Tindur 22 - Tindfjallajökull 18. apríl 2009

Töfrar á Tindfjallajökli !

Toppfarar á Tindjökul fórum
tel ég þetta auðvelda leið
Ætlum aftur, öll við sórum
Elskum fjöllin há og breið
(Helga Björns.)

Þrettán Toppfarar sigruðu hæsta tind Tindfjallajökuls Ými, laugardaginn 18. apríl
í frábæru veðri og færð og einstakri stemmningu.

Leiðsögumaðurinn bilaði í upphafi ferðar og bíll þjálfara í lok ferðar en við komumst öll klakklaust á toppinn og alla leið heim enda bæði leiðsögumanni og bíl tjaslað saman á staðnum ...

Umkringd tindum þessa fagra jökuls sem lokkað hafði mörg okkar til sín frá barnsaldri án árangurs fyrr en loksins þennan dag... gengum við í stórkostlegu útsýni til Eyjafjalla- og Mýrdalsjökuls, Þórsmerkur og jafnvel Vestmannaeyja en ekkert skyggni var þó til norðurs né vesturs að fjallabaki þegar ofar dró... ástæða til að koma aftur síðar að sumarlagi...

Algerlega heilluð af þessum fjallasal gengum við sem dáleidd alla leið á Ými þrátt fyrir að leggja af stað gangandi 2,5 km neðan við neðsta skála og þrátt fyrir að Róbert fjallaleiðsögumaður lenti í slæmum meiðslum... en hann lét sig hafa það og fann sjálfsagt að þessi hópur "gefst ekki upp þó á móti blási" eins og Helga orðaði það svo vel á tindinum...


Ingi, Soffía Rósa, Guðjón Pétur, Simmi, Gylfi Þór, Örn (lengst í fjarska), Helga Björns, Gnýr og  Róbert fjallaleiðsögumaður.

Úr varð ein lengsta dagsganga Toppfara frá upphafi eða 21,7 km á 8:51 klst. upp í 1.475 m (1.464 m) hæð með 909 m hækkun... sem endaði með því að skálað var í Gamla Danskinu í Fljótshlíðinni á eftir og allir mýktust upp við heimför...

...en þá bilaði bíll þjálfara og við tók töf á leiðinni í faglegri bilanagreiningu Guðjóns Péturs og frábærum bjargráðum Roars sem var snöggur til og fékk Halldóru til að hafa samband við mág sinn á Hellu sem gerði við bílinn á laugardagskveldi eins og ekkert væri eðlilegra en að bjarga þessum sveittu og illa lyktandi fjallgöngumönnum frá Reykjavík... en á meðan mýktu hinir sig á skrokk og sál og fengu sér vel að borða og drekka á frábærum veitingarstað Árósa á Hellu í sindrandi kátínu og áhyggjuleysi yfir því hvernig þeir kæmust nú heim...

Ógleymanleg ferð með einstökum félögum sem hlógu sig alla leið á tindinn og alla leið aftur heim í einskærri gleði fjallgöngumannsins...

Lagt var af stað gangandi úr 552 m hæð nokkru neðar við neðsta skála sem í ljós kom að var í rúmlega 2 km fjarlægð.
Veðrið var upp á sitt besta... sól skein í heiði, tiltölulega hlýtt og lygnt.

Til Eyjafjallajökuls var þungbúnara... jökullinn sá myndi taka rigninguna þennan dag í austanáttinni... félagar okkar í stórum leiðangri þar með 66 hópnum voru ekki eins lánsamir og við með veður en við vonuðum það besta fyrir þeirra hönd og nutum allan þennan dag fagurra fjallsróta þessa jökuls niður í Þórsmörkina.

Gengið var rösklega af stað og Róbert leiðsögumaður hafði víst lítið um málið að segja en hann tók því rólegra í byrjun.

Engu að síður lenti hann þarna á fyrstu kílómetrunum í slæmum vöðvakrömpum framan á lærum beggja fóta og átti í þeim meiðslum það sem eftir leið ferðarinnar. Þjálfari lumaði á Icy Hot áburði fyrir krampandi vöðva sem Helga Björns hafði látið hana hafa sérstaklega fyrir göngurnar og svona uppákomur og Róbert bar þetta á sig og þáði verkjalyf sem linaði eitthvað óþægindin svo hann gæti nú haldið áfram... ekki vildi hann nú leyfa hópnum að koma sér fyrir í skálanum... því það var annars planið.... enginn var tilbúinn til að snúa við heldur skyldi haldið áfram alla leið á tindinn í þessu góða veðri... og Róbet lét sig hafa það...

Áð var við neðsta skála Flugbjörgunarsveitarinnar og Björgunarsveitarinnar á Hellu
sem var byggður í fyrrasumar og lofar góðu sem rúmgóður og traustur skáli. 

Gamli skálinn sem rís aðeins ofar var skoðaður í leiðinni en hann verður rifinn í sumar og því sögulegt að ná að skoða hann í þessari ferð en Róbert á margar minningar frá þessum stað og lét mynda sig með skálanum til minja.

Miðskáli nr. tvö - Miðdalur - var svo í 822 m hæð skv gps en við gengum framhjá honum á uppleiðinni.

Áfram var haldið um fallegan dal og upp á heiðina með stórkostlegu útsýni til suðurs að
Vörðufelli (850 m) og Þríhyrningi (667 m).

Framundan risu tindar jökulsins smám saman... Haki (1.129 m), Saxi (1.308 m), Búri (? m), Hornklofi (1.237 m)
og svo
Bláfell (1.011 m) og Gráfell (1.059 m) neðar og fjær...
Að ótöldum
Einbúa eða Tindi (1.251 m) sem hér er nánast skýlaus fyrir miðri mynd og skartaði sínu fegursta sem reisulegur tindur í fjarska.

Hér í dalnum sem lá að Búraskarði með Haka á vinstri hönd og skarðið í fjarska.

Nestispása með Saxa ofan við okkur og útsýni til Eyjafjallajökuls í suðri.

Saxi að baki og gengið upp í Búraskarð, skyggni enn gott en þokan beið okkar ofar...

Gleði og Gps fara vel saman...

Helmingurinn af hópnum með gps og eru alvarlegir á svip hér í einbeitingu sinni
... en hinir áhyggjulausir og brosandi yfir þessari gps-vitleysu...

Gegnum þokuna gengum við eftir áttavita, korti og gps og stefndum að Ými...
Komum að hnúknum vandræðalaust eftir nokkurn bratta við snjóhengju og Róbert klönmraðist upp á undan til að kanna aðstæður en Ingi og Örn fylgdu á eftir og kölluðu svo á okkur hin.

Allir í brodda og axir á loft... upp var gengið í talsverðum bratta en góðu færi... þetta minnti ekki mikið á Skessuhorn sem var gott því innst inni var uggur í manni... maður vildi ekki lenda í sömu aðstæðum og þá
til að sú ferð rifjaðist ekki of óþyrmilega upp...

Og uppi á toppnum tók við þessa einstaka tindagleði...

Í lófaslætti og broddadansi...

Bardaga... stríðsdansi... indíánagjörningi... ?
Stríðnispúkarnir að láta Guðjón Pétur fá það óþvegið...
Ekki var nú mikið plássið á tindinum fyrir leiki en galsinn klikkaði ekki !

Tindfjallajökulsfarar voru þau Bára, Guðjón Pétur, Roar, Gylfi Þór, Simmi, Ingi, Soffía Rósa, Örn, Íris Ósk, Helga Björns., Hildur Vals., Björn og Gnýr ásamt hörku fjallaleiðsögumanninum Róberti sem tók mynd.

Vegalengdin að baki og tíminn slíkur að við ákváðum í þessu færi að láta Ými nægja í bili...
Ýma biði betri tíma...

Niðurleiðin svo greið og glöð... fljótt komin í gott skyggni aftur og hærra hitastig...

...í fögru umhverfi tindanna allt um kring...
Saxi hér á hægri hönd...

Gengum svo utan í suðurhlíðum Saxa til að spara okkur hæðartap... nokkuð bratt á köflum en ekkrt sem menn voru ekki vanir og fallegt skarð í snjóhengjunni efst sem farið var í gegnum.

Hópurinn þéttur hér eftir hlíðargönguna með Eyjafjallajökul í fjarska, Gráfell neðar (1.059 m) og svo Þórólfsfell (576 m).

Ýmir og Ýma létu svo sjá sig til að veifa bless... og við vorum næstum því farin upp aftur...
En nei, degi tekið að halla og við áttum heimförina eftir...

Í stórkostlegu útsýni til  Bláfells (1.011 m) og Þríhyrnings enn fjær (667 m).

Enn í mikilli hæð en veðrið svona líka gott... milt, lygnt og hlýtt... alger draumur...

Hinkrað eftir síðustu mönnum við snjólínuna.

Og við tók grjótið og nokkrir kílómetrar í viðbót að bílunum.

En þessi síðasti kafli var röskur á húsdýrahraða heimreiðar... allir þreyttir og óþreyjufullir eftir kærkominni hvíld...

Komið að bílunum eftir 8:51 klst. og 21,7 km að baki...
Drullan við bílana slík að við ákváðum að drífa okkur niður í
Fljótshlíðina og skála þar...
Gammel Dansk sem upphaflega var ætlað Skessuhorni fékkst loksins skolað niður um þreytta og þakkláta hálsa sem svifu strax á loft og háfkjallavíman kristallaðist í dúndrandi stemmningu í bakaleiðinni...

Sem flæktist nokkuð þegar bíll þjálfara bilaði... og menn máttu varla vera að því að kljást við svoleiðis vesen í sindrandi stuðinu... en við vorum heppin að eiga Guðjón Pétur að sem leit á bílinn... og Roar sem hringdi í Halldóru og hún fékk mág sinn til að taka á móti strákunum en sá maður logsauð saman drifið og var ekki lengi að því... eða hvað var þetta nú aftur sem bilaði...???

... Skríkjandi var gleðin í hinum sem ekki þurftu að takast á við bílabilunina á meðan þjálfarabíllinn mátti aka á eingöngu 40 km/klst frá Fljótshlíðinni og inn að Hellu... en Guðjóni Pétri tókst á þessum kafla ferðarinnar að snúa þrisvar upp á okkur með hvílíkri stríðni að það hálfa væri nóg... snúið var við á Hellu á móti þeim þar sem hjólið fór undan bílnum en þá var bara verið að leita að Gamla Danskinu... við vorum send á undan inn að Hellu að leita að bifreiðaverkstæðinu "Breytt og Bætt" (við gleymum þessu sko ekki)...og lentum nánast í útistöðum við heimamann þegar hann kannaðist ekkert við slíkt verkstæði... verkstæði sem var nefnilega ekki til...  áfram hlógu félagarnir í þjálfarabílnum... og loks var Inga snúið frá miðri máltíð að sækja þá með þá frétt að það tæki tvo tíma að gera við bílinn og þeir vildu fá far upp á veitingastaðinn... en óku svo galvaskir og skellihlæjandi upp að veitingastaðnum í sömu mund... en þar með tókst þeim að blekkja okkur þrisvar og hlæja sig máttlausa í hvert skipti áður en deginum lauk... og verður að segjast eins og er að þessar uppákomur eru manni ógleymanlegar í þeirri kátínu og gleði sem þeim fylgdu...

Gleðin hélt áfram í stanslausu stuði alla leið í bæinn... þangað sem við vorum komin í um ellefu leytið...

. . . H v í l í k   s n i l l d a r f e r ð . . .

 

  

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir