Tindferð 165
Súlufell Þingvöllum
12. janúar 2019

Yndisganga á Súlufell
þar sem byrjað var í sumarblíðu og auðri jörð
og endað í snjókomu og fannhvítri jörð
í besta félagsskap í heimi...

Við ákváðum að geyma janúartindferðina "Fragafell og fossa undir Eyjafjöllum" fyrir betra veður
og gripum mjög þröngan veðurglugga laugardaginn 12. janúar
til þess að ná síðasta fjallinu sem við áttum eftir á Þingvöllum...
Súlufelli sunnan Þingvallavatns...
oog upplifðum kærkomna snjókomu sem læddist inn á uppleið á fjallið
og gaf okkur friðsæla og dúnmjúka útiveru...

Við lögðum af stað í myrkri... á auðri jörð og því var dimmt yfir og lítið skyggni...
höfuðljósin því til að byrja með...
en það aftraði manni ekki í að reka augun í hjörtun í náttúrunni...
þetta hér myndað af lynginu í Grafningnum...

Þegar farið er út úr borginni á dimmasta tíma ársins
kemst maður að því að dagurinn er ekki ALVEG eins stuttur og hann virðist innan borgarmarkanna...
borgarljósin kalla nefnilega fram myrkrið mun fyrr seinnipartinn...
og halda of lengi í það á morgnana... með því einu að hafa ljósin kveikt...
því er það svo að í okkar janúargöngum þá leggjum við jú af stað með höfuðljós um níuleytið eða svo síðustu ár...
en slökkvum á þeim mjög fljótlega... en þá er enn myrkur í borginni...
og ef það er snjór yfir öllu saman... þá getur maður nánast sleppt ljósunum frá klukkan níu...
þegar ennþá virðist vera kolniðadimmt í borginni tveimur tímum síðar...

Birtan sem gefst við að ganga inn í dagrenninguna er engu lík... þó það sé skýjað...
þá birtir af himni í fjarska og litirnir fara ekki framhjá manni...

Það var svalt í veðri þennan dag... pollarnir reyndu að standa sig og frjósa svona í tilefni þess að það var janúar...
en það var með engu móti hægt að kalla þetta vetrarfæri þegar þarna var komið sögu...

Landslag Súlufells er margbrotið þó lágt sé og aflíðandi...
hjallar, múlar og rimar... við létum landslagið leiða okkur upp og niður
... studdumst við gps-slóð frá Ferðafélagi Árnesinga til öryggis en fórum engan veginn eftir því
og völdum okkur leið upp með múlanum sem rennur út úr fjallinu norðan megin...

Sumarfæri og sumarveður að manni fannst...
eins og allur veturinn er búinn að vera fyrir utan snjókastið í október...
ótrúlegt að hugsa til þess að gangan á Fanntófellið í september og Klukkutinda í nóvember
voru mun vetrarlegri en gangan á Akrafjall í desember og Súlufell í janúar...

Búrfell í Grímsnesi í fjarska hér... sjá hvernig það var háskýjað þennan morgun og friðsælt veður...

Birtan var komin áður en maður vissi af og ljósin löngu slökkt fyrir klukkan tíu...

Þingvallavatn til norðurs hér... fjöllin umhverfis það vatn verða áskorunin árið 2020
en í ár eru það "Tindarnir tólf sem varða Hvalfjörð" og eru margir spenntir fyrir þeirri áskorun
enda mjög gefandi að skrásetja heilan fjörð með fótum sínum á einu ári...

Nú kom landslagið á Súlufelli loksins almennilega í ljós...
tindurinn súlulaga efst ofan af múlunum sínum...

Hér tóku stöku snjókorn að falla í svo miklum friði að það var nánast óraunverulegt...

Sjá hópinn þéttan hægra megin efst á mynd með Vörðuskeggja fjær...

Hérna breyttist veðrið hratt... það dimmdi yfir og fjallasýnin sem við höfðum haft óskerta hvarf sjónum...

Allir himinlifandi með að ná göngu... úr því ekki var veður síðustu helgi og smá gluggi þessa helgina...
við vorum bara spennt að sjá hvort þessi snjókoma sem spáð var myndi koma eður ei...

Jú... hún mætti létt og leikandi í rólegheitunum... pen og yfirveguð eins og spáin sagði til um...
 klukkan 10:26 var nokkuð ljóst að það var farið að snjóa...
en spárnar höfðu sagt að það myndi byrja að snjóa annað hvort kl. 10:00 eða kl. 11:00
eftir því hvaða stað á sunnan eða vestanverðu landinu maður valdi...

Skemmtileg leið upp á tindinn hér framundan...
það var sérstakt að fara svo hér til baka rúmum hálftíma síðar í snjóhvítu...

Eins og önnur fjöll leynir Súlufell á sér í fjölbreytileika og það var sérlega gaman að ná þessu fjalli í svona fallegu veðri
því þetta var síðasta fjallið sem við áttum eftir að ná hringinn kringum Þingvallavatn...

Gefandi samræður og dásemdar samvera einkenndi þennan dag...
hláturinn glumdi og gleðin var alltumlykjandi...

Landslagið til suðvesturs... hér er hægt að koma upp og niður og fá aðra sýn á fjallið...

Við klöngruðumst upp hjallana og þéttum hópinn ofar...

Smám saman hvítnaði fjallið í rólegheitunum og við vorum gangandi í þessari listasmíð á meðan...

Hvílík forréttindi að fá að upplifa þetta... ganga á fjall í auðu færi... og upplifa það hvítna fyrir augum manns
í algeru logni og áþreifanlegum friði...

Við vorum hálf ölvuð af áhrifunum...

Með vaxandi snjókomunni tapaðist birtan af deginum og allt varð þétt og blátt
eins og komin værum í annan heim með snjókomunni...

Við vorum sammála því að það var þess virði að missa útsýnið ofan af Súlufelli fyrir þessa upplifun...

... hún var einstök og vel þegin... eftir sumarlegan veturinn...

Á tindinum fengum við okkur nesti og bárum saman bækur vorar...

Birgir bauð upp á ýmist góðgæti á línuna...
og við nutum þess að borða þó ekki væri þetta hlýjasti staðurinn til þess arna...
öllu vön í þessum efnum...
að hugsa sér óteljandi nestisstaðina sem þessi hópur á að baki í alls kyns veðrum á alls kyns stórkostlegum stöðum...

Þrettán englar á ferð...
það er einfaldlega eina rétta orðið yfir þetta fólk sem þarna var einu sinni sem oftar...

Birgir, Ólafur Vignir, Guðmundur Jón, Guðmundur Víðir, Herdís, Kolbrún Ýr, Bjarni, Jóhanna Fríða, Björn Matt.,
Örn, Olgeir og Ingi en Bára tók mynd og Batman var eini hundur dagsins...

Þar af voru þrír Kilimanjaro-farar... Kolbrún Ýr, Bjarni og Ingi...
tveir Everest Base Camp - farar... Birgir og Olgeir...
og Jakobsvegurinn í einum rykk- farinn hann Björn Matt...

Afrek haustsins á síðasta ári sem var ansi sögulegt...

Við fórum svipaða leið til baka... allavega til að byrja með...

Nú sporandi út fjallið í ferskri fönninni...

Skemmtilegt að fara sömu leið í snjó niður...

Engin þörf á keðjubroddum í þessari saklausu mjöll...

Komin niður klöngrið og tekin smá hópmynd með fjallið í baksýn
sem þó var að mestu á kafi í snjókomunni...

Óskaplega fallegt og heilandi...

Við nutum þess að ná í stutta göngu að sinni frekar en að sitja heima og svekkja sig
og vonast eftir betra veðri helgina á eftir... sem reyndist svo grenjandi rigning...
svo það var eins gott að við nýttum þennan laugardag svona vel :-)

Örn lét landslagið leiða sig til baka og vildi helst ekki fara alveg sömu leið...

Við enduðum því austan megin við fjallið og tókum litla áttu með því að sneiða svo fram á brúnirnar neðar
sem var skemmtilegt og lengdi gönguna sem var dýrmætt þar sem áætlaðir 8 km var eiginlega of stutt
á þessum degi...

Mikið skeggrætt og spáð í spilin... ferðirnar að baki og ferðirnar framundan...

Enginn að flýta sér of ogt stoppað og hópurinn þéttur... en samt fórum við frekar rösklega yfir í raun...

Vel þegið að fá svona stutta tindferð innan um þessar löngu
en við erum samt farin að fara ansi margar stuttar þessi dægrin og þurfum að passa okkur
að missa ekki niður getuna til að arka nálægt 20 km á dag...

Það var ekki fyrr en þarna niðri á láglendinu að birtan varð aftur eðlileg
fyrir myndavélina í símanum... og eðlilega birta komin í myndirnar...
við vorum greinilega ekki lengur stödd í töfraheimi snjókomunnar uppi á Súlufelli...

Fínt að fá smá landslag upp og niður á þessari leið til þjálfunar...

Hér gengum við fram á brúnirnar til að sjá yfir sumarhúsasvæðið...

Bílarnir hér í fjarska á afleggjaranum þarna niðri...

Manngerðu hlutirnir... girðingar, skurðir... eru það leiðinlegasta sem flækist fyrir á göngu almennt...

Þetta var sérstakt... allt hvítt þar sem áður var autt þremur tímum fyrr...
klukkan eingöngu 12:51 og göngu dagsins lokið... hvernig mátti þetta eiginlega vera ?
jú... styttri akstur var hluti af skýringunni... röskur gangur... létt fjall... stutt leið...
en við vorum engu að síður þakklát með þennan dag...
og spjölluðum bara þeim mun lengur við bílana áður en við lögðum af stað í bæinn...

Keyrðum Nesjavallaleiðina sem var marauð um morguninn...
með snjófölina og dynjandi snjókomuna á leiðinni en vel fært...

Alls 9,6 km á 3:47 klst. upp í 487 m hæð með alls hækkun upp á 478 m miðað við 124 m upphafshæð.

Slóðin okkar þennan dag... tókum létta áttu á þetta :-)

Göngur okkar á þessu svæði... sunnan Þingvallavatns...

Gula ganga dagsins á Súlufell í tindferð 12. janúar 2019
Bleika Kyllisfell og Kattartjarnir á þriðjudagsæfingu 7. ágúst 2018
Rauða tindferðin í Sandfell, Mælifell, Hrómundartind (ekki alla leið) og Stapafell 15. apríl 2015.
Skærbláa Borgarhöfðar, Skinnhúfuhöfði og Björgin á þriðjudagsæfing 28. apríl 2015
Græna Ölfusvatnsfjöll, Gildruklettar, Lambhagi og Einbúi á þriðjudagsæfingu 15. apríl 2014
Djúpbláa Tjarnarhnúkur, Lakahnúkur og Hrómundartindur um Tindagil til baka á þriðjudagsæfing 24. júní 2009

Takk fyrir dásamlegan dag...
og takk fyrir að vilja drífa ykkur út öll elskurnar...
þetta var hverju skrefi dýrmætara fyrir líkama og ekki síst sál !

Myndband af göngunni hér:
https://www.youtube.com/watch?v=XmND24JqC0A

Slóðin á Wikiloc hér:
https://www.wikiloc.com/mountaineering-trails/sulufell-120119-32311869
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir