Þriðjudagsæfingar frá janúar út mars 2016

Skíðagöngunámskeið með Ulli í Bláfjöllum 29. mars.
Grindaskörð 22. mars
Sandfell Eilífsdal 15. mars.
Helgafell í Hafnarfirði að njóta eða þjóta 8. mars.
Brodda- og ísaxaræfing á Úlfarfelli 1. mars.
Valahnúkar og Húsfell 23. febrúar.
Sólgleraugnaganga og fjallatími að njóta eða þjóta á Mosfell 16. febrúar.
Skyndihjálparnámskeið í Úlfarsfelli með Jóni Heiðari og Ragga hjá Asgard Beyond 9. febrúar.
Lokufjall, Hnefi og Melahnúkur 2. febrúar.
Úlfarsfell að njóta eða þjóta fjallatími 26. janúar.
Ásfjall þorraganga 19. janúar.
Klifurhúsið - jaðarsport 1 af 12 - 12. janúar.
Reynivallaháls nýársæfing 5 janúar.
Nýársganga á Esjuna með Birni Matt og Gylfa.

Frábært skíðagöngunámskeið
með framúrskarandi leiðbeinendum Ullar
í fallegu veðri og útsýni í Bláfjöllum


Efri: Sigga Sig., Matti, Jóhann Ísfeld, Doddi, Nonni, Dóra, Svavar, Guðmundur jón, Ólafur Bignir, Arnar, Guðrún Helga,
Árni leiðbeinandi, Örn, Ólafur og Eikíkur leiðbeinendur.
Neðri: Sarah, Guðlaug Ósk, Karen Rut, Roar, Katrín Kj., Gyldi, Heimir og Bára tók mynd.

Það var sérlega lærdómsríkt og ótrúlega skemmtilegt skíðagöngunámskeiðið
sem þrír leiðbeinendur hjá Skíðagöngufélaginu Ulli héldu fyrir okkur þriðjudaginn 29. mars...

Við vorum tuttutu manns sem mættum, níu með eigin skíði, þar af þrjú (fjögur) með ansi forn eintök...
og ellefu sem leigðu allan búnað hjá Ullungum...

Fín aðstaðan hjá Ullungum í Bláfjöllum...
skálinn er inn af upphafsstað gönguskíðabrautanna ofan eða suðvestan megin við Suðurgil
... og það eru heil fræði á bak við val á skíðum út frá þyngd, tegund, lengd...

Ólafur hér að mæla hvort skíðin passi Nonna þar sem þyngd segir til um hvaða skíði henta;
ef rétt svo er hægt að renna blaði undir miðjuna þegar maður stendur í skónum á skíðunum á sléttu gólfi þá passa þau...

Veðrið var með betra móti en við áttum von á þar sem spáin var ekkert voðalega góð
... þá þegar búin að fresta námskeiðinu um viku þar sem farið var í slagveðursgöngu 22. mars á Grindaskörð
en það reyndist vera skínandi gott veður þetta kvöld...

Já, það er allt flókið þegar maður er að gera eitthvað í fyrsta sinn...
hvernig í ósköpunum smellir maður skónum á skíðin, eru hægri og vinstri skíði eða... ?... en stafirnir...?
hvernig fer maður í lykkuna á stöfunum?...... vá hvað skíðin eru sleip !...
Smurð skíði...  riffluð... stálköntuð... já, þetta er heill heimur út af fyrir sig
sem landinn tók skyndilega æði fyrir á þessu ári eftir hægan stíganda síðustu tvö ár eða svo...

Fram að því hefur þessi íþrótt frekar haft á sér stimpilinn að vera fyrir ömmu eða þá sem ekki geta svigskíðað
sem er svo langt frá sannleikanum þar sem góðir gönguskíðamenn eru með þolmestu og flottustu íþróttamönnum í heimi...
eins og nýafstaðnir heimsleikar á skíðum sýndu vel...

Hópnum var skipt í þrennt og leiðbeinendur voru þrír; Árni Tryggvason, Eiríkur Sigurðsson og Ólafur I. Jóhannesson...
allt framúrskarandi menn hver með sínu lagi og forréttindi að fá að njóta leiðsagnar svona eðalmanna :-)

Árni hér á mynd með hópinn sinn.

Fyrst var farið yfir skíðin og stafina, mýktina, já dansinn dunaði...
...öryggi, jafnvægi, stuðning stafa og rennsli...

... og svo fórum við nokkrar ferðir fram og til baka þar sem farið var í hvert atriði...
hreyfingar, beitingu líkamans, stafanotkun, með og án stafa, jafn stuðningur stafa án hreyfingar fóta,
hægri stafur niður móti vinstra skíði og öfugt...
vera mjúkur, ekki stífur, nýta rennslið, nýta stafina, halda jafnvægi, rétta úr sér... dansa... :-)

Já, og svo er mikilvægt að kunna að detta og standa upp aftur...
þetta með að standa upp aftur er eiginlega það mest krefjandi við gönguskíðin að mati ritara...
allavega það sem hún gat bara ekki framkvæmt á námskeiðinu án hjálpar... !

Ólafur I. Jóhannesson var elstur leiðbeinenda þetta kvöld og þau voru heppin sem lentu með honum í hóp
og gátu nýtt sér reynslubrunn hans og þekkingu...

Umræður sköpuðumst um alls kyns hluti tengdum gönguskíðamennskunni
og fyrir þá sem heillast af sérviskusamlegum íþróttum... þ. e. njóta þess að nördast svolítið...
 þá er greinilega hægt að missa sig í endalausum umræðum um þessa íþrótt eins og hægt er að gera í hlaupunum, hjólunum, fjallgöngunum, golfinu, sjósundinu, fótboltanum, körfunni, skákinni, prjónamennskunni..
úff, hvað það er yndislegt að vera nörd !

Roar mætti á gönguskíðabrautina þetta kvöld á sama tíma og við og heilsaði upp á okkur
þó hann hafi ekki farið á námskeiðið sjálft... hann var á þessum heillandi, formfögru skíðum sem eru 40 ára gömul
og höfðu yfir sér einhvern 1001 nætur stíl með þessum miklu, fallegu bogum að framan og í bland íslenskan fornaldarblæ með þessum gömlu fallegu skíðabindingum sem skelltu manni aftur í tímann :-)

Eiríkur Sigurðsson var með þriðja hópinn og fór með þau stærri hringinn svo þau skiluðu sér aðeins seinna inn en við
eftir góða göngu um brautirnar... já brautirnar komu á óvart, frábær aðstaða þarna í Bláfjöllum og hægt að velja um mislangar brautir þar sem brekkur upp og niður þjálfa vel þol, öryggi, jafnvægi og hraða... vá, hvað það er gott þegar það kemur brekka niður í mót og maður bara rennur og rennur og getur hvílt sig... og vá hvað það er gaman að hamast upp brekkurnar á tánum í stuttum skrefum og láta svitann renna og vöðvana brenna...

Sjá metnaðarfulla vefsíðu Ullar: www.ullur.wordpress.com.

Fornu skíðin fjögur... Katrín og Guðmundur voru á 25 ára gömlum skíður frá Atomic...
Svavar á 30 ára gömlum frá Fischer og Roar á 40 ára gömlum frá Honeycomp...
bindingar allra nútímalegri en hjá Roari...
væri gaman að prófa muninn á þeim og nýjustu skíðunum
og finna á eigin skinni hvort þau standist samanburðinn við þau
sem leiðbeinendurnir sögðu að þau gerðu því miður ekki...

Kærar þakkir Árni, Eiríkur og Ólafur og Hugrún Hannesdóttir stjórnarmeðlimur Ullar
fyrir frábært námskeið í alla staði...
þetta var einfaldlega alveg ægilega gaman !

P.s. þjálfari fór kvöldið eftir ein með hundinum
(sem beið úti í bíl í mikilli fýlu (þó hann fengi 3,6 km fjallgöngu um Rauðuhnúka á undan))...
upp í Bláfjöll og ætlaði að taka 5 - 10 km gönguskíðaæfingu (þar sem þjálfarar ætla í 50 km Fossavatnsgönguna
eftir mánuð sem hluta af Landvættunum)...
og endaði á að fara heila 14,9 km á 1:28 mín af því hann rataði ekki nægilega vel um brautirnar...
í gullfallegri kvöldsól þar sem brautirnar voru bara yndi... þetta er alger snilld !
... en hey, hvað gerir maður þegar brekkurnar eru mjög brattar
eins og í aukaslaufunni milli löngu brautanna sunnan megin... ?
Við verðum að spyrja næsta gönguskíðamann að þessu...
það vakna bara fleiri spurningar eftir því sem maður prófar þessa vanmetnu íþrótt meira :-)
... og ráð að fara 2 x 25 km eða svo á viku fram að keppni 30. apríl
þó um 100 km á viku af hlaupum, hjólum og fjallgöngum séu þarna með... ef maður á að geta þetta !
 

 

Risavaxin snjóbjörg
yfir gönguslóðanum í Grindaskörðum
í hressandi slagviðri

Skíðagöngunámskeiðið sem vera átti í Bláfjöllum þriðjudaginn 22. mars á vegum Ullunga
féll niður vegna slæmrar veðurspár og því var farið í Grindaskörðin í staðinn...

Þetta átti að vera "njóta eða þjóta æfingin" sem var færð frá apríl mánuði,
en í þessu slagvirði sem þarna var beint í fangið var nægt verkefni að koma sér áfram eftir slóðinni og til baka
og halda sér heitum eftir því sem maður blotnaði meira er á leið...

Menn taka þá bara þjóta-tímamælilngu á Grindaskörðum hver og einn eftir smekk...
en þessi verður samt sett á kortið... 00:59:15 var tíminn okkar í slagviðri og snjó upp í skarðið 3,15 km !


Ólafur Vignir, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Svavar og Örn fyrir ofan og Bára tók mynd.

Við vorum átta sem vorum nægilega galin til að mæta í þessu veðri og fimm náðust á mynd...
Guðmundur Víðir og Kolbrún mættu líka en lögðu seinna af stað
og við fylgdumst með þeim fyrir aftan okkur en þau náðu okkur ekki og skiluðu sér aldrei í skörðin
... hafa eflaust snúið við á einhverjum tímapunkti sem var ekki skrítið...
þetta var ekki ganga sem maður tekst á við nema í léttgeggjuðum krafti hópsins
með Örninn dragandi mann áfram... :-)

Batman hefur aldrei verið eins rennandi blautur í nokkurri göngu né göngutúr
frá því hann flutti á heimili þjálfara í nóvember 2015...
enda var hann fyrstur að bílnum og alveg búinn að fá nóg þegar æfingu var lokið :-)

Gönguslóðinn var undir snjó að mestu síðasta kílómetrann upp í skörðin
og við sneiddum framhjá uppi á hryggjunum eða yfir snjóinn
en ofarlega í skörðunum lágu þessir risa snjóhnullungar sem höfðu augljóslega fallið úr íshömrunum ofar...

Strákarnir fífluðust aðeins með björgin...
en það var nokkuð ljóst að enginn lifir af að lenda undir svona snjóhnullungum...

Hörkuæfing í frábærum félagsskap alls 6,3 km á 1:44 klst. upp í 478 m hæð
með alls hækkun upp á 248 m miðað við 238 m upphafshæð.

Skíðagöngunámskeiðið færðist um viku til þriðjudagsins eftir páska þann 29. mars
og það er sól og blíða með léttu frosti í langtímakortunum...
vonandi rætast hún :-)

Gleðilega páska elskurnar... og góða skemmtun í Skarðsheiðardraumnum hans Inga
þar sem ætlunin er að ganga Hafnarfjallið, Blákoll og svo Skarðsheiðina endilanga frá Skarðshyrnu niður í Dragann...
metnaðarfull og æsispennandi áskorun sem menn geta tekið að hluta eða öllu leyti...
þjálfarar ætla að fylgjast spenntir með úr sveitinni...
og eiga bágt með að skella sér ekki bara með ef andinn kemur yfir þau :-)
 

 

"Blíður" sunnanvindur
á Sandfelli í Eilífsdal

Fjallið sem liggur norðan við Miðdal og vestan við Eilífsdal bak Esju heitir Sandfell að sunnan og Eyrarfjall að norðan
og var ætlunin að ganga á báðar fjallsbungur þriðjudaginn 15. mars... í leifunum af sunnanstormi sem gekk yfir landið allt á nokkrum dögum... og gerði meiri usla fyrir vestan og norðan en stormurinn í fyrra á svipuðum tíma... og kom því myndarlega í verk að feykja vetrinum af landi brott og gæla við land og menn með hlýrri vorgolunni... sem mátti vera eins hörð í horn að taka og hún þurfti... þó ofsarok væri á köflum í göngunni... svo ótrúlega kærkominn hlýr vindur þó hvass væri að við bókstaflega opnuðum oft faðminn mót honum og nutum þess að láta hlýja straumana ganga gegnum okkur... full þakklætis yfir því að hann skyldi á örfáum dögum nánast alveg fjarlæga hvern einasta skafl í borginni sem safnast hafði upp frá því í nóvember...
og þynna vel niður í snjómagninu sem liggur yfir fjöllunum...
þó það mætti reyndar ekki ná upp í Bláfjöll þar sem við eigum eftir að fara á gönguskíðanámskeið í næstu viku og á fjallaskíðaæfingu í apríl !!!

Gotti, sex ára hundurinn hans Matta mætti eftir langt hlé...
og bauð Batman upp á hörku samkeppni um hylli Slaufu en hún hélt yfirvegun sinni
og saman smituðu þau alla af skoppinu og fölskvalausri gleðinni sem glumdi um allt fjall..

Þetta var dásamlega hressandi útivera...
og við hefðum eflaust ekki sleppt Eyrarfjalli sem var ætlunin að ganga líka á þetta kvöld
ef ekki hefði verið fyrir svo mikla leikgleði í vindinum sem smitaðist auðvitað með að mönnum var ekki stætt á köflum...

Mosfellið komst í umræðuna oftar en einu sinni...
sem var algerlega óskiljanlegt þarna sem við óðum drullu upp að ökkla þegar verst lét... :-) :-) :-)

Sandfellið er fjölbunga (nýyrði!) og við létum okkur hafa það að klára upp á hæsta tind
þó lítið sem ekkert væri skjólið sama hvar við gengum...

Ánægð með að þrjóskast við... þeta var hreinlega svo "ótrúlega gaman eitthvað"... !

Heimir, Sigga Sig., Sarah, Svavar, Njóla, Sigga Rósa, Matti, Ólafur Vignir Anton, Karen Rut, Helga Björns., Ágúst, Njáll, Arna, Björn Matt., Katrín Kj., Guðmundur jón, Ester, Gerður jens., Örn, Gylfi og Bára tók mynd... liggjandi á hnjánum til að fjúka ekki... og reyndi að ná hundunum inn á myndina... en það hvarflaði auðvitað ekki annað að þeim ferfætlingum en að láta vindinn  feykja sér um allan tind eins og fuglarnir í þessum ofsavindi sem þarna var í 429 m hæð :-)

Niður var farið ofan í dalinn og með ánni í hliðarhalla utan í Sandfelli.. við komumst hvergi í tæri við Eyrarfjallið að sinni... það tók að skyggja á niðurleið, tunglið kíkti við og rökkrið var ansi þykkt þegar komið var í bílana... eins og leðjan á skónum og fjórum fótum hundanna þriggja sem höfðust ólíkt að...

Slaufa þeirra hlýðnust og fór beint í ánna að þvo sér með Siggu enda í bandi, Batman ekki í bandi og skildi ekkert hvers vegna honum var bent á að fara út í á eða djúpan poll til að þrífa af sér mestu leðjuna...  og Gotti harðneitaði að fara inn í bíl og gelti á alla bíla sem lögðu af stað í bæinn, eflaust stórhneykslaður á þeim að láta þessa 2:16 klst. löngu göngu alls 5,7 km upp í 429 m hæð með alls hækkun upp á 394 m miðað við 112 m upphafshæð nægja... vorboðinn var slíkur þetta kvöld að áþreifanlegt var á sál og skinni... ennþá ratljóst og ráð að njóta eins og hann gelti óðum að okkur öllum... vonandi mætir hann bara næst með Matta sínum og Dagbjörtu... það bíður okkar ekkert annað en endalaus birtan úr þessu... hlýjir vindar... vorleysingar... auð jörð... ilmur af lyngi... mjúkur mosi... sól og blíða...
þó lítil hret hér og þar eigi eflaust eftir að koma okkur niður á jörðina endrum og eins :-)

Vá hvað þetta var gott og gaman !
 

 

Frábær frammistaða
á Helgafelli í Hafnarfirði

Þriðji fjallatíminn á árinu var á Helgafell í Hafnarfirði
og mættu hvorki meira né minna en 28 manns í gullnu veðri þar sem sólargeislarnir skríddu landið allt...

Fimm tóku þjótandi nálgunina á þetta og fóru geyst yfir en hinir nutu bara kvöldsins
og félagsskaparins frá fyrsta skrefi...

Þotuliðið stóðst svo sem ekki alveg mátið að njóta og gáfu sér tíma til að taka myndir og setja á sig brodda...
en gengu almennt þétt og eins rösklega upp og þeir gátu...

.... og skemmtu sér samt konunglega í öllu kappinu...

Alvöru vetrarfæri... blautt til að byrja með, fljúgandi svell og svo snjóskaflar...
alveg hreint frábært að fá alla þessa flottu tíma skráða að vetri til...

Og... hafa til samanburðar tímana hjá Dóru og Nonna sem fóru í janúar í erfiðu veðri og færð
og svo fjórum dögum síðar í betra veðri og færð og bættu tímana sína - alger draumur þjálfara svona elja og frammistaða ! :-)

http://www.fjallgongur.is/fjallatimar_helgafell_hf.htm

Aðalheiður lagði fyrr af stað en hópurinn, sem er einmitt gott að gera ef menn vilja vera í friði og taka tímann sinn í rólegheitunum og um leið ná að taka á móti hópnum á tindinum... enda var henni fagnað af mörgum þegar upp var komið :-)

Örn leiddi hópinn og var 35 mín upp en Rikki fylgdi fast á eftir og var 36 mín...

Gylfi fagnaði þriðja besta tíma á 39 mín...

... og Ólafur var rétt á eftir á 40 mínútum...

Frábær frammistaða hjá fyrstu mönnum og dýrmætt að byrja að safna þessum tímum
því það er svo gaman að skjótast svo á eigin vegurm í góðu tómi...
og bæta tímann sinn ef vel liggur á manni í góðu veðri...
og bera saman tímana milli árstíða...

Alveg magnað að eiga þessa tíma um hávetur í erfiðu vetrarfæri !

Hinir í hópnum komu fljótlega á eftir fyrstu mönnum og þjálfari auglýsir hér með eftir tímum þeirra !

Já... endilega sendið mér tímana ykkar... !

...bara gaman að eiga þá og bera saman milli árstíða og ára !

... líka þið sem lögðuð af stað seinna en hópurinn !

Uppi var hópurinn þéttur... því planið var að njóta öll saman sem eitt...

... en fyrst var tekin hópmynd af öllum þessum englum...

Rikki, Gylfi, Anton, Ágúst, Ólafur Vignir, Guðmundur Jón, katrín Kj., Ósk, Alda, Heiða, María Guðrún, Ásta Guðrún,
Guðmundur Víðir, , Guðlaug, Karen, Olgeir, Aðalheiður, Ástríður, Sigga Rósa, Kolbrún, Hjálmar, Arna, Njáll, Svavar og Roar en Örn tók mynd og Bára var víðs fjarri í vinnunni því miður á svona fallegu kvöldi enn og aftur í vetur!!!

...og hundurinn Batman... sem passaði svo vel upp á síðustu menn þrátt fyrir örþreytu á Vestur- og Norðursúlu síðustu helgi... þar sem hann gekk móti snjóbylnum til baka hvað eftir annað... hvítur í framan og vindstrekktur... hann hreinlega týndi hópnum þetta kvöld... og fannst að lokinni æfingu á bílastæðinu... eflaust ruglast í ríminu enda ekki vanur að hópurinn hans sé að ganga á fjöll þar sem svona margir aðrir hópar eru að ganga á sama tíma á sama stað...

Já, eftir allan hamaganginn... "þessa afskaplega dýrmætu þjálfunaræfingu upp á hæsta tind Hafnarfjarðar"...


...nutu menn þess að fara niður norðan megin um hraungatið... verð að hunskast til að finna betra orð...

... og klöngrast smá eftir allt of auðvelda göngu í spor svo margra annarra um gilið á Helgafellinu...

... og voru einhverjir að kynnast þessari leið í fyrsta sinn...

... fallegasti staðurinn á Helgafelli...

Og svo var farið til baka austan megin í snjó og blíðu...

Hrútsfjallstindahópurinn 2015 sem er ekki ennþá kominn niður á jörðina eftir stórkostlega ferð á þá tinda
frekar en alllir þeir sem náð hafa að upplifa svona kyngimagnaðar jöklaferðir í sól og blíðu..
var nánast allur mættur í spriklandi gleðinni sinni þetta kvöld
og ætlar allur á Sveinstind í Öræfajökli í ár...
ansi góður félagsskapur þar á ferð :-)

Alls 7,4 km á 2:18 klst. upp í 348 m hæð með alls hækkun upp á 307 m miðað við 89 m upphafshæð.

Frábær frammistaða, dúndurmæting, krefjandi færi, blíðskaparveður, ægifagurt landslag, besti félagsskapur í heimi...
... er hægt að biðja um meira?...

...jú, Batman biður um aðeins fáfarnari slóðir svo hann ruglist ekki svona í ríminu aftur við að passa síðasta mann
sem rann saman við aðra gönguhópa á svæðinu...
enda synd að allur þessi fjöldi skyldi ekki dreifast meira á alla þessa fögru fjallstinda sem bókstaflega geisluðu af fegurð alls staðar kringum höfuðborgina og nágrannabyggðir í þessu fallega veðri...

En... dýrmætt að vera komin með þriðja fjallatímann í safnið á þessu fallega fjalli...
Helgafell í Hafnarfirði er örugglega næst fjölfarnasta fjallið á höfuðborgarsvæðinu á efti Esjunni
og ekki spurning að allir Toppfarar leynt eða ljóst mæli tímann sinn á því upp og niður, jafnvel um bæði gilið og öxlina...
og helst sendi þjálfara hann til að bæta á listann... og vera að auðvitað ánægðir með tímann sinn
því munið... síðasti maður á listanum er samt á undan öllum þeim sem ekki eru á honum !

Það æfist nefnilega að sjá nafnið sitt á lista yfir marktíma og vera skyndilega borinn saman við aðra... það er algerlega á valdi manns sjálfs hvernig maður lítur á listann... brúklegastur er hann sem hvatning til að gera betur
og bæta tímann eða halda sér við hann eftir því sem árin líða :-)
 

 

Brodda- og ísaxaræfing
um allt Úlfarsfell

Þriðjudaginn 1. mars var brodda- og ísaxaræfing í Úlfarsfelli þar sem gengið var á jöklabroddum
með ísexi í hönd um alla hnúka og brúnir fjallsins og farið í ísaxarbremsu í lokin á leiðinni til baka...

Frábær mæting var þetta kvöld... 32 manns... og veðrið með besta móti...
heiðskírt, logn og bleikt vetrarsólarlagið lék um allt fjær og nær...

Við vissum ekki hvar við áttum eiginlega að taka hópmyndina...
dýrðin var svo alltumlykjandi og skreytti Bláfjöllin í fjarska og Esjuna og Snæfellsnesið allt og Reykjanesið...
og borgina og... en mættir voru:

Alda, Arnar, Ágúst, Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björn Matt., Ester, Gerður jens., Guðmundur Víðir, Guðmundur J'on, Guðný Ester, Guðrún Helga, Gunnhildur Heiða, Heiðrún, Hlöðver, Ingi, Jóhannes, Karen Rut, Katrín Kj., Lilja Bj., Magnús, María Guðrún, Njóla, Ólafur Vignir, Ósk Sig., Sarah, Sigga Sig., Sigríður Arna, Svavar og Örn
og unglingarnir Batman og Slaufa vissu ekki hvert þau ætluðu þegar þau hittu hvort annað á bílastæðinu í byrjun göngunnar :-)

Gengið var upp á Vesturhnúk og snjórinn og klakinn eltur á röndum en heppnin var ekki alveg með okkur þennan dag
því það voru smá hitatölur í kortunum og snjórinn var helst til of gljúpur... eftir að hafa verið helfrosinn að mestu eiginlega í allan vetur... klakaveturinn mikla... það var eftir því... en við létum þetta ekkert skemma fyrir okkur og gerðum það besta úr þessu...

Þessi æfing endaði því á að vera gagnlegust hvað varðaði það almennt að setja á sig broddana og ganga á þeim...
því allavega tveir komust að því að skórnir þeirra pössuðu ekki í broddana... konur sem eru í númer 38 og undir í gönguskóm þurfa kvennabrodda sem passa skónum... og þessir broddar keyptir í Íslensku Ölpunum fyrir nokkrum árum héldu engan veginn sama hvaða menn reyndu að festa þá á skóna hennar Heiðu... enda enginn almennilegur hæll á þeim og böndin sneru öfugt miðað við aðra brodda... Heiða ætlaði að tala við Guðmund í Ölpunum !

Það var óskaplega fallegt veður þetta kvöld og litirnir magnaðir...

En við höfðum engan tíma til að dúllast í myndatökum á þessum broddum og pælingum yfir þeim
og leit að nógu hörðum snjóbrekkum til að æfa okkur í...

Ferðamennskan er mætt á Úlfarsfellið... meðan við lentum á Vesturhnúk komu nokkrir ferðamenn í fylgd heimamanna á fjórhjólum upp á tindinn og njutu sólsetursins sem glitraði yfir borginni ofan af fjallinu...
Vesturhnúkur er klárlega flottasti útsýnisstaður yfirr Reykjavíkurborg enda vinsæll á gamlárskvöld...

Ætlunin var að þræða okkur niður að Lágafellshömrum norðan megin og taka alla þrjá hnúkana en við enduðum á að sleppa norðurenda fjallsins þar sem við töfðumst það mikið í upphafi göngu í baslinu með broddana sem ekki pössuðu
og drifum okkur yfir á Stóra og Litla hnúk þar sem harðfennið beið og ísaxarbremsuæfingin sem við ætluðum að ná í birtu...

Jú, það var fínasta snjóbrekka upp á Stóra hnúk...

... og við gátum æft sikk sakk hliðarhalla göngu...
með efri fótinn beint á göngustefnu og neðri fótinn í 45 gráðum...

Að ganga á broddum:

*Ganga aðeins gleitt með smá bil milli fóta til að flækja ekki broddunum hvor í annan eða flækja broddunum í skálmarnar og detta um sjálfan sig af þeim sökum eins og margir hafa reynt (sbr. rifnar skálmar á hlífðarbuxum v/broddanna). Chaplin eða skíðastökkvarar hér fyrirmyndin.

*Lyfta fótum vel upp til að reka ekki broddana í hjarnið og detta fram fyrir sig. Með broddunum erum við komin með "lengri fætur" og auðvelt að gleyma sér þegar líður á daginn og menn orðnir þreyttir eða kærulausir. Líkaminn vanur ákveðinni vegalengd sem hann þarf að lyfta fætinum upp og stíga næsta skref (flókin taugalífeðlisfræðileg athöfn) en þegar maður er kominn á brodda þarf maður að muna að lyfta hærra upp til að reka sig ekki niður undir.

*Taka stutt skref til að hafa betra vald á hverju skrefi.

*Stíga jafnt á yfirborðið svo broddarnir nái allir að grípa taki í hjarnið en ekki stíga á ská (eins og maður gerir í skóm og hliðarhalla þegar maður stingur jarkanum á skónum inn í brekkuna til að mynda syllu í jarðveginn - alls ekki gera þetta ef maður er á broddum heldur nýta alla broddana til að grípa í hjarnið með því að ganga "flötum fótum").

*Stíga föstum skrefum niður í snjóinn en ekki léttum svo broddarnir nái að grípa vel í snjóinn (ef hált færi).

*Ganga með framhlið manns vísandi niður brekkuna ef undirlagið er mjög frosið, bratt og hált til að ná sem jöfnustu gripi - en ekki "ganga á hlið" eins og maður gerir vanalega á göngu í hliðarhalla. Á við í mikilli hálku, svelli eins og t.d. á
Kerhólakambi í desember 2007 þar sem við fórum vel yfir þetta og æfðum ofl. ferðum.

*Þegar hálkan er minni en samt til staðar skal ganga í hliðarhalla með því að snúa "efri" fæti, þ.e. fætinum sem er ofar í brekkunni í göngustefnu en "neðri" fæti um 45° niður í móti til að nýta betur yfirborð broddana og hafa meira vald/öryggi á göngunni. Með því að ganga zikkzakk upp brekku er gott að hvíla kálfana með þessu þar sem maður beitir efri og neðri fæti misjafnt eftir því hvernig maður snýr mót hallandi brekkunni.

Sumir fóru út á ystu nöf... nei, smá ýkjur...
en reyndu sig í mesta harðfenninu og tóku brekkuna upp í meira harðfenni á broddunum...

... og fundu hvernig brekkan harðnaði eftir því sem ofar dró... góð lexía því oft leggur maður af stað alsaklaus í fínu færi
og er svo skyndilega kominn í mikið harðfenni efst og þá er ekki spennandi að snúa við
eins og við urðum t. d. að gera á Lýsuhyrnu í maí í fyrra... þar sem lexían var m. a. sú að geyma það allt of lengi að fara í jöklabroddana... það er nefnilega ekki gott að vera að fara í þá þegar maður er kominn í mikinn halla þar sem erfitt er að athafna sig... en ótrúlega oft skal maður gera þessi sömu mistök...

Örn prófaði ísaxarbremsu í þessari brekku sem var samt ekki örugg fyrir hópinn allan...

... og nokkrir prófuðu sig með honum sem voru nægilega öruggir...

... en það var nóg að prófa sig á broddunum þarna upp fyrir þá sem ekki eru vanir þeim
enda voru nokkrir að fara í brodda í fyrsta sinn í lífinu..

Að ganga með ísexi:

*Ef farið er í brodda skal alltaf taka ísexi með í hönd líka því þá er maður kominn í hálkufæri þar sem nauðsynlegt er að geta stöðvað sig með ísaxarbremsu.

*Halda skal í ísexina með breiðara skaftið fram og beittara skaftið snýr aftur (oddurinn) og venja sig á að halda alltaf á henni svona þar sem viðbragðið til ísaxarbremsu liggur beinast við í þessari stöðu.

*Ef gengið er í hliðarhalla skal ísexin ávalt vera í þeirri hendi sem snýr að brekkunni til þess að viðbragðið ef maður dettur sé einfaldara við að grípa til ísaxarbremsu.

*Sé gengið niður brekku getur verið gott að styðja ísexinni aftan við sig til að hafa stuðning/hald.

Hundarnir eru með náttúrulega brodda á loppunum sínum... og alltaf klæddir eftir veðri... vá, hvað mannskepna er stundum langt á eftir dýrum merkurinnar... þó hann hagi sér alltaf eins og hann eigi heiminn og sé æðri öllu sem í honum er... sem er svo fjarri lagi... við erum líklega oftast eins og sjálfmiðaður óviti sem er smám saman að ganga að jörðinni dauðri... og ekkert annað í stöðunni fyrir hana og dýraríkið og plönturíkið en að losa sig við þennan skaðlega óvita !...

Í þessari brekku dugðu keðjubroddarnir ekki... Sigríður Arna snýr hér við og fer í spor hópsins um mýkri hluta brekkunnar...
það er ótrúlegur munur á jöklabroddunum og keðjubroddunum um leið og einhver halli er kominn í gönguleiðina
enda er mikilvægt að fara nógu snemma í jöklabroddana sem fyrr segir...

Og svo var æft að fara beint upp...
stinga broddunum beint í fönnina og þrýsta táberginu inn en ekki sjálfum tánum...
þannig nær maður betra gripi og þreytir ekki tærnar nærri eins fljótt...

Sjá efri konuna á mynd: ekki haldið rétt á ísexinni - breiða skaftið skal snúa fram og oddurinn aftur !

Fegurðin var áþreifanleg og við nutum útiverunnar og máttum varla vera að því
að vera á einhverri "háalvarlegri brodda- og ísaxaræfingu" ... :-)

En jú, ísaxarbremsan var eftir í snjóhengjubrekkunni ofan af Litla hnúk í suðvesturhorninu...

Ísaxarbremsa:

*Ísaxarbremsu er ekki hægt að lýsa - hana verður einfaldlega að æfa verklega!

*Með því að halda alltaf rétt á exinni er maður viðbúinn eins og hægt er að grípa til hennar.

*Mikilvægt að halda henni sem næst brjóstkassanum þegar bremsunni er beitt og missa hana ekki of langt ofan við sig til að geta beitt líkamsþunganum á ísexina - lítið hald í henni ef maður er kominn lengst fyrir neðan exina sjálfa.

*Hinn hlutinn af líkamsþyngdinni á að fara á hnén og lítið/ekkert annað af líkamanum að snerta jörðina - til að láta líkamsþungann liggja á exinni annars vegar og hnjánum hins vegar en þetta getur skipt sköpum upp á að bremsan virki ef hjarnið tekur illa við.

*Broddarnir mega ALDREI snerta jörðina ef maður rennur af stað. Þetta er mikilvægasta viðbragðið því ef broddarnir rekast í hjarnið á hraðferð rennandi niður kastast menn til og fara í loftköstum niður án þess að geta nokkuð stjórnað sér og beitt exinni og geta slasast illa við það - en ekki síður við það að fóturinn mun höggvast móti mótstöðunni þegar broddarnir fara í hjarnið og ökklar eða aðrir hlutar fótar geta brotnað illa.

*Menn þurfa að æfa vel ísaxarbremsu, hún verður þeim eingöngu töm sem æfir hana oft og reglulega við allar aðstæður.

*Nauðsynlegt er að vera jafnvígur á hægri og vinstri hendi og æfa bremsuna á báðum þannig að hún sé manni töm beggja vegna og æfa fall með höfuð niður í móti á maganum og bakinu, fall frá hlið beggja vegna en ekki eingöngu með falli niður í móti á afturendanum eins og einfaldast er að gera.

*Gott er að fara alltaf yfir ísaxarbremsu í hvert skipti sem farið er á brodda og hún tekin í hönd ef menn gera það sjaldan á hverju ári og fyrir þá sem fara reglulega á brodda með ísexi að æfa sig í huganum á göngunni, taka hana í viðbragðsstöðuna önnur hendi á efra skafti og hin á neðra skafti og ísexin ber við brjóstkassa.

*Þegar ísaxarbremsa er æfð er öruggast að vera ekki á broddunum til að auka ekki slysahættuna og velja öruggt æfingasvæði, þ. e. svæði þar sem menn stöðvast sjálfkrafa neðar og ekkert tekur við annað en snjór, hvorki grjót, möl, gljúfur né annað.

Við prófuðum að fara niður á bakinu og maganum, með fætur og höfuð á undan eftir því hvað menn lögðu í...
https://www.youtube.com/watch?v=LM3xLshmNnk

Að renna niður á bakinu með höfuðið á undan flæktist aðeins fyrir okkur og Guðmundur Víðir benti á að hann hefði lært að stöðva sig fyrst - eða draga úr hraðanum með því að stinga fyrst "neðri oddinum" niður (þeim sem er í höndinni við mjöðmina)
en við vorum ekki viss... hér er þetta ekki sýnt sem slíkt frekar en á efra myndbandinu, heldur eins og á námskeiðum sem við höfum farið á og þjálfarar fóru yfir, þ. e. að stöðva sig með hvassa oddinum á ísexinni sama í hvaða stöðu þú rennur... en við verðum að kanna þetta betur þv það má færa rök fyrir því að nota stífa endann í ákveðnum tilfellum!

https://www.youtube.com/watch?v=94QFImjdEAo

Sem fyrr en auðvelt að horfa á þetta og hlusta... en allt annað að prófa sig áfram og renna og þurfa að stöðva sig... ótrúlega frískandi og lærdómsríkt að taka svona raunæfingu - við verðum að vera duglegri að æfa þetta hvar sem tækifæri gefst á göngu...
bara muna að taka jöklabroddana af því þeir skapa slysahættu fyrir mann sjálfan og aðra :-)

Æfingin endaði á 5,3 km göngu á 2:25 klst. upp í 295 m hæð með alls hækkun upp á 269 m miðað við 97 m upphafshæð.

Glimrandi falleg og flott æfing sem við verðum að hafa árlega og oftar svona aukalega á göngu !

Sjá frábæru Fjallabókina hans Jóns Gauta og fjöldann allan af fróðleik á veraldarvefrnum um göngu á bröddum og ísaxarbremsu
og samantekt á öllum námskeiðum Toppfara hér: http://www.fjallgongur.is/namskeid_toppfara.htm
 

 

Stafalogn
á Valahnúkum og Húsfelli

Þriðjudaginn 23. febrúar mættu 22 manns á hefðbundna fjallgönguæfingu á hina ægifögru og vanmetnu Valahnúka
og vanrækta félagann þeirra Húsfell í algeru logni svo annað eins hefur varla upplifast...

Gengið var hefðbundna leið um Valahnúkana sjálfa...

... með klöngri eftir þeim endilöngum...

... því þeir leyna nefnilega vel á sér og geta stoltir staðið að heilli fjallgöngu alveg einir...

En í stað þess að fara grjótþverhnípið á miðri leið eins og vanalega...

... var farið meðfram því enda mjög tafsamt í hóp að klöngrast þessa brekku þó oft höfum við gert það gegnum tíðina...
en þó skelltu Ágúst, Ester, Guðmundur Jón, Svavar og fleiri? sér niður um hana á meðan hinir tóku hliðarklöngrið...

Mættir voru:
Efri: Gylfi, Kolbrún, Guðmundur Víðir, Alda, Sarah, María Guðrún, Arnar, Guðný Ester, Guðmundur Jón, Hlöðver, Svavar og Ester.
Neðri: Ágúst, Gunnhildur Heiða, Katrín Kj., Ásta Guðrún, Guðlaug, Ósk, Karen Rut og Njóla en Örn tók mynd
og Bára var í vinnunni og Batman var eini ferfætlingurinn á staðnum...

Dásamlegt veður og fínt skyggni... þetta er tötrandi tími sem við erum að fara inn í með komandi mars-mánuði
þar sem vorið slæst við veturinn með snjóinn enn yfir öllu en sólina farna að láta ansi mikið til sín taka
þar til hún tekur smám saman völdin í apríl... og á bara eftir að sigra kuldann í maí...

Rökkrið skreið yfir á leiðinni yfir á Húsfellið...

... og myrkrið tók síðasta hluta göngunnar en uppi á Húsfelli var ekki annað hægt en að setjast niður og njóta matarpásunnar
í þessu brakandi logni sem var þetta kvöld... það skákaði meira að segja fyrstu göngu okkar á Húsfellið þann 18. september 2007 sem hefur alltaf verið í sérflokki í minningabanka þjálfara sökum eins kyrrlátasta og flottasta sólseturs sem við höfum nokkurn tíma fengið...

... en þarna vorum við að upplifa fyrsta haustið í sögu Toppfara og vorum algerlega dolfallin...
eins og svo oft eftir það... og erum enn að taka andann á lofti þegar vel viðrar og skyggni er ágætt...
já, svona verðum við árið 2017... rifjandi upp síðustu tíu árin með þakklæti og auðmýkt yfir því sem er að baki :-)

En vá hvað þetta var falleg birta þetta kvöld árið 2016...

Mynd frá Ágústi Rúnars sem margir fylgjast vel með á snjáldru, ekki síst fyrir einstaklega fallegar myndir
sem teknar eru af ástríðu fyrir landslagi og náttúru, litum... birtu... formum... :-)

Til baka var straujað í myrkrinu og logninu... alls 9,7 km á 3:00 klst. up í 210 m á Valahnúkum og 302 m á Húsfelli með alls hækkun upp á 392 m miðað við 88 m upphafshæð... kraftmikil og löng ganga á kyrrlátu kveldi sem hefði ekki getað verið betur nýtt ! :-) Úff, hvað við sem ekki vorum misstum af fallegri, þéttri og dýrmætri æfingu !
 

 

Sólgleraugnaæfing á Mosfelli
þar sem var notið frekar en þotið
á heldur klúðurslegum en þó lærdómsríkum
fjallatíma nr. tvö af tólf á árinu... :-)

Vopnuð sólgleraugum mættum við sautján manns í fjallatíma tvö af tólf á árinu þriðjudaginn 16. febrúar...
í tilefni af því að sólin er nú enn á lofti þegar klukkan slær 17:30...

... og allir ákváðu að njóta nema þjálfarar og Sarah enda vindur, kalt og hálka
og veðurspáin ekki sérlega góð fyrir kvöldið en það rættist heldur betur úr veðri
framan af æfingunni þó hún hafi endað mun vetrarlegar en hún byrjaði...

En... við enduðum á að ná eingöngu þotutíma upp á tind hjá þjálfurum - 0:23:13 - þar sem hópurinn eðlilega fylgdi stígnum sem leiddi þau um slóðina sem liggur hliðlægt í suðurhlíðum en fer svo bratt upp suðvesturhornið sem er ekki alltaf æskilegt að vetri til... en þar var leiðbeiningaleysi þjálfara um að kenna... og Sarah fór á eftir hópnum sem hafði að hluta til lagt fyrr af stað...

... svo þjálfarar þutu upp algengasta slóðann sem liggur upp á hrygginn
og tekur smá hring ofan á austurlendunum áður en hann beygir upp á hæsta tind...
og er sú leið 1,9 km löng og náðist á 0:23:13
https://www.endomondo.com/users/7274026/workouts/673253720
en hefðu betur sleppt því úr því Sarah fylgdi þeim ekki eftir og farið frekar með hópnum...

En hópurinn fór í tveimur hollum inn með Mosfellinu að sunnan og sleppti þessari bröttu ísbrekku og tók góða slaufu suðvestan megin og þaðan upp á tind... þar sem þjálfara komu á móti þeim... þetta var eitthvað öfugsnúið og fínasta lexía til að slípa þetta enda tökum við árið í að þróa þetta...

Uppi var varla tekið að rökkva... og við nutum þess að ganga ÖLL SAMAN ljóslaus alla leið niður með flotta fjallasýn á þessu skemmtileg fjalli sem loksins bauð upp á eitthvað annað að en lekandi leirdrullu... :-)
Nokkrir reyndar farið fyrr niður sem er einmitt eins og við hugsum þetta, að menn taki rösklega göngu upp og niður :-)

Á síðasta klaflanum gekk loksins á með smá hríð eins og von var á samkvæmt veðurspánni...


Nokkrir farnir heim í lok æfingarinnar, en ákváðum að taka mynd af andstæðunum þetta kvöld!

.. og því urðu andstæður þessarar göngu ansi miklar... sólgleraugu í byrjun göngunnar með sólina enn á lofti...
og snjóhríð í rökkri í lokin... sumarið er klárlega farið að banka á dyrnar þó pent sé... :-)

Guðný Ester átti afmæli þetta kvöld... eins og Katrín átti síðasta þriðjudag... magnað alveg hvað menn velja kvöldgöngu á afmælisdeginum sínum... alvöru fjallgöngumenn þessir Toppfarar :-)
Til hamingju með daginn elsku Guðný Ester Póllandsfari
og haf þökk fyrir frábæra nærveru og félagsskap í gegnum tíðina :-)

Alls 4,7 km á 1:17 klst. upp í 292 m hæð með alls hækkun upp á 260 m miðað við 82 m upphafshæð... einhverjir fóru lengra eða styttra en þetta, en þetta er slóðin hans Roars þar sem þjálfarar fóru lengri leið og gengu á móti hópnum :-)

Lexía kvöldsins: Yfir vetrartímann þegar slóðarnir eru ekki greinilegir, skyggni og færð breytilegt, er betra að annar þjálfarinn fari þjótandi með þeim sem það vilja og hinn fari rösklega gangandi upp og niður... og þeir sem ekki leggja í að þjóta en vilja engu að síður taka röska göngu og reyna vel á þolið, geta þá fylgt seinni þjálfaranum... þar sem flestir ef ekki allir ættu að geta fylgt á eftir... og þeir sem vilja algerlega njóta allan tímann og ekkert vera röskir, ættu að ná að hafa miðhópinn í sjónmáli... við höldum áfram að slípa þetta til á árinu og eigum eflaust eftir að finna alls kyns aðrar útgáfur af þessu :-)

Og... þjálfari hefði átt að muna að fara vel yfir leiðarval kvöldsins...
því Mosfellið hefur nokkrar stikaða stíga og hópurinn tók þann syðsta sem er fallegasta leiðin í raun
og því tímdu þjálfarar ekki að kalla þau til baka þar sem þau voru komin áleiðis
þó ætlunin hafi verið að fara hryggjarmegin upp.

NB það er ekki spurning að allir Toppfarar sem vilja koma sér í eða viðhalda góðu fjallgönguformi...
taki sinn eigin fjallatíma hvenær sem þeim hentar á öllum þessum fjöllum sem eru hér við borgina áður en árið er liðið !
T. d. mjög gott aðhald og skemmtilegt að hafa þetta markmið fyrir Sveinstind, Laugaveginn eða Lónsöræfi :-)
Sendið mér tímana ykkar þegar þeir koma í hús !
 

 

Skyndihjálp á fjöllum
Námskeið á vegum Asgard Beyond

Þriðjudaginn 9. febrúar var skyndihjálparnámseið á fjöllum í stað hefðbundinnar þriðjudagsgöngu
og mættu hvorki meira né minna en 18 manns sem var frábær mæting :-)
... eða þau
Bára, Doddi, Guðný Ester, Guðmundur Víðir, Guðmundur Jón, Gunnhildur Heiða, Heiðrún, Helga Edwald, Hlöðver, Ingi,
Jón Tryggvi, Katrín Kj., Kolbrún, Magnús, Sarah, Sigríður Arna, Svavar og Örn...
og Batman vafraði um svæðið steinhissa á því að aldrei skyldi vera gengið almennilega af stað ! :-)

Aðstæður voru með besta móti... ískalt, logn við skjól af trjánum, snjór yfir öllu, gott pláss í skóginum í Úlfarsfelli
og myrkur þegar leið á svo við fengum nokkrar erfiðar aðstæður...
nema vindinn, úrkomuna og hallann sem vel gæti gerst eins og á Skessuhorni 2009...
en sú saga er í raun mjög lærdómsrík fyrir alla til að lesa og læra af...

Leiðbeinendur voru þeir Jón Heiðar Andrésson og Ragnar Þór Þrastarson
sem eru Toppförum að góðu kunnugir af fyrri námskeiðum og hinum ýmsustu jöklaferðum gegnum tíðina.

Námskeiðinu var skipt upp í fjóra hluta:

Viðbrögð við óhappi:
Kallað á hjálp, hvar, hvað, hvernig?
GPS, KORT, GSM, VHF

Umönnun hins slasaða:
Einangrun, pökkun, sálræn fyrstahjálp

Fyrsta hjálp
(þeir eru ekki formlegir fyrstuhjálpar-leiðbeinendur en farið yfir nauðsynleg atriði)
Skert BHS, blæðing, meðvitunarstig VÁSE, öndun

Verklegar æfingar
Hópnum skipt upp í fjóra hópa og raunveruleg dæmi leyst.

I. VIÐBRÖGÐ VIÐ ÓHAPPI

Fyrst var farið í viðbrögð við slysi og hvernig skyldi kallað á hjálp.
Þar sem ekki er gsm samband kemur VHF talstöðin að góðum notum og þá er rás 16 neyðarrás.
ALLIR sem ganga á fjöll eiga að vera búnir að hlaða niður 112-neyðar-apinu:

http://www.safetravel.is/is/112-iceland-app/

 ...þar sem neyðarkall ber með sér staðsendingu viðkomandi um leið og hringt er
auk þess sem menn geta tilkynnt sig reglulega inn (fimm síðustu sendingar eru vistaðar) með því að ýta á græna takkann
og þá er auðveldara að leita að viðkomandi þar sem menn hafa síðustu meldingar inn frá því hann datt úr sambandi.
Mælt er með því að hringja á rauða takkanum (neyðarkall) þó ekki sé gsm-samband þar sem það skilar sér inn síðar.

-------------

Sjá eftirfarandi upplýsingar frá 112:

Snjallsímaforritið 112 ICELAND er afar einfalt i notkun og hefur tvennskonar virkni. Annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða. Hinsvegar að skilja eftir sig “slóð” en slíkt má nota ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram.

Forritið leysir ekki af hólmi önnur öryggistæki eins og neyðarsenda og talstöðvar. Er fyrst og fremst viðbót sem nýtist þeim sem nota snjallsíma. Ekki er þörf á gagnasambandi til að nota forritið. Hefðbundið GSM samband dugar.

112 ICELAND má nota bæði hérlendis og erlendis.
Samskiptin eru þó alltaf við 112 á Íslandi en sértu erlendis hafa þeir samband við viðbragðsaðila í því landi sem þú ert í.

Sæktu forritið fyrir Android síma, Windows síma og iPhone.

Svona notar þú 112 ICELAND

  • Skráðu upplýsingar – settu inn nafnið þitt og nafn og símanúmer nánasta aðstandenda.
  • Skildu eftir slóð – GPS staðsetning þín fer á 112 og eru eingöngu notaðar í neyð.
  • Neyð – ýttu á þennan hnapp til að kalla eftir aðstoð. Staðsetning þín fer á 112 og það opnast á símtal.

Valitor þróaði forritið í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Stokk en að verkefninu hafa einnig komið Neyðarlínan, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

------------

En aftur að námskeiðinu:
Ef það er ekki gsm-samband og enginn með VHF... er nauðsynlegt að einhverjir tveir t. d. leitist við að finna samband, en það þarf að vera vel skipulagt hvernig þeir leita (uppi á hæð, út úr giljum, gljúfrum), hvaða upplýsingar þeir ætla að gefa upp, hvernig þeir rata til baka og gæta þarf að þeirra öryggi, þar sem regla númer eitt við óhapp/slys er að valda ekki frekari skaða /stærra slysi með röngum viðbrögðum á slysstað.

Þegar kallað er á hjálp er mönnum oft mikið niðri fyrir, of margir fara að hringja, sambandið er lélegt,
símar veða fljótt rafmagnslausir og erfitt er að forgangsraða hvað á að segja.

Ákveða skal einhvern einn sem kallar á hjálp. Spara skal rafmagn allra símanna með því að slökkva á hinum símunum ef fyrirséð að menn gætu þurft að haldast lengi við áður en hjálp berst. Símar tæmast fljótt, sérstaklega ef kalt í veðri. Gott að vera með aukahlaðið batterí fyrir símann fyrir neyðartilfelli og spara ragmagnið með því að stilla símann á lágmarks virkni (flugmót o.fl.).

Halda skal yfirvegun og forgangsraða upplýsingum. Segja hvar viðkomandi er staddur (Botnssúlum), hversu margir (18 manns), hvað gerðist (karlmaður rann niður brekku), hvaðan var lagt af stað (frá Botnsdal  -skiptir miklu upp á leit að vita hvort frá Botnsdal eða t. d. Svartagili, í hvaða hæð (að segja "um það bil 600 m hæð" segir heilmikið og útilokar stórt leitarsvæði) og helst gefa upp staðsetningu af gps (West-breiddargráðan og North-lengdargráðan á Íslandi - passa að gps-tækið sé örugglega á réttum stað en ekki enn á síðasta stað sem það var á þegar slökkt var á því síðast! - það tekur stundum svolítinn tíma að koma inn ef það var slökkt á því þegar slysið gerðist).

Neyðarlínan spyr þeirra spurninga sem þarf en ef tíminn er knappur og erfitt samband þá er mikilvægt að vanda hvað er sagt og þá skiptir mestu að gefa upp staðsetningu eins vel og hægt er (hvaða fjall, hvaðan gengið, hæð), fjölda í hópnum, hvað gerðist og hvernig ástandið er nú. Þá er góð regla að allir séu meðvitaðir um hvar þeir eru staddir, þar sem aldrei er að vita hverjir þurfi að kalla á hjálp og segja staðsetningu. Ef fararstjóri og þeir sem eru með gps-tæki slasast og eru óviðræðuhæfir, þá gæti lent á þeim sem hvorki er með gps né skipulagði ferðina að þurfa að taka aðalhlutverkið og lýsa staðsetningu.

Niðurstaða:
Hlaða 112-appinu ALLIR SEM FARA Á FJÖLL, kunna að gefa upp staðsetningu á gps (west/north gráður), skipuleggja kall (hver og hvað)
vera yfirvegaður og gefa upp sem nákvæmasta lýsingu á stað og stöðu, spara rafmagn á síma eins og hægt er.

 
Einangrunarmotta Jóns Heiðars, neyðarskýli Báru, einangrunarpoki Svavars.

II FYRSTA HJÁLP

Skyndihjálparnámskeið í óbyggðum þar sem lært er hvernig bregðast skal við alls kyns vandamálum eru nánast botnlaus fræði... og Jón Heiðar og Raggi eru ekki lærðir skyndihjálparleiðbeinendur en búnir að læra skyndihjálp í óbyggðum og fóru í gegnum með okkur það helsta sem skiptir máli þegar við lendum í óhappi lengst uppi í fjöllum.

Almennt gildir að
1)
Ef það er blæðing skal stöðva hana eins vel og hægt er með öllu tiltæku.

2) Ef er úr lið skal meta blóðflæði og ekki reyna að kippa í liðinn heldur búa um eins og hægt er,
en ef ekkert blóðflæði er niður í útlim (meta distal status) sem er úr lið skal reyna að kippa í liðinn.

3) Ef það er grunur um brot og hægt er að spelka á einhvern hátt, þá skal gera það með því sem við höfum eins og stöfum, sessu o.fl. og þá er gott að vera með bönd, reimar, heftiplástur eða álíka til að binda saman.

4) Verkjastilla má með almennum verkjalyfjum en forðast skal lyfseðilsskyld lyf nema sannreynt sé að viðkomandi hafi tekið þau.
Þjálfari bætti hér við að ekki sé ráðlagt að nota Voltaren eða Voltaren Rapid vegna algengis ofnæmis fyrir því lyfi, af fenginni reynslu því miður. Íbúfen er mun algengara bólgueyðandi lyf.

5) Almennt gildir að gott er að hafa brotinn útlim eða slasaðan hluta í hálegu til að draga úr bjúgmyndun, bólgu og verkjum.

6)
Ef viðkomandi er með meðvitund er gott að fá upplýsingar hjá honum um líðan til að meta ástandið, en ef viðkomandi er meðvitundarlaus er ljóst að um alvarlega áverka er að ræða og þá þarf að lesa í líðan með "nonverbal" skilaboðum eins og legu líkamans og útlima, svörun við áreiti, útliti á húð o. m. fl.

Meta þarf meðvitund og tilkynna það í kalli á hjálp þar sem ástandið segir mikið um alvarleikann:

 VÁSE
V-vakandi,
Á-bregst við ávarpi,
S-bregst við sársauka,
E-bregst ekki við

En... sem fyrr segir þá er fyrsta hjálp botnlaus fræði sem tekur marga daga að fara almennilega í gegnum
hvað varðar viðbrögð við slysum í óbyggðunum..

 NB það er nauðsynlegt að hver og einn fari á almennt skyndihjálparnámskeið til að læra að hnoða og blása,
og viðbrögð við aðskotahlut í hálsi o.fl. Slík námskeið hafa margsannað sig að hafa bjargað mannslífum þar sem einstaklingar hafa nýtt þekkingu sína af slíku námskeiði.

Raggi sýndi okkur góða spelku sem er sveigjanleg í allar áttir og þjálfarar ætla að bæta henni í skyndihjálparbúnaðinn sinn í bakpokunum sínum, en þeir eru með alls kyns hluti þar eins og fatla, sáraumbúðir, bönd, kælikrem, hitakrem, teygjubindi, plástra, verkjalyf, orkubita, o. m  fl.

III UMÖNNUN HINS SLASAÐA

Helsti óvinur fjallgöngumannsins við slys í óbyggðum á Íslandi er kuldinn... og þar er kuldinn af jörðu ekki síst sá mikilvægasti að eingangra sig frá auk varna gegn veðri og vindum. Dæmin sanna að sé vel eingangrað á hliðum og að ofan þá kólnar sjúklingi samt mjög hratt ef hann er ekki einangraður frá kaldri jörðinni. Það er því í forgangi að einangra hinn slasaða frá jörðu sem fyrst og pakka honum svo inn undan veðri og vindum. Leiðbeinendur voru með alls kyns dýnur til að sýna okkur... og við skoðuðum aðra möguleika eins og bakpokana sjálfa, fatnað, einangrunardýnur sem eru í sumum bakpokum o.fl.  Við ræddum í því samhengi hversu fljótt maður er að taka dýnuna úr bunkanum þegar verið er að skammta farangur ofan í bakpokann, og því mikilvægt að vera með dýnu sem er létt og tekur lítið pláss ef maður á annað borð vill vera með slíkan öryggisbúnað með sér en hann getur algerlega skipt sköpum ef einhver þarf að liggja slasaður í einhverja klukkutíma á jörðinni að bíða eftir hjálp - sjá myndir neðar af mismunandi dýnum.

Ef enginn er með dýnu er hægt að nota sessur sem menn eru oft með, einangrunarspjöld úr bakpokanum sem Bára sýndi úr sínum og voru notuð í slysinu á Skessuhorni 2009. Þá má raða bakpokunum saman og leggja undir sjúklinginn en það er meira en að segja það ef hann er illa slasaður því pokarnir eru ekki þægilegi að liggja á. Þá sanna dæmin að almennur fatnaður er ekki vel einangrandi, það þarf að vera einhvers konar loftfylling eða álíka einangrunarfyrirbæri í því sem sett er undir hinn slasaða.

Við skoðuðum neyðarskýli fyrir einn, tvo og fleiri... breiða skal út skýlið (þetta er eins og þunnt teppi) og smeygja því yfir sig og alveg undir að ökklum og pakka þannig öllum hópnum inn - þar sem menn getu þá hlúð að hinum slasaða og beðið eftir hjálp.

Dýnurnar... sú besta var þessi appelsínugula til hægri... en hún er líka þyngst og fyrirferðamest.
Þessi gula er létt og fyrirferðalítil... keypt í BNA fyrir ansi marga peninga...

Neyðaskýlið skal lagt fyrst niður, þá dýnan og loks sjúklingurinn ofan á (gæta að líðan, hreyfigetu, áverkum)
og pakka honum svo inn...

... og þannig eru allir komnir inn í hús og í þónokkru skjóli fyrir veðri og vindum.
Í umræðum kom mjög margt fram sem of langt mál er að taka saman hér...
við lærðum heilmikið á að prófa og velta vöngum...

IV VERKLEGAR ÆFINGAR - RAUNDÆMI:

Að lokinni kennslu var hópnum skipt upp í fjóra minni hópa sem æfðu allir ákveðið tilfelli...
þessi hópur fékk Botnssúlur í versnandi veðri í 600 m hæð þar sem fararstjóri rennur niður og lærleggsbrotnar
og þyrlan kemur eftir 30 mín... sem er lúxus aðstæður í samanburði við Skessuhornið 2009...

Sarah lét ekki íslenskuna flækjast fyrir sér og fékk góða þýðingu frá Helgu Edwald áður en þær ásamt Svavari fóru í að bjarga  Báru og þá kom pokinn hans Svavars að mjög góðum notum, en hann var keyptur í Sports Direkt... og skorað er á alla að kaupa hér með, kostar ekki mikið en einangrar mjög vel og gæti vel skipt sköpum ef á reynir þar sem neyðarskýli er ekki auðveldur kostur fyrir alla að eiga vegna kostnaðar.

Lexían hjá þeim var sú að Báru varð aldrei kalt, hún lá á bestu dýnunni (þeirri þyngstu sem eflaust fýkur fyrst þegar verið er að forgangsraða ofan í bakpokann), og í neyðarplastpoka frá Marmot sem Svavar koma með, varð ekkert kalt á fótunum - hugsanlega af því hún klæddi sig í plastpoka á fótunum (reynsla af hlaupum o.fl. að plastpokar einangra vel frá kulda við langvarandi útiveru!). Hópurinn gerði hlutina ekki í réttri röð sem var fínt til að skerpa vel á því og hann gleymdi að kalla eftir hjálp en fékk svo góða yfirferð á síma-appi með Jóni Heiðari - sem gekk á milli og kenndi mönnum á það - sjá neðar samantekt á því !

Guðmundur Víðir, Kolbrún og Sigríður Arna hlúðu að Jóni Tryggva sem slasaðist og var vel pakkað inn.

Lexían hjá þeim var sú að nálægð líkama annarra gaf áþreifanlegan hita hjá hinum slasaða o. m. fl.

Örn "slasaðist" á Heklu og var með snúinn ökkla.
og Guðný Ester, Hlöðver og Maggi hlúðu að honum...
Lexían þar var sú að gat koma á dýnuna sem Jón Heiðar átti en hún kostaði ekki mikið
og því varð fljótt lítið gagn af henni en Örn fann mjög fljótt hversu kaldur hann var orðinn á stuttum tíma
og hversu hratt honum varð kalt á fótunum en það gilti almennt um alla nema Báru o. m. fl.

Heiðrún, Ingi, Doddi, Gunnhildur Heiða og Guðmundur Jón hlúðu að Katrínu sem varð frekar seint kalt? og helstu lexíur þeirra voru að það var gott að hafa góða sálræna skyndihjálp liggjandi svona á jörðinni (Gunnhildur Heiða), fótkuldinn kom fljótt o. m. fl.

Jón Heiðar og Raggi flökkuðu á milli og fóru yfir atriðin með okkur, hvað gekk vel og hvaða vangaveltur við vorum með...
Hér að fara í gegnum VHF-talstöðina með Inga og Dodda.

Batman hafði miklar áhyggjur af eigendum sínum sem báðir "lágu slasaðir á jörðinni" lon og don...
 og skildi ekkert í þessu hangsti í stað þess að njóta óbyggðanna með því að ganga eins og vanalega ! :-)

Spelkan hans Ragga kom sér vel í þessari útfærslu þegar sjúklingur liggur með andlitið upp og verið er að pakka honum inn
og andlitið kæfist þá ekki.

Sjá spelkuna hér.

Jón Andrés sýndi okkur Gaia-appið sitt... hann notast fyrst of fremst við gps í símanum sínum nú orðið í stað gps
og er með nokkur forrit til stuðnings eftir því hvað er verið að gera...

https://www.gaiagps.com/gaiapro/

Overview

GaiaPro provides extra features and maps, on iOS, Android, and gaiagps.com. You get access to Mapbox aerial and roadmaps, and you can create and download layered maps.

On the website, GaiaPro members can print maps and make routes.

In the app, GaiaPro members get tides, and extra weather information from Wunderground.

https://itunes.apple.com/us/app/gaia-gps-topo-maps-trails/id329127297?mt=8

Besta en þyngsta og fyrirferðamesta dýnan...

Næst besta og fyrirferðarlítil dýna... en rándýr og keypt í BNA...

Hér er hún í fullri stærð hjá Helgu Edwald.

Eftir verklegu æfingarnar fórum við yfir hvert tilfelli fyrir sig
og ræddum lexíurnar, sem voru svo miklu fleiri en hér er tekið fram...
Endilega sendið mér helstu lexíur hver hópur !

Sjá góðar glærur frá Björgunarskólanum

... þar sem gott er að fara yfir og spá í þetta, tileinka sér það mikilvægasta og helsta...

http://skoli.landsbjorg.is/Open/CurriculumDetail.aspx?Id=1 og

https://www.landsbjorg.is/assets/bjorgunarskolinn/fyrsta%20hj%C3%A1lp%202%20-%20gl%C3%A6rur.pdf

...hlaða niður 112-appinu, kunna að lesa staðsetningu af gps, spara rafmagnið á símanum, fara á skyndihjálparnámskeið, vera með einhvers lags einangrunardýnu í bakpokanum, hindra ofkælingu fljótt og vel, kaupa Marmot-neyðar-plastpokann hans Svavars í SportsDirekt (kostar lítið= allir geta keypt hann!), vera með neyðarskýli í bakpokanum ef mögulegt er, stöðva blæðingu fljótt og vel, búa um brotinn útlim eins og aðstæður leyfa, meta blóðrás ef úr lið og ekki kippa í lið nema hún sé stöðvuð/verulega skert, hlaða niður gaiagps.com appi eða álíka, muna að halda yfirvegun, halda hópinn, halda sér heitum, vera alltaf með nóg að drekka og borða í bakpokanum, vera alltaf með allan búnað með sér, pakka alltaf niður og vera með hlý föt með sér ef ske kynni að maður þarf að halda kyrru fyrir í nokkra klukkutíma, muna að vera góð hvert við annað ef á reynir, hlúa vel að hinum slasaða og veita honum sálræna skyndihjálp, lesa sér til um skyndihjálp í óbyggðum, horfa á þætti/kennslu um slíkt á veraldarvefnum,læra af reynslu annarra og manns sjálfs og ræða þessa hluti í hvert sinn sem slys verða á fjöllum... sbr. slysið um daginn á Skarðsheiðinni 2016 sem á að skerpa enn meira á mikilvægi þess að vera með jöklabrodda í löngum, bröttum snjóbrekkum og láta ekki keðjubroddana fara með mann of langt, of hátt og of bratt... o. m. fl. sem festist í minnið og kallast ósjálfrátt fram ef við skyldum einhvern tíma þurfa að nýta það sem við lærðum á þessu frábæra námskeiði... en reynslan af Skessuhorninu 2009 segir allt sem segja þarf um hversu mikið það reynir á alla þessa hluti þegar óhöpp verða í ísköldum raunveruleikanum...

Takk kærlega fyrir okkur Jón Heiðar og Ragnar hjá www.asgardbeyond.is
... og takk allir fyrir frábært kvöld, þetta var virkilega skemmtilegt og lærdómsríkt að fara í gegnum saman !
 

 

Loksins venjuleg fjallganga
og það alger töffaraganga
á Lokufjall, Hnefa og Melahnúk
í sólsetri, frosti og snjó


Jói, Svavar, Ólafur og Ágúst.

Innan um alls kyns vesen í þjálfurum eins og fjallatíma-njóta-þjóta-göngur (24/2)...
jaðaríþrótta-íshellaferð (20/2)... brodda- og ísaxaræfingu (16/2)
og skyndihjálparnámskeið á fjöllum (9/2)...
fengu Toppfarra loksins að ganga einfaldlega á fjall þriðjudaginn 2. febrúar..

a !
Systurnar Karen Rut og Guðlaug Ósk

... og það ekkert slor með 8,9 km göngu á þrjá tinda...
og nýliðana ekkert að hika en þeir hafa verið duglegir að láta sig hafa það í myrkri, kulda og snjó
en þessi vetur hefur verið með mildara móti... allavega í samanburði við þann í fyrra...

Sólsetrið fallegt úti á hafi... með dagsbirtu til að byrja með í upphafi göngu...
sem tafðist samt óþarflega af því ritarinn hafði ekki passað að uppfæra upplýsingar
um brottfararstað og tíma á vefsíðunni...
og einhverji mættu bara í sumarskapi á N1 kl. 17:30 eins og í gamla daga :-)
...en allt fór það vel og menn lögðu loksins af stað kl. 17:50...
sumir kannski loppnir af kulda eftir biðina...
en aðrir sjóðandi heitir út í þjálfara fyrir klaufaskapinn á vefsíðunni :-) 

Ægifagurt við sjávarsíðuna... og mjög falleg gönguleið sem við höfum oftast farið að vetri til...
þyrftum að þræða okkur eftir öllu Lokufjalli að sumri til einn daginn í spriklandi lækjarnið og fuglasöng...

Farið var um Lokufjall upp á Hnefa þar sem borðað var nesti...
og áfram upp í vindinn á Melahnúk sem er ansi löng kvöldganga og það í myrkri, kulda og hálku
en menn eru alltaf til í allt í þessum klúbbi...
og einmitt engin leið að komast í gott form nema taka krefjandi göngur þegar þær gefast...


Anna Elín, Ágúst, Björn Matt., Doddi, Dóra, Gerður Jens., Guðlaug Ósk, Guðmundur Jón, Gunnar, Gylfi, Jóhann Rúnar, Jóhann Ísfeld, Karen Rut, Katrín Kj., Magnús, Njóla, Nonni, Ólafur Vignir, Sigríður Arna, Steingrímur, Svavar og Örn tó mynd með Batman, Bónó, Drífa, Mola að vesenast þarna fyrir framan hópinn, en Bára var að vinna þetta kvöld :-)

Hópmyndin var tekin upp á Melahnúk í 602 m hæð og þar rifjuðun menn upp brjálaða veðrið frá því í fyrra þar sem menn fuku upp og niður í snarvitlausu veðri... það bara gafst ekkert öðruvísi veður nánast allt árið 2015...
nú er maður strax farinn að ýkja með bessaleyfi nostalgíunnar... :-)

Framúrskarandi frammistaða á svona kveldi...
Alls 8,9 km á 3:19 klst. upp í 548 m hæð með alls hækkun upp á 602 m miðað við 48 m upphafshæð.

Núpshlíðarháls og Selsvallafjall á laugardaginn í fínu veðri og frábærri mætingu...
það verður nú ekki mikið mál að ganga upp í 345 m hæð með svipaða hækkun og helmingi lengri leið en þetta kvöld...
við hljótum að vera hámark átta tíma að því miðað við þennan kvöldgönguhraða :-)
 

 

Fyrsti fjallatíminn á Úlfarsfelli !
Að njóta... eða að þjóta...

Frábær mæting
hörkuveður
krefjandi færð
og dúndurframmistaða !

Þriðjudaginn 26. janúar var fyrsti fjallatíminn af tólf á árinu...
þar sem Toppfarar byrja nú að mæla tímann sinn upp og niður algengustu fjöllin á suðvesturhorni landsins...
allan ársins hring við alls kyns aðstæður birtu, veðurs og færðar...
og næla sér þannig í spennandi áskorun, hollt aðhald og skínandi góða leið
til þess að halda sér í formi og taka reglulega púlsinn á sér í gegnum árin...

... eða mæta bara á æfingu og njóta þess að ganga upp fjallið með félögum sínum eins og margir gerðu þetta kvöld..
enda gat þjálfari engan veginn gert upp á milli hvort var meira stuð í þjóta-hópnum eða njóta-hópnum :-)

Það var löngu kominn tími til að gera þetta almennilega, skipulega... á markvissan og metnaðarfullan máta...
en við lítum svo á að árið 2016 sé tilraunaár í þetta verkefni
og að við munum framvegis gera þetta 1 - 2 í mánuði
innan um okkar hefðbundnu dásamlegu fjallgönguæfingar alla þriðjudaga allt árið um kring...


Mynd af njóta-hópnum þar sem einhverir þjótarar slæddust með, en nokkrir margir voru farnir heim þegar myndin var tekin.
Alda, Anna Elín, Ástríður, Bára, Erna, Doddi,  (Dóra Helgafelli Hf),  Ester, Gerður Jens., Guðlaug Ósk, Guðmundur Jón, Gylfi, Heiðrún, Ingi, Jóhann Ísfeld, Karen, Katrín Kj., Kjartan gestur, Magnús, (Nonni á Helgafelli Hf),  Olgeir, Ólafur Vignir, Ósk Sig., Roar, Sarah, Steingrímur, Steinunn Sn., Svavar og Örn en Batman, Bónó,  Móli  hlupu með og Drífa í Hafnarfirðinum.

Það  mættu hvorki meira né minna en 27 (29) manns... sem var framar öllum vonum...
og segir meira um þennan hóp en þjálfarar áttu von á... það voru ótrúlega margir til í að þjóta...
og þeir sem vildu njóta létu það svo sannarlega ekkert trufla sig og komu skríkjandi niður af fjalli af gleði... :-)

Veðrið var hins vegar með erfiðara móti... stöðug snjókoma fyrri hluta göngunnar og vindurinn í fangið... og færið með þyngra móti, þungt snjófæri og svellaður snjóskafl í efri hlíðum Vesturhnúks, svo það endaði með því að flestir fóru upp dalinn og á Stóra og Litla hnúk og slepptu Vesturhnúk sem eingöngu þjóta-hópurinn komst á... (Örninn óhlýðnaðist þjálfara og mætti í negldum hlaupaskóm sem komust engan veginn yfir svellkaflann sem alltaf hangir í stígnum vestan undir Vesturhnúk)... en það gerði þetta einhvern veginn bara að skemmtilegri áskorun...

Nú eigum við tíma á Úlfarsfelli í ljósaskiptum og myrkri, snjófæri, hálku, snjókomu og vindi !
... og gaman að mæla hann aftur við betri aðstæður...
þó ekki væri nema bara í birtu... og úrkomulausu... og lygnu... hvað þá að sumri til...
menn voru þegar farnir að plana að skella sér upp á eigin vegum þegar góður dagur gæfist...

Við skorum á ALLA Toppfara að taka tímann sinn á Úlfarsfelli í góðu tómi meðan veturinn varir.
og senda okkur hann til að færa til bókar !
... til að eiga vetrartíma til að bera saman við sumartímann síðar á árinu !


Mynd: Frá Dóru á fésbók Toppfara - takk fyrir lánið !

Dóra, Nonni og Drífa komust ekki á Úlfarsfellið en tóku Helgafellið í Hafnarfirði í staðinn þetta kvöld...
já svona eiga menn að vera !... og sendu tímann sinn á fjallinu sem þar með eru fyrstu formlegu tímarnir í "FjallatímaToppfarasögu" Helgafellsins í Hafnarfirði...

Fjallatímarnir:

Sjá skránna hér !

Doddi var með besta tímann á 0:54:43 alla leið, Jóhann Ísfeld hefði eflaust náð þessu ef hann hefði ekki farið of langt suður eftir af Litla hnúk en hann var á 0:57 mín með lengri leið en við hin. Ólafur Vignir var á 57:22 og fyrstu konurnar á 1:00 (Bára og Sarah). Með þessu voru hlé á Vesturhnúk og Stóra hnúk til að þétta hópinn, þar sem fyrstu menn rötuðu ekki í lélegu skyggni og engum slóða með nýfallinn snjó... svo við hefðum verið fljótari ef aðstæður hefðu verið betri og menn eiga eflaust eftir að mæla þetta við góðar aðstæður og án allra hléa !

Njóta-hópurinn fór 4,9 km á 1:33 upp í 316 m hæð með alls hækkun upp á 320 m miðað við 96 m upphafshæð-
en NB þau sneru við undir Vesturhnúk og fóru upp dalinn og slepptu því Vesturhnúk en engu á Stóra hnúk og Litla hnúk.
Margir þar eiga eftir að taka tímann sinn við betri aðstæður svo endielga sendið mér hann !

HelgafellsHafnarfjarðar-fjölskyldan fór upp á topp á 0:52:06 og alla leiðina 1:26:36 alls 4,64 km líklega við svipað erfiðar aðstæður veðurs og færðar og Úlfarsfellshópurinn.

Hverjir eiga tíma á Helgafelli í Hafnarfirði?... endilega sendið mér hann til að safna á listann !

Munið að bestu tímar nást léttklæddur að sumri til í góðu veðri og færð...
en það er jafnvel skemmtilegra að eiga vetrartíma við erfiðar aðstæður sem miklu færri eiga
og geta borið saman muninn milli árstíða :-)

TóltTindaToppTuttuguTímar !

Við skorum á alla Toppfara að vera með... takið tímann ykkar á fjöllunum á suðvesturhorninu og sendið okkur hann... skráum þetta niður og náum topp-tuttugu tímum á öllum fjöllunum áður en árið er liðið... og bætum fleiri fjöllum við á næsta ári og höldum áfram að taka tímann reglulega á öllum þessum fjöllum næstu árin... bara gaman ! :-)

NB! Þeir sem eiga tíma nú þegar - sendið mér hann !
... með nánari upplýsingum um dag, tíma, veður, færð og skóbúnað...
svo hægt sé að skrá þetta í Fjallatímabókhaldið !
 

 

"There is no mountain like
Mount Ásfjall"

Þátttökumet í langan tíma var slegið þriðjudaginn 19. janúar
þegar 30 manns mættu í okkar árlegu þorragöngu um Vatnshlíð og Ásfjall
og nutu í fjórða sinnið ótrúlegrar gestrisni Hafnfirðinga á tindi fjallsins þeirra...

Kærkomnir félagar... kjarninn sem gefur aldrei eftir... sjaldséðir hrafnar...
og meira að segja sjúkradeildin mætti upp á Ásfjallið sjálft...
þar sem Súsanna og Katrín biðu komu okkar en þær eru báðar ásamt fleirum að jafna sig á liðþófaaðgerð
og eru hvergi hættar á fjöllum...
Frábær byrjun á nýju ári sem lofar greinilega elju og ævintýramennsku sem aldrei fyrr :-)

 

Byrjað á Vatnshlíðinni með hálfgerðum helgispjöllum með því að ganga að hluta malbikaða veginn sem búið er að leggja í suðurhlíðum Ásfjalls fyrir nýjasta Vallahverfið, en færið var slíkt að við ypptum bara öxlum og þóttumst ekkert taka eftir þessu... en þar uppi á hélt Ágúst smá tölu um jaðaríþrótt Toppfara númer tvö á árinu...
 íshellaferðina sína mögnuðu sem verður 19. - 21. febrúar  með alls kyns útúrdúrum
þar sem hugsanlega verður farið í annnan helli með klukkustundarlangri göngu á heimferðardegi...
Frábær hópur að fara og þjálfarar hlakka mikið til að mæta bara
og láta segja sér hvert og hvað og hvernig og hve lengi og hve hratt og bara allt :-)

Uppi á Ásfjalli beið Súsanna með hlýjan arminn, kertaljós og veitingar og nú opnuðust flóðgáttir af veitingum...

...heitt kakó frá Súsönnu, flatkökur með hangikjöti frá Helgu, kleinur frá Dodda og Njólu...

Birkisnafs frá Arnari...

... páskaegg frá Öldu...

... og að sjálfsögðu hákarl frá Nonna og Dóru...

Hjartansþakkir fyrir einstaka gestrisni enn einu sinni á þessu flotta fjalli ykkar elsku Hafnfirðingar.
Með ykkur kemur dásamlegur andi og stemning sem okkur hinum...
Kópavogsbúum, Garðbæingum, Grafarvogsbúum... o. s. frv...
tekst engan veginn að kalla fram eins og þið hafið gert í gegnum árin...
svo takk fyrir að vera til og leyfa okkur að njóta hafnfirskrar lífsgleðinnar sem er klárlega "á heimsmælikvarða" :-)

Það var svolítið miður að yfirvofandi handboltaleikur Íslands gegn Króatíu á Evrópumeistaramóti í Póllandi rauf friðinn að hluta til í í lokin á þessu frábæra kveldi þar sem stefnt var að því að ná seinni hálfleiknum... sem var ákveðin sóun á verðmætum þar sem þetta gerist eingöngu einu sinni á ári... að slegið er upp viðlíka veislu og þessari... til þess eins að komast að því þegar lent var "í byggð" að staðan væri 13-4 fyrir Króatíu og Ísland stórtapaði leiknum og missti þar með af þátttökurétti á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar... við hefðum þá frekar viljað vera lengur uppi á Ásfjalli.. og lofuðum okkur því að láta ekki handboltaleik taka aftur af okkur hafnfirskan heilagleika þessarar göngu... enda var Hvaleyrarvatnið sem útúrdúr upphaflega áætlunin og við verðum nú að standa við það á næsta ári :-)

Alls 6,2 km á 2:21 klst. upp í 135 m hæð með alls hækkun upp á 167 m miðað við 24 m upphafshæð.

Njóta eða þjóta æfing í næstu viku á Úlfarsfelli...
og þangað ætlar bæði þjóta-liðið sem og njóta-liðið að fjölmenna
og sjúkradeildin ætlar sko ekki að missa af þessu heldur !
 

 


Klifurhúsið
Jaðarsportæfing nr. 1 af 12 árið 2016

"Ef þú hefur amk 3 útlimi sem virka þá getur þú stundað klifur.
Það eru bæði þykkt, létt, þétt, bólgið, bjagað og hresst fólk sem stundar klifur.
Það eru meira að segja til góðir klifrarar sem vantar á ýmsa útlimi...
"
http://klifurhusid.is/fraedsla/upplysingar-fyrir-byrjendur/

 

Fyrsta hliðarspor Toppfara árið 2016 var stigið í Klifurhúsinu þriðjudaginn 12. janúar...

... þegar tuttugu Toppfarar prófuðu að klifra utan í alls kyns veggjum...

... sem voru miserfiðar... og stundum erfiðari og stundum léttari en maður hefði haldið...

Hópnum var skipt í tvennt þar sem grjótglíma var háð í öðrum hópnum
en þar var bara hægt að láta sig detta ofan á dýnurnar ef maður komst ekki lengra
og nennti ekki að fikra sig niður...

...og hinn hópurinn fór í alvöru klifur í línuveggnum þar sem farið var upp sjö metra í klifurbelti...

... og sko ekki hætt fyrr en höndin náði upp á þverbitana á veggnum takk fyrir...
Helga Edwald gaf ekkert eftir frekar en aðrar konur Toppfara :-)

Á erfiðasta veggnum... þessum sem var sjö metrar og hallað fram á við...
 var höfrungurinn lágmarkstakmark kvenþjóðarinnar...

...en strákarnir leyfðu sér ekki annað en fara alla leið án þess að blikna...

Jú, Ester og Sarah héldu líklega uppi heiðri Toppfarakvenna og fóru lengra en við hinar...
fóru fleiri ofan við höfrunginn? - sendið mér þá línu !

Áttuhnúturinn var rifjaður upp og fleiri hnútar eins og pelastikk...
bíddu hvernig gerir maður þetta aftur... ? :-)

Í seinni hópnum á línuveggnum voru þeir Hilmir að verða 11 ára sonur þjálfara
og Arnbjörn Ingi 9 ára dóttursonur Heiðrúnar og Inga
en þeir hafa báðir mætt nokkrum sinnum í göngur með Toppförum allt frá því þeir nánast fóru að ganga...
og fóru þeir báðir hálfa leið upp beina línuvegginn og Arnbjörn Ingi tók líka hallandi vegginn áleiðis upp...
Flottir strákar sem áttu greinilega jafn mikið erindi í Klifurhúsið og við hin !

Bára, Hilmir, Doddi, Sarah, Erna, Ósk, Guðmundur Víðir, Ingi, Gunnar, Steingrímur, Kári.
Sigga Sig., Ester, Jóhanna Fríða, Kolbrún, Helga Edwald, Aðalheiður, Arnbjörn Ingi.
Á mynd vantar Svavar og Örn sm tók mynd á símann.

KLifurhúsið kom ánægjulega á óvart... þetta var miklu skemmtilegra...
og léttara... og erfiðara en maður haðfi ímyndað sér !
.. og hey, þau eru líka með útiæfingar í alvöru klettum með tryggingum í berginu...
það er nú þegar komið á vinnslu-dagskrárlistann fyrir komandi ár...

Fyrsta jaðaríþrótt lokið af tólf á árinu... næst er það íshellirinn með Ágústi, svo gönguskíði, fjallaskíði, sjósund, fjallahlaup, brautarhlaup, hjólreiðar, sund, skák, golf og badminton... og sko þá eigum við samt eftir köfun, kajak, hellaferð, ólympískar lyftingar, skauta, ísklifur, veiði, snjósleða, motorcross, jeppasafarí, svigskíði, jóga, handavinnu, ljósmyndun, uppistand, skotvopn og svo óskaplega margt fleira... sendið þjálfara góðar hugmyndir !
...við hættum nefnilega ekki fyrr en við getum ekki tekið fleiri hliðarspor ! :-)
 

 

Fjölmenni á nýársæfingu
um Reynivallaháls

Þeim var vel fagnað sjaldséðu hröfnunum sem mættu í fyrstu æfingu ársins 2016
þriðjudaginn 5. janúar...

 

... þar sem gengið var upp Reynivallaháls að vestan alla leið á Háahrygg
undir stjörnubjörtum himni, frosti og snjófæri...

Hópmyndin var í anda myrkursins sem nú lykur um allt...
hvorki meira né minna en 27 manns mættir...
Aðalheiður, Anna Elín, Bára, Dóra, Gerður Jens., Guðmundur V., Guðmundur J., Gunnar, Heiðrún, Helga Edwald, Ingi, Irma, Játi, Jóhann gestur, Jóhannaa Fríða, María E., Nonni, Ólafur Vignir, Rarah, Steinunn Sn., Svala, Svavar, Vallý, Örn A. og Örn
og Batman fékk loksins að hitta aðra Toppfarahunda...
Drífu sem var að koma eftir langt hlé og hélt sig mikið til hlés, Bónó og Mola
sem virtust leyfa honum að "eig-idda" áfram þó hann sé nýjasti ferfætlingurinn og með enginn völd :-)
 

Gengið var aflíðandi upp gegnum sumarhúsahverfið og svo upp tvo klettahjalla
þar sem sá efri var fær í smá snjóhafti í frostnum snjóhengjum...

Uppi blés kaldur vindurinn en við fengum okkur samt nesti í skjóli við smá grjótköst...

Stemningin frábær og umræðurnar líflegar
enda ansi margt um að tala við "langt síðan síðast" félagana...

... en menn höfðu greinilega engu gleymt og hikuðu hvergi við frosnar snjóbrekkur
brattar snjóhengjur, bítandi frostið og alltumlykjandi myrkrið...
enda eru þessar myrkurgöngur algerar perlur og skreyta kaldasta tíma ársins
með miklum stjörnufans...
og fá okkur til að meta birtuna og sumarið betur en nokkuð annað...

Alls 6 km á 2:40 klst. upp í 380 m hæð með alls hækkun upp á 338 m miðað við 64 m upphafshæð.

Sjaldfarin og glæsileg fjöll framundan næstsu helgi og veðurspáin er glimrandi falleg
... jú, og þátttakan rífandi flott...  það er kraftur í mönnum í upphafi árs :-)
 

 

Flott nýársganga á Esjunni
með Birni Matt og Gylfa


Gunnar og dóttir?, Steinunn Sn., Jóhann Ísfeld, María E., Sigga Sig., Björn Matt, Anton, Stefán Alfreðs, Anna Sigga og gestur hennar frá BNA
en Gylfi tók mynd sem fengin er að láni af fésbókinni - takk Gylfi :-)

Frá Gylfa á fésbókinni þar sem sjá má fleiri myndir:

Mættum 12 og 3 ferfætlingar á Esjuna í vetrarveðri og snjóhríðum.
Margt um manninn á fjallinu og alveg brjálað í hríðum efst hjá Steininum
og létum duga að fara um að ánni við stöð 4 á fjallinu.
Kveiktum blys og höfðum gaman að samveru með góðum göngumvinum til fjölda ára.

https://www.facebook.com/gylfigylfason/media_set?set=a.10153373023450488.1073741894.609315487&type=3
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir