Tindur nr. 25 - Hlöðufell 4. júlí 2009
Hlöðufell og
Þórólfsfell
Tólf Toppfarar
gengu á
Hlöðufell
laugardaginn
4. júlí
í hlýju og mildu
veðri upp á brún en rigningu, þoku og vindi á
toppnum. Útsýni var ekkert uppi á Hlöðufellinu
en þeim mun fegurra og þakklátara af brúnum þess og hlíðum
Hlöðufellið var gengið á 3:58 klst. á 6,1 km leið upp í 1.204 m hæð með 750 m hækkun skv gps þjálfara...
...en við vorum
ekki búin að fá nóg öll... og skelltum okkur í
ærslagangi sem oft vill verða þegar veðrið er
gott og hálendisloftið flýgur með mann í hæstu
hæðir... upp á báða tinda litla bróður
Hlöðufells -Þórólfsfell- og fengum
fróðleik og frábæra sögustund frá Jóni Inga á
báðum tindum... Sú viðbótarganga tók 1:43 klst. á 2,6 km langri leið upp í 772 m og 708 m hæð með alls 325 m hækkun í allt öðruvísi og sumarlegra veðri, sól og logni á köflum með dásamlegu útsýni yfir til Langjökuls, Jarlhettna, Hlöðufells og annarra fjalla svæðisins. Hér kemur ferðasagan...
Veðurspáin var í skúrum og komin í einhvurjar hellidembur í lokið fyrir förina en þegar við ókum inn á Þingvelli og fjöllin sunnan Langjökuls fóru að rísa framundan þá var blíðskaparveður, háskýjað og öll fjöllin skýlaus... þetta lofaði góðu... Vegurinn inn að Hlöðufelli var góður og veðrið gott þar til við ókum inn með fjallinu og fengum á okkur rigninguna frá skýjunum sem við höfðum fylgst með þungum og dökkum í suðaustri.
Skagamenn voru eilítið á eftir okkur og það var
bara gott að hafa ástæðu til að fara ekki út úr
bílnum í þessari rigningu...
Uppgangan gekk vel, nokkuð góður slóði þarna og lítið runnið til í rökum jarðveginum.
Þetta var nefnilega ekki eins agaleg uppgönguleið þegar nær dró og það leit út í fyrstu...
Komin upp mestu brekkurnar og síðasti hjallinn eftir í smá klöngri.
Komin vorum við upp á brúnirnar í 895 m hæð eftir tæpa 1,4 km göngu. Skyggni enn gott en þoka framundan ofan á fellinu svo þjálfarar hættu við að rekja sig eftir hryggnum í vestri sem er góð uppgönguleið hvað útsýni varðar og endar sú leið efst í dalnum þar sem hvort eð er þarf að hækka sig í þá hæð. Sjá dalinn sem við gengum inn eftir að tindinum.
Brátt tók þokan við og það fór að rigna mildilega á okkur með lækkandi lofthita svo þeir sem ekki voru í jakka fóru í hann þarna.
Við tóku brekkurnar upp úr dalnum en þær voru heldur hálar í leysingunum síðustu daga með klakann undir þunnu snjólagi og glerhált var við kletta og grjót svo ógerningur var á köflum að fara ofar. Örn fór á undan og fann betri leið eftir að hafa reynt að höggva spor í harðan snjóinn á kaflanum sem upphaflega var ætlunin að ganga um en mönnum hafði ekki litist á. Enginn með ísexi þar sem við vorum sannfærð um að í þessum lofthita síðustu daga væri bara dúnmjúkur snjór þarna uppi eins og rúmri viku fyrr þegar þjálfarar tóku könnunarleiðangur á fjallið. Þetta kenndi manni í eitt skipti fyrir öll að ísexi er með í för á fjöll yfir 900 - 1.000 m þó það sé hásumar og hitabeltisveður á landinu og menn gapandi af hneykslun í kringum mann yfir búnaðinum ! Þessi kafli tafði okkur talsvert en var ágætis verkefni á gönguleið sem annars er allt of stutt og auðveld á jafn reisulegt fjall og Hlöðufellið er svona hvað varðar ímynd þess og glæsileik...:-)
Upp á tind Hlöðufells komum við svo eftir
tilbreytingarsnauða göngu í þoku og mildu
veðri eftir
3,1 km
á
2:27 klst Hæðin mældist 1.203,6 m á gps þjálfara og var hækkunin því 750 m frá upphafshæð upp á 454 m. Við skoðuðum okkur ekkert um, enda ekkert að skoða en þó er þarna mastur og mælitæki rétt við tindinn (gott kennileiti í góðu skyggni) en það sýndi sig hvað þokan var þykk að við sáum ekki þann búnað þarna á tindinum.
Næðingurinn
ekkert notalegur á toppnum og enginn til í
nestispásu...
"drífum okkur bara niður í sumarið"...
Þar var farið rólega og varlega niður n samt
féllu
menn við og María fór eina byltu í hálkunni og
Lilja tvær í lausagrjóti ...og fyrr en varði vorum við komin í dalinn... Þar opnaðist aðeins fyrir skyggnið og við sáum bestu aflíðandi leiðina upp úr dalnum sem við höfðum farið aðeins vestan megin við í þokunni. Engan veginn hægt að hitta nákvæmlega á hana í þessari þykku þoku nema vera með þétt merkta punkta á þessari leið en leiðin er það létt þegar skyggnið er eins og í könnunarleiðangri þjálfari að þeir höfðu ekki mertk inn þennan punkt (nema á uppleiðinni til að hitta á hana aftur á niðurleið) sem betur hefði verið að hafa og kennir manni að í þykkri þoku geta saklausar leiðir sem "segja sig sjálfar" verið torsóttar.
Smám saman opnaðist skyggnið aftur niður dalinn og við okkur blasti fjallakransinn kringum Hlöðufell...
Rauðafell og Skriðutindar framundan...
Kálfstindur, Bjarnarfell og Högnhöfði... Stefán Alfreðs og Ragna...
Og
þarna gafst ágætis
nestispása...
enn smá næðingur að norðaustan niður með dalnum
en Við stóðumst ekki mátið og fengum okkur heitt að drekka og með því...
Litið upp eftir af nestisstaðnum - hnúkurinn sem ætlunin var að ganga á í bakaleiðinni ef ekki hefði verið þoka hægra megin á mynd. Ætlunin var sem sé að fara hrygginn í vestri upp á tindinn og niður með heiðinni og af þessum suðausturhnúk í bakaleiðinni sem hefði gefið útsýni í ólíkar áttir... gerum það síðar í betra skyggni sem er happdrætti að fá í þessari hæð... Ef þjálfari hefði ekki verið á kvöldvakt á föstudagskvöldið þegar hitabeltisveðrið ríkti fram á nótt þá hefði hann hóað hópnum saman í miðnæturgöngu sem hefði verið gullin þarna í fjallasalnum...
Niðurleiðin svo fundin um skriðurnar en mikilvægt er að merkja punkt inn á þeirri leið þar sem í þoku er engin leið að finna hana en hún er þó merkt með lítilli vörðu sem sést á myndinni. Högnhöfði og Rauðafell í baksýn.
Skjaldbreiður í öllum sínum síðkjólsfellingum í baksýn hér á leið niður skriðurnar... ...eins og brúðarmey innan um töffaralega stapana á svæðinu Er Skjaldbreiður karlkyns eða kvenkyns...?
Efst í skriðunum... Skriðutindar og Skriða í fjarska.
Sjá vegaslóðann, skálann og bílana í fjarska neðst niðri á Hlöðuvöllum.
Komin niður á "láglendið" í mildu veðri eftir góða göngu. Skáli Ferðafélags Íslands á Hlöðuvöllum og Skriðutindar og Skriða í baksýn.
Á
verkefnalista Toppfara eru því komin fjöllin
Kálfstindar,
Bjarnarfell,
Högnhöfði,
Rauðafell,
Skriðutindar,
Skriða... Þarna sem við vorum að græja okkur inn í bílana komu hjón á motorcrosshjóli í leit að NMT-símasambandi... við vorum bara með gsm... þau náðu lokst sambandi til að komast að því að bíll sem velti í Lyngdalsheiði skildi ekki eftir neina slasaða...
Gps-prófíllinn
Og gps-kortið af göngunni - sjá svarta línan sýnir göngu þjálfara rúmri viku fyrr - þá fórum við upp hrygginn en snerum þar við á miðri leið niður hrygginn aftur vegna veðurs (sjá hæðarlínuna - hægt er að þræða sig með hryggnum og fara þaðan á tindinn). Sjá einnig að þjálfarar fóru í fyrri ferð austar inn með dalnum sem er meira aflíðandi leið en hópurinn fór vegna þokunnar (Örn vildi reyndar fara austar upp en Báru minnti að þetta væri rétt leið eins og við fórum hana og mælti gegn tilfinningu Arnar um að fara lengra til hægri) - þarna hefði punktur af efsta hluta brekkunnar í dalnum geta vísað okkur lengra austur þegar við gengum í þokunni þennan dag og gefið okkur meira aflíðandi leið upp brekkuna, en við sáum á sínum tíma ekki ástæðu til að merkja inn punkt þarna en við ræddum það en "neeeeei, þetta er alveg augjóst hér upp þó það sé þoka..." Lexían kennir manni að í þoku geta saklausustu leiðir orðið torveldar og villugjarnar en ofan á þetta má bæta að þetta skipti engu máli varðandi rötun á tindinn þar sem við eltum punktinn að tindinum og vorum ekki villt, en smá brekka verður svona farartálmi þegar færið er ekki betra en þetta af því að hálkan var þetta mikil á leiðinni þarna upp, þar sem best hefði verið að komast upp með dalnum í aflíðandi brekku. Svo almennt reynir ekki á þennan þátt nema einstaka sinnum þegar landslag skiptir verulega máli á göngunni eins og á laugardaginn og því er almennt gott að merkja inn punkta eftir landslaginu ef mann grunar að leiðin sé vandfundin í þoku og landslagið felur í sér farartálma.
E n æ v i n t ý r i ð v a r e k k i b ú i ð . . . Í tilkynningu um Hlöðufell voru þjálfarar búnir að stinga upp á Þórólfsfelli sem viðbótargöngu í ferðinni þar sem þeir vissu að gangan á Hlöðufell myndi ekki taka mikinn tíma... Jebb... þálfarar voru til... og hinir líka þó mismikið væru menn nú æstir í meiri göngu... það yrði eflaust betra veður og skyggni í allar áttir í þessari göngu sem myndi bæta okkur upp útsýnisleysið af tindi Hlöðufells svo það var þess virði að kyngja og leggja í hann aftur... við slógum níu til en Skagamenn fóru í bæinn enda Laugavegurinn framundan hjá þeim Guðjóni og Maríu og félögum þeirra og skynsamlegt að láta Hlöðufellið nægja þennan dag...
Yndislegt veður... við vorum mun léttklæddari en á Hlöðufelli... Syðri tindur Þórólfsfell í baksýn, Kálfstindur lengra burtu, Högnhöfði og Hlöðufell.
Bílarnir þegar lengst neðar og Hlöðufellið enn í skýjunum en sólin skríðandi smám saman yfir til okkar... ...það var að létta til...
Uppi í skarðinu milli hnúka Þórólfsfells opnaðist útsýnið til Langjökuls...
...og við tókum andann á lofti um leið og við flýttum okkur upp á hæsta tindinn í grýttum brekkunum...
Ellen og Margrét Gróa með Kálfstind í baksýn.
Komin upp í 772 m hæð með 225 m hækkun frá 517 m upphafshæð við fjallsrætur.
Langjökull í allri dýrð Vestari Hagafellsjökuls...
Við dvöldum talsvert lengi þarna uppi og nutum dýrðarinnar.
Varðan á Þórólfsfelli og Klakkur í stíl við hana eins og önnur varða á Langjökli... Klakkur er líka kominn á biðlista Toppfara...
Jón Ingi fór yfir fjallahringinn með aðstoð hinna en þarna gekk hann um í fyrra með Ferðafélaginu á nýrri "Laugavegsgöngu" um Jarlhettuslóðir niður á Laugarvatn - sjá www.fi.is en eins hefur hann farið á hestbaki þarna um allt og þetta er sveitin hans niður á láglendinu í Biskupstungunum.
Þá kom í ljós að Ragna hefur farið þarna um á
hestbaki einnig og gist í skálanum við
Kerlingu
sunnan Skjaldbreiður
- Langjökull - Jarlhettur - Bláfell - ... komin á biðlistann... Jarlhettur í september 2010... Högnhöfði í júlí 2010...
Ragna, Jón Ingi,
Hrund, Örn, Ellen, Margrét Gróa, Sæmundur, Bára
og Stefán Alfreðs með Hlöðufellið í baksýn
Við vorum í stuði í þessu góða veðri með þetta
glæsilega útsýni... Sjá Hlöðufell enn í skýjunum efst en smám saman að hreinsast frá.
Sólin bakaði okkur á köflum og stundum var blankalogn og þá varð funheitt í þessum háa lofthita.
Jón Ingi og Skjaldbreiður...
Skyndilega heyrðust miklar drunur... eins og þrumur... og hljóðin héldu áfram í sirka hálfa mínútu...
Stórt
grjóthrun
efst og niður yfir skaflana í Hlöðufelli norðaustan
megin beint fyrir framan okkur ... hvílík náttúruöfl ... Þetta voru eflaust stór björg þó þetta virkaði ekki mikið á fellinu öllu...
Milli hnúka á Þórólfsfelli í steikjandi hita og allir að fækka förum.
Akkúrat 70 m upp á hinn tindinn - úr 638 m í 708 m hæð... Jarlhetturnar í baksýn.
Komin upp og þarna var líka staldrað við lengi...
...með sögustund frá Jóni Inga af uppruna trölla
á Íslandi og svo
tröllinu Þórólfi
sem ber beinin á fellinu
og
tröllkonunni Berbeinu
sem var flutt "mansali" frá Noregi og geymir bein
sín á
Berbeinuvöllum
(Berbeyluvellir skv gps-korti)
Kálfstindur og Högnhöfði með Sæmundi og Ellen...
Niðurleiðin var svo farin á háa c-i göngumanna...
...þ. e. geyst og létt í blíðskaparveðri sem fór batnandi með hverri mínútunni...
Frábær viðbótargöngutúr sem var frískandi og gefandi eftir þokuna á Hlöðufelli. Sjá nyrðri hluta Þórólfsfells í baksýn.
Gps-prófíllinn
Og gps-kortið af göngunni. Í bæinn komum við fyrir kvöldmat eftir góðar tvær göngur á hálendinu.
Sólin skein í heiði alla leiðina og Hlöðufellið
var orðið skýlaust að mestu og eins og hlæjandi
á eftir okkur ...Frábær dagur í glöðum félagsskap á gullfallegum slóðum hálendisins sunnan Langjökuls.
Sjá myndir úr þessari og öllum tindferðum Toppfara
frá upphafi á
www.picasaweb.google.com/Toppfarar
|
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|