Tindur 30
 Bláfjallahorn - Bláfjallahryggur - Ólafsskarðshnúkar
5 desember 2009


Belgingur í Bláfjöllum
... og jólasveinar frá Toppförum komu ofan úr fjöllunum...

Alls mættu 24 manns í 30. tindferðina í Bláfjöllum laugardaginn 5. desember og gengu Bláfjallahrygginn frá Bláfjallahorni í suðri og norðaustur yfir á Ólafsskarðshnúka. Veðrið var krefjandi eða beljandi suðaustanvindur 8 - 17 m/s og 4°C og snjóhríð eða slydda meirihlutann af leiðinni. Útsýnið var því ekkert nema um nánasta umhverfi lengstum ferðarinnar, en þegar gengið var um Ólafsskarðshnúka opnaðist veröldin og það létti til með vetrarsól í suðri. Vegna veðurs var viðbótargangan á Vestur-Bláfjöll og Vífilsfell látin bíða betri tíma enda allir orðnir blautir og hraktir eftir barninginn og vildu eiga einhverja orku eftir fyrir kvöldið... eða bara komast heilir á húfi í bílana :-)

Lagt var af stað úr bænum rúmlega átta um morguninn í kolniðamyrkri og vindi eftir veðrasama nótt...

Hvað höfum við eiginlega oft upplifað illviðri á föstudagskvöldum og aðfararnótt göngudags þar sem reynt er grimmt á staðfestu og sálarstyrk?

Bílum var ekið í Jósepsdal þar sem helmingur þeirra var skilinn eftir við austurfjallsrætur Vífilsfells við skarðið inn í Jósepsdalinn sjálfan sem var vel sloppið á þessum árstíma, en þjálfarar áttu alveg eins von á að þurfa að skilja bílana eftir við námurnar sunnan Vífilsfells.

Þá var ekið upp í Bláfjöll eins langt og hægt er syðst í Suðurgili skíðasvæðisins við lyftuna Gosa en þar við syðri endann endar Bláfjallgarðurinn á hrauninu á láglendi.

Lagt var svo að stað gangandi kl. 9:31 í rökkri og vindi sem gaf kuldalegan tón en birtan af snævi þöktum fjöllunum í kring og glætan sem var að birtast í  suðaustri gaf okkur nægan kjark til að leggja í ævintýralega göngu...

Gengið var úr 513 m hæð upp hæðina að lyftuhúsinu í Suðurgili og var þetta því fremur saklaus brekka með þessum upphafsreit og færið hið besta; blautur snjór og engin hálka að ráði í slyddunni...

Vindurinn var úr austri eins og spáð var en átti að færast í sunnanátt þegar liði á morguninn
en úr varð einhvur suðaustanátt fannst manni mestan hluta göngunnar.

Skálar og lyftuhús gáfu okkur skjól á fyrsta kaflanum um Bláfjallahorn og yfir á Bláfjallahrygg og veðrið buldi á okkur... þjálfarar lögðu því af stað með það í huga að þurfa að snúa við á ákveðnum tímapunkti en til þess kom ekki... allir vel búnir og vel stemmdir og nutu þess að berjast við veðuröflin vel vopnaðir...

Þegar leið á hurfu öll mannvirki eins og girðingar og staurar skíðasvæðisins, sem höfðu gefið ákveðna huggun þegar veðrið lét sem verst um að við værum ekki týnd og tröllum gefin uppi í fjöllum í þessu veðri... en gps-ið og minni þjálfara leiddi leiðina eftir könnunarleiðangur þeirra fyrr í vetur og við vorum alltaf á réttri leið.

Fljótlega blotnuðu menn í slyddunni og blautu færinu og hver og einn lærði sína lexíu með sjálfan sig og búnaðinn... hvað dugar og hvað ekki í svona veðri... hvers maður vill ekki vera án í næstu atrennu þessarar tegundar af veðri sem reynir meira en nokkuð annað á göngumenn... þ. e.
1)stanslaus slydda með
2)miklum vindi við
3)frostmark...

...
banvæn blanda veðurs...
... sem ekki ber að taka léttvægt enda brýndu þjálfarar fyrir öllum að láta vita ef menn væru komnir í vandræði, fylgdust grannt með félögum sínum, tóku stöðugt púlsinn á mönnum og voru með varaplan í farteskinu... norðvestur af fjallgarðinum var skjótt og auðfengið skjól ef ske kynni...

Flestir láta ekki vita um vanlíðan fyrr en of seint og því er mikilvægt að lesa í nonverbal skilaboð göngumanna; eru menn að dragast aftur úr, hafa breytt um göngulag, hægt á sér, mikið að vandræðast með farangur og búnað, ráfa út fyrir slóðina, seinir á fætur eða seinir af stað eftir pásu, hættir að gera að gamni sínu, hættir að spjalla eða brosa, farnir að draga sig í hlé, bregðast treglega eða ekki við ávarpi, hika við að svara þegar spurt er um líðan eða svara dauflega, segja allt vera í lagi en það hljómar ekki sannfærandi, ólíkir sjálfum...?

Þegar virkilega reynir á í erfiðum fjallgöngum er eðlilegt að draga sig í hlé, verða hljóðlátur og einbeittur við erfiðar aðstæður en um leið er nauðsynlegt að peppa hvert annað upp og gefa orku inn í hópinn og þegar allt er í lagi þá gera menn þetta almennt. Styrkur hópsins gefur öllum aukaorku framan af við aðstæður þar sem maður einsamall á ferð þyrfti mun meira að taka á stóra sínum en það eru takmörk fyrir þessu sem öðru og þegar syrtir verulega í álinn þá eru aðstæður alls hópsins fljótar að breytast ef einn úr hópnum lendir í vandræðum.

En svo var ekki þennan dag þó veðrið minnti mann á hver skjótt veður skipast í lofti... því þó sumir væru blautir og hraktir á köflum þá leið mönnum almennt vel, voru vel búnir og tilfinningin var góð... að ganga í erfiðu veðri í góðum búnaði og finnast maður geta gengið svona tímunum saman er sérstök tilfinning sem fær mann til að koma ríkari og sælli frá svona degi... og sterkari þegar maður lendir næst í krefjandi aðstæðum...

Allir hjálpuðst að og menn lánuðu hver öðrum aukavettlinga og annað sem til féll ef þurfti...

Andi sem skiptir sköpum á fjöllum !

Bláfjallahryggurinn tók við með hnúkum sínum og vörðum á leiðinni og hópurinn var þéttur reglulega með skrafi og ráðagerðum um hvort við færum Vífilsfellið eða héldum okkur við Ólafsskarðshnúka sem eru beint framhald af Bláfjallahrygg.

Leiðin á Vífilsfell felur í sér nokkuð langa viðbót gegnum Draumadali og um Bláfjöllin sjálf í norðvestri með klöngri upp hnúka og kletta og það var fljótlega ljóst að veður og ástand göngumanna bauð ekki upp á slíkt ævintýri að sinni...

Strákarnir Eyjólfur??? og Kalli og Petrína og Lilja K. sem gáfu ekkert eftir...

Skyggnið var ekkert stóran hluta af göngunni og öftustu menn urðu að gæta þess að missa ekki sjónar af fremstu mönnum... en það gat verið flókið þegar einhver dró sig í hlé í einkaerindum... en þá skiptu Bára og Ingi sér á útsýnisstólpa og héldu sjónlínunni gangandi...

...en annars hélst hópurinn vel saman eins og ráð var fyrir gert og var þéttur allan tímann sem er nauðsynlegt við þessar aðstæður þegar enginn má týnast úr hópnum...

 

Leiðin var greið lengstum af upp og niður brekkur, heiði og hóla Bláfjallahryggjarins.... og þjálfarar syrgðu útsýnisleysið sem hefði verið svo fallegt í lágri vetrarsólinni... hreint út sagt mergjaður árstími til göngu í glitrandi snjó og vetrarsólarlagi í nokkra klukkutíma sbr. gangan á Akrafjall milli jóla og nýárs 2007 sem aldrei gleymist og á enn einar fegurstu ljósmyndir í sögu klúbbsins...

Á krossgötunum þar sem farið er af hryggnum í vestur yfir á vestari Bláfjöllin og Vífilsfell eða norður yfir á Ólafsskarðsshnúka, var endanlega afráðið að fara yfir á Ólafsskarðshnúka og sleppa Vífilsfelli að sinni og voru menn almennt sammála þessari ákvörðun þó alltaf leynist jaxlar innan um sem eru til í allt...

Aðalnestispásan var í skjóli við einn klettinn á leiðinni milli Bláfjallahryggjar og Ólafsskarðshnúka þar sem Hrafnagil klýfur garðinn niður í dal... þarna var heldur langt liðið á gönguna og nasl búið að gefa orkuna hingað til, en enginn hafði verið tilbúinn til að stoppa að ráði fyrr en þarna þar sem veðrið bauð ekki upp á neitt nema sláandi hviður og bleytu...

Það er engu að síður lífsnauðsynlegt að gefa sér tíma til að borða þó erfitt sé, því maður endist ekki marga klukkutíma næringarlaus við krefjandi aðstæður...

Og var þetta ein af þessum hráslagalegu nestispásum sem maður nýtur lítils, bara nærist og flýtir sér aftur í vettlingana, ískaldur og blautur... en andinn var góður í hópnum og allir ánægðir með það sem var að baki... og endurnærðir eftir nestið.

Sigrún og Harpa að koma vettlingunum á sig sem gat nú bara verið ansi flókið þennan dag...

Á leiðinni á hærri Ólafsskarðshnúkinn lyftust skýin skyndilega frá og við blasti Jósefsdalur í allri sinni dýrð með góðri sýn yfir á Bláfjöllin í vestri og Vífilsfell... loksins fengum við að sjá hvers lags umhverfi við vorum að ganga um... en svo fóru skýin aftur fyrir og létu standa á sér í nokkrar mínútur í viðbót... en  andinn fékk þarna aukasprautu og við skutumst upp Ólafsskarðshnúk sem mældist 699 m eða lítið eitt lægri en Bláfjallahorn.

Og þar sem við gengum niður af honum og yfir á lægri Ólafsskarðshnúkinn hurfu skýin jafn skyndilega og áður og við okkur blöstu fjöllin nær og fjær... áhrifamikið útsýni til vesturs, norðurs og austurs - sjá myndband af þessum kafla á YouTube:

http://www.youtube.com/watch?v=6isXuCgl7K8

Þetta var brattasta brekkan til þessa en nokkuð greið í blautum snjónum niður í skarðið milli Ólafsskarðshnúka
þar sem
Suðurgil rennur niður í Jósefsdal.

Útsýnið til norðurs út dalinn - bílarnir lengst í endanum á slóðanum í hvarfi við fjallsrætur Vífilsfells vinstra megin á mynd.

Vífilsfell og Bláfjöllin í vestri... hrikalega falleg leið sem leynir á sér og bíður betri tíma...

Nyrðri Ólafsskarðshnúkur sem mældist 555 m - jafnhár og Háihnúkur á Akrafjalli vikuna áður sem dæmi.

Syðri Ólafsskarðshnúkur að baki.

Snædís, Sigrún, Jóhannes Svavar, Kalli, Lilja K., Ingi lengst í burtu og Harpa lengst til hægri.

Slóðin eftir okkur ofan af syðri Ólafsskarðshnúk.

Sauðadalahnúkar í fjarska... hnúkarnir sem við príluðum um í september í rigningu, vindi og þoku og lentum í grjóthruni á niðurleið um óþekkta leið...

Komin á brúnina á síðari Ólafsskarðshnúk með Blákoll vinstra megin á mynd og Hengilinn lengra í burtu, Stóra Reykjafell hægra megin við mynd og Lambafell lengst til hægri með Lambafellshnúk stakan norðan við sig.... við göngum þarna um næsta sumar...

Birna á leiðinni niður með syðri Sauðadalahnúkinn framundan og skálann í Ólafsskarði neðst hægra megin á mynd.

Kalli, Kári Rúnar og Ingi með sólina og Geitafellið í baksýn... synd að fá ekki notið birtunnar, útsýnisins og sólarinnar fyrr en það var ágætis dæmi um andann í hópnum að sumir voru fegnir að fá þetta veður.. það var ævintýri út af fyrir sig og auðvitað er ekkert gaman að ganga alltaf í góðu veðri... þá lærir maður ekkert um búnaðinn sinn eða sjálfan sig...

Komin í Ólafsskarð og skálann þar sem Björgvin og fleiri? áttu góðar minningar um skíðaiðkun í æsku en Björgvin sagði okkur að lyftan hefði þá legið um skarðið úr Jósefsdal og sáum við þess merki á leiðinni um skarðið niður í dalinn.

Jósefsdalur var svo skikaður í óþolinmæði eftir heitu baði, þurrum fötum og jólagleðinni sem beið okkar þarna fyrir handan hjallann í mynni dalsins...

Sjá af vef Ferðafélags Íslands um Jósepsdal og hluta af þessari gönguleið um Bláfjallahrygg eftir Tómas Einarsson:
http://www.fi.is/files/IMG_991497596.pdf

"Sú sögn er varðandi nafnið á dalnum að í fyrndinni hafi þar búið maður er Jósef hét. Hann var afburðasmiður en orðljótur fram úr hófi og því vel metinn hjá þeim í neðra. Eitt sinn keyrði orðbragð hans svo um þverbak að kölski sá sér ekki fært annað en sökkva bænum og taka Jósep til sín með manni og mús. Eftir þetta hefur ekki verið búið í dalnum."

Skorað var á Kalla að bifa steininum sem stóð stakur með nyrðri Sauðadalahnúk í baksýn...
Hann tók auðvitað áskoruninni en tókst ekki að fullnusta væntingum og ætlun sinni...

Síðasti spölurinn að bílunum var í mun betra veðri en fyrr og ofar...

Það var mikil synd að gleyma að taka hómynd... skil ekkert í þessu að muna ekki eftir því þegar veðrið varð gott og útsýnið mergjað ofan af síðustu hnúkum... en...

Göngugarpar dagins voru:

Anna Elín, Anton, Áslaug, Ásta H., Bára, Birna, Björgin J., Eyjólfur, Gylfi Þór, Harpa, Hermann, Ingi, Inga Lilja, Jóhannes R., Kalli, Kári Rúnar, Lilja K., Lilja Sesselja, Óskar Bjarki, Petrína, Sigrún, Snædís, Svala og Örn.

 Ólafsskarðshnúkar og nyrstu hnúkar Bláfjallahryggjar kvöddu okkur baðaðir í vetrarsólinni og skildu ekkert í okkur að hafa ekki litið við þegar lengra var liðið á daginn með sólina í kaffi og svona en við máttum náttúrulega ekki vera of sein þar sem jólagleðin beið um kvöldið...

Þjálfarar misreiknuðu sig í bílaskiptum (enda yfirlýstir andstæðingar þess að skilja bíla eftir á öðrum stað en upphafsstað þó þeir neyðist stundum til þess eins og þennan dag :-) )og troða þurfti þétt í bílana niður að Litlu Kaffistofu þar sem Bláfjallamenn komu svo og náðu í þá sem voru aukalega í bíl... Kaffistofan klikkaði ekki og við bárum saman blautar bækurnar og veðurborin andlitin í sælu fjallamannsins sem á að baki frábæran  göngudag...

Alls 12 km á 4:47 klst. upp í 703 m hæð með 190 m hækkun miðað við 513 m upphafshæð en alls um 952 m hækkun á leiðinni og 1184 m lækkun þar sem við lækkuðum okkur heilmikið til norðurs í Jósefsdal frá Suðurgili Bláfjalla.

Sjá á efri prófíl allar litlu hækkanirnar og lækkanirnar á leiðinni eftir fjallgarðinum.

Gula línan sýnir gönguna okkar. Sjá hvítu línuna þar sem  aukakrókurinn að Vífilsfelli hefði verið; nokkrir kílómetrar í viðbót og komið þá beint niður á bílana, en þessi leið var ekki framkvæmanleg nema í góðu veðri og jafnvel eingöngu með því að sleppa Ólafsskarðshnúkum þar sem Jólagleðin spilaði inn í með tímamörk (hún var ekki í planinu upphaflega)... en þjálfarar eru alltaf bjartsýnir og vilja frekar ætla sér um of en of lítið þar sem það hefur oft gefið hópnum ógleymanlega göngudaga sem eru erfiðisins virði...

Frábær dagur í glimrandi stemmningu

...gegnum blautan snjóbyl klukkustundum saman þar sem menn lærðu á sjálfan sig og búnaðinn við krefjandi aðstæður...

Svona dagur fer í
reynslubankann og gefur manni styrk til frekari afreka þegar veðrið býður manni næst birginn og var því nauðsynlegur... svona á milli þess sem við fáum náttúrulega sama góða veðrið í nýársgöngunni á Skarðsheiðinni þann 2. janúar og var á Tröllatindum í nóvember... annars bíðum við bara eftir því á þarnæsta tindi og stórgræðum reynslu af alls kyns veðrum í millitíðinni... :-)

 Jólagleðin toppaði svo daginn og við dönsuðum fram á næsta dag...

Sjá allar myndir á:

 

Sjá eina myndbandið sem tekið var í göngunni -  af göngunni niður Ólafsskarðshnúka:

http://www.youtube.com/watch?v=6isXuCgl7K8