Tindferð 128
Haki, Saxi og Búri í Tindfjallajökli
fimmtudaginn sumardaginn fyrsta 21. apríl 2016

Mikilfengleg og dúnmjúk Tindfjöll
um snarbrattar brekkur og hryggi
í stórfenglegu útsýni, gullfallegu veðri og krefjandi færi
á afreksgöngu með aðdáunarverðum félögum
sem bættu enn einni göngunni í ToppTíuSérflokkinn

Enn ein magnaða tindferðin er að baki þegar gengið var á þrjá tinda í jaðri Tindfjallajökuls...
fimmtudaginn 21. apríl á fyrsta degi sumars
þar sem gengið var á Haka, Saxa og Búra... með Ými og Ýmu veifandi "takk fyrir síðast"...
 upp snarbrattar hlíðarnar í nýföllnum 20 - 30 cm snjó sem lá ofan á ísnum
og gerði okkur stundum ansi erfitt fyrir... og reif í lofthræðslutilfinninguna á köflum...
enda dugði ekkert minna en ísbroddar og ísexi nánast allan tímann...
og því létum við þrjá tinda af sex nægja þennan krefjandi dag
og skiluðum okkur ansi lúnum en himinlifandi í bílana...

Við vorum eingöngu ellefu manns sem nýttum sumardaginn fyrsta í þessa göngu
og komu menn út ýmsum áttum úr sveitinni í kring... Doddi og Njóla á nýja jeppanum sínum kyrfilega merktur Toppfaramerkinu úr Fljótshlíðinni, sveitinni hennar Njólu... Katrín og Guðmundur frá bústað í Úthlíð í Biskupstungunum og þjálfarar úr bústað sínum í Fjallaseli...
þar sem þeir tóku eftirfarandi myndband um morguninn á leið í ferðina:

https://www.youtube.com/watch?v=R5i333Pyj0E&feature=em-upload_owner

Þessi ganga átti að vera helgina á undan en þá viðraði ekki nægilega vel og því freistuðumst við til að horfa til sumardaginn fyrsta
og helgina þar á eftir... og fyrsti dagur sumars rann upp ljómandi fagur og til í að taka á móti okkur...
Tindfjöllin útbreidd fyrir framan okkur úr Fljótshlíðinni sögðu okkur að koma í bæinn...

Akstursleiðin fín langleiðis upp eftir... og við spáðum í aðrar leiðir á þessi fjöll...
verðum að ganga að Tindi sunnan megin einn daginn... jebb, sú leið er komin á vinnulistann !

Þegar komið var í þungt snjófæri ofar fóru minni bílarnir að sökkva ofan í fönnina...
og þá tók Doddi loft úr dekkjunum sínum og ferjaði okkur í tveimur ferðum
tæpa 2 km úr 615 í 695 m hæð sem munaði heilmiklu...

Meðan fyrri hópurinn brunaði upp eftir ofan á snjónum...

... gekk seinni hópurinn hálfan kílómetra áleiðis...

 

... þar til Doddi kom og sótti hann líka... mikið var þetta gott...
þetta átti eftir að skipta öllu máli í lok dags :-)

Ekkert pláss fyrir Batman í bílnum sem skildi ekkert í kuldalegheitunum að skilja hann eftir
en hann var hvattur til að elta bílinn og fór létt með það þegar hann sá hvert hann átti að fara :-)

Dodda-skarð hét þetta skarð þar með við neðsta skálann...
sami staður og Óskar Wild komst á sínum bíl fyrir tveimur árum þann 1. maí
með því að tappa af dekkjunum en þá var hópurinn snöggtum stærri en nú og eingöngu farangur ferjaður upp eftir
og þeir allra þreyttustu svo niður eftir í lok dags.

Formlega lögðum við því af stað kl. 10:05 og færið var þungt frá fyrsta skrefi...

Ferskur nýfallinn snjór yfir ís neðar...

Við gengum rösklega að Miðdal...

... miðskálanum sem er í einkaeigu og enn ísilagður...
og enn einu sinni rugluðumst við og töldum hann vera efstan þegar við mændum upp eftir í byrjun dags
... létum kofann atarna villa sýn en gps tækið hans Arnar laug ekki og sagði okkur að efsti skáli væri ofar...

Þar fengum við okkur nesti sem var aaaaðeins kuldalegra en fyrir tveimur árum...
þegar menn voru léttklæddir í sólinni þá...

... en með sama magnaða útsýninu yfr á Eyjafjallajökul sem er allra fallegastur frá þessu sjónarhorni...

Vel nærð lögðum við í hann upp í Tindfjallajökuldalinn sjálfan
sem er krýndur þessum mögnuðu og mjög svo ólíku tindum allan hringinn...

Haustið 2010 lögðum við hins vegar af stað frá þessum stað... við efsta skála... munar heilmiklu í göngu !

Ekki þorandi annað en taka hópmynd þar sem sumar spár sögðu að það myndi draga fyrir sólu eftir hádegið
en það átti ekki eftir að gerast sem betur fer þó skýjaslæður flæktust eitthvað fyrir sólinni öðru hvoru
og jú það kom dimmur éljabakki inn seinnipartinn í bakaleiðinni en svo tók sólin aftur við...

Í dyragætt Tindfjallajökuldals lögðum við á aflíðandi brattann upp á Haka...

... fyrsta tind dagsins sem gaf strax töfrandi útsýni yfir á félaga sína í dalnum...

Tindur... tignarlegi kletturinn þarna hægra megin sem minnti á Þumal við Miðfellstind...
jú, við ættum að komast að honum sunnan megin er það ekki?

Og Hornklofi vinstra megin sem við höfum gengið á, á næsthæsta tind upp í skarðið
en ekki lengra vegna bratta og lausagrjóts...

Höfðingi hópsins var í dúndurformi þennan dag og naut þess að rifja upp fyrstu göngu Toppfara á Tindfjallajökul

... þar sem farið var á Ými í þoku en rjómablíðu neðar... sjá ofangreinda mynd af Inga, Soffíu Rósu, Guðjóni, Simma, Gylfa, Birni Matt í hvarfi, Helgu Björns, Gný og Róberti leiðsögumanni en á mynd vantar Hildi Vals og Báru, Örn...

... og því læt ég þessa fylgja :-)

Þríhyrningur... fjall sem er skartar mjög ólíkum ásjónum eftir því hvaðan þú horfir á það...

Haki framundan og Saxi enn fjær vinstra megin...
Búri aftan við Haka hægra megin og Hornklofi lengst til hægri...

Aðeins nær þarna um haustið 2010... Saxi dökkur fjær hægra megin, Haki nær og Búri hægra megin...

Panorama með Saxa, Haka, Hornklofa, Tind, Gráfell og Bláfell...

Himininn heilt landslag út af fyrir sig...
það er eitthvað við það að ganga í þessari hvítu víðáttu með bláslegna víðáttuna yfir manni...

Sólin slóðst aðeins við skýjaslæðurnar en hafði betur að mestu allan daginn...

Gleðin glumdi og við nutum þess að vera uppi í þessum flottu fjöllum
og horfa nánast ofan á Eyjafjallajökul og Heklu þó þau væru um 200 m ofar en við...

Já, Hekla þarna hægra megin snjóhvít... svo saklaust eitthvað og hversdagsleg svona baksviðs...

Skýjahnoðri lék sér eins og bolti á himninum í fjarska við Eyjafjallajökul...

Jú, klárum þennan Haka...

Allir komnir í brodda og með ísexi í hönd... fórum vel yfir broddanotkun og ísaxarbremsu á Hesti þremur vikum áður
og drifum aftur í snögga yfirferð á þessum handalögmálum þegar hópurinn var þéttur á Haka...

Doddi og Eyjafjallajökull... jafn svalir...

Snjófærið var þungt og krefjandi...
hvert spor þurfti að þétta en við nutum þá líka góðs af því að komast upp með þá leið
sem við fórum sem hefði ekki verið fær í fljúgandi harðfenni...

Brattar brúnir Haka tóku brátt við síðasta spölinn upp á Haka...

Falleg leið sem er grýtt og mosakennd að sumri...

Litið til baka með Þríhyrning lengst til hægri og Vörðufell þarna nær í fjarska...

Já, þetta voru fallegar brúnir og við sáum Saxa birtast betur og betur...

Jú, þarna voru þau Ýmir og Ýma lengst í fjarska vinstra megin !

Niður þessar bröttu hlíðar fórum við haustið 2010 í öskukenndu landslagi...

... hressilega bratt en mjúkt í mosanum...
og allt öskugrátt eftir Eyjafjallajökulgosið frá því um vorið sama ár...

Kletturinn þar sem við tókum mynd af nýju meðlimum klúbbsins á þeim tíma...
Gunnari og Maríu, Önnu Siggu og Ágústi sem síðar flutti til Skandinavíu...

http://www.fjallgongur.is/tindur44_6tindar_tindfjallajokli_110910.htm

Meðan við skemmtum okkur á nýliðaklettinum fóru Örn og Doddi smá könnunarleiðangur niður hornið á Haka...

... og voru kallaðir til baka í smá hópmynd á þessum fallega stað...

Þeir sögðu að leiðin niður af Haka væri svolítið brött...

Vöruðu okkur sérstaklega við...
"það liti mjög illa út til að byrja með... en væri ekkert mál þegar nær væri komið"...

... og jú, það leit ekki vel út þegar fram á brúnina var komið...

... áttum við í alvörunni að vera að fara þessa leið...? neeeee strákar... !

... en jú, þetta var saklausara þegar fram á hornið var komið...

... og þeir lóðsuðu alla niður en það reif vel í hjá sumum enda ansi bratt fram af...

Mikið gott að hafa Dodda til aðstoðar og stuðnings...

Frábær leið sem sparaði okkur heilmikinn sneiðing til baka ofan af Haka...
Báran hefði aldrei valið þessa leið svo það var nú gott að Örninn réði og hefði einn öruggan með sér :-)

En svo lítur þetta alltaf saklausara út neðan frá...

Takk strákar fyrir að leyfa ekki óttanum að ráða um of...

Fín leið í mjúkum snjó :-)

Komin fjær þar sem sjá má að hornið er fínasta leið ef færið leyfir...

Þá var það Saxi... hæsti tindur dagsins...
snarbrattur og mjög grýttur ljósgráu grjóti á vesturhliðinni...
en meira aflíðandi norðan megin í henni...

Allir komnir og við brunuðum af stað í eftirskjálftunum af Haka...

Já, færið var krefjandi...

... og sólin bakaði okkur bókstaflega í þessari brekku...

... en ekki þokan eins og haustið 2010... sjá Dimmu litlu... sem okkur þykir öllum svo vænt um...
sem hefur fylgt okkur árum saman í ótalmörgum mergjuðum ogkrefjandi fjallgöngum gegnum árin
... svo stundum bara lá hún örmagna í bílnum á eftir... einfaldlega magnaður hundur :-)

En vá hvílík dýrð þegar komið var upp á brúnirnar !

Hekla þarna aðeins í skýjunum vinstra megin og fjallabakið hennar...
Rauðufossafjöll fjóru hnúkarnir þarna hægra megin...

Katrín tók þessa mynd og deildi á snjáldru... hún sýnir vel dýrðina á þessum brúnum...
og lofthræðsluleysi Batmans sem virti allar beiðnir um að sniðganga snjóhengjurnar að vettugi :-)

Hvarflaði ekki að honum að fylgja hópnum þegar hægt var að fara svona út á brúnirnar :-)

Svona leit þetta út haustið 2010...

Hér sést ástæðan fyrir því að við erum að þessu fjallabrölti en ekki strandlífi :-)

Þessar brúnir komu á óvart í vetrarbúningnum... eru hrikalegar að sumri í bratta og lausatrjóti...

Litið til baka með Þríhyrning þarna vinstra megin...

Færið mjúkt og öruggt því það brattnaði vel hægra megin líka...

Væri gaman að þræða sig eftir öllum brúnum Saxa niður á láglendið...
og ganga á þessar Ásgrindur þarna hægar megin út af mynd  ef einhver þeirra er fær...

Ýmir reis eins og kóngur í ríki sínu þegar ofar var komið
og minnti Saxa á að þó hann væri flottur þá væri hann ekki aðal...

Sætur sigur og stórfenglegt að standa uppi á hæsta tindi Saxa í þessum fjallasal...

Hryggurinn verður ansi tæpur á kafla efst...

... við þurftum að klöngrast heilmikið á sínum tíma haustið 2010...

Já, svona stórgrýtt var þetta þá...

... og þar var þokan okkur hagstæð því brattinn er mikill og langur á beggja bóga...
og stundum er bara gott að sjá ekki hengiflugið fyrir neðan :-)

Hvílíkur munur að geta bara rölt þetta í fönninni...

...og þurfa ekkert að fóta sig í grjóthnullungunum með brattan á báða bóga :-)

... en það var klaki undir nýja mjúka snjónum svo það var nauðsynlegt að vera á góðum ísbroddum...

Snjórinn greiðir stundum fyrir fallegum leiðum...

... og gott að sleppa við þetta brölt... - úr könnunarleiðangri þjálfara í ágúst 2010...

Njóla gleðigjafi af lífi og sál og Björn höfðingi...
ástríðufjallamenn sem við erum ljónheppin að fá að ganga með á fjöll .-)

Þjálfarar fengu mynd af sér líka í tilefni tindsins... sætur sigur eftir þessa tvístígandi veðurspá :-)

Jú, Ýmir ræður öllu...
það fór einhvern veginn ekki á milli mála hver valdastiginn er á svæðinu...

Myndband af þessum stað hér:
https://www.youtube.com/watch?v=gGModIL27Gs&feature=em-upload_owner

Niðurleiðin ofan af hæsta tindi Saxa reif aðeins í þar sem grunnt var á klakann
en mýktin var alveg nægilega til að tryggja okkur og gefa góð spor...

Þarna niðri borðuðum við nesti í sæluvímu...

Sami staður í enn einni ferðinni þarna... könnunarleiðangri þjálfara í ágúst 2010...
þar sem sést vel hvernig jökullinn liggur neðan við þessa tinda sem rísa í jökuljaðrinum...
sjá kolsprunginn jökulinn neðar eins og öldusjór rífandi í Saxa eftir honum öllum endilöngum
og hinum megin að Búra og Hornklofa...

Því miður sáum við ekki Ými þá... né þegar við fórum með hópinn tveimur vikum síðar...
en nú veifaði hann vinalega og þakkaði fyrir síðast...

... þegar við gengum á hann og Ými í rjómablíðu 2014... sjá hér myndina síðustu metrana upp á Ými...

Litið til baka upp eftir Saxa þaðan sem við komum... flottur er hann...
veit ekki hvort þessi leið sé sniðug að hausti... við þorðum ekki þá leið í könnunarleiðangrinum
né með hópnum heldur völdum aðra beint niður brekkurnar í Búraskarðið...

Dásamlegur nestistími í fannhvítum fjallasal...
stenst einfalslega samanburði við flottustu veitingastaði í heimi og er vanmetið fyrirbæri...

http://dinnerinthesky.com/

... nú borga menn offjár til að fá að borða í háloftunum...
þegar hægt er að rölta upp á fjall og borða á svona stað... :-)

... en þegar ekkert er skyggnið þá er þetta svolítið minna notalegt eins og haustið 2010... :-)
... sem var samt frábært einhvern veginn !

"Jæja"... Batman þekkir það orð mjög vel og sprettur alltaf strax á fætur :-)

Vestmannaeyjar marrandi úti á hafi... einn magnaðasti göngudagur í sögunni var þar hér um árið...
... en ég á enn eftir að skrifa þá ferðasögu... eins og hringleiðina um Kleifarvatn... Perú og Nepal...
fjórar ferðasögur óskrifaðar sem eru á verkefnalista þjálfara áður en árið 2016 er liðið...
því þetta þarf allt að vera fært til bókar á 10 ára afmælisárinu 2017 !

Við ákváðum að freista þess að finna leið ofan af Saxa á horninu eins og á Haka þó við þekktum ekki þá leið...

Snjórinn hlyti að gefa okkur fínt færi...

Litið til baka... með Haka þarna niðri... svo lítinn og saklausan í samanburði við Saxa...
í raun ótrúlegur munur svona sjónrænt því þeir virðast renna svo saman þegar mænt er á þá úr fjarska...

Þessi leið lofaði góðu en sjá mátti hvernig fyrstu menn hörfuðu frá klettinum þarna...

Litið til baka leiðina ofan af Saxa...

Neibb, það var ekki fært ofan af klettinum með góðu móti í hópi...

... svo Örninn valdi leið niður brekkurnar og mótaði spor í grunna fönnina ofan á ísnum...

... og það var fínasta leið þó brött væri... en við þurfum aðeins að vanda okkur í hálum beygjunum...

Búraskarð þarna niðri... Búrasker litla þúfan hægra megin, Búri sjálfur gígurinn þarna hvíti
og svo hvessir Hornklofi sig lengst til hægri ofan... með Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul sitt hvoru megin á myndinni...
algerlega magnað landslag til að ganga í og ómetanleg forréttindi að fá yfirleitt að vera þarna
hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eður ei...

Sjá landslagið þarna norðar utan í Saxa í könnunarleiðangri þjálfara í ágúst 2010...
Búraskerið í jaðrinum á jöklinum sem rennur niður skarðið sitt hvoru megin við það þakinn auri og ösku...

Við þræddum okkur utan í neðstu klettunum á Saxa niður í skarðið...

Fínasta færi sem við þökkuðum enn og aftur fyrir hvað fótun varðaði í brattanum
þó snjórinn hafi um leið þyngt færið í ferðinni í heild...

En þetta var ekki búið... enn einn hjallinn ofan af Saxa...

...er ekki örugglega fært þarna fram af ?

Jú, bara léttileg aflíðandi brekkan alla leið niður í lungamjúkt skarðið... við vorum komin á jökulinn sjálfan...

Ýmir þarna í austri og Ými að reyna að koma auga á okkur líka...

Litið til baka... ansi fagur þessi Saxi....

Hér sést landslagið hans vel úr göngunni 2014 á Ými og Ýmul..

Nú gengum við bara framhjá Ými og Ýmu og máttum ekkert vera að því að kíkja við þó freistandi væri...
enda er það tímafrekara en áhorfist...

Okkar beið sjálfur Búri... eldrauður gígur sem liggur í jökuljaðrinum og er ólíkur öllum hinum tindunum á svæðinu...

Þarna vorum við fyrir tveimur árum... það var ótrúlega gaman að rifja það upp...

Sólin bjargaði okkur í kuldanum... það var yndislegt veður þrátt fyrir svalt loftið...

Litið til baka á Búrasker næst, Saxa hægra megin og Haka svo ótrúlega lítinn vinstra megin...

Ísleifur var að mæta í sína fyrstu göngu með okkur í langan tíma...
en hann gengur mikið einsamall á fjöll og hefur náð mörgum sjaldförnum tindum í safnið sitt...

Og sjálfur höfðinginn hann Björn var sko í banastuði í þessari göngu !

Búri leyndi á sér í saklausri mýktinni sinni...

Hekla geislaði í sólinni þarna í fjarska hægra megin...

Snjórinn enn sleginn af kuldanum um allt...

... og brakandi harður á köflum efst í Búra þar sem sólin nær ekki að milda áhrifin af köldu loftinu...

Sjá Tind að skaga þarna upp úr landslaginu...

Þórsmörkin öll... Rjúpnafell eins og brúðardrottning... Morinsheiði, Fimmvörðuháls, Útigönguhöfði út af mynd,
Mýrdalsjökull, Tindur...

Búri gaf enn eina útgáfuna af kyngimögnuðu útsýninu...

... yfir Fljótshlíðina, Mörkina, jöklana, sæinn, Vestmannaeyjarnar... Gráfell og Þórólfsfell þarna niðri vinstra megin...

Tindur og Hornklofi... við ætluðum á Hornklofa en vorum búin að ákveða að sleppa Gráfelli og Bláfelli vegna tímaskorts...
þetta þunga snjófæri hafði tafið för...

Litið til baka á allra flottustu göngumenn Toppfara...

... sjálfa aldurshöfðingjana, Gerði, Guðmund Jón, Katrínu og Björn...
leiki þeim yngri það eftir sem þetta fólk á að baki... hvílíkt afreksfólk öll fjögur !

Við urðum að ná hópmynd hér af Tindi og Hornklofa í baksýn.

Ísleifur, Guðmundur Jón, Örn, Doddi, Ólafur Vignir, Sarah
Katrín Kj., Björn Matt., Njóla og Gerður Jens... og ofurhundurinn Batman en Bára tók mynd.

Menn orðnir þreyttir og talsvert liðið á daginn... við ákváðum að láta nægja að horfa á Hornklofa...
hann var óþægilega nálægt og erfitt að sleppa honum en það var löng leið framundan til baka
í enn þyngra færi en fyrr um daginn í sólbráðinni...
við hreinlega urðum að snúa við á þessum tímapunkti og láta þessa þrjá flottu tinda sem voru að baki nægja...

... og freistuðumst til að sjá hvort það væri góð leið niður um skarðið niður í dalinn...

... en okkur leist ekki á þessar löngu bröttu brekkur þar sem harðfenni gat skyndilega tekið við
og snjóhengjurnar voru ótraustar og snjóflóðahættan kannski möguleg...

...svo við snerum við upp á Búra og völdum öruggari leið þaðan ofan í dalinn...

Batman var svo hneykslaður á þessum óþarfa þvælingi að hann fór bara í verkfall
og lagðist niður þar til þetta lið myndi ákveða sig hvar ætti að fara...
og tók glaðan kipp þegar hann var spurður hvort hann vildi fara í bílinn...
meira að segja ofurhundurinn sjálfur var farinn að langa heim eftir allt þetta brölt :-)

Jú, þarna var fín leið, aflíðandi niður af Búra...

Við rúlluðum niður...

... en færið var hart og bæði Björn og Ísleifur runnu til á þessari niðurleið svo við fórum varlega...

... og það var svo gott að lenda niður í mjúkum snjónum neðar...

Það virtist loksins eitthvað þykkna upp eins og spáin sagði fyrir um... Bláfell ansi fagurt þarna í fjarska...
eins og sést á fagurmótun hans er það hreinasti dónaskapur að hafa það ekki með ef menn eru á annað borð
að segjast vera að þræða sig um alla tindana utan í Tindfjallajökli...
en líklegast verður hann oftast út undan :-)

Litil til baka með Búra vinstra megin og Hornklofa hægra megin... jú, það var farið að þykkna upp...

... og skyggnið varð lítið á um hálftímakafla þar sem éljagangur gekk yfir okkur...

.... og við prísuðum okkur sæl að hafa tekið þá ákvörðun að snúa við á þessum tímapunkti þarna áðan
og vera ekki stödd í miðjum snörpum hlíðum Hornklofa í þessari hríð...

Hvert skref var tvöfalt álag miðað við harðfenni...

En svo gekk þessi hríð bara yfir og sólin fór að skína aftur smám saman...

... og allt varð svo gott aftur þó þreytan segði til sín...

... enda ákvað Örn að ganga stystu leið í bílana og sneiða yfir norðuröxlina á Bláfelli
í stað þess að taka skarðið við efsta skála...

... sem þýddi að við enduðum á þessari brún hér...

... og auðvitað renndum við okkur bara niður um hana þó það væri smá harðfenni efst...

...syngjandi glöð og fórum að plana grill og einn kaldann...

Erfiðasti kafli göngunnar tók við á sléttunni í bílana...

Doddaskarð var kærkomin sjón og við nutum þess að ljúka þessari erfiðu göngu
í síðdegisfegurð og notalegu spjalli sem svo margar göngur hafa gefið okkur í gegnum tíðina...

Síðustu metrarnir upp í skarðið... þar sem Doddi ferjaði menn að bílunum
en fremstu menn náðu að ganga nánast alla leið í neðri bílana...

Ólafur Vignir gaf okkur einn kaldan eftir ferðina á þessa fögru tinda...
vá, hvað það var dásamlegur mjöður eftir krefjandi dag !

Ísleifur, Björn Matt, Sarah, Ólafur Vignir, Bára, Katrín, Guðmundur og Örn tók mynd
en Doddi og Njóla voru farin fyrr af stað niður og misstu af þessari lokamynd því miður.

Helmingur leiðangursmanna endaði í bústöðum um kvöldið í Fljótshlíð, Landsveit og Biskupstungunum...

...þar sem ómetanlegt var að geta hvílt lúin bein í vaknandi grasinu daginn eftir...

... og mæna upp til fjallanna sem höfðu sýnt okkur allt aðrar hliðar á sér
en þær sem blasa við öllum ofan af suðurlandsláglendinu...

... og fylgjast með tunglinu koma upp bak við Tindfjallajökul...

... og renna sér yfir tindana sem við gengum deginum áður...

Já, þarna vorum við... okkar þrír tindar fyrir miðri mynd og Ýmir lengst til vinstri...

Alls 16,2 km á 8:35 - 8:47 klst. upp í 1.144 m á Haka, 1.320 m á Saxa og 1.247 m á Búra
með alls hækkun upp á 1.021 m miðað við 693 m upphafshæð...

Leiðin okkar þennan dag.

Allar fjórar ferðir Toppfara á Tindfjallajökul frá 2009, 2010, 2014 og 2016.

Rauða fyrsta ferðin þann 18. apríl 2009 beinustu leið á Ými þar sem lagt var enn neðar af stað en 2016, alls 21,7 km á 8:51 klst.
Græna leiðin ganga tvö þann 11. september 2010 á sex tinda, Haka, Saxa, Búra, Hornklofa, Gráfell og Bláfell
en þá var hægt að keyra alla leið upp í efsta skála, alls 14,0 km á 8:04 klst.
Bleika leiðin ganga þrjú hefðbundna leið á Ými og Ýmu þann 1. maí 2014, gengið nánast frá sama stað og 2009, alls 22,6 km á 9:42 klst.
Gula leiðin ganga fjögur þann 21. apríl 2016 á Haka, Saxa og Búra frá neðsta skála, alls 16,2 km á 8:45 klst.

Sjá nær hvernig við byrjum á mismunandi stöðum allt frá 550 m árið 2009 upp í 864 m frá efsta skála 2010.

Slóðirnar í Tindfjallajökuldalnum á tindana...
sjá hvernig við förum svipaða leið upp á Saxa en mun fyrr niður árið 2010 en 2016.

Elsku félagar... takk fyrir dásamlega samveru og glimrandi gleðina sem glumdi allan daginn
á afreksgöngu sem reyndi verulega á en gaf þeim mun meira fyrir sál og líkama
... sem fer beint í sérflokkinn ásamt nokkrum tugum annarra
sem allar eiga tilkall til ToppTíuListaToppfara :-)
Hvílíkur snilldardagur !

... og það með fjórum af elstu klúbbmeðlimum Toppfara... geri aðrir mun yngri og greinilega ekki sprækari betur !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir