Æfingar alla þriðjudaga frá ágúst út
september
2010
birt í öfugri tímaröð:
Esjan - tímamæling 28. september
Hnefi Lokufjalli 21. september
Grindaskörð og Syðstu-Bollar 14. september
Ólafsskarðshnúkar og Bláfjallahryggur 7.
september
Þorbjörn 31. ágúst
Hátindur og Jórutindur í Dyrafjöllum 24. ágúst
Reykjavíkurmaraþon 21. ágúst
Geirmundartindur Akrafjalli 17. ágúst
Vífilsfell 10. ágúst
Þyrill 3. ágúst
Vantar klúbbmeðlimagöngur í sumarfríi þjálfara í
júlí
Slessuhorn 3. júlí
Laugavegurinn og 24
tindar í júlí
Frábærar tímabætingar
Alls mættu 43 manns í tímamælingu á Esjunni þriðjudaginn 28. september þrátt fyrir slæma veðurspá og rysjótt veður sem þó var mun lygnara og mildara en áhorfðist eða lítilsháttar rigning, A4 og 9°C. Menn lögðu af stað á mismunandi tímum og mældu flestir tímana sína sjálfir en Örn skráði niður og Bára fylgdi síðustu mönnum og var ómetanlegt að mæta mönnum á leiðinni niður með sælusvip á andlitinu og fréttir af góðum tímum og tímabætingum um jafnvel margar mínútur í sumum tilfellum! Tveir úr 2010 - hópnum á Hafnarfjallli næsta laugardag áttu bestu tímana (þ.e. menn sem koma í hópinn á þessu ári) og voru þeir mjög nálægt því að ná undir 40 mínútur. Ansi margir fóru undir 50 mínútur og þar stóðu konurnar nánast jafnfætis mönnunum sem sýnir hve sterkur kvennahópurinn er í þessum hópi. Þá var sérlega ánægjulegt hve stór hluti náði undir 60 mínútur og eins að enginn var yfir 70 mínútum eða mjög nálægt þeim tíma. Gleðilegast af öllu voru samt tímabætingarnar sem margir náðu og er orkan sem fylgir í kjölfarið þegar menn uppskera og ná svona árangri dýrmæt, því hún fleytir mönnum áfram til frekari metnaðar og afreka... menn eru komnir á bragðið ;-) Alls mældist æfing dagsins 6,8 km á 1:54 klst. upp í 597 m mælda hæð með 581 m hækkun miðað við 16 m upphafshæð.
Til hamingju með uppskeruna elskurnar ! |
Gullinn
Hnefi
á
Lokufjalli Blítt var veðrið og fallegt... þriðjudagskvöldið 21. september er 56 manns mættu á 153. æfingu í hátíðarskapi.
Gengið var um króka og kima í vestanverðu Lokufjalli og stefnan svo tekin á hæsta tind þess, Hnefa í 411 m hæð.
Litríkur himininn og lygnt hafið léku stórt hlutverk þetta kvöldið og septembersvalinn lék við haustlitaðan gróðurinn sem skartaði berjum þegar vel lá á honum milli klettóttra leynistaða þar sem stöku fé reyndi að fela sig fyrir áköfum hundunum sem engu fengu smalað í ólum sínum.
Gleðin var við völd sem endranær og októberfest í umræðunni... þjálfari klæddist skrauthúfu til að minna á ærslafulla hópmyndakeppnina á Hafnarfjalli og fleiri lið voru skráð til leiks áður en dagurinn rann...
Lokufjall leyndi á sér í klettóttu landslaginu vestan megin þegar nær var komið og úr fjarska við fylgdumst við með hóp Ferðafélags Íslands sem gekk þetta sama kvöld á Dýjadalshnúk (739 m) undir stjórn Þórðar Marels, Esjusérfræðings í spennandi verkefni þeirra "Esjan tvisvar í viku" frá hausti fram að jólum- sjá www.fi.is.
Mættir voru:
Efri frá vinstri:
Alexander, Þór, Torfi, Hermann, Guðrún
helga, Alma Ísleifs., Sirrý, Arnar,
Stefán A., Leifur, Elsa Þóris., Hanna,
Ágústa, Lilja B., Droplaug, Rósa,
Jóhannes, Snædís, Einar, Örn, Gerður,
Valdís, Inga Lilja, Björgvin J.,
Steinunn, Björn, Jón Júlíus, Dóra, Roar,
Áslaug, Halldórs Á., Lilja Sesselja,
Sigrún, Árni, Hildur Vals., María,
Guðjón Pétur, Skúli.
Feykir, Skuggi og Día skreyta svo
myndina fremst með tignarleika sínum Þar af voru Alma Ísleifs., Guðrún G., og Þór að mæta í fyrst sinn með hópnum og nokkur sjaldséð andlit á svæðinu sem var afskaplega ljúf sjón ;-)
Loks fór
sólin
að skína á okkur en ekki eingöngu á
fjallstoppa og fjarlægar borgir og höf
Í norðri glitruðu tindarnir í Hafnarfjalli sem eiga stefnumót við galsafulla Toppfara þann 2. október og Skarðsheiðin viðraði sig líka ófeimin með öllu svona rétt áður en hún klæðist aftur hvítu fram á næsta sumar...
Á hæsta tindi kvöldsins, Hnefa settist sólin í 427 m mældri hæð (411 m) og kvöldkulið smalaði okkur svo niður í Blikdal að stórbrotnu gljúfri Blikdalsár sem varð ægilegra ásýndum í rökkrinu niður að bílunum en við sluppum við höfuðljósin sökum heiðskíru himinsins og fengum eingöngu notið þeirra í fjarska þegar við litum við á Ferðafélagshópinn standa á Dýjadalshnúk með glitrandi ljósin í náttmyrkrinu... það var falleg sjón og kunnugleg í senn... tími höfuðljósanna er kominn með dulúð sinni og framandleika...
Gullin haustganga í léttgeggjuðu kæruleysi ...alls 6,8 km á 2:26 klst. upp í 427 m hæð með 378 m hækkun miðað við 49 m upphafshæð sem var létt æfing á færi allra nýrri félaga sem nú koma sér óðum í form fyrir ævintýralegan veturinn ;-) Tímamæling á Esjunni næsta þriðjudag og þjálfari minnti á að þetta er ekki keppni heldur persónulegt mat hvers og eins á eigin líkamlega formi þar sem gott er að veita sjálfum sér aðhald og hvatningu með reglulegum mælingum á formi ef menn æfa á annað borð reglulega vikum eða mánuðum saman - þó dagsform, aðstæður og annað hafi alltaf skekkjuáhrif.
Setjið markmið um að vera undir
40
(ofur) -
50
(dúndur) -
60
(flott) -
70
(gott) mínútum upp að steini... |
Hávaðarok á Syðstu Bollum
Alls mættu 40 manns á
152. æfingu
þriðjudaginn
14. september
með slæma veðurspá í farteskinu... norðanstormur
en léttskýjað veður og að sjálfsögðu var lagt í
hann en seglum hagað eftir vindi...
Veðrið var til að byrja með mun betra en halda mátti enda feykti meðvindurinn okkur fyrstu þrjá kílómetrana upp í Grindaskörðin en þá byrjaði ballið... neeeeii, ekki haustfagnaðurinn... en greinilega upphitun fyrir ballið þann 2. október... því menn sýndu alls kyns kúnsir og nýstárleg hliðarspor á göngu upp síðustu metrana á Syðsta-Bolla í strekkingsvindi sem engu eirði hvort sem þeir voru á tveimur eða fjórum fótum... jafnvel með félaga sér við hlið sem sumir hverjir kunnu ekkert í samkvæmisdönsum og drógu félaga sinn upp síðustu brekkuna á öxlinni ;-) Allt hafðist þetta hratt og vel með þrjóskunni, hjálpseminni og göngugleðinni sem einkennir þennan hóp og auðvitað reynslunni sem skapast hefur í fyrri rok-göngum eins og á Syðstu Súlu í okt. 2007 þegar menn lágu og tókust á loft, Háausúlu í jan 2009 þegar við féllum við eins og spilaborg og lágum í einhverjar mínútur og biðum eftir glugga í vindinum til að komast niður skarðið... Búrfelli á Þingvöllum í okt 2009 þegar við tókum hópmyndina liggjandi á tindinum og leiddumst niður í hálkunni að ekki sé talað um æfingagöngur í roki bara á þessu ári eins og á Stóra Reykjafelli í mars 2010 og á Þríhnúkum í apríl 2010... barningur sem ekki gleymist og fer í reynslubankann til að styrkja sál og líkama fyrir annað eins rok og þetta kvöld... og verri... ;-) Upp úr stendur án efa svaðilförin á Háasúlu í janúar 2009 sem er holl lesning fyrir alla í klúbbnum sem vilja gera sér grein fyrir hvílík veður geta beðið manns að vetri til (þó aldrei sé lagt af stað í svona veðri) og valda því að þeim sem farið hafa í svona ferðir dettur ekki í hug annað en pakka niður í öllum ferðum skíðagleraugum, lambhúshettu, ullarvettlingum, belgvettlingum, hálkugormum, broddum, aukapeysu... þó spáð sé logni og sól í september eins og í Tindfjallajökli s. l. helgi... barasta Skyldulesning fyrir veturinn ;-)
En vandamálið var ekki stórt þetta þriðjudagskvöld í september... rok jú, en hvorki kalt, né hálka né lélegt skyggni né víðsjárverðar brekkur, né margir kílómetrar í bílana... og jú, erfitt að ná kyrri hópmynd í hliðarvindinum á tindinum ;-) Mættir voru: Alexander, Alma M., Anna, Anton Pétur, Anton K., Arnar, Auður, Ágúst, Ágústa, Ásta Bjarney, Björgvin J., Björn, Brynja, Droplaug, Ellen María, Elsa Inga, Guðrún Helga, Gunnar, Halldóra Á., Hanna, Helga Bj., Helgi Máni, Hermann, Hjölli, Inna 15 ára, Irma, Jóhanna, Jón Júlíus, Kristín Gunda, Leifur, Lilja K., María E., Roar, Steini, Súsanna F., Súsanna Á., Svala, Valdís, Örn og Bára sem tók mynd auk þeirra Dimmu, Drífu og Tínu.
Ofan af hæsta tindi í 568 m hæð mátti sjá yfir alla Selvogsgötuna sem liggur frá Kaldárseli í Hafnarfirði (uppgöngustaður á Helgafell í Hafnarfirði) og suður um hraunið gegnum Grindaskörðin og niður að suðurströnd landsins þar sem Strandarkirkja rís við Hlíðarvatn í Selvogi. Alls um 30 km leið með öllu skv. góðri bók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar "Úvivistarbókin".
Ekki var ráð að klöngrast upp á fleiri
Syðstu-Bolla þetta kvöld þar sem vindurinn var þetta hvass
svo við snerum við eftir þann fyrsta og sneiddum
meðfram honum austan megin framhjá
Miðbollum
og
Stóra Bolla
Litir haustsins allt um kring í gullnu sólarlaginu en úfnum vindi sem furðanlega lítið blés þó þegar komið var niður á jafnsléttuna svo bakaleiðin var rösk á spjallinu alla leið í bílana.
Alls 7,1 km á 2:00 - 2:06 klst. upp í 568 m hæð með 338 m hækkun miðað við 230 m upphafshæð. Hressandi rokæfing í fallegu landslagi
Hálkubroddar í pöntun fyrir hópinn þessa dagana:
Hóppöntun verður gerð fyrir Toppfara á
mánudaginn:
Verð er á að giska 8.000 kr á mann miðað
við 60 dollara verð + vks + tollar mínus 10%
afsláttur og niðurfelldur flutningskostnaður -
borga Antoni beint - sjá tölvupóst síðar! |
Í
öskumistri
Æfing 151. var þriðjudaginn 7.
september og mættu 36 manns til göngu
kringum
Jósepsdal upp og niður krefjandi brekkur
Gengið var upp í Ólafsskarðið sjálft þar
sem einn af skálum svæðisins er í niðurníðslu
Svala, Kristín Gunda, Vallý, Hjölli, Ágústa og Valdís með Sauðadalahnúka og Blákoll í baksýn en Ágústa var afmælisbarn dagsins þar sem hún varð fimmtug um helgina ásamt Hildi Vals... og nokkrum öðrum Toppförum sem náð hafa þessum aldri á árinu...
Tína, Þóra, Ágústa, Valdís, Irma og Súsanna
Eftir báða Ólafsskarðshnúkana var gengið yfir á
Bláfjallahrygg áður en snúið var niður í
Draumadali.
Brekkurnar "upp í mót" voru þrjár mjög þéttar þetta kvöldið og því hver annarri hollari...
Haustfagnaður Toppfara þann 2. október í umræðunni ásamt öðru... komin tvö lið í tindahópmyndakeppnina ("Perúfarar" og "Siglfirðingar") svo það vantar fimm lið enn því þetta er "sjö tinda ganga"... hátíðin hefst á N1 að morgninum á leiðinni á Hafnarfjall... ;-)
Fimm tinda gangan í Tindfjallajökli næsta
laugardag einnig í umræðunni þar sem veðurspá
ræður endanlega för
Mættir voru: Lilja B., Hugrún, Inga Lilja og Feykir, Ágúst, Þóra, Jóhannes, Elsa Þóris., Áslaug og Día, Hermann og Kolur, Irma, Hulda, Gunnar, Ágústa og Tína, Kári Rúnar, Hjölli og Dimma, Örn, Ásta Bjarney, Gerður, Valdís, Einar, Kristín Gunda, Arnar, Helga Bj., Guðrún Helga, Svala, Anton, Dóra og Drífa, Súsanna, Rósa, Vallý, Jón Júlíus, Steini, Björgvin, Inna, Sigga Sig og Þula.
Þar af var Ásta Bjarney að koma í sína
fyrstu göngu með hópnum ... og hvolpurinn Feykir hennar Ingu Lilju var líka á sinni fyrstu göngu með hópnum og fékk eldskírnina í síðustu brekkunni... en kemur vonandi aftur í göngu með hópnum ;-)
Eftir Draumadali var farið meðfram Bláfjallagili um bratta brekku niður í Jósepsdal og er ljóst að við þurfum að fara oftar niður slíkar brekkur þar sem minna þurfti menn á hve mikilvægt það er að sýna yfirvegun (sérstaklega þeir sem vanari eru í hópnum) þegar farið er um krefjandi brekkur sem nauðsynlegir eru auðvitað til að þjálfa styrk og öryggi hjá öllum fyrir tindferðir af öllum stærðum og gerðum ;-)
Jósepsdalurinn var svo genginn á röskum 2 km
kafla að bílunum og var aðeins farið að skyggja
í lok æfingar sem endaði
Dúndur-brekku-æfing sem minnti á að haustið er
komið |
Hetjurnar sem klifruðu í þjófagjá í þoku
"Einu sinni var fjallgönguklúbbur sem hét
Toppfarar.
"Þegar við komum upp voru gjár og hellar
ofan á fjallinu og við klifruðum upp á stóran stein
Fjallgöngumenn framtíðarinnar:
Efri:
Ísak og Nökkvi 7 ára hans Ágústs, Garðar Örn 11
ára hans Gylfa Þórs og Anna Lilja 10 ára hennar
Lilju Sesselju, Álfheiður 7 ára þeirra Dóru og
Jóns Júlíusar, Íris Mjöll 9 ára þeirra
Jóhannesar og Lilju B., Erika Eik 7 ára þeirra
Antons og Elsu Ingu.
"Það var hægt að fara í feluleik þarna og ratleik og klifurleik og alls konar leiki en við vorum í fjallgöngu með fullorðna fólkinu og förum bara seinna í leiki þarna".
"Þeir sem vildu stukku ofan af klettinum"
"Svo gengum við í gegnum hellana og skoðuðum Þjófagjá".
Anna Lilja hennar Lilju Sesselju vissi allt um
Þjófagjá
"Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, - oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom". Fengið að láni úr frásögn frá "leiðsögumönnum Reykjaness" - www.reykjanesguide.is
"Svo var klifrað upp á tindinn gegnum þrönga gjá þar sem þurfti að fara einn í einu og fullorðnir komu með okkur".
"Þetta var ekkert mál og bara gaman".
Ísak og Nökkvi, Álfheiður, Anna Lilja, Erna... og Toppfarar...
Erika Eik, Íris Mjöll, Karen Lóa og Kristrún... og Drífa og Tímon og nokkrir Toppfarar til viðbótar ;-)
Mættir voru 48 manns:
Efri:
Arnar, Guðrún Helga, Þóra, Lilja B., Lilja
Sesselja, Gerður, Ágústa, Einar, Valdís, Steini
með Edward Freyr, Málfríður og Sæmundur yngri,
Ágúst með Ísak?, Sæmundur með Örnu, Dóra, Jón
Júlíus, Örn, Hermann, John, Leifur og Torfi með
Skugga sér við hlið. Þar af var Þóra að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og John var gestur frá Írlandi.
"Svo borðuðum við loksins nesti í grasinu við
klettana á leiðinni niður
"Það var auðvelt að ganga niður og við enduðum í skógi þar sem við vorum komin aftur í bílana". Alls 4,1 km á 1:59 klst. upp í 241 m hæð með 293 m hækkun miðað við 38 m upphafshæð.
Frábær mæting með brosi á hverju andliti í
ævintýralegri fjölskyldugöngu
Leiðréttingar óskast varðandi nöfn á börnunum,
sérstaklega á tvíburunum tveimur og eins aldri
barnanna |
Dyrafjöll á dýrindis dóli
Alls mættu 53 manns á æfingu þriðjudaginn 24. ágúst og gengu á brattgengna tinda í Dyrafjöllum, Hátind og Jórutind.
Veðrið var dýrðlegt...
Bankalogn og sólin að setjast í vestri svo
skyggni, litir og útsýni var með besta móti og
gyllti litur haustsins réð ríkjum
Mættir voru: Alma, Anna Elín, Anna Sigríður, Arnar, Auður, Ágústa, Ásta H., Ásta S., Ásta þ., Bára, Björgvin, Björn, Dóra, Droplaug, Einar, Eiríkur, Ellen María, Gísli, Guðrún Helga, Gunnar Viðar, Gylfi Þór, Halldór, Halldóra Þ., Helga, Hermann, Hjölli, Hugrún, Hulda, Ingunn, Inga, Irma, Jóhanna, Jón Júlíus, Kristín, Kristín Gunda, Leifur, Lilja K., Lilja Sesselja, Roar, Rósa, Sigga Sig., Snædís, Soffía Rósa, Stefán A., Súsanna Á., Svala, Svavar, Sæmundur, Torfi, Valdís, Vallý, Þorsteinn og Örn.
Þrætt var upp á Hátind um mjóan hrygg svo úr fékkst fínasta príl og uppi gafst mergjað útsýni til Þingvalla, Nesjavalla, Grafningsins og fjalla allan hringinn sem er fágætt af 435 m (425 m) háu (lágu) fjalli en minnir mann enn einu sinni á að hæðin segir ekkert til um gæði fjalla ;-) Þarna uppi var hópmyndin tekin og stefnan tekin á hinn tind kvöldsins sem kenndur er við Jóru...
Brekkan af Hátindi var "ekkert brött" og var freistandi að taka þar neðst notalega nestispásu í steikjandi kvöldsólinni í grasigrónum hlíðunum með glitrandi berin úti um allt... en öftustu mönnum tókst ekki að afvegaleiða fremstu menn sem héldu ótrauðir áfram í þeirri góðu reglusemi að yfirleitt er best að klára mestu átökin á þriðjudagsæfingu áður en maður fær sér nesti... NB Þetta á þó ekki við um lengri dagsverðir eins og tindferðirnar okkar, þar sem góð regla er að fá sér fyrsta nestið (oft eitt af þremur) eftir góða upphitun að fjallsrótum áður en tindurinn er sigraður... ...en þetta var bara saklaus þriðjudagsæfing og freistingarnar alls staðar á svona fallegu kveldi og auðvitað nauðsynlegt að njóta augnabliksins eins og pása í þessari brekku hefði gefið... og öftustu konurnar veltu því fyrir sér hvort hægt væri að lokka Örninn til þess að vera gjöfulli á nestispásur í framtíðinni með því að smyrja "lúxusnesti a la Toppfarakvenna" fyrir hann... í anda nestisins í Snæfellsskála sællar minningar... en Bára fann ekki upp á neinu nógu freistandi nesti handa honum... og við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ósigrandi afl veiðieðlisins í karlmönnunum fremst... þeir vilja klára bráðina (tindinn) áður en þeir setjast niður og borða sem er auðvitað rökrétt hvað sem "fagurfræðilegum og notalegheita vertu-í-núinu-njóttu augnabliksins-staldraðu við-kvennafræðum" leið... og Björn staðfesti þetta skilmerkilega í nestispásunni á Hátindi... "maður verðlaunar sig ekki fyrr en erfiðið er búið"... Jahá... þetta er eilífur línudans milli ólíkra þarfa í fjölbreyttum hópi í þriðjudagsgöngunum þar sem við viljum annars vegar þjálfa okkur og hins vegar njóta tilverunnar... en það vantar ekki í þessum hópi að það er gert gegnum hláturinn sem fær okkur til að brosa að þessu öllu saman og njóta kvöldsins óháð því hvenær maður fær að loksins að borða ;-)
...eða eins og þriðjudagarnir voru orðaðir um
daginn ...
Uppi á Jórutindi í 397 m mældri hæð ... ekki hæsta punkti, þar sem hann er ókleifur efst í bæði suðri og norðri við miðju... heldur í skarðinu sem opnast hefur milli hvössustu tindana... nokkurs konar "mini-dyr" Jórutinds... fengum við okkur nesti og nutum veðurblíðunnar og þjálfari las upp sms-skilaboð frá Áslaugu þar sem hún var stödd í Stórurð á Austurlandi mænandi á "dyrnar okkar í Dyrfjöllum" frá því í byrjun ágúst ;-)
"Hæ, er í Stórurð. Áslaug gekk 16,38 km á 3:54 klst. í Stórurð og fékk sér hreindýrahamborgara á Egilsstöðum...
En landslagið í Dyrafjöllum suðvesturlands var ekki ósvipað Dyrfjöllum norðausturlands þó allt væri það í miklum mun smærri sniðum og skemmtileg tilviljun að ganga á bæði þessi fjöll með nánast sama nafni í sama mánuði....
Niður af Jórutindi var farið sömu leið niður vesturbrekkuna þar sem þjálfarar höfðu ekki fundið góða leið fyrir hópinn niður austan megin í könnunarleiðangri þarna fyrr í ágúst, en það gæti verið freistandi í litlum hópi að þreifa sig þar niður og koma niður í dalinn milli Hátinds og Jórutinds rétt eins og það væri freistandi að finna aðra leið niður af Hátindi einn daginn...
Í bakaleiðinni dró Örn hópinn upp á einn ónefndan klett sem varð á vegi okkar með sama fagra útsýninu um þetta fallega svæði... en hann á ekki nafn í kortum svo við finnum og var nefndur "Arnarþúfa" og "Bárusker" í bríeríi auk annarra ónefndna uppástungna ;-)
"Arnarþúfa" fullkomnaði príl kvöldsins þar sem skiptast þurfti á til að komast upp með roðasleginn himininn í vestri.
Æfingunni lauk eftir 5,7 km göngu á 2:49 - 2:56 klst. upp á 435 m og 397 m háa tinda með 605 m hækkun alls á æfingunni.
Gullin ganga í listaverki náttúrunnar
|
Reykjavíkurmaraþon ! Til hamingju með Reykjavíkurmaraþon elskurnar, þið voruð hetjur dagsins og það var engu líkt að hitta á ykkur öll sem tókuð þátt með alsæluna á svipnum… nefnilega sæluna þegar maður afrekar eitthvað sem maður jafnvel hélt einhvern tíma að maður gæti aldrei en slík tilfinning er fágæt og fæst einnig í fjallamennskunni !
Örninn hljóp heilt maraþon, fjögur fóru hálft; Ásta Snorra,
Hermann, Hjölli og Rósa, en þar af voru Ásta
og Hermann að fara í fyrsta sinn hálfmaraþon og um 20
Toppfarar sem ég veit um fóru 10 km.
Þess skal
getið að í
afrekaskrá Reykjavíkurmaraþons
Helga
Björns
á 13. besta tíma allra kvenna í 10 km frá
upphafi Reykjavíkurmaraþons (1984 – 2009) á
tímanum 39:40. Þá er það er umhugsunarvert að báðir aldursforsetar Toppfara, Björn á eigin vegum og Ketill með ÍR-skokk og Hádegisskokki, hafa stundað hlaup árum saman og á sú ástundun eflaust sinn þátt í afrekum þeirra á fjöllum og hreysti fram eftir öllu! Setti inn tvö myndbönd úr maraþoninu sjálfu á fésbókina og tók myndir af öllum Toppförum sem ég hitti, en náði því miður ekki að hitta á Anton og Martein son hans, Ágúst, Ágústu, Ástu Snorra, Hermann, Snædísi…. og eflaust fleiri sem við vitum ekki til að hlupu þennan dag. Þessar myndir eru á leiðinni inn á fésbókina því það er ómetanlegt að ná myndum af hlaupurum í markinu með þetta einstaka sigurbros á vör…
ATH! Sjá
Afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands
þar sem haldið er utan um þátttöku allra í
götuhlaupum auk frjálsra íþrótta en allir
sem taka þátt í hlaupi eins og RM geta séð
sinn árangur þar samantekinn í lista:
Sjá einnig góðar
reynslusögur af hlaupurum í sínum fyrstu
skrefum… eða erfiðum langhlaupum… undir
“sögur” hægra megin á síðunnu á
www.hlaup.com
og á
www.hlaup.is
Perúfarar og 24 tinda
farar ættu alvarlega að íhuga að stunda
hlaup
meðfram fjallgöngunum til að auka þol og
þrek.
Sjá
vefsíðu Reykjavíkurmaraþons:
http://marathon.is/reykjavikurmaraton
|
La montana Akrafjall 148. æfing var þriðjudaginn 17. ágúst í blíðskaparveðri þar sem gengið var á hæsta tind Akrafjalls, Geirmundartind um óhefðbundna leið eða norðan með fjallinu og um gróna gilið við Pyttana upp á tind.
Mættir voru 49 manns: Anna Elín, Anton Pétur, Arnar, Auður, Ágúst, Ágústa, Áslaug, Ásdís, Ásta H., Bára, Björgvin J., Björn, Dóra, Elsa Inga, Gerður, Gísli, Guðrún Helga, Gylfi Þór, Hafdís, Halldór, Hanna, Heiðrún, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Hulda, Inga Lilja, Inga Þóra, Ingi, Ingunn, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Sig., Jón Júlíus, Kári Rúnar, Kristín Gunda, Leifur, Lilja B., Lilja K., Lilja Sesselja, Reynir, Rósa, Snædís, Steini, Súsanna Á., Sæmundur, Valdís og Örn. Þar af voru Ingunn og Súsanna Á. að ganga í fyrsta sinn með hópnum og nokkrir sjáldséðir og kærkomnir hrafnar mættu auk þess sem gamlir félagar létu sjá sig aftur eftir hlé ;-) Þá voru skvísurnar Dimma, Día, Drífa og Þula á ferðinni ásamt kol.
Freistandi gilið í norðurhlíðum Akrafjalls var vel fært í mosagróinni brekkunni sem líklegast var í 50 - 55 % halla og þjálfaði vel vöðvastyrk, þol og öryggistilfinningu í mönnum þar sem kálfarnir og fleiri vöðvar loguðu... en þetta gekk smurt fyrir sig og allir komust upp með góðu móti. Með gárungshætti hópsins var því fleygt fram að kvennamet væri slegið í gilinu þar sem eingöngu væri "vitað um tvær nafngreindar konur sem farið hafa um þarna fyrrum"... (Heiðrún Hannesdóttir og Lilja Kristófersdóttir í fylgd Inga) og var ljóst að gáskafull víma Dyrfjalla var hvergi runnin af austfjarðaförum enda var haustfagnaðurinn í umræðunni og komin hugmynd að "liði Siglfirðinga" á einum tindi Hafnarfjalls þann 2. október ;-)
Þegar upp úr "Ingagili" var komið var lítið eftir á tindinn en þeim mun meira að sjá allt um kring... m. a. Skarðsheiðina í allri sinni dýrð með Heiðarhorn og Skarðshyrnu skýlausar og Reyni og Ásdísi að taka síðasta spölinn á Geirmund.
Í 643 m hæð á Geirmundartindi var heldur napurt í kaldri golunni andstætt brakandi sólarsvækjunni þegar gengið var meðfram fjallinu í byrjun æfingarinnar í nálægt 20°C hita, svo nestispásan var röskleg og haldið aftur af stað niður með stórkostlegt útsýni Akrafjalls allan hringinn. Hér á mynd sést suður til Reykjavíkur með suðurfjallið nær, Háahnúk hægra megin á mynd og Smáþúfur Esjunnar vinstra megin í fjarska.
Norðurbrúnirnar niður að bílunum eru óborganleg
gönguleið í sólarlagi eins og þetta kvöld og
sviku ekki
Við
Guðfínnuþúfu
var farið um
"Guðjónsgötu"...
tæpigötuna sem Guðjón Pétur bauð okkur fyrst upp á í
nýársgöngunni 2009
Hún gekk jafn greiðlega fyrir sig og uppgangan
og þar með var hraðspólað niður og skilað sér að
bílunum
Sólin settist
í lok æfingarinnar beint ofan á
Snæfellsjökul
og minnti okkur á að daginn er aldeilis farið að
stytta og
veturinn
skammt undan... en þá hefst einmitt
stærsta ævintýrið
sem gefst á fjöllum.. |
Álögin á Vífilsfelli
Alls mættu 36 manns á æfingu þriðjudaginn 10. ágúst og gengu óhefðbundna leið á Vífilsfell vestan megin, en þá voru eingöngu tveir og hálfur sólarhringur síðan 25 félagar höfðu gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla og víman var ekki runnin af þeim fjölmörgu sem mættu úr þeirri ferð glæstra Dyrfjalla og hárra Snæfjalla...
Gengið var upp Vífilsfellshlíð vestan megin og um skriðurnar að klettaborginni við tindinn, en þessi leið er lengri og erfiðari en mun fjölbreyttari en sú hefðbundna norðaustan megin, þar sem farið er um klettavirkið allt sem fjallið býr yfir suðvestan megin.
Veðrið var hið blíðasta í bænum og við fjallsrætur svo þjálfarar fögnuðu því að við myndum loksins fá útsýni af tindinum þar sem allar þrjár göngur hópsins til þessa hafa verið í rigningu og þoku... og það aldeilis blindaþoku á stundum... en allt kom fyrir ekki, nokkrum mínútum áður en við gengum á hæsta tind dró þoku fyrir og kunnuglegt klettavirki Vífilsfells var enn einu sinni umlukið hvítu slæðunni sem byrgir alla sýn og gaf nestispásunni napurt yfirbragð í svalri þokunni.
Þessi þróun mála olli því einnig að Rikki Toppfari sem nú stundar æfingar í svifflugi frá Sandskeiði við fjallsrætur Vífilsfells náði ekki góðu útsýnisflugi og myndatöku af hópnum á tindinum sem var ætlunin (svona til að bæta upp að ekki náðist flugmynd á Dyrfjöllum síðustu helgi eins og þá var ætlunin) en í staðinn flugu hann og félagar hans bara yfir okkur á upp- og niðurleiðinni og það stundum svo nálægt að manni fannst vélin í seilingarfjarlægð.
Jóhannes og Lilja B. mættu okkur við tindinn þar sem þau höfðu misst af byrjun æfingarinnar og ákveðið að fara hefðbundna leið upp og freista þess að hitta á okkur... og það er ekki annað hægt en merkja við þau "í kladdann" þar sem þetta hefur löngum verið aðdáunarverður siður þeirra hjóna... að hætta ekki við fjallgöngu ef þau missa af æfingu heldur koma á eftir hópnum, fara styttra til að ná okkur eða fara daginn eftir og er ástundun sem þessi til fyrimyndar ;-)
Mættir voru: Alexander, Alma, Anna Elín, Anna Sigríður, Arnar, Auður, Ásdís, Áslaug, Bára, Eiríkur, Gerður, Gísli, Guðrún Helga, Gylfi Þór, Hafdís, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Hulda, Irma, Hanna, Jóhannes , Kristín Gunda, Leifur, Lilja B., Lilja K., Lilja Sesselja, Reynir, Rósa, Sigga Rósa, Sirrý, Snædís, Stefán A., Svavar, Sæmundur og Örn. Þar af var Svavar að mæta á sína fyrstu æfingu og Día var og með í för en Jóhannes og Lilja náðust ekki á mynd. Ofar á mynd eru meðlimir Sporthússins að ganga á tindinn en þau þurftu að bíða meðan okkar strolla kom sér niður klettana og skildu ekkert í þessum ótrúlega fjölda göngumanna ;-) Að öllum líkindum er Vífilsfellið fjórða algengasta fjallgangan kringum höfuðborgina á eftir Esjunni, Helgafelli Hafnarfjarðar og Úlfarsfelli svona ef maður giskar á þetta óvísindalega út frá minni af öðru fólki á ferð á fjöllum á sama tíma og maður sjálfur gegnum tíðina, en Keilir, Móskarðahnúkar og Hengillinn koma þarna líka til greina ásamt eflaust fleiri fjöllum sem ég man ekki eftir í augnablikinu... kannski Akrafjall sé þarna ofarlega á lista líka...?
Í bakaleiðinni var farið sömu leið um klettana en ekki um gilið heldur niður með hryggnum á góðu færi um lausar hraunskriðurnar sem gaf mjúka og greiðfæra niðurgöngu og blasti höfuðborgin við í vestri í kvöldsólinni sem þó vildi ekkert með okkur hafa sem þvældust uppi á fjöllum... fjallgöngumönnum sem kalla bara yfir sig og þoku og kulda í einskærri sjálfspyntingarhvöt þegar hægt hefði verið að chilla í bænum og grilla eða hvað?... nei, nei, náttúrulega ástríðufullir fjallgöngumenn sem ganga á fjöll allt árið um kring og láta ekkert afvegaleiða sig sem gerir þá færa í flestan sjó þegar á reynir...
Þegar niður á láglendið var komið voru rúmir 2 km að bílunum og þjálfarar hvöttu menn til að gefa í síðasta kaflann til að ná sér í góða þolæfingu í lokin enda er haustið "þjálfunarhluti ársins" hjá klúbbnum og besti tíminn til að ná hröðum göngum við bestu gönguaðstæður áður en myrkrið og hálkan tekur við með vetrinum...
Á þessum kafla náðist loksins mynd af Rikka á flugi ofan við bæði okkur og Vífilsfellið með hana Siggu Rósu sína í forgrunni en þau áttu veg og vanda að tónlistinni sem lék stórt hlutverk í ferðinni austur síðustu helgi og gefur minningunni þennan ljúfa tón sem hljómar í huganum þegar maður rifjar upp ferðina...
Bjartar nætur, langir sumardagar ...
... og fleiri vers... sem má endilega fjölga með
texta um Dyrfjöll og Snæfell t. d.... Göngunni lauk eftir 7,7 km á 3:14 - 3:21 klst. göngu upp í 660 m mælda hæð (655 m) með 463 m hækkun miðað við 197 m upphafshæð og var það meiri hækkun en þjálfarar höfðu lagt upp með af tómum misreikningi... eða ómeðvituðum ásetningi um að fá sem flesta til að mæta á æfingu ;-) Hörkuæfing ...ekki síst fyrir þá sem gengu um helgina þar sem líkaminn kemst í dúndurgönguform þegar gengið er svona þétt á fjöll en menn voru minntir á það í byrjun æfingar að regluleg ástundun er heillavænlegust til að vera í góðu formi og erfitt að komast í þægilegt fjallgönguform ef menn eru sífellt að detta út í lengri tíma, því þá er þetta eilífur barningur og engin uppskera... uppskera sem við upplifðum svo sterkt um helgina með því að þora... gefa ekkert eftir... og ganga af stað...
( Nnnooohhh... það er
ekkert annað... þjálfarinn er kominn í gírinn...
;-) ) |
Upphitun á Þyrli
Alls mættu 30 manns á fyrstu æfingu eftir sumarhlé þjálfara þriðjudaginn 3. ágúst. Veðrið var milt og hlýtt eða NV1 og 10°C en dumbungur yfir og þokuslæðingur læddist um fjöll og firði...
Gengið var um fyrsta hluta Síldarmannagatna og beygt við vörðuna uppi á heiði inn á vesturbrún Þyrils þar sem ágætis útsýni gafst niður á hrikalegar norðurbrúnir hans að Hvalfjarðarbotni sem forvitnilegt væri að þefa uppi niðurleið einn daginn...
Uppi á Þyrli lyftist þokan af þessu lága en
svipmikla fjalli sem var umlukið skýjum
Mættir voru:
Efri frá vinstri:
Alma, Steini, Björn, Leifur, Hjölli, Gísli,
Rósa, Björgvin, Hafdís, Anna Sigríður,
Torfi, Arnar, Skúli, Steinunn, Lilja B.,
Peta, Jóhannes, Ingi, Alexander, Örn og
Þórhallur.
Þar af voru Arnar, Hulda og Þórhallur að
mæta í sína fyrstu göngu með hópnum en
Hugur manna var annars á austurlandi þetta
kvöldið en ekki á Þyrli og æfingin bar þess
merki en þangað stefnir nú hópurinn í 4ra
daga ferð á
Snæfell og Dyrfjöll
með Austanmönnunum þeim Skúla og Óskari -
http://wildboys.123.is
þar sem gott veður er í kortunum og endaði
þessi æfing eftir
7,9 km
á
2:46 klst.
upp í
394 m
hæð með
364 m
hækkun miðað við
Afslöppuð ganga í tómu kæruleysi til að koma mönnum í gírinn eftir hlé en framundan eru tveir mánuðir af síðari hluta sumartímabilsins þar sem sól tekur nú ört að halla með styttri þriðjudagsgöngum eftir því sem rökkrið tekur við og því tilvalið fyrir nýrri meðlimi klúbbsins að koma sér í gott form fyrir veturinn á þessu tímabili ;-) |
Laugavegurinn og 24 tindar 2010. Ásta Henriks, Eiríkur, Hjölli og Rósa.
Sjá nánar síðar. |
Vantar klúbbmeðlimagöngur í sumarfríi þjálfara í júlí !
Sættir náðust við skessuna á Horni...
Skessuhorn loksins sigrað í þoku og rigningu...
Alls tóku 31 manns þátt í fyrstu miðnæturgöngu hópsins á Skessuhorn á Skarðsheiði þriðjudaginn 5. júlí. Lagt var af stað í skýjuðu veðri, 17°C hita og blankalogni en fljótlega var gengið inn i þokuna og klöngrast upp á tind og niður aftur í blindaþoku og votri rigningu á köflum. Þar sem lognið hélst allan tímann, það var hlýtt og göngufæri gott var ekki hægt að snúa við þó ætlunin hafi nú verið að ganga þetta ekki nema við bestu skilyrði og fá útsýni og helst góða sýn á gönguleiðina... en... stemmningin var frábær, hópurinn sterkur og löngunin til að klára þennan tind öllu yfirsterkara svo við linntum ekki látunum fyrr en tindurinn var allur kominn í safnið... og ókum heim köld og rennandi blaut... en alsæl á sálinni við heimkomu rúmlega hálf þrjú um nóttina... sælu sem hélt manni vakandi daginn eftir í vinnunni eftir ca 3 klst. svefn ;-)
Veðurspá kvöldsins var lygn, hlý og skýjuð en vindar í kortunum á þriðjudegi og miðvikudegi svo mánudagurinn var málið... þetta lofaði góðu yfir daginn þegar litið var til fjalla og þegar við lögðum af stað... hefði getað haldist og jafnvel skánað yfir í háskýjað veður um miðnætti og vonin sú var enn til staðar þegar við horfðum á Skessuhornstindinn nánast skýlausan úr Borgarfirði á akstursleiðinni... en því miður þykknaði bara meira og meira upp er leið á kvöldið með bleytu og þoku til gönguloka... þessum hópi á greinilega ekki að takast að upplifa Skessuhornið í sínu fínasta pússi fyrr en í þriðju göngunni...
Gönguleiðin til að byrja með var blómleg og sumarleg um mýri, gras og mosa... en yfirvofandi voru stór og þung ský sem vissu ekkert hvert þau áttu að fara í blankalogninu og láku á endanum niður á okkur síðar um kvöldið... Björn og Hafdís Ragna með Skorradalsvatn í baksýn, en Hafdís sneri við eftir fyrsta kaflann og kemur örugglega með þegar við leggjum aftur á þetta fjall á laugardegi einn daginn með nægan tíma í góðu veðri, tæru skyggni og sól á himni ;-)
Við kófsvitnðuðum í hitanum til að byrja með... svona til að bleyta örugglega allt að innan áður en rigningin tók við uppi og bleytti allt að utan... Lilja K., Súsanna, Anna Elín, Ágústa, Hermann, Svala, Eiríkur, Örn, Fríða, Ágúst, Anton Pétur, Hrafnkell, María E., Steini, Elsa Inga, Auður og Rikki.
Þarna er komin skýringin á því hvernig við fjölguðum okkur úr 27 manns í 31... tvær skessur af fjórum sem bættust í hópinn á göngunni náðust hér á mynd eftir miklar vangaveltur um frjósemi hópsins ;-)
Gönguleiðin við fjallsrætur Skessuhorns er
hæðótt og fjölbreytt og grýttari eftir því sem
nær dregur fjallinu
Þjálfarar völdu viljandi að fara lengri krók neðar við fjallið til að sneiða framhjá grýtinu og hliðarhallanum í þeim tilgangi að komast létt og hratt áfram frekar en að vera að klöngrast ofar og taka áhættu á að menn misstigu sig eða þreyttust að óþörfu á krefjandi kvöldgöngu. Þetta þýddi 2 km lengri göngu en hægt er að komast upp með á Skessuhorn þessa leiðina og ekki spurning að fara næst ofar til að skoða landslagið þar á laugardegi með nægan tíma og svigrúm.
Eina útsýnið sem við fengum af fjallshlíðum Skarðsheiðarinnar var smá innsýn í suðvesturhvilftina neðan við Kambshorn (svokallað af okkur og fleirum) þar sem Skessuhorn liggur að meginlandi heiðarinnar (Skarðskambur er svo hornið vestar í átt að Heiðarhorni). Þar lágu skaflar efst sem eru sífrerir og ekki stórir nú miðað við vanalega þar sem veturinn var eindæma snjóléttur og okkar gönguleið með öllu snjólaus.
Brátt læstist þokan um okkur líka eftir að hafa hulið fyrir okkur allt útsýni og við áttum engrar undankomu auðið.
Við hækkuðum okkar rólega eftir því sem innar dró dalnum að uppgönguleiðinni og grýtið tók strax við af grasi og mosa...grjótið sem einu sinni fékk að vera hluti af Skessuhorni en fallið niður af klettunum í tímans rás og er erfiðara yfirferðar að sumri til en að vetri þar sem snjórinn mildar þá leiðina með sköflum.
Í 600 m hæð fórum við að hækka okkur beint upp hlíðina og var leiðin greiðfær til að byrja með.
Kettahjallarnir
ofar flæktu svo uppgönguna eftir því sem
brattinn jókst ofar
María E. hér sú eina sem snýr að myndatökumanni,
en hún ásamt Gunnari manni sínum eru ein af þeim
sem
Í tæplega 850 m hæð vorum við komin á svipaðar slóðir og slysið örlagaríka varð þann 28. mars 2009 og rifuðum við upp þennan dag nokkrum sinnum á leiðinni en það var synd hve fáir úr þeirri ferð voru með í för, eingöngu við Örn og Sigga Rósa, en veðrið lék þar sitt hlutverk.. við förum einn daginn þarna upp í skínandi veðri og útsýni og fáum þá betri yfirsýn yfir þessar slóðir. Þarna fór að rigna og flestir fóru í allavega regnjakkann... en svo stytti strax upp aftur eins og við manninn mælt að myndi gerast þegar allir væru komnir í !!! ...en rigningin var komin til að vera af og til þar með þar til yfir lauk göngunni.
Við horfðum á klettarimann ofar og þar sem við vissum hve brattur hann er og grófur yfirferðar ákváðum við að klöngrast ekki um hann áleiðis á tindinn við þessar aðstæður, heldur þræða okkur neðan við hann og freista þess að finna góða uppgönguleið á tindinn sjálfan norðar.
Skyggni var ekkert og engin leið að fá yfirsýn um svæðið en þetta reyndist rétt ákvörðun þar sem við náðum að halda vel áfram inn eftir hryggnum með smá hækkun smám saman á leiðinni þar til við vorum komin fram á brúnirnar í norðri.
Þar var fínasta uppgönguleið í mosagrónum klettahjöllum sem ekki voru svo brattir og skyndilega vorum við komin á sléttan tindinn með vörðunni við brúnina... þennan sakleysislega tind sem á það víst til að valda vonbrigðum í samhengi við snarbrattann á uppgönguleiðinni og hengiflugið sem einkennir hann úr öllum áttum í vestri, norðri og austri... Þetta var virkilega sætur sigur... okkur tókst þetta klakklaust og slysalaust og tindagleðin ríkti um stund þrátt fyrir rigningu og þoku í engu útsýni nema niður í tómið með brúnunum...
Skessuvinir... Efri: Harpa, Hermann, Hrafnkell., Lilja K., Nonni (Jón Júlíus), Björgvin J., Sigga Rósa, Örn, Hanna, Eiríkur, Auður, Arnbjörg, Kristín Gunda, Sif, María E., Leifur, Rikki og Ágúst. Neðri: Fríða, Ágústa, Steini, Anna Elín, Dóra, Björn, Súsanna, Svala, Gunnar, Elsa Inga og Anton Pétur og Bára tók mynd. Drífa og Tímon máttu sko líka vera ánægð með sig eftir þennan sigur. Þar af voru Arnbjörg og Steini að fara í sína fyrstu göngu með hópnum og voru bæði í fínu formi fyrir hana ;-)
Eftir stutt stopp og nesti á tindinum beið okkar niðurgangan í blindaþoku og rennbleytu... beygur var í okkur eftir krefjandi og flókna uppgönguleið og þjálfari las mönnum pistilinn um að halda hópinn, hlýða fararstjóra, fara varlega, hjálpast að, sýna yfirvegun og vera jákvæð... og ekki gleyma því að njóta... ;-) ...gleymdi ég nokkuð að segja það ?
Og menn hlýddu undantekningarlaust... niðurgangan gekk eins og í sögu og við vorum allt í einu komin aftur niður í 600 m hæð þar sem við gátum þeyst niður á graslendið... kaflinn sem mann grunaði að yrði erfiðastur þetta kvöld reyndist auðveldastur...
Kaflinn sem mest á reyndi var hins vegar síðustu kílómetrarnir í bílana um miðja nótt.. svo ótrúleg langt í bleytu og þoku... og þarna reyndi mest á formið og endingu við krefjandi kvöldgöngu sem lagt hafði verið skýlaust upp með að yrði þetta kvöld... flestir orðnir rennandi blautir en enginn nennti að stoppa og klæða sig sem ekki var þegar kominn í regngallann... og sumir voru enn í stuttbuxunum til endaloka sem sagði mest um hitastigið þetta kvöld... 17°C í byrjun göngunnar og 10°C þegar við keyrðum í bæinn að ganga tvö um nóttina...
En brosið hvarf aldrei... ...ekki einu sinni þegar þjálfari var orðinn svefndrukkinn og tók lélegar myndir... ha?, já, jú, eða út af lélegum myndaskilyrðum í miðri næturþoku... Þetta var of lygilegt til að festast almennilega á mynd... Ekki heldur hvarf brosið hjá flestum ;-) þegar hóparnir urðu viðskila á mýrarlendunum síðustu "viljugu tvo kílómetrana" að bílunum, sem endaði með því að þeir síðustu urðu fyrstir með tilheyrandi bið fremstu manna sem sýndu sama æðruleysið og þolinmæðina og alltaf í göngunum gagnvart þeim sem dragast aftur úr ;-) ... og var ógleymanlegt að skila sér loksins inn að bílunum með þakklætið á andlitum þeirra sem áttu innistæðu fyrir þessari göngu og gátu þrátt fyrir þreytu og bleytu glaðst innilega yfir þessum sæta sigri sem fáir hafa náð við þessi skilyrði... að sigra Skessuhorn klakklaust... í miðnæturgöngu... í stórum hópi... í rigningu... og blindaþoku... með engu skyggni... og fararstjórum sem aldrei höfðu áður stigið á sjálfan tindinn...
Alls 14,2 km á 7:13 klst. upp í 970 m hæð með 885 m hækkun.
Sjá samanburð á gönguslóðum:
Gula: Okkar ganga þetta kvöld 5. júlí 2010 -
farið neðan við Katlana í minna grýti og minni
hliðarhalla en 2 km lengri leið en þarf í raun. Takið eftir hve við förum neðarlega þetta kvöld miðað við aðrar slóðir þar sem þjálfarar voru að sniðganga grýtt landslag við fjallsrætur í hliðarhjalla sem við reiknuðum út að væri óhagstætt í þetta sinn þar sem tíminn var ekki með okkur í kvöldgöngu og mikilvægt að menn erfiðuðu ekki að óþörfu hvora leið og slösuðust í "þreyttri og óþreyjufullri nætur-bakaleiðinni". Ekki spurning að fara samt næst "bláu leiðina" og sjá muninn og hafa þá nógan tíma, svigrúm og þolinmæði fyrir grýtta leið. Sjá einnig á rauðu slóðinni hve stutt var eftir á tindinn slysadaginn í fyrra, bara gangan inn að tindinum sjálfum á hryggnum. Sjá að bláa slóðin nær frá hliðinu en svarta og gula frá eyðibýlinu Horni sem munar nokkur hundruð metrum og sparaði tíma og fyrirhöfn þar sem um kvöldgöngu var að ræða.
Hér sést betur hversu langt við Örn fórum ein 14. mars 2009 upp í 780 m og svo hópurinn þann 28. mars 2009 í 924 m í samanburði við alla leið þetta kvöld í 970 m og hefðbundna leið með svarta trackinu af www.wikiloc.com. Sjá hvernig við þræðum okkur neðan við svörtu gönguleiðina sem líklega er hefðbundin upp á sléttuna á tindinn. Það verður gaman að sjá þá leið næst í góðu skyggni þar sem við getum séð hvort er betra og um leið hvort gönguleiðin okkar þetta kvöld sé erfið lofthræðslulega séð því við vorum sannarlega að ganga í brattri hlíð þarna fram á brúnirnar í norðri. Við verðum að fara þarna aftur ... Það er ástæða til að óska mönnum til hamingju með þetta afrek. Mjög sérstök og eftirminnilega ganga sem fer í afreksflokkinn í klúbbnum ásamt gosgöngunni á Fimmvörðuhálsi 1. apríl síðastliðinn enda var þetta lengsta vegalengd sem við höfum nokkurn tíma gengið á þriðjudagskvöldi og það upp í tæplega þúsund metra hæð og slær út fræga kvöldgöngu á Syðstu Súlu þann 12. ágúst 2008 með afreksfólki þess tíma en sú ganga var 14,1 km á 4:40 klst. upp í 1.100 m hæð í frábærum veðurskilyrðum og mögnuðu útsýni. Hér með verður þetta árlegt, að fara krefjandi miðnæturgöngu í júlí með sterkasta hluta klúbbsins sem nýtur þess að fara dagsgöngu að kveldi til án þess að erfiða og bara njóta fyrsta skrefs til hins síðasta ;-)
Þjálfarar þakka fyrir sig að sinni, fara í 3ja
vikna frí og hlakka til að sjá hópinn aftur á
laufléttri göngu á
Þyrli þriðjudaginn |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|