Tindur 41 - Högnhöfði laugardaginn 3. júlí 2010
 

Sumarævintýri
um Brúarárskörð á Högnhöfða


Hópurinn að ganga niður Högnhöfða með hluta Brúarárskarða framundan og Rauðafell í allri sinni dýrð í baksýn.
Tangi vinstra megin á mynd (ekki sá sem við gengum niður eftir) og Strokkur hægra megin og "Litli-Tangi" (okkar) út af mynd.

Brakandi blíð ganga... já, enn einu sinni... er að baki laugardaginn 3. júlí er 23 Toppfarar gengu á Högnhöfða með útsýnistúr um ein stórbrotnustu gljúfur sunnan heiða, Brúarárskörð með viðkomu á flottum útsýnisstöðum og  litlu aukafjallli, Strokki þar sem veður, útsýni og landslag hefði ekki getað verið betra í logni, sól og blíðu mestan hluta dagsins, mýi upp í 600 m hæð, rigningardropum á efsta tindi í rúmlega þúsund metra hæð sem leystist fljótt upp í sólargeislum og endaði í sveittum rúmlega 20° hita niðri við skörðin í tístandi sumargleði.

Enginn tímdi heim í þessum fjallasal og við enduðum á 14,3 km göngu á 6:45 - 7:00 klst.
upp í
1.018 m (1.004 m) hæð með 762 m hækkun miðað við 256 m upphafshæð.

Lagt var af stað gangandi frá Hvammi... dásamlegum stað á Höfðaflötum við mynni Brúarárskarða
með birkivaxna hlíðina ofan við tjaldbala sem væri freistandi að tjalda á einn daginn.

Sumarilmur, mý og gróska sem aldrei fyrr
og okkur varð ljóst að þennan dag myndum við njóta íslensks
hásumars eina og það getur einna best orðið.

Helga Björns hér síðustu metrana upp birkihlíðina með Höfðaflatir í baksýn á jörð Björns bónda í Úthlíð en fram kom í umræðum innan hópsins að hann á allt svæðið þarna og líka fjallið sjálft, Högnhöfða eftir niðurstöður dómstóla um árið, eins og hann nefndi reyndar sjálfur við okkur þegar við fengum leyfi til að ganga um svæðið er við keyrðum gegnum bæjarstæðið hans í Úthlíð...

Helga er ein af allra sterkustu göngumönnum fjallgönguklúbbsins frá upphafi vega og ótvíræður hagyrðingur Toppfara.

Smám saman komu skörðin í ljós er ofar dró með austurhlíðar Rauðafells á vinstri hönd suðvestan megin
og efstu fjallstoppa
Skriðutinda að rísa ofan Brúarárskarða í fjarska norðvestan megin.

Á leið okkar varð fossaröð Brúarár og dimmblá áin sjálf með ótal sprænum sem komu bókstaflega út úr berginu á köflum
og landslagið svo töfrandi fagurt að það var hálferfitt að vera á fjallabrölti þegar hæglega mátti dóla sér um skörðin ein allan daginn...

Við fjallið Strokk (517 m) var snúið á hæl og stefnan tekin upp skriðuna á Högnhöfðann sjálfan... tindana litlu vestan megin í höfðanum sem mælast 814 m sá hærri... "eyrun" á högnanum eins og Gylfi Þór komst að er hann vafraði um netið um Högnhöfða fyrir ferðina...

Í miðri brekkunni var fyrsta nestispásan...

... með mögnuðu útsýni í fanginu... m. a. að Skriðutindum sem við stefnum á árið 2012...

Áfram var haldið og brátt fórum við að sjá ofan á Rauðafellið sem er aðeins lægra en Högnhöfði eða 924 m hátt.

Fjallasýnin lygileg í allar áttir...

Skjaldbreið hér með nyrsta hluta Skriðutinda vinstra megin og Fanntófell í Kaldadal hægra megin
og
Toppfara ársins 2009, hana Siggu Sig sem hefur nánast aldrei látið sig vanta í tindferðirnar síðustu mánuði
en hún er ein af kvenhópnum sem stendur jafnfætis körlunum í klúbbnum hvað gönguform varðar.

Lilja Sesselja, Sigga Rósa og Gylfi Þór hér með tindaröðina á Skriðutindum og Skriðu sjálfa að koma í ljós vestan við þá
og framhaldið af tindaröðinni um
Klukkutinda og svo Kálfstinda með Skefilsfjöll á bak við, Hrútafjöll og Tindaskaga í einu tindakraðaki á þessu svæði.

Landslagið á Högnhöfða er sérstakt, fyrst upp bratta skriðu og svo um sléttlendi yfir á hæsta tind í norðnorðaustri.

Útsýni hér niður í Úthlíðarhraun, Brekkuskóg og Brúará með Efstadalsfjall hægra megin í fjarska þar sem vatnið er.


Hópurinn við nyrðri vörðuna á tindinum með Þórisjökul, Hlöðufell, Klakk og Langjökul í baksýn.

Upp á tind vorum við komin eftir 2:50 klst. göngu á sumardóli og fagnaði tindurinn okkur með léttum rigningardropum svo allir fóru í regnfötin...
...til þess eins að klæða sig úr þeim aftur þegar skúrinn var farinn yfir og útsýnið batnaði ;-)

Önnur nestispásan var þarna uppi þar sem rigningunni lauk jafn skjótt og hún kom og veðrið batnaði talsvert meðan á máltíðinni stóð.

Örn fékk það óþvegið frá stríðnispúkunum í þessari göngu og ekki lagaðist það þegar hlussu-gangurinn fréttist af Hrómundartindinum...


Á Högnhöfða með Hagafell og báða Hagafellsjöklana í Langjökli í baksýn,
Jarlhettur fjær hægra megin (á dagskrá 2011) og Kálfstind nær hægra megin (á dagskrá 2013).

Anna Elín, Rósa, Björgvin J., Helga Bj., Sigga Rósa, Lilja K., Hermann, Guðjón Pétur, Hildur V., Björn, Ingi, Heiðrún, Sigga Sig. og Þula, Lilja Sesselja, Ásta Þ. Ásta S., Áslaug og Dofri og Día, Guðmundur, Gylfi Þór, Elsa Inga, Alma og Örn en Bára tók mynd.

Gylfi Þór og Ásta Snorra að mynda jökulhálendið norðan Högnhöfða með Hlöðufell og Þórólfsfell útbreidd fyrir framan.
Uppgönguleiðin okkar á Hlöðufell fyrir ári síðan, 4. júlí 2009 sést vel á vinstra horninu og áleiðis þar upp á tindinn lengst til hægri.

Sjá fjallið Klakk sem svartur tindur í jökulbreiðunni á vestari Hagafellsjökli á Langjökli.. spennandi tindur framtíðarinnar hjá klúbbnum en göngu á hann er m. a. lýst af Ara Trausta og Pétri Þorleifs... 999 m hár tindur sem er í 18 km fjarlægð frá jeppaveginum... eða 34 km löng ganga...

Niður var svo haldið eftir góðan tíma uppi við útsýni, nesti, myndatöku og fíflagang.

Sjá landslagið ofan á Högnhöfða ofan af hlíðum tindsins í suðvesturátt að Rauðafelli.

Eyrun á Högnhöfða eða vestari tindar hans (hæsti 814 m) sjást hér framundan í fjarska en þar er farið upp og niður á okkar gönguleið.

Hópurinn þéttur reglulega og enginn að flýta sér í þessu góða veðri.

Ofan af austurbrúnum gafst svo þetta magnaða útsýni sem við áttum erfitt með að slíta okkur frá... Brúarárskörð í heild sinni, Rauðafell, Skriðutindar og hinar tindaraðirnar í suðsuðvestururátt.

Við sáum bílaflota á jeppaslóðanum norðan Brúarárskarða og gönguhóp ganga meðfram gljúfrunum Rauðafellsmegin... já, þarna skulum við fara á næsta ári, skoða gljúfrin þeim megin frá og skella okkur upp á Rauðafell í leiðinni... þrjú af sex fjöllum í fjallakransinum kringum Hlöðuvelli komin í safnið... Skjaldbreiður, Hlöðufell og Högnhöfði og eftir eru Rauðafell, Skriða og Kálfstindur sem verða tekin árlega í byrjun júlí næstu þrjú árin...

Við fengum ekki nóg og ritari ekki heldur á þessu útsýni...

Björn hér með afríska hattinn sinn sem var alveg í takt við brakandi veðurblíðu dagsins.

Við ákváðum að ganga á litla aukafjallið Strokk sem rís við skörðin og ganga út á tunguna sem teygði sig inn ánna norðan við hann en þjálfarar giskuðu á að þar færi Tangi sem gefa átti betra útsýni á fossana í Brúará, en komust síðar að því að Tangi er sunnan við Strokk og lendurnar sem Guðjón Pétur tók aukakrók á síðar þennan dag.

Það kom nefnilega í ljós í göngunni að þjálfarar voru líka að fara í fyrsta sinn á Högnhöfða eins og hópurinn, aldrei þessu vant, þar sem veikindi Báru höfðu komið í veg fyrir heilan könnunarleiðangur á fjallið, en það kom ekki að sök nema að við hefðum komist að því í könnunarleiðangrinum m. a. að Tangi liggur sunnan við Strokk en ekki norðan. Á móti græddum við göngu á litla tangann í staðinn sem við hefðum kannski ekki gengið á annars svo við eigum þá bara stóra tangann eftir þar til síðar ;-)

Hópurinn með Rauðafell og Brúarárskörð í baksýn.

Tangi fyrir miðri mynd og Strokkur hægra megin.

Áfram var starað á tinda og fjöll... Srkiðutindar og Skjaldbreið með Fanntófell líklega lengst í fjarska.

Syðri hluti Brúarárskarða, Brúará, Brekkuskógur og Efstadalsfjall með vatninu norðan við sig.

Strokkur og Litli tangi... ekki spurning að ganga þarna niður eftir í þessari blíðu og sjá skörðin í nærmynd...



Skriðutindar og Skriða bak við þá (á dagskrá 2012).

Við fundum leið norðan megin beint niður á Litla tanga en fara þurfti varlega í lausagrjóti og skriðum sem var skraufþurrt yfirferðar.

Lendurnar svo þægilegar niður að tanganum og smám saman blasti norðurhluti Brúarárskarða við okkur
með Skriðutinda í baksýn.

Fossinn norðan megin í Brúarárskörðum og hellirinn hægra megin.

Þriðja nestispásan þar sem menn viðruðu tærnar, fóru í sólbað og slökuðu vel á.

Sigga Rósa, ein af gleðigjöfum Toppfara sem klikkar aldrei á brosinu...

Gegnum mjúkasta mosann í manna minnum var svo gengið að Strokk sem skyldi bættur í safnið
en við ákváðum að telja hann sem sér tind þar sem hann er varla hluti Högnhöfða svona til að gæta réttlætis fjallalega séð ;-)

Strokkur var auðgenginn þó brattgengur væri og vorum við örfáar mínútur þarna upp.

Frábært útsýni til beggja átta á Brúarárskörðin - hér suðurhluti þeirra til Úthlíðar og suðurlands.

Sjá rigningarskúrana um undirlendið en við fengum úrhellið á akstursleiðinni heim um kvöldið.

Og norðurhluti þeirra með fossinn þarna niðri, Þórisjökul, Hlöðufell og Önnu Elínu fjallagarpi í toppformi
sem hefur tekið þátt í nánast hverri einustu göngu hópsins síðustu mánuði.

Bakaleiðin svo farin meðfram gljúfrinu í brakandi hita og þarna fór hitinn örugglega vel yfir 20°C og svitinn rann í stríðum straumum...

Þula greyið orðin blóðguð á fótunum eftir strembna göngu, enda farin að reskjast þessi elska,
og var hún orin á herðum umhyggjusams eiganda síns, Siggu Sig.

Ingi tók svo við og virtist ekki hafa gert neitt annað um ævina en skella á herðar sér hundum og ganga um fjöll...

Síðasti kaflinn svo meðfram ánni og fossaröðinni sem aftur dáleiddi okkur að brúnunum og kom manni varla úr sporunum að bílunum...

Hm-leikur kl. 18:30 hvað???

Þetta var miklu skemmtilegra og maður leiddi ekki einu sinni hugann að tímanum þrátt fyrir létta HM-veiki...

...enda var ritari lasin og hafði ekki rænu á að hugsa lengra en um næsta skref... nákvæmlega einn af bestu kostum fjallgangnanna almennt... maður er svo mikið í núinu á fjöllum að það verður ávanabindandi og ein af ástæðunum fyrir því að maður leggur alltaf aftur af stað laugardag eftir laugardag...

Birkivaxin hlíðin síðustu metrana niður að bílastæði... í ánni voru unglingar að jeppast og striplast í brakandi hitanum og logninu... sannkölluð sumarleyfisstemmning ríkti og það var synd að hafa ekki tjald og grill í skottinu...

Jóga a la Jón Sig... stelpurnar tóku "Svaninn" og strákarnir vissu ekkert hvað þeir áttu af sér að gera...

Alma, Hermann, Guðjón Pétur, Þula, Guðmundur, Ásta Snorra og Örn.

Alls voru þetta 14,3 km göngu á 6:45 - 7:00 klst.
upp í
1.018 m (1.004 m) hæð með 762 m hækkun miðað við 256 m upphafshæð.

Brakandi góð ganga með góðum hópi í kærkominni afslöppun fyrir sumarfrí !

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir