Æfingar alla þriðjudaga frá október út desember 2011
í öfugri tímaröð:

Lágafell 27. desember í umsjón hópsins
Úlfarsfell 20. desember
Hnefi 13. desember
Þverfell Esju 6. desember
Háihnúkur Akrafjalli 29. nóvember
Helgafell Mosó 22. nóvember
Æsustaðafjall og Reykjafell 15. nóvember
Blákollur 8. nóvember
Búrfellsgjá 1. nóvember
Melahnúkur 25. október
Katlagil og Hjálmur Grímmannsfelli 18. október
Rauðhóll og Geithóll Esju 11. október
Stóri Meitill 4. október
Árshátíð 1. október
 


Lágafell að uppástungu þjálfara milli jóla og nýárs 2011

Nokkrir mættu, tóku góða göngu og fóru í pottinn á eftir
:-)
 

 

Jólalegt vetrarævintýri
á Úlfarsfelli

Þriðjudaginn 20. desember tóku 42 Toppfarar jólalega göngu upp á Úlfarsfell...
 
...þar sem
15 ungir Toppfarar voru með í för; Arnbjörn Ingi 5 ára, Hilmir 6 ára, Katrín 8 ára, Arna 9 ára, Andri 10 ára, Hlín 11 ára, Sæmundur 11 ára, Anna Lilja 11 ára, Gunnar Jökull 11 ára, Kristófer 11 ára, Elísabet 12 ára, Garðar Örn 12 ára, Irma Gná 14 ára, Breki 14 ára og Gunnar 15 ára...

... tveir gestir; Jökull og Kristrún þeirra Gunnars Viðars og Maríu...

... og 24 hefðbundnir meðlimir; Anna Sigga, Árni E., Áslaug, Ásta Bjarney, Bára, Björn, Eyþór, Guðmundur Jón, Gunnar Viðar, Gnýr, Gylfi Þór, Heiðrún, Ingi, Jakob, Jóhanna Fríða, Jóngeir, Kjartan, Lilja Sesselja, María E., Óskar Wild, Rannveig, Steinunn, Sæmundur og Örn

... og hundarnir Día og Polli...

Gengið var í gegnum skóginn áður en snjóugar lendurnar tóku við
og var veðrið og færið með
jólalegasta móti... hiti við frostmark, lygnt, ferskur snjór yfir öllu og stjörnubjart..

Þetta var fjórða skiptið sem við förum í þessa jólagöngu á Úlfarsfell og aldrei hefur jafn mikill snjór verið á leiðinni...
djúpir mjúkir skaflar og stundum harðnaðir klakar undir með harðfenni á köflum...

Þetta var vetrarævintýri eins og þau best gerist og allir nutu sín vel ólíkt sumum fyrri jóla-Úlfarsfells-göngum þar sem frostið hefur bitið fast eða vindurinn hrakið okkur niður eða göngufærið og hitastigið fremur minnt á sumarblíðu en vetur...

Að þessu sinni vorum við með allt á kafi í snjó eins og desember sæmir en milt veður... en við þessar frábæru aðstæður mátti hins vegar yngri kynslóðin minna vera að því að ganga upp á fjallið eins og fullorðna fólkiðnu
er tamt að gera því það var hægt að
leika sér í snjónum alls staðar á leiðinni...

Katrín 8 ára hans Árna fór létt með þessa göngu eins og hinir ungu fjallamennirnir því haldið var vel áfram alla leið
þó flestir væru ekki vanir því að skóflast upp fjöll að vetri til í erfiðu færi...

Anna Lilja 10 ára hennar Lilju Sesselju sat fyrir í miðri brekkunni með borgina í baksýn og heila jólaseríu á höfðinu
eins og alvöru fyrirsæta...

Arnbjörn Ingi 5 ára afaogömmubarn þeirra Heiðrúnar og Inga var yngstur allra sem mættu
og gekk með atgeir eins og Ingi afi og Gunnar á Hlíðarenda...

Sæmundur 11 ára, Arna 9 ára og Hlín 11 ára eru orðnir ötulir göngumenn Toppfara sem mæta alltaf með Sæmundi frænda
og enda örugglega einn daginn á Hvannadalshnúk með honum...


Mynd frá Gylfa

Bræðurnir Andri 10 ára og Garðar 12 ára hans Gylfa eiga sér langa sögu í Toppförum
og hafa oft mætt með okkur í flottar göngur...

Irma Gná hans Jóngeirs hlaupara og listasmiðarins sem á heiðurinn af ljósmyndunum á bíl þjálfara
lét sig ekki vanta í gönguna en hún hefur tekið þátt í mörgum keppnishlaupum með Toppförum gegnum árin...

Gunnar Jökull 11 ára þeirra Rannveigar og Jakobs er fjallamaður af Guðs náð og nýtti kvöldið vel...

... með vini sínum Kristófer sem gaf félaga sínum ekkert eftir í ærslafullum leiðangri þeirra
um fjallið þvert og endilangt...

---**--

---- ath mynd af Breka og Gunnari----
 

Hilmir 6 ára þeirra Báru og Arnar gaf sig allan í leitinni að nammipoka jólasveinsins á tindinum...

Elísabet 12 ára þeirra Gunnars Viðars og Maríu fann nefnilega loksins nammipokann eftir ævintýralega leit um allt fjall
sem minnti á alvöru björgunarleiðangur því ljósgeislarnir dreifðust um fjallið hið efra meðan á leit stóð...

Upp úr pokanum sem virtist endalaust djúpur... fengu allir sleikibrjóstsykur og pez
sem jólasveinarnir höfðu
falið fyrir ungu fjallamönnunum...

Eftir jóla-fjöldasöng var haldið niður þar sem sumir lentu í skríkjandi sleðafæri á botninum einum saman...

Vetrarævintýri af bestu gerð
upp á 3,1 km göngu á 1:44 klst. upp í 274 m hæð með 281 m hækkun alls.

**Gleðileg jól elsku Toppfarar**

P.s. Næsta æfing er árleg frá Lágafellslaug um Lágafell yfir á Lágafellshamra í Úlfarsfelli en án þjálfara þar sem þeir ætla norður í vetrarfrí milli hátíða... verið í bandi gegnum fésbókina ef einhverjir vilja hafa umsjón með þessari göngu eða bjóða upp á eitthvað annað fjall til að ganga á ;-)

 

 

Höfðingjaganga
við hörkuvetraraðstæður á Hnefa Lokufjalli

Höfðingjum til heiðurs göngum vér
á Hnefa í Lokufjalli
Upp hæstu fjöll, já hugsa sér
þeir hendast á léttu spjalli
Þjálfarar

Þriðjudaginn 13. desember heiðruðu Toppfarar aldursforseta klúbbsins með höfðingjagöngu á Hnefa í Lokufjalli í krefjandi veðri og snjóþungu færi þar sem vel blés á menn úr norðaustanátt en hiti var heldur meiri en verið hefur síðustu daga eða rétt yfir frostmarki... sem mönnum fannst bara sumum vera heitt...

Þetta voru þau: Anton, Auður, Ágústa, Árni E., Ásta Bjarney, Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björgvin, Björn, Elsa Þ., Gerður Jens., Guðmundur Jón, Guðjón, Helga Bj., Hjölli, Ingi, Ísleifur, Jóhanna Fríða, hanna Steina, Jóhannes, Jón, Jóna, Katrín Kj., Ketill, Kjartan, Llja Bj., Lilja Kr., Ólafur, Rósa, Sigga Rósa, Sjoi, Soffía, Steinunn, Súsanna, Sæmundur, Vallý, Valgerúr, Willi og Örn.

Vegna mistaka þjálfara í tilkynningu á vefsíðu um hvar skyldi hittast fyrir gönguna tafðist brottför um hálftíma en allir mættir létu það hvergi skyggja á hátíðleikann sem bara jókst þegar höfðingjarnir óku í hlað ásamt fylgdarmönnum ofan úr Ártúninu með hópinn á hliðarlínunni á vigtarplaninu að bíða eftir þeim... spjallandi og hlæjandi í sig hita ;-)

Gengið var upp með brúnum Lokufjalls og ekkert gefið eftir fyrr en í hæsta Hnefa í 418 m mældri hæð með vindinn beint í fang og snjófjúkið beint í andlit áður en skóflast var niður gegnum misdjúpan og misþykkan snjóinn... bókstaflega rekin af fjalli með vindi sem var eiginlega ekki síður minni þó niður væri komið... alls 6,0 km á 2:14 klst... hvílíkur hópur...

... sem sýndi vel úr hverju hann er gerður og þjáppaði sér bara enn betur saman gegn rokinu og fjúkinu á tindinum ti að syngja afmælissönginn fyrir þá félaga sem áttu afmæli þann 4. des (Ketill, 74ra ára) og 8. des (Björn 72ja ára).

Þjálfari hélt smá tölu um langtímaframtíðarsýn Toppfara sem fæli að minnsta kosti í sér tvö markmið; að ganga með þessum mönnum þegar þeir ná hundrað árum... þ.e.a.s. ef við hin höfum heilsu til sögðu gárungar ;-)... og vesgú síðara markmiðið að ná því sjálf að verða 70 ára og vera enn að ganga á erfiðustu fjöll landsins líkt og þeir... að ekki sé talað um að sigra Kilimanjaro eins og Björn gerði á 70 ára afmælisári sínu 2009 eða hlaupa maraþon eins og Ketill gerði á sínu afmælisári 2007...

Haf þökk kæru heiðursmenn fyrir að vera dýrmæt fyrirmynd okkur öllum í Toppförum og öðrum
og ekki síður fyrir að vera okkur kærir félagar og vinir í blíðu og stríðu á fjöllum sem annars staðar ;-)
 

 

Snjóspuni undir tungli og stjörnu
á Þverfelli og Langahrygg Esjunnar

Farnar voru nýjar slóðir á Esjunni þriðjudaginn 6. desember þegar 33 manns voru mætt á æfingu í stilltu veðri... undir tungli og stakri stjörnu... og ferskum snjó... svo þjálfarar stóðust ekki mátið að taka snjóspuna kvöldsins alla leið...

Gengið var upp með Þverfelli og eftir suðurbrúnum þess að Búa við Gljúfurdal með brölti upp og og niður gil og snjóbrekkur...
og snúið við yfir á Langahrygg og niður með honum til baka um Fálkakletta að bílunum...

Birtugjafar kvöldsins voru snjórinn, tunglið, stök stjarna á himni, borgarljósin og friðarsúlan...
fyrir utan höfðuljósin sem margir slökktu á megnið af göngunni til að njóta umhverfisins enn betur...

Kyrrðin var áþreifanleg þetta kvöld og skilaði sér í værð yfir göngumönnum sem nutu æfingunnar út í yztu æsar... æfingu sem endaði á tæpum þremur klukkustundum eftir 5,8 km göngu upp í 485 m hæð á brúðkaupsafmælishól Siggu Rósu og Rikka með 597 m hækkun alls enda heilmikið um hóla og hæðir á leiðinni...

Gönguleið kvöldsins gul vinstra megin,
hefðbundin leið upp og niður Esjuna að Steininum svört í miðjunni
og gangan okkar í haust upp Rauðhól og Geithól rauð hægra megin...
...svona til að allir átti sig á göngusvæði kvöldins í samhengi við aðrar aðrar göngur okkar frá bílastæðinu við Mógilsá :-)

Elsku Ágúst R., Ágústa, Árni E., Áslaug, Elsa Þ., Eyþór, Finnbogi, Guðmundur jón, Guðjón, Gunnar Viðar, Gunnar Kr., Gunnhildur, Gylfi, Halldóra Á., Hólmfríður, hrafnkell, Jóhanna fríða, Katrín Kj., Lilja Kr., Lilja Seselja, María E., María S., Ólafur, Óskar Wild, Roar, Stefán A., Súsanna, Svala, Sylvía og Willi...

Takk fyrir dásamlega útiveru með ykkur yndislega fólk ;-)
 

 

Akrafjall
í norðurljósadýrð

Árleg aðventuganga Toppfara á Akrafjall þriðjudaginn 29. nóvember var með eindæmum vetrarleg og falleg í hörkufrosti, ísköldum vindi, með snjó yfir öllu, undir iðandi norðurljósum á stjörnuprýddum himni...

Gengin var nokkurn veginn hefðbundna leið upp á Háahnúk en þó farið nær brúnunum í upphafi
sem sparaði snjóruðning og gaf útsýni til sjávar í suðri og til höfuðborgarinnar...

Norðurljósin tóku að leika listir sínar á himni þegar við vorum á uppleið svo vart mátti ganga fyrir dýrðinni og náði iðandi ljósboginn frá austurbrúnum fjallsins niður á Akranes-bæinn sjálfan... hreint út sagt mögnuð sýn þegar menn gáfu sér ráðrúm til að líta upp meðan gengið var gegn vindi sem hélt mönnum vel vði efnið með því að bíta fast í kinnar...


Ástríður og Simmi?

Niðurgangan var um hefðbundnari slóðir þar sem snjór hafði náð að safnast meira í skafla en menn skófluðust þetta á methraða... niður úr kuldanum og vindinum... því það beið heitt kakó og sætar kökur í byggð...


Ásta, Simmi?, Hanna og Björgvin.

Talsvert af nýliðum í hópnum sem bæst hafa í hópinn í vetur og nutu þeir sín til hins ítrasta og létu ekkert bíta á sig... eiga sannarlega erindi í hópinn enda ætla nokkrir að taka þríhyrning í vetrarbúningi næstkomandi laugardag ;-)

Mættir voru 44 manns:

...Guðmundur, Katrín, Sylvía, Jón Atli, Þóra, Jóna, Ingi, Örn, Sigga Rósa.
...Simmi, Guðjón, María S., ?, Anna Sigga, Villi... og

...Finnbogi, Gylfi, Lilja Sesselja, Steinunn, Steinunn Þ2, Alma, Torfi.
...Jóhanna Fríða, Vallý, Brynja, Súsanna og Ástríður og...

Valdís, Sæmundur, Ásta, Roar, halldóra Á., hanna.
Irma, Björgvin og Árni...

en á mynd vantar Jóhannes, Kjartan, Rósu, Auði, Ágústu og ? sem voru komin lengra niður... og Bára tók mynd ;-)

Þetta var fjall Skagamanna sem þarna fara um nánast vikulega allt árið um kring...
Ingi var fjallsins "gatekeeper" eða hliðarvörður  og gætti félaga sinna á hliðarhallanum í síðustu brekkunni
sem getur orðið ansi hál að vetri til en var vel fær öllum vönum í ferskum snjónum...


Valdís, Þóra og Halldóra Ásgeirs.

Á Skaganum beið Gamla Kaupfélagið með heitt kakó með rjóma og smákökum...


Torfi, Rósa, Villi, Irma, Simmi, Lilja Sesselja og Gylfi.

...handa svöngum, sveittum, glöðum... og vel lyktandi göngumönnum...


Steinunn, Vallý, Auður, Súsanna, Halldóra Á., Sæmundur og Kjartan.

...sem hertóku staðinn og vermdu sig í hálftíma áður en heim var haldið eftir
hörkuæfingu... því, þegar 26+ m/sek lamdi á bílunum á Kjalarnesi þá var það strax orðið óraunverulegt að hafa gengið upp á Háahnúk á Akrafjalli stuttu áður og notið þess fram í fingurgóma... sem segir allt um þennan hóp...

Nýtið lexíur þessa kvöldsins vel... í miklu frosti og vindkælingu þar sem gengið er mót vindi í langan tíma er erfitt að halda sér nægilega vel heitum á áreynslunni einni saman... menn þurfa að vera vel klæddir þó þeir séu á göngu og eiga alltaf að hafa varafatnað í bakpokanum... það er  ísköld og raunveruleg... jafnvel bitur ástæða fyrir upptalningunni ullarvettlingar (eina sem heldur fingrum heitum í miklum kulda, flís dugar aldrei í alvöru kulda), hlífðabrelgvettlingar (eina sem hlífir höndum í miklum kulda og vindi þó maður sé klæddur í ullarvettlinga), lambhúshetta (eina sem heldur nægilega vel hita á höfði í miklum kulda og vindi - buff, húfa eða trefill hlífir ekki nægilega vel kinnum, höku, enni), skíðagleraugu (til að hlífa kinnum og augum í kulda og vindi og ekki síður til að hlífa augum gegn snjórhíð beint í andlit), ullarnærföt (eina sem dugar í miklum kulda klukkustundum saman þar sem stoppað er til að borða og þétta hópinn og svitinn lekur innanklæða)... o.s.fr... á svona degi ætti ullarpeysa jafnvel að vera á listanum hjá sumum og örugglega fleira sem hver og einn venur sig á af fenginni reynslu eins og þessari þetta kvöld...

Þríhyrningur á laugardaginn í jólalegustu tindferðinni til þessa í sögu klúbbsins...
með allt á kafi í snjó ;-)
 

 

Kyrrðarganga á Helgafelli

Þriðjudaginn 22. nóvember gengu Anna Sigga, Ágúst R., Ágústa, Árni E., Ásta Bjarney, Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björgvin, Björn, Einar Rafn, Elsa Þóris., Elsa inga, Finnbogi, Gerður Jens., Gísli, Guðmundur Jón, Gunnar Viðar, Gunnar Kr., Gunnhildur, Gylfi, Halldóra Á., Hanna, Heiðrún, Helga Bj., Herdís, Hildur Vals., Ingi, Irma, Jóhanna Fríða, Jóhannes, Jóna, Katrín Kj., Kári, Kjartan, Lilja Bj., Lilja Sesselja, Ósk, Rikki, Roar, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Sigga Bryndís, Sjoi, Soffía Jóna, Stefán A., Wilhelm og Örn á Helgafell í Mosfellsbæ í fallegu veðri og góðu skyggni enda bjart yfir öllu í fyrstu snjóföl vetrarins.

Kveikt var á kerti á tindinum með einnar mínútu þögn til þess að sýna Óskari, Áslaugu og fjölskyldu samhug vegna fráfalls Elvu Ýr Óskarsdóttur á Siglufirði í síðustu viku áður en haldið var niður eftir friðsæla göngu upp á rúma 4 km á tæpum 2 klst.
Haf þökk elsku félagar fyrir einstaka vináttu og samstöðu sem einkennir þennan hóp.

 

 

Við verðum ekki með göngu á laugardaginn.

Það verður kyrrðarganga hjá Toppförum næsta þriðjudag.

Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til elsku Óskars, Áslaugar og fjölskyldunnar.

Hugur okkar er hjá öllum sem eiga um sárt að binda á Siglufirði.

 

Sumarveður
á
Æsustaðafjalli og Reykjafelli

Hún var ósköp notaleg og ljúf æfingin þriðjudaginn 15. nóvember þegar 42 Toppfarar gengu á Reykjafell og Æsustaðafjall í Mosfellsbæ í blíðskaparveðri eða 9°C og logni. Gengið var gegnum Skammadal og upp þéttar brekkurnar á Reykjafellinu þar sem golan blés og góðan hring niður á Æsustaðafjall um blautar þúfur, mýrlendi og möl með fallegu útsýni yfir höfuðborgina og nágrannabyggðir.

Viðrun eftir ævintýri helgarinnar á Elliðatindum og áætlanagerðir fyrir jólagleðina á Þríhyrningi í umrlæðunni ásamt mörgu fleiru... hrien dásemt í einstaklega góðu veðri sem minnti svo sterkt á sumarið að myrkrið var mótsagnakennt... eða alls 4,9 km á 1:39 klst. upp í 279 m og 222 m hæð með 292 m hækkun alls miðað við 108 m upphafshæð... jú, jú, þjálfarar voru til friðs og létu tölur dagsins halda sér miðað við áætlun ;-)

Mættir voru Alexander, Alma, Anna Sigga, Ágúst R., Ágústa, Árni E., Ástríður, Bára, Björgvin, Einar S., Elsa Þ., Elsa Inga, Finnbogi, Gísli R., Guðmundur Jón, Gunnar Kr., Gunnhildur, Gylfi, Halldóra Á., Halldóra Þ., Hólmfríður, Hrafnkell, Ísleifur, Jakob, Jóhannes, Katrín Kj., Kjartan, Lilja Bj., Liljsa Sesselja, Ólafur, Ósk, Rannveig, Roar, Sigga Bryndís, Sigrún, Soffía Jóna, Steinunn Z., Steinunn Þ., Súsanna, Sylvía, Torfi, valdís, Wilhelm, Þóra R. og Örn.

Þar af voru Ólafur og Sigrún að taka sína fyrstu göngu með hópnum
sem samanstóð m. a. af nokkrum gömlum góðum félögum og heilmikið af nýliðum haustsins ;-)

Bláfjallahryggur á laugardaginn ?
Einhverjum datt það í hug ef vel viðraði...
Sjáum hvað setur þegar nær dregur helgi ef áhugi er á því innan hópsins... ;-)

... en annars er Þríhyrningur 3. des. stutt og létt ganga fyrir alla klúbbmeðlimi og ráð að stefna þangað allir sem einn með jólasveinahúfu á höfði, kakó og piparkökur í nestisboxinu og hátíðarskap í sinni...

 

Blákollur
upp hóla og hæðir



Alls mættu
44 manns á æfingu þriðjudaginn 8. nóvember
og gengu hæðótta leið upp á hógvært fell við þjóðveg eitt sem leynir á sér og nefnist
Blákollur...

Hópurinn var að ganga á þetta fjall eitt og sér í fyrsta sinn þar sem við höfum tvisvar farið á það sem upphitun á göngu um Sauðadalahnúka... að sumarlagi... í dagsbirtu...

En nú var það svart... nánast frá byrjun æfingar... þar sem allir voru orðnir vel heitir eftir alls kyns vandræði við að komast upp eftir á bílunum þar sem afleggjarinn góði gegnt Litlu Kaffistofunni er ekki lengur til heldur skal nota fyrri (vestari) afleggjarann inn á svæðið - þann sem vanalega er farinn þegar menn ganga á Vífilsfellið - en beygt er af honum fljótlega inn á afleggjara merktur æfingasvæði Landssamband íslenska vélhjólamanna LÍV o.fl.

.

Veðrið var með ágætum og ótrúlega hlýtt eða um 8°C í upphafi göngunnar, mild rigning á kafla og aðeins vindur þegar ofar dró... svo aðalvandamálið var svitnun undir öllum þessum vetrarfötum... því leiðin var hvergi slétt og felld...

... heldur upp og niður hóla og hæðir í grasi, mosa, grjóti, möl og klettum.... jamm, heldur meira krefjandi æfing en þjálfarar höfðu lagt upp með því þeim tókst betur en þeir áttu von á að velja eins hæðótta leið og hægt er á þessa fremur stuttu leið á Blákoll ;-)

Bakaleiðin var ekkert skárri... þó hún ætti að kallast niður í móti... þar sem farið var um þéttar brekkur sem kröfðust þess að menn fótuðu sig varlega gegnum móbergsklappir og lausagrjót... en skvaldrið var slíkt og gleðin svo klingjandi að flestir tóku ekki eftir hindrunum að neinu tagi... eitt það besta við fjallgöngurnar naut sín vel þetta kvöld... að gleyma sér á góðu spjalli við kæra félaga á fjöllum...



Anton bauð þeim sem hann fann í þokumyrkrinu á toppnum upp á
heimagerð orkustykki
sem bókstaflega bráðnuðu ofan í göngumenn...

Já, nestistími á toppnum eins og vanalega ef veður mögulega leyfir... eins gott að æfa sig í að nærast í öllum veðrum... við öll hitastig... og öll vindstig... fyrir tindferðir þegar stundum getur verið lítið val um skjól eða notalegheit... sá sem ekki hefur sest niður í brattri hálri brekku, ísköldum vindi, bítandi frosti, engu skyggni... getur látið sig hlakka til slíkrar stundar í einhverri tindferð framtíðarinnar... upplifun sem aldrei gleymist... að vera svo svangur að maður gerir engar kröfur um aðbúnað...

Mættir voru:

Alexander, Anna Sigga, Anton, Arna, Ágúst, Ágústa, Árni, Áslaug, Ásta Bjarney, Ástríður, Bára, Björn, Einar Rafn, Eyþór, Finnbori, Gerður J., Gísli, Guðmundur Jón, Helga Bj., Helgi, Ísleifur, Jóhanna Karlotta, Jón Atli, Jón, Jóna, Katrín Kj., Kjartan, Lilja Sesselja, Ósk, Óskar, Rósa, Sigga Sig., Sigga Bryndís, Soffía Jóna, Steinunn, Steinunn Þ., Steinunn Z., Súsanna, Sylvía, Sæmundur, Valgerður, Wilhelm, Þórdís og Örn.

Þar af voru Sigga Bryndís, Steinunn Þorsteins önnur ;-) og Steinunn Zóphoníasdóttir að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum ásamt fleiri nýlegum félögum þetta haustið og falla þau öll algerlega í kramið ;-)


Sjá þversnið af göngunni hér fyrir neðan svo menn sjái hækkanir og lækkanir kvöldsins...
Við nýttum landslagið sérdeilis vel til æfingar ;-)

Skínandi góð æfing sem endaði á 4,8 km á 2:10 - 2:15 klst.
upp í
537 m mælda hæð með 481 m hækkun alls miðað við 225 m upphafshæð.

Elliðatindar á laugardaginn og mikil stemmning fyrir þeirri göngu... vonandi í konunglega góðu veðri
þar sem við ætlum bókstaflega að ganga um tignarlega
tindakórónu sem lokkað hefur okkur til sín öll þessi ár
og við létum loks til leiðast veturinn 2011 á sjálfan afmælisdag ungfrúr Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu ;-)

Tökum með okkur hátíðlegt nesti !

 

Búrfellsgjá við sólsetur
...þann 011111...


Hópurinn með Búrfellsgjá í baksýn og hálft tunglið á himni ofan við Grindaskörð, Lönguhlíð og Valahnúka
en Húsfell er lengst til vinstri á mynd og Helgafell í Hafnarfirði úr af mynd hægra megin.

Alls mættu 45 manns á æfingu nr. 203 um Búrfellsgjá í Heiðmörk í fallegu sólsetri þriðjudaginn 1. nóvember
og var það fyrsta ganga vetrarins sem hefst eftir sólsetur.

Rösklega var gengið hefðbundna leið með slóðanum upp með gjánni og hringleið um gígbarminn þar sem golan beit í kinnar en skjól var niðri í gígnum þar sem menn áðu og snæddu meðan fyrstu stjörnur himinhvolfsins tóku að birtast okkur...

Á skoppinu yfir eina gjánna á leiðinni var staldrað við og á Sjói benti mönnum á koparskrúfurnar tvær sem eru sitt hvoru megin gjárinnar en þær voru negldar þar samsíða kringum árið 1970 og misgengið því talsvert um 40 árum síðar þar sem þær hafa færst til í sitthvora áttina og fjarlægst. Sjá m. a. hér um færslu jarðflekanna í þessu sambandi:
http://www.ferlir.is/?id=3182 
og
http://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0saga_%C3%8Dslands

Og smá umræða um að flekaskilin sjálf séu ekki nákvæmlega á Þingvöllum heldur hliðlægt við þá:
http://www.kofun.is/index.php?option=com_content&task=view&id=148&Itemid=50


Irma, Guðrún Helga, Hólmfríður, Hrafnkell, Eyþór, Einar Rafn, Wilhelm, Soffía Jóna, Ágústa, Valgerður og Jón o.fl.

Mættir voru 45 manns:

Anna Sigga, Anton, Arnar, Ágúst R., Ágústa, Árni, Áslaug, Ásta Bjarney, Bára, Einar Rafn, Eyþór, Finnbogi, Gerður Bj., Gísli, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gunnar Kr., Gylfi, Halldóra Á., Helgi Rafns., Hjölli, Hólmfríður, Hrafnkell, Irma, Jóhanna Fríða, Jóhannes, Jón, Jóna, Katrín Kj., Kjartan, Lilja Bj., Lilja Sesselja, Ósk, Rikki, Roar, Rósa, Sjoi, Soffía Jóna, Steinunn, Súsanna, Sylvía, Valgerður, Wilhelm, Þórdís og Örn... og Día og ný tík bættist í hópinn að nafni Spá frá Torfastöðum Fljótshlíð ;-)

... en þar af voru Árni, Finnbogi og Gísli að fara í sína fyrstu göngu með hópnum ;-)


Göngumenn ber við himinn og höfuðljósin ber við myrkrið fyrir miðri mynd... á gígbarmi Búrfellsgjár
með Helgafell í Hafnarfirði vinstra megin á mynd.

Notaleg æfing upp á 5,9 km á 1;40 - 1:43 klst. upp í 182 m hæð með 248 m hækkun alls miðað við 109 m upphafshæð
en við lækkuðum okkur talsvert niður fyrir það oftar en einu sinni á leiðinni.

Elliðatindar framundan... líklega ekki næstu helgi nema spáin lagist mikið... við stefnum á laugardaginn 12. nóvember en tölfræðilega séð eru orðnar risastórar líkur á góðu veðri þann laugardaginn þar sem ekki hefur viðrað vel á laugardegi síðan við gengum á Miðsúlu og Háusúlu í lok september !
 

 

202 Melahnúkur


Hnefi í Lokufjalli vinstra megin, Melahnúkur litla þúfan fyrir miðri mynd
neðan við pýramíta-lagaðan Dýjadalshnúk í Tindstaðafjalli sem er hamrarnir hægra megin í snjóföl efst.

Leið Toppfara á Melahnúk þriðjudaginn 25. október... á æfingu nr. 202... var blaut en lygn og fremur hlý í sæmilegu skyggni með aðdáunarverðri mætingu eða alls 36 manns... og var frammistaðan framar vonum þar sem hópurinn gekk sem einn maður
alls
7,4 km á 2:33 - 2:39 klst. upp í 551 m hæð með 553 m hækkun miðað við 45 m upphafshæð.


Blikdalur er 7 km djúpur sem þýðir 14 km ganga inn dalinn og til baka og er vel þess virði á fallegum degi...

Gengið var með stórbrotnu gljúfri Blikdalsár framhjá Mannskaðafossi og upp með Hestbrekkum alla leið á formfögru þúfuna Melahnúk sem rís neðan við Dýjadalshnúk í Tindstaðafjalli og var leiðin aflíðandi en fjölbreytt um gil, þúfur, grjót og mela þar sem óðum dimmdi í hverju skrefi svo höfuðljósin voru fljótt tekin í notkun áður en komið var á efsta tind.

Minna fór fyrir myndatökum við þessar aðstæður þar sem birtuskilyrði voru léleg og bleytan flækti málin
en krafturinn og ferskleikinn varð þeim mun áþreifanlegri á eigin skinni...


Hópmynd í myrkri þegar veðrið er blautt er óvinnandi vegur svo vel eigi að vera ;-)

Mættir voru:

Aðalheiður, Alexander, Anton, Arna, Arnar, Auður, Áslaug, Bára, Dóra, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gunnar Kr., Gunnhildur, Gylfi, Helga Bj., Helgi Rafns., Hólmfríður, Hrafnkell, Jakob, Jóhanna Fríða, Hanna, Jón Júlíus, Jón St., Lilja Kr., Lilja Sesselja, Ósk, Óskar, Rósa, Súsanna, Sylvía, Valgerður Lísa, Þórdís, Wilhelm og Örn.

Heklufarar frá sunnudeginum margir með í för og fundu mismikið fyrir eins dags hvíld milli fjallgangna en fengu þeim mun meira út úr því að mæta á krefjandi æfingu eftir afreksgöngu helgarinnar ;-)


Hluti af nestislausa liðinu á tindi Melahnúk sem myndaði skjólvegg fyrir þá sem fengu sér að borða... Guðmundur, Rósa, Anton og Hanna.

Hörkuæfing við krefjandi aðstæður
þar sem vel reyndi á búnað og þrautsegju...
Það mega
allir vera ánægðir með sjálfan sig eftir æfingu sem þessa ;-)
 

 

Með leiðum fegurstum
á
Grímmannsfelli
um Katlagil og Hjálm


Hildur Ríkharðs og Gerður Jens í evrópskum skógarlundinum við fjallsrætur.

Þriðjudaginn 18. október fóru 41 Toppfari í sína tvöhundruðustuogfyrstu æfingu á gamalkunnugt fjall í Helgadal Mosfellssveitarinnar í kristaltæru veðri og fögru umhverfi. Þjálfarar völdu nýja leið að sinni sem þeir höfðu lengi haft augastað á og stefndu á næst hæsta tind þessa víðfeðma fjalls, Hjálm í suðvestri, sem eingöngu einu sinni hefur verið genginn áður í þessum klúbbi til samanburðar við einar fimm göngur upp á hæsta tind þess í norðausturhluta fjallsins sem mælst hefur um 490 m hár (fórum reyndar einu sinni ekki alveg alla leið, einmitt vegna þess hve langt er þarna upp eftir!).

Gengið var gegnum bæjarhlaðið á bústaðnum sem Laugalækjarskóli (Laugarnesskóli?) hefur til umráða í Helgadal og alið hefur margt útivistarbarnið gegnum tíðina... og áfram meðfram ánni upp með töfrandi fögrum fossum Katlagils...

Einstaklega falleg leið og í hróplegu ósamræmi við kynningu þjálfara á fyrri reynslu hópsins af fjallinu upp á hæsta tind enda höfum við hingað til gengið niður með Katlagili ofan af Stórhól í norðaustri og dáðst að því í lok ferðar, gjarnan í rökkri og óþolinmæði yfir að komast í bílana eftir drjúga göngu eða komið að því ofar og ekki farið um tæpistiguna í mesta gljúfrinu... en þarna fengum við Katlagilið beint í fangið frá fyrsta hamri áður en rökkrið tók yfir og nutum hvers skrefs upp úr mildu haustinu á láglendinu og upp í veturinn sem læsti klónum sínum í ísfossana innst í dalnum...

Þjálfurum datt í hug í bríeriinu yfir góða veðrinu, blankalogninu og léttskýjunum, að taka efsta tind Grímmannsfells í leiðinni en féllu frá því innst í dalnum þar sem þá voru enn rúmir 1,3 km í hann í beinni línu og tæpur kílómetri í hæsta tind á Hjálmi...

Sjá mynd neðar af slóð hópsins þetta kvöld þar sem vel sést hve langt var enn í hæsta tind í samanburði við heildarvegalengd kvöldsins. Viðbótin sú hefði verið tæpir 3 km á 1+ klst... en í staðinn teygðum við gönguleiðina eins og hægt var með því að þræða okkur eftir brúnunum í suðri og það var alveg nógu stór skammtur þetta kvöld.

Mættir voru:

Efri: Hjölli, Óli, Gunnhildur, Örn, Alma, Torfi, Rósa, Jón Atli, Nonni, Leifur, Ágúst, Stefán,  Helgi, Sylvía, Valgerður, Ósk, Irma, Guðmundur Jón, Áslaug, Björn, Eyþór, Brynja, Steinunn, Jóhanna Karlotta og Kjartan.
Neðri: Roar, Halldóra Á., Gylfi Þór, Lilja Sesselja, Súsanna, Sigga Sig., Wilhelm, Sjoi, Gerður, Ágústa, Ástríður, Hildur R., Jóhanna Fríða, Gunnar Viðar og María E. en Bára tók mynd og Dimma, Día, Drífa, Skuggi? og Þula stríddu Hjölla meðan á myndatöku stóð ;-)


Dívurnar Día, Drífa, Áslaug og Jóhanna Karlotta að stikla yfir rfrosisnn lækinn efst í Katlagili.

Þegar snúið var úr gilinu upp á Hjálm í suðri var farið að rökkva og ljósin fljótlega komin í notkun en útsýnið naut sín vel þegar upp var komið með glitrandi borg og bæi allt um kring enda Hjálmur frábær útsýnisstaður... sérstaklega ofan af seinni tindinum en báðir hæstu mældust jafnháir í gps-tækjum þjálfara og sá fyrri merktur Hjálmur á korti en sá síðari er hjálmlegri.


Sylvía, Roar, Ósk og Sigga Sig að sigra eina af aðalhindrunum á Grímmannsfelli... girðingar.

Bakaleiðin var svo beint niður í talsverðum bratta til að byrja með en svo mýkra um graslendurnar niður að ánni og yfir hana á stiklum í myrkrinu og undir tvær girðingar eða fleiri gegnum skóginn í bílana og tókst seinni hópnum ekki að villast þrátt fyrir miklar tilraunir ;-)

Skógur, gljúfur, tæpistigur, laxafossar, ísfossar, stjörnubirta, snjóföl, steinastikl og óvissuferð gegnum skóg í myrkri.... það var óskiljanlegt hvernig þjálfari gat talað svona um fjall sem bauð upp á þvílíkt ævintýri sem þetta... já, hvert orð skal tekið til baka!

Við fundum frábæra leið á Skálafell í vor og hlökkum til að fara þá leið aftur... loksins fórum við leið upp á Grímmannsfell sem togar aftur í mann (verðum líka að prófa okkur upp með norðausturhlíðum framhjá Helgufossi einn daginn)... Þetta lofar góðu fyrir betri leið upp á blessað Ármannsfellið sem þjálfara grunar að bíði hópsins austan megin þar sem þeir hafa gjarnan mænt upp eftir frá Mjóafellunum... það er ráð að hætta að tala svona illa um fjöll sem eiga greinilega bara eftir að sýna okkur sínar fegurstu hliðar ;-)


Gps-slóðin þetta kvöld og aðrir gps-punktar úr fyrri ferðum

Sjá drjúga fjarlægðina milli hæsta tinds hægra megin á mynd frá staðnum þar sem við lögðum alltaf bílunum vinstra megin ofarlega á mynd, en þetta var eini staðurinn þar sem okkur fannst við geta lagt mörgum bílum hér áður fyrr... þar til við gengum á lagið og þorðum að leggja bílaflotanum í vegakantinn eins og núna í kvöld... eftir að malarstæðið breyttist í veg upp að bústað sem þarna reis síðar... uppgönguleiðir Grímmannsfells hafa alltaf verið varðaðar alls kyns girðingum og skurðum og engum stöðum til að leggja bílum... þetta var með besta móti í kvöld ;-)

Dýrindis kvöldganga

...upp á alls 6,4 km á 2:19 - 2:30 upp í 462 m hæð með 375 m hækkun miðað við 104 m upphafshæð.

Hekla á laugardaginn eða Bláfjallahryggur...?
Við förum allavega á fjall ef mögulegt er vegna veðurs... hvað sem það heitir !

Endilega sendið allar athugasemdir/hugmyndir/tillögur/vangaveltur um dagskrána 2012 á þjálfara!
við viljum dagskrá að skapi klúbbmelima !... og
Sendið þjálfara ykkar val á utanlandsferð 2012 og næstu árin!

 

Í sólsetri um Esjubarm

Frábær mæting var í blíðskaparveðri á hóla og hryggi Esjunnar sem hníga og rísa í barmi hennar sunnan megin
þriðjudaginn
11. október... og nefnast eftir heilmiklar vangaveltur gegnum tíðina Kögunarhóll, Rauðhóll og Geithóll...

Það var heiðskírt og svalt og haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta í kvöldsólinni.

Gengið var gegnum skóginn ofan Esjustofu og upp með ávölum lendunum
sem smám saman grýtast eftir því sem ofar dregur...

Mættir voru:

Aðalheiður, Alma, Anton, Arnar, Auður, Ásta Bjarney, Bára, Björn, Einar Rafn, Elsa Þóris, Eyþór, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gunnar Kri., Gunnar Viðar, Gylfi Þór, Halldóra Gyða, Halldóra Þórarins., Heimir, Helga Bj., Helgi Rafns., Herdís, Hermann, Hildur R., Hjölli, Hólmfríður, Hrafnkell, Ingi, Jóhann Pétur, Jóhannes, Jón Atli, Jón St., Jóna, Katrín Kj., Kjartan, Leifur, Lilja Bj., Lilja Sesselja, Óli, Ósk, Óskar Wild, Rikki, Sigga Rósa, Sjoi, Stefán A., Steinunn, Súsanna, Svala, Sylvía, Torfi, Wilhelm, Þórdís og Örn.

Það var frost í jörðu upp úr 350 m hæð enda komu ull og úlpur sér að góðum notum...

Hvar er Rauðhóll og hvað er Geithóll...
...er Kögunarhóll neðar eða hinum megin árinnar...?

Um þetta voru skiptar skoðanir þetta kvöld eins og síðast þegar við gengum þetta í fyrra...
Samkvæmt gps
MapSource korti er Kögunarhóll einn af neðri hólunum og Rauðhóll merktur nálægt Geithól
og því enginn Geithóll á því korti.

Samkvæmt Esjustofu eru Rauðhóll og Geithóll ofarlega í hlíðunum neðan við Gunnlaugsskarð
en nákvæmari staðsetning ekki nefnd né myndir til glöggvunar.

Samkvæmt nákvæmu myndakorti af Esjunni og Kjós gefið út af Kjósarhreppi 2008 ("Myndkort Kjósin Photomap") má sjá að Kögunarhóll rís ofan Löngubrekkna sem fyrsti hóllinn á gönguleið okkar þetta kvöld, Rauðhóll rís ofar stærstur af hólunum og Geithóll er hryggurinn efst neðan við hamrana og er þetta í samræmi við Ferlir:

Samkvæmt örnefnalýsingum Ferlis rís Rauðhóll 441 m hár ofan við Mógilsá vestan við Geithól og honum lýst eftirfarandi: "Hærra uppi við Esju neðan við háfjallið er langur klettahryggur, sem heitir Geithóll, 579 m hár". Kögunarhól er svo lýst neðar í frásögninni, að hann rísi vestast móti Mógilsárfossi sem hár hóll ofan við Löngubrekkur... sem eru brekkurnar sem við gengum upp með fyrst og hefur því verið fyrsti stóri hóll kvöldsins en sumir hafa viljað meina að hann rísi vestan megin árinnar.

Sjá sem dæmi myndir af Geithól til glöggvunar á hryggnum í dagsbirtu af veraldarvefnum:
http://www.panoramio.com/photo/32402304

Þar sem Ferlir eru ansi nákvæmir í örnefnapælingum sínum og kort Kjósarhrepps í algeru samræmi við þeirra lýsingar
munum við styðjast við þessi örnefni
sem fyrr á göngu um þessar slóðir þangað til annað sannast ;-)

Sólin settist kl. 18:24... það styttist óðum í að æfingarnar ekki bara endi í myrkri heldur hefjast þannig líka... það gerist um miðjan nóvember fram í lok janúar og vert að hafa höfuðljósin í lagi, varabatterí í bakpokanum og vera við öllu búinn hvað varðar veður og hálku... með microspikes í pokanum ásamt ullar- og belgvettlingum, lambhúshettu...
 http://www.fjallgongur.is/bunadur.htm

Loksins kom Geithóll í ljós... sjá hrygginn hægra megin á mynd undir hömrunum... hann leynir á sér og fékk mann til að halda að hann væri þarna hægra megin þegar við gengum frá Rauðhól og þjálfari benti sérdeilis viljugur... en þá var hann bara að fela sig og tókst alla leið upp í 500 m hæð að stríða okkur aðeins... æj, já, alveg rétt, hann er aðeins lengra þarna upp eftir...

Á Geithól var komið rökkur og tunglið reis ofan Gunnlaugsskarðs og Kistufells... töfrandi fagurt landslag sem sífellt varð dulúðugra með vaxandi dimmunni sem þó varð aldrei kolniða þar sem sólarlagið, friðarsúlan og borgarljósin lýstu upp sviðið sunnan megin fjallsins á meðan tunglið sá um baksviðslýsinguna...


Aðalheiður og Örn sitthvoru megin á hryggnum.

Hryggurinn á Geithól bætti smá klöngri inn í brekkugöngu kvöldsins og fékk mann aftur til að langa að ganga þarna um á hásumri með góðan tíma til að skoða þetta fjölbreytta landslag suðurhlíða Esjunnar... það hlýtur að styttast í að menn geri göngustíga á þessum hluta Esjunnar til að allur sá fjöldi sem leggur leið sína á fjallið dag hvern allt árið um kring geti notið þessa landslags til tilbreytingar frá lúnum stígunum meðfram Mógilsánni...
 

Nestistíminn í bröttum brúnum Geithóls í myrkrinu varð eitthvað endaslepptur þar sem menn höfðu mismikla þörf og þolinmæði til þess að staldra við... en öll fórum við saman niður eftir í myrkrinu beinustu leið gegnum grjót og gras framhjá skóginum með ljósadýrðina í fanginu...

Það er ráð að stilla sig inn á takt hópsins og leyfi nestistímanum að fá sitt svigrúm eins og annað þar sem nauðsynlegt er að halda hópinn í myrkrinu og flóknara að taka rásina á eigin vegum til baka.. klæða sig einfaldlega eftir veðri fyrir bæði göngu og pásu... slaka á og njóta augnabliksins... þó ekki væri nema njóta tunglsins í myrkrinu... að skína á  hvíta fjallatinda Kistufells... og stjörnudýrð Karlsvagnsins sem glitraði ofan við Þverfellshornið á heiðskírum himninum...

Hörkuæfing og heldur meira krefjandi en þjálfara minnti...

... eða alls 6,5 km á 2:55 - 3:01 klst. upp í 268 m hæð á Kögunarhóli, 488 m á Rauðhól og 566 m á Geithól skv gps.

Hekla enn í sigtinu og enn eru blautir vindar í kortunum næstu helgi...
líklegast mun
22. október fara næst undir eftirlit...
 

 

 

Fyrstu snjókornin á
Stóra Meitli


Ásta Bjarney, Ágúst, Aðalheiður, Jóhanna Karlotta og Hjölli... með Björgvin og Kát á leiðinni að ná okkur þarna niðri...

Fyrsta vetraræfingin að loknu ljúfu sumri var þriðjudaginn 4. október á Stóra Meitil í Þrengslunum
í lygnu en svölu veðri og óraunverulegu snjókornafjúki þegar rökkva tók.

Gengið var upp hlíðarnar í vestri Milli Meitla eins og heiðin þessi kallast og áleiðis á Stóra Meitil í norðri um mosa og grjót á góðri leið í frábæru skyggni til fjalla og jökla í fjarska, þ. a. Eyjafjallajökuls, Tindfjallajökuls og Heklu...

Til suðurs risu Litli Meitill og Geitafell sem bæði hafa verið gengin fyrr á þessu ári... og menn greinilega ekki búnir að gleyma volkinu á Meitlunum í vor... þegar við gengum á þá báða í vorhugar-bríeríi en versnandi veðri og enduðum ausandi blaut í myrkri í bakaleiðinni svo varla mátti það vera verra... ;-)

Uppi á tindi Stóra Meitils í 529 m mældri hæð var tekið að skyggja en útsýni var enn gott til fjalla... meðal annars Heklu sem reis nýkrýnd af snjó komandi vetrar og bauð hópinn velkomin sem þarna stóð... alls 44 manns:

Örn, Ásta Bjarney, Jón Atli, Wilhelm, Gunnar Kr., ?, Jóhann Pétur, Guðmundur Jón, Elsa Þóris, Katrín Kj., Ósk, Anton, Halldóra Þ., Gunnhildur, Hjölli, Steinunn, Ágústa, Kátur, Irma, Kjartan, Björgvin, Hildur R., Kári, Stefán, Áslaug með Dú, Jóhanna Fríða, Helgi, Þórdís, Ástríður, Hrafnkell, Rannveig, Hólmfríður, Eyþór, Jakob, Guðrún Helga, Roar, Dóra með Drífu, Arnar, Aðalheiður, Jóhanna Karlotta, Herdís, Jón Júlíus, Ágúst, Hermann og Sigga Sig með Þulu en Bára tók mynd.

Þar af voru Aðalheiður og Gunnar kr. að taka sína fyrstu göngu með hópnum
og ekki annað að sjá en að þau hafi notið sín vel þetta kvöld...


... en það skal ítrekað enn og aftur hér með að leiðin til þess að líða vel í fjallgöngunum og vera í takt við hópinn líkamlega og félagslega... er að
láta sig hafa það,mæta vel og njóta óháð veðri og vindum á fjöllum en ekki síður í hinu daglega lífi þar sem margt fær mann til að detta í hug að sleppa göngu... ;-)

Gengið var hringinn eftir gígbarminum og leitað skjóls fyrir nestispásu á meðan myrkrið tók smám saman öll völd svo útsýnið eins og hér niður á m. a. Lambafell, Esjuna, Móskarðahnúka, Skálafell, Mosfellsheiði og Botnssúlur í skýjunum... hvarf sjónum von bráðar...

Veturinn sló hér með tóninn með örfáum friðsamlegum snjókornum, svölu lofti og myrkri... í sumarlegu færi og logni... stundum er hann svona mildur framan af vetri og varla að við tökum eftir því þegar hann er kominn...  nema þessa fáu daga sem hann ýfir sig... öðrum stundum er hann hrjúfur og kröfuharður dögum saman, jafnvel vikum... en þá veðrumst við svo vel á þvælingi okkar á fjöllum á þessum árstíma að ekkert verður óyfirstíganlegt í óbyggðum... fögnum nýrri árstíð með nýjum áskorunum...

...þetta er töfrandi tími til útiveru...

Flott æfing upp á 6,3 km á 2:34 - 2:38 klst. upp í 529 m hæð með 484 m hækkun alls miðað við 268 m upphafshæð.

 

 *** Árshátíð Toppfara ***
var haldin laugardaginn 1. október með glæsibrag
á ógleymanlegu kveldi frá upphafi til enda

 

Dýrðin hófst með fordrykk þar sem tæplega 60 gestir voru mættir...  algerlega óþekkjanlegir í prúðbúnum og klæðislitlum búnað ;-)...  og byrjuðu á nafnaleik áður en Rikki tók í gítarinn og sungnir voru nokkrir Toppfara-söngvar undir röddun frá Siggu Rósu...

Því næst tók borðhaldið við með dýrindis lambalæri, gratíneruðum kartöflum og fersku sallati
sem lauk með  lungamjúkri og fallinni
franskri súkkulaðiköku með heitri hindberjasósu og rjóma
úr handsmiðju
Einars Toppfara.

... en í matinnn var búmmað með myndum af Erninum og alvöru búmm-lagi...
...ha, já, nú skil ég, það var verið að búmma í matinn...

Ljósmyndakeppnin "landslagsmynd" og "toppfari" rúllaði undir borðhaldi
og sigruðu
Ágústa og Roar með einstökum myndum sínum:

Sigurmynd í flokknum "Toppfari" eftir Ágústu af Birni á Skarðsheiðinni í nýársgöngu 8. janúar 2011.
 en valið var erfitt innan um samansafn gullfallegra mynda og ekki spurning að þetta atriði verður árlegt...

Myndin sýnir vel þá gleði sem alltaf ríkir í sinni Toppfara óháð því hvað á gengur í veðri og vindum ;-)

Sigurmyndin í flokknum "landslagsmynd" eftir Roar af miðnæturgöngunni á Syðstu Súlu 5. júlí 2011 en Roar er einn úr hópi nokkurra snilldarljósmyndara sem klúbburinn skartar enda sendi hann inn fleiri einstakar ljósmyndir.

Myndin lýsir vel þeirri fjölbreyttu fegurð allt um kring sem bíður þeirra sem ganga í óbyggðum... ekki bara í landslaginu heldur og í himnadýrðinni sem er ofan okkur í dagsbirtu, ljósaskiptum og jafnvel myrkri.

Gylfi Þór sýndi fyrsta hluta af fjórum úr kvikmyndasögu sinni af Perúferð Toppfara sem farin var á þessu ári
og sátu menn hugfangnir yfir meistaraverkinu sem greinilega var unnið af natni og ástríðu sem endranær af hálfu Gylfa.

Sjá myndbönd hans á veraldarvefnum:

http://www.youtube.com/user/gussleris#p/u/1/cfGx5g7nHyU - Inkaslóðin til Machu Picchu.

http://www.youtube.com/user/gussleris#p/u/0/Si15YkYSYCY - Colca Canyon, dýpsta gljúfur í heimi.

Óbirt eru myndbönd af göngu á fjallið El Misty í 5825 m hæð og Santa Cruz trek í Andesfjöllunum.

Skyndilega birtist leynigestur í veislunni sem heillaði hópinn upp úr skónum með lygilegum töfrabrögðum
og grenjandi gríni í bland... tær snillingur þar á ferð... Sjá Jón Víðis á www.tofrar.is.

Tuttuguogfjögurratindafarar slógu loks í gegn með óborganlegri ferðasögu sinni
af 24 tindum á 24 klukkustundum kringum Glerárdal með mögnuðum myndum og skríkjandi húmor út í eitt...

Veislustjórinn... sjálfur Stefán Alfreðsson brá sér í allra kvikinda líki meðan hann stjórnaði veisluhöldunum
af sinni alkunnu snilld og hélt okkur uppi grátandi af hlátrasköllum allt kvöldið...

... þangað til Diskótekið Dúndur tók við sem hélt uppi fjörinu fram undir morgun...

Hjartansþakkir elsku skemmtinefnd...
Auður, Ágústa, Einar, Björgvin, Hanna, Stefán og Valdís fyrir töfrandi flotta árshátíð...

... og Gylfi fyrir magnaða Perú-ferðasögu
...og Ásta, Kjartan, Steinunn og Stefán og aðrir
24 tindafarar fyrir óborganlega frásögn af 24 tindum...
... og allir þátttakendurnir í
ljósmyndakeppninni...
... og Rikki og Sigga Rósa fyrir
gítarinn og sönginn...
... og
aðstoðarmennirnir Lilja Kr., Kjartan, Óskar, Sigga Rósa og Vallý fyrir að taka hlutverkin sín sérlega alvarlega...
...og allir mjög svo hugrökku sjálfboðaliðarnir í
töfrabrögðunum...
...og aðrir sem lögðu hönd á plóginn til þess að gera þetta kvöld að þeirri
snilld sem það var ;-)

Upp úr stendur einstök vinátta hjartkærra félaga gegnum þykkt og þunnt á fjöllum
sem skemmtu sér konunglega saman... eins og vanalega...  á hátíð sem aldrei gleymist...
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is