Tindur 6 - Skarðshyrna og Heiðarhorn 3. nóvember 2007

Þrettán toppfarar ásamt  fjallaleiðsögumanninum Jón Gauti gengu á sjötta tindinn, Heiðarhorn og Skarðshyrnu á Skarðsheiði laugardaginn 3. nóvember 2007.

Vetrarfjallamennska beint í æð og heimskautafílíngur á toppnum!

Á sama hátt og Syðsta-Súla kenndi okkur allt um rokið... gaf Skarðsheiðin okkur innsýn í hvað það er að ganga í hörkufrosti, fljúgandi hálku og blindbylsþoku þó ekki sé nema um nokkra hríð...

Augnhár, augabrúnir og skegg í klakaböndum... fatnaður hrímaður... myndavélin kapútt... fingur stirðir af kulda... og nestið frosið... sjá góða sýnimynd af Stefáni hér síðar!

Mætingin í þessa tindferð var dræmari en áður og lék þar m. a. hlutverk hve margir fastagestir í tindferðirnar voru erlendis eða vant viðlátnir.

Einnig er það staðreynd að það er erfiðast að koma sér af stað á þessum árstíma og fram í janúar, en eins og alltaf er manni verðlaunuð eljan...

Maður sér aldrei eftir því að banka upp á hjá íslensku fjalli og það átti svo sannarlega við um þá sem mættir voru þennan laugardag, þrátt fyrir slyttingslegt og fráhrindandi veður síðust vikur í loftum, láði og kortum.

Sameinast var í bíla í Árthúshöfðanum eins og vanalega kl. 8:00 og var sérstaklega góð stemmning í hópnum á bílastæðinu í morgurrökkrinu.

Morgunsólarroðinn í austri lofaði okkur því að það kæmi dagur og við furðuðum okkur á veðurblíðunni og vonuðum að veðurhamurinn sem var í spákortunum myndi ekki ná í skottið á okkur á heiðinni...

Við ætluðum sko að klára þetta áður en hann skylli á, með "meðbyrinn" (betra veður) í farangrinum, hann er orðinn fastagestur í göngunum hjá okkur og klikkar ekki...

Ekið var um Vesturlandsveg að bænum Efra-Skarði og bílum lagt efst við sumarhúsin í fjallshlíðum, en bóndinn á bænum var fljótur að grípa í skottið á okkur.

Ekki reyndumst við þó vera veiðimenn á ferð eins og hann grunaði og hlaut för okkar því blessun hans alla sem var gott, alltaf betra að vera í sátt og samlyndi við heimamenn og umhverfið, hvar sem maður er staddur í sveitinni.

Tungukambur hér framundan.

Veðrið þennan dag var mjög gott eða logn og svalt um morguninn, bæði í bænum og við fjallsrætur í upphafi göngunnar.

Samkvæmt veðurstofunni var hitinn um 1 - 2°C og orðið SA13 m/sek þegar leið að hádegi með nokkurra gráðu hlýjindum.

Lagt var gangandi af stað kl. 9:19 og gengið um möl og mosa en fljótlega komið að snjólínu og klakahröngl í jörðu.

 

 

Skyggni var gott til suðurs og má hér ofar sjá Akrafjallið til hægri og Miðfellsmúla vinstra megin með vestari hluta Esjunnar í bakgrunni.

Hæð yfir sjávarmáli var um 119 m við upphaf göngunnar og voru menn vel gps - græjaðir í þessari ferð sem kom sér mjög vel.

Því þá var hægt að bera saman tölur og tryggja að við værum á réttri leið þegar þokan umlukti okkur í efri hlíðum og við sáum Heiðarhornið hvergi nema í huganum og á kortunum...

Gengið var jafnt og þétt inn eftir Skarðsdal og var yfirferðin nokkuð rösk, sterkur hópur á ferð og öllu vanur.

Útsýnið til norðurs var glæsilegt að Skarðshyrnu en þokuslæða læddist um á toppi hennar og ekki sást til Heiðarhorns norðar og innar á heiðinni fyrir þoku.

Gengið var upp með gili Skarðsárinnar og Jón Gauti stefndi á að ganga með hópinn austur upp með hrygg hyrnunnar (burstin hægra megin á mynd) og þaðan norðaustur á Heiðarhornið ef færð og skyggni gáfu svigrúm til þess.

Létt var yfir mannskapnum þennan morgun og ólíkt skemmtilegra að ganga fyrstu kílómetrana í logni og rólegheitum, en ekki hífandi roki eins og á súlunum fyrir mánuði síðan.

Gylfi, Kristín Gunda, Halldóra Ásgeirs, Hrönn, Halldóra Þórarins, Stefán og Jón Ingi að hlusta á gönguplan leiðsögumannsins.

Jón Gauti reyndist okkur vel í þessari ferð sem endranær og mæddi talsvert á honum þegar ofar dró við að spora út leiðina í glerharðri snjófönninni og eins á niðurleiðinni þegar svellhált var niður af Heiðarhorni og hann bjargaði einum félaganum á flugi niður.

Örn, Soffía og Íris Ósk líka að hlusta...

 

.

Þar sem hópurinn var ekki stærri en þetta var eingöngu einn leiðsögumaður með að sinni.

Hópurinn er orðinn hændur að þessu góða teymi, Guðjóni og Jóni Gauta og gætti því talsverðs saknaðar í garð Guðjóns.

Ekki er hægt að gera upp á milli þessara tveggja manna því betri menn er vart mögulegt að hugsa sér til leiðsagnar á fjöllum en þessa tvo.

Vonandi koma þeir með okkur á sem flesta tinda næstu mánuði og helzt á Hvannadalshnúk... þeir eru orðnir hluti af hópnum.

Halldóra Þórarins, Kristín Gunda, Gylfi Þór, Soffía, Örn, Halldóra Ásgeirs og Roar fóta sig meðfram Skarðsánni.

.

Framar voru svo Jón Gauti, Jón Ingi, Stefán, Hjörleifur, Hrönn og Íris Ósk.

Sem fyrr hefur verið sagt er kostur minni hópa eins og í þessari ferð sá, að þá þéttist hópurinn betur og spjallar saman í meiri nánd.

Hann verður eins og ein heild í ákveðnu samhengi með eitt sláandi hjarta á göngunni.

Dalsbotninn var fallegur og fossinn innst í gilinu gaf umhverfinu sérstakan blæ.

Svona staðir hafa heildrænt eða nokkurs konar sjálfstætt yfirbragð og eru sér heimur út af fyrir sig.

Maður fær strax á tilfinninguna að hér með gangi maður ekki á eigin forsendum heldur þess sem fyrir er... landsins undir fótum og allt um kring...

Heiðarhornið sem beið handan Skarðshyrnu var enda með öðrum hætti en veðurblíðan neðar hlíða... og lét okkur sko ganga á sínum forsendum...

Í botni Skarðsdals var farið yfir Skarðsá tiplandi á steinum sem voru flughálir og gerðu okkur erfitt um vik að komast þurr yfir.

Enginn datt þó í ánna sem hefði kannski verið skondið að sumri til, en þennan dag mátti enginn vera blautur í mannskaðaveðrinu á toppnum sem við höfðum ekki hugmynd um enn sem komið var...

Leiðsögumaður handlangaði menn yfir sem endranær.

Þarna rifjaðist upp með manni saga hans forðum þegar hann kolféll í ánna í upphafi margra daga bakpokagöngu í óbyggðum...

Ekki notalegasta uppákoman sem hæg er að hugsa sér á fjöllum...

.

Halldóra Ásgeirs með Esjuna og Hvalfjörðinn í bakið og heiðina undir fótum fráum og framundan sér.

Reynslumikil fjallakona  sem fékk viðbót í sarpinn sinn síðar þennan dag á svellhálli niðurleiðinni um snjófönnina á Heiðarhorni...

Snjólínan sést hér glögglega og er alltaf jafn merkilegt að upplifa þessi snöggu veðrabrigði og breytingar á færð og hitastigi þegar ofar dregur á hálendinu.

Með hækkandi metrum yfir sjávarmáli fór hálkan að segja til sín og var bæði grjót og möl steypt saman í einu samsærislegu svelli upp með hlíðinni gegn okkur göngumönnunum sem skildum ekkert í þessari erfiðu færð í saklausri brekkunni.

Ekkert hald var í jarðveginum, nema jú frosnum mosanum og freðnu grasinu á stöku stað.

Hér reyndi því á grófleika skósólana þegar ekkert nema snjór og svellkalt grjót beið okkar enn ofar og maður reyndi að halda sér á fótunum eins og belja á svelli...

Hallinn var talsverður á leiðinni upp Skarðshyrnuna og notuðum við þyngdaraflið til að skorða fætur milli steina og renna ekki niður.

Það var sérstakt að ganga við þessar aðstæður, á breyttum forsendum með lítið hald undir fótum,  dauðfeginn að geta neglt sér niður í harðan snjóskafl ef hann bauðst til að ná taki á næsta skrefi...

.

Besta gripið var í snjónum sem sporaður var út af fyrstu mönnum og hogginn með ísexinni af Jóni Gauta þegar þess þurfti.

Hópurinn gekk þéttur sem ein heild þarna upp og lét sér fátt um finnast annað en að komast alla leið... þetta var ný og skemmtileg áskorun sem krafðist þolinmæði og þrautsegju.

Við vorum sammála um það að lofthræðslan myndi gera vart við sig hér hjá þeim sem mest þurfa við hana að glíma, því það var ekkert þægilegt að standa í einu skrefi og geti sig hvergi hrært fyrir hálku.

"Akrafjall og Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar... ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík..."

Akrafjallið til hægri... einn af tindunum á næsta ári.

Og svo Kerhólakambur til vinstri sem bíður okkar 1. desember eftir mánuð í enn meiri vetri og skammdegi...

Það verður jólaleg tindferð sem Jón Gauti fullyrti að yrði nægilega krefjandi fyrir þennan hóp.

Hóp sem sjóast svo hratt að Hvannadalshnúkur verður bara enn einn tindurinn í safnið af mörgum krefjandi eins og þessum þennan dag.

Mynd frá Roar:

Soffía fremst og svo Kristín Gunda, Gylfi, Hrönn, Hjörleifur og Bára. Halldórurnar báðar í hvarfi af hinum.

Rennandi eitt skref aftur á bak fyrir tvö skref áfram eða tvö skref aftur á bak fyrir hvert eitt upp... stundum fannst manni það allavega... en þetta var ósköp saklaust ennþá...

Á stundum gekk þetta anzi hægt fyrir sig og ekkert að gera nema feta sig upp í rólegheitum og vera þakklátur fremstu mönnum sem hömuðust við að spora fyrir eftirbátana...

"...allir að stíga vel í hvert spor fyrir næsta mann..."

Mynd frá Roar:

Jón Gauti hér vopnaður ísexi gegn gallhörðum snjónum.

Skaflarnir voru svo sem ekkert að gera okkur þetta of auðvelt uppgöngu, en þeir voru fýsilegri kostur en glitrandi frosið grjótið, þar sem allavega var hægt að höggva sig niður í snjóinn.

Stefán fylgir honum fast á eftir og dýpkar sporin fyrir þá sem á eftir komu.

Sumu er ekki hægt að ná á mynd...

halla...
hálku...
útsýni...
kulda...
vindi...
frísku fjallalofti...
kynjamyndum hálendisins... gleðinni og sigrinum innra með manni í miðri fjallshlíð...

...bara ekki hægt að lýsa...

...verður að vera á staðnum og
upplifa andartakið...

Mynd frá Roar:

Hjörleifur giskaði á 40 - 45% halla á tímabili í þessu klöngri og það var örugglega nærri lagi.

Við tókum vel á því á þessum kafla upp Skarðshyrnuna og hópurinn bliknaði ekki.

Hækkunin var að mestu í höfn með þessu þar sem síðar var meira aflíðandi efst að hyrnunni og að Heiðarhorni.

Þarna tókum við smá pásu og skiptum út fötum eftir þörf og nestuðum okkur aðeins fyrir restina á fyrri toppinn.

Útsýnið enn til staðar í suður en þokuslæðan læddist um fyrir ofan og vildi ekkert sýna til norðurs.

Þjálfari datt beint á afturendann (NB í kyrrstöðu) við myndatökuna þarna, slík var hálkan og voru menn dettandi öðru hvoru alla þessa ferð.

Maður hætti sér varla út á steinana, þeim var bara alls ekki treystandi, eins skrítið og það var nú fyrir jafn stamt fyrirbæri og grjót og möl svona bjartari hluta ársins.

Lokakaflinn upp Skarðshyrnu skánaði lítillega í restina en þokan fór að umlykja okkur þegar þarna var komið og útsýnið hvarf sjónum þar með.

Toppfílíngurinn mættur á staðinn með sína umgjörð,reglur og forsendur... þoka, vindur, kuldi...

Það er kalt á toppnum!

Leyndardómsfullt og torkennilegt varð umhverfið og ísingin kom með þokunni þegar blásturinn tók við af logninu.

Ekki mátti dragast mikið aftur úr á köflum í þessari hæð því þokan læsti klónum fljótt í næsta mann.

Komin á Skarðshyrnu:

Í hálku og vaxandi kulda í 964 m hæð,
hækkun upp á
843 m og
4,3 km að baki  á 2:28 klst.

 

Íris ósk í forgrunni, ein fimm toppfara (að meðtöldum þjálfurum) sem toppað hefur alla tindana frá upphafi og á öll fjórtán æfingafjöllin að baki...

Geri aðrir betur...

jMynd frá Jóni Gauta:

 

Hjörleifur, Örn, Hrönn og Soffía á toppi Everest... nei, bara Skarðshyrnu á Íslandi í þetta skiptið... Everest er auðvitað á listanum... en í hvaða lífi það verður, veit nú enginn...

Frábær mynd og spennandi að ganga á þessar slóðir aftur næsta sumar í betra skyggni.

Kannski fer um mann af tilhugsuninni um hvernig við vorum þarna í roki og hálku, þoku og kulda...

Eitt er víst að manni þykir vænt um fjöllin sem maður gengur á, þau verða vinir manns í hjartanu... bönd sem myndast við að upplifa margar, ólíkar tilfinningar á fjallinu svo komin er sameiginleg reynsla sem tengir mann við viðkomandi fjall.

Maður er ekki samur eftir svona göngu og fjallið er ekki það sama í huga manns eftir svona göngu.

Dow Jones og Nasdaq vísitölur hafa ekki einu sinni kaliber til að mæla þess konar verðmæti...

Hengilflugið ofan af Skarðshyrnu var hulið okkar sjónum en þetta blasti við með smá innliti niður eftir brúninni út í tómið...

Þetta var hamraveggurinn sem gnæfði yfir okkur í upphafi göngunnar í heiðarhlíðum (mynd nr. 7).

 

Af Skarðshyrnu var gengið norður yfir á Heiðarhornið á aflíðandi leið með um 90 m hækkun eftir og 1,4 km.

"Smá göngutúr í viðbót" en breyttar forsendur því þar biðu okkar aðrar aðstæður en á hyrnunni... klakabönd, hörkufrost og vaxandi vindur sem læsti okkur saman í einn hvítrokinn hnapp með frosið en sigrihrósandi bros á andlitinu yfir að gefast ekki upp...

Mynd frá Roar:

Gengið var í norður með hamrana í hengiflugi á vinstri hönd og beljandi vindinn frá austri á hægri hlið.

Stundum fannst manni maður of nálægt brúninni til vesturs og færði sig neðar... en það var ekki auðvelt þar sem hálkan var mikil og hvert skref áfram uppréttur var dýrmætt svo það var ekki beint í boði að skoppa aðeins til hliðar að vild nema detta eða renna í leiðinni.

Þokan þykknaði og vindurinn jókst svo ráð var að þétta hópinn og ganga sem einn maður á tindinn.

Jón Gauti hóaði okkur saman og las okkur lífsreglurnar með vaxandi hrímið á göllum og græjum...

Mynd frá Roar:

Undanfararnir að renna saman við umhverfið... eins gott að halda sér gangandi og í áreynslu svo við breyttumst ekki í einn af þessum kyngimögnuðu steinum sem við vorum farin að líkjast sífellt meir...

Var það svona sem tröllin breyttust í steina forðum daga... veðruðust við landslagið án þess að geta nokkra björg sér veitt?

Ólýsanlega falleg veröld vetrarins á síðustu metrunum á Heiðarhornið.

Vindurinn nísti og frostið beit en maður gleymdi sér í fegurðinni og fannst maður vera í undralandi ísa...;


Í undralandi ísa og fjalla

upp er klöngrað klettahjalla.
Erum
við með öllum mjalla
Heiðarhornsins tind að spjalla?


Hversu hátt við héldum okkur
hrímuð tækin spurðum ótt.

H
endur, fætur, hefði nokkur
í
hörku frosti verið rótt?

þjálfari   

 

Halldóra Þórarins og Jón Ingi vaða snjóskafla milli ísilagðra klettanna.

Þarna var nú bara gott að hafa þó snjóskafl til að stinga sér ofan í, þó þeir færu stundum með mann upp í klof.

 

Þolinmæði...
þrautsegja...
kyrrð og friður...
síbreytileiki...
staðfesta...
nákvæmni...
vandvirkni...
fegurð...

...náttúrunnar á hálendinu sem lætur sig hafa það allan ársins hring er okkur öllum til
eftirbreytni í daglegu lífi...

Gefum ekki eftir, munum að alltaf birtir af degi, slökum á í amstri dagsins, þreyjum þorrann með því að aðlagast, verum samkvæm sjálfum okkur, bætum sífellt kunnáttuna, vöndum til verka og skörtum þannig okkar fegursta í hvaða sporum sem lífið býður okkur upp á.

Örn og Halldóra Ásgeirs klífa síðustu metrana á topp Heiðarhorns í beljandi vindi og frosti svo vart má sjá hvar er maður og hvar er steinn...

Hvar er maður, hvar er steinn?
Hverfast út því miður.
Hornið skal upp og andinn  beinn!
En hvernig komast þau niður?

þjálfari               

 

Jón Ingi og Hrönn hafa ásamt Írisi Ósk gengið á alla sex tindana frá upphafi og eiga mýmörg fjöll að baki með hópnum og á eigin vegum frá því í vor...

Þau eru rétt að byrja og fjöllin hérlendis og erlendis mega fara að vara sig...

Þessi staðfesta þeirra ásamt Írisar Óskar er til fyrirmyndar og vonandi sem flestum til eftirbreytni...

Hún verðlaunar með forskoti á margan hátt; með vaxandi líkamlegum styrk... ríkari reynslu í hvert sinn... betra valdi á ólíkum aðstæðum... auknu sjálfstrausti... betri þekkingu á búnaði... víðsýnna sjónarhorni en nokkru sinni á sjálfan sig og umhverfið í víðara samhengi en áður.

Ef maður horfir sífellt á fjöllin í kring hvar sem maður er staddur í veröldinni og langar upp... er maður kominn á bragð sem er í forréttindaflokki.

Ef maður horfir á hálendið að sumri sem vetri, jafnt sól og blíðu sem snjó og þoku og maður veit af fenginni reynslu hvernig það er nokkurn veginn að vera þarna uppi við þær aðstæður... þá er manni borgið... ekkert getur komið í veg fyrir að maður leggi sigursæll á hvaða fjall sem er glaður í bragði...

Smá pása í skjóli við klettana með toppinn fyrir ofan...

Í fyrsta skipti í tindferðunum var maður óþolinmóður eins og barn og fylgdist stöðugt með hæðarmælinum á gps-tækinu... hvenær erum við komin...?... er þetta ekki að verða búið...?

Áhyggjur af niðurleiðinni voru sömuleiðis farnar að slæðast að...

Hvernig kæmumst við niður í þessari fljúgandi hálku sem varla gaf okkur færi upp á við?

Gangan á toppinn var öðruvísi en nokkru sinni...

Ekki í leirkenndum klettum Vífilsfells...

sólargulum steinflísum Móskarðahnúka...

þokuslæddu, lausu rauðhrauni Ljósufjalla...

svörtum, loftkenndum vikri Heklu...

Hífandi roknum snjóbrekkum Syðstu-Súlu...

...heldur helfrosnum klettum Heiðarhorns  Skarðsheiðinnar.

Komin á toppinn með hrímað og skælfrosið bros á andliti... stirðnaðir fingur við myndatöku og aðra tilburði og sumum orðið kalt. Snjóhengja fyrir framan okkur í hömrunum til norðurs en ekkert skyggni nema nokkra metra niður.

Hér hélaði allt sem gat, mannleg tæki og manngerð tól.

Það var skrítið að blikka smám saman níðþungum augnhárum í klakaböndum... eða vera komin með snjóskyggni sem augabrúnir... hrista "grýlukerti" í skegginu... vera með frosið skyggni á hettunni... harðstífa vettlinga á höndum...

Mynd frá Jóni Gauta:

Á toppnum:

Kristín Gunda, Gylfi Þór, Bára, Örn, Halldóra Þórarins, Jón Ingi, Hrönn, Soffía, Íris Ósk, Roar, Halldóra Ásgeirs, Stefán og Hjörleifur.

Samtals 5,7 km að baki, hækkun upp á 964 m í 1.083 m hæð og 3:14 klst liðnar skv. gps þjálfara.

Fleiri myndir fengust ekki úr myndavél þjálfara sem fraus algerlega á toppnum eftir að hafa barist héluð við tökur fram að því.

Niðurleiðin tók vel á og hófst með smá hagléli sem stóð stutt yfir sem betur fer en fljúgandi hálkan í bratta Heiðarhornsins var verðugt verkefni.

Jón Gauti mundaði ísexina sem aldrei fyrr, en var mun erfiðara um vik þar sem nú var unnið niður á við. Um leið og aðeins mýktist um var hoggið með hælum eða tám og fékk hann dygga aðstoð frá strákunum.

Fyrsti kaflinn var því mjög seinfarinn og kólnaði mönnum talsvert við biðina í hverju skrefi með vindinn í fangið.

Þarna hefði hugsanlega verið gott að vera á broddum þó það hefði engan veginn verið fyrirséð og eins hefði verið forvitnilegt að prófa mannbrodda á uppleiðinni, en það eru fleiri tindar á dagskrá í vetur og við prófum okkur áfram með reynslunni.

Mynd frá Roar:

Fljótlega á þessari krefjandi niðurleið varð óhapp sem fór betur en á horfðist, en það segir margt að eingöngu nálægustu menn urðu vitni að þessu, hinir voru uppteknir við að spora sig áfram í blindbylshálkunni.

Halldóra Ásgeirs
rann nokkra metra niður eftir snjófönninn og snarsnerist með andlitið í stafni en stöðvaðist með aðstoð Jóns Gauta og með því að grípa í grjót á klettasyllu.

Neðan hennar var 1 - 2 m fall ofan af syllunni og hál brekkan þar undir...
 

Hér kemur frásögn hennar af atburði þessum:

Það bar til tíðinda að mér skrikaði fótur í harðfenni Heiðarhornsins, ég datt beint á sitjandan þrátt fyrir að Jón Gauti væri búinn að höggva spor í hjarnið.  En einhvern veginn tókst mér að missa fótanna, hendast beint á magann og rann niður snarbratta hlíðina.  En Jón Gauti var ekki seinn til, henti frá sér göngustafnum, stöðvaði þetta óvænta skrið mitt og kom mér á réttan kjöl og inn á rétta braut aftur.

 Ég fékk alla andlega aðhlynningu, og hélt ég ferðinni ótrauð áfram. Ég slapp algerlega ómeidd þannig að skyndihjálp var óþörf.  Göngustafur Jóns Gauta flaug í loftköstum niður brekkuna og hvarf sjónum, en viti menn, hann beið eiganda síns nokkur hundruð metrum neðar og voru þar fagnaðar fundir, greinilegt að hvorugur getur án hins verið.

Takk , takk, fyrir frækilega björgun.
Dóra

Heiðarhornið hentis á
hélt ég ekki fæti
Fararstjóri til mín sá
og bjargaði mér með kæti
                

Halldóra mætti á æfingu á Úlfarsfellið þremur dögum síðar, spræk og æðrulaus að vanda, engar kvartanir en þó fréttir af stóru mari hér og þar... sem betur fer fór þó ekki verr en það.

.

Stefán að borða nesti í smá pásu þegar erfiðasta kafla niðurleiðarinnar var lokið.

Nestið var hart og hálf frosið og flestum orðið kalt eftir hægan göngukafla.

Fingur stirðir af kulda og best að klæða sig ekki úr ef maður kom því við í nestistímanum.

Jón Gauti var með smá leikfimiæfingu þarna áður en lagt var aftur af stað til að fá hita í menn og liðka stirðaða skrokka.

 

Sjá má á Stefáni hvernig fötin hrímuðust og andlitið bast klakaböndum eins og vel hefur verið minnst í þessari frásögn.

 

Smám saman skánaði færðin eftir því sem neðar dró og við gengum svo í veðurblíðunni síðustu kílómetrana með sama útsýnið til suðurs og um morguninn en mun hlýrra.

Túrinn skilaði 10,7 km í heildina á 5:26 klst sem var vel af sér vikið miðað við aðstæður. Í góðu færi hefðum við verið mun fljótar að þessu svo ákveðið er hér með að ganga þessa leið aftur sumarið 2008.

Enn eitt ríkulegt innleggið var komið í reynslubankann af eftirminnilegri fjallgöngu við erfiðar vetraraðstæður og voru andstæðurnar miklar þar sem veðurblíða var neðar hlíða en vart mannhelt á toppnum. Þennan dag var því sannarlega gengið úr einum heiminum í annan á þennan galdrafengna hátt íslenskra fjalla í boði óbyggðanna!

 

  

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir