Tindur nr. 7 - Kerhólakambur laugardaginn 1. desember 2007

Tindur nr. 7, Kerhólakambur var genginn laugardaginn 1. desember 2007 af tólf toppförum og tveimur fjallaleiðsögumönnum, þeim Guðjóni og Jóni Gauta.

Veðrið hafði verið úfið síðustu tvo dagana á undan göngunni og gekk ekki niður fyrr en seint aðfararnótt þessa laugardags.

Fremur lygnt var í bænum á Ártúnshöfðanum um níu leytið þar sem við söfnuðumst saman í bíla, en þegar komið var að rótum Kerhólakambs gekk á með hífandi roki í hryðjum.

Svo fór því að Hrönn, toppfari með meiru sem sigrað hefur alla tindana til þessa, lét þarna við sitja og ákvað að ganga Kerhólakambinn síðar í lygnara veðri.

Hópurinn átti ekki erfitt með að skilja þessa ákvörðun í verstu hviðunum þarna sem hann græjaði sig við bílana í erfiðleikum við að halda velli í kaldri morgunskímunni með vettlingana og annað lauslegt fjúkandi af stað...

Þennan morgun var hálfskýjað til að byrja með og ca N5 (Rvík) til N16 (Skálafell). Hitinn var um frostmark í upphafi, en kólnaði strax á fyrstu mínútunum í -1°C skv HOBO-hitamæli Roars og enn meira eftir því sem ofar dró upp kambinn.

Lagt var af stað gangandi kl. 9:39 eða nákvæmlega 1:06 klst fyrir sólarupprás (kl. 10:45) svo gengið var í ljósakiptum til að byrja með eins og flasslaus myndin sýnir.

Allir höfðu fengið brodda og ísexi meðferðis hjá fjallaleiðsögumönnunum og var ætlunin að komast í einhverja fönn til þess að æfa slíkan búnað.

Að öllum líkindum var útséð með að arka í mótvindi alla leið á Hábungu þar sem veðrið lofaði ekki nægilegu logni fyrir langan túr og var búnaðaræfing því ágætis verkefni í staðinn.

.

Hálft tunglið vaktaði hópinn úr austri á meðan sólin gerði sig klára fyrir daginn og var hækkunin mikil strax í upphafi og útsýnið yfir haf og land eftir því.

Sjá má á sjónum hve úfinn hann er, en ekki lygndi fyrr en komið var upp á Kerhólakambinn, þó þar gengi áfram á með hryðjum og svo dæmigerðum strekkingsvindi síðar uppi á Þverfellshorni.

Fljótlega var komið að brattasta hluta leiðarinnar, við fjallsrætur Kerhólakambs og svipuðust Jón Gauti og Guðjón með aðstoð fremstu manna um í klettabeltinu eftir hentugasta uppgöngustaðnum.

Heldur var þetta nú bratt og tók svolítið á flesta í hópnum, en afskaplega holl og góð æfing í klöngri og lofthræðslukennd með smá hálkuívafi...

Örn, Grétar Jón og Stefán fóru svo fyrstir alla leið upp á meðan leiðsögumenn aðstoðuðu hina og voru flestir afskaplega fegnir þegar þessi kafli var að baki...

...sumir ætluðu sko ekki þarna niður í bakaleiðinni... það var nokkuð ljóst!

 

Við tók hressilegur mótvindur upp í mót langan aflíðandi kafla upp kambinn en hópurinn hefur aldeilis sjóast í mótvindi og átti ekki í nokkrum vandræðum með þennan mótbyr...

Halldóra Þ., Davíð, Soffía og Kristín Gunda berjast hér mót vindinum og enn má sjá gárurnar á Faxaflóa og svo fjallasýnina á Reykjanesskaga í morgunbirtunni.

 

Gljúfurdalur upp að Þverfellshorni séð í austur frá hlíðum Kerhólakambs.

Niðurleiðin síðar um daginn eftir Langahrygg en Búahamrar kallast klettahamrarnir af hryggnum eins og Jón Gauti fræddi okkur um ásamt mörgu öðru á leiðinni.

Merkileg t. d. frásögn hans af Músarrindlinum, næstminnsta fuglinum á landinu sem hefur hér vetursetu og heyrist syngja undan klaka í jörðu yfir barði eða rennandi vatni t. d., þegar halda mætti að enginn væri lífs í vetrarhörkunni...

 

Örn, Soffía, Halldóra Þ. og Stefán að hinkra eftir hinum í hópnum áður en lengra var haldið.

Barningurinn við vindinn kemst upp í vana en menn eiga misauðvelt með þennan slag engu að síður, rétt eins og hver önnur verkefni í fjallamennskunni, bratta, hálku, klöngur og svo framvegis.

 

Gengið með klettastrýtunni að Kambshorni.

Færið var gott og hvorki hálka né bleyta.

 

Útsýnið til suðurs af morgunverðarborðinu þennan daginn.

Fjallasýnin var óborganleg og engan veginn hægt að mynda hana almennilega frekar en fyrri daginn.

Hér má sjá Hengilssvæðið, líklegast Skálafell á Hellisheiði, þaðan sem rauk upp úr virkjuninni hægra/sunnan megin, Stóra Meitil, Vífilsfell og Bláfjöllin lengst til hægri.

Nær eru svo lágu fellin kringum mannabyggðina sem við höfum smám saman gengið á síðustu mánuði nema Mosfellið.

Þeir síðustu að tínast inn í kaffi á Kerhólakambi...

Komið að Kambshorni eftir anzi langa göngu upp á við eftir Kerhólakambstungunni.

Hér voru komnir snjóskaflar og greinilega ennþá vindur yfir Faxaflóa.

Í pásunni þarna afréðum við að láta Hábungu eiga sig í bili í ljósi þess hve vegalengdin yrði annars löng í lýjandi vindinum og nota tímann frekar í búnaðaræfingu.

Göngutúr á Kerhólakamb með viðkomu á Þverfellshorni var nægilegur dagsskammtur svona í svartasta skammdeginu og vetrarveðri...

 

Grétar Jón og Örn að hafa það eins notalegt og hægt er með síðasta kaflann upp Kambshornið í bakið en framundan þó.

Þennan kafla var gengið í snjófskafli og sporin mörkuð í fönnina svo vel minnti á Skarðsheiðina fyrir þá sem þar voru mánuði síðar...

 

Stefán og fleiri að ganga aflíðandi kaflann að vörðunni á Kerhólakambi.

Þessi kafli var þægilegur og fór hálfpartinn framhjá manni, hugsanlega þar sem við vorum komin í hörku göngugír eftir fremur óþægilega mikla hækkun svona strax í byrjun dagsins, varla orðinn heitur og vaknaður... hvað þá kominn dagur...

 

Þægilegt var að ganga í frosnum mosanum og engin hálka að ráði svo þetta var eitt stanslaust áhlaup í anda hópsins og allt í einu vorum við komin á toppinn...

 

Varðan á Kerhólakambi í 851 - 852 m hæð.

Að baki voru 2,8 km upp 788 m á 2:14 klst.

Þarna var furðulega lygnt miðað við mótvindinn alla leið upp, en þó gekk á með hryðjum og okkar beið áfram vindurinn á Þverfellshorni, en þó í engu samræmi við vindinn á jörðu niðri... það hafði greinilega lygnt eftir því sem leið á morguninn eins og spáð hafði verið.

Kuldinn beit í heitar og sveittar kinnar þarna á toppnum og skv. mæli Roars var frostið -8.39°C sem var í þetta skiptið í samræmi við þumalputtaregluna um lækkun um eina gráðu fyrir hverja 100 m hækkun, þó það hafi ekki alltaf átt við í okkar ferðum.

 

Toppfarar á toppi Kerhólakambs með fjallaleiðsögumönnunum sínum:

Efri frá vinstri: Íris Ósk, Grétar Jón, Gísli, Stefán, Jón Gauti, Roar, Örn og Soffía.

Neðri frá vinstri: Kristín Gunda, Halldóra Þ., Helga, Jón Ingi og Guðjón og svo Bára bak við myndavélina...

 

 

Hamrarnir voru snarbrattir til norðurs og vesturs af Kerhólakambi og var hávaðarok þegar nær dró brúninni, en logn innar á kambinum.

Nóg var að skoða í allar áttir, einkum til suðurs og vesturs, ofan í Blikdal o fl. en þó þokuslæða til austurs.

Sjá má hér glitta í hamrabeltið norðaustur af kambinum (efst til hægri), líklegast niður í Eilífðardal og væri gaman að ganga um þetta svæði í rólegheitunum og þræða norðurbrúnina með útsýni yfir þessa dali; Blikdal, Eilífsdal, Flekkudal og svo Eyjadalur við Móskarðahnúka, en af nógu er að taka í þessum fjallgarði og spennandi að kortleggja það smám saman.

Esjan er flott fjall hvað sem menn segja og bíður okkar 2008 með ýmsum nýjum uppgönguleiðum.

 

Gengið af stað niður af Kerhólakambi í átt að Þverfellshorni.

Það var góð tilbreyting að fara niður á við og vindurinn orðinn lítið eitt hliðlægur og lygnari.

 

Gengið í átt að vörðunni á Þverfellshorni - sjá bunguna milli tveggja fremstu manna á mynd.

Útsýnið sem fyrr stórkostlegt til suðurs og morgunsólin aðeins farin að kíkja upp fyrir skýin til fjallgöngumannanna.

 

Grétar Jón lagar búnaðinn fyrir Örn... Gísli, Soffía og fleiri skrifa í gestabókina...  Halldóra Þ. sýslar við bakpokann sinn... á meðan hinir standa með bakið í vindinn.

Einhvern veginn er þetta ekki staður sem maður staldrar oft lengi á...Hvenær er eiginlega logn uppi á Þverfellshorni?

Frostið var þarna milli -7,7 til 8,06°C og lækkaði ekki niður fyrir -7 gráður fyrr en í Gljúfurdalnum.

 

Gengið niður gilið í snjósköflunum að ósk nokkurra í hópnum sem vildu helzt ekki fara niður klettana sunnan megin.

Að mati Guðjóns var þetta líklega skárri kostur hvort sem var og greiddu leiðsögumenn leiðina um fönnina fyrir mannskapinn sem átti mis auðvelt með að koma sér niður bratta hlíðina.

Fyrst fannst manni traustara að hafa snjóinn til að dempa jarðveginn sem var svo laus í sér síðasta sumar í þurrkunum, en þegar hann var orðinn harður og hlíðin einhvern veginn svo agalega löng fyrir neðan fór um söguritara og nokkra fleiri á þessum kafla á meðan öðrum fannst þetta bara gaman.

 

Guðjón traustur sem klettur fyrir okkur sem skulfu á niðurleiðinni... ekki hægt að hafa betri mann með sér við svona kringumstæður...

Þegar verst lét hjá þeim sem voru óöruggastir (kvenþjálfaranum þar meðtöldum) hjó hann exina í hjarnið fyrir mann til að stíga á... hvílík þjónusta...

 

Komin nokkuð áleiðis niður gilið með Langahrygg Búahamra framundan og vesturborgina í bakgrunni.

Steinninn enn í hvarfi lítið eitt syðra / til vinstri.

Örn, Helga, Gísli og Jón Ingi hér í röðinni.

 

Smám saman hurfu snjóskaflarnir og ofan við steininn vorum við komin mestmegnis í möl og mosa þar sem snjóinn hafði sorfið burt af í vindinum, nema í skjólsælum giljum og lautum.

 

 

Komin að steininum í 778 m hæð (770 m opinbert) eftir 4,4 km göngu á 2:34 klst.

Kunnuglegur staður fyrir þau okkar sem farið hafa reglulega, núna síðast fyrir 4 dögum síðan í mun meiri snjó og algeru myrkri á þriðjudagsæfingu.

Svona staðir eiga sér mörg andlit í allra handa veðri og færð allan ársins hring og alltaf jafn gaman að sækja þá heim sem skarta svona útsýni.

Hér nestuðum við okkur vel eftir góða kafla upp og niður og framundan var Langihryggurinn heim á leið og kennsla í notkun búnaðar einhvers staðar á leiðinni.

 

 

Ekki amalegt útsýni í hádegismatnum svona yfir höfuðborg Íslendinga í gulbleikum vetrarblámanum.

Þar sem frostið var -7°C þarna var ekki hægt að sitja lengi til borðs svo við komum okkur fljótlega af stað aftur, enda orðin þaulvön að skófla í okkur hálf frosnu nesti með köldum fingrum, lekandi sultarnefi yfir allt saman á einhverjum naumhyggjulegum fjallapásumínútum...

 

 

Gengið niður Gljúfurdal utan í norðurhlíð Langahryggjar og lág hádegissólin sem varla stóð undir sér enn í einhverjum hálfkæringi bak við skýin á sjóndeildarhringnum.

Litir vetrarins... blár, hvítur, svartur, bleikur og svo gulur þegar sólin er upp á sitt besta stutta stund dagsins...

Jón Ingi og Guðjón með Þverfellshornið í bakið.

Þarna í snjóskaflinum lengst til hægri ofan af hyrnunni fórum við niður og svo eftir snjólínunni sem skáskerst niður til suðurs (til hægri) svona á að giska í bakliti.

Við sáum rjúpur á vappi í dalnum og voru þær hinar spökustu eins og þeim er lagið í sjálfsblekkingu hvíta felulitarins, enda runnu þær fljótlega saman við umhverfið á mynd sem var tekin af þeim.

Rjúpan hefur nánast alltaf orðið á vegi okkar í vetur og er orðin fastur ferðafélagi á fjöllum, svo það endar með því að hún verður einkennisfugl klúbbsins...

Í miðjum Gljúfurdalnum var komið að kennslustund.

Jón Gauti hér að sýna notkun brodda í snjó.

Svona skal ekki ganga með brodda... hliðarhöggin sem maður skásker gjarnan við göngu á snjó í skóm á ekki við um broddana... þá skal höggva beint og fast ofan á skaflinn til að fá sem mest grip á broddana sjálfa.

Reglurnar þrjár:

  1. Lyfta fótum hátt í hverju skrefi (til að reka ekki broddana í og detta - gerist oft þegar menn þreytast eða eru óvanir).
  2. Hafa skrefin víð (til að reka ekki fæturna saman á göngu, flækja broddana í og detta).
  3. Ganga beint ofan á jörðina og þungt eða fast (til að fá sem mest grip í snjóinn með broddunum).

 

Æfingasvæðið í suðurhlíð Gljúfurdals Kerhólakambs.

Lækjarspræna í klakaböndum og aflíðandi gilbrekka fyrir neðan.

Jón Gauti fremstur og allir að taka há, víð og bein skref á eftir honum...

Gengið var upp með fossandi lækjarsprænu í klakaböndum og farið yfir klakann með því að treysta á broddana í fljúgandi hálku. Jón Gauti leiddi og Guðjón gætti hópsins neðan frá.

Örn fremstur á eftir Jóni Gauta og svo Grétar Jón, Íris Ósk og Roar, en þá gerðist það sem allir óttuðust og það fyrir sjónum okkar allra án þess að geta rönd við reist...

Roar rann skyndilega af stað í klakanum efst og fór niður meðfram fossinum en tókst einhvern veginn að hindra sig í að klemma fæturna ofan í klakaðan farveginn.

Áfram rann hann niður á þessum kannski tveimur, þremur sekúndum og allir horfðu skelfingu losnir á, en þá kastaðist Guðjón af stað og fleygði sér á hann, þar sem hann stefndi á stóran stein niður með gilinu og verður þessi sýn af snarræði Guðjóns greypt í minni viðstaddra rétt eins og björgun Jóns Gauta á Heiðarhorni, þegar Halldóra rann niður eftir fönninni.

Ekki varð Roari meint af þessu sem betur fer og stóð keikur upp aftur með hugsanleg eymsli í vinstri sköflungi þó, en ekki meira en það. Á þriðjudagsæfingu þremur dögum síðar fór engum sögum af meiðslum... og var "vandfundinn marblettur" á skrokknum að hans sögn...

 

Helga fer hér niður með aðstoð Guðjóns.

Örn, Íris Ósk og Roar neðar.

Mjög góð æfing í notkun brodda í harðfenni, klaka og bratta.

 

Jón Gauti tók Roar með sér aðra ferð að öllum líkindum til að fenna sálrænt strax yfir óþægilegu sporin í fyrstu ferð og yfirstíga þá reynslu með því að ná góðu valdi á aðstæðum sem brugðust í fyrstu tilraun.

Það endaði auðvitað með því að flestir fóru aðra ferð til að skerpa á tækninni og æfa sig aðeins.

Takast á við óttann... það er nauðsynlegt...

Roar er annars vanur fjallamaður og hafði gott jafnvægi á broddunum á æfingunni almennt, en var bara óheppinn þetta eina augnablik.

Óhappið minnir okkur kannski á hve skjótt getur brugðist til beggja vona og hve varlega þarf að fara í umhverfi þar sem náttúran er við völd og aðrar aðstæður ríkja að vetri en sumri... eitt augnablik er nóg...

Þverfellshornið þarna í baksýn og Örn og Grétar Jón að ólmast í klakanum... gátu ekki beðið eftir að fara aðra ferð upp fossinn, þessir strákar...

Næst var svo kennd ísaxarbremsan sem Soffía er hér þegar farin að æfa í stuttri en hentugri brekku þarna hjá.

Strákarnir sýndu okkur hvernig stöðva skal sig með ísexi þegar runnið er af stað á snjófönn og hópurinn æfði sig nokkrar ferðir.

Mjög gaman og afskaplega fróðlegt. Nauðsynlegt að æfa svona handtök þar til þau verða ósjálfráð eins og Jón Gauti sagði.

Þá fengum við að sjá nokkur önnur tök eftir því hvort menn renna niður með höfuð á undan, á maga eða á baki, á hlið o. s frv. en æfingar á slíkum stellingum bíða betri tíma.

Þennan tæpa klukkutíma sem við tókum í þessar æfingar skein vetrarsólin skært á suðurhlíðina sem var einstaklega notalegt og fallegt þarna í snjónum umkringd Esjuhlíðum úr öllum áttum. Hreinir töfrar...

Hvað lærðum við...:
  1. Halda um skaftið með breiða hlutann fram (til að geta stungið oddhvassa hlutanum í hjarnið ef runnið er af stað).
  2. Halda utan um hinn oddhvassa endann með hinni hendinni (til að sá oddur höggvist ekki í hjarnið sé runnið af stað, því þá missir maður exina frá sér fanginu, það réttist úr handleggjum og hún stendur eftir meðan líkaminn rennur áfram niður og ekki er hægt að leggja líkamsþungann á hana þá).
  3. Halda olnbogum að líkamanum (til að ná að geta lagt þungann á exina á ferð frekar en að renna áfram niður með exina fasta).
  4. Þegar runnið er af stað skal snúa sér með maga að jörðu og höfuð upp hlíðina (til að geta stungið ísexinni og hnjánum í snjóinn með líkamsþunganum).
  5. Stinga exinni í hjarnið og leggja allan þunga efri hluta líkamans á hana.
  6. Lyfta líkamanum frá jörðu og stinga hnjám niður í hjarnið eins og exina. Allur þungi þá á exinni og hnjánum til að ná taki og geta stöðvast.
  7. Lyfta fótum/skóm/broddum frá jörðu (þ. e. frá hnjám og niður). Mjög mikilvægt þar sem broddarnir myndu annars stingast í hjarnið og ökkli (eða hné) gefa eftir með hugsanlegu beinbroti.

 

Eftir þessa glimrandi góðu og fróðlegu æfingu, gengum við af stað niður Gljúfurdalinn, södd og sæl af reynslunni.

 

Jón Gauti hér að brúa yfir klakaða sprænuna...

Sumt er saklaust að sjá en felur í sér leynda slysahættu í skyndilegri hálku innan um gott færi.

Roar, Stefán, Guðjón og Davíð.

 

Smám saman kom Faxaflóinn í ljós með Brimnesið skagandi út Kollafjörðinn og Álfsnesið austar í sólsetrinu.

Mikið spjallað og margar góðar hugmyndir viðraðar eins og vanalega.

Helga nefndi áhuga sinn á að ganga fornu Inkaleiðina að Macchu Picchu í Andesfjöllum Perú Suður-Ameríku og er hugmyndin strax komin á listann... kannski skylduferð fyrir þá sem vilja ganga spennandi leiðir erlendis...?

Þá var einnig rætt um göngu á Grænlandi enda Grænlandsfari með í för, hann Guðjón og er það spennandi hugmynd sem líka er komin á listann ásamt grunnbúðum Everest og hæstu tindum Evrópulandanna... nú eða heimsins fyrir þá sem vilja ganga enn lengra...hmmm...

 

Gengið niður með Langahrygg Búahamra til vesturs.

Snjórinn að mestu horfinn og sólsetrið blasir við.

 

 

Þarna klöngruðumst við upp um morguninn... - kletturinn sem ber við sjóndeildarhringinn til vinstri... - virðist kannski ekki svo bratt, en VAR bratt og langt og aðeins hált!

Sumir sögðust ekki hafa farið ef þeir hefðu vitað þetta... gott að þeir vissu það þá ekki, því öll komumst við heilu og höldnu í góðum höndum.

Önnur leið er algengari upp Kerhólakambinn eða innar í gilinu og upp með tungunni þar, en sjá mátti slóðann óljóst þar upp og sýndist ekki mikið léttari en okkar leið... förum þarna aftur og sjáum muninn síðar þegar Hrönn kemur með...

 

 

Jón Ingi og Guðjón í síðustu brekkunni vestur niður með Langahrygg.

Kerhólakambur og klettar hans í baksýn.

Vesturbrúnir Kerhólakambs til hægri sem eru snarbrattar niður norðvestan megin og vinsælt klifursvæði að sögn Jóns Gauta.

Gilin í suðurhlíð Kerhólakambs Esjunnar (í Gljúfurdalnum) eru þrjú og nefnast frá vinstri (vestri):

  • Árvallargil - sem sést hér á mynd til hægri við strákana.
    Hestgil
    - austar, innar í dalnum.
    Sauðagil
    - Innst í dalnum.

 

Dólað sér "heim" að bílum þar sem Hrönn beið eftir Jóni Inga og fékk yfir sig óðamála sögur félaga sinna af rokinu í byrjun og brattanum og kuldanum og óhappinu og svo þessari líka frábæru kennslu sem verður náttúrulega að endurtakast á Snæfellsjökli og Eyjafjallajökli með vorinu 2008 áður en Hvannadalshnúkur verður sigraður í byrjun maí...

Komið að bílum eftir 10,8 km göngu á 5:47 klst upp 788 m á 851 m háan tind.

Leiðin okkar í baksýn á myndinni hér fyrir neðan, svona á að giska eftir pennastrikinu þar til annað kemur í ljós...

Frábær dagur í skammdeginu með þessum snilldar fjallaleiðsögumönnum sem voru áhugasamir fyrir því að ganga með okkur áfram á næstu tinda, en sá áttundi, Baula, er ekki á dagskrá fyrr en í lok janúar á næsta ári til þess að ná sem mestri birtu... förum að hlakka til...

Um leið og við þökkuðum fyrir framúrskarandi leiðsögn óskuðum við þeim félögum góðrar ferðar því þeir voru síðar í næstu viku á leiðinni til Marokkó að ganga í Atlasfjöllunum sem eru 2.400 km langur fjallagarður er teygir sig frá Miðjarðarhafi suðvestur að Atlantshafi.

Þar rís hæsti tindur Norður-Afríku, Toubkal (4.167m) og einnig er þar tindurinn Siroua (3.305m) en Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru með ferðir á þessi fjöll og hafa  gert Toppförum tilboð í ferð á næsta ári. Strákarnir ætla að hafa okkur í huga varðandi þessar slóðir, en annars er einnig verið að kanna með framtíðarverkefnið að "safna hæstu fjöllum Evrópu" af hendi Toppfara og svo rúlla inn hugmyndir eins og Inkaleiðin og Grænland til viðbótar við fyrri hugmyndir svo það eru næg verkefni á borðinu fyrir þennan vaska hóp toppfara...

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir