Tindferð nr 70
Búrfell í Þingvallasveit sunnudaginn 5. febrúar 2012

Blíða, bros og birta
á Búrfelli í blankalogni og sól
Bje-fimm í tilefni ársins ;-)


Við upphafsgöngustað Leggjabrjóts við Svartagil með Skefilfjöll, Tröllatinda, Hrafnabjörg og Kálfstinda í baksýn.

Sunnudaginn 5. febrúar uppskárum við loksins gullinn dag á fjöllum þegar gengið var á Búrfell í Þingvallasveit
í blankalogni alla leið upp á tind undir vetrarsól við frostmark í brakandi góðu færi...

Slæm veður geysuðu meira og minna í janúar-mánuði og ollu því að gangan sem átti að vera síðustu helgina í janúar var frestað um viku og svo kom fyrsta helgin í febrúar og þá var spáð rigningu og vindi á laugardeginum svo við ákváðum á fimmtudeginum að færa gönguna yfir á sunnudag þar sem spáin var mun skaplegri þá. Veðurspáin skánaði svo snöggtum fyrir laugardaginn þegar nær dró honum svo úr varð blautt en mun lygnara veður þann dag en áhorfðist tveimur dögum fyrr... en um leið skánaði veðurspáin fyrir sunnudaginn líka svo við ákváðum að vera bara ánægð með að missa af ágætis göngudegi á laugardeginum því þegar sunnudagurinn rann upp heiðskír og fagur var ljóst að það var þess virði að hafa beðið...

Óljóst var með bílfæri inn eftir Uxahryggjum og Svartagili en við ætluðum til vara að ganga frá Brúsastöðum. Þegar á hólminn var komið var einn grjótharður snjóskafl eina hindrun okkar á Uxahryggjaleiðinni... en hann var laminn niður af brjáluðum göngumönnum með ísaxir... og bílum ekið afleggjarann að Svartagili þar sem við komumst upp með að leggja tæpum kílómetra frá hefðbundnum upphafsgöngustað á Leggjarbrjót, Botnssúlur eða Búrfell.


Botnssúlur í baksýn - Syðsta súla vinstra megin, Miðsúla hægra megin og Súlnaberg (Austursúla) lengst til hægri.

Eftir slagveður dögum saman mátti búast við krapa og blautum snjósköflum en með frostinu nóttina fyrir göngu og kuldanum þennan dag var allt glerhart og fljúgandi hált... hvergi bleytu að sjá nema í allra hörðustu lækjunum... þetta gat ekki verið betra færi þar sem allir voru vopnaðir hinum mjög svo hentuðu Kahtoola microspikes og á þeim skoppuðum við yfir frosnar snjóbrýr sem fljótlega urðu á vegi okkar og voru líkt og sniðnar fyrir okkur...

Sólin að koma upp um tíuleytið...
Þetta var töfrandi fagur dagur og við máttum vart mæla í kyrrðinni og friðsældinni sem fylgdi þessum sunnudagsmorgni...

Svell og grjótharðir snjóskaflar síðustu metrana að hefðbundnum uppgöngustað þar sem áin er farin að éta sig ansi langt inn á veginn síðustu ár...
...með toppinn á Búrfelli framundan í fjarska...


Ármannsfell í baksýn.

Meira að segja yfir ánna við hefðbundna uppgöngustaðinn... þar sem við höfum alltaf skoppað yfir steina eða vaðið ánna...
var sérhönnuð snjóbrú...

Sjá nákvæmlega sama stað og snjóbrúin liggur hér yfir.
Lækurinn sem við stiklum vanalega yfir að sumarlagi - mynd tekin á miðnæturgöngunni þriðjudaginn 5. júlí 2011;-)
http://www.fjallgongur.is/aefingar/16_aefingar_april_juli_2011.htm


Heiðrún, Björn E., Ásta Guðrún, Halldóra Á., Björn Matt og Ísleifur með Ármannsfellið í baksýn.

Lognið var áþreifanlegt og orðræður göngumanna glumdu um fjallasal Þingvalla í kyrrðinni...

Gengið var um vegaslóðann á Leggjarbrjót til að byrja með
og Botnssúlurnar risu upp af heiðinni eins sem sannar
drottningar Þingvalla...

Búrfellið hins vegar hógvært í vestri og gljúfrið góða í brekkunni þarna í klakaböndum...

Tandurhreint og snjóhvítt var Búrfellið...

Dagrenningin...

Það er eitthvað einstakt við að ganga af stað fyrir sólarupprás... fá ljósaskiptin beint í æð... og finna hvernig fyrstu geisla sólarinnar ljóma upp landslagið allt um kring... töfrar sem hvergi nást á mynd heldur eingöngu með því að upplifa það... eins og svo oft áður... á staðnum...

Maður er ekki samur á eftir...

...og smekkur manns breytist á þann veg að vilja helst alltaf vera lagður af stað í óbyggðirnar í rökkri
og upplifa hvert einasta áþreifanlega augnablik dagrenningarinnar beint í æð...

Enda eru litirnir á þessum töfrandi augnablikum varla af þessum heimi...

Fyrstu geislarnir falla á fönnina...

... og Halldóru Ásgeirs Perúfara sem var eina af þeim fáu sem gengu í gegnum fyrsta vetur Toppfara 2007 þegar enginn hafði trú á að það væri yfirleitt eitthvað vit í að halda úti fjallgönguæfingum að kveldi til í myrkri... en þökk sé þeim fáu sem héldu það út þá lifir klúbburinn enn...

Fullkomið augnablik...

Á göngu með góðum félögum í fallegu landslagi í óbyggðum með sólina á lofti...

Smám saman breyttist roðasleginn morguninn í snjóhvítt hádegið
og fjöll Þingvallasveitar risu úr rökkrinu...

Gengið var meðfram Öxará þar sem klakabundin gljúfur hennar skreyttu landslagið
og fararstjóri skimaði frá börmunum eftir góðum stað til að fara yfir...

Gestgjafi dagsins fagur á að líta og snjóhvítur af sakleysi...

Björn, Halldóra, Heiðrún og Súsanna...
Toppfarar með sanna ástríðu fyrir fjöllum sama hvernig á móti blæs...

Þegar komið var að grynningunum þar sem við höfum áður farið yfir um beið okkar ísbrú úr uppsöfnuðu klakahröngli
sem virtist hafa sópast af stað í leysingum en stöðvast á grynningunum...

Þetta var ný upplifun... við höfðum aldrei gengið yfir aðra eins snjóbrú...

Sjá frosnu dropana okkar þrjá sem leka niður skaflinn neðst á mynd og fangaði athygli okkar...

Þessi göngudagur var vel til marks um gagnsemi Kahtoola microspikes hálkubroddanna... við hefðum einfaldlega ekki komist upp með að ganga um þetta svæði án þeirra nema vera öll á jöklabroddum en þá hefðum við verið mun færri á för þennan dag því þá eiga ekki allir þar sem þeir eru dýr fjárfesting en um leið nauðsynleg á endanum ef menn ætla sér að stunda vetrarfjallamennsku á annað borð árum saman...

Jöklabroddarnir hafa þann ókost að vera heldur óþjálli í notkun, þyngri á færi og fljótir að þreyta menn kringum ökklann auk þess að vera gjarnari á að valda nuddsárum og blöðrum við göngu klukkustundum saman... þó um leið sé mikilvægt að æfa notkun þeirra reglulega og gott að venjast þeim á göngu klukkustundum saman áður en farið er í stórar jöklagöngur í maí... enda nauðsynlegir þegar gengið er í bratta og löngum hálum brekkum þar sem ísexi skal ávalt vera með í för til að hægt sé að stöðva sig ef maður rennur af stað - og þá með ísexina í hönd en ekki á bakpokanum NB... en slíkar aðstæður voru ekki fyrir hendi þennan dag... microspikes voru sannarlega hentugur búnaður dagsins...

Sjá góðar pælingar á fésbók Toppfara um daginn um eiginleika jöklabroddana - muninn á áli sem gefur meira eftir en stál og umdeilda gagnsemi platnanna undir sem eiga að hrinda frá snjósöfnun undir broddana en því eru ekki allir sammála.

Öxará neðst fyrir miðri mynd að renna þrjósk gegnum og undir klakahrönglið...
með göngumenn efst á mynd á för sinnium lendur Búrfells í fullkomnu andvaraleysi...

Ljósmyndarar Toppfara máttu vart ganga yfir brúnna...
Þetta var óþrjótandi
ævintýraland fyrir þá...

Eftir Öxará tók glæstur pilsfaldur Búrfells við...

...fannhvítur, stílhreinn og stökkur eins og fínasta silki... sem gaf mjúklega eftir þegar gengið var um hann...

Jóhanna Fríða, Heiðrún, Sæmundur, Hanna og Ingi... er hægt að hugsa sér betra fólk á fjöllum...?

Ármannsfellið í baksýn og Skefilfjöll ásamt félögunum í hinum tindaröðunum milli Kálfstinda og Skriðu...

Ágústa, Ósk, Irma og Sæmundur með tignarlega Syðstu súluna á hægri hönd
sem við ætlum að ganga á ásamt systrum hennar í
ofurgöngu síðasta laugardag í júní...


Þingvallavatn í fjarska með Tindfjallajökul og Eyjafjalajökul, Arnarfell, Miðfell og Búrfell og svo Ingólfsfjall hægra megin.

Skyggnið kristaltært og útsýnið eftir því allan hringinn ofan af tindinum:
 
...til þremenninganna í austri;
Heklu, Tindfjallajökuls og Eyjafjallajökuls en nær Hrafnabjörg með Tröllatindum sínum, Kálfstindar með Flosatindi og hinar tindaraðir Hrútafjalla, Skefilsfjalla, Klukkutinda, Skriðutinda og Tindaskaga...
...til suðurs alla leið að
Vestmannaeyjum fjær og Þingvallavatni nær ásamt fjöllunum á milli eins og Búrfelli í Grímsnesi, Miðfelli og Arnarfelli við Þingvallavatn, Ingólfsfjalli og Hrómundartindi, Lakahnúk og Tjarnarhnúk við Reykjadal að ógleymdum Henglinum með Vörðuskeggja og Dyrafjöllum og loks fjöllunum á Bláfjallasvæðinu og Reykjanesi í suðsuðvestri...
...til vesturs að
Skálafelli, Móskarðahnúkum og Esjunni og nær yfir Kjölinn norðan Mosfellsheiðar að ótöldum Hvalfirðinum með Blákoll, Hafnarfjall, Skarðsheiði, Þyril og Brekkukamb að ekki sé talað um Snæfellsjökul sem reisti tinda sína í fjarska...
...og loks til norðurs að
Baulu snjóhvítri, Hvalfelli ótrúlega stóru svona nálægt og Botnssúlurnar yfirgnæfandi í seilingarfjarlægð...
 ...og loks til í norðausturs að
Ármannsfelli og bak við það að Langjökulshálendinu með Stóra Björnsfell að hluta, Skjaldbreiður, Hlöðufell og Skriðu þar sem Skriðutindarnir runnu saman við hinar tindaraðirnar sem fyrst voru nefndar... og við eigum eftir að rekja okkur um alla að frátöldum Kálfstindum...

Þennan dag nutum við blíðunnar í botn...
Nægur tími og ekki einu sinni andvari af golu sem kom mönnum aftur af stað eftir að hafa farið yfir fjallasýnina...

Útsýnið til Þingvallavatns með hefðbundnari gönguleið á Búrfell frá Brúsastöðum hægra megin á mynd.
Frekar vot leið að sumri til og fara þarf um hjalla, gil og gljúfur en án efa verðum við að prófa hana einn daginn...

Jóhanna Fríða og Halldóra Ásgeirs með Heklu að rísa í fjarska handan Kálfstinda...

 

Einföld uppgönguleið og heldur austar en síðast þar sem gott göngufæri gerði okkur kleift að
eltast við
hryggjarrjáfrið á suðausturhorni fjallsins til að vera viss um að vera hvergi nálægt snjóflóðabrekkum
þó sú hætti væri óverulega fyrir hendi þarna...

Ferskleiki vetrarferðanna í hnotskurn... tært skyggni, ferskur snjór og lágstemmd vetrarsólin...

Snjóskaflar á örfáum köflum á annars harðfenntri gönguleið mestan part dagsins...

Klettarnir ísilagðir og umkringdir mesta klakanum en það lærist fljótt á göngu að vetrarlagi að ókosturinn við að elta grjótið er sá að harðasti klakinn er jafnan í kringum allt grjót þar sem umhleypingar eru meiri kringum grjótið og bleytan af grjóti og klettum breytist í harðan klaka frekar en á snjóbreiðunum þar sem bleytan rennur dreifðar í gegn og frýs neðar...

Súsanna og Björn
... ástríðufjallafólk með meiru...
með Vestursúlu og Syðstu súlu á hægri hönd...

Tindinum náð...
... í blankalogni og óskertu útsýni á fjallgarðana í vestri, norðri, austri og suðri...

Ekki oft sem slík veðurblíða ríkir á tindinum...
Það var sem við værum innanhúss að stússast og snæða...

Útsýnið magnað til suðurs frá nestispásunni...


Vestursúla vinstra megin og Syðsta súla hægra megin - takið eftir skuggum Syðstu súlu á þeirri vestari.

Í blankalogni á tindinum með tignarlegar Botnssúlurnar í baksýn:

Efri: Jakob, Rannveig, Ísleifur, Ólafur, Sigríður, Örn, Heiðrún, Guðmnundur Jón, Ingi, Rósa, Ósk, Jón, Helgi Máni, Anton, Lilja Sesselja, Björn E., Halldóra Á., og Ásta Guðrún.
Neðri: Irma, Hanna, Sæmundur, Ágústa, Lilja Kr., Björn, Katrín Kj., Sigga Sig., Steinunn, Valgerður Lísa, Súsanna, Jóhanna Fríða og Gylfi en Bára tók mynd og enginn ferfætlingur var með í þessari ferð sem var stórskrítið.

Jú, ekki spurning að rekja okkur flóknari leið niður um vesturhlíðarnar í fótspor í Leggjarbrjótsfararinnar árið 2009...
þegar við héldum fast hvert í annað í hífandi roki og hálku niður vesturbrúnirnar...

Hanna, Katrín Kj., Sigga nýja, Súsanna, Björn nýi og Halldóra Á....

Ljósbleiki hávetrarlitur himinsins er nú smám saman að dýpka með komandi góu
og bleiki hávetursliturinn smám saman að víkja fyrir heitari litum snemmvorsins...

Heiðin Kjölur sem liggur frá Búrfelli í austri og niður að Hvalfirði í vestri... tandurhrein og ósnert...

Litið til baka á tindinn... sólin í mistrinu í suðsuðaustri....

Fjalllgönguklúbbur þeirra Skúla og Óskars, Fjallhress stóðu á tindi Sandfells í Fáskrúðsfirði þennan sama dag
og voru í bandi við þjálfara þó ekki sæi hann sms-ið fyrr en um kvöldið þar sem síminn týndist lengst ofan í bakpokann úr úlpuvasanum...
 


Mynd frá Skúla Wildboys og Fjallhress

Mynd fengin að láni af þeirra myndasíðu þar sem fjallasýnin sést vel en þau fengu magnað útsýni til sjávar einnig:
Sjá allar myndirnar í heild hér:
http://wildboys.123.is/album/default.aspx?aid=221099

Takið eftir snjóleysinu í samanburði við okkar ;-)

Skarðsheiðin í öllu sínu veldi í fjarska hægra megin með Blákoll og félaga dökka lengst til vinstri...

Sigga Sig að mynda
og Sæmundur, Steinunn og Lilja Sesselja á góðu spjallin niður vesturhlíðarnar í félagsskap Syðstu súlu.


Í vesturhlíðum Búrfells með Skálafell, Móskarðahnúkar og hluta af Esjunni í fjarska vinstra megin
og heiðina sem nefnist Kjölur hægra megin.

Í þetta sinn voru engir klettar til að klöngrast niður um vesturhlíðarnar heldur spegilsléttar snjóbrekkurnar í þunnu harðfenni sem gaf eftir í hverju skrefi og léttari snjó undir sem lá svo ofan á þéttum sleipum snjó þar undir sem eru kjöraðstæður fyrir flekaflóð í meira fannfergi...

Örn fann góða leið þarna niður þar sem þó þurfti aðeins að fikra sig í hálkunni
enda ganga dagsins allt of létt til þess að takast ekki aðeins á við vetraraðstæður á fjöllum...

Hornið þar sem brekkan varð heldur hálari eftir því sem slóðin gróf sig lengra niður á harðari neðra snjólagið
en þetta gerist gjarnan í hópgöngu þar sem það er best að vera fremstur og verst að vera aftastur þar sem allt hald er farið...
en þjálfari hjó nokkur spor í þennan kafla fyrir síðustu menn sem gátu þá gengið öruggari um haftið...

Sumir létu sér þetta hins vegar  í svo léttu rúmi liggja að þeir renndu sér niður á afturendanum
á meðan aðrir þurftu að fóta sig aðeins varlegar...


Anton sendi mér þessa mynd - hún er tær snilld ;-)

Ærslabelgirnir Hanna og Jóhanna Fríða...
Það ríkir aldrei lognmolla né depurð þar sem þær eru í nálægt...
...bara bros og gleði sem gæðir líf Toppfara ómetanlegum anda...

Eftir snjóbrekkuna var haldið með vesturpilsfaldi Búrfells niður að Öxará sem rennur milli matarkistunnar gömlu og Botnssúlna
og markar að hluta leiðina um Leggjabrjót...

Jóhanna Fríða með sitt einstaka jákvæða hugarfar fann auðvitað aðra gleðibrekku til að skemmta sér í á meðan hinir fótuðu sig alvarlegum skrefum niður klettahjallana sem voru á kafi í snjó, en þessi kafli niður að ánni er ansi ógreiðfær og seinn yfirferðar í tættu stórgrýti að sumarlagi...

Hvílíkur félagsskapur á fjöllum...

Ekki hægt að hugsa sér betri göngufélaga enda upplifun út af fyrir sig að ganga með þessu fólki
fyrir utan allt það sem landið sjálft hefur upp á að bjóða á degi sem þessum...

Síðustu hjallarnir niður að Öxrá með Syðstu súlu framundan.

Með þessari viðbót niður að ánni voru þjálfarar búnir að lengja göngu dagsins um 2 km en þeir sáu samt eftir því að hafa látið nægja að fara niður að ánni út frá Búrfellsrótunum í stað þess að lengja enn frekar með því að rekja sig í vestur að Myrkavatninu úr því veðrið var svona gott en þeir voru svo sem þá þegar búnir að lengja ferðina heilmikið miðað við áætlaðan heildartíma og vegalengd... en eftir á að hyggja hefðum við vel komist upp með að taka 2 km í viðbót að vatninu... vatni sem bíður bara betri tíma... í hávetursferð úr Brynjudal um gljúfrin og vötnin sem rísa á brúnunum ofan hans... ef bílfæri leyfir í það sinn inn eftir dalnum...

Norðvesturhlíðar Búrfells...  þjálfarar reyndu á sínum tíma að finna góða niðurgönguleið þarna um enda virðist þetta ekki ógreiðfært
en lentu í vandræðum með lausagrjót ofan á móbergi og ótraustum klettum...

Efsti foss Öxarárinnar í klakaböndum að hluta... nafnlaus að því er við best vitum

Glerharðar snjóhengjur voru alls staðar við bakka Öxarárinnar... og þá var nú gott að vera í hálkubroddunum...

Ásta Guðrún, Björn E., Sigga Sig, Heiðrún og Ingi
með Irmu, Lilju Sesselju og Sæmund aftar

Síðustu kílómetrarnir til baka í tindferðunum hafa yfir sér sérstakan blæ...
...menn svífa hátt stemmdir og náttúrulega ölvaðir eftir stórkostlegar stundir á tindinum eftir baráttuna við fjallið...

Degi aftur tekið að halla smám saman...

Fossinn þegar litið var til baka...

Öxarárdalur með hluta af Ármannsfelli vinstra megin, Skefilsfjöll, Hrafnabjörg
og
Kálfstinda með Reyðarbörmunum lengst til hægri...

Fegurri dag var vart hægt að hugsa sér...

Skuggar göngumanna vörpuðust hinum megin Öxarár yfir á Leggjabrjót...

Sjá sprungurnar í snjóhengjunum vinstra megin á mynd...

Himininn jafn fjölbreytilegur og fagur og landslagið á láglendinu
og við tímdum enn einu sinni ekki heim á för okkar í töfrandi fallegri tindferð...

Öxaráin óðum að rífa klakaböndin af sér...

Hvenær ætli henni takist að ryðja öllu gegnum grynningarnar...?

Norðausturhorn Búrfells...

Þetta var sannarlega einn af þessum gjöfulu ljósmyndadögum á fjöllum...

Hrafnabjörg að hluta vinstra megin en við gengum á það í vorgöngu í maí í fyrra ásamt fleiri fjöllum í kringum hana
og ætlum á tvö þeirra á þriðjudagskvöldum síðla sumars...

 ...og Flosatindur í kálfstindum fyrir miðri mynd með sinn einkennandi dökka klett sunnan megn neðan við tindinn
en á hann gengum við þann 1. maí 2010 í svipaðri veðurblíðu en niðurgönguleiðin hinum megin er ein sú brattasta sem við höfum farið...

Öxaráin að hreinsa sig og sópa öllu að ofan og til hliðanna smám saman...

Magnaður staður á grynningunum þar sem við komumst auðveldlega yfir á ruddu klakahrönglinu...

Það var hægt að gleyma sér þarna tímunum saman...

Einhvers staðar þarna niðri rann Öxaráin...

Myndavélarnar á lofti í hverju horni...

Margt býr í snjónum...

Hópurinn þéttur hinum megin árinnar meðan hömlulausustu ljósmyndararnir fengu útrás...

Something old, something new, something borrowed, something blue...


Hanna - Steinunn - Ágústa

Skvísur Toppfara eru LANGflottastar...


Ágústa að mála Lilju með glossinu sem Alma er að selja í fjáröflun fyrir son sinn og auðvitað slær svona búnaður í gegn í Toppförum ;-)
Mynd fengin að láni frá Lilju af fésbókinni - tær snilld ;-)

... enda með gloss á vörum öllum stundum á fjöllum... í öllum veðrum... að vetri sem sumri...
því það er einfaldlega alltaf
hátíð þegar við göngum saman á fjöll ;-)

Heimleiðin var greið og nú norðan megin árinnar...

...með Ármannsfellið í fanginu...

Ein af vörðunum á Leggjabrjót...

 En Leggjabrjótur er ekki síður spennandi gönguleið að vetri til...

Helgi Máni rakti spor tófu niður í gilið... skyldi hún vera með greni þarna undir ísnum...?

Smám saman dekktist gönguleiðin niður á láglendið að neðan sem ofan...

Og síðustu geislar vetrarsólarinnar lýstu upp nágrennið á milli þess sem sólin hvarf á bak við mistrið í suðri...

Litið til baka upp með veginum við glúfrið með Búrfell í baksýn hægra megin...

Útsýnið ofan af brúnunum á veginum þar sem hann liggur frá upphafsgöngustaðnum yfir lækjarflæmið neðan úr Svartagili...

Snjóbrúin frá því í morgun á hefðbundnum uppgöngustað...

Einn af tindum Skefilfjalla norðan Kálfstinda... þarna eigum við eftir að ganga um...

Meira að segja Hallgerður Langbrók og Gunnar á Hlíðarenda með atgeirinn sinn
láta sig ekki vanta í tindferðir Toppfara... ;-)

Komið var í bílana í dagsbirtu sem var kærkomin tilbreyting að vetri til... og ekki einu sinni komið kaffi... klukkan um hálf-fjögur...

En samt alls
16,2 km á 5:57 - 6:03 klst. upp í 785 m hæð með 916 m hækkun miðað við 158 m upphafshæð...

Við máttum vera ánægð og sæl með annan eins dag á saklausum slóðum hógværs fjalls á Þingvöllum...
Flestir fegnir að dagurinn væri ekki lengra runninn þar sem þetta var sunnudagur og hvíldardagur ekki í boði á morgun
heldur vinnuvikan sjálf daginn eftir...

...en það var þess virði að fórna heilögum hvíldardeginum fyrir aðra eins orkuhleðslu...

Fullkominn dagur á fjöllum

Takk öll fyrir gleðina og léttleikann sem sveif með okkur upp í hæstu hæðir
við bestu aðstæður sem hægt er að hugsa sér á fjöllum ;-)

Þessi ferð er lituð appelsínugullinni vetrarsól og fölbleika glossinu hennar Ölmu ;-)

Sjá gullnar myndir þjálfara hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T70Burfell050212

Sjá frábært myndband Gylfa af göngunni allri: http://www.youtube.com/watch?v=A6xgomAeIKw&feature=share

... og frábærar myndir göngumanna á fésbókinni...

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir