Æfingar alla þriðjudaga frá júlí út september 2013
í öfugri tímaröð:

Sandsfjall Flekkudal 24. september
Laugagnípa 17. september
Stóra Reykjafell 10. september
Hafnarfjallsöxl syðri 3. september
Tröllafoss, Þríhnúkar og Haukafjöll 27. ágúst
Reykjavíkurmaraþon 24. ágúst
Vörðuskeggi þriðjudaginn 20. ágúst
Tjarnarhnúkur og Lakahnúkur Ölkelduhálsi þriðjudaginn 13. ágúst
 

Sandsfjall í Flekkudal Esjunnar
... þar sem "voraði" snemma þetta haustið...

Þriðjudaginn 24. september mættu 33 á æfingu sem er heldur meira en síðustu vikur...
 enda "vor í lofti" að manni fannst eftir erfið veður síðustu misseri ;-)

... já, það var orð að sönnu... ilmandi sveitin að bæjunum Grjóteyri og Flekkudal yljaði hjartanu vel og við gengum í hita og svita upp snarpar brekkurnar á Sandsfjallið svokallaða sem gefur sterkan svip norðan megin yfir Meðalfellsvatni...

Sjaldséðir hrafnar á ferð eins og Steini Pé og fleiri... mikið óskaplega eru þeir kærkomnir þegar þeir mæta ;-)

Paradísarhnúkur í baksýn hægra megin en þar uppi eigum við magnaðar myndir af fyrri göngum í safninu
þar sem gengið var á níu tinda kringum Flekkudal í maí 2012 í blíðskaparveðri alla leið...

Mættir voru:

Helga Bj., Kristín Gunda, Svala, Halldóra Þ., Kristján, Björn Matt, Steinunn Sn., Guðmundur Jón, Jakob, Ólafur, Jóhann Ísfeld og Mili, Örn, Guðmundur Víðir, Guðný, Lilja Sesselja, Steini Pé, Ingi og Gylfi.
Neðri: Brynja, Gerður J., Dóra og Drífa, Nonni, Þórunn, Katrín Kj., Sigga Sig.,, Arna, Súsanna, Rósa, Ágústa, Heiðrún, Soffía Rósa og Ágúst en Bára tók mynd...

... með Hafnarfjallstinda og Skarðsheiðina í baksýn aftan við Hvalfjörð og Meðalfellsvatn og Meðalfell næst... en Skarðsheiðin lætur ekki að sér hæða og er orðin hvít í efstu hlíðum eins og fjallatöffaranum sæmir ;-)
... eftir henni gengum við allri endilangri með nýrri krefjandi uppgönguleið á Heiðarhornið sjálft í júní í ár í ágætis veðri
og telst vera "ofurganga ársins" í staðinn fyrir Laugaveginn sem aldrei var farinn í einum rykk þetta árið...

Rökkrið læddist inn í kvöldkyrrðina og fór svo hljóðlega að við tókum varla eftir því...

Botnssúlurnar hálf Himmalay-ískar að sjá í fjarska... hvítar með skýin leikandi um sig miðja... eða voru það kannski bara Nepal-fararnir sem sáu þær með þeim augunum?... hugurinn sífellt að máta alla hluti við það sem fyrir er að hrærast innan í honum ;-)
... einnig ansi sætt að rifja upp sigurinn á þeim öllum fimm súlunum í júní í fyrra í brakandi sólarblíðu...

Sandsfjallið er fagurt sunnan megin... þverhnípt og klettótt og giljótt og litríkt... en bara eintóm heiði upp eftir til norðurs kílómetrunum saman þar sem við gengum... svo þjálfurum fór fljótt að leiðast og ákváðu að snúa til baka úr 460 m hæð og þreifa sig frekar eftir brúnunum í myrkrinu með ljósin og vatnið fyrir neðan í húminu, frekar en að þvælast upp á hæstu bunguna á þessari endalausu leið sem nær alla leið inn að Laufskörðum en var engan veginn möguleg á einu kveldi... já, þess virði að þræða sig á góðum degi hringinn kringum Flekkudal og koma við á stórfenglegum útsýnisstöðum og tindum eins og við gerðum í fyrra...

Endað í algeru myrkri í ilmandi sveitinni sem hvergi sýndi bilbug á sér gagnvart haustinu þennan dag.. veit ekki hvað gerðist svo í slagviðrinu um nóttina... en þetta kvöld var fullkomið að öllu leyti og þakklætisvert að fá það mitt á milli leiðviðranna...

Alls 5,3 km á 2:29 klst. upp í 463 m hæð með 509 m hækkun alls miðað við 71 m upphafshæð.

Tímataka á Esjunni upp að steini næsta þriðjudag og þjálfarar í Berlín það kvöldið... Siglufjörður svo þarnæstu helgi og það stefnir í 30 manna ferð... enda verður veðrið á Sigló akkúrat eins og þetta septemberkvöld... milt, lygnt og kyrrlátt... um snjóföl fjöll með óskertu útsýni um landið allt norðanvert... svo hlátrasköllin munu glymja fjallgarða á milli...
hvað annað þegar við erum á ferð? :-)

 

 

Vel sloppið á Laugagnípu
í skjóli á góðum köflum en hvössum vindhviðum og vetrarkulda ofar

Þriðjudagurinn 17. september var þriðji dagurinn í röð þar sem norðan hvassviðri gekk yfir landið með himinháum vindhviðum og kulda og ofankomu fyrir norðan... menn voru tvístígandi með göngu þetta kvöld þar sem veðrið var ekki gengið niður og átti ekki að gera það fyrr en undir miðnætti... og eðlilega beygur í mönnum þar sem mikill vindur er ekki heppilegur á fjallgöngu... en við vorum nú þegar búin að færa Laugagnípu einu sinni til á dagskránni vegna veðurs... það var loksins bjart og gott skyggni og eftir vikulöng... eiginlega mánaðalöng "leiðviðri" var okkur ekki stætt á öðru en halda okkar striki í þessari veðurtíð... og því var haldið plani með að ganga á Laugagnípu í þeirri von að þar fengist allavega skjól til að byrja með í gljúfrinu og í suðurhlíðum, þó við yrðum að sleppa brúnunum fögru sem var jú aðaltilgangur þessarar gönguleiðar...

Þetta rættist framar vonum og við lögðum bílunum í algeru logni... en fengum svo vindhviðurnar yfir okkur þegar við vorum að græja búnaðinn... og svo kom aftur logn... og þannig var kvöldið... skjól á köflum eins og í gljúfrinu og upp með brekkunum... en svo gekk á með vindhviðum sem þó urðu aldrei verulegar og oft verið mun hvassari í göngum okkar á þriðjudögum og í tindferðum... og alltaf jafn gaman að rifja það safn upp ;-)

Hópmynd meðan veðrið var gott að hætti Jóhönnu Fríðu gleðigjafa:

Bára, Björn Matt., Dóra, Doddi, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Irma, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Fríða, Jóhannes, Katrín Kj., Nonni, Ólafur, Ósk, Rósa, Rikki, Sif, Sigga Rósa, Soffía Rósa, Steinunn Sn., Súsanna, Svala og Örn.

Frábært að sjá eljuna í nýliðunum þetta haustið ;-)

Hækkunin var þétt upp brekkurnar alla leið og hér var skjól lengstum þegar ekki gekk á með hviðum...
ótrúlega óstöðugur vindur í þessu þriggja daga hvassviðri...

Kvöldsólarlagið yljaði okkur gegnum vindinn og kuldann ofar...

...og sólarslegið útsýnið var mikils virði eftir rigningartíðina síðustu mánuði...

Hjartað hennar Ástu Henriks fylgir okkur í hverri ferð...
enda er hlýtt hjartalag Toppfara það gangvirki sem heldur klúbbnum uppi sama hvað á gengur...

Upp úr 500 metrum tók snjórinn smám saman við og við gengum inn í veturinn...

... og það var ansi kuldalegt í kring á Þverfellshorni og Kistufelli...

Himininn úfinn í hvassviðrinu og skýjafarið ofan á Esjunni fráhrindandi
en þetta slapp alla leið upp að skýlausri Laugagnípunni og brúnum hennar...

Vetur ríkti þar og það kviknaði löngun til hálkubrodda en þetta slapp...

Heldur óstöðugar vindhviður fældu okkur frá brúnunum en við freistuðumst til að ganga samt innarlega með þeim niður eftir dýrðinni sem þarna er... falinn fjársjóður og mun fallegri leið en á Kerhólakamb...

Hvílík fegurð og elja... svo erum við að kvarta og kveina !

Enginn fór út á brúnirnar nema Bónó að skipun þjálfara... eða var þetta Moli? ...en það var ekki skrítið að hann freistaðist...
þarna er heill heimur sem hægt er að dóla sér um og skoða á friðsælu kveldi í kvöldsólarlagi...

Niður var svo farið frá miðjum brúnum... við slepptum síðustu gnípunum sem geyma eina flottustu myndina í sögunni af nokkrum af kraftmestu göngumönnum klúbbsins... og gengum inn í rökkrið og svo myrkrið alla leið í bílana með höfuðljósin frá gljúfrinu og yfir ánna...
... og fundum Ósk á niðurleið en hún hafði komið seinna á æfinguna og auðvitað ekki látið neitt stöðva för þó seint væri og náði upp í brekkurnar áður en hún sneri við með okkur... hvílík aðdáunarverð þrautsegja í þeirri konu allta hreint... og svo fer hún eins og aðrir langt á gleðinni / jákvæðninni einni saman  ;-)

Alls 5,5 km á 3:01 klst. upp í 696 m hæð með 758 m hækkun miðað við 59 m upphafshæð.

Menn hæstánægðir og þakklátir með krefjandi og gefandi æfingu sem var kærkomin í þessu erfiða veðri sem lítil lát eru á...
en þá er víst ekkert annað í stöðunni en að láta sig hafa það, klæða sig vel og
gera það besta úr því sem er hverju sinni ;-)



 

Stóra Reykjafell
...taka tvö í slagviðri á Hellisheiði þetta haustið...

Æfingin 10. september var tvísýn vegna slæmrar veðurspár seinnipartinn þennan dag...

... en slapp fyrir horn með styttingu á leið...

... þar sem við komumst upp með að fara fyrri slóðir upp á hæsta tind...

... en þar var heldur hvasst og blautt...

... hjá þeim 22 manns sem þó mættu í þessu veðri... Halldóru, Þ., Dodda, Hildi vals., Katrínu G., Sigríðu Örnu., Björgvini, Siggu Sig., Helægu Bj., Völlu, Erni, Þórunni, Soffíu Rósu, Lilju Sesselju, Jakobi, Rannveigu, Gerði Jens., Steinunni Sn., Jóhanni Ísfeld, Gylfa, Nonna, Örnu og Báru sem tók mynd með Bóno og Mola einhvers staðar þarna í slagviðrinu...

... og hvassast var það í skarðinu milli hnúkana norðan megin...

... svo hvasst að men þurftu að leggjast niður og bíða nokkrum sinnum svo við slepptum vestari hnúknum og snerum við niður seinna skarðið í dalinn sem stytti gönguna um einhverja 400 metra...

... en boy, ó, boy, hvað það varð strax lygnara niðri og við fórum fljótlega að trúa því að það væri farið að lægja eins og átti að gera er liði á kvöldið... en það var ekki stætt á lengri göngu í þetta sinnið... alls 2,7 km á 1:03 klst. upp í 526 m hæð með 258 m hækkun miðað við 326 m upphafshæð... uss... ekki var það langt það árið ;-)

Rigningin... skúrirnir... þungbúnu skýin...vindurinn... slagviðrin þessar vikurnar reyna á taugarnar... en það er ekkert annað við því að gera en gera það besta úr öllu saman og njóta hvers augnabliks sem gefst... til að fara út að leika í góðra vina hópi ;-)

Ekki góð veðurspá aðra helgina í röð fyrir Prestahnúk og þjálfarar gæla við Krakatind að fjallabaki í staðinn ef veður leyfir...
og hafa eina helgi til viðbótar til þess arna að reyna og vona það besta með veður ;-)
 

 

 

Skin, skúr, vindur og kuldi
á gullfallegri göngu
um sögulegar slóðir Hafnarfjallsaxlar syðri

Hún var ansi ólík upplifunin á Hafnarfjallsöxl syðri haustkvöldið 3. september en sú sem við fengum þann 6. mars árið 2012...

Sólin að setjast við sjónarrönd og skyggni gott... autt færi og vindur bara um fimm metrar...

Umkringd flottum fjallatindum rifjuðum við upp göngur í öllum veðrum á þeim öllum...
 t. d.  Giljatunguhnúk sem hér rís brattur og ókleifur að sjá en er vel fær þeim sem hafa gaman af því að klöngrast...

... og hér sést til Blákolls sem Hanna gerði ódauðlegan í hugum Toppfara á marskvöldi 2011 í hálku og krefjandi veðri... en þó okkur hafi minnt í andartaks kasti að það væri næst versta veðurkvöldgangan í sögunni þá var það fljótfærni því við vorum ekki lengi að minnast Hafnarfjalls í Hafnarfirði fyrir tveimur árum þegar við komumst ekki einu sinni að fjallsrótum fyrir illviðrinu og snerum við illan leik til baka... og fleiri erfið veður...

Mættir voru: Arna, Bára, Björgvin, Björn Matt., Droplaug, Elsa Iinga, Gerður Jens., Gréta, Guðmundur Jón, Guðný, Gylfi, Helga Bj., jakob, Jóhann Ísfeld, Jóhannes, Katrín, Lilja Bj., Lilja H., Lilja Kr., Lilja Sesselja, Nonni, Ólafur, Ósk, Rannveig, Sif, Sigga Arna, Soffía Rósa, Steinunn Sn., Sveinn, Þórarinn og Örn...  þar af voru Sif og Þórarinn að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og féllu algerlega inn í hópinn ;-)

Þær eru í einu orði sagt stórkostlegar göngurnar okkar á Hafnarfjallssvæðinu... því fyrir utan magnaðar kvöldgöngur á Hafnarfjallið allt á öllum árstímum og alls kyns veðri og færð... erum við komin með níu tinda gönguna á Hafnarfjalli í sérflokkssafnið... hafnarboltagönguna á Hróarstinda... baksviðsgönguna frá Blákolli um Svörtutinda og Rauðuhnúkafjöll... hvílík verðmæti sem við höfum skapað okkur í þessum tignarlega fjallasal...

Sólarlagið lék fallegt hlutverk þetta kvöld... heldur sjaldséð fegurð þessar vikurnar...

Snjór var í efstu tindum Skarðsheiðar, Botnssúlna og Esjunnar þetta kvöld... já, haustið er komið...

Í þetta sinn var hægt að skoða landslag Hafnarfjallsaxlar og njóta útsýnisins...

Þarna gengum við í mars 2012  í svo stífum skafrenningi að sporin hurfu nánast samstundis undan næstu mönnum
og menn áttu fullt í fangi með að sjá næsta mann í myrkrinu og snjókomunni...

Við röktum okkur eftir brúnunum með Borgarnes og nágrenni í vestri og Hafnardalinn og tinda hans í austri...

... og fengum okkur nesti í kulda og vindi á sama stað og fyrir einu og hálfu ári síðan þegar rökkrið skall á og illviðrið stuttu síðar... ákveðin kaflaskil þarna eins og síðast... úr rjúkandi ljúfu kvöldsólarveðri á uppleið í kaldan vind og rökkur til baka... með sama blíðviðrið niðri og í upphafi göngunnar ;-)

Niðurgangan var rösk og rétt slapp fyrir myrkur án höfuðljósa... en það rauk upp úr sumum Toppförum þegar farið var gegnum byggðina í Hafnardalsmynni því búið er að loka fyrir göngustíginn sem þarna er komin kyrfileg hefð fyrir... enda engin önnur leið fær þarna inn eftir nema hinum megin árinnar á Blákoll og væri forvitnilegt að vita hvort menn ætli sér að leggja upp með aðra leið þarna ionn eftir eða trúa því að allir hætti að ganga inn þennan dal?

Alls 6,8 km á 2:59 klst. upp í 592 m hæð með 724 m hækkun miðað við 64 m upphafshæð.

Prestahnúkur um helgina en líklega viðrar ekki fyrir hann og því skal vona það besta fyrir næstu tvær helgar áður en vetrarfæri lokar leiðinni þangað inn eftir... ;-)

 

 

 

Berjamó og blíða
við Tröllafoss, Þríhnúka og Haukafjöll

Þriðjudaginn 27. ágúst mættu 31 manns á æfingu og gengu meðfram Leirvogsá að Tröllafossi...
klöngruðust um kletta Þríhnúka sem rísa ofar fossinum...
og dóluðu sér til baka um Haukafjöll með mögnuðu útsýni til Stardalshnúka, Skálafells, Svínaskarðs, Móskarðahnúka, Laufskarða og Hátinds Esjunnar...

Veðrið var með dásamlegasta móti og hvorki úrkoma né vindur kom við sögu...

Gengið var norðan megin við ánna með smá klöngri við bakkann...
sem var ágætis upphitun fyrir árið 2014 þar sem lækir, ár, gljúfur, vötn og sjór koma við sögu...

Skálafell gnæfði yfir Leirvogssveitinni eins og konungur héraðsins...
og varði sig fjálglega með formfögrum Stardalshnúkunum og Þríhnúkunum...

Mættir voru:

Jóhann Ísfeld, Sveinn, Steinunn Sn., Soffía Rósa, Nonni, Dóra, Lilja H., Rósa, Rannveig, Jakob, Ósk, Valla, Jón, Björn Mattn., Svala, Arna, irma, Örn, Björgvin, Kristín Gunda, Guðlaug, Ásta H., Súsanna, Katrín Kj., Guðný, Helga Bj., Gréta, Gerður, Jón og Bára tók mynd með Mola og Bónó hlaupandi um allt ;-)

Berjatínsla einkenndi þessa ferð en Guðmundur er klárlega berjatínslumaður Toppfara...
sá sem lengst dregst alltaf aftur úr og lætur ekkert lyng fara fram hjá sér...

Brátt kom Tröllafoss í ljós...

Gullfallegur og óvenju vatnsmikill...

Það var gaman að ganga þarna megin gljúfursins þar sem við höfðum bara verið á þessum slóðum að hávetri í snjó og rökkri/myrkri...

Farið var ofan fosssins áður en haldið var til fjalla...

... með smá afvegaleiðingu um berjalyngið... sjá Þríhnúka alveg í stíl við Móskarðahnúka frá þessu sjónarhorni...

Klöngrið á Þríhnúka var lítið mál... þröskuldur klettaklöngurs færist greinilega ofar eftir því sem menn þvælast meira um kletta og björg...

... og nestisstaðurinn var milli hnúka neðan við miðþríhnúkinn...

Það var ekki alveg sama hvar farið var upp og niður Þríhnúkana þar sem þeir geta verið þverhníptir neðst...

... en svo var endað á saklausum ávölum Haukafjöllunum sem renndu okkur alla leið niður í bílana aftur eftir 6,5 km göngu á 2:48 klst. upp í 296 m hæð hæst þetta kvöld með 510 m hækkun eftir allar upp- og niðurleiðirnar miðað við 99 m upphafshæð.

Notaleg og dýrmæt ganga í blautu og vindasömu veðrinu þessar vikurnar... við vorum aftur svona ljónheppin þessa vikuna og þökkum kærlega fyrir það ;-)

Næsta æfing er spennandi ganga á hina sögulega Hafnarfjallsöxl syðri sem geymir minningar okkar af versta veðri í sögu klúbbsins á þriðjudagskveldi þar sem krefjandi veður og færð reyndi vel á hópinn en gangan sú er í uppáhaldi sumra sem þótti einmitt stórskemmtilegt að þurfa að taka á stóra sínum... sjá upplýsingar og upprifjun hér neðar.

 

 

Til hamingju með
Reykjavíkurmaraþon !


Kristján hálfmaraþon, Ketill 10 km, Örn þjálfari hálfmaraþon, Jóhann Ísfeld hálfmaraþon í fyrsta sinn, Steinunn Sn. 10 km, Símon Hornstrandamaður 10 km, Steinunn Þ. hálfmaraþon og neðri svo Ágústa 10 km, Bára þjálfari hálfmaraþon, Valla 10 km í fyrsta sinn og Sigga Rósa 10 kmí fyrsta sinn .

Um þrjátíu Toppfarar tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni þetta árið...



Gunnar maraþonhlaupari og Laugavegshlaupari í hálfu maraþoni, Bára þjálfari, Kári 10 km, Þórey 10 km og Örn þjálfari... að smakka gullið ;-)

... og margir að taka þátt í fyrsta sinn... sumir að bæta sig... fara lengri vegalengd en áður...
 eða bara njóta þess að gera þetta árlega...

Elsa Inga fór 10 km í fyrsta sinn og bættist við þriðju sveitina "Toppfarar 007" ásamt Marteini syni þeirra Antons og Guðlaugu sem fór 10 km á flottum tíma en Anton pétur hljóp hálfmaraþon.

Jóhanna Fríða og Björn Matt hálfmaraþonhlauparar voru með brosið og gleðina á hreinu og litu vel út eftir afrekið ...

Sveititr Toppfarar voru eftirfarandi:
 

10 km:

Toppfarar KSS:
Ketill
Sigga Rósa
Steinunn Sn

Toppfarar VÁK:
Valla
Ágústa
Kári

Toppfarar 007:
Guðlaug
Elsa Inga
Marteinn Antons

21,1 km:

Toppfarar BÖJ:
Bára
Örn
Jóngeir

Toppfarar GJK:
Gunnar
Jóhann Ísfeld
Kristján

Toppfarar JSB:
Jóhanna Fríða
Steinunn Þorsteins
Björn Matt

Maraþonhlaupari Toppfara þetta Reykjavíkurmaraþonið
var Lilja Kristíofers Skagakona sem fór sitt fyrsta maraþon á tímanum 4:42:25...
ansi vel af sér vikið enda dúndurkona sem örugglega hljóp brosandi alla leiðina ;-)


Mynd fengin að láni frá Lilju á fésbók ;-)

Lilja hljóp maraþonið ásamt sjö félögum sínum í Skagaskokki... aðdáunarverð frammistaða í einum hlaupahóp... enda eru þau greinilega með gleðina á hreinu... eins og við komumst að þegar við heimsóttum þau í Gamlárshlaupið þeirra þarna um árið 2011 ;-)

Aldurshöfðingjar Toppfara stóðu undir nafni...
Ketill fór 10 km í 19. sinn á flottum tíma og Björn fór hálfmaraþonvegalengdina án þess að blikna...
Hvílíkar fyrirmyndir sem við höfum í okkar hópi...

TIL HAMINGJU ALLIR TOPPFARAR MEÐ DAGINN...

Sigurinn að koma í mark er engu líkur, ekki síður ef menn eru að mæta í fyrsta sinn, bæta tímann sinn eða fara lengri vegalengd en áður. Marktími og vegalengd skiptir hins vegar engu í samanburði við það að vera með og upplifa kraftinn og orkuna í rásmarki, hlaupa innan um allan þennan mannfjölda og koma í mark undir dynjandi lófaklappi og hvatningu á hliðarlínunni... einfaldlega engu líkt... það er þess vegna sem menn taka þátt ár eftir ár... gerum þetta að sjálfsögðu aftur að ári... skorum á fleiri að vera með... já, byrja að æfa núna ;-)

 

 

Vörðuskeggi frá Sleggjubeinsdal


Mynd: Gylfi - einn af eðal-ljósmyndurum Toppfara ;-)

Bára, Sigríður Arna, Irma, Lilja Sesselja, Ástríður, Katrín Kj., Guðmundur, Gerður, Örn, Anna Jóhanna, Hjálmar, Soffía Rósa, Jakob, Rannveig, Súsanna, Björn, Heiðrún, Inri, Ásta H., Áslaug, Guðný, Björgvin, Valla, Jón, Sveinn, Arna, Kristín Gunda, Lilja H., og Svala en Gylfi tók mynd.

Þar af voru Lilja H. og Sveinn að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og fengu fallega en heldur krefjandi eldskírn
og féllu vel inn í hópinn með stakri ljúfmennsku sinni ;-)

Þriðjudaginn 20. ágúst lögðum við í fimmta sinn í sögu okkar á Vörðuskeggja...

... að þessu sinni um Húsmúla og til baka um Innsta dal eins og oftast áður...

... en loksins í fallegu veðri...

... og tæru skyggni...

... sem gaf kristaltært útsýni um allt suðvesturhorn landsins að manni fannst...

... þar sem náttúran skartaði litaskrúði sínu sem aldrei fyrr á þessum besta tíma ársins...

.... með gróðurinn í hámarki... snjóinn í lágmarki... sólinni tekið að halla...

...og svala haustloftinu sem sópar öllu sumarmistri af háloftunum svo skyggnið verður með tærasta móti þó enn sé sumar...

Hvítir bolholu-skuggar Hellisheiðarvirkjunar voru þeir einu sem skyggðu á dýrðina...

... en við létum það ekki trufla okkur enda jákvæðni lykilatriði á fjöllum...

... og nutum víðáttunnar til allra átta...

... á fjölbreyttri leiðinni...

... sem skreytir sig klettum og björgum þegar nær er komið Skeggjanum sjálfum...

...  hömrum girtur er hann á alla vegu...

... síbreytilegur...

... og fagurmótaður...

... með magnaða sýn norður á Þingvallavatn...

... hann fékk meira að segja kvöldsólina til að gylla síðasta spölinn...

... og skreytti útidyrnar með áhrifamikilli sýn þegar litið var til baka yfir farinn veg...

Nestisstundin í 813 m mældri hæð... (er opinberlega 805 m hár)... var í svalara lagi þó logn ríkti sem inni værum...

... en við höfðum vit á að vera þakklát fyrir lognið, skyggnið og útsýnið sem var með ólíkindum vítt til allavega fjögurra jökla, Jarlhettna, Bláfells á Kili o. m. fl. en það var sláandi að sjá að hvítt var orðið í Tindfjöllum og á Hekla... jebb, sumri er greinilega tekið að halla...

Sólarlagið lék undir matnum...

... og fylgdi okkur svo heim á leið...

... rúma sex kílómetra til baka...

... sem var þess virði þó langt væri á síðsumarskveldi...

...því orkan úr landslagi sem þessu er ómæld fyrir líkama og ekki síst sál...

... þó þreytan hafi eflaust sagt vel til sín hjá flestum daginn eftir...

... og Vífilsfellið veifaði... og lofaði að gefa okkur skýlausan tind næst þegar við kæmum...

En heimleiðin var mýkri og jafnari...

... niður um grænan, notalegan Innstadalinn...

... sem ómaði af spjalli og hlátrasköllum dásamlegra göngufélaga sem sögðu sögur af göngum sumarsins sem eru hver annarri magnaðri... Toppfarar fengu greinilega framúrskarandi uppskeru í ár...

... og tunglið varð líka að heilsa upp á félaga sína... og bjóða þá velkomna til leiks á næstu ársíð... þar sem guli boltinn víkur smám saman fyrir hvíta boltanum sem tekur sífellt upp á því að breyta um form allt frá skeifu í hálfmána í geislandi hnött...

Haf þökk kæru félagar fyrir vináttuna, hlýjuna, orkuna, eljuna, þakklætið og gleðina sem okkur var auðsýnd og alltaf ríkir í ykkar búðum... og við erum fyrir löngu búin að sjá af reynslunni að eru eina veganestið sem dugar allt til enda í fjallamennsku árum saman...

Alls 12,8 (13,3!) km á 4:40 - 4:55 klst. upp í 813 m hæð með 929 m hækkun alls miðað við 318 m upphafshæð.

Reykjavíkurmaraþon um helgina og auðvitað bilun að ganga tæpa 13 kílómetra fimm dögum áður... eða kannski bara eina leiðin til að halda sér í formi allt árið... slá til og mæta sama hvað í stað þess að finna upp hindranir ...
því saman safnast kílómetrarnir og orkan sem hver æfing gefur...
í dýrmætan sjóð sem gott er að geta tekið út þegar spennandi tækifæri gefast;-)

 

 

Slagveðursæfing ársins...

... var þriðjudaginn 13. ágúst þegar þjálfarar sneru aftur í þriðjudagsæfingarnar eftir sumarfrí
og mættu alls 18 manns í þykka þoku og beljandi rigningu...

...svo stytta varð gönguna um meira en helming og eingöngu farið á tvo tinda af þremur...

...Hrómundartindur og Tindagil látið bíða betri tíma enda mögnuð útsýnisleið sem mátti sín lítils í þessu veðri og skyggni...

...en við fengum fínustu búnaðarprófun þetta kvöld... og myndavélin líka... ;-)

Það var varla að menn þekktust í þessu veðri... Soffía Rósa, Steinunn Sn., Jóhann Ísfeld, Katrín Kj., Örn, Gerður Jens., Anton, Hjölli, Arna, Guðmundur Jón, Irma, Rósa, Ósk, valla, Jón, Jakog og Rannveig en Bára tók mynd ;-)

Höfum við nokkuð fengið svona slagveður fyrr á þessu ári?... við gátum rifjað upp rok í sumum göngum ársins... og rigningu... en ekki hvorutveggja í einni og sömu göngunni... samt var þetta ekki sem verst... hlýtt og dagsbirta til dæmis sem ekki er sjálfgefið í göngum okkar allt árið... en það er ekki oft sem maður skilar sér jafn blautur í bílana og þetta kvöld... eftir eingöngu 4,7 km göngu á 1:29 klst. upp í 534 m á Tjarnarhnúk og 569 m á Lakahnúk með 367 m hækkun alls miðað við 361 m upphfashæð... verðum að fara þessa leið alla aftur í góðu veðri og skyggni kæru vinir ;-)

Þjálfarar þakka hlýjar viðtökur úr fríinu... yndislegt að hitta dásamlega göngufélaga aftur síðasta laugardag og þennan þriðjudag... hlökkum til að halda áfram að fara  með ykkur ótroðnar slóðir og kíkja baksviðs um íslensk fjöll það sem eftir er af árinu... í öllum veðrum, birtu og myrkri og alls kyns göngufæri... þar sem gleði og þakklæti eru mikilvægustu ferðafélagarnir ;-)
 

Klúbbmeðlimagöngur í júlí vantar allar !

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir