Tindferð 64 - Jarlhettur
laugardaginn 10. september 2011
 


Konunglegar Jarlhettur
Í blíðskaparveðri og mögnuðu útsýni
um fegurstu fjallaperlurnar í töfraveröld Langjökuls


Tindurinn á Stóru Jarlhettu með nyrðri Jarlhettur í fjarska þar sem sú Innsta rís hæst.

Laugardaginn 10. september gengu 21 Toppfari á fjórar Jarlhettur við Eystri Hagafellsjökul í Langjökli í glitrandi góðu veðri, mun betra en nokkur spá sagði til um eða logni, sól, brakandi hita á köflum og óskertu skyggni og útsýni um ævintýraland Langjökuls þar sem óteljandi tindar, fjöll og jöklar glitruðu allt um kring...

Gengið var á Stöku Jarlhettu, Stóru Jarlhettu og tvær af Syðri Jarlhettum
þar sem klöngrast þurfti upp og niður fjórar ólíkar tindahettur um lausar skriður og bratta kletta á torsóttri leið.

Landslag, litir og útsýni með því fegursta sem gefst
og við fylltumst lotningu innan um þessi ógurlegu verkskummerki frosts og funasem þarna hafa mótað landið...
já, veisluborð dagsins... gegnum árþúsundirnar...

Lagt var af stað kl. 10:24 í brakandi veðurblíðu... logni og sól í 10°C hita undir galheiðum himni...
Hvar var kuldinn... hvar var vindurinn... sem var í kortunum...?

Gengið var um grjót og mela fyrstu kílómetrana að fyrstu hettu dagsins...
Stöku Jarlhettu sem var hreinlega ekki hægt að fara framhjá úr því við vorum mætt á svæðið...

Skyggnið frábært í allar áttir nema austur þar sem öskuský feyktist ofan af hálendinu og skyggði sýn á jöklana í austri...

Sandvatn hér og dyngjan Sandfell með efstu tinda Bjarnarfells á bak við.

Dæmigert ástand á göngumönnum dagsins... allir að taka myndir... í allar áttir...

Staka Jarlhetta leyndi svo sannarlega á sér eins og fleiri fjöll sem við höfum skotist upp á í hjáleiðum gegnum tíðina...

Jarðvegurinn skraufþurr og skriðurnar lausar...
en ekki hægt að kvarta yfir því að vera laus við hálku vetrarins sem nú bankar brátt á dyr...

Staka Jarlhetta liggur ílöng í sömu átt og tindaraðir Jarlhettna en er sú eina sem er áberandi út undan...

Brátt risu nyrðri Jarlhettur og sú hæsta innst norðan okkar en sú Innsta er hæst allra Jarlhettna og á dagskrá árið 2012...

Þá er gengið frá Skálpanesi með fram vötnum og ám nær jöklinum...

Örn kannaði aðstæður eftir Stöku Jarlhettu þar sem móbergsklettarnir þvældust stöðugt fyrir...

Með nyrðri Jarlhettur og Innstu Jarlhettu í baksýn:

Hugrún, Gylfi Þór, Lilja Sesselja, Ósk, Jóhann Pétur, Irma, Guðmundur Jón, Thomas, Steinunn, Örn, Jóhannes, Lilja Bj., Katrín, Alma, Auður, Ágústa, Elsa Þóris., Sæmundur, Torfi og Hildur Vals en Bára tók mynd og Skuggi hélt uppi heiðri ferfætlinga klúbbsins.

Jú, það var góð leið eftir þeirri Stöku til norðurs...

Útsýnið einstakt og varla hægt að ganga fyrir myndatökum...

Stórfenglegt landslag
og hvert skref var nautn þess sem unir sér vel á nýjum slóðum í óbyggðunum...

Næsta hetta var svipmesta Jarlhettan úr Biskupstungunum
sem heimamenn kalla
Stóru Jarlhettu en heitir einnig Tröllhetta...

Grýtt á milli gegnum þornaða árfarvegi og skraufþurrt grýtið...

Uppgönguleiðin um skriðurnar sem voru bæði brattar og lausar í sér
meðfram móbergsklettum og berggöngum sem settu mikinn svip á leiðina þegar ofar og nær dró...

Móbergsklettar geta flækst heilmikið fyrir manni og fá mann stundum til að óska þess að maður væri á gangi að vetrarlagi...

Berggangarnir utan í Stóru Jarlhettu voru stórfenglegir...

Sífellt betra útsýni opnaðist til nyrðri Jarlhettna og vatnið milli þeirra fangaði mann sífellt...
Þangað
verðum við að koma einhvern tíma og ganga kringum eða framhjá...

Ósk með Stöku Jarlhettu í baksýn... ósköp var hún lítil um sig svona stök ofan af þeirri Stóru... eins og landslagið var fagurt þar engu að síður...

Berggangarnir... torsótt og seinfarið klöngrið þarna um og brattinn leyndi heilmikið á sér
en þetta hófst allt með þolinmæði og hjálpsemi innan hópsins...

Mergjað landslag...

Sandvatn í fjarska...

Fleiri berggangar ofar en þeir mótuðu allt landslag Stóru Jarlhettu eins og síðari myndir sýna...

Já, maður þurfti á öllu sínu að halda til að komast upp þetta lausagrjót sem sendi mann sífellt niður um eitt skref fyrir hver tvö...

Naglarnir Ósk og Lilja Bjarnþórs með nyrðri Jarlhettur í baksýn...

Klettarnir á tindi Stóru Jarlhettu... sá hæsti ókleifur nema með hjálpartækjum
svo við vorum ekkert að hanga utan í honum og héldum okkur við berggangana sunnan megin...

Langjökull... með skriðjökulinn Eystri Hagafellsjökul nær og hluta af vestari tindaröð sem er að skriða undan jökli...

Útsýnið vestur yfir Langjökul þar sem Þórisjökull reis vinstra megin og Geitlandsjökull hægra megin en þar mátti sjá glitta í ljósar hlíðar Prestahnúks sunnan Geitlandsjökuls sem er á dagskrá árið 2012... nær eru skriðjöklarnir Eystri Hagafellsjökull og Vestari Hagafellsjökull með Hagafell á milli sem skyggir á þann Vestari á þessari mynd.

Hagavatn með Hlöðufell í fjarska fyrir miðri mynd, Skjaldbreið fyrir aftan og Stóra Björnsfell hægra megin sunnan við Þórisjökul.
Vinstra megin risa
Kálfstindur og Högnhöfði í mistrinu.

Það var ómetanlegt að fá að virða fyrir sér allan fjallakransinn sunnan Langjökuls svona í fanginu...

Sjá Gylfa Þór mynda ofan á bergveggnum í vinstra horni myndar ;-)

Rómantíkin ríkti hjá bergþursunum í Jarlhettum...

Magnað landslag á hrygg Stóru Jarlhettu þar sem litir, form, áferð og útsýni allt um kring skartaði ómældri fegurð...

Katrín Kj. og Lilja Sesselja ofan á bergveggnum sem skýldi okkur í nestispásunni á Stóru Jarlhettu....

Berggangurinn sem gekk upp á hrygginn hægra megin og lengra sást til Bláfells en það var magnað að sjá Kerlingarfjöllin öll glitra í nýfallinni snjóföl haustsins og Hofsjökul enn norðar þar sem nokkrir fjallstindar stungu sér upp úr sjónarröndinni og fengu mann til að láta sér detta Hrútfell á Kili og álíka stjörnur í hug...

Okkur fannst við bókstaflega sjá hallann norður í land ofan af Kili....

Bláfell í fjarska með berggangana við tindinn...

Klettaaugað í vesturhlíðum...

Hryggurinn ofan á Stóru Jarlhettu en Örn fór með fleirum að kanna með niðurgönguleið sunnan megin
en þar voru bara ókleifir klettar svo við völdum leið niður skriðurnar í suðausturhlíðinni...

Þetta var með flottari útsýnisstöðum sem gefast á fjöllum...

Berggangarnir enn ofar...

Nestispása við óborganlegan bergganginn í skjóli fyrir brúnagolunni...

Fararstjórinn að myndast við að fara niður skriðurnar...

Við urðum að taka hópmynd á Stóru Jarlhettu í þessu kyngimagnaða umhverfi...



Eystri-Hagafellsjökull og útbreiddur Langjökullinn að sunnan...



Bláfell á Kili í fjarska vinstra megin en það sækir nú stíft um heimsókn Toppfara árið 2012...
 Staka Jarlhetta hægra megin á mynd sem við gengum fyrst á þennan dag og var svo smá í samanburði við stóru systur...

Jóhannes fékk ekki að fara afsíðis í friði... fyrr en búið var að mynda hann... ;-)

Niðurgönguleiðin gekk mun betur en uppgangan... mest megnis rjúkandi mjúkar skriður sem gott var að rúlla niður um...

Fínasta uppgönguleið eins og okkar, þ. e. sunnan megin við klettana sem stingast úr austurhlíðunum...

Brátt vorum við komin að Syðri Jarlhettum sem þjálfarar voru búnir að láta sig dreyma um að ganga á líka svona í bakaleiðinni
... ef vel viðraði og stemmning væri fyrir því...

Hér drifu Alma og Torfi sig niður enda vinna framundan hjá Ölmu frá kvöldi fram á morgun
en við hin fórum í tómu tímaleysi áfram eftir hettunum til að fá sem mest úr úr deginum enda aðstæður með besta móti...

Sunnan undir Stóru Jarlhettu steikti sólin okkur og við máttum varla vera að því að ganga fyrir spekúlasjónum og spjalli í blíðunni...

Gylfi Þór, Örn, Guðmundur Jón, Ágústa, Katrín Kj., Jóhann Pétur, Sæmundur, Elsa Þóris, Auður, Jóhannes og Steinunn.

Jú, er það ekki, sjáum hvort við komumst ekki á þessa hæstu þarna af þessum syðstu Jarlhettum...

Greið leið um saklausar skriður milli hettna sem voru ekkert í líkingu við Stóru Jarlhettu...

Landslagið stórbrotið og hrjóstrugt en samt svo mjúkt og milt...

Við vissum ekkert hvort þetta væri kleift... vorum of forvitin til að snúa frá nema klöngrast af stað...

Þetta reyndist vel kleift enda bröltarar með reynslu á ferð...

Litið til baka yfir á minni hettuna á milli með Bláfell og Stöku Jarlhettu í baksýn...

Smá klöngur en móbergsklettar með hrúðurkýli utan á sér var besta undirlagið í svona bergklumpum...

Komin á hæsta tindinn á Syðri Jarlhettum ef svo má kalla þær sem rísa sunnan við Stóru Jarlhettu...

Syðri Jarlhettur til suðurs...

Jarlhettur eru í heild 13 - 14 km langur móbergshryggur sem rís með um tuttugu tindum í tvöfaldri röð frá norðaustri til suðvesturs
meðfram jöklinum og varð til við gos undir jökli...

Sjá fróðleik um Hagavatn og vangaveltur um virkjun á svæðinu hér:
http://www.natturukort.is/svaedi/farid

Eftir Syðri Jarlhettur voru menn loksins að verða saddir eftir stórfenglegan göngudag
og tilbúnir til að snúa úr þessum töfrandi fagra heimi...

Þrjár hettur í sigtinu eftir brölt upp og niður fjóra tinda... við gátum ekki verið sáttari við daginn...



Klöngrast niður af hæstu
Syðri Jarlhettu sem Lilja Sesselja skírði Klifurhettu...

Framundan var grjótbreiðan til baka að bílunum rúma þrjá kílómetra... hvergi bólaði á meiri vindi né kulda... en öskumistrið lagðist smám saman yfir sveitir Biskupstungna og var farið að myndast við að deyfa geisla sólarinnar sem þurrsteikti okkur allan daginn svo maður skrælnaði upp... allt of mikið klæddur undir vetrarklæðnaðinum sem var valinn út frá veðurspá en átti lítið erindi við þennan dag...

Hæsti tindur Syðri Jarlhettna vinstra megin og móbergsklettarnir sunnan í Stóru Jarlhettu hægra megin...

Tindar dagsins
Syðri Jarlhettur, Stóra Jarlhetta, Staka Jarlhetta...

Í stanslausi strunsinu gegnum eyðimörk grjóts og mela vakti uppþornaður árfarvegur okkur upp af draumi dagsins
áður en við skiluðum okkur í bílana handan við ánna... aðeins á undan áætlun um kl. 16:45 og komin í bæinn um kl. 18:45...

Fullkominn fjallgöngudagur

...sem skilur eftir sig bljúgt þakklæti fyrir möguleikann á að geta notið slíkrar veislu sem þessarar í dýrmætum félagsskap fjallgöngumanna sem víla ekkert fyrir sér og kunna sannarlega að njóta veisluhaldanna frá upphafi til enda...

Alls 11,5 km á 6:10 - 6:15 klst. upp í 672 m, 950 m og 696 m hæð með alls hækkun upp á 933 - 1.001 m ;-)
miðað við
345 m upphafshæð.

Gönguleið dagsins í nærmynd á korti...

Heildarmynd af Jarlhettum þar sem gönguleið okkar sést vinstra megin niðri og Innsta Jarlhetta hægra megin uppi.
Eingöngu hluti af Syðri Jarlhettum sést á mynd og eins vantar nyrstu Jarlhetturnar.

Sjá allar myndir þjálfara hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T64Jarlhettur100911# 

Frábær myndasíða Gylfa Þórs: http://gylfigylfason.123.is

Og flottar myndir félaganna á fésbókinni ;-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir