Æfingar alla þriðjudaga frá maí til september 2007
birt í öfugri tímaröð:
Fyrstu spor Toppfara á æfingum frá fyrstu göngunni í sögu klúbbsins þann 15. maí...

Grímmannsfell 25. september
Valahnúkar og Húsfell 18. september
Helgafell Hafnarfirði 11. september
Keilir 4. september
Æsustaðafjall, Reykjafell og Hafrahlíð 21. ágúst
Skálafell Mosó 14. ágúst
Esjan 7. ágúst
Toppfarar á forsíðu Útiveru
Þverfellshorn 26. júní
Helgafell Mosó 19. júní
Esjan 5. júní
Úlfarsfell 29. maí
Esjan 22. maí
Esjan 15. maí

Fjórtánda æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 25. september og mættu sautján manns í skýjuðu, lygnu og svölu veðri eða A3 og 6°C.

Lagt var af stað hálftíma fyrr en áður, þar sem farið er að dimma það snemma og mátti þetta ekki tæpara standa, því komið var í bílana í nánast myrkri eins og á síðustu æfingum.

Gengið var frá vegamótum stutt frá Hraðastöðum í Helgadal og farið yfir grasúfna mýri með fjóru skurðum, en nauðsynlegt er að finna skemmtilegri leið upp fjallið þegar gengið verður á það næsta sumar og væri þá gaman að fara suðvestan við Katlagil eða norðaustan með.

Mesti brattinn var fljótlega framundan og gengið í mosadrifnum malarskriðum, en slétt börðin öðru hvoru, svo hægt var að kasta mæðinni á milli.

Það kom flestum á óvart hve útsýnið ofan af Grímmannsfelli var mikið en það er talsvert hærra en nágrannafjöllin. 

Fjallalínan norðaustur að Þingvöllum og Reykjanesfjöllin voru því vel í sjónmáli þegar ofar dró og sum þeirra snævi þakin léttu lagi.

Súlurnar í Hvalfjarðarbotni sáust t. d. vel og verður gaman að ganga á þá syðstu þar næsta laugardag...

Ekki þekktum við nægilega mikið af fjöllunum á Þingvöllum sem þýðir bara eitt; við verðum að ganga á þau hvert og eitt og kortleggja þetta svæði sem og önnur.
 

Svæðin sem eru í seilingarfjarlægð okkar hér á höfuðborgarsvæðinu eru t. d.  Reykjanesskaginn, Hvalfjörðurinn, Þingvallasvæðið, Bláfjallasvæðið, Nesjavellir, Þrengslin,  Hellisheiðarsvæðið, jafnvel Borgarnesið og...

Grímmannsfellið er dæmigert fyrir fjall sem lofar seilingarfjarlægð á toppinn, en svíkur mann í sífellu með hærri punkti þegar einum áfanga er náð. Þannig fór því að gengum lengra og innar þetta saklausa fjall eftir því sem ofar dró og aldrei vorum við komin á Stórhól í 482 m...Eftir 4 km göngu var áð utan í kletti sem bauð sig freistandi fram til þess að vera hæsti punktur Grímmannsfells, enda sýndu hæðartölur 479 - 486 m.

Toppurinn var hins vegar um 500 m austar og létum við okkur nægja að horfa á hann, nýttum tímann í stutta nestispásu og afráðum að sigra tindinn síðar, þar sem klukkan og birtan kröfðust þess að snúið væri við.

Gengið var niður með Katlagili og var frost í jörðu á rakari stöðum og lækurinn mikið til í klakaböndum. Það var kalt þetta kvöld og greinilegt að ekki þarf að fara ofar en þetta til að sjá frostmyndun í jörðu eftir kulda síðustu daga.

Þessi æfing sló tóninn fyrir veturinn, það er orðið nokkuð ljóst að við þurfum að fara að klæðast vel á æfingum. Ég vil sérstaklega benda á ullina (ullarnærföt, síðermabol, síðermabuxur) því þó hún hafi þann ókost að þorna illa, heldur hún betur hita en nokkuð annað og ekki reynir á þessa þornun, þar sem við erum alltaf í dagsferðum hvort sem er.

Þjálfari var svolítið stressaður yfir birtuskilyrðum og tímanum í bakaleiðinni svo gengið var greitt í talsverðum halla utan í suðurhlíð gilsins og vonandi var þarna ekki gengið fram af neinum í hamaganginum...

Því miður gafst ekki nægilegt tómarúm né næg birta til þess að skoða gilið í rólegheitunum, farið að rökkva og menn þreyttir, svo við bara verðum að fara upp með því síðar í rjómablíðu næsta sumar...

  Haldið var hópinn á heimleiðinni að bílum yfir fjallsræturnar vestan megin með trjáræktina og búskap Helgadals á vinstri hönd en orðið anzi skuggsýnt þegar skrönglast var yfir mýrarskurðina aftur að bílunum.

Úr varð fínasta þolþjálfun á langri vegalengd á tiltölulega stuttum tíma á látlaust fjall sem þjálfaði ágætlega þrautsegjuna, því 8,10 km voru að baki á 2,26 klst upp heila 417 m að um 479 m háum punkti.

Stórhóll (482 m ) og Kolhóll (456 m) bíða bjartari og rúmbetri tíma árið 2008...


Takk fyrir frábærar æfingar í sumar elskurnar...

...17 fjöll og 18 göngur að meðtöldum tindferðunum að baki...

...það er anzi góð sumarvertíð, svo til hamingju allir sem einn fyrir að mæta, þó ekki sé nema einu sinni, því það er einu sinni oftar en allir þeir sem aldrei komu sér af stað...

Tölfræðin yfir sumartímabilið verður birt bráðlega þar sem sjá má meðaltal varðandi veður, vegalengdir, hækkun, mætingu o. fl. 

 

Þrettánda æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 18. september og mættu fimmtán manns með þjálfurum í gullnu haustveðri, heiðskíru, logni og svalri haustgolu eða 9°C og SV7.

Hundarnir Prins og Ylfa sem báðir hafa gengið með hópnum áður, m. a. á tindana (Prins á Vífilsfellið og Ylfa á Móskarðahnúka) voru með í för, en virtu þó ekki sem skyldi þátttökuskilyrði klúbbsins um að auðsýna samheldni innan hópsins...(Prins var eitthvað að æsa sig við Ylfu) en honum var þetta góðfúslega fyrirgefið, þar sem það er óskaplega gott að hafa þeirra slags ferðafélaga með í för.

Gengið var upp Valahnúka og klöngrast þar austur um klettana en hópurinn lét ekki segja sér annað en að ganga þá til enda með Erni, þó Bára hafi ætlað að taka léttari leiðina niður Valabólið og eru þjálfara auðvitað afskaplega ánægð með mannskapinn!

Veðrið var dásamlegt og gafst gott skjól frá Helgafellinu undan suðvestangolunni. Loftið var svalt og ferskt og  það var ósköp frískandi  að vera úti við í svona góðu veðri eftir blautan hryssinginn síðustu vikurnar.

Eins og sést á myndunum fékk umhverfið smám saman á sig gyllt yfirbragð kvöldsólarinnar sem verður einkar áberandi á haustin, þar sem fjölbreytt litabrigði gróðursins leika sitt hlutverk á þessum árstíma.

Ofan af einum klettinum var sérlega bratt klöngur niður og tók svolítinn tíma að koma hópnum þar niður, en hollt var þetta og gott fyrir þá sem fóru.

Ein þurfti þó frá að hverfa þar sem brattinn hentaði ekki öllum, en þessi leið bíður bara betri tíma þegar meiri reynsla er komin!

Munum að færni við þessar aðstæður er hægt að þjálfa smám saman, en fara þarf skynsamlega og stigvaxandi í að takast á við svona aðstæður, til þess að byggja upp hugrekki og öðlast trú á sjálfan sig.

Þá þurfti einn sömuleiðis að hverfa frá þar sem Ylfa bauð stærðarlega séð ekki upp á að vera borin niður brattann.

Hópurinn gekk Valahnúkana langleiðina til enda og kom niður skriðurnar norðaustan megin, en hin þrjú gengu gegnum Valaból sem bíður hópsins síðar að skoða.

Haldið var svo rösklega áfram í átt til Húsfells, en þarna voru þegar 2,75 km að baki og við ekki komin að rótum fjallsins ennþá...

Gengið var um marglitan móann og kjarrið og dýpkuðu litirnir sífellt með lækkandi sólinni með Húsfellið roðið sólargeislum framundan.

Uppgangan var tekin í einum rykk enda röskt fólk á ferð, en árangurinn af því að arka reglulega upp fjallshlíð er fljótur að skila sér í getunni til þess að ganga upp heilu fjöllin, án þess að taka hlé og er Esjan mjög gott æfingafjall í þessu samhengi.

Svöl golan lék um okkur uppi við, en vindurinn var það lítill að ekki kom að sök og var vel hægt að setjast við klettana þarna og nærast aðeins.

Umkringd óskertu útsýninu í allar áttir var spjallað um komandi fjöll og firnindi og deilt með hópnum sögum af fjallgöngum. Fyrir þau okkar sem ætla á Syðstu-Súlu er t. d. afskaplega gott að heyra frásögn Guðmundar af för hans á Syðstu-Súlu í maí í fyrra, tvær helgar í röð með óskert útsýni langt yfir landið í allar áttir.

Búrfellsgjáin sem þjálfarar þekktu ekki til en nokkrir toppfara hafa skoðað, blasti við okkur fyrir vestan með gjám og misgengi og gróft mótaðri hraunbreiðunni um svæðið í kring. Falleg gönguleið þarna sem vert er að skoða síðar. Kosturinn við fjallgöngur eru m. a. sá að með þeim hætti er landslagið skoðað í samhengi og víðari heildarmynd fæst af svæði sem maður er þekkir kannski vel á jörðu niðri.

Þarna sáum við t. d. mannvirki í norðvestur að Heiðmörkinni, sem líktust stórum vatnstanki o. fl. sem ekkert okkar gat gert grein fyrir (og virkar kannski kjánalega að vita ekki um), en virtist vera virkjunarmannvirki. Þetta könnum við áður en við göngum á Húsfellið aftur á næsta ári og er það ætlun þjálfara að safna smátt og smátt meiri vitnesku um hvert svæði fyrir sig eftir því sem tími vinnst til...

 

Með því að ganga smám saman á öll fjöllin í kring kortleggum við svæðið í huganum og festum nöfn örnefna í minni.

Þjálfarar hafa  skilgreint eitt framtíðar-markmiða toppfara það að ganga á öll þau fjöll sem sjást ofan af hverju fjalli sem gengið er, undir nafninu "kortlagning".

Þetta þýðir margra ára verkefni við að víkka út sjóndeildarhringinn og við förum sífellt víðar um landið, en hvað annað? Hverjir eru ekki til í að kortleggja landið með eigin fótum og vitum?

Gengið var greitt sömu leið til baka með sólsetrið og svala golu ljósaskiptanna í fangið.

Fyrstu menn voru um 2:20 klst í heildina, flestir á 2:24 klst og þeir síðustu um 2:30 og lágu 9,4 km að baki, hækkun um 170 m og enn eitt fjallið, í þetta skiptið upp á 288 m, komið í fjallasafnið!

Komið var myrkur við lok göngunnar, svo ekki hefði þetta mátt vera lengri æfing og bjargaði heiðskíran okkur þetta kvöld, en næsta æfing mun hefjast kl. 17:30 af þessum sökum, við erum komin í kapphlaup með birtuna!

Þegar kvöldi er varið í útiveru sem þessa er manni verðlaunað á margan máta. Ekki bara félagslega með því að spjalla við gott fólk eða heilsufarslega með því að virkja líkama og sál við  áreynslu í fersku lofti, nú eða sálrænt með því að sigrast á áskorunum, fjöllum, kílómetrum eða tindum... heldur einnig með óvæntum uppákomum eins og þeirri að fá ómengaða sýningu á meistaraverki náttúrunnar með sólarlagi sem þessu yfir norðvesturströndinni... þetta er orðlaus fegurð...

Minniháttar óhöpp sem engan skaða bera af sér en færa manni aukna inneign í reynslubankann, er andstætt dæmi um þessa óvæntu uppákomu útivistar, en er ekkert síður mikilvæg og stendur jafn réttilega upp úr eftir á, svo varla er viðkomandi fjallganga rifjuð upp öðruvísi en að uppákoman sé nefnd, þessi góða og/eða slæma og oft hægt að skemmta sér vel yfir vandræðagangi eða vandamálum, sem leyst voru svo farsællega og kenndu manni sitthvað.

Verum þakklát fyrir að fá kvöldstund sem þessa, en hafa ekki verið upptekin við vinnu, uppvask, sjónvarp eða annað "ástand" borgarsamfélagsins sem veldur að maður missir af svona sýn eða fær hana "mengaða" húsaþökum, ljósastaurum, tímaskorti eða öðru álíka!

Myndir af þessari göngu sem og allar myndir á þessari vefsíðu eru eins og þær voru teknar, en ekki "photoshoppaðar". Sólarlagsmyndir þennan dag og á Keili eru teknar með stillingu á "Best Shot" með tilliti til sólarlags.

 

 

Tólfta æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 11. september og mættu 15 manns í blíðskaparveðri eða sólskini, SV4 og 10°C, en Örn stjórnaði æfingunni þar sem Bára var lasin heima.

Við upphaf göngunnar var farið upp kollana vestan megin Helgafells, til þess að fá sem mesta þjálfun út úr æfingunni en vert er að nefna eitt í þessu sambandi. Þjálfarar fjallgönguklúbbsins eru í óða önn að skilgreina gildi fjallgönguklúbbsins fyrir framtíðarverkefni og segir eitt þeirra að líta beri ávalt svo á að viðbótaráreynsla hvar sem maður er staddur í æfingagallanum, auki gæði æfingarinnar, og því ber að temja sér slíkan hugsunarhátt, fremur en að leitast við að auðvelda sér hlutina eða draga úr álagi hvert sinn. Hver aukametri upp á við eða aukakílómetri fram á við telur og skilar sér í skrokkinn fyrir næstu áfanga, sem ekki eru af auðveldari endanum í þessum fjallgönguklúbbi...

Gengið var svo austur að fellinu og upp hina hefðbundnu, fallegu leið um möl, hraun og móbergsfláka, en umhverfið minnir lítillega á Vífilsfell og raunar ótalmörg fleiri fjöll Íslands með sitt fjölbreytta og á stundum dulúðuga landslag í einfaldleikanum...

Komið var upp eftir um 57 mín. göngu og tekin hópmynd við vörðuna undir nestispásu og spjalli. Einar, gestur á æfingunni var einkar kunnugur staðháttum og sýndi þjálfara niðurleið sunnan megin, svo úr varð að hún var gengin, enda með eindæmum falleg með steinboga á miðri leið og fjallasýn suður Reykjanesskagann.

Áætluð niðurleið þjálfara vestan megin bíður því betri tíma, en hún er spennandi og holl æfing fyrir þá sem þurfa að öðlast útsjónarsemi í bratta og sjálfsöryggi við ótroðna niðurgöngu.

Gengið var svo vestan með Helgafellinu um malarveg alla leið að bílastæði við Kaldársel undir spjalli í litlum hópum. Með þessari viðbót í niðurgöngu reyndist æfingin þetta kvöld vera 8,4 km löng á 2:19 klst. og var hækkunin um 260 m upp 338 m háan tind Helgafells þeirra Hafnfirðinga. Kvöldroðinn geislaðist um himininn í lok æfingarinnar og ljósaskipti hafin sem minnir okkur á hve daginn er tekið að stytta og ekki margar kvöldstundir framundan í björtu heila æfingu út í gegn...

 

Ellefta æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 4. september og mættu 12 manns að meðtöldum þjálfurum til þess að klífa íslenska pýramídann á Reykjanesinu; Keili. Þrettándi maðurinn ætlaði með okkur og var sér í bíl stuttu á eftir hópnum, en lenti því miður í ógöngum við að rata og þurfti loks að snúa við.

Veðrið var með besta móti miðað við veðurspá og veðrið síðustu daga, talsvert létti til seinni-partinn, ekkert rigndi og vind lægði með kvöldinu.

Til viðbótar kærkomnum hlýindunum þetta kvöld skyggði því  veðurfarslega séð ekkert á nema dæmigerða rokið á toppnum og mistrað skyggnið ofan af Keili, sem þó gaf okkur útsýni á marga kílómetra radíus.

Allir sem mættu þetta kvöld voru búnir að skrá sig á Heklu og því var hópurinn einbeittur og fremur hraður yfirferðar.

Lagt var af stað kl. 18:12 eftir nokkurra mínútna bið eftir félaganum sem ratað hafði í ógöngur, en þjálfari beið áfram eftir honum á malarstæðinu. Klukkan 18:20 afréð hann hins vegar að snúa við, þá staddur á röngum afleggjara, svo þjálfari lagði af stað á eftir hópnum, talsvert svekktur yfir týnda sauðnum sínum...

Gengin var nyrðri leiðin að Keili og ákveðið að ganga svo suðaustan megin upp en sú uppganga tók hressilega á í öflugum SV-hliðarvindinum og ekki bætti úr skák  lausamölin og grjótið í brattanum, en hópurinn gekk þetta þó nánast sleitulaust upp, enda formið greinilega orðið anzi gott hjá öllum.

Sest var samviskusamlega niður á toppnum og borðað nesti í rokinu þar til einhver gerði athugasemd við kjánaskapinn í okkur að velja ekki skjólsælli stað. 

Eftir svolítið spjall um nýjar hugmyndir varðandi klúbbinn og Hekluferðina við ræturnar í skjóli fjallsins,  var þrammað af stað í meðvindi og farið hratt yfir að bílunum, svo úr varð hin ákjósanlegasta þolþjálfun, því þegar maður er óðamála er oft ósjálfrátt gengið hratt í leiðinni...

En þegar menn voru staðnir á fætur var ekki aftur snúið með að rölta í rólegheitunum til baka niður axlirnar norðaustan megin.

Tekin var hópmynd í lok göngunnar með Keili í baksýn og rétt misstum við þarna af roða á himni sem var víst í bakaleiðinni en annars var himnafarið alveg í stíl við jarðmyndun svæðisins, litfagurt, síbreytilegt og úfið.

Góður andi ríkti á malarstæðinu við teygjur og næringu eftir 2:35klst göngu um 8km leið og 280m upp 378km háan tindinn og voru stríðnispúkarnir í dúndurformi þetta kvöld svo gneistaði af...

Það var lítillega farið að rökkva að lokinni göngunni enda klukkan orðin 20:50 og  ókum við heim á leið í ljósa-skiptunum upp úr kl. 21:00 svo þegar komið var á bílastæðið í Hafnarfirði var komið myrkur. Kvöldið var því afskaplega vel nýtt til útivistar og svo sannarlega er þessi hópur tilbúinn í hressilega Heklugöngu næsta laugardag, það er alveg ljóst.

Umræðuefni kvöldsins snerist mikið að komandi fjallgöngum og hugmyndum um ferðir erlendis næsta sumar. Margt hrærist í pottinum og sífellt eru að bætast við góðar hugmyndir, m. a. "must-göngur" um Laugaveg og Fimmvörðuháls, tindana 24 á Akureyri og eins óþekktari tinda og gönguleiðir sem bíða einskis nema okkar að sigra.

Möguleikarnir eru óendanlegir eins langt og sjóndeildarhringurinn nær hverju sinni og um að gera að láta hugann reika, því hugarfarið er stærsta hindrunin og allt hægt sé vilji, einurð og sjálfsöryggi fyrir hendi.

Höldum áfram að þjálfa þessa þætti með þeirri elju, staðfestu og samfellu sem margir í þessum hópi hafa sýnt til þessa í ástundun og jákvæðninni sem gert hefur þennan fjallgönguklúbb að því sem hann er...

 

Tíunda æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 28. ágúst og mættu 20 manns í sísta veðri klúbbsins til þessa, rigningu og talsverðum vindi, SA7m/s og 9°C. Stemmningin var hins vegar góð því gleðin við það  að hafa dug til þess að drífa sig af stað upp í fjöllin þegar "veður er vont" er óskaplega gefandi og verðlaunar undantekningarlaust fyrirhöfnina.

Auðvitað reyndi ekki á nokkuð nema búnaðinn í svona veðri, því mannslíkaminn er alls megnugur ef allt er í lagi og hann er á hreyfingu, en fjöllin gáfu okkur auk þess ágætis klapp á bakið, með því að gefa fullkomið skjól þegar gengið var láglendis á milli þeirra.


Lagt var af stað út í hraunið að Eldborginni og gengið með formfögrum gígbarmi hennar með fallegri ásjónu gígsins á vinstri hönd og mótaðri sprungunni norður eftir á hægri hönd. Gengið var vestur að Drottningu í einum rykk upp tiltölulega bratta skriðu og farið að syðri toppi hennar með viðkomu sumra á nyrðri bungu, en þarna hefði útsýnið gefið okkur nokkrar perlur ef veðrið hefði verið annað þetta kvöld. Eftir myndatöku af hópnum var gengið niður vesturskriður hennar og út í gróft hraunið þar sem óljós slóðinn á köflum var nánast búinn að afvegaleiða þjálfara, en fljótlega var komið að rótum Stóra- Kóngsfells.

Gengið var sunnan megin upp með því en slóðar liggja allavega bæði suðvestanmegin og suðaustanmegin og hefði verið æskilegra af hendi þjálfara að ganga frá upphafi eftir einum þeirra til þess að hlífa ásýnd fjallsins. Fljótlega var þó komið að austari slóðanum og gengið með honum svo lengi sem hann var greinanlegur, en svo farið tiltölulega bratt upp grófan, síðasta kaflann upp á topp. Þarna reyndi nokkuð á nýja meðlimi en Örn studdi þó vel við sitt fólk og komst enginn upp með annað en að ljúka uppgöngunni.

Uppi beið okkar ekkert nema lemjandi rigningin og þokan en tilfinningin á toppnum svíkur aldrei, enda allir glaðir með 1:06klst að baki og rúma 2km. Eftir stutta hressingu og myndatöku sem rennbleytti myndavélina, var kannað hve vel þjálfari var að sér í áttunum með áttavita Stefáns og reyndist nánast samræmi þar í milli, enda ágætis regla að temja sér að reyna alltaf að halda áttum eins lengi og unnt er á göngu í óbyggðum og lélegu skyggni. Rætt var um það m.a. á leiðinni hve hæfni til áttunar er þó fljót að bregðast sé gengið í óþekktu landslagi og lélegu skyggni og því nauðsynlegt að hafa meðferðis áttavita til viðbótar GPS-staðsetningartækjum, þar sem enginn þessara þátta, hvorki mannlegu né vélrænu eru algerlega óbrigðulir af ýmsum sökum. Ekki er úr vegi að æfa áttun á æfingum almennt, þar sem gott er að temja sér tilfinningu fyrir umhverfi og áttum, að rekja slóða, leggja kennileiti á minnið og geta rakið sig ósjálfrátt til baka.

Af toppnum var svo gengið aftur af stað niður með suðurhlíðinni en farið austar með móbergsklöppuðu gili niður á slóðann. Aftur gáfu fjöllin okkur notalegt lognið á hraunbreiðunni þarna í millum og því gafst fínasta göngublaðursveður, en í þetta skiptið lét þjálfari afvegaleiðast í blaðrinu... og gekk of langt norður, svo snúa þurfti stuttlega við, en fljótlega vorum við komin aftur á slóðann og gengum svo meðfram Drottningu um fjallsrætur hennar sunnan megin að Eldborg og þaðan að bílunum.

Gangan tók ekki nema 1:49klst í heild enda lítið sem ekkert stoppað eða skoðað sig um vegna veðurs, 4,8km að baki og hækkun upp á ca 97m og 192m. Í betra veðri er upplagt að ganga svolítið um ofan á Stóra- Kóngsfelli (sem við Örn gerðum í síðustu viku svo við giskuðum á 6km göngu) kíkja til allra átta og kanna aðrar leiðir á fjallið sem stendur tiltölulega frítt í þessu litríka umhverfi með Drottningu þó og Eldborgina sér við hlið. Á bílastæðinu var rætt um gönguna á Keili næsta þriðjudag og eins Hekluferðina eftir tæpar tvær vikur, en nánari upplýsingar koma á vefsíðuna og í pósti fljótlega. Hann virtist  einstaklega glaður og þakklátur hópurinn sem týndist inn í bílana sína þetta kvöld að lokinni göngunni þrátt fyrir að vera rennblautir og kannski fljótlega kaldir á leiðinni heim... en eftir svona útiveru eru eins og maður hafi farið í þvott á sál og líkama og komi tandurhreinn og endurnærður heim... hvað er hraustlegra en það?
       ...takk fyrir samveruna...

 

Þátttaka hlaupasveitar Toppfara í Reykjavíkurmaraþoni 19. ágúst 2007

Þrír toppfarar, þeir Þorleifur, Jón Ingi og Grétar Jón kepptu í 10km í Reykjavíkurmaraþoni undir nafni fjallgönguklúbbsins núna um helgina og var sveit þeirra "toppfarar.is" í 15. sæti af 47 sveitum.

Þeir hlupu á frábærum tímum þrátt fyrir að tveir þeirra væru að keppa í fyrsta sinn og var sá þriðji að bæta tímann sinn.

Þjálfarar toppfara eru afskaplega stoltir af sínum mönnum fyrir að toppa í Reykjavíkurmaraþoni, til hamingju strákar! Sjá niðurstöður á www.hlaup.is.

Athugið! Slóðin www.toppfarar.is virkar nú einnig á www.fjallgongur.is og mun sú fyrrnefnda taka við af fyrri slóð.

Ekki er afráðið með örlög www.fjallgongur.is en til að byrja með vísa báðar slóðirnar inn á þessa síðu.

 

Níunda æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 21. ágúst og mættu 10 manns að meðtöldum þjálfurum til þess að taka góðan göngutúr um  þrjú fjöll eða fell í Mosfellsbænum; Æsustaðafjall, Reykjafjall og Reykjaborg (Hafrahlíð). Veður var þungbúið en hlýtt, 15°C og alveg lygnt sem reyndist því hið besta gönguveður þrátt fyrir leiðinlega spá.

Lagt var af stað við malarstæði nyrst í Skammadal og gengið austur upp á Æsustaðafjall að hæsta tindi (220m) og áfram austur eftir fjallinu með útsýni norður yfir Reykjadal og Laxnes og austur yfir búsældarlegan Helgadal þar sem gaf á að líta sumarhús og minkabú. Þarna blasti Grímmannsfell (484m) við okkur og Kötlugil fyrir miðju, en sú ganga bíður okkar 25. september og verður síðasta þriðjudagsæfingin.

Gengið var svo suður með hryggnum upp á Reykjafellið (273m) þar sem við stoppuðum stutt við í spjalli um hollustu útiveru og hreyfingar og var þarna gott útsýni yfir Mosfellsbæinn, Úlfarsfellið, sundin og höfuðborgina að hluta og auðvitað fjallahringinn 360° en skýin skyggðu þar talsvert á svo Hengillinn var t.d. í skýjaslæðu. Niður Reykjafellið gengum við um gullfallegt gil að Varmá og gleymdum okkur í berjamó, en þetta var líklega fallegasti staður gönguferðarinnar með berjalyngi um allt, háum trjám við nokkur hús vestar með og einstaklega fallegum, klapparlögðum og lítið eitt gljúfruðum Varmárfarveginum sem lítið mál var að ganga yfir. Hvílík töfraveröld fyrir þann sem þarna býr...

Eftir klofvegun og skrið yfir og undir nokkrar rafmagnsgirðingar sem reyndust hinar meinlausustu, komum við upp á Reykjaborgina (Hafrahlíð, Hafrafell,) (286m), þar sem við borðuðum nesti og skoðuðum fjöllin allt um kring, en það kom okkur á óvart hve fallegur útsýnisstaður þetta var, þaðan sem sést til allra tíu æfingafjalla fjallgönguklúbbsins og fimm tinda af tólf. Afráðið var að ganga auðveldari leið til baka þar sem vegalengd var orðin rúmir 6km og tíminn 1:58mín, svo gengið var niður Hafrahlíðina vestan megin gegnt Úlfarsfelli eftir slóða og inn Mosfellsbæinn um malarstíg og reiðslóða.

Um Reykjabyggð Mosfellsbæjar þvældumst við í leit að reiðslóða yfir í Skammadal og fengum innsýn í töfraheim þeirra sem þarna eiga hús innan um trálunda og læki, svo stundum var eins og við værum frekar stödd á meginlandi Evrópu en á Íslandi... Lítið eitt var farið að skyggja, nokkrir rigningardropar féllu og mild golan var í fangið það sem eftir leið um Skammadalinn, en annars var logn allt þetta kvöld að undanskilinni golunni uppi á hæstu punktum. Gengið var rösklega inn Skammadalinn eftir malarveginum meðfram hitaveiturörinu og það m.a. rætt hve umhverfið breytist ört kringum fjöll og fell höfuðborgarsvæðisins með nýrri íbúðabyggð og vegalagningu, svo leiða má sterkar líkur að því að eftir einhver ár verðum við ekki á sömu göngutúrum um þessi svæði eins og nú.

Göngunni lauk með 11,4km að baki á 3:10klst í heildina með þrjá lága en víðsýna tinda (220m, 268m, 273m) í reynslubankanum og 200m hækkun auk upp- og niðurgöngu um Varmárgilið og upp Hafrahlíðina (ca 200mx2). Menn voru hæstánægðir með langa og fjölbreytta göngu sem vonandi situr ekki of mikið í nýjum meðlimum fjallgönguklúbbsins... en svo sannarlega vorum við ekki svikin af því að hafa látið okkur hafa það að reima á okkur gönguskóna þetta kvöld, þrátt fyrir veðurspá og hryssingslegt veðrið fyrr um daginn ...

 

Áttunda æfing var þriðjudaginn 14. ágúst og voru 21 manns mættir að meðtöldum þjálfurum, Söndru Ósk, 14 ára og Söru, 16 ára en einnig voru tvær tíkur með í för að sinni, þær Þula og Bella. Gengið var á Skálafell á Mosfellsheiði með það að markmiði að sjá Móskarðahnúka frá öðru sjónarhorni og ljúka smám saman fjallahringnum sem blasir við frá borginni þetta fyrsta starfsár fjallgönguklúbbsins. Veður var anzi napurt þetta kvöld þrátt fyrir nánast heiðskíru eða N10-15 og hiti um 6-9°C. Hávaðarok var strax frá upphafi og leitaði hópurinn skjóls sunnan við einn skálann, þar til lagt var í hann eftir stutta tölu þjálfara.

Gengið var beint upp skíðasvæðið í norður yfir grjót og mosa og ekki komið að akveginum fyrr en uppganga var rúmlega hálfnuð. Talsvert teygðist úr hópnum en vegna kulda og roks var lítið hægt að hinkra við fyrr en komið var upp að mastrinu, þar sem skjól gafst sunnan við hrörlega bygginguna. Menn hvíldu sig stuttlega þarna uppi og einhverjir skoðuðu útsýnið, en vegna veðursins var ekkert notalegt við að vera á toppnum og menn drifu sig fljótlega niður, hver á sínum hraða. Nokkrir Móskarðahnúka-langar gengu þó norðvestur fyrir mastrið og skoðuðu líparítfjöllin suðaustanmegin frá og var ekki annað hægt en dást að þessum fögru tindum móskarðanna og eins gaf fallegt útsýni yfir í Hvalfjörðinn og að Þingvallavatni þó moldrokið deyfði sitthvað sýnina.

Gangan niður á við var í meðvindi og fóru sumir niður með veginum og svo skíðalyftunum, en tveir fóru beint niður og gaf sú ganga um 5km með uppgöngunni. Við Örn höfðum mælt gönguvegalengdina kringum 7,5-8km í heild miðað við akveginn sem ekki reyndist réttileg áætlun þar sem leiðin varð mun styttri með göngu upp skíðabrekkurnar. Í reynd lauk hópurinn því við um 5,4km göngu í heild, 350m hækkun og 774m háum tindi á þessari kuldalegu æfingu sem minnti á að haustið er ekki langt undan þó eflaust bíði okkar mun betri kvöld en þetta, áður en sumaræfingum lýkur í ár. Þeir sem mættu nýir þetta kvöld fengu fremur skakka nasasjón af því hvernig æfingar toppfara hafa gengið síðustu vikur í blíðskaparveðri og notalegheitum, svo vonandi láta þeir ekki deigan síga eftir fyrstu tilraun. Vanir toppfarar geta bætt Skálafelli í safnið og verið þakklátir fyrir veðursæld sumarsins, en ljóst má vera að af öllum veðrabrigðum sem bjóðast er napra, íslenska hávaðarokið líklega það sísta sem maður óskar sér þegar útivera er annars vegar... jafnvel þó það geti verið á kostnað útsýnisins...

 

Sjöunda fjallgönguæfing Toppfara var þriðjudaginn 7. ágúst og gengu 14 manns á Esjuna upp að steini í þungskýjuðu en hlýju veðri og talsverðum vindi. Örn leiddi þessa göngu þar sem Bára var með flensu og lét sér nægja að hitta hópinn, spjalla og fá fréttir áður en lagt var í hann. Guðbrandur fór á undan hópnum og eins fór Sigríður með hraði upp brattari leiðina og var um 50mín upp. Mæðgurnar Ragnheiður og Kristín, 11 ára lögðu sömuleiðis af stað á undan og misstu af hópmyndatökunni við steininn, en smelltu bara sjálfar af sér þarna uppi við í rokinu - sjá mynd.

Hópurinn gekk annars rösklega í góðu tómi undir dyggri stjórn Arnar sem lék leiðsögnina á sínum léttari nótum og tókst víst að halda aftur af einhverjum "ólmurum" með því að setja ónefnd viðurlög við því að arka á undan þjálfara upp... Gengin var lengri leiðin meðfram Mógilsánni og svo styttri niður og steinninn látinn nægja þar sem skýjað var og hvasst ofarlega. Veður var gott til göngu við fjallsrætur, þungskýjað og hlýtt, 13°C. Skyggni var gott framan af, en skýhnoðrar ofarlega og talsvert rok en ekki rigndi á göngumenn nema nokkrum dropum þó rigningarlegt væri.

Æfingin tók 1:49mín í heildina og var mikið spjallað enda oft þéttari stemmning í smærri hópi. Mættir þennan dag voru nokkrir sem hafa verið duglegir að ganga í sumarhléinu, bæði með öðrum toppförum á þriðjudögunum og eins á eigin vegum og er ósegjanlega gaman að heyra af slíkum landvinningum. Toppfararnir sem gengið hafa s.l. fjóra þriðjudaga án þjálfara gengu sautján saman inn Hvalfjörðinn að hæsta fossi landsins, Glym, sjö manns gengu á Keili, níu á Helgafell Hf og sex á Vífilsfellið (ath réttar tölur?) - sjá myndasíðu Gylfa Þórs http://www.sotthreinsun.is/toppfarar/ 

Esjan var hér með gengin í síðasta sinn á æfingu í sumar, en við Örn munum finna dag í haust til þess að "skokka" upp að steini og er skorað á þá sem vilja að koma með og komast að því hvað þeir eru fljótir að "flýta sér" upp að steini með því að arka eða skokka... mig grunar að sumir séu orðnir forvitnir að vita hvaða tíma þeir gætu átt á þessari leið sem nú er orðin anzi hversdagsleg fyrir suma og ekkert nema gaman að prófa að skjótast þarna upp fyrir veturinn og prófa svo aftur í vor og bera saman tímann...

 

Helgafelli í júlí 2007 - Gylfi Þór

Sjá ferðasögu og myndir á http://gylfigylfason.123.is/pictures/cat/6715/

 

Toppfarar á forsíðu tímaritsins Útiveru í júlí 2007

Forsíða tímaritsins Útiveru í sumar er af toppförunum Guðmundi og Kristínu.

Myndin var tekin þegar við gengum á tind nr. 2, Móskarðahnúka 3. júlí 2007.

Ferðin á Móskarðahnúka var einstök í sól og logni og stemmningin eftir því.

 

Sjötta æfing Toppfara var þriðjudaginn 26. júní og voru 28 manns mættir á Esjuna til að ganga alla leið upp á topp ásamt hundinum Bellu og 5 börnum og unglingum; Þorbirni Braga 5 ára, Kristínu, 11 ára, Eyþóri 13 ára, Ásdísi Maríu 14 ára og Gunnari 15 ára.

Veðrið var frábært; heiðskírt, NV3 og 15°C. Við upphaf göngunnar var smá gola og logn lengi vel á leiðinni sem kallaði fram sérstaka upplifun í fjallshlíðinni innan um allan fjöldann af fólkinu sem var á ferli þetta kvöld.  Vindurinn jókst hins vegar þegar ofarlega var komið og var rok uppi á toppnum.

Hópurinn var í góðum gír og sumir greinilega komnir í ágætis form eftir göngur síðustu vikurnar.

Margir kusu því að fara á sínum hraða upp, enda orðið nokkuð heimilislegt að ganga Esjuna þegar veðrið er svona gott og margir á fjallinu.

Þjálfarar gengum með þeim sem ekki höfðu farið áður upp á topp, en flestir gengu á eigin vegum frá steininum og gekk það vel.

Sjö Toppfarar gengu niður frá steininum og stefna á toppinn síðar. Þjálfarar ákváðu eftir vettvangsmat fyrr um daginn að fara upp gilið vinstra megin þar sem jarðvegur var mjög þurr og hætta á að renna til í mesta brattanum, en sumir völdu leiðina um klettana þar sem keðjur eru, enda vanir þeirri leið.   

Þorbjörn Bragi, 5 ára á toppi Þverfellshorns ásamt öðrum Toppförum

 


Komið var upp á toppinn eftir um 1:48klst göngu og var skrifað í gestabókina, borðað nesti og teknar myndir af áhrifamiklu útsýninu.

Ekki náðist eiginleg toppmynd af hópnum, þar sem menn komu upp á mismunandi stað og hraða og lítið var hægt að staldra við uppi sökum roks.

Einn toppfari, Stefán, ákvað í samráði við þjálfara að ganga alla leið að Hábungu, hæsta tindi Esjunnar 914m í hávaðarokinu, en það gekk vel og kom hann niður um kl. 22:15, eftir 4:15klst göngu.

Hann sagði útsýnið ekki svíkja þann sem gengi upp á hæsta tindinn, enda vítt til allra átta þegar er heiðskírt og skyggni gott eins og þetta kvöld.

Niðurleið gekk vel, talsvert lygnara var þegar neðar dró og voru síðustu menn 2:53klst á æfingunni með 6,9km að baki, 770m hæð og hækkun upp á 720m. Frábær endir á þessu fyrra æfingatímabili sumarsins og verður næsta æfing sem fyrr segir þriðjudaginn 7. ágúst á Esjuna.

 

Fimmta æfing Toppfara var þriðjudaginn 19. júní og voru 30 manns mættir á Helgafellið í Mosfellsbæ með þjálfara ásamt honum Eyþóri, 13 ára, Hilmi 2ja ára og tíkunum Bellu og Vísu sem eru farnar að kunna mjög vel við sig með fjallgöngugörpunum. Við upphaf göngunnar fór þjálfari með draugasögu um hjúkrunarkonuna sem lést með voveiflegum hætti á hernámsárunum þarna í Ásum (upphafsstaður göngunnar), enda var sjúkrahús byggt á þessum tíma norðan við akveginn á þeim árum. Sögur segja af vofu þessarar konu sem stöðvi bíla á dimmum kvöldum og fái far, en sé skyndilega horfin þegar bílstjórinn ætli að hefja spjall við farþegann eða hleypa henni út að loknum akstri. Var rifjuð upp frásögn Péturs Guðmundssonar (1906-1978), bónda í Laxnesi sem lýsti persónulegri reynslu sinni af þessum kvendraug þegar hann bauð henni far: "Allt í einu greip hún eldsnöggt með annarri hendinni um stýrið og þverbeygði út af veginum svo bíllinn stakkst út af, en um leið og hún greip í stýrið, leið eins og sársaukastuna frá henni. Ég gerði mér ekki grein fyrir neinu, en rauk út úr bílnum hljóp aftur fyrir hann og þegar ég kom að hinni hurðinni, þreif ég hana upp og rétti höndina inn í bílinn, því ég var ákveðinn í því að farþeginn skyldi út hvað sem tautaði. En - hönd mín greip í tómt... það var enginn í sætinu"...

Blíðskaparveður var þetta kvöld; sólskin, V3 og 12°C en þó talsvert mistur sem spillti aðeins fyrir útsýninu og olli því að ekki var hægt að skoða vel landslag og toppa Esjunnar, Móskarðahnúka, Skálafell, Vífilfell, Stóra Kóngsfell, Húsfell og Helgafell í Hafnarfirði m. a. Þetta var mjög létt æfing í það skiptið, enda ágætt að gíra sig svolítið niður eftir hressilega göngu á Vífilfellið fyrir fimm dögum. Gengið var af stað í 115m hæð yfir sjávarmáli og farið upp með vesturhlíð Helgafellsins, en þar með var uppgangan nánast í höfn enda ekki hátt fjall, Helgafellið í Mosó eða 217m (215m) og hækkunin því 102m. Gengið var á nokkra hnúka þarna uppi, skrifað í gestabók og farið að útsýnisstaðnum norðanmegin sem við kölluðum "Látrabjarg" þeirra Mosfellinga. Þarna gaf yndislegt útsýni yfir fjallgarðinn norðan við borgarbyggðina og blómlegu sveitina fyrir neðan, svona rétt við bæjardyrnar...

Gengið var svo austur með fellinu og þegar komið var niður í Stekkjargil bar þjálfari undir hópinn hvort farið skyldi hefðbundna leið suður og svo inn Skammadal eða fara austur niður með Stórhól og þaðan með hlíðinni norður að Þingvallavegi, en sú leið er styttri en grýttari. Auðvitað kaus hópurinn að taka torsóttari leiðina, enda það létt ganga að baki að ágætt var að taka svolítið á því svona í bakaleiðinni.

Vel gekk að fara þessa leið og var gengið svo niður með blómlegum mýrarlæknum að malarveginum og þaðan göngustíginn að bílastæðinu; 4,6km að baki, 217m hæð og hækkun upp á 102m (opinberar tölur í smá ósamræmi við gps frá Óskari). Sól skein hátt á lofti að lokinni göngunni enda bjartasti tími ársins í hönd, en fljótlega varð skýjað með kveldinu og hópurinn því heppinn að hafa náð æfingunni í kvöldsólarblíðunni.

 

 

GPS LOFTMYND AF LEIÐINNI
FRÁ ÓSKARI.
UPPHAFSSTAÐUR VIÐ ÁSA.

 

 

 

 

 

GPS ÞVERSNIÐ AF HÆKKUNINNI Á LEIÐINNI
FRÁ ÓSKARI.

 

 

 

 

 

 

Fjórða æfing toppfara var Esjan þriðjudaginn 5. júní og mættu 13 manns með þjálfara og hundinum Vísu í ískyggilegu veðri; þungskýjuðu og roki; SA11 og 11°C. Veðrið hefur sjálfsagt valdið því að ekki voru fleiri mættir, og miðað við grenjandi rigninguna og rokið í bílnum á leiðinni upp að Esjurótum, var þjálfari farinn að halda að enginn myndi leggja í hann þennan þriðjudaginn. Annað kom á daginn og mættu tólf vaskir toppfarar, 5 konur og 7 karlmenn, sem hér með kallast "hetjurnar tólf" enda þjálfari afar stoltur af þeim fyrir að láta ekki veðrið loka sig inni!

Ákveðið var að halda hópinn allan tímann og lagt af stað í tiltölulega lygnu veðri við fjallsrætur en gengið rösklega upp. Þar sem við vorum þarna þrettán nógu miklir jaxlar til að láta okkur hafa það að mæta og storka víðsjárverðu veðrinu, sem ekkert virtist ætla að reyna á okkur í raun, var ákveðið í hetjuskapnum við áfanga 3, að ganga brattari leiðina upp að steini. Sú ganga var gengin nánast án hlés og var kominn mikill strekkingur á efsta kafla, svo reyndi á jafnvægi og þrautsegju, en ekkert gefið eftir og gengið nánast sleitulaust alla leið upp. Komið var upp að steini eftir 1:05klst göngu, 2,8km að baki og hæðin sem fyrr 597m. Útsýnið var lygilega gott en þó skýjað ofar, á toppnum og engin rigning ennþá!

Lítið skjól var við steininn, svo stoppið var stutt enda gat allt fokið út í veður og vind þarna uppi, en við pústuðum þó aðeins og spjölluðum í sæluvímunni yfir að hafa tekist að fara alla leið að steini, þar sem veðurútlit gaf tilefni til þess að æfingin yrði í styttra lagi og jafnvel ekki farin.

Á niðurleiðinni fór fljótt að lygna með lækkandi hæð, en skyndilega fór veðrið almennt batnandi og vorum við komin í sól og blíðu síðasta kaflann, svo ótrúlegt sem það mátti nú vera, eftir grenjandi rigningu og rok þennan dag; dæmigert íslenskt veður beint í æð! Komið var niður eftir nákvæmlega 2:00 (og 2sec!) klst göngu og 5,77km að baki í breytilegu veðri og voru menn almennt vonsviknir yfir því að ekkert rigndi á göngunni þrátt fyrir þungskýjað veður, því auðvitað ætluðum við að prófa búnaðinn okkar í slagviðri!

Mjög góð stemmning myndaðist í hópnum á þessari æfingu, enda það fáir mættir og var rætt um fleiri fjöll til að ganga á kringum höfuðborgarsvæðið í stað Esjuæfinga. Þá var rætt um hugsanlegar æfingar yfir vetrartímann og lagt á ráðin með framtíðargöngur eins og tindana 24 frá Akureyri sem gengnir eru í einum rykk á 24klst í júlí hvert sumar og væri gaman að stefna að slíku sumarið 2008!

Lexía æfingarinnar var dýrmæt: Veðrið er sjaldan eins slæmt og það lítur út fyrir að vera, þó ávalt sé varinn góður. Maður getur meira en maður heldur og með því að upplifa vald á aðstæðum sem eru krefjandi eða víðsjárverðar, þá lærir maður af reynslunni, þjálfar hugarfarið og öðlast sjálfstraust til þess að ganga lengra næst. Gott er að nota æfingar þegar "veður er krefjandi" til þess að prófa búnaðinn sinn, t.d. hvernig virkar hann í miklu roki, rigningu, hálku, bleytu... hvernig virka vasarnir við þær aðstæður, er hægt að opna þá blauta og klessta í rokinu, jafnvel með vettlingum.. hvar er best að geyma vatnsflöskuna, símann, vettlingana, myndavélina þegar veðrið er þannig að maður er ekki að taka af sér bakpokann auðveldlega... tollir bakpokinn vel í miklum vindi... eru buxurnar mínar örugglega vatnsheldar... lekur nokkuð ofan í skóna þegar buxurnar lyftast upp í háum skrefum eða ná þær að vera utanyfir eða þarf ég að fá mér legghlífar... o. s. frv.

Hlakka til að ganga með ykkur aftur í "krefjandi veðri" þar sem við æfum búnaðinn í grenjandi rigningu... við eigum það sko alveg eftir, án þess að ég óski nú sérstaklega eftir því...

 

Þriðja æfing toppfara var Úlfarsfell þriðjudaginn 29.maí og mættu 34 manns að meðtöldum þjálfara í frábæru veðri, sólskini, 12°C og vindi. 

Hundurinn Vísa mætti í annað sinn, en engin börn voru með í för að þessu sinni. Hafði þar líklegast áhrif að varað hafði verið við því að leiðin yrði ógreiðfær og ætluðu einhverjir toppfarar að ganga hefðbundna leið með börn með sér þetta kvöld og væri gaman að frétta af þeim gegnum tölvupóst!

Gangan gekk mjög vel og var áð stuttlega einu sinni við Litla hnúk, en annars gengið fremur rösklega upp á toppinn á Stóra hnúk á 27mín, komin í 295m hæð og var útsýnið óaðfinnanlegt í 360°.

Þar skrifaði hópurinn í gestabókina og tekin var hópmynd, en talsverður vindur var á toppnum.

Gengið var svo niður á næsthæsta toppinn þaðan sem gaf gott útsýni yfir Reykjavíkurborg í heild og sundin og áði hópurinn þar með nesti og spjalli.

Gengið var svo sömu leið til baka og komið að bílum eftir 4,75km göngu, en æfingin í heild var 1:46mín.

Þessi æfing heppnaðist mjög vel þar sem gangan var talsvert léttari og hópurinn gat spjallað meira innbyrðis en á Esjunni.

Talsvert margir eru að mæta á allar æfingarnar sem er afskaplega ánægjulegt því þannig þéttist hópurinn og kynnist betur.

Hér er hækkunin sýnd út frá gps-tækinu hans Óskars:

 

Önnur æfing fjallgönguklúbbsins var Esjan, þriðjudaginn 22. maí og mættu 36 manns að meðtöldum þjálfara.

Einnig mættu Kristín, 11 ára og Eyþór, 13 ára og hundarnir Bella, Tinni og Vísa sem öll stóðu sig vel og voru krakkarnir með þeim fyrstu upp að steini án þess að blikna, enda bæði með einhverja reynslu af fjallgöngum.

Veður var mun betra en á horfðist þennan dag eða 11°C, léttskýjað og svöl gola þegar komið var upp í hlíðarnar.

Snjóskaflar voru á stöku stað efst við steininn enda vorum við nokkurn veginn komin að snjólínu, en skyggni var frábært, sól skein meirihluta tímans og útsýnið eftir því!

Uppgangan gekk mjög vel og var farið lítið eitt hraðar en síðast en nánast allir höfðu mjög gott vald á göngunni.

Áð var í gilinu við Mógilsána í 400m hæð eftir 2,6km göngu og þar fóru fjögur niður aftur ásamt Bellu.

Einn Toppfari, Þorleifur, bættist þar í hópinn sem hafði komið tæpan hálftíma of seint á æfinguna og nánast hlaupið upp á eftir hópnum!

Átta manns fóru strax upp frá áningarstaðnum og einnig lögðu samtals átta manns fyrr af stað upp hlíðina, eftir áningu.

Komið var að steini eftir 1klst og 24mín en þó komu fjögur lítið eitt síðar upp og voru tvö þeirra að fara Esjuna í fyrsta skipti.

Vegalengd við stein var 3,63km og hæð sem fyrr 597m. Einn úr hópnum fór alla leið á toppinn, enda vanur maður á ferð og var snjór á toppnum.

Tekin var hópmynd við steininn og dreifðist hópurinn svo á leiðinni niður, en farið var styttri og brattari leiðina eins og síðast.

Fyrstu undanfarar voru 1:58klst í heild á æfingunni en síðustu menn 2:35klst og var vegalengd í heild 6,6km.

 



Lagt af stað fyrsta kaflann


Hópurinn með þjálfara fremst ásamt Jóni Kristni, 5 ára sem var mjög duglegur...


Áning við Mógilsá efst. Hækkun um 400m. Hér verða oft veðrabrigði og orðið kaldara og vindasamara
 þegar ofar dregur þaðan


Hópurinn á leið upp brattann

Fyrsta æfing Toppfara var þriðjudaginn 15. maí og mættu 24 manns að meðtöldum þjálfara og hundinum Bellu.

Yngsti þátttakandinn var 5 ára og sá elsti 49 ára og voru allir í góðum gír.

Ein fór fyrr niður, eftir ca hálfa leið upp (hæð um 300m), enda með hann Jón Kristinn, 5 ára með sér en hann stóð sig mjög vel og kemur vonandi með okkur aftur, enda eru fjöllin sem við ætlum að ganga á kringum borgina næstu þriðjudaga flest auðveldari en Esjan.

Áning var við Mógilsá efst við áfanga fjögur, þar sem fyrri bratti hefst (hæð um 400m) og fór ein niður eftir það, en aðrir gengu upp að steini, 597m.

Eftir stutt stopp þar og hópmyndatöku í svölum og rökum vindinum, var afráðið að ganga styttri leiðina niður til baka.

Fjögur af hópnum höfðu farið á undan frá Mógilsá upp að steini og eins dreifðist talsvert úr hópnum á niðurleið, en fyrstu toppfarar voru komnir niður kl. 20:10 og sá síðasti 20:45.

Þar var teygt og er stefnt að því að hafa léttar teygjur eftir hverja göngu.

Veðrið var milt og gott, skýjað og regndropar öðru hvoru en lítill vindur nema þegar ofar dró og hiti um 9C. 

Ég vil benda þeim á sem fengu harðsperrur í lærin og kálfa og verki í hnén að slíkt er dæmigert fyrir þetta langa vegalengd upp og niður á við í þessum bratta, séu menn ekki vanir fjallgöngum þó þeir séu annars í góðri þjálfun. 

Almennt er gott að styrkja vel fótavöðva fyrir fjallgöngur, ásamt kvið- og bakvöðvum, t.d. með tækjaþjálfun (lyftingar). Framstigsæfingar eru kjörin leið til þess að þjálfa upp framanverða lærvöðva og eins er gott að fara á stigvélina (fætur-kálfar, bakendi), skíðavélina (fætur + efri hluti) eða nota brettið í halla til að þjálfa kálfa, bakenda og læri.

Eðlilegast er að stunda fjallgöngur reglulega og þeir sem ganga vikulega munu fljótlega þjálfast í fótunum og hætta að finna fyrir harðsperrum eftir gönguæfingarnar.

Ganga eins og þessi fyrsta Esjuganga er sannkölluð gæðaæfing óháð því hvers konar þjálfun fólk er almennt að stunda eða stefna á. Þétt ganga upp í þetta mikla hæð, þ.e. 550m hækkun er mjög góð þolþjálfun fyrir lungu, hjarta- og æðakerfi og þarna styrkist auðvitað stoðkerfið í leiðinni (kálfar, læri o.fl.), en svo við niðurleið snýst dæmið við og minna reynir á þol (þó samt) og meira á styrk vöðva og beina, sérstaklega framanverð læri, sannkölluð styrktaræfing síðari hluta göngunnar.

Göngustafir eru mjög góðir fyrir þá sem viðkvæmir eru í hnjánum, þar sem þeir gefa mikinn stuðning við niðurleið og létta á álagi á hnén og um leið gefa þeir aukið jafnvægi, sérstaklega fyrir þá sem eru smeykir í bratta eða brösóttu undirlagi.

Þá er gott að stoppa stuttlega öðru hvoru á niðurleiðinni til að gefa vöðvunum tækifæri til að jafna sig, þar sem það er stöðugt átak fyrir lær- og fótavöðva að bera líkamann niður brattann í kannski hátt í klukkustund og mæðir þar mikið á hnjáliðina.

Að lokum vil ég ítreka mikilvægi næringar við þjálfun eins og fjallgöngur og þarf að huga vel að þessu þar sem æfingin er á mikilvægum matmálstíma.

Nauðsynlegt er að vera vel nærður yfir daginn fyrir gönguna, drekka vel á leiðinni vatn og/eða kolvetnaríkan drykk, en annars hafa með sér eitthvað sætt að narta í eins og rúsínur, súkkulaði, kex, banana, brauð eða annað nesti.

Lítið gagn er í æfingu þar sem manni líður illa undir miklu álagi og jafnvel kominn með svima, ógleði og höfuðverk af vökva- og sykurskorti eftir mikla áreynslu. Þessi vanlíðan getur jafnvel komið síðar, t.d. í bílnum á leiðinni heim, hjá þeim sem ekkert eða lítið drukku eða nærðust á göngunni.

Slík upplifun veldur því ósjálfrátt að maður á erfitt með að koma sér af stað aftur á æfingu, sem er alger óþarfi og illa gert gagnvart sjálfum sér. Athugið því vel að hluti af því að taka gæðaæfingu sem tekur langan tíma, eins og fjallgöngu, er að næra líkamann til samræmis við það.



 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is