Æfingar alla þriðjudaga frá júlí út september 2012
í öfugri tímaröð:

Rauðuhnúkar Bláfjöllum 25. september
Snókur - Snóksfjall 18. september
Vigdísartindur, Hrútatindur, Folaldatindur, Stapatindur 11. september
Vantar klúbbmeðlimagöngu meðan á Slóveníuferð Toppfara stóð
Ingólfsfjall 28. ágúst
Hrafnabjörg 21. ágúst
Reykjavíkurmaraþon 18. ágúst
Blákollur 14. ágúst
Helgafell í Hafnarfirði 7. ágúst í umsjón hópsins í sumarfríi þjálfara
Vífilsfell 31. júlí í umsjón hópsins í sumafríi þjálfara
Keilir 24. júlí í umsjón hópsins í sumarfríi þjálfara
Skálafell á Hellisheiði 17. júlí í umsjón hópsins í sumarfríi þjálfara
Eilífsdalur, Hábunga, Þverfellshorn Esjunni með Hjölla 10. júlí í sumarfríi þjálfara
 

Rauðuhnúkar upp og niður

Síðasta æfingin á sumartímabili var þriðjudaginn 25. september í dúndurmætingu með hvorki meira né minna en 53 manns mættum í friðsælu veðri og fögru umhverfi... en það var skuggi yfir þessari göngu því þjálfari tilkynnti hópnum þá sorgarfrétt að Jóna (Katrín Jónína), Toppfari og góð vinkona Siggu Rósu missti eiginmann sinn á mánudeginum. Þau hjónin, Einar Rafn og Jóna voru bæði áður í Toppförum og komu í hópinn fyrir tilstilli Siggu Rósu og Rikka, vinahjóna sinna en Jóna hélt svo ein áfram í klúbbnum þetta árið.

Við vottum Jónu og fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúð og lítum með þakklæti og virðingu til þeirra ljúfu samverustunda sem við áttum með þeim hjónum á fjöllum.

Þrætt var um Rauðuhnúka við Bláfjöll sem ekki hafa verið gengnir áður í þessum klúbbi en eru vel þess virði að heimsækja
enda höfum við mænt á þá gegnum árin á leið upp í Bláfjöll og á Drottningu og Stóra Kóngsfell..

Þetta var kyngimagnað landslag þar sem gersemar leyndust á hverju strái eins og gullfallegar myndir Ástu Henriks
og fleiri félaga sýna á fésbók...

Hver hnúkur með sínu lagi, lit, áferð og lögun...

Fullt af klöngri þar sem móbergið var með besta móti, hald á öllum stöðum og hvergi hálka...

Leynistigur og torsóttar leiðir...

... þar sem síðustu menn voru fljótir að afvegaleiðast ef þeir misstu af næsta manni fyrir framan...

Jarðarlitirnir aldrei fegurri en á þessum árstíma... jörðin búin að fylla sig... birgja sig... hlýju, vökva og næringu sumarsins
áður en harður veturinn læsir klónum sínum um allt...

Bláfjöllin sjálf... Bláfjallahryggurinn sem væri óskaplega gaman að klára einhvurn daginn alla leið út á Vífilsfell... voru meira að segja gul og rauð nánast alla leið upp á bláa toppa...

Eldborg, Drottning og Stóra Kóngsfell  í baksýn hér hinum megin Bláfjallaafleggjarans...

Vífilsfellið í skýjunum ásamt Vestur-Bláfjöllum sem bíða og bíða eftir Toppförum ;-)

Mættir voru:

Efst: Óskar, Helga, Lilja Sesselja, Valla, Rósa?, Guðmundur Jón, Katrín og Vallý.
Í miðið: Berglind, Ósk, Ólafur, Örn, Hildur Vals., Roar, Sylvía, Björn Matt., Jóhannes, Ísleifur, Þóra, Hildur R., Steinunn TH., Ágúst, Gunnar, Rannveig, Jóhanna Fríða, Jakob, Sæmundur, Arnar, Guðrún Helga, Steinunn, Þórunn, Willi og Dagbjört.
Neðst: Jóhanna Karlotta, Ásta H., Aðalheiður, Lilja Bj., Áslaug, Halldóra Þ., Elsa Þóris, Linda Lea, ,Ágústa, Gylfi, Gerður, Guðlaug, Björgvin og Steinunn en Bára tók mynd og í hvarfi eru Kjartan, María E., Súsanna og Svala - fleiri?

Þar af voru nokkrir sjaldséðir hrafnar sem var dásamlegt að fagna og knúsa og þá var Linda Lea að mæta í sína fyrstu göngu eftir barneignafrí en Linda á barn númer tvö í þessum hópi, Irma eignaðist fyrsta Toppfarabarnið (og hefur aldeilis snúið aftur á fjöll!) og Herdís og Hermann eignuðust það þriðja fyrr í mánuðinum... og Valdís og Einar bíða eftir því fórða... jebb, við erum að telja þau börn sem "gengið hafa í maganum" með Toppförum ;-)

Myrkrið tók við í bakaleiðinni þar sem sneitt var framhjá illfæru hrauninu sem lá meðfram hnúkunum... og við náðum að "teyga" þetta upp í alls 5 km á 2:20 klst. upp í 455 m hæð hæst með alls hækkun upp á 322 m miðað við 384 m upphafshæð.

-------

Það lá skuggi af sorgarfrétt yfir þessari göngu sem minnir okkur enn og aftur á hve dýrmætt það er að fanga lífið núna, vera góð hvort við annað og hlúa að því sem er okkur dýrmætt... velja sér meðvitað félagsskap sem gerir mann að betri manni, njóta augnabliksins hvern dag og vera þakklátur fyrir allt það góða sem á vegi manns verður...

Þjálfarar viðruðu tvö umdeild mál í byrjun æfingarinnar eftir að hafa flutt sorgarfréttina og menn komu með góða punkta varðandi vangaveltur um lokaða fésbók Toppfara eður ei og eins með haustfagnaðinn sem dagskrá yfir heilan dag eða eingöngu kvöldstund. Það eru alltaf skiptar skoðanir með svona mál, annað væri óeðlilegt í 120 manna hópi. Við reynum ávalt að gera okkar besta og vera á púlsinum á hópnum enda bregðumst við stöðugt við athugasemdum og óskum klúbbfélaga - en um leið og á endanum - verðum við að fylgja eigin sannfæringu því annars gætum við ekki haldið þessu úti árum saman...

Sú sannfæring hefur t. d. alltaf verið sú að fara óhefðbundnar leiðir og gera eitthvað annað en vaninn er, vera glaður, forvitinn, áræðinn, uppátækjasamur, jákvæður, þakklátur... sérkenni fjallgönguklúbbsins í öll þessi fimm ár...  sbr. haustfagnaðurinn ;-)

 Það er mikilvægt fyrir okkur öll að varðveita þann góða anda sem einkennt hefur þennan klúbb frá upphafi... við munum alltaf verja hann eins og ljón... og vera ævinlega þakklát þeim einstaklingum sem markvisst hafa lagt sína hönd a plóginn til að gæða klúbbinn gleði, samstöðu og vináttu sama hvað. Lífið er einfaldlega allt of hverfult til að vera annars staðar en jákvæður, glaður og þakklátur öllum stundum... og nýta hvert tækifæri til að krydda tilveruna með óhefðbundinni aðferð eins og fimmu-þemu-helgi að hætti klúbbsins á afmælisárinu ;-)

Við þökkum hjartanlega fyrir öll þau fallegu símtöl og bréf sem okkur hafa borist.
Nákvæmlega þessi vinsemd, vinátta og þakklæti eru
okkar laun fyrir þá vinnu sem liggur að baki Toppförum
og veldur því að fjallgönguklúbburinn er sá félagsskapur sem hann er - varðveitum það öll.

Hugur okkar er hjá Jónu og fjölskyldu.
Einar Rafn Ingvaldsson verður jarðsunginn frá Vídalínskirkju í Garðabæ mánudaginn 8. október kl. 13:00.
 


 

Snókurinn hans Inga

Þriðjudaginn 18. september fetuðum við í fótspor Inga Skagamanns sem þekkir nánast hverja þúfu á svæði Hafnarfjalls og Skarðsheiðar... og gengum á Snóksfjall og gostappann Snók sem rís þarna mitt í fögrum fjallasalnum... og var á dagskrá í janúar 2010 undir fararstjórn Inga meðan þjálfarar stungu af í brúðkaupsferð... en fjallið skartar mögnuðum gostappa úr stuðlabergi sem sjaldan sést í viðlíka formi á fjallgöngunum okkar... nema þá helzt í grjóthrúgunni Baulu ;-)

Veðrið með dásamlegasta móti... heiðskírt og logn... svo brakandi heitt til að byrja með að menn voru komnir úr helmingi spjara sinna upp brekkurnar... en það átti eftir að breytast hratt með genginni sól síðar um kvöldið...

Haustlitirnir hástemmdir um allan Hvalfjörðurinn sem var skreyttur Botnssúlum með hvíta kolla í dalsbotni... eins og fleiri fjöll innar og ofar á landinu þessa dagana en þess skal getið að Skjaldbreið var hvít nánast niður allar fjallsrætur fyrr þennan dag og Hlöðufellið alhvítt efst...

Þéttar voru brekkurnar alla leið upp... svo jafnvel dugmiklustu menn máttu vel við una...

... enda voru þeir í spólandi banastuði og fóru opnu geilina sem hér sést í stuðlaberginu upp á tindinn með tilhneyrandi grjóthruni... á meðan Örninn leiddi hópinn upp norðan megin aðeins rólegri leið...

... sem flestir fóru á síðustu geislum sólarinnar sem settist yfir sjónum í vestri og gæddi kvöldið töfrum...

Litið til baka með Akrafjallið í fjarska fyrir miðri mynd...

Ansi Baulu-legt síðasta sprettinn upp á efst tind í norðri...

Sannarlega listfengin grjóthrúga af náttúrunnar hendi...

Skarðsheiðin veifaði að norðan... oddað Heiðarhornið og hyrnuð Skarðshyrnan bak við roðasleginn Rauðahnúk... sem er óskaplega litfagur og kominn á dagskrá á þriðjudegi á næsta ári... ;-)

Sólin sest og farið að skyggja efst uppi á gostappanum... en hæsti tindur Snóksfjalls aðeins innar og lengra inni á fjalli... við slepptum honum auðvitað ekki... enda var þetta varla tíu mínútna viðbótargangur aðra leið ;-)

Útsýnið afskaplega tignarlegt til Blákolls og félaga í Hafnardal og við syrgðum það að hafa ekki meiri dagsbirtu til að geta rifjað upp ævintýralegu tindferðina frá því í mars á Blákoll og sjö aðra tinda baksviðs milli Hafnarfjalls og Skarðsheiða ...

Og þjálfari dreif í hópmyndatöku í rökkrinu af 50 manns mættum... þó fyrr hefði verið! ;-)
... með Heiðarhorn og Skarðshyrnu í baksýn...

Efri: Gerður Bj., Lilja Bj., Kristján, Aðalheiður, Ísleifur, Björn Matt, Jónan Ísfeld, Steinunn, Guðmundur Jón, Valla, Irma, Ingi, Arnar, Anton, Gunnar, Ástríður, Hjölli, Örn, Guðlaug, Björn E., Ásta Guðrún, Halldóra Á., Jóhannes, Berglind og Ólafur.

Neðri: Steinunn, Jóhanna Karlotta, Þórunn með Flóka, Ósk, Óskar Wild, Kjartan, Sylvía, Jóhanna Fríða, Guðmundur V., María E., Súsanna, Soffía Jóna, Sofía Rósa, Ágústa, Katrín Kj., Guðrún Helga, Lilja Sesselja, Áslaug, Sigga Ríósa, Willi, Dagbjört, Gylfi, Rósa og Kristín Gunda með Gotta að skottast fyrir framan hópinn, en Dimma, Día og Moli sjást ekki og Bára tók mynd.

Blákollur vinstra megin - Hafnarfjallsöxl syðri hægra megin og Snæfellsjökull að gægjast í fjarska á milli... þar sem spor Toppfara marka minningar sem aldrei gleymast...

Niðurleiðin var svo farin í rökkri og myrkri... með höfuðljós á enni sem nú eru nauðsynlegur búnaður allra á þriðjudögum...
og endað í
5,8 km á 2:47 - 2:52 klst. upp í 678 m á gostappanum og 587 m hæð hæst með 662 m hækkun alls
miðað við 66f m upphafshæð.

Prestahnúkur því miður ekki fær vegna veðurspár um helgina en við stefnum á Hafursfellið á Snæfellsnesið sem hefur lokkað okkur árum saman þar sem við höfum ekið framhjá því á leið á önnur fögur fjöll á Snæfellsnesi... loksins komumst við á þessa flottu tinda - ekkert svekk með Prestahúk ;-)

 

 

Slóvenskt klöngur
á fjórum tindum á Sveifluhálsi
Vigdísartindur - Hrútatindur - Folaldatindur - Stapatindur

Eftir magnaða ferð um Slóveníu í byrjun september þar sem 19 Toppfarar gengu um svipmiklar slóðir fyrrum Júgóslavíu í hrikalegu landslagi... í allt upp í 27 stiga hita... tók Ísland aftur við þriðjudaginn 11. september með svala sínum, nokkurra stiga hitatölum og ferskum vindi... dásamlega Ísland... en skaðlegt illviðri gekk yfir landið dagana tvo fyrir þessa göngu með skelfilegum afleiðingum fyrir norðan heiða og síðustu vindar óveðursins léku við göngumenn fram eftir kvöldi þar til það fór loks að lægja... áður en önnur lægð tók við á miðvikudeginum með rennblautu slagviðri...

Gengið var upp á fjóra af sjö tindum Sveifluhálss við Kleifarvatn... sem varðveist hafa í minningu okkar frá því í töfrandi fagurri tindferð um alla sjö tinda Sveifluháls og kringum Kleifarvatn í desember 2010...

Mættir voru 36 af öllum hinum englunum sem Mica og Alja fengu ekki að kynnast í Slóveníu...nema af afspurn... þangað til þau heimsækja landið og slást í för með Toppförum um óbyggðir eyjunnar okkar... og draga okkur kannski alla leið til Grænlands með sér... ( draumur er til alls fyrst ;-) ) :

Efri: Anton, Berglind, Donatas, Roar, Steinunn S., Dagbjört, Ólafur, Jóhannes, Þórunn, Nonni, Arnar, Björn Matt, Dóra, Guðmundur Víðir, Unnur, Hjölli, Soffía Jóna, Guðrún Helga, Örn, Guðmundur Jón, Ásta H., Jóhann Ísfeld, Halldóra Á.
Neðri: Ásta Guðrún, Ágúst R., Sylvía, Vallý, Áslaug, Guðlaug, Lilja Sesselja, Ísleifur, Irma, Ástríður, Katrín og Ósk og Bára tók mynd.

Þar af voru Donatas og Þórunn að mæta í sína fyrstu göngu með klúbbnum... og Dóra var að koma í fyrsta sinn eftir ökklabrotið í Flekkudalnum í lok mars - dásamlegt að fá hana aftur... og Día/Drífa? og Dimma héldu vel utan um ferfætlingana Gotta, Flóka og Mola ;-)

Fyrst var gengið á Vigdísartind sem svo er nefndur af þessum ritara hér...  en hann er einn af þremur nafnlausum tindum milli Hellutinda og Stapatinds... og af honum var farið yfir á Hrútatind og Folaldatind áður en endað var á Stapatindi sem við viljum meina að sé sá grasigróni því hann er hæstur af þeim öllum... en eins mætti sá hömrum girti, Folaldatindur heita Stapatindur... (sá í bók Ara og Þorleifs líklega) en við höldum okkur við nafngiftir frá tindferðinni 2010 til að vera samkvæm sjálfum okkur...

Á kortum heita þessir tindar ýmist Stapatindar... eða Stapatindur stakur og hinir nafnlausir... það er ótækt að hafa þá nafnlausa því þeir eiga allir sína ólíku ásjónu, landslag og áferð... kannski ekki áður verið ráðrúm eða áhugi á að nefna þá fleiri á þessu svæði fyrir utan svo Miðdegishnúk sem er enn sunnar... með einn flottan nafnlausan tind á milli sem við nefndum Hofmannatind á sínum tíma (allt nöfn unnin af örnefnum á svæðinu við tindana (Hofmannaflöt, Vígdísarvellir, Folaldadalir Hrútagjá)).

Sagan var á hverju strái...
Gullin vorgangan okkar þann 17. apríl hinum megin vatnsins á Kálfadalahlíðar, Gullbringu og Geithöfða í fótspor Jóns Inga...

Á leið upp á Folaldatind... sem mætti líka heita Stapatindur...

Klöngrið var ekki lengur bara íslenskt heldur slóvenskt...

Litið til baka í norður yfir á Hellutinda í fjarska með Esjuna hvíta efst sem hefur ekki gerst oft svona snemma í september...

Ofan af Folaldatindi mátti sjá síðasta tind kvöldsins... Stapatind.. grasigróinn á köflum... hæstur þetta kvöld og hæstur á sjö tinda göngunni 2010...

Grýtt leið upp og niður... slóvensku leiðsögumönnunum þótti ótrúlegt með meiru að við værum mestmegnis að ganga ótroðnar slóðir og ekki á göngustígum eins og þeir eru vanir... það sama á við um alla leiðsögumenn sem við höfum kynnst erlendis gegnum árin - Evrópu, Suður-Ameríku - Afríku - sem segir mest um fámenni Íslands og stutta sögu okkar á fjöllum... fjöllum sem aldrei hafa þjónað sem víglínur, landamæri, hernámssvæði, fangabúðir, aftökustaðir, sjúkrabúðir, fjöldagrafir, átakasvæði, afdrep, felustaðir eða skjól í stríði... eins og um alla Evrópu og víðar í heiminum...

Gylling kvöldsólarinnar á þessum árstíma er engu lík...

Skuggar af tindum kvöldsins varpast á Vatnshlíðina austan Kleifarvatns...þar sem við gengum í sólgleraugnagöngu í ferbúar í vetur og fórum á Lambhaga og Vatnshlíðarhorn í ísköldum vindi...

Hellutindar lengst til vinstri, Vigdísartindur, Hrútatindur kraminn aðeins greyið á milli áður en Folaldatindur rís við hliðina og svo er stóra bungan Stapatindur, strítan hægra megin er svo Hofmannatindur (sem við fórum ekki á þetta kvöld) og lengst til hægri næstum út af mynd er Miðdegishnúkur en hann var síðasti tindur sjö tinda göngunnar 2010.

Litið til baka á Folaldatind á leið yfir á Stapatind...

Við leituðum skjóls á Stapatindi og fórum ekki upp á hans hæsta tind sem er krúnaður klettur... en hann mældist 413 m... og er hæðóttur áður en honum yfir lýkur...

Við tókum Slóveníu á þetta... Örn fann klöngurbrekku niður af honum austan megin...

Syðri hluti Sveifluhálss lengst í fjarska í móðunni, Miðdegishnúkur brattur og kollóttur og Hofmannatindur strítan næst á mynd... tökum þá tvo á þriðjudagsgöngu næsta vor ef færi leyfir!

Slóveníufarar fjarri góðu gamni fyrir utan þjálfara... enn að sleikja klifursárin og þvo þvotta... en hinir til í allt mögulegt klöngur á spjallinu einu saman ;-)

Mosateppalagt að mestu og masið glumdi um hamrasalinn...

Sólin settist þennan síðasta kafla göngunnar en því miður hinum megin hálssins í hvarfi...

Við létum Kleifarvatnið ekki framhjá okkur fara... heldur tókum hring utan um Innri Stapa meðfram vatninu áður en klöngrast var upp á stapann að bílunum...

Miðdegishnúkur og Hofmannatindur vinstra megin á mynd...

Alls 5,2 km á 2:40 klst. upp í 415 m hæð hæst með als hækkun upp á 690 m með öllu miðað við 244 m upphafshæð.

Dásamleg kvöldganga í skugga hörmunganna fyrir norðan þar sem sauðfé berst fyrir lífi sínu í snjónum sem kom með hvímaðri haustlægðinni síðustu tvo daga - og rafmagnslaust hefur verið á sumum bæjum í meira en tvo sólarhringa... það togar í mann að fara norður og hjálpa til...

Skráning á haustfagnaðinn er hafin - allar upplýsingar hér á vefsíðunni og samskipti á fésbók!
... brjáluð stemmning enda hópur sem er alltaf til í allt ;-)
 

Vantar:
Klúbbmeðlimaganga meðan þjálfarar fóru til Slóveníu með Toppfara

 

Haustar að á Ingólfsfjalli

Þriðjudaginn 28. ágúst kom fyrsta rokið... og fyrsti kuldinn í nokkra mánuði á göngu klúbbsins... ef frá er talinn svalinn sem var á Jarlhettum helgina á undan...


Berjalyngið um allt... í forgrunni hér... bláber eru klárlega ber þessa hausts...

Gengið var á Ingólfsfjall frá Alviðru við Þrastarlund í Grímsnesi í spor Gylfa og Lilju Sesselju sem mæltu með þessari leið við þjálfara en þeir höfðu ekki farið áður á fjallið og höfðu ætlað sér norðvestan megin upp um Æðagil við Lyngbrekkur... en gangan var til heiðurs Jóni Inga sem fór með félagana þarna upp á hringleið sumarið 2009 í félagi við Bjarna Harðar sem fór á kostum svo hlegið var vikum saman eftir gönguna: http://www.fjallgongur.is/aukagongur_klubbmedlima.htm ;-)

Farið var um gönguslóða sem varðaður var stikum alla leið á tindinn en brattinn var þéttur upp hlíðina
og leiðin fremur illkleif að sjá úr fjarska en reyndist fínasta uppgönguleið þegar nær kom eins og oft hefur áður sannast...

Fínasta undirlendi... mosateppalagaðar tröppur langleiðina upp...

Áning í miðri hlíð í meira en 50% halla eins og í finasta leikhúsi... og gróskumikið Suðurlandið allt á sviðinu fyrir framan okkur...

Berjandandið gaf ekkert eftir í hallanum og áfjáðustu berjatínslumenn fóru upp um allar þúfur
í leit að ferskum ávöxtum jarðarinnar...

Útsýnið fallegt og ljúft... m. a. til Búrfells, sumarhúsabyggðarinnar í Grímsnes- og Grafningshreppi, um Sogið og samruna Hvítár og Ölfusár (út af mynd) o. m.fl. .. þetta minnti óneitanlega á skógivaxið landslagið í Evrópu sem nítján Toppfarar munu heimsækja um komandi helgi á för sinni um Júlíönsku alpana í Slóveníu þar sem farið verður upp úr skóglendi og á hæsta tind fyrrum Júgóslavíu og núverandi Slóveníu...

http://www.exodus.co.uk/holidays/tvj/overview

Efst breyttust teppalöguðu tröppurnar í steinilagðar... enn greiðfærar og lítið um lausagrjót og grjóthrun... allavega í samanburði við Jarlhetturnar um nýafstaðna helgi...

Góð keðja var til stuðnings allra efst sem kemur sér eflaust vel þegar bleyta eða frost er á gönguslóðinni...

... og kom að góðum notum til að fikra sig síðasta spölinn upp á brún...

Uppi fengum við hvassan vindinn sem gekk yfir landið þetta kvöld óhindraðan eftir ágætis skjól í brekkunni...

Það var ekkert annað í boði en láta sig fjúka upp á tindinn sem rís hógvær uppi á heiðinni á þessu víðfeðma fjalli...
eða "hömrum girtu heiði" sem væri kannski sannari lýsing...

Þar var vindurinn í mesta hamnum og komst í 24 m/sek skv vindmæli Arnarins... og hitinn rétt um 2-3°C...
enda sáust hettur og lúffur í fyrsta sinn í laaaaaaangan tíma... en þetta var ekkert miðað við snjómugguna í veðurkortunum á hálendisvegum og heiðum og hvítu efstu tindana fyrir norðan og austan þessa dagana...

Hvergi hægt að staldra við nema skjólmegin þar sem við fengum okkur nesti og Örn tók óhefðbundna hópmynd...
með Gylfa að segja ferðasöguna af seinni Jarlhettudegi hinna fjögur fræknu síðustu helgi ;-)

Mættir voru 34 manns:

Aðalheiður, Arnar, Ágústa, Ásta H., Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Berglind, Brynja, Dagbjört, Gerður J., Guðlaug Ósk, Guðmundur Jón, Guðmundur V., Guðrún Helga, Gunnar, Gylfi, Irma, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Karlotta, Katrín, Kristján, Lilja Sesselja, María E., Ólafur, Ósk, Sirrý, Soffía Jóna, Soffía Rósa, Stefán, Steinunn S., Steinunn, Sylvía og Örn

Niður var haldið sömu leið með norðangarrann meira í fangið...
... og vaxandi sólargyllingu á suðurlandsundirlendinu...

...beinustu leið að brúninni þar sem komið var upp... klippt og skorið var það þetta kvöld...

Glimrandi vel gekk að fóta sig aftur niður en fótvissustu menn... þeir sem létu skriðurnar vinna með sér og gengu mjúklega í mestu vinsemd og trausti gagnvart undirlaginu niður hlíðina en ekki í stöðugri andstöðu... já bardaga við jörð og grjót... voru snöggir niður á láglendið ;-)

... á meðan síðustu menn yljuðu sér við ævintýri sumarsins og reyndu eitthvað að reita fram grjót ofan á undanfarana þegar þeim leiddist en með litlum árangri... ;-)

Tunglið komið hátt á loft í lok göngunnar... með rökkrinu sem var farið að síga inn með kvöldinu... og minnti notalega á komu haustsins... það er kominn HÖFUÐLJÓSATÍMI... og ráð að allir séu með ljós í bakpokanum hér með þar sem það dimmir hratt þessa dagana!

Falleg útsýnis- og klöngurganga
...upp á alls 5,6 km á 2:33 klst. upp í 583 m hæð með 484 m hækkun miðað við 119 m upphafshæð...

Þjálfarar fara nú í vikuferð ásamt sautján Toppförum til Slóveníu og því er næsta æfing á Grindaskörð þjálfaralaus en sú ganga er á allra færi um 3 km slóða aðra leið upp í skörðin sem liggja um nokkra tinda er kallast Bollar og ræðst það af viðstöddum, veðri og vindum úr hvaða bollum menn fá sér fjallasopann það kvöldið ;-)
 

 

Til hamingju með í Reykjavíkurmaraþon !


Roar tók þessa frábæru mynd af Hugrúnu sem lýsir sæluvímunni vel hjá þeim sem taka þátt...  -  takk Roar fyrir lánið!

Toppfarar stóðu sig frábærlega í Reykjavíkurmaraþoni þann 18. ágúst...

Ein fór heilt maraþon; Halldóra Gyða Matthíasdóttir.

Sjö fóru hálft maraþon; Bestla, Björn H., Björn Matt., Hermann?, Kristján, Lilja Kr. og Rósa - fleiri?

Og sex? fóru tíu kílómetra; Ágústa, Hugrún, Jóhanna Fríða, Ketill, Valgerður Lísa, Þóra - vantar fleiri?

Þar af voru nokkrir að taka þátt í fyrsta sinn í Reykjavíkurmaraþoni eða fara lengri vegalengd en áður
og eru eflaust komnir á bragðið hér með ;-)

Takið eftir að höfðingjar Toppfara voru báðir með, þeir Björn Matt og Ketill sem segir sitthvað um ástæðuna fyrir því að þessir menn eru í formi til þess að ganga á krefjandi fjöll á áttræðisaldri með sér langtum yngra fólki!

Því miður voru ekki skráðar Toppfarasveitir í ár þar sem flestir kenndu sig við sinn hlaupahóp (að sjálfsögðu) eða sendu mér ekki númerið sitt og við náðum ekki þriggja manna sveitum í hvorugri vegalengd - við pössum að það gerist ekki aftur... og þjálfarar ætla aldrei að missa af Reykjavíkurmaraþoni aftur... þetta er einfaldlega með skemmtilegustu dögum sem maður upplifir óháð árangri hverju sinni enda alltaf magnþrungin stemmning í Lækjargötunni ;-)

Sendið mér nöfn hlaupara sem vantar í þessa upptalningu og ég lagfæri það !
 

 

 

Hrafnabjörg á hraunaslóð

Þriðjudaginn 21. ágúst var gengið á eitt af virðulegu fjöllunum sem varða Þingvelli...

... og þrætt með fornum gígum, hraundrýlum og hrauntröðum...

Með gönguveðrum bestum... lygnt, hlýtt og skýjað... ekki rigningardropi fyrr en jú einn eða tveir þegar komið var bílana... sem var vel sloppið eftir úrhellið sem dundi yfir okkur í Ártúninu við upphafi ferðar... og eins þegar ekið var inn í regnvota borgina að loknum kvöldverkunum á Þingvöllum...

Sjá dökka blettinn fyrir miðri mynd... hrauntröðin sem við gengum framhjá og er hluti af gígaröð sem þarna liggur um hraunið í sömu átt og allar hinar sex tinda/gígaraðirnar sem skreyta þetta svæði og nefnast Hrútafjöll, Kálfstindar, Skefilstjöll, Klukkutindar, Skriðutindar og Tindaskagi... algerlega magnað landslag þegar á það er horft í stærra samhengi...

Hrútafjöll í baksýn og Flosatindur í Kálfstindum bak við þau en Kálfstindar liggja hinum megin - austan megin Hrútafjalla.

Gönguland kvöldsins var mosi, melar og grjót... móbergsskriða, hraun og berjalyng.. þar sem sumir náðu að fylla heilu boxin... en aðrir létu sér nægja að fylla lúkur og munn á köflum...

Stílistarnir voru alveg með þetta... Lilja scarpa Bjarnþórs alveg í harmoníu við lyng og fjallagrös... og stelpurnar létu jafn illa yfir þessu og þegar Óskar mætti í appelsínugulu scarpa skónum sínum síðasta vetur ;-)

Síðasti spölurinn upp á tind... með Þingvallavatn í baksýn og lóðrétta strókana á Nesjavallasvæðinu til marks um veðurblíðuna...

Kristín Gunda, Soffía Rósa, Rósa, Irma, Gylfi, Sylvía, Anna Sigga, Gerður og Anton... þrautreyndir Toppfarar inn að beini... með unga hundinn Gotta fremst á mynd sem var að koma í sína fyrstu göngu með hópnum og reyndi allt til að koma sér í mjúkinn hjá foringjanum Dimmu...

...meira að segja elta hana afvegaleiddur upp á Þjófahnúk í framhjáhlaupi Antons og Jóhannesar í lok göngunnar... í algerri óþökk við eiganda sinn, Dagbjörtu sem hér snæðir ásamt vinum sínum Berglindi, Ólafi, Steinunni S. og Jóhanni Ísfeld... ásamt Mola þarna einhvers staðar í nágrenninu...

Ármannsfell og Botnssúlur í baksýn og Kvígindisfell hægra megin smá breiða.

Mættir voru 32 manns... í mögnuðu landslagi tindaraðann sem rísa hver annarri svipmeiri frá suðri til norðurs og tengir suðurströnd Langjökuls við norðurjaðar Þingvalla og Lyngdalsheiðar... og eru í algerri mótsögn við dyngjurnar Skjaldbreið og Ok sem létu lítið fyrir sér fara þarna svona dökkar og hógværar... en þær og þeir saman með Þórisjökli og Langjökli fær þetta svæði mann alltaf til að kikna í hnjánum á staðnum...:

Efri: Sólveig, Jakob, Ásta H., Sigga Sig., Gylfi, Ólafur, Svala, Jóhann Ísfeld, Rósa, Sirrý, Örn, Soffía Rósa, Bára H., Nökkvi Snær, Hjölli, Lilja Bj., Jóhannes og Guðmundur V.,

Neðri: Rannveig, Svala, Sylvía, Berglind, Dagbjört, Hugrún, Vallý, Lilja Sessselja, Anna Sigga, Gerður J., Irma og Kristín Gunda en Bára tók mynd

...  þar af var Guðmundur V að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og var vígður óvænt inn í hópinn af brjáluðum bílastelpum sem láta ekkert sér fyrir brjósti brenna frá fyrsta kílómetranum út úr bænum ;-)

Frá tindinum var gengið niður á norðurbrúnir til að skoða heimkynni tröllafjölskyldunnar sem þar býr...

Skjaldbreið, Tindaskagi, tröllatindar, Skefilsfjöll, Skriða, Hrútafjöll og austan megin eru Skriðutindar og Klukkutindar.

... Tröllatindana þrjá sem við klöngruðumst upp á í maí 2011...

... í einum besta bratta sem um getur á okkar slóðum
en veðrið þennan dag og stemmningin var ósigrandi í þéttum og hjálpsömum hópi:
http://www.fjallgongur.is/tindur59_hrafnabjorg_ofl_210511.htm

Niður var farið sömu leið og þarna fyrir rúmu ári síðan á norðausturhorninu... ekki auðveldlega fært norðan megin...

... og bakaleiðin þrædd um mosavaxna hraunbreiðuna...

...þar sem hraunhellar, -holur, -gjótur, - hellar, -drýlar, -traðir urðu á leið okkar áður en í bílana var komið...
http://www.ismennt.is/not/sisi/hugtakg-k.html

... með enga rigningu fyrr en þessa tvo fyrrnefndu dropa í lokin kringum bílana svo Hjölli... einn ötulasti og tryggasti Toppfari sögunnar... sem varð fimmtugur um daginn... og seig niður í Þríhnúkagíg ásamt Báru sinni sem nú ætlar að hefja göngur með klúbbnum... gat loksins notað regnhlífina sína sem var útpæld með loftunarfellingum og hvaðeina... maðurinn klikkar aldrei á smáatriðunum ;-)

Alls 5,6 km löng kvöldstund á 2:30 klst. upp í 774 m hæð með 438 m hækkun miðað við 535 m upphafshæð...

Jarlhettur á laugardaginn... flottasta tindaröðin á öllu suðvesturhorni landsins... og þessar hér bara smá innsýn inn í dýrðina...
... og veðurspáin orðin frábær... þetta svæði á náttúrulega ekkert annað skilið sakir ægifegurðar sinnar...
 

 

Gullinn Blákollur
... þar sem sögur Toppfara voru á hverju strái...

Þjálfarar mættu aftur til leiks eftir sumarhlé í sömu einstöku veðurblíðunni og ríkt hefur nánast sleitulaust frá því um miðjan apríl...

Gengið var á Blákoll sem varðar Hafnarfjallstindana í suðri og rís freistandi við þjóðveg eitt á leið inn í Borgarfjörð...

Gangan var til heiðurs Hönnu... hvernig tókst manni að gleyma að taka góða mynd af þessari ljúfu stúlku (mynd óskasts!)... sem fór með félaga sína þarna upp í mars í fyrra meðan þjálfarar og 27 aðrir Toppfarar gengu um Perú í rúmlega 3ja vikna ævintýraferð... en þá var vetur, hálka, lítið skyggni og kuldi... allt aðrar aðstæður en nú... en þessi ganga er sú sem mest hefur verið rifjuð upp og mærð af þeim göngum sem klúbbfélagar hafa sjálfir boðið upp á og eru þær margar ansi flottar...

... en Björn skrifaði bráðfyndna sögu af þeirri göngu ásamt nokkrum myndum...
http://www.fjallgongur.is/aukagongur_klubbmedlima.htm

Þetta kvöld deildu menn glæstum sögum af ævintýrum sumarsins...

...meðal annars Guðrún Helga og Arnar sem gengu á Mont Blanc ásamt góðum vinum og skyldmennum
í mikilli ævintýraferð sem þau deildu með okkur á fésbókinni í júlí...
(myndi vilja taka hana og birta á þessari vefsíðu!?)

Strákarnir í hláturskasti... með Hafnarfjallsöxl syðri í baksýn en þarna vorum við í vetur í versta veðrinu sem um getur á þriðjudagsæfingu í sögu klúbbsins frá upphafi... í myrkri, kulda, hálku, engu skyggni
og brjáluðum vindi sem skall fyrirvaralaust á okkur á efstu tindum...
http://www.fjallgongur.is/aefingar/19_aefingar_jan_mars_2012.htm

Brúnir Blákolls eru grýttar og mosaslegnar... mishæðóttar og þéttar alla leið upp... svo mönnum var haldið vel við efnið í rúmlega tuttugu stiga hita... svitinn bókstaflega bogaði af öllum...

Hróarstindar vinstra megin í fjarska á mynd... svipmestu tindarnir hinum megin Hafnardalsins og virðast hálf ókleifir að sjá... en eru ágætlega færir (vesturtindarnir) öllum sem láta ekki brattar grjótskriður stöðva för... eins og þennan hóp í janúar 2010 þegar við sungum íslenska handboltaliðinu til heiðurs á tindinum þar sem úrslitaleikur var í gangi á sama tíma gegn Frökkum... og við töpuðum... en þeir unnu sem létu ekki sjónvarpið halsa sér sig inni þennan dag heldur fengu fréttir gegnum símann...
http://www.fjallgongur.is/tindur32_hroarstindar_300110.htm

Hafnarfjallið séð úr hlíðum Blákolls... þ. á. m. hæsti tindur þess sem við höfum gengið á fjórum sinnum í þessum klúbbi... Gildalshnúkur þarna í þyrpingunni vinstra megin á mynd... bak við Giljatunguhnúk sem rís af hryggnum neðar eins og klettakollur og við höfum gengið á tvisvar á fallegu þriðjudagskveldi... "Suðurhnúkur" þar sem Ágústa og vinir hennar reiddu fram óborganlegt skemmtiatriði á haustfagnaði Toppfara árið 2009...http://www.youtube.com/watch?v=HOO2C9mQnGU&lr=1&uid=VtQ58VOFpkn21UNog7D7nA&noredirect=1

 Og sjá má Katlaþúfu á leiðinni yfir á Hróarstinda hægra megin... en "Vesturhnúkur" er vinstra megin - hæsti tindur á "Hafnarfjallsöxl nyrðri" sem svo gæti heitið í raun þar sem allur vesturhluti Hafnarfjalls nefnist Hafnarfjallsöxl... en við gengum á alla tinda Hafnarfjalls á ógleymanlegum haustfagnaði þar sem skemmtiatriðin byrjuðu í fyrsta skrefi um morguninn:
http://www.fjallgongur.is/tindur45_hafnarfjall_9tindar_021010.htm

Brúnir Blákolls minna óneitanlega á brúnir Akrafjalls á leið upp á Háahnúk sunnan megin í fjallinu...

Mættir voru 45 manns:

Efri: Ísleifur, Brynja, María E., Ágústa, Ósk, Jóhanna Karlotta, Kristján, Sylvía, Arnar, Guðrún Helga, Thomas, Berglind, Guðmundur, Ólafur, Jón, Steini, Steinunn S., Örn, Jóhann Ísfeld, Guðjón, Valgerður Lísa, Ingi, Ágúst og Hanna.
Neðri: Halldóra Þ., Gylfi, Unnur, Hannes, Rósa, Hugrún, Soffía Jóna, Anna Sigga, Katrín, Gerður, Heiða, Súsanna, Dagbjört, Irma, Stefán, Lilja Sesselja, Siffía Rósa og ?, Steinunn, Kjartan og Gunnar... og Bára tók mynd.

Með hverjum metranum sem sólin lækkaði sig varð umhverfið gylltara...

... og tignarlegt myndefnið tafði ljósmyndara klúbbsins sem höfðu í nægu að snúast...

Ljósmyndararnir Thomas, Lilja Sesselja og Ágúst sem öll eru fjallgönguklúbbnum ómetanleg fyrir framlag sitt til hópsins hvert á sinn máta... með syðri Hafnarfjallsöxlina í baksýn... Toppfarar eiga eftir að taka í sátt þessar einstöku fjallsbrúnir í betra veðri...

Síðasti kaflinn upp á hæsta tind Blákolls...

Hannes, frændi Hugrúnar, var gestur  kvöldsins... alla leið frá Ísafirði og fæst víst ekki til að flytja suður og bætast í flóru klúbbsins þó þjálfarar hafi reynt fyrir sér í því sökum ljúfmennskunnar sem af þessum manni stafaði í einu og öllu og er alveg í stíl við fleiri félaga Toppfara sem gefa tóninn ;-)

Ofan af hæstu brúnum komu glæstir tindar Skarðsheiðarinnar í ljós...
... en um þær slóðir er til heill sagnabálkur í safni Toppfara....

Litið til baka yfir sjó og land til suðvesturs...

Toppur Blákolls er ekki plássmikill...

... og hópurinn dreifðist vel um efstu brúnir í tindapásunni...

Þetta var með nestisstöðum bröttustum...

Ingi Hafnarfjallsmaður skellti sér niður þessa brekku í botnlausu lofthræðsluleysinu sínu og tók hópmynd uppímót ;-)

Þrjár nýjar konur bættust í hóp Toppfara þetta kvöld og stóðu sig með prýði á krefjandi kvöldgöngu sem þjálfari hafði í bjartsýniskasti gráðað 2 af 6 en hefði átt að vera 3 af 6 þar sem erfiðleikastigið miðaðist fremur við dagsgönguna frá því síðast á Blákoll en ekki kvöldgöngu...

Dagbjörg, kona Matthíasar sem fór með hópnum um allar Botnssúlurnar í júlí (og er nú búinn að skrá sig í klúbbinn), Steinunn, kona Jóhanns Ísfeld og Berglind, kona Ólafs... þær munu líklega segja sína svaðilfarar-sögu af fyrstu göngu sinni með Toppförum af þessu fjalli ;-)

Útsýnið til Skarðsheiðar og Svörtutinda og félaga sem við gengum á í febrúar á þessu ári í einni skemmtielgustu tindferð sögunnar:
http://www.fjallgongur.is/tindur72_blakollur_8tindar_170312.htm

... veturinn er fegursti... tærasti... sætasti... ævintýralegasti hluti ársins á fjöllum.. ekki spurning...

Eftir góða nestispásu í hita og logni... fórum við að tygja okkur niður... sumir hefðu jafnvel viljað vera lengur...

Þjálfarar vildu ekki fara grjótskriðurnar niður... stórskemmtilegar og fljótfærar jú fyrir vanari hluta hópsins en seinfarnari fyrir aðra... hvað þá í tæplega 50 manna hópi... og þá hefðum við verið í skugga alla bakaleiðina og átt eftir að ganga alla vegalengdina meðfram fjallinu til baka þegar niður væri komið (þó á sléttlendi væri reyndar).

...enda var ætlunin að ganga mót sólsetrinu og láta brúnirnar njóta sín niður í móti í gyllingu hnígandi sólarinnar...

...sem skreytir þennan árstíma sem aldrei fyrr...

... og slær gullnum geislum sínum á land... og menn sem skröfuðu hver í kapp við annan um afrek sumarsins...

... þar til hún hvarf bak við sjónarrönd...

Alls 5,8 km á 3:18 - 3:31 klst. upp í 724 mælda hæð með 850 m hækkun miðað við 67 m upphafshæð.

Það eru forréttindi að ganga á fjöll með ykkur elskurnar...

...hópi fólks sem gengið hefur á fjöll í rúmlega fimm ár... lent í alls kyns ævintýrum.. krefjandi verkefnum sem ljúfum stundum... myndað vináttubönd sem rofna aldrei... byggt upp reynslubanka þar sem inneignin... minningarnar eru löngu orðnar stærri en nokkur veraldlegur gjaldmiðill gæti lagt mat á... þar sem sögur okkar eru á hverju strái... eins og vel sannaðist á þessari kvöldgöngu þar sem við gátum rifjað upp gjörólíkar göngur á hverjum einasta fjallstindi sem við blasti... varðveitum þetta og höldum okkar striki sem þéttur fjallgönguhópur sem aldrei hvikar... og gengur saman með óþrjótandi forvitni sína að leiðarljósi um íslenskar óbyggðir allt árið um kring... í leit að nýjum ævintýrum sem þessum hópi tekst alltaf að gæða leyndu kryddi ;-)
 

 

Frábærar þriðjudagsgöngur í fjarveru þjálfara

Við þökkum Hjölla fyrir flotta Eilífsdalsgöngu og öllum sem lögðu sína hönd á plóginn í þriðjudagsgöngunum í júlí í fjarveru þjálfara... og síðast en ekki síst öllum þeim sem buðu félögunum upp á aukagöngur á öllum tímum og dögum í sumar, jafnvel heilu helgarferðirnar eins og Ágúst gerði í Álfastein með Þórsmerkurævintýri á ógleymanlegan máta að sögn félaganna... hreinlega ómetanlegt framlag inn í starfsemi kúbbsins sem við erum afskaplega þakklát fyrir ;-)

Til hamingju allir með glæsilegt sumar sem verður lengi í minnum haft sökum einstakrar veðurblíðu... þar sem klúbbmeðlimir blómstruðu sem aldrei fyrr í göngum á eigin vegum eða annarra um allt Ísland og erlendis.

Nákvæmlega svona á að uppskera þegar menn stunda krefjandi fjallamennsku allt árið um kring ;-)
 

 


Þriðjudaginn 7. ágúst 2012:
Helgafell Hafnarfirði
Hópur í heild með umsjón.


Mynd fengin að láni frá Ástríði af fésbók - takk ;-)
 

 

Þriðjudaginn 31. júlí 2012:
Vífilsfell
Hópur í heild með umsjón.


Mynd fengin að láni frá Ágústi af fésbók - takk ;-)

 

Þriðjudaginn 24. júlí 2012:
Keilir
Hópur í heild með umsjón.


Mynd fengin að láni frá Ágústi af fésbók - takk ;-)
 

 

Þriðjudaginn 17. júlí 2012:
Skálafell Hellisheiði
Hópur í heild með umsjón.


Mynd fengin að láni frá Ágústi af fésbók - takk ;-)
 

 

Þriðjudaginn 10. júlí 2012:
Eilífsdalur-Hábunga-Þverfellshorn Esjunni
Sjá frekari upplýsingar á http://www.hjolli.com/toppfarar
Umsjón: Hjölli


Mynd fengin að láni frá Ágústi af fésbók - takk ;-)
 

 

Tólf á 24 tinda !


Mynd tekin úr ferð Toppfara á sjö síðustu tinda þessarar leiðar í júní 2009

Alls fóru tólf Toppfara 24 tinda á 22 - 28 klst. laugardaginn 9. júlí og ein fór 13 tinda.

Aðstæður voru með erfiðara móti þar sem snjóþungt var á leiðinni en vel rættist úr veðri miðað við spá framan af
og voru ansi margir sem hættu við þátttöku, meðal annars þjálfarar en þessi þrettán gáfu ekki eftir:

Anton, Ágúst, Ágústa, Ásta H., Hjölli, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Kjartan, Lilja Kr., Rósa, Stefán A., Steinunn og Sæmundur...

Til hamingju með afrekið snillingar ;-)

Sjá vefsíðu Glerárdalsmanna: www.24x24.is
 

 

Glymur beggja vegna
...á Hringadróttinsslóðum...
 

Síðasta æfing undir stjórn þjálfara áður en þeir fara í sumarfrí var um eina fegurstu gönguleiðina sem gefst í dagsfjarlægð frá Reykjavík upp með gljúfri Glyms, yfir Botnsá og niður hinum megin...

Veðrið enn og aftur með ljúfasta móti eins og bókstaflega alla þriðjudaga það sem af er sumri frá því um miðjan apríl... sól, logn og hiti... þó ekki hafi þetta reyndar litið vel út þegar ekið var inn Hvalfjörðinn í hellidembu... sem fór greinilega yfir svæðið rétt áður en við svo lentum í botni... svo við fengum ilmandi skóginn á móti okkur ferskan og glaðan eftir hitaskúrinn...

Bontssúlurnar minntu á sig í Hvalfjarðarbotni... Háasúla (sést ekki á þessari mynd), Norðursúla og Vestursúla...
og Botnssúlufarar sem enn svifu um í yfir þúsundmetra hæð eftir tindana fimm rifjuðu upp afrek helgarinnar...

Farin var hefðbundin leið niður að ánni, um hellinn, yfir ánna og upp austurbrúnir gljúfursins... hér komin fram á klettanösina við ánna þar sem gönguleið kvöldsins blasti við beggja vegna gljúfursins...

Ekki spurning að taka hópmynd úr því allir trítluðu þarna upp á...
þó ekki sjáist vel hverjir eru þarna á ferð í yfirlýstri sólarmyndinni...

Hellirinn...

Glymsgljúfur sést út um hellisopið...

Kristín Gunda mætti aftur í göngu með Toppförum þetta kvöld eftir eins og hálfs árs meiðslahlé eftir óhappið á Þverfellshorni í ljósagöngu Steina í desember 2010... ökklinn loksins kominn í nógu gott lag... einn sterkasti, reynslumesti og áræðnasti göngumaður Toppfara í allri sinni hógværð...
og henni var vel fagnað :-)

Alltaf skal þessi gönguleið koma manni jafn mikið á óvart fegurðarinnar vegna... hvílík perla af leið frá fyrsta skrefi til þess síðasta...

Símastaurinn hefur aldrei vafist fyrir mönnum en nú hefur heldur losnað um vírinn sem er mun eftirgefanlegri en áður
og því reyndi meira á jafnvægislistina en fyrr..

... en allir komust yfir og ungu göngumennirnir líka ;-)

Ein af þremur fjölskyldum kvöldsins...

Hrefna, Halldóra Þórarins og Erna en þær systur sem nú eru 12 ára hafa komið í fjölskyldugöngur Toppfara nokkrum sinnum
allt frá árinu 2008...

Upp úr gljúfrinu hinum megin var farið um brattan slóða sem nú er vel mótaður og varðaður köðlum í lausagrjótinu...

Heilmikið búið að lagfæra stíginn og gönguleiðina alla upp að brúnunum efst og afstýra aukakrókum sem voru farnir að skemma umhverfið... aðdáunarverð vinna að baki sem er að okkur skilst unnið að öllu leyti í sjálfboðavinnu...

Sannkölluð töfraveröld þar sem gersemar leynast í hverju skrefi fyrir öll skilningarvit...

Nokkrir í hópnum voru að ganga í fyrsta sinn um þessar slóðir en allir jafn uppnumdir af fegurðinni...

Því miður þekkjum við allt of vel til slyssins sem varð í Glymsgljúfri fyrir þó nokkuð mörgum árum þegar Selma, hádegisskokkari og kona Stefáns Heimis, fyrrverandi Toppfara missti fótinn vegna grjóthruns við að fara með ferðamenn gangandi inn gljúfrið sem verður ansi torfært eftir því sem innar dregur, en slysið varð til þess að skipulagðar ferðir inn gljúfrið voru lagðar af...

Einn af stórkostlegum myndatökustöðum Glymsgljúfurs...
Torfi að munda græjurnar sínar og Skuggi passar sinn mann vel...

Skúraleiðingarnar voru farnar yfir svæðið áður en við hófum gönguna og sólin skein meira og minna þetta kvöld
þó það virtist hálf þungbúið á köflum og við héldum að það væri hugsanlega stutt í rigninguna sem aldrei varð...

Mættir voru:

Örn, Elsa Þ., Lilja Sesselja og Anna Lilja, 12 ára, Guðmundur, Jónas Torfason, 15 ára, Súsanna, Erna, 12 ára Halldóra og Hrefna 12 ára, Alma, Torfi, Irma, Alexander, Björn, Skuggi, Sigga Sig., Kristín Gunda, Soffía Rósa, Roar, Halldóra Á., Sirrý, Sigga Rosa, Katrín Kj., og Ósk en Bára tók mynd

Áfram var haldið eftir brúnunum á síbreytilegri leið sem minnti á Hringadróttinssögu eða Avatar... allavega útlönd...

Hvalfjarðarbotn í öllu sínu sumarveldi í baksýn...

Búið er að loka leiðinni gegnum þetta gil neðar sem við höfum hingað til farið um með klöngri upp klettana.. ekki að óseskju, orðið illfært og slysahættan aukist með átroðningi fjöldans...

...þessi leið enda fallegri þarna ofar og hreinlega þakklætisvert að hafa lokað hinni...

Kristaltært vatnið og auðvitað fengu einhverjir sér sopa ;-)

Hamraveggirnir í Glymsgljúfri eru heilt lífríki út af fyrir sig þar sem maðurinn kemur ekkert við sögu
nema til truflunar og átroðnings...

Frá "appelsínugula fossinum" var haldið út á besta útsýnisstaðinn...

... þar sem Glymur sést allur í heild sinni...

Önnur fjölskylda dagsins af þremur...

Lilja Sesselja og Anna Lilja sem líka á sér langa sögu í Toppförum eins og dætur Halldóru ;-)

Litið niður í gljúfrið...

Við vorum afslöppuð þetta kvöld og nutum hvers skrefs enda teygðist úr göngunni umfram áætlaðan göngutíma
sem var meira en í góðu lagi ;-)

Þriðja fjölskylda kvöldsins... sem farið hefur ýmsar ævintýraferðirnar á Íslandi gegnum árin, jafnvel með allt á bakinu
og Skuggi þar með talinn...

Helga 19 ára, Torfi, Alma g Jónas 15 ára með Skugga en "unga fólkið" var að mæta í fyrsta sinn með Toppförum
og eru alltaf velkomin með ;-)

Toppfarar gengu fyrst á Glym í boði Gylfa fyrsta sumarið í sögu klúbbsins árið 2007 á meðan þjálfarar voru í fríi og menn skiluðu sér til baka uppfullir af lýsingum af þessari stórbrotnu  leið... það var engum ofsögum sagt um fegurð hennar þegar við þjálfarar fórum svo könnunarleiðangur um slóðirnar og bættu Hvalfelli við enda hafa Toppfarar farið árlega á þessar slóðir síðan, reyndar alltaf með viðkomu á Hvalfelli þar til núna og reyndar ekki í fyrra þar sem við slepptum þessum slóðum þá, en gerum það ekki aftur...

Svona gönguleið er yngjandi, frískandi, hressandi, læknandi og gerir hvern mann betri eftir á... ekki spurning að fara árlega að Glym meðan þessi klúbbur lifir... árið 2013 ætlum við að Svörtugjá sem er litla þrönga gljúfrið vestan megin við Glym og þaðan í Glymsbrekkur... árið þar á eftir væri spennandi að gefa sér betri tíma í gljúfrin undir Hvalfelli sem við höfum komið við á niðurleið af fjallinu og leyna á sér í umfangi og fegurð... og eins þurfum við að fara góða göngu upp með og beggja vegna Hvalskarðsár um fossar hennar, sanfsprænur, gljúfur og gil...

Náttúruhellur í tonnatali...

Litið til baka niður með gljúfrinu...

Svipmikli stóri hamarinn séður neðan frá...

Komin í hamrasalinn þar sem fossinn ræður ríkjum...

Glymsríki...

Við ætluðum yfir Botnsá og ákváðum að borða nestið ofan við ánna í grashlíðinni með kvöldsólina í fangið...

Litið til baka með Múlafjall hinum megin Hvalfjarðarabotns þar sem við gengum eftir því öllu fyrr í sumar fram á sjávarbrúnirnar á arnarslóðum  í vestri og dáðumst að Hvalfjarðarbotni í leiðinni...

Ofan í gljúfrinu efst við fossinn sáum við kindur á beit... og fundum hvergi góða leið fyrir þær upp úr gljúfrinu...
...það sem þær komast ekki þessar kindur...

Nestispásan við Botnsá sem rennur úr Hvalvatni... en þjálfarar eru hér með búnir að setja göngu upp að Glym og kringum Hvalvatn á dagskrá milli jóla og nýárs í ár... ekki spurning að sjá Glym í klakaböndum og koma þessari vatns-göngu á kortið sem við höfum látið okkur dreyma um í hvert sinn sem við göngum um þessar slóðir...

Eftir nesti var tekið til við að vaða... á táslunum eða vaðskóm eftir smekk og minni ;-)

Yngstu göngumennirnir rúlluðu þessu upp þrátt fyrir kulda og smá vatnselg í restina...

Stórfengleg sýn niður á fallstað Glyms...

Leiðin hinum megin gljúfursins var ekki síðri þó ólík væri...

Minningarskjöldur um ferðamann sem féll niður í fossinn árið 1960 með mynd af fjölskyldu hans...

Góður gönguslóði liggur vestan megin við Glym og ekki hægt að villast af leið...

Stórbrotnir útsýnisstaðir til að byrja með ofan í gljúfrið...

... þar sem ljósmyndararnir nutu sín vel...

... og yngri kynslóðin skoppaði um eða bætti við vörðum...

... áður en kjarrið og skógurinn tók við og gleypti okkur inn í ævintýraheiminn sinn...

... sem öðru hvoru opnaðist undir bert loft...

... og lokkaði okkur áfram um töfrastigur...

... áður en skógurinn umlukti okkur aftur...

... þar til niður var komið á lendurnar alla leið í bílana aftur...

Dásemdar sumarkvöld eins og þau gerast best á Íslandi

sem endaði á 7,6 km á 3:51 klst. upp í 363 m hæð hæst með 300 m hækkun miðað við 67 m upphafhæð.

Þjálfarar fara nú í sumarfrí fram í ágúst en dagskráin heldur áfram á vegum klúbbmeðlima og er fyrsta gangan hin árlega Eilífsdalsganga með Hjölla þriðjudaginn 10. júlí og svo taka skemmtileg fjöll við koll af kolli þar til þjálfarar snúa aftur við í tindferð á Hlöðufell laugardaginn 11. ágúst og á þriðjudagsæfingu á Blákoll við Hafnarfjall þann 14. ágúst.

Njótið uppskerunnar í sumar elskurnar...
þið eigið það svo margfalt skilið eftir eljuna gegnum allar árstíðir árum saman á fjöllum ;-)

Sjá dagskránna meðan þjálfarar eru í fríi hér ofar á vefsíðunni !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir