Tindur 62

Smjörhnúkar og Tröllakirkja í Hítardal
laugardaginn 6. ágúst 2011

Hrífandi fjallseggjar
á Smjörhnúkum og Tröllakirkju
í Hítardal


Á vesturenda Smjörhnúka með eggjar þeirra framundan að Tröllakirkju sem er í þokunni í fjarska vinstra megin.

Laugardaginn 6. ágúst gengu 22 Toppfarar á eina svipmestu og bröttustu tinda sem um getur í sögu klúbbsins.

Farið var á Smjörhnúka og Tröllakirkju í ævintýralegum og glitrandi fögrum Hítardalnum í gullfallegu veðri undan svalri norðangolu á köflum með mögnuðu útsýni yfir til sex sýslna á landinu, yfir ótal ný og spennandi fjöll allan hringinn með dularfullum nöfnum og fjóra glitrandi jökla eins og gimsteina í landinu...

---------------------------------------------

Aksturinn inn Hítardal var á malarvegi um ca 20 kílómetra alls framhjá fögrum fjöllum, lækjum, dölum og mosaslegnum hraunbreiðum... þar sem verkefni dagsins reis hrikalegast af öllu sem fyrir augu bar á leiðinni og setti að manni eilítinn ugg... ætluðum við í alvörunni þarna upp...?


Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli og Hrútaborg í fjarska vinstra megin við miðja mynd.

Jeppaslóðinn inn Þórarinsdal lét á sér standa...
illfær og grýttur svo leiðangurinn var lagður að velli
1,6 km frá malarstæðinu innst í dalnum...
en þetta þýddi um
16 km langan göngudag sem var temmilegur dagsskammtur...

Arnar og Guðrún Helga afrekuðu hið ómögulega... að hitta ekki á hópinn í dalnum, en leggja af stað rúmum 2 km neðar og ná okkur á fyrsta kílómetranum... það var mikill léttir að fá þau í hópinn eftir áhyggjur af þeim við vatnið að leita að hópnum...

Framundan fyrstu kílómetranan risu Smjörhnúkarnir illkleifir að sjá með skýjahnoðrana leikandi sér við fjallstoppana...



Leiðangursmenn dagsins:

Ásta H., Gunnhildur, Björgvin, Anna Sigga, Elsa Þóris, Súsanna, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Torfi, Alma M., Hermann, Örn, Steinunn, Lilja K., Guðrún Helga, Heimir, Sigga Sig., Stefán A., Arnar, Valdís og Einar Sig en Bára tók mynd og náði Skugga með en Kolur og Kátur skoppuðu út af mynd...

Sumrið var í ljómandi góðu skapi þennan dag og skoppaði um í lækjarsprænum og tifandi stráum úti um allt...

Gengið var upp vesturöxl Smjörhnúka framhjá fossabrún og grýttum mosa- og lyngbreiðum...

... og við fengum ekki nóg af lifandi málverki náttúrunnar sem blasti við niður til Hítardals...

Gangan upp að fjallsrótum sóttist mjög vel og fyrr en varði vorum við komin í grýttar hlíðar Smjörhnúkanna...

Klettaborgir nokkrum sinnum á leiðinni en slóðin greiðfær...

Sól skein í vestri en það var skýjaðra í austri...
 Þetta breyttist hratt og endaði í
heiðskíru um allt vesturlandið er leið á daginn...

Skýin á hæstu tindum er við nálguðumst og vindurinn blés á þessum kafla úr norðri
svo napurleikinn fékk mann til að efast um að fá gott veður og útsýni þarna uppi....

Nestispása í skjóli.. það var gott að nærast vel áður en tekist yrði á við tindabröltið...

Við reyndum að fela vonbrigðin yfir skýjunum og köldum vindinum eftir því sem ofar dró...
þetta var algerlega
taktlaust í samhengi við brakandi sólarblíðuna sem ljómaði allt um kring...

Eigum við ekki frekar að fara á hina Tröllakirkjuna... í Kolbeinsstaðafjalli... þar er miklu betra veður...
En þetta breyttist hratt og uppi á Smjörhnúkum fóru skýin yfir Hítardalinn og allt opnaðist í austri...

Þar sem þjálfarar voru aldrei búnir að klífa sjálfa Smjörhnúkana, Örn eingöngu farið á Tröllakirkju með Toppförum og Jóni Gauta veturinn 2008,
 vildi fararstjóri kanna aðstæður áður en hópurinn kæmi á eftir svo við biðum niðri við eina klettaborgina...

Jú, jú, þetta var vel fært, Örninn blakaði vængjum sínum til okkar...

Þetta var ótrúlega greiðfært miðað við ásýndina úr fjarlægð...
eitt af því skemmtilegasta við fjallamennskuna...
að fara leiðir sem virðast ókleifar en reynast færar þegar á hólminn er komið...

Gat ekki verið betra klöngur í mjúkum mosanum og stöðugu grjótinu sem hvorki var laust né hált...

Það er að myndast ný klíka í Toppförum kennd við hvít sólgleraugu... hver veit hverju þau taka upp á í haust...
og nafnagiftir eru ekki ennþá á hreinu... en við bíðum spennt... ;-)

Upp á þetta hrikalega horn Smjörhnúka vorum við skyndilega komin heilu og höldnu... í mergjuðu útsýni til allra átta...

Og við máttum varla mæla fyrir feginleik... hvað þá þakklæti yfir því sem fyrir augu bar...

Myndavélarnar reyndu að ná þessu einhvern veginn en svona staður fangast hvergi nema á augnablikinu á staðnum...

Við tók mögnuð gönguleið rúma 2 kílómetra eftir öllum tindunum á Smjörhnúkum þar sem nokkuð þverhnípt var til norðurs
en meira aflíðandi til suðurs þó lítið væri plássið efst á eggjunum...

Við máttum varla vera að því að ganga fyrir myndatökum...

Mergjuð sjónarhornin voru botnlaus...

Við vildum taka hópmynd í dýrðinni...

Dýrð sem var svo stór að hún gleypti bara eitt stykki gönguhóp si svona...

Þetta var ein af þessum gönguleiðum þar sem erfitt er að halda áfram
og maður finnur stöðugt til löngunar til að
staldra endalaust við... hljóður og íhugandi þar til dagur rynni...


Steinunn, Ásta Henriks, Björgvin og Einar Sig.

Fjallseggjar eru útsýnisstaður í hæsta gæðaflokki þar sem líta má til beggja hliða niður á láglendið og fram og aftur um hrygginn...

Þeir voru nokkrir hnúkarnir sem klöngrast þurfti á milli á leiðinni og seinfærastur var þessi slóði...

Þar sem lausagrjótið í þurrum jarðveginum fékk menn til að taka eitt skref í einu...

Og hjálpast að eins og þessum hópi er ansi vel lagið...

...ekkert mál...

Nestispása eins og þær gerast flottastar... með hálft landið nánast fyrir framan sig...

Matgræðingur Toppfara er án efa Björgvin... hann bauð upp á heimagerða súkkulaðikökubita sem bráðnuðu ofan í göngumenn...

Hvílíkt útsýni í hádegismatnum...

Háleiksvatn fyrir framan okkur... Langavatn lengra vinstra megin... glittir í Hafnarfjall og Skarðsheiði lengst í fjarska...

Þórarinsdalur og Hafradalur...

... veislan var hvergi búin...

Litið til baka yfir það sem var að baki...

Björgvin, Steinunn og Ásta Henriks ljósmyndari...

Hæsti Smjörhnúkurinn mældist 948 m hár og var fjórði af sjö sem við töldum...

Tröllakirkja í Hítardal vinstra megin á mynd ávöl og auðgengin...

Fimmti Smjörhnúkurinn...

Síðari hluti leiðarinnar var ekki síðri en sá fyrri...

Tröllakirkja nálgaðist skjótt og var komin í seilingarfjarlægð á síðustu Smjörklípunni...

Það var reisn yfir Smjörhnúkum...
 en sjá má brúnir þeirra endilangt vinstra megin með Hítarvarn hægra megin neðan við
Grafheiði og Grafheiðartinda nær á mynd.

Stelpurnar létu reisnina ekki framhjá myndavélunum sínum fara...

Lambahnúkur vinstra megin á mynd og nyrðri Smjörhnúkar lengra í fjarska klofnir í tvennt... en þeir fengu okkur til að velta því alvarlega fyrir okkur þarna sem við gengum hvort um mistök væri að ræða að kalla tindana sem að baki okkur voru Smjörhnúka... hvort þetta héti ekki allt saman Tröllakirkja í Hítardal eins og stundum má ætla af kortum og var í samræmi við vangaveltur margra sem gengið hafa á þessu svæði... og í samræmi við tignarleika kirkjunnar sem rís í Kolbeinsstaðafjalli... reyndar er Tröllakirkja á Holtavörðuheiði meira í stíl við Tröllakirkju í Hítardal, ávöl og auðgengin... en einhvern veginn truflaði þetta okkur eins og marga gegnum tíðina og fékk mann til að efast um réttmæti nafngiftarinnar eins og hún kemur fyrir í Íslandskortinu og bók Ara og Péturs...  við verðum að spyrja heimamenn að þessu... þeir vita þetta best...

Allra síðasti Smjörhnúkurinn... hvað voru þeir eiginlega margir...?

Litadýrðin var ekki síðri en formfegurðin...

Ofan af Smjörhnúkum lögðum við í síðasta spölinn yfir á Tröllakirkjuna sjálfa... mjúkan endi á ævintýrinu...

Gönguleiðin um Smjörhnúka í baksýn þar sem við höfðum gengið eftir eggjunum alla leiðina...
jú, ein brattasta og tignarlegasta slóð sem við höfum farið um þó oft höfum við brölt um brattari leiðir á köflum...
Tröllakirkja í
kolbeinsstaðafjalli, Hrútaborg, Hítarvatn o.fl. í baksýn hægra megin.

Valdís hefur bæst við magnaðan ljósmyndarahóp Toppfara...
sem týnir upp tröllsleg andlit og ólíklegustu gersemar á hverju strái á leiðinni...

Við tókum nestispásu á tindinum... ávani sem erfitt er að losa sig við og hefur oft verið gagnrýndur þegar veðrið lætur sem verst...
Í þetta sinn truflaði veðrið hins vegar ekki... lygnt og hlýtt í sólarblíðu þó golan kíkti aðeins við...


Sigga Sig, Örn, Hermann, Stefán, Guðrun Helga, Alma, Torfi, Steinunn, Guðmundur Jón, Arnar, Björgvin.
Heimir, Súsanna, Lilja Kr., Katrín Kj., Elsa Þóris., Gunnhildur, Anna Sigga, Ásta H., Valdís, Einar Sig.
Bára tók mynd.

Hópmynd með gönguleið dagsins að baki... einhvern veginn fangaði dagurinn ekki góða hópmynd þrátt fyrir nokkrar tilraunir...
nú fór sólin í myndavélina og skýin læddust yfir hnúkana þegar hópurinn var loksins kominn í stellingar...

Hérna hefðum við átt að taka hópmyndina frekar... betri birta og nóg pláss...
Smjörhnúkarnir í baksýn...

Niður af Tröllakirkju var farið í skarðið milli hennar og Smjörhnúka og niður dalinn sunnan megin þar sem von var á logni þar og meiri sól frekar en að fara Grafheiðardalinn til baka...

Grýtt leið og brött en mosagróin og graslendin þegar neðar dró...

Smjörhnúkar í baksýn niðri á grasbölum Þórarinsdals...

Ótrúlega löng leið til baka um þórarinsdal... eins og bakaleiðir eiga kyn til... á góðu spjalli eftir afrek dagsins... í náttúrulegri súrefnisvímu..


Síðustu menn að skila sér í bílana með syðsta hornið á Smjörhnúkum í baksýn vinstra megin á mynd.
Uppgönguleiðin var um öxlina eins og hún liggur vinstra megin og upp hornið vinstra megin.

Alls gengum við... í syngjandi gleði fjallgöngumanna þessa klúbbs sem sannarlega kunna að njóta augnabliksins... 15,4 km á 7:18 - 7:27 klst. upp í 932 m hæð á Smjörhnúkum og 948 m hæð á Tröllakirkju með 1.414 m hækkun alls miðað við 230 m upphafshæð.

Áhrifamikill dagur á fjöllum..
 þar sem ekki var hægt að biðja um meira...
nema jú aðeins minni golu til koma sér í hlírabolinn ;-)

Allar myndir þjálfara á https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T62SmjorhnukarTrollakirkjaHitardal060811

... og frábærar myndir félaganna á fésbókinni... ;-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir