Tindferð 87 Hrútaborg - Steinahlíð - Fögruhlíðarhnúkur - Vatnsdalshnúkur - Hrafnatindar
sunnudaginn 11. nóvember 2012


Klöngur um ísilagðir klettaborgir
Hrútaborg - Steinahlíð - Fögruhlíðarhnúkur - Vatnsdalshnúkur - Hrafnatindar
... í kristaltærri stillu milli storma ...

Laugardaginn 11. nóvember gripu tíu Toppfarar veðurglugga milli hlélítilla illviðra þessar vikurnar og klöngruðust í fljúgandi hálku upp á ísilagða Hrútaborg í Hnappadal ásamt félögum hennar í Kolbeinsstaðafjalli... og uppskáru kristaltæran dag á fjöllum í blíðskaparveðri, hreinu skyggni og flottu færi...

Þjálfarar vissu sem var að Hrútaborgin ein og sér væri varla vönum göngumönnum bjóðandi eftir eins og hálftíma akstur úr bænum... og ætluðu sér að þræða eftir Sóleyjartindi (okkar nafngift), Hróbjargastaðafjalli, Klifborg (Hrossaköstum) og Heggstaðamúla sem mynda fallegan tindahring um Hrútadal í norðri... en féllu frá því úr því þetta var orðin sunnudagsganga í þröngum veðurglugga þar sem von var á suðaustan slagviðri eftir norðaustan kuldahvassviðri... og menn kannski meira á því að taka loksins dagsgöngu í styttri kantinum úr því það var vinnudagur daginn eftir...

...en Anton var ekki lengi að afvegaleiða félaga sína yfir á suðurtindana sem rísa milli Hrútaborgar og Tröllakirkju í Kolbeinsstaðafjalli sem þýddi ekki eins langa hringleið og upphafleg ætlun þjálfara var en mun brattari... alveg að smekk þessa ástríðufulla fjallamanns... og við vorum ekki lengi að falla fyrir þeirri freistingunni... og náðum meira að segja að halda tímaáætlun og vera komin í bæinn í dagsbirtu á slaginu 17:00 í Ártúni ;-)

Við ákváðum samt að klára Hrútaborgina fyrst og sjá svo til eftir veðri og færð...

Veðrið var eins og það best getur verið... hlýtt, lygnt og léttskýjað... og skyggni frábært til fjalla allt um kring...
Hafursfellið hér með skýjahnoðra á efstu tindum um morguninn...

Enn er dagsbirta í byrjun tindferðar... í desember og janúar tekur myrkrið eða rökkrið við í byrjun göngunnar og það getur reynt á að koma sér úr rúmi og út úr bænum í þessu myrkri og kulda... en þeir sem gert hafa það nokkrum sinnum eru fyrir löngu hættir að taka eftir myrkrinu og sjá bara ljósið sem bíður þeirra á fjöllum síðar um daginn... ;-)

Kolbeinsstaðafjall... Fögruhlíðarhnúkur þá strítan þarna vinstra megin efst... við vissum að Tröllakirkjan sést ekki fyrr en ofar dregur og að það eru nokkrir tindar í kringum hana en samt vorum við eiginlega farin að halda að þetta væri hún... þangað til við komum ofar og sáum að svo var ekki...

Vatnsdalshnúkur svo í miðjunni, brattur austan megin en aflíðandi vestan megin og svo Hrafnatindar lengst til hægri...

Smám saman lýsti af degi... sólin var komin upp og tók fyrst að lýsa á skýin ofan okkar áður en landið naut hlýjunnar...
Alltaf jafn magnað að upplifa þessa dagrenningu að vetri til...

Skýjað að hluta til að byrja með en smám saman hreinsaðist allt ofan af fjöllunum í kring...

Loks kom Tröllakirkjan sjálf í ljós á bak við Fögruhlíðarhnúk... já, auðvitað var hún þarna á bak við...
brattari og óárennilegri en nokkur annar tindur í nágrenninu...

Hrútaborgin nálgaðist óðum...

...og brattinn jókst þegar nær dró...

Hálkan jókst líka og menn náðu í hálkubroddana...

... svellbungurnar orðnar of torfærar til annars en að geyma það frekar...

Tindar Tröllakirkju og félaga komu sífellt betur í ljós eftir því sem ofar dró...

Valla var eitthvað ólík sér... er alltaf fremst en leið ekki vel þennan morgun...
fékk smá hvíld, mat og vatn og eitt stykki gu-gel frá Antoni... og varð eins og ný manneskja á eftir ;-)

Hrútaborgin varð hrikalegri þegar nær var komið...

... og nágrannatindar hennar sömuleiðis...

Loks sáum við til sólar hinum megin fjallgarðsins...
skýjaðra í suðri en skuggar Hafnarfjalls og Skarðsheiðar sáust í mistrinu...

Fagraskógarfjall í suðri hinum megin dalsins frá Kolbeinsstaðafjalli... við þurfum að ganga á það fjall einn daginn...fært að vetri til að fjallsrótum og göngufært í vetrarfæri... og magnað útsýni af þessu ekki háa fjalli sem er útvörður Hítardals og næsti nágranni tignarlegu tindana í Kolbeinsstaðafjalli...

Við fengum ekki nóg af fjallasýninni til vesturs yfir Snæfellsnesið...
Snæfellsjökull í sólinni, Hafursfellið fallega blátt og Ljósufjöll skyndilega aftur komin í ský á efstu tindum en þau stöldruðu stutt við...

Af hryggnum "slæddum" við okkur aftan við Hrútaborgina austan megin...

... þar sem kyngimagnað landslagið tók við...

... ísilagðir klettar og skriður sem allajafna eru vel færar í hliðarhalla á sumrin en voru nú heldur torfærari að vetri til...

Hvílíkt vetrarríki sem þarna var í klettunum...

Hálkubroddarnir komu sér vel á þessum kafla....

Hefði verið mun verra að vera á jöklabroddunum sem eru hærri og heldur erfiðir á göngu í miklulm hliðarhalla þar sem lítið er hægt að stinga göddunum ofan í harðfennið þar sem ísingin var meira ofan á grjótinu og mölinni og ekki þörf á að vera með ísexi til að stöðva sig ef maður rynni af stað, því það var ekki hætta á því nema stuttan spöl í mesta lagi... það var akkúrat þetta hálkubroddafæri sem gerir okkur svo þakklát að hafa þá og þeir einir skilja sem eru raunverulega að ganga á fjöll að vetri til... gerir mann stundum svekktan þegar menn eru að gagnrýna þá því þeir eru raunverulega þarfaþing í svona færi...

Sjá ísinn leka niður milli hnullunganna... þarna voru margar kynjaverurnar...

Tvær skriður eru vel færar upp Hrútaborgina austan megin...
og hugsanlega er skriðan sem blasir við vestan megin þegar maður kemur að henni úr dalnum (sunnar til í vesturhlíðinni) einnig fær...

Við töfðumst við endalausar myndatökur af dýrðinni sem þarna blasti við...

Magnað landslag í vetrarbúningnum með himininn fallegan ofan okkar...

Uppgönguleiðin...

Klöngur sem þó var vel fært þar sem alls staðar voru góðar syllur í klettunum og broddarnir gáfu ekkert eftir...

Útsýnið stórkostlegt nær á bergið sjálft... fjær á Fagraskógarfjall... og upp í himininn á síbreytilegt skýjafarið...

Þarna var auðvelt að gleyma sér við myndatökur...

Komin ofar en maður tekur ekki myndir á verstu upp- eða niðugönguköflum... en þó náðist þessi aðeins hreyfð...

Guðmundur er einn af lofthræðslulausustu mönnum klúbbsins og alltaf reiðubúinn til í að rétta hjálparhönd fyrir öftustu menn...

Útsýnið til austurs yfir Hítardal... sjá Tröllakirkju í Hítardal og Smjörhnúkana hennar rétt vinstra megin við miðja mynd...
... þar sem við stóðum í ágúst 2011 og mændum yfir á Hrútaborg og Tröllakirkju i Kolbeinsstaðafjalli...

Komin upp mesta brattann...

Eingöngu eftir að klára upp frosna skriðuna á tindinn...

Útsýnið til suðurs að Kolbeinsstaðafjalli með Tröllakirkjuna svipmikla trónandi yfir öllu...

Þarna lá leið okkar síðar um daginn... með Steinahlíðinni vinstra megin, upp á Kolbeinsborg og niður um Hrafnatinda...

Það var tvímælalaust þess virði að hafa tekið þennan sunnudag í þessa göngu...
og það bar oft á góma vikuna á eftir þar sem hvert illviðrið rak annað...

Útsýnið til Ljósufjalla sem fengu á sig sól og ekki sól til skiptis...

Rauðakúla lengst til vinstri, Ljósufjöllin öll í röð saman, Botnaskyrtunna svo aftan við þau lengst til hægri.
Nær á mynd eru Þrífjöllin svokölluðu; Svartafjall, Skyrtunna og Snjófjalll sem við ætlum að ganga á í apríl á næsta ári ;-)

Hafursfellið og jökullinn... þarna þræddum við okkur upp Þverárdalinn og upp á hæsta tind
og svo yfir á þennan dökka hrygg vinstra megin sem kallast Stillur, þangað til við komumst ekki lengra og snerum við...

Við nutum þess að vera á þessum ekki hærra en 835 m mælda fjallstoppi sem státar af einstöku útsýni til allra átta...

Hæðin í bók Ara og Péturs stenst ekki (879 m), við mældum öll svipaða hæð á Hrútaborg svo þar er um prentvillu að ræða örugglega.

Einstakur hópur á ferð sem veit varla hvað lofthræðsla er... ;-)

Guðmundur, Hjölli, Anton, Jóhannes, Örn og Katrín.
Jón, Valla, Björn og Dimma og Bára tók mynd.

Útsýnið til norðurs yfir á tindana sem upphaflega var ætlunin að ganga á... Hrófbjargarstaðafjall, Klifborg (Hrossaköst) og Heggstaðamúla út af mynd vinstra megin en fjær er Geirhnúkur sem við þurfum einnig að ganga á einn daginn...

Dimma var foringi dagsins og fór létt með allt þetta klöngur ísnum ;-)

Magnaður útsýnisstaður; við tímdum varla að fara niður þar sem við blasti Snæfellsnesið allt að jökli í vestri, yfir í Hvammsfjörð og Vesturlandið útbreitt upp að Holtavörðuheiði í norðri, að Eiríksjökli sem reis ótrúlega stór svona alvhítur í kristaltæru skyggninu í austri... yfir á borgarfjöllin öll, Skarðsheiðina, Hafnarfjallið ofl. og til sjávar í suðri...

Ofan af Hrútaborginni mældist -7°C frost og nánast logn en mesta gola uppi mældist 2 m/sek og þá fór frostið í allt að -12°C...

Það var mál að fara niður að borða á góðum stað í hlíðinni í sólinni...

Niðurgangan gekk mun betur en við héldum...

Við tókum skárra gilið niður í stað upp...

... og þræddum okkur niður í hliðarhallann undir klettaborginni...

... þar sem við settumst loks niður og snæddum í dásamlegu útsýni til austurs að vetrarólinni...

Eina hópmynd í aksjón ;-)

Litið til baka... sólin núna farin að baka klettana og bræða klakann sem var gallharður á uppleið okkar fyrr um daginn...

Fegurð tröllvaxinna hamranna á Hrútaborg minntu mann á ísilagða klettana á Skarðsheiðinni 2011:

...og Skarðsheiðinni 2007 - sjá mynd hér neðar:

...þar sem enn hafa aldrei sést aðrir eins klakaglerjaðir klettar aftur í sögu okkar...

Í fjarska í suðri vakti Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli yfir okkur og fylgdist með hópnum þræða sig eftir þessum hrygg hér nær á mynd... þar sem við komumst meira að segja upp með að klöngrast upp á nafnlausu klettaborgina lengst til hægri sem við nefndum Kolbeinsborg en komust síðar að því að heitir ... en þjálfarar höfðu svo sem í villtustu draumum hugsað sér að bjóða jafnvel óvænt upp á aukakrók á Tröllakirkjuna, ef allt væri með okkur, veður, færð, hópur... og þá ef það væri fært á milli einhvern veginn... en voru fallnir frá því fyrir viku síðan úr því göngufærið var orðið svona vetrarlegt...

...en löngunin var ekki lengi að kvikna í þessum þétta tíu manna hópi sem mændi löngunaraugum á þennan tignarlega tind svo ekki munaði miklu á köflum að látið væri slag standa... en við létum skynsemina ráða og bíður þessi síðasta kirkja Vesturlands betra færis síðar... þó reyndar við sæjum það síðar um daginn að það gæti nú alveg hugsanlega verið fært þarna upp í þessu færi ef farið væri þekktu leiðina sunnan megin... þetta var nú ekki svo flókin leið niður um Snjódalinn... en... ok, við tökum þetta seinna...;-)

Litið til baka upp eftir Hrútaborginni á suðurhlið...

Jú, við urðum að taka eina hópmynd með fjall dagsins í baksýn... ;-)

Útsýnið til Ljósufjalla og aprílfjalla okkar 2013...
og fjallsins Hests lengst til hægri sem er búið að finna sér pláss árið 2014 á dagskránni ;-)

Næst var Steinahlíðin á dagskrá...

Hún var greiðfær til að byrja með en leyndi á sér þegar lengra dró...

Litið til baka á Hrútaborgina sjálfa... með tindana í Hrófbjargastaðafjalli og Klifborg sem var upphaflega á áætlun dagsins...
og við tökum bara síðar ef vindar blása okkur svo í brjóst... ;-)

Magnað veður - magnað landslag - magnað skyggni - magnaðir göngufélagar...

... það var bara ekkert öðruvísi þennan dag enda teknar magnaðar myndir...

Sjá veisluna á fésbók leiðangursmanna!

Smám saman kom Kolbeinsstaðafjall í ljós í allri sinni dýrð...

... og það var ekki síðra að líta til baka...

Klettarnir slúttu fram niður í Kaldárdalinn sem liggur milli Kolbeinsstaðafjalls og Fagraskógarfjalls...

... og voru ansi flottir í nærmynd...

Hæðin á Steinahlíð mældist hæst 715 m og til að skrá söguna rétt fær Steinahlíð að teljast sem sér tindur dagsins...

Smá klöngur upp og niður... þetta var bara svoleiðis ferð ;-)

Steinahlíð er réttnefni frá ýmsum sjónarhornum...

Dagurinn minnti mann sí oftar á jólagönguna á þríhyrning í desember 2011...
þar sem tignarlegir tindar skáru út landslagið með vetrarsólina gula á snjó og bergi...

Einstakt að ná að ganga að Tröllakirkju Kolbeinsstaðafjalls úr þessari átt og í þetta mikilli nálægð...

Litið til baka yfir farinn veg á Steinahlíð með fallegu ótlejandi fjallstindana austan Hítardals í fjarska...

Nafnlaus tindur í baksýnis-hvarfi lengst til vinstri - Tröllakirkja í Kolbeinstaðafjalli hæst - nafnlaus aukatindur á hryggnum
og loks okkar tindur sem við héldum fyrst að væri nafnlaus og kölluðum "Kolbeinsborg",
þar til Reynir Ingibjartsson hafði samband og lét okkur vita að hann héti Fögruhlíðarhnúkur....

Við þræddum okkur eftir þessum fjallshrygg hér upp og niður... en neðri hluti þessa hryggjar kallast Vatnsdalshnúkur að sögn Reynis Ingibjartssonar og loks eru það Hrafnatindar móbergsklettarnir neðst niður að veg frá 540 m hæð  sem teljast þá fjórði og síðasti "tindur dagsins"... en við kölluðum annars þetta útúrdúraævintýri i heild "Antons-kamb" af því þetta var hans hugmynd og þjálfarar höfðu ætlað sér að taka þá síðar á göngu með Tröllakirkju... en þennan dag átti þessi leið fullkomlega við tímarammann, veðrið, færðina og óttalausan hópinn ;-)

Þetta er örugglega vel fært að sumri til í hliðarhalla þarna yfir, enda mótaði fyrir kindagötum utan í hlíðinni og upp í skarðið neðan við Tröllakirkju... Anton sá leið upp á kirkjuna hérna megin en við hin vorum meira efins... ;-)

Leiðin á Fögruhlíðarhnúk var þó skárri...

Strákarnir gátu ekki beðið eftir að fá að klöngrast meira... ;-)

... og þetta skánaði eftir því sem nær dró eins og oft áður...

Hryggurinn frá Fögruhlíðarborg yfir á Vatnsdalshnúk sem við áttum eftir að rekja okkur eftir...

Litið til baka um Steinahlíð og Hrútaborg...

Við vorum allavega ekki að fara neina framhjáleið þarna á milli, of bratt og hált til þess,
það var annað hvort að fara upp á tindinn og niður hinum megin eða snúa við um Steinahlíð... ;-)

Þetta byrjaði vel...

Sólin búin að bræða snjóinn og hálkan var ekki sú sama og á Hrútaborg fyrr um daginn...
Hrafninn flýgur... yfir þarna efst ;-)

Strákarnir strax komnir hálfa leið upp...

Fínasta klöngur um klettatröppur...

Efstu brúnirnar brattar og aðeins hálar...

Fögruhlíðarhnúkur, Vatnsdalshnúkur og Hrafnatindar neðar í hvarfi og svo Ljósufjöll...

Heldur þröngt þarna upp á þessari leið... við fundum skárri aðeins sunnar...

Sólin að lækka á lofti bak við Tröllakirkjuna...

Skásta leiðin var meðfram hömrunum í hliðarhalla þar sem menn gátu sleppt því að klöngrast alveg efst á tindinn...

... en flestir voru nú ekki alveg á því og skutluðust þarna upp þessa ágætu leið...

Mögnuð útsýnisleið þarna um...

Litið til baka... einhverjir geymdu bakpokana og stafina meðan þeir fóru upp þessa leiðina...

Svo var hægt að fara þarna upp (sést ekki á mynd)... leiðina sem Jóhannes fór niður um...

Anton hér að fara niður þá leið...

Það var þess virði að fara alla leið... hvílíkt útsýni...

Sýnin niður á Vatnsdalshnúk og Hrafnatinda... síðasta spölinn okkar þennan dag....

Suðurleiðin niður...

Landslagið á Steinahlíð að Hrútaborg...

Suðurleiðin, lítur skár út en það var... eða hvað ;-)

Hinum megin Fögruhlíðarhnúks var ágætis leið niður um hlíðina með sikksakki...

... sem var eins gott því við vildum helst ekki þurfa að snúa við...

Við vorum komin í Snjódalinn sem flestir ganga um á leið sinni á Tröllakirkju...
Tjörn í dalnum og sjálfsagt ansi fallegt að sumri til...

Tröllakirkja gnæfði yfir okkur allan tímann...

Á þessum tímapunkti drógu "óveðursský" fyrir sólu í suðri sem hrönnuðust upp með heiðan himininn áfram norðan megin (að því er Bára hélt en þetta reyndust bara smá snjókomuský yfir Reykjavík)... og vindurinn fór loks að hreyfast eitthvað (sem studdi kenningar um að slagviðrið væri lent því illviðrin eru gjarnan komin í fjöllin klukkutímum á undan láglendinu)...

...og Vatnsdalshnúkur tók við ofan við Hrafnatinda
sem var vel viðeigandi þar sem krummar höfðu krunkað yfir okkur öðru hvoru þennan dag...

Litið til baka upp með Fögruhlíðarhnúk...

Sólin að skína á efstu tinda Skyrtunnu og Hests...

Magnaðir litir þessa árstíma mættir á svæðið...

Klöngrið var jú ekki búið... ;-)

Litið til baka á Tröllakirkju... sjá þungbúið skýjafarið... líklega snjókomuskýin í Reykjavík seinnipartinn...

Fögruhlíðarhnúkur... ansi gaman að hafa farið þarna um...

Hrútaborg, Hróbjargarstaðafjall, Klifsborg og Heggstaðamúli... landslag sem leynir á sér og er stórfenglegt þegar nær er komið...
með flottu útsýni niður í Hítardal og fjöllin hans eins og Geirhnúk ofl... verðum að fara þarna um einn daginn, kannski að sumri til...

Á öllum kortum er litli tindurinn næstur Hrútaborg nafnlaus og við köllum hann Sóleyjartind í höfuðið á Sóleyjardal sem er fyrir neðan
og NB Hrossaköst eru á gps-kortinu en ekki á korti Reynis þar sem Klifsborg er sem dæmi.

Einn daginn... skulum við ganga á þessa tinda...

Fögruhlíðarhnúkur, hryggurinn á milli og Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli...

Klettarnir í Vatnsdalshnúk...

Við vorum í gírnum...

... og fórum þetta óhikað og fumlaust...

Tókum bara Slóveníu-gírinn á þetta... gengum hreint og óhikað til verks upp og niður hvern hálan tindinn á fætur öðrum án þess að hika... létum fararstjórann hafa okkur út í allt úr því öllu sem komið var að baki... ;-)

Það þröngt þarna uppi að það var ekki pláss fyrir ljósmyndarann á eftir göngumönnunum...

Þá var bara að mynda hálkubroddana sem komu sér ansi vel í þessari ferð...
Hefðum örugglega ekki nennt að standa í þessu klöngri á jöklabroddunum enda ekki þörf á þeim á þessari leið...

Síðasti klöngurtindurinn var efsti hluti af Hrafnatindum sem við mældum í 540 m hæð ...

Virkilega fagur árstími á fjöllum...
...njórinn tiltölulega ferskur, sólin enn sæmilega hátt á lofti til að bræða eitthvað... og brúni litur jarðar enn við lýði innan um þann hvíta....

Sólin að skína á efstu tinda í fjarska... Hafursfellið alltaf jafn svipmikið... snjóminna þar sem það er nær sjó...
munar ótrúlega á staðsetningu að sjávarmáli hvað snjóalög varðar... oft vel fært á fjöll nær sjó en fannfergi mikið innar í landi...

Hrútaborg og félagar í norðri...

Heggstaðamúli með sömu félögum í norðri...

Lægri brúnir Hrafnatinda niður á láglendið...

Eilífsvötn tvö þarna fremst, Hlíðarvatn hægra megin og Oddastaðavatn fyrir miðri mynd lengst í fjarska...
vötnin sem við veltum vöngum yfir ofan af Hafursfelli í september...

Síðasta spölinn fórum við með ísfossum...

Ótrúlegt hvað hægt er að gera í þéttum, ástríðufullum og jákvæðum hópi.. sem skilaði sér niður á láglendið eftir alls 11,1 km á 5:57 - 6:04 klst. upp í 835 - 716 - 770 - 698 og 540 m hæð með alls hækkun upp á 1.026 m milli allra tinda miðað við 95 m upphafshæð...

Gullfallegur dagur
í einstökum félagsskap, fínu færi, dásamlegu veðri, tæru skyggni, tignarlegu landslagi og mergjaðri gönguleið...
Haf þökk kæru félagar fyrir enn einn fullkominn dag á fjöllum ;-)

Allar myndir þjálfara úr ferðinni hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T87HrutaborgOfl111112
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir