Tindferð nr. 21
Skessuhorn laugardaginn 28. mars 2009

Slysið á Skessuhorni


Skessuhorn framundan með sitt hvassa horn til norðurs en uppgönguleiðin er um aflíðandi brekku vestan megin og innar í dalnum.

Við vorum ellefu Toppfarar sem lögðum í örlagaríka ferð á tignarlega tindinn í Skarðsheiðinni, Skessuhorn, laugardaginn 28. mars undir leiðsögn Jóns Gauta hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Þetta var önnur tilraun til að ganga á þetta fjall þar sem ferðin var upphaflega á dagskrá laugardaginn 14. mars en þá geysaði svo slæmt veður að ekki var fært bílleiðina um Hafnarfjall. Þann dag 14. mars höfðum við samt öll mætt á N1 Ártúni þar sem veðrið var gjarnan slæmt kvöldið og nóttina fyrir fyrri tindferðir og jafnan ræst úr veðri (gnauðandi vindur nóttina og morguninn fyrir tindferð var orðinn fastur liður svo eftir sátu þeir allra hörðustu jafnan að morgninum...), en þennan morgun játuðum við okkur sigruð og afboðuðum ferðina á N1 rúmlega sjö um morguninn.

Það var meira en að segja það, snúa þurfti mönnum við þar sem nokkrir voru lagðir af stað annar staðar frá, þ. e. Soffíu Rósu þaðan sem hún kom frá býli sínu í Norðurárdal og Skagamönnum þar sem þeir voru lagðir af stað frá Akranesi. Síðar um morguninn stóðust þjálfarar ekki mátið þar sem bæði pössun og skipting á helgarvöktum hafði verið kostað til fyrir þessa göngu og lögðu tvö af stað þegar dregið hafði úr vindi. Við vildum sannreyna aðstæður á Skessuhorni og vita þá betur ástand svæðisins fyrir ferð með hópinn einni eða tveimur vikum seinna í skárra veðri.

Veðrið var skaplegt til að byrja með en fór hvessandi þegar ofar dró bröttum hlíðum Skessuhorns í hálku og broddafæri. Upp komumst við þjálfararnir í 800 m hæð en þá játuðum við okkur sigruð og snerum við með svo hvassar vindhviður á köflum að bíða þurfti þær af sér með því að halda kyrru fyrir en það höfðum við margoft lent í áður, nema þarna bættist við bratti, hálka og broddar á fótum sem gat verið ansi krefjandi. Á niðurleiðinni rann Örn af stað niður brekkuna en gat stöðvað sig fljótlega með ísexinni og fannst þetta ágætis æfing í ísaxarbremsu en í slíku höfðum við hins vegar ekki lent áður enda ekki oft farið um jafn brattar brekkur í viðlíka hálku og á þessu fjalli á broddum.


Greinarhöfundur á leið frá Horni laugardaginn 14. mars með norðurhlið Skessuhorns í baksýn.

Tveimur vikum seinna þann 28. mars fór hópurinn aftur af stað á Skessuhorn í formlegri tindferð nr. 21... Veðurspáin þá mun skaplegri og veðurútlitið með eindæmum gott þegar lagt var af stað í blankalogni svo við fækkuðum fötum í hita og svita þegar best lét... en versnaði þó heldur þegar ofar dró. Þann dag komumst við í 924 m hæð en snerum þá við vegna versnandi veðurs þar sem ekki þótti stætt á að fara á tindinn og lögðum af stað niður. Á niðurleiðinni í um 903 m hæð rann Sigga Sig af stað og stöðvaðist ekki fyrr en í um 820 m hæð (skv. gps-útreikningum Roars - sjá neðst í umfjöllun), þá eftir að hafa tvisvar fengið höfuðhögg og ekki náð að stöðva sig vegna þess...

Eftir á að hyggja var margt líkt með báðum þessum laugardögum og sá fyrri mátti vera aðvörun fyrir þann seinni í stað þess að vera "könnunarleiðangur" fyrir hann... en það er auðvelt að vera vitur eftir á... og um leið engin leið að öðlast reynslu nema láta reyna á sig í erfiðum aðstæðum og erfiðum veðrum enda var það ekki veðrið sem lék aðalhlutverkið þennan dag fram að slysi heldur brattinn og hálkan. Veðrið fór hins vegar að leika ákveðið hlutverk eftir að slysið varð þar sem við þurftum að halda kyrru fyrir klukkustundum saman í rúmlega 800 m hæð og versnandi veður eftir því sem leið að kveldi hafði áhrif á björgunarstörfin þar sem fyrsta hjálp barst um kl. 19:00 um kvöldið, eða fimm klukkustundum eftir slys þegar við hefðum fyrir löngu átt að vera komin í bæinn heil og sæl... en skiluðum okkur ekki fyrr en eftir 12 - 17 klst. ... NB í góðu ástandi svo eftir var tekið meðan björgunarmanna.


Hópurinn kominn að árfarveginum norðvestan megin við Skessuna...

Þennan laugardag 28. mars var veðrið með besta móti í byrjun dags en vitað að það myndi fara versnandi þegar liði fram á daginn og kvöldið. Við áttum alveg eins von á að klára gönguna áður en veðrið versnaði en vorum undir það búin að snúa við ef svo bæri undir. Reynsla hópsins síðustu tvö árin í mörgum slæmum veðrum, sannarlega mun verri veðrum en það var nokkru sinni þennan marsdag... - og ekki síður reynsla hópsins af mýmörgum göngudögum þar sem spáin var ekki sérlega góð og veðurútlit jafnvel slæmt í upphafi, en reyndist svo fínasta veður þegar á hólminn var komið - hafði kennt mönnum að láta slag standa hverju sinni og takast á við aðstæður eins og þær koma fyrir og snúa við ef þyrfti, fremur en að leggja ekki af stað og missa af annað hvort góðum göngudegi eða góðu tækifæri til að styrkjast í krefjandi veðri.

 Við lögðum af stað kl. 8:36 í 155 m hæð frá Skarðsheiðarvegi þar sem hann var fær, fremur en að fara frá Horni og var hugsunin sú að spara sér vegalengd og hækkun en eftir á að hyggja var lítið fengið með því þar sem við komumst stutt upp eftir og þurftum að stikla yfir ánna sem tafði för og litlu mátti muna að menn blotnuðu sem ekki er æskilegt í upphafi dagsgöngu í frosti upp í tæpa þúsund metra hæð.

Þetta var engu að síður falleg leið og alltaf gaman að fara aðra leið en hefðbundna, enda allir í hátíðarskapi þar sem okkar beið enn ein ljómandi upplifunin í tindferðum sem hingað til höfðu skilað okkur ríkari í bæinn og reynslumeiri í hvert sinn... grandalaus með öllu um að örlögin ætluðu okkur öðruvísi endi á þessum degi en nokkru sinni...

Ásýnd Skessuhorns var tignarlega og ægileg í senn, dáleiddi okkur og togaði til sín í tilhlökkun fyrir verkefni dagsins.
Fjall sem heldur óárennilegri tign sinni allt árið um kring að sumri sem vetri og er vinsælt æfingafjall útivistarmanna á öllum árstíðum...

Leiðangursmenn:

Sigga Sig., Stefán Heimir, Gylfi Þór, Jón Gauti, Örn, Roar, Simmi, Sigga Rósa, Guðjón Pétur, Soffía Rósa, Steini Pé og Bára tók mynd.

Fjórar konur og átta karlmenn...

Þar af var Steini Pé að fara í sína fyrstu tindferð með hópnum en hinir vanir öllu og vanir hver öðrum á fjöllum við alls kyns aðstæður. Eftir á að hyggja var þetta einn af mjög dýrmætum styrkleikum ferðarinnar, að innanborðs voru þaulvanir einstaklingar klúbbsins sem höfðu reynslu og yfirvegun fyrir það æðruleysi og þrautsegju sem þurfti tímunum saman við erfiðar aðstæður áður en deginum lauk.

Þegar við vorum komin undir Skessuhornið sjálft í 640 m hæð, fór vindurinn að blása í fyrsta sinn og við vorum ekki lengur í brakandi logninu sem ríkti fyrr um daginn. Smám saman fóru menn í allan búnað, belgvettlingarnir komnir á og skíðagleraugun. Vindstrengurinn lá meðfram vesturhlíðinni og við misstum góða skyggnið en ennþá var veðrið skaplegt og ekkert sem hópurinn hefði ekki margsinnis gengið í áður.

Enn hrikalegra reis hornið ofan okkur í nálægðinni og við héldum ótrauð áfram inn með hlíðinni inn í dalinn þar sem góð uppgönguleið beið okkar, þ. e. sú hefðbundna sem farin er allt árið um kring og er t. d. lýst í bók Ara Trausta og Péturs Þorleifs.

Snjórsöfnunin var talsverð meðfram hömrunum og Jón Gauti gerði fyrsta skófluprófið sem sýndi ekki fram á snjóflóðahættu.


Örn að aðstoða Siggu Rósu fjær og Sigga Sig nær á mynd.

Þegar komið var að því að hækka sig upp hlíðina í um 660 m hæð versnaði færið fljótlega og Örn lagði til að við biðum ekki með að fara í brodda minnugur laugardagins tveimur vikum fyrr þar sem færið varð strax erfitt í þessari hlíð.

Á þessum slóðum gerði Jón Gauti skóflupróf nr. 2 til að meta snjóflóðahættu þar sem við vorum komin í skálina þar sem snjósöfnun verður gjarnan þó hlíðin sé klettótt, og var ástandið í lagi en við skyldum hafa varann á og vera meðvituð um mögulega snjóflóðahættu ofar.



Það var meira en að segja það að fara í broddana í kuldanum, vindinum og brattanum og þess vegna ráðlegra þegar von er á broddafæri að fara í þá áður en aðstæður verða of erfiðar til þess.

Sigga Rósa, Steini Pé og ?hver? að byrja að græja sig með Jón Gauta að leiðbeina.

Roar, Gylfi Þór og Stefán Heimir.

Fjær voru Guðjón Pétur og Simmi.

Sjá hvernig klakablettirnir lágu undir snjónum nær á mynd vinstra megin.

Við steina er gjarnan ís og klaki sem nær að bráðna og harðna á víxl með veðrinu gegnum veturinn og því er oft versta færið í námunda við grjót. Í grjótbrekku sem þessari þar sem snjóskaflar ná ekki mikið að safnast fyrir getur færið verið með versta móti þó á móti komi að oft er gott að hafa grjótið til að fóta sig og styðja og brjóta upp langar, hálar brekkur.


Guðjón Pétur hér að benda hópnum á eitthvað í göngulaginu...

Þegar allir voru komnir í broddana fór Jón Gauti yfir hvernig maður bregst við ef maður rennur af stað og þarf að bregða fyrir sig ísexinni til að stöðva sig (ísaxarbremsa) og eins rifjaði hann upp hvernig ætti að ganga á broddum þar sem menn voru misoft búnir að fara gegnum það í hópnum og alltaf gott í raun að fara yfir þetta í hvert sinn þegar gengið er í hópi.

 Við gættum þess með ísexina að...
*Hafa bandið á exinni utan um úlnliðinn (umdeilt, tilgangur að missa ekki ísexina af stað niður brekkuna ef maður missir hana úr höndunum).
*Hafa ísexina jafnan í þeirri hendi sem snýr á móti brekkunni (umdeilt þar sem þá þarf stöðugt að skipta um hendi þegar gengið er á víxl upp brekku en tilgangurinn m. a. sá að ísexin snúi að brekkunni til að geta stungið henni í ef maður rennur af stað).
*Hafa hvassari skaftið vísandi aftur og það bljúgara fram á göngunni (því þannig liggur exin í lófanum tilbúin til að beita bremsunni ef á þarf að halda (skilst um leið og þetta er æft á raunstað)). Í leiðbeiningum sem fylgdu okkar ísöxum á sínum tíma (2007 Mt Blanc ísexirnar rauðu keyptar í Útilífi) stendur að hafa skal hvassara skaftið ávalt í átt að brekkunni til að það sé tilbúið til að fara í hjarnið ef maður rennur af stað.

Við gættum þess að nota broddana með því að...

*Stíga föstum skrefum niður í snjóinn en ekki léttum svo broddarnir nái að grípa vel í snjóinn.
*Stíga jafnt á yfirborðið svo broddarnir nái allir að grípa taki í hjarnið en ekki stíga á ská (eins og maður gerir í skóm og hliðarhalla þegar maður stingur jarkanum á skónum inn í brekkuna til að mynda syllu í jarðveginn - alls ekki gera þetta ef maður er á broddum).
*Ganga með framhlið manns vísandi niður brekkuna ef undirlagið er mjög frosið, bratt og hált til að ná sem jöfnustu gripi - en ekki "ganga á hlið" eins og maður gerir vanalega á göngu í hliðarhalla (eins og sést á mynd ofar, en þar sleppur það þar sem hjarrnið tekur vel í - á við í mikilli hálku, svelli eins og t.d. á Kerhólakambi í desember 2007 þar sem við fórum vel yfir þetta og æfðum).
*Taka stutt skref til að hafa betra vald á hverju skrefi.
*Ganga aðeins gleitt með smá bil milli fóta til að flækja ekki broddunum hvor í annan eða flækja broddunum í skálmarnar og detta um sjálfan sig af þeim sökum eins og margir hafa reynt (sbr. rifnar skálmar á hlífðarbuxum v/broddanna)...


Guðjón Pétur, Stefán Heimir, Soffía Rósa, Gylfi Þór og Steini Pé.

Smám saman jukust snjóskaflarnir og brattinn en þetta sóttist vel í góðu færi og á broddunum.


Sigga Rósa, Roar, Soffía Rósa, Gylfi Þór, Steini Pé, Stefán Heimir,  Guðjón Pétur og Örn.

Við gengum í röð með Jón Gauta fremstan, Báru ofarlega (til að ná myndum) og Örn aftast að gæta síðasta manns.

Skyndilega rann Sigga Rósa niður brekkuna en náði að stöðva sig snarlega með ísexinni en varð hverft við þetta
og Jón Gauti ákvað að setja hana í
línu til að veita henni öryggi það sem eftir lá ferðar.


Sigga Sig., Steini Pé, Stefán Heimir, Guðjón Pétur og Örn.

Snjóskaflarnir mjúkir þó harðfennið væri undir og enginn í vandræðum.

Jón Gauti og Guðjón Pétur.

Þegar komið var upp í tæplega 900 m hæð var veðrið farið að versna og farið að renna á okkur tvær grímur með að komast á tindinn við þessar aðstæður svo Jón Gauti bað okkur um að bíða og fór á undan til að kanna aðstæður. Á meðan fór Örn upp á hrygginn beint fyrir ofan okkur til að kanna gönguaðstæður þar og nokkrir fóru áleiðis á eftir honum en hann benti mönnum á að fara ekki lengra þar sem brattinn var mikill og hálkan eftir því, svo menn lögðust niður og biðu hver á sínum stað.

Þarna varð maður óþreyjufullur eftir Jóni Gauta og hafði áhyggjur af honum einum þarna uppi í hríðinni. Að manni hvarflaði sú hugsun hvað við myndum gera ef hann skilaði sér ekki aftur til baka. Hversu langan tíma áttum við að gefa honum til að meta aðstæður? Loks birtist hann, slakur og yfirvegaður eins og alltaf, það var kærkomin sjón og kallaði okkur á fund við klettahjalla einn þar sem við komum okkur saman í hnapp til skrafs og ráðagerða.

Þar tilkynnti hann okkur að tindurinn yrði ekki sigraður að sinni, veðrið væri verra þarna uppi og brattinn slíkur að ekki væri ráð að fara þarna um í slíkri hálku og hvössum vindhviðum... þessu vorum við sammála og hálfpartinn fegin. Við ákváðum að láta nægja að fara upp á hrygginn sem var fyrir ofan okkur þar sem við vorum þó komin þetta langt upp við krefjandi aðstæður enda veðrið ekki orðið slæmt ennþá og allir í góðu standi.


Steini Pé ásamt félögum í 924 m hæð á hryggnum sjálfum.

Saman fórum við því í halarófu upp þessa bröttustu brekku dagsins sem tók verulega í.

Örn var fyrstur þar sem hann var búinn að fara upp og Jón Gauti síðastur þar sem hann var með Siggu Rósu í línu um mittið og var þessi kafli sérlega krefjandi þar sem engin leið var að fóta sig upp nema bókstaflega á göddum broddanna sjálfra og með ísexinni sem eina haldið fyrir efri hluta líkamans (sleipir belgvettlingarnir máttu sín einskis í þessu frosnu klettum og íshjarni).

Þarna titraði hver einasti vöðvi og um mann fór ótti og svo feginleikur og gleði þegar upp var komið þar sem verðlaunin voru þessi fallegi hryggur svo nálægt tindinum og manni hafði tekist með hálfgerðu ísklifri að klára alla leið. Þarna voru menn misvanir, sumir höfðu æft sig í ísklifri í Skaftafelli vorið á undan með broddum og ísexi í hvorri hendi en aðrir ekki en öllum fórst þetta samt vel úr hendi.

Sigga Rósa í teymi með Jóni Gauta til öryggis.


Strákarnir að horfa í áttina að tindinum sem ekki sást fyrir klettabeltin í hríðinni.

Sigurtilfinningin var góð.

Þetta var erfið leið við krefjandi aðstæður og við máttum vera ánægð með afrek dagsins.
Allir sáttir við að sleppa tindinum að sinni sem var þó svo nálægt og snúa við þar sem veðrið var verra þarna uppi í berangrinu.

Við stöldruðum aðeins við og skoðuðum okkur nokkra metra um eins og plássið leyfði með tólf manns í þessu litla klettaskarði...
Skarði sem við höfum oft eftir þennan dag mænt á og verður manni minnisstætt um ókomna tíð...

Ísexin á loft til að fagna áfanganum... í stað brossins sem var falið bak við lamhúshettu og skíðagleraugu...

Jú, förum að koma okkur niður...

Sýnin út eftir hryggnum í átt að sléttunni einkennilegu þar sem hæsti tindur Skessuhorns er eins og saklaus varða á heiði
í algjöru ósamræmi við annað landslag fjallsins... (sést ekki á mynd).

Brattinn niður austurvegginn... hlið Skessuhorns sem björgunarsveitarmenn og ísklifurmenn hafa farið upp í öllum græjum að æfa sig...

Jón Gauti skipulagði vel niðurleiðina um brattann sem var mestur þarna efst frá hryggnum
og las okkur línurnar með hvernig við skyldum fóta okkur þarna niður í broddunum með exina til halds.

Hann ætlaði fyrstur með Siggu Rósu í teymi, Bára í miðjunni og Örn fylgdi síðasta manni.

Þetta var gott plan og allir tilbúnir í slaginn.

Jón Gauti, Soffía Rósa, Sigga Sig., Simmi, Steini P., Gylfi Þór, Roar og Örn.

Jón Gauti og Sigga Rósa leggja af stað með Stefán Heimi til hliðar.

Þetta gekk mjög vel og allir fóru niður þessa bröttu brekku án vandræða... vöðvarnir titruðu jú aftur... en þó ekki eins mikið
og á uppleiðinni enda auðveldara að fara niður þegar maður þræðir sig svona á broddunum á ísexinni með fallþungann með sér...

Færið gott, mjúkur snjór yfir hálkunni og gott að stinga exinni í mjúkt en nægilega hart hjarnið.

Sjá hvernig ísexinni er beitt vinstra megin - með bandið strekkt og hald á neðsta hluta skaftsins - mikið öryggi þegar maður kemst upp á lag með það og ef það vantar bandið þá er þetta erfiðara og öðruvísi tak en skiptar skoðanir og rök... heilu vísindin... liggja að baka því hvort hafa á exina í bandi eður ei.

Slysið

Neðan við þessa brekku þar sem allir önduðu léttar og við vorum laus við bröttu brekkuna hófum við að fóta okkur niður með Jón Gauta neðstan í röðinni á ská niður með hlíðinni og Örn efstan með Roari en efstu menn voru rétt að klára bröttu brekkuna. Þarna var veðrið strax betra þó eingöngu munaði um rúma 20 m og ef ekki hefði orðið slys hefðum við með réttu farið þétt niður þessa leið og skilað okkur glöð og sæl í bílana um einni og hálfri til tveimum klukkustundum síðar eða um fjögur leytið... en því var ekki að skipta í þetta skiptið...

Skyndilega kom vindhviða yfir hópinn í bakið á okkur ofan frá hlíðinni og við þurftum öll að stinga fæti fram fyrir okkur til að styðja okkur við... í broddum - í bratta - í hálku - en Sigga Sig sem stóð í miðjum hópi rann af stað og martröðin hófst... stjörf horfðum við á göngufélaga okkar renna niður brekkuna (á þessum tímapunkti vissu ekki allir hver rann, flestir voru svartklæddir), rekast á klettahjalla neðar og renna niður hann þar sem snjóskaflar tóku við og smám saman hægja á ferðinni þar sem inn í hryllingsmyndina kom Jón Gauti askvaðandi á eftir henni og fór í veg fyrir hana þar sem hún var farin að renna hægt í minni halla og meiri snjósköflum.

Eftir á fannst manni hún aldrei ætla að stoppa og maður skildi ekki afhverju hún stöðvaði sig ekki með exinni en flest sáum við að hún sýndi burði til þess í upphafi (þarna voru ekki allir með eins minningu af atburðinum eins og oft var) en líklega fékk hún höfuðhögg í klettahjallanum og missti þar meðvitund sem útskýrði afhverju hún rann eins og poki eða tuska niður brekkuna og ekkert líf var að sjá í þessum líkama sem þarna rann. Sú sýn gleymist manni aldrei og nefndum við þetta ítrekað eftir á þegar slysið var viðrað hversu óhugnanlega þessi sýn var - að sjá bjargarlausan og líflausan líkamann renna niður án þess að streitast nokkuð á móti og sýnin virtist sem eilíf kvöl.

Áfram stóðum við stjörf eftir að hún varð kyrr í skaflinum þarna niðri með Jón Gauta stumrandi yfir henni og maður horfði stíft á líkamann... hreyfði hann sig?... nei... ekkert... hún reisti sig ekki upp, hún hreyfði sig ekki... versta martröðin varð að veruleika.


Fallhæðin úr 904 m hæð niður í 820 m - unnið af Roar.

Sjá hér úrvinnslu Roars úr gps-tækinu sína af fallinu.


Gula línan sýnir hvar hún rann niður - unnið af Roar.

Eftir að hafa öskrað á hópinn að þétta og fara saman niður flýtti ég mér af stað niður til þeirra og kallaði til Arnar þar sem hann stóð efst og var að fara niður bröttu brekkuna með Roari og tók hann þar með við hópnum í heild og fylgdi honum niður að slysstað.

Þegar ég kom að Siggu lá hún enn kyrr með Jón Gauti við hlið sér að meta ástand hennar. Hún var með einhverja meðvitund, andaði, kveinkaði sér, opnaði ekki augun en kipraði þeim saman, svaraði ekki en umlaði. Það blæddi úr nefinu og virtist koma glær vökvi með blóðinu en erfitt var að segja til um hvort hann væri bara sviti, tár eða snjór eða þaðan af verra... þetta gaf tilefni til þess að áætla að um alvarlegan höfuðáverka væri að ræða og mikilvægt að þetta kæmi fram í fyrsta símtali til neyðarlínunnar sem Jón Gauti átti þarna á fyrstu mínútunum og var leikið t. d. í fréttaumfjöllum um slysið eftir á á stöð tvö.

Staðan var sú að við vorum með alvarlega slasaða og meðvitundarlitla konu í höndunum með hugsanlega höfuðáverka í rúmlega 800 m hæð í snjóbrekku í vindi og ofankomu á köflum og hitinn undir frostmarki. Það var ljóst að yrðum að kalla á hjálp, halda kyrru fyrir og hlúa að henni þar til björgun  bærist við þessar erfiðu aðstæður.


Snjóhúsið að myndast smátt og smátt. Það fennti fljótlega fyrir farangur okkar úti við og stundum rákumst við að gular rendur þegar við stækkuðum snjóhúsið... sem var tilefni til að hlæja gegnum þessa lífsreynslu eftir á.

Stuttu eftir að ég kom að Siggu kom Stefán Heimir fyrstur úr hópnum að og byrjaði orðalaust að moka... Það augnablik verður manni minnisstætt alla tíð þar sem það varð táknrænt í mínum huga fyrir þá samstöðu og einhug sem ríkti meðan leiðangursmanna gegnum þennan dag... það þurfti varla að orða hlutina, þeir voru framkvæmdir sem einn maður frá upphafi til enda.

Það var aldrei efi eða ágreiningur um hvað ætti að gera eða þyrfti að gera, aldrei spurning um að skipta liði og einhverjir færu niður. Við unnum orðalaust sem einn maður við að hlúa að Siggu og halda henni heitri þar til hjálp barst, til þess þurfti lítið að ræða málin, við bara gengum í þau verk sem fyrir lágu og stöppuðum stálinu hvort í annað eins og hægt var miðað við aðstæður.

Í minningunni var brekkan á Skessuhorni brött og hál, hörð og grjóti vaxin að mestu með mjúkum snjósköflum á köflum. Þarna sem Sigga stöðvaðist var hins vegar lítill halli og djúpt lag af snjó og lítið mál að grafa sig í fönn til að búa til skjól fyrir hana og hópinn. Stundum finnst manni eins og við höfum verið færð til á þennan stað henni til björgunar, okkur hafi verið færðar þessar kjöraðstæður til að takast á við ástandið því þarna var gott að athafna sig. Einhvern veginn man maður aldrei eftir ótta eða óöryggi gagnvart aðstæðunum sjálfum á fjallinu heldur eingöngu yfirþyrmandi ótta og kvíða gagnvart þeirri stöðu sem við vorum í - að hafa alvarlega slasaða manneskju í höndunum svona langt frá björgun og sjúkrahúsi.


Jón Gauti, Roar, Soffía Rósa og Sigga Rósa.

Í þessum tólf manna hópi voru fjórir með skóflu; Jón Gauti, Örn, Stefán Heimir og Guðjón Pétur og varð það okkur til happs í þessari ferð. Smám saman dreif hópinn að og við tókum öll til við að finna fatnað og búnað til að pakka henni betur inn og verja hana kulda og úrkomu. Álpokar, sessur, ullarföt, peysur, úlpur, hlífðarbuxur, belgvettlingar, ... allt var til tekið og vafið utan um hana og loks enduðum við á að tæma nokkra bakpoka og setja undir hana til að einangra hana betur frá jörðu.

Fljótlega fór að snjóa og þá beint framan í hana þar sem hún lá og maður varð að hlífa andlitinu og þarna varð manni ljóst að við gætum aldrei einangrað hana alveg frá kuldanum svo maður lagðist ósjálfrátt við hlið hennar og grúfði sig yfir hana til að verja hana gegn veðrinu. Þarna leit ég upp á Jón Gauta og sagði að miðað við aðstæður þyrftu tveir til þrír að liggja og halda stöðugt svona utan um hana til að halda á henni hita í þessu veðri. Frostið, vindkælingin og úrkoman var of óhagstæð til þess að henni myndi takast að halda líkamshita sínum nógu góðum sjálf þó hún væri vafin inn í allt það sem til hafði verið týnt.


Örn og Stefán Heimir en Stefán átti að baki erfiða reynslu við annað slys á göngu í gljúfri Glyms nokkrum árum áður.

Þetta þurfti einhvern veginn ekkert að ræða frekar en annað þennan dag, við hugsuðum eins og einn maður og gengum í þau verk sem fyrir lágu. Jón Gauti skipti okkur í þrjú lið þar sem við skiptumst á vöktum við að halda hita á Siggu og halda hita á okkur sjálfum til að geta haldið á henni hita; þrír lágu og héldu á Siggu hita, fjórir mokuðu snjó og fjórir borðuðu. Þannig skiptumst við á vöktum, þannig að þeir sem lágu við Siggu gerðu það þar til þeir voru farnir að skjálfa úr kulda, þá tóku þeir við sem höfðu verið að moka og voru orðnir heitir af mokstrinum og við sem vorum orðin köld fengum okkur að borða á meðan þau sem höfðu borðað fóru að moka með nýja orku í blóðinu.

Snilldar ráðstöfun hjá Jóni Gauta sem var lykillinn að því hvernig við komumst af í þessar tæpar fimm klukkustundir sem við biðum þarna eftir aðstoð því með þessu vakta - verka -fyrirkomulagi héldum við hita á okkur sjálfum og Siggu jafn líkamlega sem andlega og enginn lokaðist af í vanlíðan, kulda eða uppgjöf.


Trausti undanfari var fyrsti björgunarsveitarmaður á staðinn... ógleymanlegur maður sem fór strax að hita súpu handa liðinu og stappa stálinu í okkur. Það var hrein tilviljun að hann er sonur Helgu Björns, Toppfara en segir um leið margt um þau mæðgin... fremst í flokki meðal jafningja ;-)

Fyrsta neyðarkall okkar barst Neyðarlínunni um tvöleytið þennan dag. Þar lýsir Jón Gauti aðstæðum og ástandi Siggu og alvarleikinn mátti vera ljós þá þegar. Mér er það minnisstætt að hann átti nokkur símtöl við björgunaraðila eftir þetta fyrsta og ítrekaði alltaf mjög skýrt alvarleika ástandsins en manni fannst eins og það hefði tekið talsverðan tíma fyrir menn að átta sig á honum til fulls.

Það var hins vegar alveg ljóst að öllu var til kostað á endanum við þessa björgun og varð hún sú umfangsmesta í mannafla og tækjanotkun svo árum skipti og var með öllu ógleymanlegt að verða vitni að fagmennsku þeirra sem til okkar komu, hlúðu að Siggu og hópnum og fluttu hana niður og alla leið í þyrluna. Að vera hluti af þessu björgunarafreki hafði djúpstæð áhrif á mann því flytja þurfti alvarlega slasaða manneskju úr rúmlega 800 m hæð niður bratta brekku í versnandi veðri, úrkomu, frosti og vindi með snjóflóðahættu neðar í hlíðum er leið á daginn og loks rökkri áður en yfir lauk og læknir á bíl loks tók á móti áður en hún var flutt upp í þyrluna sem sveimaði yfir okkur í myrkrinu niðri í dalnum.


Björgunarmenn komnir, búið að meta ástand hennar og verið að setja hana í bivac poka og á börur.

Þegar ekki var liðið langt frá slysinu, trúlega um þrjúleyti, sveimaði hins vegar þyrlan yfir slysstaðnum. Þetta hljóð í henni hverfur manni með miklum sársauka aldrei úr minni þar sem því tilheyrði fyrst léttir yfir að hjálp væri nærri en svo skelfileg vonbrigði þegar hljóðið fjarlægðist með nístandi þögninni sem tók við þarna sem við stóðum agndofa niðri á fjallinu og við blasti sú nístingskalda staðreynd að við stæðum ein í þessum erfiðu sporum og hjálp var ekki auðfengin... og Jón Gauti sagði að þetta þýddi að nokkrir klukkutímar væru í fyrstu björgunarmenn og ég man að manni fannst það óbærileg tilhugsun... en hún varð virkilega að veruleika þar sem fyrstu menn komu um sjöleytið til okkar í hlíðinni.

Til að lifa andlega af héldum við andanum léttum, göntuðumst og hlógum eins og þessum hópi einum er lagið og var það oft sérkennilega tilfinning innan um alvarleika málsins en um leið einhvern veginn jafn nauðsynlegur hluti af atburðarásinni og hver annar. Inni í manni var knýjandi ótti um að ástand Siggu færi hrakandi og yfirvofandi alvarlegar afleiðingar slyssins nöguðu mann inn að beini... maður mat meðvitundarástand hennar reglulega; öndunartíðni, dýpt og takt (andar hún jafnt og þétt, ekki hratt og grunnt eða óreglulega?), stærð ljósops í báðum augum (eru augasteinar stækkandi eða minnkandi eða misstórir?), áttun á 1) stað (hvar erum við - hún svaraði yfirleitt "fjalli"), áttun á 2) stund (hvaða dagur er í dag, hvaða mánuður, hvaða ár?) og áttun á 3) persónu (hvað heitirðu, hvað heitir maðurinn þinn?), er henni ógatt eða þarf hún að kasta upp? (merki um aukinn innankúpuþrýsting vegna höfuðáverka (bólgu, blæðingar))-  en hún svaraði því alltaf neitandi, er hún með verki (já í höfði, læri og henni var alltaf mjög kalt), blæðir enn úr nefinu?... eru nýir áverkar að koma í ljós?

Það eina sem ávalt skal kanna við þessar aðstæður en við gerðum ekki var púlsinn - hjartslátturinn og ég man þegar ég útskýrði það fyrir fyrsta sjúkra-björgunarsveitarmanninum sem kom á staðinn og skildi ekkert í því að ég hefði ekki svar við þig; það var ekki hægt að þreifa púlsinn nema klæða hana úr... við heyjuðum hatramma baráttu við kuldann, það var of miklu til fórnað að tapa hitanum hennar að fletta ofan af henni vettlingum, ermum, hálsklútum etc og því notaðist maður við öndunina til að gefa manni vísbendingu um lífsmark... á meðan hún andaði reglulega og eðlilega var ljóst að hjartað sló og maður gat sleppt því að auka líkur á lífshættulegri ofkælingu. Ef hún hefði hætt að anda hefði maður farið í að þreifa púlsinn en til þess kom aldrei, öndunin var alltaf "heilbrigð" og því dró maður hreinlega þá ályktun að hjartslátturinn væri einnig eðlilegur.


Ekki datt manni í hug að taka ljósmyndir eftir að slysið varð, manni fannst það eins og helgispjöll eða árás á einkalíf þess sem slasaðist, en Jón Gauti sagði mér að gera það óhikað og þurfti að segja mér það nokkrum sinnum áður en ég hlýddi og maður skildi það eftir á...
Þær hjálpuðu mikið til í eftirvinnunni og til að aðrir en við áttuðu sig á aðstæðunum sem við vorum í.

Þegar liðið var á daginn tók Soffía Rósa eftir bjúgsöfnun á augnlokum sem var merkileg eftirtektarsemi og nefndi það strax við mig en ég kveikti ekki á perunni að það væri nokkuð til að hafa áhyggjur af og sagðist halda að það væri vökvasöfnun við hreyfingarleysið og stöðugu leguna þar til ég leit á augnlokin og sá að mar var að myndast á þau en það bendir til "basis-fraktúru" sem er ein tegund af höfuðkúpubroti, aftan á hnakka. Ég lét Jón Gauta vita strax og bað um að haft yrði samband við slysadeildina svo hægt væri að fá staðfestingu á að við værum að gera allt rétt  varðandi aðhlynningu einstaklings með slíkan höfuðáverka og ekki að gleyma neinu sem skiptir máli þar sem grunur lék nú á að um þetta ákveðna höfuðkúpubrot væri að ræða.

Ég fékk samband við fyrrverandi yfirlækni á slysa- og bráðadeildinni í Fossvogi til margra ára, Jón Baldursson, vanan björgunarsveitarmann og útivistarmann og var það ansi kærkomið og ógleymanlegt að ná að ræða við hann um málið. Ég lýsti fyrir honum slysinu og ástandi Siggu og hvernig mar væri farið að myndast á augnlok og blætt hefði úr nefi með glærum vökva frá upphafi slyssins. Jón taldi okkur vera í góðum málum miðað við aðstæður, halda ætti henni kjurri á staðnum þar sem alltaf skal gera ráð fyrir hryggáverka ef um höfuðáverka er að ræða og ekki hreyfa hana fyrr en til að setja hana á bretti með kraga, við yrðum bara að halda áfram að halda á henni hita og bíða eftir flutningi björgunarsveitarmanna á staðinn. Þetta gaf mann styrk um leið og uggurinn í brjóstinu óx og nagaði mann enn grimmar þar sem ljóst var að við vorum raunverulega með höfuðkúpubrotna konu í höndunum þó ekki væri það alvarlegra en svo að líkur á að vel færi voru sterklega til staðar næstu klukkutímana þó hún væri við þessar erfiðu aðstæður á fjalli.


Akkerin og línurnar til að lóðsa börurnar niður brekkuna græjaðar á meðan.

Eftir að hjálp barst með fyrstu björgunarsveitarmönnum fór hópurinn loks niður í fylgd björgunarsveitarmanna sem þeim fannst sjálfum mesti óþarfi þar sem þau voru í góðu standi og nutu þess að geta gengið loksins af stað aftur. Ég og Jón Gauti vildum hins vegar fylgja Siggu alla leið þar sem maður var með hana í gjörgæslu þó eflaust væri hún orðin hundleið á manni stöðugt að trufla frið hennar með því að ýta við henni til að kanna meðvitund og spyrja hana spjörunum úr til að meta áttun en það fygldi því akveðinn léttir þegar sjúkra-björgunarmaðurinn tók við þessu að mestu.

Ég man eftir miklum skjálfta gegnum allt ferlið sem ég veit að var sjaldan kuldaskjálfti en þegar björgunarmenn komu að létu þeir mann borða samloku og drekka heitan drykk til að auka líkamshitann því þeir gerðu allir ráð fyrir mun verra líkamlegu ástandi á hópnum en raunin varð og skildu ekkert í þessum yfirvegaða, vel nærða, vel búna og vel heita hópi sem þeir mættu á slysstaðnum eftir margra klukkustunda dvöl í hæstu hlíðum Skessuhorns, hópi sem staðið hafði í stórræðum við að halda félaga sínum og sjálfum sér heitum gegnum klukkutímana og farist það vel úr hendi svo aðdáunarvert þótti. Hópi sem var í góðu standi til að ganga nokkra kílómetra niður til baka og hefðu viljað ganga alla leið að bílunum en fengu það ekki heldur voru flutt af björgunarsveitarbílum úr dalnum og niður eftir.

Nei, skjálftinn fór ekki við mat og drykk enda var þetta hvorki kuldi né svengd... heldur andlegt álag, nagandi og skelfilegur ótti við að missa Siggu, missa tök á aðstæðum og geta ekkert gert henni til bjargar lengst uppi í fjalli, fjarri þyrlu, sjúkrabíl og slysadeildinni. Slíkt bjargarleysi var yfirþyrmandi tilfinning sem sat mis mikið í okkur öllum eftir þennan dag en veldur gjarnan áfallastreitu eftir upplifun sem þessa. Við hlúðum vel hvort að öðru eftir þennan dag en að mínu mati þjáðust nokkrir í hópnum engu að síður af þessum eftirköstum einhverjum vikum eftir atburðinn og eru jafnvel ekki enn alveg búnir að jafna sig ef satt skal segja.


Það var erfitt fyrir Siggu að fá stöðugt menn bograndi yfir sér til að meta ástand hennar, líðan, meðvitund og áttun þar sem snjókoman átti þá greiða leið beint í andlit hennar en um leið var þetta nauðsynlegt, sérstaklega þegar verið var að fara með hana niður alla brekkuna og maður var mjög kvíðinn fyrir því að flutningurinn myndi steypa henni í verra ástand. Það gerðist sem betur fer ekki, þrautsegjan sagði þarna strax til sín.

Það var kærkomin sýn og ein af þessum ógleymanlegu þennan dag að sjá andlit íslensku fjallaleiðsögumannanna sem gengu alla þessa leið með björgunarsveitarmönnunum upp í 800 m hæð í raun eingöngu til að veita stuðning og hjálp til félaga síns, Jóns Gauta og til hóps sem þeir þekktu vel og höfðu gengið með.  Guðjón Örn, Róbert og Stefán, ... haf þökk fyrir umhyggjuna sem skein úr andlitum ykkar þegar þið komuð á staðinn, alúðina í okkar garð og samkenndina. Svona samstaða er ómetanleg og skal þess getið að þessir menn voru búnir að fara með stóran hóp af "Toppaðu með 66°Norður" upp á Heiðarhorn hinum megin Skarðsheiðarinnar þennan sama dag en þurft frá að hverfa af tindinum eins og við og lentu sjálf í sérkennilegum hrakningum þar sem Róbert féll niður um snjóhengju og þurfti að fóta sig sjálfur upp einhverja metra um brattann klettavegg með broddum og ísexi að vopni. Þennan sama dag gengu Fjallkonur Íslands á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna einnig á Botnssúlur og villtust af leið í lélegu skyggni en þar innanborðs voru konur sem síðar komu í Toppfara svo það var ansi margt sem gekk á þennan dag meðal fjölda fjallamanna og álagið mikið á Íslenska fjallaleiðsögumenn.

Þetta álag kom samt ekki í veg fyrir að forsvarsmenn þeirra, þau Elín, Einar Torfi og Arnar Jóns biðu eftir okkur niðri í dalnum með heitt kakó og meðlæti af nærliggjandi bæ og svei mér þá ef ekki var smá lögg af koníaki í boði fyrir þá sem þurftu að róa taugarnar eftir daginn og var þessi stuðningur ómetanlegur brotinni sálinni í lok dagsins.


Sigga komin í Bivac-poka sem var yzta einangrunin gegnum síðasta hluta dagsins.

Það var sérkennilegt að lesa fjölmiðlaumfjöllun og bloggsíður frá laugardeginum og á sunnudeginum eftir atburðinn þar sem við vorum gagnrýnd fyrir margt en aðrir stóðu í vörnum fyrir okkar hönd, m. a. fyrir að hafa þurft að grafa okkur í fönn og ekki komið okkur niður úr þessum aðstæðum. Það var visst áfall að lesa sumt af þessum skrifum og þá sérsaklega það sem beindist að Siggu sjálfri sem fékk þarna lífsbjörg frá björgunarsveitunum og kvölin eftir þessa upplifun jókst við þessi skefjalausu viðbrögð Jóns og Gunnu úti í bæ en um leið lærði maður að loka tölvunni og lesa ekki meira... flest var grunnhyggið og jafnvel illskeytt...

Eða þau afhjúpuðu algert skilningsleysi á t. d. þeirri staðreynd að "við grófum okkur ekki í fönn til að bíða eftir björgun á hópnum enda var hópurinn ekki í vandræðum, við hefðum verið enga stund til baka niður í bílana, heldur vorum við þarna uppi að halda lífi í alvarlega slasaðri manneskju sem ekki var í ástandi til að vera flutt niður brekkuna af göngumönnum án búnaðar og það tókst einmitt í krafti hópsins, í krafti fjögurra félaga sem mokuðu stanslaust, fjögurra félaga sem nærðust til að halda líkamshitanum og orkunni stöðugt gangandi... ef við hefðum skipt liði og einhverjir farið niður og aðrir orðið eftir er ómögulegt að vita hvort björgunin hefði tekist eins vel og úr varð.Ekkert okkar var nokkurn tíma í vandræðum hvað hita, næringu, búnað eða annað varðaði. Verkefnið var að halda hita á Siggu og meta ástand hennar þar til hjálp barst".. nei það var þýðingarlaust að hugsa sér að svara svona skrifum svona og við reyndum það ekki einu sinni enda var dofinn og sársaukinn yfir reynslunni öllu yfirsterkara og lamandi dagana eftir slysið.

Eftir sat málefnaleg gagnrýni sem var umhugsunarverð...
Hvað vorum við að gera þarna uppi í þessu veðri?

Sjá nokkur dæmi af umfjöllun á vefnum:

http://www.hssk.is/index.php?option=com_content&view=article&id=403:kall-rau-slys-viessuhorn&catid=7:k&Itemid=40


Börunar komnar út og niðurleiðin hefst. Þarna var búið að gera akkeri úr stöfum leiðangursmanna og björgunarmanna.

Við vorum komin heim kringum miðnætti þennan örlagaríka dag. Við tóku símtöl við gjörgæsludeild, aðstandendur Siggu, fjölmiðla, klúbbfélaga og eigin aðstandendur. Það kom okkur á óvart hvað menn virtust hafa fylgst náið með atburðum þennan dag gegnum fjölmiðla og hafði þar eflaust áhrif að þeir fluttu stöðugt fréttir af slysstað eins og ekkert annað hefði verið fréttnæmt þennan dag. Aðstandendur leiðangursmanna sem fóru í þessa fjallgöngu sátu margir í óvissu klukkustundum saman um hvern var um að ræða og ástandið var sérkennilegt þegar maður kom í bæinn enda sat það lengi vel í fólki að eiga aðstandanda lengst uppi í fjöllum án þess að vita hvernig hann hefði það og enn tveimur árum síðar fáum við sum hver símtal eða athugasemd þegar slys verða á fjöllum.


Börunum rennt niður í pásum þar sem reglulega þurfti að gera ný akkeri í snjóinn með ísöxum og stöfum til að hægt væri að lóðsa hana neðar.
Mjög tímafrekt og krafðist þolinmæði og þrautsegju björgunarmanna.

Þegar við vorum komin með Siggu undir læknishendur í björgunarsveitarbíl niðri í dalnum áður en þyrlan tók hana upp og ljóst var að ástand hennar var framar öllum vonum miðað við aðstæður; líkamshiti, púls, blóðþrýstingur og öndun voru stöðug og meðvitund/áttun var það góð að hún hafði skoðun á því hvort við klipptum utan af henni fötin til að setja æðalegg í handlegg... var kominn tími til að anda léttar... Þarna þar sem hún var loksins komin í skjól og undir læknishendur með þyrluna sveimandi yfir svæðinu varð maður í fyrsta sinn rórri og gat slakað á eitt andartak og hringt símtöl á slysadeildina til að láta vita af ástandi hennar þar sem þau voru í biðstöðu þar og hringt svo í Heimi, manninn hennar til að gefa honum skýrslu. Þann mann þekkti maður þá ekkert, talaði við hann í fyrsta sinn gegnum símann við þessar alvarlegu aðstæður en hann var fárveikur heima af flensu. Síðar átti hann eftir að verða einn af okkar kærustu vinum í klúbbnum þar sem hann kom inn í klúbbinn eftir slysið og fylgdi Siggu eins og herforingi gegnum fyrstu göngur hennar eftir slysið.



Gps-þversnið af göngunni að slysstað þar sem úrið varð á endanum rafmagnslaust þegar við biðum eftir björgunarsveitinni.


Gps-mynd af göngunni þar sem gula er gangan okkar og svarta er hefðbundin ganga á tindinn frá eyðibýlinu Horni.

Deginum lauk ekki fyrr en í bænum eftir miðnætti hjá flestum okkar og eftirköstin standa enn yfir að einhverju leyti en stærstu skrefin eftir slysið eru manni ógleymanleg...; þegar Sigga úrskrifaðist af Landspítalanum sex dögum eftir innlögn, fyrstu skrefin hennar úti við (kringum húsið), fyrsta fjallganga hennar aftur með hópnum mánuði eftir slysið á Hafnarfjall og hver hindrunin á eftir annarri hvað veður og færi snertir...

Fyrstu viðbrögð þjálfara eftir slysið voru þau að fara "aldrei aftur á fjöl"... fara "aldrei á fjöll með hóp aftur"... fara "aldrei á fjöll að vetri til"... en þar sem fjallamennskan var orðin of stór og órjúfanlegur hluti af líki okkar sættumst við loks á að ákveða að "fara aldrei á fjöll aftur með hóp að vetri til í mikinn bratta og hálku"... við það höfum við staðið að mestu eins og hægt er. þó á stundum sé erfitt að sniðganga með öllu brattar brekkur að vetri til en það hefur tekist hingað til.

Hvað má af þessu slysi læra?

Það er auðvelt að vera vitur eftir á, segja að maður hefði ekki átt að vera á þessum stað á þessari stundu og í fyrstu er maður tregur til þess að viðurkenna slíkt þegar maður hefur margsinnis verið við erfiðar aðstæður á fjöllum og oft í verra veðri en þetta. Engu að síður þarf maður að horfast í augu við raunveruleikann og læra af reynslunni. Hvað hefði komið í veg fyrir þetta slys?

  1. 1. Ekki fara í fjallgöngur - slys eru óhjákvæmilegur hluti af fjallgöngum og maður dregur 100% úr líkum á þeim með því að fara aldrei á fjöll. Það er hins vegar illmöguleiki hjá mörgum eins og okkar hópi og því verður maður í staðinn að gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir slys sem þó verða alltaf óhjákvæmilegur hluti af fjallamennskunni rétt eins og slys í heimahúsum og innanbæjar verða alltaf hluti af lífinu.

    2. Ekki fara í fjallgöngur að vetri til - Margir stunda eingöngu útivist að sumri til og finnst jafnvel fjallamennska að vetri til gagnrýniverð. Ísland er veðurfarslega séð erfitt land, vetraraðstæður ríkja á hærri fjöllum stóran hluta af árinu eins og menn vita sem farið hafa t. d. Fimmvörðuháls eða Laugaveginn um hásumar svo ekki sé talað um hærra yfir sjávarmáli (gígurinn á Herðubreið var t. d. helfrosinn í ágúst og mörg fleiri álíka dæmi). Það er því til lítils að verða góður í fjallgöngum á Íslandi ef maður ætlar eingöngu að grípa öruggasta hluta ársins því það myndir þýða láglendisgöngur að mestu og eingöngu göngur um hásumar á fáum dögum yfir árið og þá ekki á hálendi nema á góðum dögum og ekki á há fjöll. Slíkt skapar litla reynslu og í raun óöryggi og skort á færni þegar veður og færð versnar skyndilega að sumri til á hálendi og hærri fjöllum þó reynt hafi verið að sniðganga slíkt.

  2. 3. Ekki fara í fjallgöngu í bratta og hálku að vetri til. Jú, það er hægt að taka undir þetta. Fyrst eftir slysið var það okkar vörn að Skessuhorn er mjög algengt fjall allan ársins hring og gjarnan gengið t. d. sem æfingafjall fyrir Hvannadalshnúk. Að sama skapi urðum við sammála því eftir á að þegar gengið er að vetri til þá ber manni að sniðganga eins og hægt er brattar, langar og hálar brekkur því slysahættan er raunverulega mikil við slíkar aðstæður.  Þetta þýðir ansi vandasamt val á að finna fjöll við hæfi að vetri til og í raun ótækt að sniðganga með öllu allar brattar brekkur en hægt samt að velja ákveðin fjöll þar sem slysahætta er óveruleg að vetri til eins og t. d. fjallið Ok.

  3. 4. Ekki fara í fjallgöngu þegar veður er ekki gott. Veðurspáin var góð fyrri hluta þessa dags en svo átti veðrið eftir að versna þegar leið á daginn. Það voru ágætis líkur á að við myndum jafnvel ná að fara í gönguna og til baka áður en veðrið versnaði en um leið vissi maður að veður er fljótar að versna uppi við en niðri á láglendi þannig að maður mátti gera ráð fyrir að veðrið gæti orðið slæmt á þessum slóðum, sérstaklega þar sem Skarðsheiðin er þekkt veðravíti. Reynsla innan hópsins í slæmum veðrum er umtalsverð og kannski gagnrýniverð, eiga menn yfirhöfuð að vera úti í slæmum veðrum? Reynslan hefur kennt manni að yfirleitt rætist úr veðri og sé maður rétt búinn og í góðu formi þá er ekki erfitt að takast á við krefjandi veður svo lengi sem aðrar aðstæður eru ekki erfiðar en þarna á Skessuhorni var það einmitt til staðar þar sem við vorum í bratta, hálku og á broddum. Við vorum öll undir það búin að þurfa að snúa við vegna veðurs og höfum góða reynslu af því að þegar snúið er við ofan af fjöllum í erfiðu veðri og farið niður, þá er maður fljótur að komast í betra veður svo það er ekki flókin ákvörðun að snúa við ef veður versnar. Við snerum við þegar veðrið var farið að versna og það var ekki slæmt þegar slysið verður. Vindhviða, jú var að hluta til orsökin að slysinu sem olli því að Sigga stingur við en dettur enda í bratta, hálku og á broddum. Þarna eru komnir nokkrir áhættuþættir sem samanlagt verða til þess að hún slasast en ef ekki hefði orðið slys hefðum við verið snögg niður og skilað okkur glöð í bílana eftir góðan göngudag og aldrei fundist nokkuð athugavert við ferðina... og verið reynslunni ríkari. Björgunaraðgerðir á slysstað urðu hins vegar fljótt flóknar þar sem veður hélt áfram að versna, á tíma sem við hefðum verið komin til baka í bílana og því var fjölmiðlaflutningur oft misvísandi hvað þetta varðaði enda gjarn á að gera meira úr þáttum sem eru dramatískir. Lærdómur okkar af veðrinu þennan dag var að það er lærdómsríkt að vera í erfiðu veðri en þá þarf maður að vera í aðstæðum sem ekki auka á slysahættuna og gera manni kleift að geta brugðist við aðstæðum ef óhapp verður, þ. e. ekki vera í mjög brattri, langri, hálri brekku á broddum við erfiðar veðuraðstæður langt frá byggð og möguleikum á skjótri björgun.

  4. 5. Áttum við að vera með hjálm? Já, eftir á að hyggja fannst okkur það nokkrum en skiptum gjarnan samt um skoðun með þetta og sumir keyptu sér m. a. s. hjálm eftir slysið. Þegar við svo ræddum þetta atriði við aðra fjallamenn þá voru menn almennt ekki sammála þessu því hjálma nota menn gegn grjóthruni eða þegar menn eru í línum í kletta- eða ísklifri en ekki í venjulegri fjallgöngu. Þetta verður líklega alltaf umdeilanlegt en ljóst að til að tryggja sig enn betur almennt á fjöllum þá er ekki verra að vera með hjálm til að draga úr áhættu á höfuðáverkum svo lengi sem hann flækist ekki fyrir.

  5. 6. Áttum við að vera í línum? Nei, sögðu flestir eftir á en fyrst eftir slysið fannst okkur það vel geta verið og finnst það jafnvel enn. Þess eru samt dæmi að menn hafa slasast á Skessuhorni þar sem göngumenn í línum hafa runnið af stað niður og dregið aðra með sér í línunni. Um leið er ljóst að á þessari brekku í þessari hálku hefðum við vel mátt vera í línum einfaldlega af því við vorum misvön að vera á broddum, hvað þá að fikra okkur upp með ísexi. Þetta hefði þýtt fleiri leiðsögumenn á mann og dýra ferð en það er þess virði til að koma í veg fyrir slys eins og þetta. Nú færum við aldrei í þessar aðstæður aftur, þ. e. þennan bratta, þessa hálku og á broddum nema vera þá í línum.


  6. 7. Hefðum við getað hlúð betur að Siggu? Mat á lífsmörkum, meðvitund og áttun og ástandi Siggu var stöðugt allan tímann. Við náðum að halda henni heitri við ótrúlega erfiðar aðstæður og þegar hún kom á slysadeild var líkamhiti hennar um 36° sem þótti ótrúlegt. Hins vegar má segja eftir á að við áverka á höfði eykst innankúpuþrýstingur þar sem allar bólgur og blæðingar krefjast meira rýmis innan höfuðkúpunnar sem ekki gefur eftir og því er ástand manneskju með höfuðáverka fljótt að versna ef ekkert er að gert eins og í óbyggðum þar sem lítið eða ekkert er í raun hægt að gera (fyrr en í skurðaðgerð til að létta á þrýstingi ef svo ber undir en var reyndar ekki svo í dæmi Siggu). Eitt af því sem við hefðum hugsanlega getað gert betur eftir á var að reyna að draga úr innankúpuþrýstingi með því að skapa eins mikið ró og næði / draga úr hávaða og öllu áreiti kringum hana til að draga úr álagi sem eykur innankúpuþrýsting. Ég sem hjúkrunarfræðingur til tíu ára á slysadeild bar mat mitt og áhyggjur að mestu í hljóði, en las lífsmörk hennar og öll líkamleg skilaboð með því að orða það við þá sem lágu hjá henni það og það skiptið. Jón Gauti og nokkrir innan hópsins lögðu stöðugt þetta sama mat á hana svo hún var undir stöðugu eftirliti og var í raun eftir á að hyggja ótrúlega stöðug í öllum lífsmörkum sem hægt var að lesa úr. Styrkleiki hennar var aðdáunarverður.

8. Fleira? - sendið þjálfara póst! Allt opið !

Hvað má læra af jákvæðum þáttum ?
Eftir á að hyggja þá fór margt betur en áhorfðist þegar þetta slys varð vegna eftirfarandi þátta m. a:

1. Reynsla innan hópsins var mikil hvað varðaði göngur við erfiðar aðstæður og í erfiðum veðrum. Veikleikar hér á móti eru þeir að við vorum misvön að ganga á broddum og ekki almennt vön að fara um brattar brekkur í hálku á broddum.

2. Fjórir voru með skóflur með í för. Þetta skipti sköpum til að við gætum mokað snjóhúsið, haldið okkur á hreyfingu og komið Siggu og þeim sem héldu á henni hita í skjól. Skófla er alltaf í bakpoka þjálfara eftir þetta og fleiri bakpokum félaganna.

3. Menn voru vel búnir, öllu vanir, með nóg af aukafötum, nóg af nesti og nóg að drekka. Þetta skipti verulega máli þar sem við vorum á niðurleið og það var nóg til fyrir 5 klst. bið á fjalli eftir björgun. Eftir björgunina var okkur sagt af nokkrum björgunarsveitarmönnum að þegar þeir komu á staðinn var lítið sem þeir gátu bætt við það sem fyrir var búið að gera á slysstað annað en að koma Siggu niður og á sjúkrahús og þótti það eftirtektarvert. Fullyrt var af nokkrum björgunarsveitarmönnum að menn hefðu sjaldan eða aldrei komið að slysstað áður þar sem menn voru í jafn góðu ástandi allir sem einn og í raun líka sá slasaði miðað við aðstæður, því yfirleitt fer að halla undan fæti þegar klukkutímarnir líða hjá hópi lengst í óbyggðum við svona erfiðar aðstæður og fleiri gefa eftir svo almenna reglan er sú að nokkrir í svona hópi þurfa aðhlynningar við þegar björgun berst. Slíku var ekki fyrir að fara í þessum hópi, menn voru hvorki aðframkomnir af kulda, svengd né orku og gátu auðveldlega gengið nokkra kílómetra niður að bílunum eftir allt saman.
Það segir margt um reynslu og styrk leiðangursmanna þennan dag.

4. Stjórn Jóns Gauta á aðstæðum var til fyrirmyndar allan tímann og við skipuðum okkur öll undir hann án þess að véfengja hans stjórnun. Verkaskiptingin á slysstað, láta menn borða sér til hita, moka sér til hita og halda Siggu svo heitri eftir moksturinn hélt okkur án efa gangandi allan þennan tíma. Hann kallaði strax á hjálp og gerði vel grein fyrir alvarleika málsins frá byrjun, hann sýndi allan tímann af sér öryggi og festu og sýndi aldrei af sér ráðaleysi eða uppgjöf sem var mikilvægt til að við gætum unnið saman sem einn maður án þess að bugast.

5. Samstaðan innan hópsins var fölskvalaus allt til enda. Við unnum sem einn maður allan tímann, hlýddum Jóni Gauta og gerðum það sem lagt var til, vorum aldrei ósammála né deildum um einstaka atriði heldur sýndum samvinnu og samstöðu allan tímann. Enginn dró sig í hlé, varð sjálflægur, vildi fara niður eða var ósammála því sem verið var að gera, sem hefði vel getað orðið og er algengt í svipuðum slysum.


Gps-google- mynd frá björgunarsveitinni - sjá dekkri línuna þar sem slysið varð og hvítu hefðbundin gönguleið á tindinn.

Eftirvinnan:

  1. *Þjálfarar boðuðu alla til sín á sunnudagskvöld eftir slysið.  Þann dag höfðu þeir ásamt Jóni Gauta farið að heimsækja Siggu og eins fóru nokkrir fleiri leiðangursmenn til hennar líka. Við horfðum saman á kvöldfréttirnar af slysinu á heimili þjálfara þar sem tekið var viðtal við Jón Gauta, fórum yfir atburðinn og hvernig okkur leið og Jón Gauti fékk aðstoð við frekari samskipti við fjölmiðla.

  2. *Dagana á eftir vorum við í sambandi við fjölskyldu Siggu og heimsóttum hana þar sem hún lá á Landspítalanum en hún bar sig alltaf vel og sýndi af sér aðdáunarverða staðfestu.

  3. *Dagana á eftir fengum við ýmis símtöl, frá fjölmiðlum þar sem við reyndum að beina þeim að fararstjóranum Jóni Gauta, björgunarsveitinni sem vildi koma stuðningi og hrósi á framfæri, klúbbfélögum sem sýndu okkur dýrmætan stuðning og samstöðu og loks aðstandendum þar sem hvert jákvætt orð var stuðningur gegnum allar innri og ytri ásakanir í garð okkar sem fórum í þennan leiðangur.

  4. *Þriðjudaginn eftir slysið var sársaukafullt að klæða sig í fjallgöngufötin og við áttum erfitt með að mæta til göngu á Esjunni en þar beið okkar allur klúbburinn sem hafði mikla þörf á að hitta Skessuhornsfarana og sýna sinn stuðning og við tókum samstöðugöngu til stuðnings Siggu sem lá á Landspítalanum og var þetta mjög gott skref eftir á að hyggja.

  5. *Um tveimur vikum eftir slysið fékk hópurinn áfallahjálp hjá Rauða krossinum þar sem við fórum vel yfir þennan dag og var það mjög góð stund. Við erum enn að vinna okkur út úr þessari reynslu, rifjuðum upp þennan dag í tíma og ótíma og gerum enn, hann kemur ótrúlega oft upp í hugann og í umræðum innan hópsins, enda tengjast margir þættir þessa dags viðfangsefni okkar dags daglega á fjöllum.

  6. *Rúmum mánuði eftir slysið (Hafnarfjalli þann 5. maí) mætti Sigga aftur á æfingu, eftir að hafa tekið fyrstu skrefin kringum húsið sitt og um hverfið þegar hún útskrifaðist föstudaginn eftir slysið. Skrefin sem hún þurfti að taka "burt frá slysinu og áhrifum þess" voru ansi mörg gegnum líkamlegar en ekki síst sálrænar hindranirnar sem slysið lagði í götu hennar (snjór, hálka, bratti, vindur o.fl.). Allan tímann hefur hún sýnt af sér aðdáunarverða þrautsegju, jákvæðni, hógværð og staðfestu og hefur eftir slysið verið með ötulustu göngumönnum Toppfara ásamt manni sínum, Heimi sem skráði sig í klúbbinn í kjölfar slyssins.

  7. *Þriðjudaginn 5. júlí 2010 fórum við fjallgönguklúbburinn í miðnæturgöngu á Skessuhorn þar sem við þurftum einhvern tíma að brjóta þennan ís í hjartanu og taka skrefin þarna upp við góðar gönguaðstæður að sumri til. Þetta kvöld var mjög sérstakt þar sem aðstæður reyndust svo meira krefjandi en veðurspá sagði til um með dimmri þoku og engu skyggni en algeru logni og rigningardumbungi... en traustu sumar-færi svo gangan heppnaðist sérlega vel. Það var viss léttir að fara þarna um rúmlega einu ári eftir slysið en við söknuðum þó fleiri af þeim sem voru í þessum leiðangri og hugsanlega þurfum við tólf sem fórum þennan örlagaríka dag í mars 2009 að fara þarna saman einn daginn til að vinna enn betur úr þessari reynslu...

Órjúfanlegur hluti af fjallgönguklúbbnum um eilífð.

Slysið á Skessuhorni mótaði okkur umtalsvert og hafði djúpstæð áhrif á okkur öll sem vorum í leiðangrinum.
Vonandi eru þessi áhrif fyrst og fremst jákvæð og styrkjandi á endanum og munu koma í veg fyrir að við lendum nokkurn tíma aftur í öðru eins enda höfum við meðvitað sniðgengið brattar langar brekkur að vetri til og valið öruggar leiðir á þessum árstíma.
Enn kemur maður til byggða eftir tindferðir Toppfara með fyrstu hugsun þá að ekkert kom fyrir og feginleikurinn getur þá loks vikið fyrir gleði yfir góðum göngudegi... óttinn við að lenda aftur í sömu aðstæðum víkur líklega aldrei alveg frá manni.

Sú staðreynd fylgir okkur um ókomna tíð að þarna hefði getað farið enn verr en þó fór og ekki síður er það staðreynd að við þurfum að lifa við það alla tíð að Sigga er enn að takast á við afleiðingar af slysinu á sál og líkama þrátt fyrir að vera stöðugt á fjöllum.
Hún er aðdáunarverður persónuleiki sem við berum öll djúpa virðingu fyrir og einlægan kærleika og þakklæti fyrir einstakan félagsskap á fjöllum.

Sjá frábæra ferðasögu Gylfa Þórs af þessari göngu sem hafði mikið að segja fyrir okkur vikurnar eftir slysið: http://gylfigylfason.123.is/flashvideo/viewvideo/18095

Sjá allar myndir úr ferðinni á myndasíðu Tindferða Toppfara:
https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T21Skessuhorn280309#

ATH!

Þessi frásögn er unnin í febrúar 2011 og þarfnast yfirferðar og lagfæringa þar sem um flókna frásögn er að ræða.
Allar athugasemdir vel þegnar !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir