Tindferð 130
Högnhöfði og Brúarárskörð
laugardaginn 4. júní 2016

Áfram Ísland !
á Högnhöfða um Brúarárskörðin öll
í rjómablíðu og tandurhreinu útsýni
EM-stemningu og sumarlegum notalegheitum

Við gengum til heiðurs íslenska landsliðinu í fótbolta laugardaginn 4. júní 
sem keppir í fyrsta sinn á stórmóti í fótbolta karla eftir rúma viku
á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi... með því að ganga á Högnhöfða...
og rekja okkur um Brúarárskörðin öll.
sem ljómuðu í sumarblíðunni sem ríkti þennan dag...
þar sem útsýnið var tandurhreint í allar áttir...

https://www.facebook.com/events/170383796698133/

Heiðskírt, lygnt og hlýtt... og Högnhöfðinn ljómaði í sumarveðrinu...

Lagt var af stað frá sama stað og síðast frá Hvammi sem er yndislegur staður við enda Brúarárskarða...

Gengið upp gegnum kjarrið til að byrja með... og mýið á fullu...

Litið til baka niður brekkuna með Brúaránna hægra megin og Laugarvatnsfjal þarna í fjarska...

Ægifegurð skarðanna kemur fljótt í ljós þegar komið er upp á brúnina...

... og Rauðafellið skein skært þarna hinum megin...

Þetta var fallegur dagur enda var spáin hálfgerð Spánarveður um nánast allt land...

Slóðinn um Brúarárskörð orðin ansi vel troðinn... við fundum muninn frá því 2010...

Meiri snjór á svæðinu en þegar við fórum um hér síðast á Rauðafell 10. ágúst 2013
og á Högnhöfða 3. júlí 2010

... en fossarnir jafn fagrir og tignarlegir...

... komandi jafnvel út úr berginu á köflum...

Skyldi vera hægt að komast gangandi þangað niður... jú, við sáum leið... væri gaman að skoða þetta nánar...

Hluti árinnar kemur úr berginu eins og eftir öllum Jökulsárgljúfrum og almennt á landinu...

Við röktum okkur eftir brúnunum og drukkum í okkur fegurðina...

... og fengum ekki nóg af  því að horfa niður...

Svo var stefnan tekin á Högnhöfðann sem rís austan megin við skörðin...

Kominn ótrúlega mikið troðinn slóði langleiðina upp á hann...

Litið til baka niður eftir höfðanum með skörðin á milli og Rauðafellið þarna hinum megin

... og tindaraðirnar allar austan Þingvalla í fjarska hinum megin...

Fínasta leið upp og farið milli eyrnanna á högnanum...

Uppi var snjór... lungamjúkur sem nánast bráðnaði fyrir framan okkur í hitanum...

Margir í stuttbuxum í fyrsta sinn í sumar... þetta var yndislegt...

Landslagið leynir á sér uppi á Högnhöfða og það var gaman að koma hérna aftur...

Litið til baka með eyrum tvö þarna standandi sperrt... sem við áttum eftir að ganga upp á í bakaleiðinni...

Skaflarnir upp brakandi blíðir...

Og friðsældin sást meira að segja á himninum...

Miðfell nær og Bjarnarfell fjær... við eigum eftir að ganga á þessi tvö... á þriðjudagskvöldum einn daginn...

Uppi beið okkar óborganlegt útsýnið...

Skriða og Þingvallatindahryggirnir allir, Skjaldbreið, Okið, Fanntófell, Björnsfellin öll...

Þórisjökull, Hlöðufell, Langjökull...

Kálfstindur, Jarlhettur, Bláfell á Kili... og svo Hekla og jöklarnir hennar og fleiri fjöll...

Já, hópmynd með íslenska fánann til heiðurs og hvatningar íslenska landsliðinu í fótbolta
sem nú keppir í fyrsta sinn á stórmóti...
við sendum hreina íslenska fjallaorku til þeirra á EM í Frakklandi :-)

Sigga Sig., Arna, Sarah, Guðmundur Víðir, Jlöðver, Gerður Jens., Ester, Katrín Kj., Guðný Ester og Jóhanna Fríða.
Örn með Batman, Ágúst, Heiða, Kolbrún Ýr, Maggi, Dagbjört með Gotta, Matti og Bára tók mynd :-)

Hlöðufell... langt síðan við höfum gengið á það... kominn tími á það aftur síðar...
og svo eigum við alltaf eftir Stóra og Litla Björnsfell :-)
... það var snjóhengja fram af á brúninni og við þurftum að fara varlega...

Hekla og félagar þarna í fjarska í blíðunni...

Hópurinn á tindinum... nesti og notalegheit...

Dásemdin ein að vera í rúmlega þúsund metra hæð í svona fallegu veðri og útsýni...

En mikill snjór í þessari hæð ennþá og sumarlegheitin meiri neðar... þangað sem við ætluðum...

Gotti kældi sig í snjónum svona á maganum nokkrum sinnum... þetta var ansi heitt fyrir hundana...

Og sumir renndu sér niður brekkuna ofan af tindi Högnhöfða...

Það var straujað eftir höfðanum að eyrunum...

... þar sem Örninn fékk þá snilldarhugmynd að ganga á þau bæði...

... sem var tær snilld þar sem við höfðum ekki gengið á þau í fyrri ferðinni...

... og þau sviku ekki... skemmtilegra og flottara þarna uppi en maður átti von á...

... og útsýnið öðruvísi en ofan af hæsta tindi...

... við vorum virkilega að njóta...

... og menn tóku endalaust myndir... sjá Klakk sem var upphaflega á dagskránni í þessu dæmigerða bjartsýniskasti þjálfara sem hefur fleytt þeim oft ansi langt... Þórólfsfell litla nær sem við bættum við á sínum tíma þegar gengið var á Hlöðufellið 3. júlí 2009
sem sést aðeins í ræturnar á vinstra megin á mynd....

Eigum við ekki að fara á hitt eyrað líka ?

Jú, við vorum til í það, þetta var einfaldlega svo skemmtilegt og enginn að stressa sig á tímanum í svona blíðu :-)

Niðurleiðin leit ekki vel út en var ekkert mál þegar kíkt var neðar og Örn fann fína leið...

Móbergið einkennir sumarið og síðsumarið... með lausagrjóti og molnandi bergi...

Ekkert mál að bæta hinu eyranu við...

Vorum ekki lengi að því :-)

Litið til baka þar sem sést að það var smá hóll á milli... sem gárungar kölluðu "litla heila" á Högnhöfða :-)

Dásemdin ein í góðra vina hópi...

Svo var mál að fara niður í Brúarárskörðin sjálf...

... og þá helst ekki sama og síðast á Strokk... heldur að upptökum skarðanna...

... menn voru almennt alveg til í það en Hlöðver og Guðný Ester sneru beint niður
þar sem Hlöðver var í vandræðum með hnén og hafði sleppt eyrunum og varð að snúa í bílinn sem fyrst...

Smá pása á ansi fallegum stað...

Skaflarnir komu að góðum notum í þessari ferð... en svona skaflar geta verið varasamir að sumri til ef lofthiti er ekki hár...
og enda oft í algeru harðfenni sem hefur oft flækst fyrir mönnum á fjöllum...

... en í þetta sinn runnum við bara niður...

... og stundum svo skrautlega að Arna og fleiri misstu stjórn á fótunum og runnu af stað...

... og það var gott að nýta líka skaflinn hér niður gilið frekar en að vera í lausagrjótinu ofan á móberginu...

Arna og Gerður Jens að skila sér eftir að hafa runnið niður í snjónum og bleytt sig...

Þarna komum við aftur á slóðann sem liggur eftir skörðunum öllum...

... og við skoðuðum gljúfrin eins langt og við komumst...

... Örn fór með hópinn ansi skrautlega ferð á Rauðafellið hér um árið og menn rifjuðu þá svaðilför upp...
ef Bára hefði verið með í för hefði þetta ekki orðið svona spennandi ... :-)

Hvílíkur blámi á vatninu í hyljunum... ekkert fiktað við myndirnar... þetta var lygilega blátt og tært...

Jú, tökum hópmynd hér...

... og sumir fengu mynd af sér á þessum tanga...

En við vorum allt of smá í þessu stórfenglega landslagi...

sjá hundarnir tveir náðust með á mynd... algerir englar þessir tveir :-)

Svo var snúið til baka... eftir slóðanum sem stundum hvarf í skaflana...

... fengum okkur síðasta nesti dagsins og dóluðum okkur svo til baka...

Og fossarnir úti um allt í gljúfrinu fönguðu athygli okkar aftur í bakaleiðinni...

Dagbjört og Matti fóru á undan til baka með hundinn Gotta... en hann neitar oft að fara upp í bílinn í lok göngu
og lék þann leik þennan dag... við heyrðum geltið í honum upp brekkurnar - sjá hvíta bílinn þarna lagður af stað...
og þau voru heillengi að koma honum loksins í bílinn... :-)

Við gengum niður í sumarið...

... og nutum hvers skrefs þrátt fyrir mýið um allt...

... og það var yndislegt að viðra tærnar eftir gönguna...
og smakka á einum pólskum bjór sem hitaði vel upp fyrir Póllandsferðina miklu í haust...

Dásamlegur dagur með alls 14,1 km á 7:13 klst. upp í 1.0018 m hæð
með alls hækkun upp á 1.031 m miðað við 232 m upophafshæð...

Bláa slóðin ganga dagsins og gula sú sem var farin árið 2010...
þar sem sést hvernig við tökum högna-eyrun tvö og fórum eins langt upp skörðin og hægt var með góðu móti...

Takk fyrir sérlega indælan dag...
þetta var fyrsta Fjallorku-gangan sem gaf 18.558 m hækkun alls miðað við 18 manns x 1.031 m
og gefur vonandi tóninn fyrir að hver einasti Toppfari náði einni göngu til heiðurs íslenska landsliðinu á EM í fótbolta :-)
https://www.facebook.com/events/170383796698133/

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir