Tindferð 175
Hábarmur, Grænihryggur, Hryggurinn milli gilja og Jökulgil
Fjöllin að Fjallabaki VI
sunnudaginn 1. september 2019


Hábarmur
Grænihryggur
Hryggurinn milli gilja
 Jökulgil...
gullfalleg afreksganga
um hrikalega og margslungna heima Friðlandsins
sem án efa er fegursti staður landsins
 hvað varðar fjölbreytileika í litum, formum og áferð...

Sjötta ferðin um Friðlandið að Fjallabaki
þar sem tindar þess og hulinsheimar bætast smám saman í safn Toppfara...

---------------------------------

Langtímaspáin fyrir Hábarm, Landmannalaugar og nágrenni var mjög góð til að byrja með fyrir síðustu helgina í ágúst
sem er alltaf okkar vanalega áætlaða helgi að fjallabaki en snarversnaði þegar leið á vikuna...

... svo mjög að þjálfarar sáu fram á að ferðin sem þau voru búin að úthugsa yrði ekki vel heppnuð í skýjuðu veðri,
jafnvel úrkomu á köflum sem gæti þýtt snjókomu á efstu tindum og jafnvel þoku eða skýjuðu með engu skyggni...

Það var því ekkert annað í stöðunni en að færa ferðina fram á sunnudag þar sem spáin var mjög hagstæð...

Miklar líkur á sól og góðu skyggni og engin úrkoma í kortunum...

Jebb... sunnudagurinn var málið... og spáin rættist alla leið...

Meira að segja snjókoman sem var í kortunum kvöldið og nóttina fyrir rættist...
allt hvítt á hálendinu í yfir 700 m hæð eða svo þegar við keyrðum inn Dómadalinn úr Reykjavík klukkan sex um morguninn...

Aksturinn inn Dómadal er alger veisla... og góð upphitun fyrir þá dýrð sem umlykur Jökulgilið og nágrenni þess...
þarna upp Suðurnámur ætlum við árið 2020 sem hluta af síðasta legg Hellismannaleiðar frá Landmannahelli í Landmannalaugar...

Sjá innlitið til Landmannalauga um níuleytið á leið inn Fjallabaksleið nyrðri...
hvítt á Bláhnúk, Brennisteinsöldu og Hrafntinnuskeri...

Loksins lögðum við gangandi af stað... kl. 10:16...
eftir góðan akstur, heilmikinn fróðleik og umræður í rútunni á leiðinni
og smá tónlist frá Herra Hnetusmjöri í boði þjálfara :-) ... áður en lagt var af stað...

Gengið var frá Kirkjufellsvatni sem er stysta leiðin á Hábarm...

... og þrætt með suðausturströnd þess í flæðarmálinu eða uppi í hlíðunum eftir færi...

Grýttur kafli í hliðarhalla en gekk vel og fyrsti áfangi af nokkrum að baki án vandræða...

Stapinn við norðvesturenda Kirkjufellsvatns er nafnlaus að því er við best vitum...
og má líta á hann sem einn af fjórum stöpum Hábarms... svipað og Rauðufossafjöll eru fjórir aðskildir stapar í hnapp...

Frá Kirkjufellsvatni var farið inn innra skarðið áleiðis á Hábarm...

... og lækjarsprænurnar úr fjöllunum vörðuðu leiðina...

Langur kafli framundan upp þetta gil með spriklandi lækinn í flúðum niður sem við urðum að klöngrast upp um...

Þjálfari búin að lýsa þessu vel fyrir ferðina og í rútunni og allir undirbúnir fyrir það sem var framundan...

... enda gekk þetta framar vonum allur þessi kafli....

Ingi bauð ekki upp á drykk í þessari ferð... heldur verkjatöflur... gjörðu svo vel...
það er greinilega ástæða fyrir því að við kölluðum hann Yfir-apótekara Toppfara hér áður fyrr... :-)

Brölt upp grýtið en allir í góðum gír og engin vandamál hjá nokkrum manni...

Sjá Hábarm gnæfa yfir gilinu... þarna upp fórum við.... fyrst vinstra megin upp að klettinum sem stingst þarna út...
og skáskutum okkur svo upp á brúnina hægra megin upp snjóbrekkuna...

Loksins búin með grjót-lækjar-gilið... brekkan upp á Hábarm framundan hér...

Litið til baka efstu menn í brekkunni... grjótgilið þarna niðri og norðvesturendi Kirkjufellsvatn neðar...

Þjálfarar höfðu miklar áhyggjur af stærð leiðangurs dagsins...
og hreinskilningslega sagt sáu eftir því að hafa stækkað ferðina upp í 45 manns vegna gífurlegs áhuga á henni...
enda stutt síðan þeir héldu úti 7 manna ferð á Hellismannaleið í lok maí á árinu...
svo kom einhvers lags sprenging sem ekki sá fyrir endann á...
en lexían var sú að við verðum að hafa hámarksfjölda óháð áhuga
til að vera ekki með of marga með í för í svona flókinni ferð...
... og til að ná fallegri hópmynd ! ... það er mjög erfitt í 45 manna hópi takk fyrir :-)

Hins vegar reyndi ekki á þennan fjölda að ráði... jú, tíminn lengdist án efa í ferðinni...
fremstu menn hefðu getað í 10 - 15 manna hópi verið 2 klukkustundum fljótar að fara þetta...
en allir stóðu sig vel í göngunni allan tímann og allt gekk vel...
svo þegar á allt var litið þá voru þjálfarar mjög sáttir við ferðina...

Samsetning hópsins var góð og mun betri en í fyrri tveimur fjölmennum ferðum sumarsins...
Af 43 manns voru eingöngu 8 manns sem við þekktum engin deili á og voru óræð tala í getu og öryggi...
en öll stóðu þau sig með prýði og voru ekki í vandræðum þegar leið á gönguna og menn fóru að dragast aftur úr...

Þétt brekkan upp á fjallshrygg Hábarms en gott hald allan tímann...

Með hverjum metranum upp í mót tók umhverfið í kring að birtast...

Stórkostlegt útsýnið fór að taka við...

Já, mjög þétt hækkun... en mosi og fastur jarðvegur undir...

Aðeins grjóthrun hérna en fyrst og fremst sökum þess hversu mörg við vorum
og ein af ástæðum þess að þjálfarar ákváðu í kjölfar þessarara ferðar að tindferðir Toppfara yrðu alltaf að hámarki 29 manns
nema í ákveðnum tilvikum og aldrei í flókinni ferð eins og þessari...
grjóthrunshættukaflar eru mun flóknari í stórum hópi en litlum...

Snjólínan var niður í rúmlega 600 metra hæð og áberandi í norðurhlíðum með auða jörð í suðurhlíðum...

Hvílík dýrðarinnar fegurð af þeim sökum ekki síst...

Ofar var snjór yfir öllu...

... og þegar komið var handan við hornið á efsta hluta fjallgarðins...

 ... tók sólin á móti okkur og allt varð bjartara og hlýrra...

Neðstu menn enn að koma sér upp fyrir hornið hér...

Bratt já... en gott hald allan tímann og engin hálka í þessari nýföllnu mjöll...

Skemmtileg leið og í raun einföld upp á Hábarm þó brött sé, grýtt og seinfarin...

Sjá á wikiloc:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=41147774

Dásamlegt að koma upp á meginland Hábarms...

Dalene frá Suður-Afríku... kærasta Björns Matt... að koma við snjó í fyrsta sinn...
hingað til aldrei gengið á snjó áður og eingöngu séð snjóskafla í fjöllum í fjarska...
hún var í sæluvímu og sveif næstu kílómetrana með sérstakt bros á andlitinu...

Útsýnið ofan af Hábarmi var stórfenglegt...
alla leið yfir á Vatnajökul þar sem Öræfajökullinn blasti við með Hrútsfjallstinda og Hvannadalshnúk
ásamt óteljandi öðrum fjöllum og tindum...

Friðlandið litríka blasti við okkur í fjarska uppi á Hábarmi...

Hábarmur er margslunginn... staparnir nokkrir og tindarnir margir...
allt nafnlaust nema nafnið "Hábarmur"...
ef nafnið á honum á við um alla stapana sem rísa þarna í hnapp í suðausturhluta Torfajökulsöskjunnar...

Þetta er jú hluti af gígbarmi þess jökuls... og umgjörðin utan um Friðlandið að Fjallabaki...
Sjá allra fegurstu Ferðafélagsbóina frá upphafi að mati þjálfara...
frá 2010 um Friðlandið skrifuð af Ólafi Erni Haraldssyni... alger listasmíð og unun að lesaog fletta...

Litið til baka... sjá Kirkjufellavatnið allt að koma í ljós þegar komin svona ofarlega...

Við áttum rúmlega eins kílómetra langa leið framundan ofan á Hábarmi áður en að hæsta tindi kæmi...

... og það í snjófæri allan tímann... enda komin í þúsund metra hæð og áttum eftir tæplega 200 m hækkun enn...

Mjög falleg leið og fjölbreytt...

Sjá til baka... magnað að sjá tindana svona hvíta öðru megin...

Þegar þjálfarar fóru könnunarleiðangur upp á Hábarm tveimur vikum áður
höfðu þeir áhyggjur af því að komast ekki upp á Hábarm þessa leið...
en reyndin varð að alltaf var góð leið meðfram tindunum...

Í þeim könnunarleiðangri var hávaðarok en heiðskírt...
og svo mikið moldrok eftir mikla þurrka í sumar að þjálfarar þurftu sérstaka sturtu til að hreinsa öll vit af ryki...
sem muldist úr öllum búnaði dagana á eftir... versta moldrok í þeirra minnum...

Það var erfitt að vera ekki stöðugt að mynda...
andstæðurnar við brúnu, rauðu og appelsínugulu hlýju litina
innan um köldu, hvítu, gráu og bláu litunum voru magnaðir...

Ofurhjónin Katrín Kj. og Guðmundur Jón ásamt englinum Inga og gestinum Birni Guðmundssyni...

Friðlandið að Fjallabaki... enn meira sláandi fegurðin með hvíta tindana umlykjandi....

Sjónarhornið frá fremstu mönnum... stórkostlegt...

Það er ekki annað hægt en að mæla með göngu á Hábarmi...
litskrúðug og formfögur leið á þennan tind sem varðar suðausturhluta Friðlandsins...

Hópurinn þéttur eftir dýrðina... sem var rétt að byrja...

Tindar Hábarms í baksýn hér...

Friðlandið að Fjallabaki... sannarlega vin í eyðimörk hvítra fjallatinda hálendisins...
Jökulgilið þarna fyrir miðri mynd... flata gilið þarna í miðjunni...
sem við áttum eftir að ganga niður um í ljósaskiptunum og rökkri í lok þessa dags
vaðandi átján sinnum Jökulgilskvíslina...

Frábær frammistaða allra upp á Hábarm...
nú var þjálfari búin að lofa léttari yfirferð það sem eftir lifði ferðar þar sem mesta hækkunin var að baki...
en krefjandi yfirferðin voru hvergi nærri búin...

Hvílík leið... með Friðlandi á hægri hönd...

... og Fjallabak nyrðra á þeirri vinstri... heldur vetrarlegra í hálendinu sínu...

Áfram hélt landslagið á Hábarmi að skreyta leiðina...

Skyndilega skall á okkur skafrenningur...

Loksins kom hæsti tindur Hábarms í ljós...

... og á öllum þessum kafla lamdist á okkur skafrenningurinn...

... sópaðist bókstaflega af nýja snjónum sem sat í sköflunum sem liggja í tonnavís utan í norðurhlíðum Hábarms...
engin úrkoma þennan dag... heiðskírt og sól... en samt skafrenningur... ótrúlegt...

Bara smá brekka upp á tindinn... :-)

Þar uppi... blasti Friðlandið betur við og mun nær en áður...
engu líkt að standa hér og horfa yfir þetta landslag...

Á tindinum var skrifað í snjóinn "Velkomin"... þar voru á ferð tveir prúðir drengir...
Viðar og Grétar... sem við áttum eftir að hitta síðar í göngunni...

Sama landslag séð ofan af Háskerðingi frá öðru sjónarhorni 25. ágúst 2018...
sjá Hábarm hægra megin á mynd, bláan og snjóugan, þar sem við stóðum nú í september 2019...

Aftur komin á Hábarm... hér séð niður Jökulgilið... nær er Sveinsgil nyrðra...
Barmur ljós hægra megin... þaðan sem við komum upp í stórkostlegu ferðinni 3. september árið 2016...

Komin á hæsta tind Hábarms í 1.205 m hæð skv. gps...

Nesti og notalegheit með stórfenglegt útsýni í allar áttir... gerist vart fegurra á Íslandi þetta útsýni...

Þetta var alvöru ferð... eins gott að nærast vel fyrir átökin...

Lilja Sesselja er ein af prjónasnillingum Toppfara... hér með eldgosahúfuna sína...

... alger snilld !

Þjálfari spilaði lagið "Fataskáp afturí" með Herra Hnetusmjöri á tindinum áður en lagt var af stað eftir nestið til að hita alla upp...
og viðhalda hefðinni sem skapaðist á Háskerðingi árið áður þar sem dansað var við lagið "Ég ætla að skemmta mér" með Albatross...

Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=EDQTLVgGy-4

... og árið 2018: https://www.youtube.com/watch?v=GxMN5_zUpcI

Bara gaman... alger óþarfi að taka sig of alvarlega... og missa af hlátri og gamni þegar færi gefst...

Jæja... allir orðnir heitir eftir dansinn á tindinum í tólfhundruð metra hæð...

Leiðin niður af Hábarmi er skaplegri en upp...
ekki eins brött en alveg jafn falleg og með alveg nýja sýn yfir Torfajökul og baklandið við Jökulgilið að sunnan...

Perlurnar glitruðu þarna niðri... í þessum hulinsheimi sem fáir heimsækja og upplifa...

Þarna blasti innsti hluti Jökulgilsins við okkur... og Grænihryggur... eins og lygileg teiknimynd þetta landslag...

Þessi klettur var fallinn... og eins og límdur með snjónum...

Já... þegar rýnt var í landslagið þá var þetta eins og teiknimynd eða fölsuð ljósmynd...

Við vorum hugfangin og dáleidd af þessari fegurð... eins gott að hafa vit á að njóta í hverju skrefi...

Sýnin til suðurs að sjó...

Þeir sem hingað til hafa gengið Hábarm hafa farið niður öxlina sunnan megin...
en kvenþjálfarinn vildi stytta þessa niðurleið þar sem löng leið var framundan og Örn ákvað að prófa þessa hér niður...

Hún var mjög fín og greiðfær... en hentaði ekki stórum hópi sökum grjóthruns... sem var verulegt á þessum kafla...

Svo þegar Örn fékk í sig grjót og særðist talsvert á fæti
var ákveðið að skipta hópnum í hluta og fara niður einn hópur í einu...

Það gekk mjög vel og allir fegnir að komast án þess að þurfa að verja sig frá grjóti ofar...

Sjá hér síðasta hópinn fara niður með fremri menn neðar...

Þess skal getið að þjálfarar fundu líka leið beint niður af Hábarmi í könnunarleiðangrinum tveimur vikum áður
þrátt fyrir mikinn bratta þar, en ákváðu að sú leið hentaði hópnum ekki
þar sem grjóthrun var augljóst í þeirri brekku (beint niður bratta brekku í góðum jarðvegi)
svo enn ein ástæðan fyrir því að við viljum ekki stærri hóp en 29 manns kristallaðist hér í þessu grjóthruni...

Háskerðingur og Skerinef efst á mynd hvítir af snjó eins og Torfajökull...
gráa röndin í honum er grjótruðningar þar sem jökullinn endar en ekki sprungur eins og einhverjir héldu...
nýfallni snjórinn tók í raun af okkur rétta sýn á Torfajökul
þar sem hann rann allur saman undir snjónum, þ.e. jökullinn sem situr efst og svo gular hlíðarnar sem nú voru huldar snjó...
því miður... en við komum hingað aftur síðar...

Hér teygðist heilmikið úr hópnum og fremstu menn búnir að bíða lengi þegar síðustu skiluðu sér niður...

Það var engu að síður ráð að halda vel áfram.... stutt síðan við áðum vel og borðuðum....
við áttum stefnumót við Grænahrygg þar sem næsta nestisstopp yrði...

Þjálfari var strangur við síðustu menn... og játar það fúslega hér...
en það var eina leiðin í þetta stórum hópi að fara svona flókna leið,
þar sem mikið var enn eftir og sólin tekin að lækka á lofti...
ströng tímastjórnun er stundum lykilatriði í svona krefjandi ferð og það dæmist á þjálfarann að taka þann gírinn...

Fegurðin er ólýsanleg á þessu svæði og það var dásamlegt að koma á nýtt svæði
fyrir þá sem hafa farið nokkrum sinnum um Friðlandið...

Hábarmur vinstra megin... og gilið sem við komum niður vinstra megin við miðju...
hefðbundin leið niður alla þessa öxl sem liggur þarna dekkri efst... lengir um rúman kílómetra leiðina
en hugsanlega ekki tafsamari þar sem hún er greiðfærari, allavega í stórum hóp...

Mennirnir tveir sem við sáum á undan okkur fóru hefðbundna leið niður af Hábarmi
og tóku svo hringleið niður hér og þaðan að Grænahrygg
en við styttum okkur leið um skarðið eins og fleiri hafa gert í gegnum tíðina...
og sáum ekki eftir því þar sem hún var sérstaklega falleg...

Hábarmur... þarna uppi vorum við... hjarta við fjallsræturnar hans...
hann verður aldrei samur í okkar huga eftir þessa ferð...

Skarðið þar sem við fórum um í átt að Grænahrygg...
nafnlaust eins og allt of margir tindar, hryggir, skörð, gil og ásar í þessu landslagi...

Eflaust eitt af lykilskörðunum í gangnamannaheiminum... nafnið þyrfti að skrást einhvers staðar...

Ægifagurt og endar í stórum snjóskafli milli gilja... sem er varasamur þegar nær er komið...

Björn Matt og kvenþjálfarinn héldu sig uppi í hliðarhallanum
en hópurinn tók skaflinn af einskærri forvitni því fagur var hann...

Við vorum smám saman að yfirgefa hefðbundið landslag og ganga inn í litadýrðina sjálfa...

Hábarmur hér... einstakt að ganga á hann og fara svona vel um fjallsrætur hans svo á leið á Grænahrygg...

Já, það er leið þarna beint niður fjær niður ásinn...
þjálfarar prófuðu hana en völdu hana viljandi ekki fyrir stóran hóp eins og þennan...

Skaflinn reyndist varasamur eins og þeir vanalega eru í giljum
en einmitt þetta samspil gilja og skafla einkennir þetta svæði...
sjá hellinn þarna sem menn skoðuðu...

Barmur og Halldórsfell hér... farin að nálgast hefðbundna leið að Grænahrygg um Halldórsgil...

Hrikaleikur og stórfengleikur þessa landslags sem er í Friðlandinu er engu öðru líkur...

Smæð okkar var áþreifanleg...

Nú gengum við fram á brúnir litakassans sem einkennir Friðlandið... við vorum komin...

Grænihryggur innan seilingar... og við dáleiddumst að honum...

Skrítið að vera komin hingað niður úr snjónum
og farin að ganga þessi litríku hryggi sem voru svo langt í burtu fyrr um daginn..

Guðmundur V., Kolbrún Ýr, Björgólfur, Njóla, Guðmundur Jón, Katrín Kj.
Hábarmur í baksýn...

Grænihryggur er einstök náttúrusmíð... en svo eru og allir hinir hryggir og gil í Friðlandinu...

Sveinsgil komið í ljós... vegalengdirnar leyndu á sér...

Tvímenningarnir... Viðar og Grétar... kvenþjálfarinn þekkti Viðar og það var mjög gaman að hitta þá félaga...
þeir voru á hefðbundinni leið á Hábarm að Grænahrygg um Kirkjufellsvatn
og svo til baka hinum megin við vatnið framhjá Hábarmi norðvestan megin...
sem var upprunalega leiðin sem þjálfarar ætluðu...
en breyttist þegar rútan kom til sögunnar og gaf þjálfara tækifæri
til að láta þennan langþráða draum um að ganga allt Jökulgilið til Landmannalauga rætast...

Grænihryggur... alltaf jafn kyngimagnaður...

Landslagið snertir mann djúpt... maður verður ekki samur á eftir...

Sumir voru að koma hér í fyrsta sinn... og sumir í sína fyrstu ferð um Friðlandið...
þau voru heppin með veður og leið... einstakt að upplifa þessar slóðir þennan dag...

Sveinsgilið... við hættum ekki fyrr en við erum búin að ganga hvern krók og kima í þessu Friðlandi...

Sveinsgilskvíslin vaðin...

... ísköld en þokkalega glær eins og áður...

Flækti aðeins að þurfa að vaða hér og halda öllu þurru því flestir voru græjaðir fyrir langa vaðið...
en þetta er hluti af óbyggðunum... að geta skellt sér yfir eina á sisvona...

Gula fjallið í Sveinsgili... sérstakt fyrirbæri eins og óteljandi önnur á svæðinu...

Nestistími númer tvö...
þriðji átti að vera í rólegheitunum ofan í Jökulgili fyrir vaðið en varð heldur endaslepptur
 í kapphlaupi við birtuna síðar um daginn... svo við bjuggum vel að því sem við borðuðum í þessum nestistíma..

Sjá innsýnina upp Sveinsgilið... töfrar... ekkert annað...

Sárið eftir grjóthrunið niður Hábarm á Erni... mikil bólga í fætinum (sést ekki á mynd)... en bólgan var horfin eftir Jökulgilið...
kældist eflaust niður þar... sem betur fer var þetta þjálfarinn og ekki annar sem fékk þetta grjót í sig...

Nú var komið að Grænahrygg...

Dáleiðandi fyrirbæri sem maður er alltaf jafn agndofa yfir...

Sjá hvernig hann endar bara grænn eins og ekkert sé eðlilegra niðri á eirunum...

Eins og honum hafi verið hellt niður af himni...

Bára og Björgólfur löguðu hann til neðst
þar sem hundurinn Batman sporaði hann út í sporðinum og það voru smá fótspor eftir fólk einnig...

Sólin tekin að lækka sig all vel og skuggar farnir að varpast á svæðið...

Við vildum ná hópmynd af okkur með honum áður en lengra liði á gönguna...
fjöldinn var slíkur að þjálfari reyndi ekki einu sinni að ná hópmynd uppi á Hábarmi
sem annars hefði verið gert í hefðbundinni Toppfara-tindferð...

Dalene og Björn Matt... þau stóðu sig frábærlega í öllu þessu brölti
þó heldur hafi þetta verið orðið erfitt í lokin út Gilið samt :-)

Sjá græna litinn...

Hábarmur orðinn blár í fjarskanum... var gulur nær fyrr um daginn...

Alls 43 manns... frábær hópur sem stóð sig framar vonum...

Alexander Eck (gestur), Alli (gestur), Arngrímur, Arinbjörn Ólafsson (gestur), Ágústa H., Bára, Bjarni, Bjarnþóra, Björgólfur, Björn Guðmundsson (gestur), Björn Matt., Dalene, Davíð, Fríða Jónsdóttir (gestur), Gestur Þór Óskarsson (gestur), Guðmundur V., Guðmundur Jón, Gylfi, Helga Atladóttir (gestur), Herdís, Hildur Magnúsdóttir (gestur), Inga Guðrún Birgisdóttir (gestur), Ingi, Jóhann Ísfeld, Jón Garðar, Jórunn Atla., Karen Rut, Katrín Kj., Kolbrún Ýr, Lára Skærings., Lilja Sesselja, Maggi, Magga Páls., Njóla, Ólör Rún, Sesselja Jóhannesdóttir (gestur), Sigga Sig., Sigurður Hjörtur, Sigurður L. Sigurðardóttir (gestur), Sigrún Eðvaldsdóttir (gestur), Þorleifur, Þóranna, Örn.

Af þessum 43 manns voru 31 Toppfari og 12 gestir...
þar af voru 20 reynslumiklir Toppfarar og 2 glænýjir klúbbmeðlimir
(sem virka þá eins og gestir þar sem þið þekkjum þau ekkert)
og nýliðarnir á árinu voru 9 sem er frábær þátttaka í tindferð.

Af gestunum tólf var 1 fyrrum Toppfari og 5 sem við höfum áður gengið með
og því eingöngu sex sem við vorum að hitta í fyrsta sinn... 
auk Vestmannaeyinganna Sigurðar Hjartar og Láru Skæringsdóttur
sem skráðu sig sem Toppfara fyrir þessa ferð en við vorum að ganga með í fyrsta sinn.

Upphaflega voru 49 manns skráðir í þessa ferð, 45 í rútu og 4 á jeppum
en alls afboðuðu sig 7 manns fram á síðustu daga fyrir ferð þannig að aðrir gátu nýtt plássin þeirra
en svo hættu alls 5 manns við á síðustu stundu og því voru eingöngu 40 manns í rútunni
og laus 5 sæti um morguninn þegar lagt var af stað.

Eftir Grænahrygg var upphaflega ætlunin að fara niður í Jökulgilið og vaða það alls 8 kílómetra leið niður í Landmannalaugar...
en Örn hafði fengið þá hugmynd að ganga Hrygginn milli gilja í staðinn og stytta vaðkaflann um 3 km með því.

Það varð á endanum niðurstaðan og tafði þessi leið okkur án efa því hann var seinfarnarni en okkur minnti frá því árið 2016...
en algerlega þess virði að mati stórs meirihluta hópsins þegar hann var spurður í rútunni eftir gönguna...

... og þjálfarar sáu heldur ekki eftir því...

Alger veisla þessi leið eftir Hryggnum milli gilja...

Við... Grænihryggur... og Hábarmur...

Torfajökull trónandi efstur vinstra megin...

Þrengslin stórbrotnu... eins og eitt stykki Hringadróttinssaga eða Harry Potter leikmynd...

Til að byrja með var Hryggurinn léttur yfirferðar...

... og við röktum okkur rösklega með honum til norðurs...

Grænihryggur og Kanilhryggur eins og við kölluðum þann gula árið 2016 og fleiri hafa gert...

Litið til baka... Háskerðingur efstur hvítur...

Litaðir hryggir Friðlandsins að Fjallabaki eru margir... óþekktir og ófrægir... en engu síðri en sá græni...

Ljósmyndararnir voru í vandræðum með að halda áfram...

Lilja Sesselja, Gylfi og Björgólfur.

Alli og Jórunn... Bjarnþóra, Jóhann Ísfeld... og fleiri alltaf fremst með Erni...
dúndurgöngumenn sem eru alltaf til í allt...
og hefðu líklega getað farið þessa leið tveimur tímum fljótar en 43ja manna hópurinn...
þessi hluti hópsins á skilið að fá stundum röskari tindferðir... eins og Hellismannaleiðin var í lok maí...
við skulum bjóða upp á slíkt nú í aðdraganda Laugavegarins næstu mánuði... og hér með almennt...
mergjað að ganga hratt þegar formið leyfir það og vera ekki sífellt að bíða
en svo eru rólegu göngurnar yndi líka... já, bæði betra er og mikilvægt að leyfa öllum að njóta sín :-)

Sólin settist hratt... og skuggar féllu á landið allt...

Litið til baka...

Háskerðingur og Sveinsgil...

Greiðfært enn um sinn...

Æj, erfitt að velja á milli mynda... allt svo fallegt...

Litið til baka á síðustu menn með grænu og brúnu hryggina sem liggja í röðum niður í Jökulgilið...
þarna niður ætluðum við... og byrja að vaða...

Hvílíkar brúnir að standa á og njóta... engu líkt...

Sveinsgilið hér ansi fagurt með Torfajökulinn trónandi efstan...

Framundan torsóttasti hluti Hryggjarins milli gilja...

Jökulgilið útbreitt hér sunnan Sveinsgilskjafts...
farið að slá skuggum yfir það í síðdegissólinni...
með vaxandi skugganum jókst uggurinn í brjósti þjálfarans...

Klöngrið byrjað...

Sjá fremstu menn efst hægra megin og Örn gulan að reyna að finna leið...

Örn reyndi að finna leið um klettana... en gafst upp og fór niður...

Þetta var betri leið... undir klettunum... hún reyndi samt á þá sem glíma við lofthræðslu
en það var gott hald í jarðveginum allan tímann
og ráðlegast í þessum aðstæðum að halda yfirvegun, stíga í spor undanfara og fara varlega...

Heilmikið klöngur á Hryggnum...

... og aldrei dauður punktur á þessari leið...

Slóðinn var góður til að byrja með frá Grænahrygg en hvarf nánast á millikaflanum...
menn eru greinlega ekki að fara almennt um Hrygginn alla leið eða hvað ?...
virðing... alla leið... fyrir gangnamönnunum á þessu svæði...

Það eru magnaðar lýsingar af göngum Fjallmanna á þessum slóðum í Árbók Ferðafélagsins 2010
sem þjálfari sá eftir að hafa ekki lesið í rútunni á heimleið...
partýið var þess lags í rútunni að það var kannski ekki stemning fyrir því... en gerum það næst...
skipulagið og útsjónarsemin er skemmtilegt að lesa um eftir að hafa gengið þetta
og séð hvernig landið skerst um allt í gil og kamba þannig að erfitt er að sópa fénu niður úr fjöllunum
án þess að tapa því á miðri leið inn eitthvurt gilið...

Mjög gaman að fara þessa leið í hina áttina frá því árið 2016...

... og það mun síðar um daginn með allt aðra sólargeislun en árið 2016...

Alltaf góð leið samt nema rétt í hliðarhallanum undir klettunum en samt var gott hald þar í raun...

Þessi leið var mun erfiðari síðast... þá var allt hart hér og lítið hald í jarðveginum...

Nú var hann bljúgur og góður alla leið yfir...

Komin yfir fremstu menn... sjá hliðarhallann...

Og sjónarhornið frá öftustu mönnum...

Sveinsgilið að Sveinsgilskjafti hér... Halldórsfellið og svo Halldórsgilið handan brúnanna þarna fjærst ...

Litið til baka á brekkuna... hún reyndi á árið 2016 en var ekkert mál núna...
öfugt við klettana fyrr um kvöldið sem voru léttir árið 2016 en tóku í núna 2019...

Aftur smá klöngur en þetta var smáútgáfa af því sem var að baki...

Brekkan sem þjálfarar mundu ekkert eftir... enda fórum við niður hana árið 2016...

Farið undir klettana hér...

Í stórum hópi eru svona kaflar tafsamir og taka stóran toll af tímanum
þar sem minni hópur þarf ekki að bíða svona lengi eftir öllum...

Sveinsgilið... einhver óttablandin virðing er fyrir þessu gili... hér lést erlendur ferðamaður um árið..
féll niður um snjóskafl og festist undir honum þar sem áin rann...
hafði djúpstæð áhrif á okkur þá og við gleymum þessu slysi aldrei...

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/14/franski_ferdamadurinn_latinn/

Alls kyns sögur um slæmt göngufæri í Friðlandinu bárust okkur vikurnar fyrir þessa ferð
og því höfðum við áhyggjur af færinu þennan dag en það reyndist hið besta
og skálavörður í Landmannalaugum sagði okkur þegar þjálfari hringdi í þau vikuna fyrir þessa ferð
að sögusagnirnar skrifuðust fyrst og fremst á fjölda óvanra göngumanna á svæðinu
sem jókst umtalsvert í kjölfar frétta af hjólurunum sem skemmdu Grænahrygg
og menn vildu skyndilega skoða fleiri en áður...
færið er engu að síður oft erfitt í þessu landslagi ef það er þurrt, en við vorum svo heppin
að það var búið að rigna heilmikið síðustu daga áður en við komum...
og því var okkar mat á færinu miðað við sögusagnirnar í raun ekki samanburðarhæft...

Síðasti erfiði kaflinn á Hryggnum að baki...

Nú var bara þessi brekka eftir...

Litið til baka... Klettakaflinn á Hryggnum sést vel hér...

Hábarmur... aftur orðinn ljós að lit í kvöldsólinni...
svo gaman að vita núna nákvæmlega hvernig allt lítur út þarna uppi....

Mönnum hraus hugur við brekkunni sem var framundan...
allir þreyttir og ekki í stuði fyrir brölt upp í mót... langt liðið á daginn og allt vaðið enn eftir...

Litið til baka yfir Jökulgilið og Hrygginn milli gilja sem var að baki..
Háskerðingur efstur hvítur og Torfajökull vinstra megin...

En brekkan sú var ekkert mál... þjálfari tók tímann... vorum innan við tíu mínútur upp hana...
tíu mínútna brekka var því ekkert til að kvíða fyrir svona eftir á að hyggja...

Þaðan var ekkert nema niður í mót...
Jökulgilið þar sem við ætluðum að byrja að vaða farið að blasa við okkur...

Fegursti staður á Íslandi... Friðlandið að Fjallabaki... án efa...

Þegar sólin hvarf á bak við ský varð allt grárra...

... en svo kom sólin aftur...

... og þá varð allt svo gullið og fallegt...

Hér voru þjálfarar orðnir ansi uggandi yfir því sem enn var eftir...
allt Jökulgilið askvaðandi og engin vissa um hvernig árnar væru...
og ekkert símasamband... þjálfari reyndi margsinnis að gefa rútubílstjóranum stöðuna á hópnum
svo enginn færi að hafa áhyggjur af okkur en um leið að kveikja á því,
ef við myndum ílengjast niður í gilinu og lenda í vandræðum...
en náði eingöngu smá sambandi og svo ekki aftur...

Þetta beið okkar... fremstu menn farnir niður á eirarnar...

Allir búnir að hugsa alls kyns leiðir til að vaða... ekki í boði að fara í og úr vaðskóm...
þar sem þetta yrðu svo margar ár... eingöngu hægt að fara í einhvern þægilegan búnað og vaða í honum alla leiðina...

Menn voru því í utanvegaskóm... eða strigaskóm... eða vaðskóm... og sumir búnir að vefja um sig plasti upp á læri...

Fegurðin var sláandi niðri í Gilinu... en enginn hafði tíma til að njóta... streitan var allsráðandi...
það var flókið að klæða sig í og úr... græja sig... fara í allt sem maður átti, helst allir í ullarpeysu að ofan...
og borða vel á undan til að fá hita og brennslu í líkamann fyrir allan kuldann framundan í ánum...
eins og þjálfari sagði öllum að gera...

Já, borða vel til að hafa orku og brennsluna í líkamanum á fullu til að hindra ofkælingu...
því hún var sannarlega ógn... þegar vaðið er margsinnis yfir jökulár á löngum kafla...
með sólina sesta og kólnandi hitastig næturinnar að skríða inn...

Þjálfari ætlar að skrásetja reynslu allra af þessu vaði... hvað virkaði best...
hverju geta menn mælt með fyrir næstu ferð... hverju myndu menn breyta fyrir næstu ferð ?

Þjálfari ætlaði að spila lagið "Fataskáp afturí" í Gilinu og hita þannig alla upp andlega...
en rafmagnsleysi í símanum og áhyggjur af því sem var framundan kom í veg fyrir það...

Ullin reyndist skipta öllu máli í vaðinu... vera í ullarsokkum... og ull að ofan líka...

Þjálfari var í hlaupabuxum, uppháum ullarsokkum og utanvegaskóm... það var fullkomin samsetning...
kom á óvart hversu gott það var... myndi fara aftur í þessu...

Síðustu menn voru mun lengur að græja sig en þeir fyrstu... sem voru löngu farnir þegar við vorum enn að hér...

Það var því ekkert annað í stöðunni fyrir okkur öftustu menn
en að fara yfir Sveinsgilskvíslina neðst til að ná hópnum...

... enda lærði Örn það strax að það þýddi ekkert að eyða tíma í að finna betra vað
eins og hann gerði með því að fara upp eftir aftur hér yfir Sveinsgilskvíslina...
það var einfaldlega sóun á orku og tíma...

Þessi var ekkert verri en allar hinar sem biðu okkar... það var eins gott að byrja bara og láta vaða...

Þetta var ákveðið frelsi... að fara bara askvaðandi niður eftir... árnar ekki lengur hindrun...
heldur verkefni til að fara yfir eins og þær lágu fyrir...

Björn var berleggja þennan kafla eins og örfáir aðrir og það var ansi kalt þegar á leið...
skjálfandi úr kulda síðasta kaflann...
 lexían sú að það er ekki sniðugt þegar farið er svona kafla á vaði nokkra kílómetra...

En stór hluti af leiðinni var þurr, greiðfær og grýttur eða söndugur...

... sem betur fer...

Hábarmur varðaði leiðina alla leið niður eftir eins og hann væri að gæta okkar og passa að allt færi nú vel
hjá gestunum hans frá því fyrr um daginn...

Björgólfur reyndi að skipta um skó á hverju vaði fyrsta kaflann...
en gafst svo upp á því... því hann dróst of mikið aftur úr...

Stundum voru sandbleytur sem leyndu á sér... en aldrei hættulegar að manni fannst
en stundum svo óvæntar að menn duttu... Bára og Björn ansi illa allavega og voru öll í leir...

Björn datt verr en Bára og blóðgaðist á fæti  enda berleggja og Bára fékk mar á fótlegginn...
slík voru höggin við að stíga út í sandbleytuna og detta fram á við...

Í síðustu ánni sem var straumhörðust... þar sem hún beygir fyrir Reykjakolli
var Örn kominn í ansi mikið dýpi haldandi á hundinum Batman og datt fram fyrir sig svo þeir blotnuðu báðir upp að hálsi...
þeir kröfluðu sig í landi en þetta leit ekki vel út að sögn viðstaddra...

Hundurinn NB náði að vaða allar árnar þó hann næði ekki alltaf til botns og fór þá á sundi
en þessi síðasta á var dýpri en hinar og því fékk hann far með Erni en lenti í volki í staðinn og var hvekktur á eftir...

Menn tóku ekki mikið af myndum eða myndböndum á þessum kafla...
en það sem var tekið er dýrmætt... og segir mikið...
sbr. myndband þjálfara og Arngríms... sem voru líklega þau einu sem tóku þetta upp ?
oh... verðum að fara aftur ! :-)

Já, við verðum að fara þetta aftur... með sólina hátt á lofti og allt gullið eins og þetta gil er alltaf...

Árnar voru almennt góðar yfirferðar og kaflinn þar sem Örn og Batman lentu í vandræðum var sérlega slæmur
en hinir lentu ekki í þessu sama dýpi þó hún væri jú dýpri en hinar...

Þjálfari fylltist lotningu við að ganga út Jökulgilið.... í huga hennar er þetta heilagur staður...

... og dagana á eftir togaði þessi staður í hana mjög sterkt... við verðum að fara aftur... í betra veðri...
og skárri tímasetningu dagsins...

Öll vöðin sem framundan eru í sögu Toppfara næstu árin...
hljóta þau örlög að vera alltaf borin saman við þessa sögulegu askvöðun niður Jökulgilið...

Rökkrið skreið smám saman yfir meðan við örkuðum þetta... yfir hverja ánna á fætur annarri...

Hábarmur enn vaktandi fólkið sitt... ennþá veifandi takk fyrir innlitið...

Litirnir svo fallegir og töfrarnir enn áþreifanlegir þó húmið væri tekið að leggjast yfir allt...

Síðasti kaflinn hér...
eftir að hafa komist yfir dýpstu ánna við Reykjakoll var vaðið skyndilega búið...
 framundan langur kafli á grjóti að Landmannalaugum...
hvílíkur léttir þegar við uppgötvuðum þetta...

Vaðkaflinn sjálfur er því líklega um 3ja kílómetra langur
þar sem aðkoman frá Hryggnum er talsverður áður en byrjað er að vaða
og kaflinn að Laugum er líka talsverður...

Þessi síðasti kafli reyndi alveg á í rökkrinu...
en feginleikurinn yfir því að vaðið var að baki sló öllu öðru við...

Birgir rútubílstjóri hefði ekki getað lagt rútunni á betri stað... beint þar sem við komum gangandi út Gilið...
dásamlegt... partýið löngu byrjað þegar síðustu menn skiluðu sér inn...
enda munaði líklega um hálftíma á fyrstu og síðustu mönnum...
sumir búnir að fara á wc og skipta um föt þegar eftirlegukindurnar komu til byggða...

Dúndurstemning og einstök gleði ríkti þarna við rútuna...
það er meira gefandi og meiri orka sem fylgir því að fara í krefjandi ferðir og ögra sjálfum sér...
gera það sem maður hélt að maður gæti ekki... koma sjálfum sé á óvart... sigra hið óhugsandi í krafti hópsins...

Einstakt... ógleymanlegt... ómetanlegt... bestu göngufélagar í heimi... alltaf til í allt... þá gerast nefnilega töfrar...

Birgir keyrði okkur heim af miklum myndarskap í myrkrinu og stakri ljúfmennsku allan tímann...
með norðurljósin dansandi yfir okkur hálfa leiðina...

Eitt stopp í myrkrinu með stelpu-wc á aðra hlið og strákana hinum megin...
þar upplifðum við myrkrið alltumlykjandi á hálendinu og norðurljósin ofan okkar... ógleymanlegt..

Batman var þreyttur... eflaust hvekktur eftir fallið í ánni...
hann kom áberandi áhyggjufullur á móti kvenþjálfararnum í myrkrinu þegar hún var að ganga síðasta kílómetrann að rútunni...
áhyggjur hans af eiganda sínum yfir þessar ár sem reyndust honum erfiðar voru greinilegar...
hann var blautur og reyndi að hvílast í rútunni...
en var hálf friðlaus og gekk reglulega um gangana og svaf að hluta á rútuganginum en ekki á koddanum sínum...

Enn af ókostum þess að fara allar ferðir í rútu eru hundarnir... þeir komast þá almennt ekki með
sem er óhugsandi fyrir alla þá sem eiga þessa fjallavini sína að...

Skálað fyrir afreki dagsins... stórkostleg ferð og mjög krefjandi...
aðdáunarvert að klára þetta á áttræðisafmælisárinu Björn Matthíasson !
Þetta munu fáir leika eftir á þessum aldri :-)

Mögnuð frammistaða...
mergjaður félagsskapur...
 ógleymanlegt afrek...

Sjá slóð dagsins gula í samanburði við tvær fyrri ferðir á þessu svæði...
Græna frá Laugum að Hatti, Uppgönguhrygg og Skalla 2015
Bláa frá Kýliingum upp á Barm og Hrygginn milli gilja að Grænahrygg og til baka um Halldórsgil

Og myndin neðar þar sem Háskerðingsganga 2018 er rauð
og Laugavegsgangan 2008 er blá


 

Enn ein ævintýralega fallega gangan á þessu svæði
en þessi skorar hæst á afreksstuðlinum
og státar af Jökulgilinu sjálfu sem togar nú þegar strax í mann aftur...
... norðurljósin dansandi á himninum í bakaleiðinni í myrkrinu
keyrandi rúma þrjá tíma í bæinn endandi hálf tvö aðfararnótt mánudags... 
undirstrikuðu vel hvílík hágæðaferð þetta var...

Hvílíkur staður að vera á... þetta Friðland að Fjallabaki...

Sjá myndband þjálfara af ferðinni:
https://www.youtube.com/watch?v=0lkNzCtcGG0&t=5s

Sjá gps-slóðina á Wikiloc:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=41147774

Lexíur þáttakenda í vaðinu niður Jökulgilið
alls átján sinnum yfir Jökulkvíslina að hluta eða alla:

Bára þjálfari:
Get ekki annað en mælt með því sem ég var í. Kom á óvart hvað það virkaði vel.
Var í þykkum dry-fithlaupabuxum með skel-lagi framan á hnjám og lærum (set inn nafnið á þeim þegar ég veit það), uppháum ullarsokkum og í Salomon utanvegaskóm úr Ölpunum. Upplifði að buxurnar blotnuðu einhvern veginn ekki (ekta hlaupabuxu-upplifun) og þær urðu aldrei þungar. Mjög þjálar til göngu almennt í langan tíma. Skórnir urðu aldrei þungir af bleytu þar sem þeir hrintu vatninu frá sér (dreneraðist alltaf út eins og utanvegaskór eru hannaðir til að gera), botninn á þeim var þykkur og bólstraði því vel gegn grýttum árfarveginum á 5 km löngum göngukafla.
Uppháu ullarsokkarnir gáfu hita sem ég fann áþreifanlega fyrir því mér var mun kaldar á lærum en fótleggjum þó það væru fótleggirnir sem sífellt fóru á kaf í árnar. Ullin var því að gefa varma umfram það sem ég átti von á. Mun því aftur fara í öllum þessum búnaði. Grunar. að síðar ullarnærbuxur séu vel að virka við þessar aðstæður og hefði viljað prófa að klæða mig í plastpoka utan um sokkana (ekki utan um skóna) en nennti ekki að klæða mig í þá þennan dag.

Björgólfur:
Þetta var skemmtilegur kafli, man ekki eftir að hafa gengið 5km við svona aðstæður. Sýnist þú hafa verið með nokkuð góða lausn Bára, hnéháir ullarsokkar (ullin heldur hita þótt hún sé blaut) og skór upp fyrir ökla (minnkar líkur á að sandur og smásteinar fari ofan í skóna þannig að maður verði sárfættur). Ég prófaði neóprem skó af kafarabúning. Í þeim verður manni ekki kalt á fótunum við að vaða (ólíkt t.d. strigaskóm) en þótt sólinn á þeim sé góður við flestar aðstæður reyndist hann of þunnur til að maður gæti haldið uppi góðum gönguhraða á þessum grýtta árfarvegi. Skipti því yfir í Scarpa gönguskóna (með þykkum vibramsóla) og gat þá gengið hratt en á móti varð maður kaldur á fótunum. Eftir á að hyggja hefði verið gott að hafa Tevu-sandala með og fara í þá yfir neópremskóna (það er hægt að lengja vel í ólunum á Tevunum), þá hefði manni bæði verið hlýtt á fótunum og ekki orðið sárfættur á göngunni. Prófa það kannski næst :-)

Björn Matt:
Var sjálfur í ullarsokkum og gömlum strigaskóm með þykkum botni. Renndi skálmunum af fjallabuxunum og gekk berleggjaður í ánum, en ég mæli ekki með því. Mér var orðið helkalt á fótum og reyndar öllum skrokknum þegar ég kom í rútuna. Sem betur fer var Dalene svo forsjál að vera með rauðvín á Worldclass plastbrúsa, að hún gat komið hita í gamla manninn á leiðinni heim. Sjálf var hún í síðbuxum og legghlífum, sem gegnblotnuðu en héldu sæmilegum hita á henni. 

Helga Atla:
Ég var í venjulegum göngusokkum, laxapoka (frá Bjarna, takk fyrir) upp á tæri teypaða upp á læri, gamaldags ullarsokkunum þar yfir og utanvegahlaupaskó sem virkuðu mjög vel. Ég blotnaði þar sem áin fór uppfyrir laxapokana. En mèr var hlýtt og þetta virkaði mjög vel.

Herdís:
Ég var berleggjuð í göngusokkum og utanvegarhlaupaskóm. Smurði aðeins með vaselini upp á leggina. í stuttri ullarbrók og stuttbuxum yfir og svo í öllum ffötunum mínum að ofan, síðerma ullarbol, lopapeysu, dúnúplu, skel og með húfu og vettlinga. Þetta var bara fínt fyrir utan að skórnir voru orðnir slitnir og því kannski ekki með nógu góðan sóla. Þegar leið á fann ég hvernig kuldinn byrjaði aðeins að læðast að. Var samt aldrei mjög kalt. Myndi gera þetta eins aftur en þá vera í minna slitnum skóm og sokkum úr 100% ull. Ég var með prjónaðar lopalegghlífar með mér og var tilbúin til að skella mér í þær ef mér hefði orðið mjög kalt en svo var ekki. Það var hinsvegar mjög gott að fara í þær þegar ég fór í þurrt og vera í þeim á leiðinni í bæinn. Fannst þetta hrikalega gaman:-)

Inga Guðrún:
Ég óð síðustu 5 km með því að vera í uppháum þunnum ullarsokkum og öðrum þykkum uppháum sokkum úr meira fráhrindandi thermo gerfiefni utanyfir. Utan yfir þetta fór ég í laxapoka sem bundið var fyrir neðst og límt að læri efst, spontant ákvörðun tekin á staðnum og elskulegur göngufélagi sem ég veit ekki nafnið á, gerði kleift. Þar utanyfir plastið var ég í grófbotna opnum sandölum sem ég gat hert vel að fæti. Ég nennti ekki úr göngubuxunum en bretti þær þess í stað uppfyrir hné svo þær blotnuðu minna, innanundir var ég í hlýjum ullarhjólabuxum. Það gekk vel að vaða árnar þ.e. þetta virkaði vel, ég blotnaði lítillega en mér var ekki kalt og ég get mælt með þessu. Hefði getað vaðið nokkra kílómetra til viðbótar:-) Frábær upplifun! Ég sá samt að nokkrir voru örlítið tæpir að vaða, horfðu mikið ofan í strauminn og sumir óðu einir. Helsta tipsið til þjálfara er að vera strangari á að enginn vaði einn þ.e. amk 2-3 klemmi sig saman og vaði árnar svo ekki fari illa.

Jóhann Ísfeld:
ar í göngusokkum, þunnbotna strigaskóm og stuttbuxum. Var ansi kalt til að byrja með en vsndist vel og tók allar bólgur úr fótunum.

Jórunn Atladóttir:
Var í venjulegum Brooks hlaupaskóm, angóru ullarsokkum og merina ullarbuxum sem ég dró upp á læri í vaði. Leið vel allan tímann. Ad ofan var ég vel klædd, í ullarbol, flís og ullarpeysu (riddara sem ég prjónaði sjálf :-)

Lilja Sesselja:
Við Gylfi vorum í vatnsheldum sokkum, gönguskónum og legghlífum yfir, við fundum ekkert fyrir kulda né bleytu :-)
Ég hefði viljað ganga allt gilið :-)

Maggi:
Ég var í göngubuxum en ekki í síðum naríum. Dró buxurnar upp undir hné (náði ekki að koma þeim ofar), fór í Hoka utanvegaskó (ný tegund frá Everst, sem ég mæli með) og var í milliþykkum göngusokkum. Skórnir eru með þykkum og mjúkum botn og var grjótið í ánni ekkert að plaga mig. Þeir eru mjög léttir og hleyptu vatni auðveldlega út þegar ég kom upp úr. Að vísu fór lítillega af sandi inn í skóna en ég þurfti ekkert að losa þá á leiðinni. Neðsti hluti buxnanna blotnaði en samt ekkert upp eftir lærinu. Það var að sjálfsögðu kalt að fara út í vatnið í fyrstu en það vandist ótrúlega vel og fljótlega virkaði bara gott að fá kælingu á lúnar fætur. Mér varð ekkert kalt annars staðar á líkamanum og í raun ekki á táslunum að ráði nema meðan vaðið var og fyrst eftir að komið var upp úr.  

Magga Páls:
Ég bar vaselin á kálfana var í ullarnærbuxum og göngubuxum sem ég lét vera á sínum stað. Var í gönguskónum. Var vel klædd að ofan og varð ekkert kalt nema rétt á fótunum sem gerði mér ekkert til. Var með húfu og vettlinga. Ég bara óð yfir lönd og láð og fílaði mig svolítið eins og Zombie. Leið ágætlega en mikið var maður feginn þegar maður sá "til byggða"

Njóla Jónsdóttir:
Ég var í ullarsokkum og í gönguskónum og fann ekkert fyrir kulda ,fannst þetta miklu minna mál en ég hafði ýmindað mér

Sigga Sig:
Ég var í ullarbuxum og göngubuxum og bretti upp á læri en þær blotnuðu samt. Í ullarsokkum og íþróttaskóm sem virkaði vel og þeir urðu ekkert þungir. Það er held ég ekki sjéns að forðast kulda í þessu vatni. Mér varð allri mjög kalt, þó í lopapeysu og innra lagi en skokkaði á milli kvísla til að reyna að ná í mig hita. Virkaði ágætlega svona framan af. En ég er mjööög kulsækin.

Sigríður Lisbet:
Ég vippaði mér yfir í gömlu utanvega hlaupaskóna. Eldsnögg.Var áfram í utanvega hlaupasokkunum mínum, sem eru geggjaðir. Skipti ekki um buxur. Mjög létt á fæti. Fór mjög rösklega yfir þennan kafla. Geggjað gaman og hressandi :-) Mér var funheitt.

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir