Tindferð 161
Klukkutindar við Skriðu
27. október 2018

Klukkutindar
brattir og glæsilegir
með mikilfenglegu útsýni
í varasömu færi sem tók verulega í

Loksins náðum við Klukkutindum í safnið okkar eftir nokkrar tilraunir til að hafa þá á dagskrá
en alltaf þurft frá að hverfa vegna veðurs eða dræmrar þátttöku...
en þessir sjaldförnu tindar sem ekkert má finna um göngu á þegar veraldarvefurinn er glöggvaður
reyndust okkur erfiðari og varasamari en við vonuðumst
og hentuðu engan veginn í því helfrosna vetrarfæri sem var laugardaginn 27. október 2018...

Við ætluðum átta manns í þessa ferð... sjö lögðu af stað...
ein sneri fljótlega við þar sem færið var mjög varasamt og brattinn meiri en við áttum von á...
annar sneri við þar sem hann gleymdi jöklabroddunum
en færið var fljótlega þannig að ekki var mögulegt annað en vera á þeim...

...og því enduðum við fimm manns á hæsta tindi þessara glæsilegu fjallstinda
sem varða hryggina alla sem liggja frá Skjaldbreið yfir að Lyngdalsheiði og við eigum að mestu eftir að bæta í safnið...
eingöngu Kálfstindarnir allir komnir inn... nú Klukkutindar...
næst verða það Skefilsfjöll eða Skriða eða Tindaskagi eða Hrútafjöll...
og ef heilsa og tími leyfir þá hættum við ekki fyrr en hver einasti tindur á þessu svæði er genginn
svo lengi sem hann er fær hversdagslegum göngumönnum eins og okkur...

Sólarupprásin þennan síðasta laugardag í október var mikilfengleg...
og við keyrðum í litaveislu sem breyttist stöðugt um Þingvelli alla leið inn á hálendið sunnan Langjökuls...

Við hálfpartinn stálum Klukkutindum frá nóvembermánuði þaí þessi fjöll voru á dagskrá 3. nóvember...
Laxárgljúfrin í Hrunamannahreppi voru fjöll októbermánaðar en þar sem áhuginn var mjög lítill í þá ferð og veðrið ekki sérlega spennandi
(og þjálfari missti bróður sinn vikuna fyrir þá helgi) þá varð ekki úr ferð um gljúfrin þau...
og áfram var léleg mæting í þau í lok október svo þjálfarar ákváðu að sleppa þeim og færa Klukkutindana fram um eina viku
þar sem ekki var sjálfgefið að fá svona gott veður og færi að þeim á þessum árstíma...

Þetta reyndist rétt ákvörðun því helgina á eftir...
upphaflega Klukkutindahelgina þann 6. nóvember var slæmt veður og engin leið að fara á fjall...

Botnssúlurnar glitruðu í bleikri vetrar-morgunbirtunni...

Fjallatindarnir sem við ætluðum að ganga á þennan dag voru bak við þessa tinda þarna...
þetta lofaði sérlega góðu og við vorum þakklát fyrir að fá loksins svona fallegan dag...

Í okkur var ekki síður tilhlökkun yfir að fá að keyra loksins alla leiðina inn að Klukkutindum...
meðfram Sandkluftavatni, Lágafelli, Innra Mjóafelli og Tindaskaga... það var enda veisla þegar að var komið...

Fjöllin og jöklarnir í norðri ljómuðu í morgunsólinni í fjarska...

Fanntófellið sem við gengum á fyrir mánuði síðan fékk á sig fyrstu sólargeislana þegar við ókum þarna meðfram...

Tindaskaginn sjálfur... sem við ætluðum á í maí í stað Rótarfjallshnúks
þar sem ekki viðraði eina einustu helgi til jöklagöngu allan maímánuð...
en þurftum frá að hverfa vegna ófærða og gengum á Þverfell við Reyðarvatn í staðinn...

Það var mjög gaman að keyra meðfram Tindaskaga og mæna upp í hlíðarnar eftir góðri leið...
komast loksins alveg suður fyrir Skjaldbreið og sjá Karlinn og Kerlinguna í nálægð...

Austan megin við Tindaskaga blöstu skyndilega við allir fjallshryggirnir sem liggja frá Skriðu og suður að Kálfstindum...
þar á meðal Klukkutindarnir sjálfir... sá hæsti þessi hvíti vinstra megin við mynd...
þarna upp fórum við þennan dag og horfðum yfir allt...

Skafni tindurinn hægra megin við miðja mynd er hæsti tindur Skefilsfjalla... skafin fjöll...
sem við ætluðum einnig að ganga á þennan dag en hættum við vegna færðar...
mjög fagur tindur sem bíður ólmur eftir okkur og við skulum ganga á einn daginn...

Vegurinn inn að Klukkutindum er að mestu sléttur og greiðfær en þó hraunhröngl á köflum og ójafnir kaflar...
mestmegnis meðfram Skriðu og félögum...

Tindur dagsins fyrir miðri mynd... við mændum á hann í leit að fýsilegri uppgönguleið...
ekkert á veraldarvefnum um gönguleiðir á þessa tinda... og engar slóðir á wikiloc...
við vorum búin að velja leiðir suðaustan megin sitt hvoru megin við gilin tvo sem kljúfast niður...
og enduðum á að velja bunguna sem kemur niður á milli þeirra...

Fjöldinn allur af rjúpnaveiðimönnum á ferðinni á svæðinu...
eins og þetta eru nú miklar óbyggðir fjarri alfaraleiðum
þá voru margir jeppar þarna og veiðimennirnir virtust helst vilja skjóta rjúpuna út um bílgluggann...
einn jeppinn var á ferðinni í byrjun dags og í lok dags með fimm menn innanborðs keyrandi um allt
og aldrei fóru þeir út úr bílnum þegar við sáum til þeirra...
aðrir voru á fjórhjólum sem þeir höfðu ferjað á jeppanum upp eftir...
við sáum aldrei gangandi veiðimann... eingöngu jeppa og fjórhjól á ferð... ekki mikil útivera á þeim bæjum þrátt fyrir veðurblíðuna...

Leiðin okkar upp... leit mjög vel út og virtist vel fær og saklaus að sjá...

Svalt í veðri, frost en stillt veður og sólin búin að skína í morgunroðanum en háskýin hrönnuðust upp með birtunni....

Hallinn sést betur hér á brekkunni sem reyndist erfiðari en á sá neðar...

Jarðvegurinn var allur helfrosinn og því vorum við fljótt komin í keðjubroddana...
og enn fljótar í ísbroddana en við áttum von á...

Litið til baka út fjallasalinn sem þarna er með Skjaldbreið fannskotna bak við nyrstu Skefilsfjöllin...

Hér voru allir komnir í keðjubroddana...

Sjö manns mættir... sorglega fáir en mætingin á þessum árstíma er yfirleitt svona...
með herkjum að hægt er að halda úti tindferð í október og nóvember...
enda oft fallið niður tindferð í nóvember...

Já, keðjubroddarnir eru góðir til síns brúks en um leið og hallinn eykst og snjórinn tekur yfir
var ekkert vit í öðru en fara í ísbroddana...

Siggu Sig leist ekki á þessa brekku... allt frosið og glerhált...
og því sneri hún við og ákváð að taka stóran hring um svæðið á eigin vegum...

Björn Matt gleymdi öllum broddum og fékk keðjubroddana fljótlega lánaða hjá Báru sem fór þá í ísbroddana sína frá upphafi
en nú dugðu ekki keðjubroddarnir og því þurfti hann líka að snúa við stuttu síðar þegar við lögðum af stað þessa löngu brekku...
... og því fór svo að þau fóru bæði niður á eigin vegum en ekki saman því miður þar sem nokkuð var síðan Sigga Sig sneri við...

Við reyndum að fylgjast með þeim ofan frá og vonuðum að þau spjöruðu sig vel
en það var ekkert símasamband þarna og því ekki hægt að heyra í þeim því miður...

Einn af lægri Klukkutindunum... við hliðina á tveimur hæstu sem við gengum á...
þetta er alger tindaveisla á þessu svæði...

Brekkan alla leið upp brattnaði er ofar dró og við áttum fullt í fangi með að fóta okkur efsta hlutann...
þarna átti enginn erindi sem ekki var á góðum ísbroddum með ísexi og öruggur í halla og svelluðu færi...

Skjaldbreið og fjallasalurinn milli tindana... kyngimagnað svæði og glæný sýn á hið fallega fjall Þingvalla...

Botnssúlurnar í fjarska... Skefilsfjöll nær...

Klukkutindarnir lægri og suðvestari...

Þetta var hörkuganga því lítið hægt að stoppa... vöðvarnir þandir allan tímann sem tók í...
Guðmundur og Örn ráku lestina þar sem þeir höfðu fylgt Birni Matt til baka þegar brattinn jókst
og ljóst var að keðjubroddar áttu ekkert erindi á þessum slóðum...

Skjálfandi eftir brekkuna ákváðu þjálfarar að skima strax eftir betri leið niður
þar sem við gátum ekki hugsað okkur að fara þarna niður aftur
og fundum fína leið niður með norðurgilinu...
þá leið okkur betur og við höfðum lyst á að halda áfram upp á hæsta tind...

Hinir voru lagðir af stað upp meðan á þessum könnunarleiðangri stóð...

Skriða efst og Klukkutindar hinir lægri og norðaustari nær
en Hrútadalur heitir hægra megin og þar frá er Hrútatindur svokallaður
en svo er villandi að Hrútafjöll eru sunnar við Kálfstinda...

... væri gaman að heyra sögur af hrútunum sem kölluðu fram þessi nöfn...
eflaust spennandi sögur af foryztusauðum sem rötuðu þegar enginn annar vissi hvar átti að fara...
eða sem héldu lífi í heilu hjörðunum með því að leita skynsamlega skjóls meðan þeirra var leitað... já, spurning...

Við tók aflíðandi leið upp á tindinn á þessum hluta Klukkutinda...

Himinhvolfið ægifagurt og jafn fjölbreytt landslag þarna uppi og niðri við jörð...

Hæsti tindurinn rétt suðaustan við þennan næst hæsta og við stefndum þangað
og vonuðum að hann væri fær án þess að þurfa að fóta sig upp jafn mikinn bratta og á fyrri tindinn...

Hrútadalur og Hrútatindur...
Skriðutindar fjær dekkri og svo enn fjær Rauðafell, Brúarárskörð, Högnhöfði og Kálfstindur...

Við gengum fram á brún og um okkur læstist illur grunur um að komast ekki upp á hæsta tind eftir þessa varasömu uppgönguleið...
við trúðum því ekki að við þyrftum að fara að klöngrast á milli tindanna...
en, nei þetta var bara smá dalur... sem betur fer...

Hæsti tindurinn... þetta yrði ekkert mál...

Strákarnir í fjarska að fara á milli...

Við vorum mun fljótari þarna upp en við áttum von á... leiðin greið og ekki of brött...

Klukkutindarnir til suðvesturs... Botnssúlurnar í fjarska með skýhnoðra ofan á hverjum tindi... mjög sérstakt...

Sést ekki nógu vel í nærmynd en var augljósara með augunum...

Fanntófellið í nærmynd með Okið á bak við...

Brakandi ferskt og hart færi...

Komnir upp eftir 1,5 klukkustundar og 2 km göngu
upp í 899 m hæð (hæst mælt 916 m á þeim tækjum sem við vorum með).

Útsýnið var stórfenglegt í einu orði sagt...

Sjá myndband af tindinum hér: https://www.youtube.com/watch?v=OWe0m_maxLk

Útsýnið til suðurs að Ingólfsfjalli og Kálfstindum...

Útsýnið niður Hrútadal með Klukkutinda vinstra megin, Skriðu rétt í vinstra horninu,
Skriðutinda fjærst vinstra megin og Hrútatind fyrir miðri mynd niðri.
Fjær í blámanum er svo Rauðafell og Brúarárskörð milli þess og Högnhöfða og loks Kálfstindur.
Heiðin á Miðdalsfjallli hægra megin... leiðin sem þarf að fara ef komið er að fjallinu þeim megin...

Útsýnið til norðurs að Skjaldbreið, Fanntófelli, Oki og Langjökli með taglið á Tindaskaga lengst til vinstri,
Skefilsfjallahorn fyrir miðri mynd og Skriðu hægra megin.

Útsýnið til vesturs að næst hæsta Klukkutindinum sem við komum upp á, Botnssúlur fjær vinstra megin
og Kvígindisfell rétt hægra megin við miðja mynd og Tindaskagi fjær hægra megin
og Skefilsfjöll líklegast í hvarfi af Klukkutindinum...

Útsýnið til suðvesturs að hæsta tindi Skefilsfjalla og Hrútafjöllum og Kálfstindum...
hugsanlega Hrafnabjörg bungan þarna bak við Skefilsfjallatindinn...?

Guðmundur Jón, Doddi, Ólafur Vignir og Örn á tindinum...
við vorum eingöngu fimm sem sigruðum Klukkutinda sem var mikil synd...

Eftir snæðing var haldið til baka sömu leið til að byrja með
 en svo var ætlunin að fara aðra leið niður af sjálfu fjallinu...

Engar myndir teknar af hópnum á tindinum með magnað útsýnið í baksýn því miður... eins og við gerum alltaf
og heldur ekki teknar myndir á niðurleið af leiðinni sem sést hér... líklega af því við vorum að vanda okkur á leið niður...

Doddi hér með hæsta tindinn í baksýn á leið upp á næsthæsta í bakaleiðinni...

Himininn var veisla þennan dag... enda var veðrið að breytast...
frost og stilla að víkja fyrir sunnanáttum með hlýjindum og slagveðri...
og við áttum eftir að sjá þetta gerast á heimleiðinni beint fyrir framan okkur...
slagveður lokaði þessum degi og þegar við lágum í sófanum með beljandi rigninguna um kvöldið
var þessi sigur þá þegar óraunverulegur í minningunni...

Guðmundur Jón... þriðji höfðingi Toppfara...
fór létt með þessa krefjandi göngu þar sem vel reyndi á öryggi í frosnum bratta langa brekku upp í mót
þar sem broddarnir þurftu að halda vel...
... traustur... öruggur... yfirvegaður... ómetanlegur göngufélagi...

Hópmyndin var því tekin hér...
grátandi yfir að hafa gleymt hópmynd ofan af tindinum með einmitt þetta landslag í baksýn...
nú komin talsvert neðar...

Guðmundur Jón, Ólafur Vignir, Örn og Doddi með Batman á fullu eins og alltaf en Bára tók mynd.

Fallegasta myndin í þessari ægifögru ferð... með Skriðu og félaga í baksýn...

Við lækkuðum okkur niður að gilinu þar sem við fundum leið fyrr um daginn...

Hópmynd með Báru... svona til að eiga eina mynd af sér á þessum tindum
sem voru búnir að vera á vinnulistanum árum saman...

Við lækkuðum okkur niður í gilið og fórum varlega... ekki gott að renna af stað niður þessar brekkur...

Jú, gilið virtist vera í fínasta lagi... var það ekki örugglega öruggt neðar ?
það má ekki miklu muna að saklaus leið breytist í dauðagildru... það vildum við alls ekki...

Harðfenni en þó aðeins grip í snjónum neðar...

Héðan virtist best að fara í hliðarhalla áfram yfir á leiðina sem við komum upp en þetta var ansi bratt að sjá...

Hér var svolítið grip í snjónum og við fórum varlega... beint fram með efri fót...
hallandi 45 gráður til hliðar með neðri fót og ísöxin í hendinni sem vísar upp í brekku...
ekki eins og strákarnir eru með hana hér á þessari mynd...

Brattinn var mestur fyrst og þá voru engar myndir teknar en svo lagaðist þetta og þá var tækifæri til að taka mynd...
það eru því engar myndir af vafasömustu köflunum á uppleið og niðurleið eins og svo oft
þar sem öll einbeiting fer í að fóta sig...

Hér komin í fínasta færi og aflíðandi leið...
það var vel þegið að geta hliðarskorið yfir á uppgönguleiðina frekar en að fara beint niður af gilinu
þar sem það hefði lengt vegalengdina heilmikið... ekki að við værum svo sem á langri leið...
en samt sóun ef þess þurfti ekki, enda virtist vera ófært klettabelti neðar við gilið og þetta var líklega eina leiðin...

Komin á slóðir uppgöngunnar...

Batman strax mættur ef Ólafur Vignir fer í bakpokann sinn...
hann og Davíð eiga sérstakan sess í huga þessa hunds sem veit algerlega hvar hann hefur félaga sína í hópnum :-)

Í suðausturhlíðunum þurftum við að þræða okkur niður að uppgönguleiðinni gegnum gil niður og þvert...

Án ef betra að hafa snjóinn yfir öllu í stað móbergsins með rúllandi lausagrjótið yfir öllu...

Væri forvitnilegt að fara þessa leið að sumri til einhvern tíma...

Komin í bílana eftir 4,2 km göngu á 2:40 klst...

Skringilega stutt vegalengd og tímalengd... en hættulega þægilegt...
með löngum akstri vorum við engu að síður komin heim um hálf þrjúleytið...
það er nú hægt að venjast því að ná mergjaðri fjallgöngu og vera komin heim vel fyrir kaffi... svei mér þá...
en þessi fyrirséði stutti tími í göngu og vegalengd var samt ekki að toga fleiri út í göngu þennan dag því miður...

Uppgönguleiðin ofan við bílana... niðurgönguleiðin vinstra megin í hvarfi...

Björn Matt var á göngu þegar við lentum... hafði farið inn dalinn og séð uppgönguleiðir á Skefilsfjöll og aðra leið á Klukkutinda
en þá eru menn reyndar að lenda á lægri Klukkutindunum þar sem ekki var augljós leið yfir á þann hæsta...

Sigga Sig vargi hver sjáanleg en við vissum að hún ætlaði langan hring um dalinn
og við áttum að ná í hana á akstri til baka...

Batman sáttur með daginn... grípur alltaf tækifærið og hvílir sig þegar við stoppum...
eðlislæg skynsemi fjárhundsins þar á ferð...

Sigga gekk á móti okkur þegar við ókum til baka...
hún hafði notið hringleiðarinnar í botn og var hálf svekkt að fá ekki að klára þennan hring...
við vorum allt of snemma í því að kippa henni upp í bílinn...
en það var ekkert annað í boði en taka hópmynd af okkur öllum með lægri Klukkutindana í baksýn...

Guðmundur Jón, Björn Matt., Örn, Ólafur Vignir.
Sigga Sig., Doddi. Bára tók mynd.

Og aðra með Skjaldbreið í baksýn... Bára, Doddi, Sigga Sig., Ólafur Vignir, Guðmundur Jón og Björn Matt.
Örn tók mynd.

Tæra fegurðin á fjöllum að vetri til er engu lík...

Vertu sæll hæsti tindur Klukkutinda... þetta var algert æði !

Sjá hann nær hér... upp brekkuna hægra megin...
og niður gilið fyrir miðju fjallinu lítið eitt hægra megin við það mitt... og þverað svo yfir til hægri...

Tindaskagi... mun snjóugri austan megin en vestan megin...

Veðrið óðum að breytast og skýin að hrannast upp yfir fjöllunum allt staðar...

Þegar við litum til baka þá var allur tærleiki horfinn... og Klukkutindarnir horfnir í skýin...
þá var nú gott að vera kominn í bílinn og vera ekki á þvælingi þarna uppi í 900 metra hæð...

Meira að segja Skjaldbreið hvarf í skýin fyrir framan okkur...

Við ákváðum að reyna við ánna sem fara þarf yfir þegar farið er efri leiðina upp að Tindaskaga
(og kaflanum sleppt meðfram Sandkluftavatni) - þessa sömu og þjálfarar fóru út í í maí og festu sig en gátu bakkað til baka upp úr
og þá var hætt við og farin Sandkluftavatnsleiðin...

Doddi prófaði fyrst á sínum stóra jeppa
en okkur leist ekkert á þetta og ákváðum að fara sandkluftarvatnsleiðina til baka...

Ármannsfellið svo fallegt séð hérna megin frá Sandkluftavatni... líklega fegursta ásýndin á þetta fjall...

Sjá ásýndina þann 12. maí 2018... þegar við snerum við og fórum á Þverfell við Reyðarvatn...

Virkilega skemmtileg akstursleiðin þennan dag... ein af þessum sem skreyta tindferðirnar rósum sem aldrei gleymast...

Alls 4,2 km á 2:40 klst. upp í 892 - 899 m hæð eftir gps með alls hækkun upp á 552 m miðað við 515 m upphafshæð...

Magnað að ná þessu... en ekki annað hægt en vara menn við sem vilja ganga á þessa tinda að brattinn er talsverður
og ef móbergsklappir eru undir fönninni sem við gengum á og lausagrjót yfir eins og var neðar í fjallinu
þá er sumarfæri ekki endilega betri aðstæður en vetrarfæri eins og við fengum...
en okkur sýndist vera skárri uppgönguleið austan megin ef menn koma þá frá Miðdalsfjallinu af jeppaslóðinni þar
en það þýðir líklega um 16 km ganga í heild með langri aðkomu yfir heiðina og nokkurri hækkun/lækkun þá leið...

... svo getur vel verið að það sé betra að fara inn gilin norðan eða vestan megin...
en við fórum niður norðurgilið sem var mun skárra en uppgönguleiðin á öxlinni norðvestan megin...

Frábær félagsskapur eins og alltaf þennan dag...
synd að fleiri skyldu ekki vera með en svona leggst veturinn oft þungt á menn...
yfirleitt mjög léleg mæting á þessum árstíma...
en þar sem leiðin var varasöm og aðstæður ekki öruggar þá var lán í óláni að við skyldum ekki vera fleiri...

...lexía dagsins að á þessum árstíma er ekki ráð að fara á svona há og brött fjöll
sama hvernig veðurfar hefur verið vikurnar á undan..
það er einfaldlega alltaf allt frosið í þessari hæð...
og það eigum við að vera með á hreinu fyrir löngu eftir öll þessi ár...
... en sem betur fer fórum við og tókst þetta klakklaust... gleðin yfir þessum tindum í safninu er ansi ljúf...

Myndband af ferðinni í heild hér, akstrinum og göngunni: https://www.youtube.com/watch?v=ueGZycO3mb8

Gps-slóðin á Wikiloc: https://www.wikiloc.com/hiking-trails/klukkutindar-271018-30067189

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir