gefst betra en þarna þar sem allir helstu fjallgarðar í nágrenni höfuðborgarinnar blasa við ofan af Búrfelli.

Komin á tindinn eftir 6,5 km göngu á 3:43 klst.

Menn lögðust niður vestsuðvestan við vörðuna og biðu eftir fyrirmælum um að fara niður.

Í pásunni á leiðinni upp hafði verið ákveðið að klára tindinn í hvelli, þar yrði hávaðarok og ekkert að gera nema sitja af sér vindinn og fara niður þegar þjálfari yrði búinn að smella af hópmynd...

...þeirri einu sem tekin hefur verið af hópnum öllum sitjandi undan vindinum...

Með Syðstu Súlu og Vestursúlu í baksýn... sjá nöfn allra í hópmynd neðar í frásögn... hér sjást ekki allir!
Bára tók mynd með herkjum fyrir brjáluðu rokinu.

Sjá slóð af myndbandi þjálfara á tindinum:
http://www.youtube.com/watch?v=hGra8XieZPM

"Niður sem fyrst... "

Það reyndist hægara gert en sagt því við tóku enn hvassari hviður fyrstu 100 hæðarmetrana (dæmigert í miklum vindi, verstu hviður í skörðum og meðfram brúnum neðan við tindinn, oft lygnara efst sbr. brúnalogn sem stundum vill verða, en þetta er ekki algilt og stundum er versti vindurinn efst, fer eftir nærliggjandi landslagi og vindátt).

Fjallasýnin óborganleg en því miður erfitt að njóta hennar þegar öll orkan og athyglin fór í að halda sér uppistandandi með göngustafina eða næsta mann fjúkandi til hliðar að flækjast fyrir manni...

Hér voru snjóskaflarnir það skásta til að ganga á meðan mosinn og grjótið var flughált á köflum.

Menn fóru í pörum ef svo bar undir en síðustu menn fóru undir styrkri stjórn Inga í fernu niður á meðan Bára kastaðist niður og upp aftur á slitnum og hálum gönguskónu og var lítil stoð og stytta á þessum kafla... en barðist við að taka myndir samt... Þau virðast ganga mjög rólega og yfirvegað á myndinni.. en voru í heljarinnar barningi með að halda sér á fótunum!

Sjá broddastafinn hans Inga sem hann fékk í afmælisgjöf frá svila sínum sem veit hvað fjallalmennska Inga syngur (allar aðstæður um öll fjöll). Við fengum að prófa herlegheitin þennan dag og vorum búin að uppgötva tuttugu og eitthvað góðar leiðir til að nýta "prikið" eins og Heiðrún kallaði stafinn :-)  en það kæmi ekki á óvart þó fleiri smitist til að eignast slíkan grip.

Sjá Skarðsheiðina í heild í fjarska - fjallgarðarnir hver á fætur öðrum en þetta voru einu fjöllin sem óðu í skýjum þennan dag... örugglega versta veðrið þarna uppi... veðravítið Skarðsheiði lætur ekki að sér hæða...

Myrkavatn í fjarska og það aðeins glittir í Sandavatn fjær við fjallsrætur Botnssúlna
þar sem við gengum meðfram síðar um daginn.

Neðar í Búrfelli var smá klöngur í sköflunum niður neðstu kletta og menn hjálpuðust að.

Þegar síðustu menn fóru þarna niður horfðu þeir á eina vindhviðuna fara yfir hópinn sem beið neðar og menn ultu um koll eins og dominokubbar.

Það fór ekki á milli mála að þetta var vinda-tinda-æfing vetursins...

Fjallsrætur Búrfells svo gengnar í mosa og sneitt framhjá stórgrýtinu sem annars þekur hluta fjallsrótanna í norðri og farið niður að Öxará með Botnssúlurnar í öllu sínu veldi yfir okkur eins og allsráðandi á svæðinu...

Síðasta vað Öxarár...

Menn voru ekki lengi að þessu verkefni... lítið mál eftir að hafa lifað af hvassviðrið þarna uppi... hinum megin árinnar beið okkar síðari nestistími dagsins í sól og blíðu rétt eins og að vindurinn á Búrfelli hefði bara verið ímyndun...

Farið yfir reynsluna af hvassviðrinu yfir kakósopanum og flestir alsælir með þessa reynslu og í þessari sigrihrósandi vímu sem oft fylgir því að berjast við veðrið og hafa betur.. en sumum fannst þetta krefjandi lífsreynsla og voru hreinskilnir með það óöryggi eða jafnvel skelfingu sem getur gripið mann við erfiðar aðstæður veðurs...

Hollt og gott þótt erfitt sé svo lengi sem maður styrkist við svona barning en bugast ekki og verður fráhverfur fjallamennsku að vetrarlagi. Gerum okkur grein fyrir að svona bardagar eru mögulegir í hópi þar sem sameinuð reynsla og styrkur gerir hópnum mögulegt að komast klakklaust úr út svona aðstæðum og styrkja hvern mann hópsins fyrir vikið.

Það er með þetta eins og annað... reynslan gerir mann hæfari til að takast á við hvaða veður sem er.

Sjá myndband þjálfara af gönguhópsins á Hvannadalshnúk 16. maí 2009 þar sem við börðumst við hávaðarok klukkustundum saman og bjuggum að því að hafa reynslu af veðri álíka því sem ríkti á Búrfelli þennan dag:
http://www.youtube.com/watch?v=8mXZoH0jNn0.

Létt var yfir hópnum þegar lagt var af stað eftir nestið.

Framundan var þvælingur um mosa og börð að eiginlegum slóðanum yfir Leggjarbrjótinn sjálfan með göngustíg það sem eftir lifði dags og bæði vöð og fjall að baki.

Logn af Botnssúlum og sólin skein í heiði... þetta var yndislegt...

Þegar komið var að Sandavatni var Lilja Kristófers svo óheppin að togna á kálfa þegar hún stökk yfir eina af lækjarsprænunum sem koma frá Súlunum niður í vatnið og leist okkur ekkert á blikuna til að byrja með.

Lilja, með brosið sitt og létta lund sama hvað á gengur tók verkjalyf, fékk kælingu með snjó frá Inga og kæligel hjá þjálfara og þrýstingsvafning um kálfann... haltraði af stað eftir aðhlynningu hópsins og þegar ekki náðist símasamband við einhverja sem hugsanlega gætu komið á fjórhjólum upp eftir var ljóst að lítið var í boði annað en að halda á hinum slasaða eða haltra sjálf alla leið sem Lilja og gerði af stakasta æðruleysi...

Sjá hláturinn á myndinni sem aldrei hefur yfirgefið okkur á fjöllum sama hvað gengið hefur á!

Efri frá vinstri:
Ásta H., Kári Rúnar, Halldór, Hildur Vals., Helgi Stefnir, Sveinn Máni, Linda Lea, Óskar Bjarki, Kristín Gunda, Harpa, Birna, Valgerður, Örn, Petrína, Sæmundur, Anna Elín, Áslaug, Gylfi Þór, Lilja Sesselja, Hanna Rún, Guðrún Helga, Halldóra Þ.
Neðri frá vinstri:
Sigga Sig., Sigrún, Tína, Ágústa, Heiðrún, Lilija Kr., Jón Ingi, Ingi með Broddstafinn sinn, Íris Ósk, Óskar Úlfur og Roar.
Bára tók
mynd.

Lagt af stað í fylgd Lilju með tæpa 6,5 km framundan niður í Botnsdal.

Halldóra Þ., Heiðrún, Lilja Kr., Ingi, Kristín Gunda, Halldór og Anna Elín.

Sandavatn að baki með hlíðar Syðstu Súlu vinstra megin og Búrfell hægra megin.

Gróðursæll síðari hluti Leggjarbrjóts niður í Hvalfjörð.

Hér fengum við aftur á okkur einhvern vind eftir algert lognið við Botnssúlurnar eða mig minnir það... einhvern veginn var smá vindur ekkert í samanburði við hvassviðrið og í minningunni var blíðskaparveður allan daginn eftir Búrfellið...

Brynjudalur hér framundan en þann dal þurfum við að ganga einn daginn... t. d. á leiðinni upp á Botnssúlur...

Lilja hélt ótrúlegum gönguhraða þrátt fyrir allt (sjá á mynd að hún er fyrst!) og var víst farin að svífa eitthvað hraðar niður eftir þegar verkjalyfin tóku völdin :-) en hún tók sér varla pásu alla leiðina nema þegar við prófuðum að setja Icy-Hot á kálfann á miðri leið og vöfðum teygjubindið fastar.

Hvalfell hér í baksýn og ein af myndarlegum vörðum Leggjarbrjóts meðal göngumanna.

Óskar Úlfur og Ingi með Botnssúlurnar í baksýn.
Í
nóvember 2010 göngum við á Vestursúlu og Norðursúlu sem hér rísa báðar með öxl Vestursúlu fremst.
Góð gönguleið og ekki svo flókin að vetri til.

Gróðurvinjarnar í Hvalfjarðarbotni tóku smám saman við með lækjarsprænum, gljúfrum og birkiskógi.

Snilldargönguleið í góðu veðri og bara ansi flott að vetri til.

Sjá myndband þjálfara af friðsældinni á þessum síðasta kafla - dásemdarstaður þessi dalur:
http://www.youtube.com/watch?v=-sBAkyK4xGk&feature=related

Botnsá yfir brúnna og Hvalfell í fjarska.
Lilja fór svo hratt yfir að á endanum skiluðum við okkur eingöngu
36 mínútum síðar en fyrstu menn að bílunum... ótrúlegt!

Glymur í öllu sínu veldi í fjarska...

Vindur var í Hvalfjarðarbotni úr norðaustri þegar við enduðum gönguna
og hávaðarok var á leiðinni í bæinn, verst kringum Esjuna...

...en stillan í hugum okkar sem gengu þennan dag stafaði af ánægju með sigurinn yfir veðri, vetri og vegalengd.

Alls gengum við 19,7 km á 7:03 - 7:39 klst. upp í 786 m (783 m) hæð með 627 m hækkun
ef mark er tekið á gps-inu sem sýndi raunhæfustu hæðartöluna - sjá neðra graf.

Gps-tækin innan hópsins skeikuðu í vegalengdarmælingum frá 18,5 - 19,8 km en flest voru tæplega 20 km svo 19,7 km er látin standa skv.  gps-úrinu - sjá graf hér.

Sjá slóðann alla leið frá Svartagili neðst til hægri upp í Botnsdal efst til vinstri.
Viðbótin á
Búrfell tók af okkur ca 2 km kafla af Leggjarbrjótsleiðinni.
Sjá merkingar á gps af kennileitum eins og vöðum, fossum, vörðum...
Mikilvægast er að merkja inn
upphafsstað, tind og endastað til að rata og nýta síðar og eins að merkja inn staði sem hafa áhrif á gönguleið eins og framhjáleið vegna hindrana o.fl.

Frábær frammistaða hvers einasta manns sem mætti í þessa ferð gerði gönguna
snilldardegi sem  skilaði okkur góðri þjálfun fyrir langa vegalengd við krefjandi veðuraðstæður.

Kærar þakkir allir fyrir hjálpsemina, eljuna og góða andann sem er einmitt kjarni Toppfara og fær okkur til að leggja af stað aftur í ævintýri eins og þennan dag með góðu fólki í góða ferð sem maður veit aldrei hvernig fer á endanum... en breytir manni í hvert sinn til betri vegar á einhvern hátt og skilar manni vímu dögum saman á eftir og varanlegum verðmætum á sálinni...

Sjá allar myndir þjálfara úr ferðinni:
http://picasaweb.google.com/Toppfarar/T28BurfellLeggjarbrjotur101009#

...og á myndasíðum klúbbmeðlima og fésbókinni undir tenglar.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir