Tindferð
Síldarmannagötur frá Hvalfirði að Skorradalsvatni
laugardaginn 16. mars 2019

Síldarmannagötur
óhefðbundna leið að hluta
í ægifaguri vetrarbirtu... tærri fjallasýn
heilandi víðáttu og yndisfélagsskap
... með vott af vori í lofti ...

Loksins drifum við okkur um gönguleiðina Síldarmannagötur sem við höfum í rauninni ekki nennt að fara hingað til
en löngu var kominn tími til að fá í safnið... og völdum til þess marsmánuð í von um að ná snjó yfir öllu,
harðfennu færi og sólinni skínandi yfir allt saman...
 og það rættist nokkuð vel og í kaupbæti fengum við smá vor í lofti Skorradalsmegin...

Veðurspáin var mjög góð þennan dag
og við ætluðum að ganga um fannhvítar breiður með sólina skínandi allan tímann...

Það var hins vegar skýjaðra þegar á hólminn var komið...
ólíkt Vestursúlu og Norðursúlu þar sem spáin varð skýjaðri en svo rættist betur úr þegar á reyndi og er það okkar reynsla...
veðrið er yfirleitt betra en spáin segir til um...

Þjálfarar keyrðu Draghálsinn og beygðu svo inn Skorradalinn sunnan megin við Skorradalsvatn
og ætluðu sér alla leið inn eftir eða til vara langleiðina og voru búnir að spá í færðina
og töldu að fannfergi myndi ekki hamla för í því árferði sem að baki var...
en það hvarflaði ekki að þeim að vegurinn væri mjög illfær almennt...

Í fullkomnu grandaleysi gagnvart því að jeppaslóðinn væri illfær eða ófær almennt
keyrðu þjálfarar inn hann í stað þess að fara handan vatnsins
og keyra malbikuðu leiðina í gegnum sumarhúsabyggðina alla leið út í austurenda Skorradalsvatns
þar sem hefðbundinn endir er á Síldarmannagötum...
enda hafði kvenþjálfarinn séð þennan veg óbyggðahlaupi sumarið áður um Síldarmannagöturnar fram og til baka

Jeppaslóðinn var greiðfær lengstum en öðru hvoru voru sundurskorningar eftir læki sem renna úr hlíðunum
þar sem keyra þurfti mjög hægt yfir
og á einum stað voru skaflar sem höfðu skafist yfir veginn en allt var þetta akstursfært jeppum
en síður jepplingum sem menn voru einnig á þennan dag
og hefðum við betur lagt áherslu á að við værum öll á hæstu mögulegu bílum en þeir voru nefnilega skildir eftir í bænum...

Komin rúmlega hálfa leið inn eftir vatninu völdu þjálfarar neðri slóðina meðfram vatninu í stað þess að fara veginn gegnum skóginn
en hefðu betur gert það þar sem slóðinn meðfram vatninu endaði á eiðinu þar...
en slóðinn gegnum skóginn var vel fær að sjá þegar við gengum hann svo í lok dags
og ætla má af wikilocslóðum annarra sem gengið hafa svipaða leið og við...

Hér létum við hins vegar staðar numið og ákváðum að þrælast ekki meira á þessum erfiða vegi.
 Við vorum komin það langt inn úr að það tæki því ekki að eyða tímanum í meiri akstur en þetta átti eftir að naga kvenþjálfarann
sem kom af fjöllum við yfirlýsingar leiðangursmanna um að það væri ekki bílfært kringum Skorradalsvatn og hvergi vegur á kortum um slíkt...
enda kom í ljós í göngunni að allavega þrír í hópnum höfðu nú reyndar keyrt þennan hring...
það er jú vegaslóði alla leið kringum vatnið og hefur verið til margra ára...
og alls staðar þar sem sást til vegarins ofan frá þegar leið á gönguna þá virtist vegurinn ágætlega fær...
hann lak út að vatninu á einum stað sýndist manni..hugsanlega blautur þá eða grýttur...
en annars virtist þetta vera nokkuð sléttur slóði meðfram vatninu...
svo þjálfarar fara pottþétt í bíltúr í sumar og skoða þetta betur...
sá sem keyrt hefur Vesturgötuna... Kjaransbrautina svokölluðu úr Dýrafirði í Arnarfjörð
hefur ekkert séð fyrr en eftir þá leið... sem kennir manni að það er margt hægt að komast á jeppa ef keyrt er rólega :-)

En þetta var fínn staður og í könnunarleiðangri þjálfara síðasta sumar var hún búin að sjá að það skiptir í raun ekki máli hvar lent er niður í Skorradal norðan megin þar sem skógurinn og hlíðarnar eru fallegar út eftir öllu og sumir sem farið hafa þarna yfir hafa einmitt endað meðfram vatninu sunnan megin en ekki í botninum á Skorradal... svo við ákváðum að hlæja bara að þessu eins og annarri vitleysu sem er að baki
og gera gott úr stöðunni eins og alltaf... annað er bara svo leiðinlegt :-)

Það voru fleiri en við á göngu á þessu svæði þennan laugardagsmorgun þegar svona vel viðraði...
Ferðafélagið gekk á góða spá á Þyril... og voru í sólskinsskapi eins og við...

Við lögðum af stað gangandi kl. 9:12...
eftir akstur úr bænum kl. 7:00 og keyrslu helmings bílana yfir í Skorradal í leiðinni...

Vestursúla og Norðursúla veifuðu ákaft þennan morgun og þökkuðu fyrir síðast...
stórkostleg ganga að baki þar tveimur vikum áður þar sem Örn blés til aukagöngu vegna glimrandi góðrar veðurspár
og voru menn ekki sviknir af þeirri útiveru...

Dásamlegt veður einnig þennan laugardag en þó vindur og skýjaðra
og ekki alveg sama eindæma blíðan eins og á Botnssúlunum fyrr í mánuðinum...

Farin var hefðbundin leið lengstum um Síldarmannagötur... upp stíginn áleiðis á Þyril...

Sjá skýin lemjast utan í fjöllunum í vindindum sem var spáð þó nokkrum til að byrja með um morguninn...
en svo átti að lægja þegar liði á daginn...
og þessi veðurspá rættist mjög vel því blíðskaparveður var Skorradalsmegin...

Sólin skein á nærliggjandi fjöll og allt var kristaltært og fallegt... litirnir sterkir og skærir...

Hvalfjarðarbotn... það verður gaman að klára öll tólf fjöllin kringum Hvalfjörð í lok árs...

Þjálfarar höfðu stungið upp á því að bæta Þyrli við göngu dagsins þar sem hann er alveg í leiðinni...
líklega um 3,8 km viðbót við Síldarmannagöturnar sjálfar...
en menn voru almennt á því að sleppa honum í smá áhyggjukasti yfir því að við skyldum hafa þurft að skilja bílana eftir vestar en áætlað var
 á jeppaslóðanum meðfram vatninu og þar með ekki að fara hefðbundna leið niður í Skorradal
sem þýddi hugsanlega lengingu á leiðinni...

Menn gáfu lítið fyrir fullyrðingar kvenþjálfarans um að þetta yrði óveruleg breyting
því beygja þarf til hægri inn að botni Skorradals á hefðbundinni leið í stað þess að taka þessa vinstri beygju inn að okkar stað
og fullyrti þjálfari að með þessari breytingu værum við að sleppa við að vaða stærstu ána á leiðinni...
já... svona til að gera nú gott úr þessu :-)

Svo við slepptum því Þyrli að sinni og gengum hefðubundna leið upp á heiðina...
en hann var ekki lengi að redda sér inn á dagskrána úr því svona fór
og sannfærði þjálfara um að breyta desembertindferðinni úr Vörðuskeggja í Skyrhlíðarhorn og Gunnuhorn áleiðis á Þyril í leiðinni
óhefðbundna leið norðvestan megin í stað þess að fara suðaustan megin
og erum við nú þegar spennt fyrir að fara þessa leið í lok árs...

Já, auðvitað ! ... einmitt til að geta horft yfir öll fjöll Hvalfjarðar og rifjað upp göngur ársins kringum hann alllan...
það verður flottur endir á árinu :-)

Það var virkilega gaman að ganga þessa leið upp á Þyril og svo áleiðis inn á heiðina að vetrarlagi
en við höfum einu sinni farið á Þyril að vetri til... en það var fyrsta ganga ársins í byrjun janúar á þriðjudegi
og því allt í myrkri allan tímann...

Nú upplifðum við víðáttuna sem þarna er... fjallasýnina í allar áttir... hvíta eins langt og augað eygði...
og frelsið sem gefst þegar farið er upp úr fjörðum og dölum upp á meginland fjallanna...

Þyrill hér í baksýn... Akrafjallið í enda Hvalfjarðar... og fjöllin öll beggja vegna hans...
meðal annars Þúfufjall og Brekkukambur sem við göngum á þriðjudagsæfingu í vor sem og Reynivallaháls sunnan megin...

Færið var okkur hagstætt þennan dag... ekki djúpur snjór... heldur snjóföl yfir hörðu undirlagi
en það var mjög svellað undir eftir hlýjindakafla fyrr í vetur og því vorum við komin á keðjubroddana eftir nestistímann
þó okkur fyndist það hálfgert stílbrot...
en það var rétt ákvörðun því þar með þurfti maður ekkert að spá í hvað var undir þar sem stigið var...

Þegar keyrt er úr bænum kl. 7:00 og bílar ferjaðir á milli enda- og upphafsstaðar
og gengið svo af stað er hungrið fljótt að sverfa að
og því fengum við okkur nesti á skásta staðnum sem við fundum á heiðinni...
með grjótvörðu til skjóls að litlum hluta...

Ár og lækir voru frosin og allar áhyggjur þjálfara af bleytu voru óþarfar en þetta er almennt blaut leið fyrri hluta sumars
og getur verið mjög leiðinleg að vori til svo við vorum sannarlega á réttum árstíma hvað þetta varðaði...

Himininn lék stórt hlutverk í fegurðarskömmtun dagsins eins og alltaf þegar vindar blása
og við biðum þolinmóð eftir því að allt róaðist eins og spárnar höfðu lofað...

Þessi kafli meðfram ánni er mjög fallegur að sumri til og því er nauðsynlegt að fara þessa leið á þeim árstíma líka
fyrir þá sem voru að fara hér um í fyrsta sinn...

Fegurðarskyn þjálfara hefur breyst í gegnum árin...
skyndilega eru eyðilegar heiðar fullar af gersemum á hverju strái...
litabrigðin í alls kyns birtu symfónískt meistaraverk náttúrunnar...
en það er ekki annað hægt en mæla með óbyggðahlaupi þessa leið ef menn geta...
eða röskri göngu fyrir sterka göngumenn... nú eða notalegheit alla leið á sumardóli með allan tímann í heiminum...

Hér fórum við að sjá til fjalla austan megin og Hvalfellið reis úr heiðinni ásamt Botnssúlunum...

Það var bjartara sunnan megin... en það átti eftir að létta heilmikið til og lygna...

Himininn blár til vesturs og suðurs...
birtan var ægifögur og það fólst mikil heilun í að ganga þarna uppi með alla þessa víðu sýn á landið til allra átta...

Við vorum fljótlega komin á hæsta punkt leiðarinnar um Síldarmannagötur...
vörðurnar þarna tvær merkja hann vel og við stefndum þangað...

Augun sjá þetta mun betur en myndavélin en þarna sáum við þrjú þekkt fjöll í röð...
öll mismunandi blá... þessi sýn var kyngimögnuð...
Kvígindisfell fremst hvítt og uppljómað sólinni...
Skjaldbreið þar fyrir aftan hvít en í skugga...
og Hlöðufell dekkst aftast...

Menn voru með alls kyns útfærslur á að halda vatnsslöngunum sínum ófrosnum úr bakpokanum...
Lilja Sesselja búin að prjóna úr ull kringum slönguna sína...

Jóhanna Fríða með gráa klæðningu og hulstur utan um drykkjarstykkið...

Guðmundur Jón með svart einangrunarefni...
hann fullyrti að þetta væri besta vörnin af öllum því hún var þykkust og vindheldust
og því líklegust til að halda vatninu fljótandi í frosti og vindi...

Við gengum að vörðunum tveimur í von um að sjá fjallasýnina til norðausturs efst af heiðinni...

Sjá til baka... bjartara inn að Esjufjallgarðinum öllum...

Þessi mynd fangar fegurðina ekki nægilega vel þarna...
en þessi blái litur sem þarna var við sjóndeildarhringinn og sá hvíti ofar og svo mosagrænuþúfurnar neðar...
var eins og ekki af þessum heimi...

Hrein forréttindi að upplifa þetta... og án efa dýrmætara fyrir sálina en við gerum okkur grein fyrir...
verðugt rannsóknarefni ef framkvæmanlegt að kanna heilandi... líknandi... læknandi áhrif af svona sýn á alls kyns veikindi...
ekki eingöngu andleg heldur og líkamleg... þjálfari er sannfærð um að það að ganga og upplifa svona sýn
sé að gera meira fyrir heilsuna en mörg lyfin og aðrar meðferðir...

Brátt kom fjallasýnin til norðausturs í ljós...

Hópmynd með jöklana og fjöllin þeirra í baksýn en fjarlægðin er of mikil fyrir myndavélina að sýna nægilega vel...
augun fönguðu þetta hins vegar af stakri snilld svo við gátum notið...

Efri: Ólafur Vignir, Jóhanna Fríða, Guðmundur Már, Heiða, Bjarni, Bestla, Björn H., Guðmundur Jón.
Gylfi, Lilja Sesselja, Örn, Sigríður Lár., Birgir og Bára tók mynd og Batman var eini hundur ferðarinnar.

Við lékum okkur aðeins með vörðunum áður en við lögðum af stað niður í mót til norðurs í átt að Skorradal...
þarna búin að vera um þrjá tíma á leiðinni og rúmir 6 km að baki...

Leiðin Skorradalsmegin er ólík leiðinni Hvalfjarðarmegin þar sem hjallar og skorningar tóku nú við
en þjálfarar voru með eina gps-slóð af hefðbundinni Síldarmannagötugöngu í gps-tækjunum sínum
og við vorum lengstum á þeirri slóð niður að Skorradal...

Veturinn bauð okkur upp á aðra upplifun en sumarið...
smá rennsli niður eitt gilið í stað þess að fóta sig á slóða...

Lendurnar hér niður eru mjög fallegar með giljum, lækjum og fossum...

Við skoðuðum þennan vel en vantar nafn á hann...

Hvalfellið og Botnssúlurnar í fjarska... rafmagnslínurnar á þessum kafla skemma mikið fjallasýnina því miður
og eins fór sjarminn svolítið við línuveginn sem skerst hér í gegn og fer í gegnum hefðbundnu leiðina neðar
þar sem áin rennur einnig í gegn og hana þarf að vaða að sumri til
en við fórum ekki yfir hana þar sem við gengum fljótlega úr þessu vestar en venjulega er gert...

Enn vorum við að fara hefðbundna... stikaða leið...
mun lengur en þjálfarar áttu von á miðað við við að vera að stefna að bílunum okkar en ekki fara hefðbundna leið niður...

Í könnunarleiðangri þjálfara síðasta sumar þar sem hún fór ein með Batman hlaupandi fram og til baka úr Hvalfirði
mátti sjá fleiri en einn slóða á þessum kafla og menn greinilega margir að afvegaleiðast yfir á línuveginn
og ganga hann hér með niður í Skorradal en það voru líka slóðar utan vegarins og við vorum ennþá á einum þeirra á þessum kafla.

Sjá hér Grafardal þar sem línuvegurinn liggur upp Hálsinn...
en þarna í fjarska mátti sjá skógrækt og bæ þar sem Gylfi átti minningar af að hafa gist
og gengið á Skessuhorn á degi tvö eftir Síldarmannagötur að hluta deginum á undan...

Hér skein sólin í heiði og Bestla stakk upp á nestispásu sem var gripið feginshendi...
áðum lengi og nutum friðarins sem þarna var... og áttum innihaldsríkar samræður eins og alltaf...

Sjá fannfergið hér búið að kaffæra nánast girðinguna...

Nú var veðrið orðið fallegt í allar áttir... og við komin út af hefðbundinni leið...

Lognið mætt á svæðið og við nutum þess að dóla okkur um sveitina ofan Skorradals...

Sjá friðinn sem kominn var í himininn...

Við stefndum á bílana en tókum króka ef eitthvað spennandi var að sjá eins og þessi útsýnisstaður hér...

Skarðsheiðin í fjarska vinstra megin... Dragafellið í vestri...

Skarðsheiðin hægra megin í skugga... Þórisjökull... Langjökull... Fanntófell... Ok...
og fleiri fjöll sem augað greindi en myndavélin á erfitt með að greina á milli...

... eins og Prestahnúk sem reis með axlirnar sínar bak við Fanntófellið en sjá má sama útlit á því og hér
af mynd tekin ofan af Fanntófelli í septembertindferðinni 2018...
af því við sumir áttu erfitt með að trúa því að þarna sæist glitta í Prestahnúk bak við Fanntófellið
þarna ofan af heiðinni við Skorradal en þjálfari var sannfærður af því útlínurnar voru einmitt þessar...
axlirnar og höfuðið...

Smátt og smátt birtist Skorradalsvatnið í allri sinni mynd neðan okkar og var hulið ísbreiðu að mestu...

Óskaplega fallegt og við nutum þess að vera í þessari blíðu þarna uppi...
sjá botn Skorradals þar sem menn enda yfirleitt... leiðin er meira aflíðandi og greiðfærari en sú sem við fórum
gegnum þéttar brekkur í skógi niður að veginum við bílinn...

Við skáskárum okkur niður hlíðarnar í gegnum kjarr og mosa...

... yfir læki og frosna fossa...

Hér tók vottur af vori á móti okkur og við vildum hvergi vera nema hér þennan dag...

Hundarnir hafa vit á að hvíla sig þegar mannskepnan staldrar við...
þreyta farin að segja til sín þegar þeir hætta að skondrast um allt meðan við áum...

Nema þetta sé útsjónarsemi... sparsemi á orku...  skynsemi...

Þrír leiðangursmenn voru í prjónapeysu með sama mynstrinu... þetta er greinilega Toppfaramynstrið hér með !

Guðmundur Már, Björn Hermanns og Guðmundur Jón.. töffarar og englar í senn...
eðalmenn inn að beini og við erum óskaplega þakklát að hafa þá innan okkar raða...

Já... þetta var orðið að sumargöngu á köflum... alveg yndislegt...

Bílarnir niður á eiðinu sem farið er að sjást í hér fyrir miðri mynd....

Mikils virði að ganga niður að Skorradalsvatni í þessum vetrarbúningi...

Nú var spurning að fara að lækka sig... en Örninn hélt áfram út eftir hlíðinni...

Hér fórum við niður... þræddum okkur meðfram læknum í von um að skógurinn yrði ekki of úfinn...

Það lofaði góðu til að byrja með...

En flæktist fljótlega neðar... en við skemmtum okkur vel við að kljást við trén...

Tókum því fagnandi að vera komin í annað en frost og snjó...

Þetta minnti á Morsárdalinn og skóginn þar forðum daga árið 2013...

... þar sem við þurftum að þvælast í gegnum skóg Skaftafellshlíðar meðfram Morsá
sem hafði á köflum sópað stígnum burt svo færa þurfti sig ofar...
berandi tjald, útilegubúnað til 2ja nátta og jöklabúnað á bakinu...
 eftir að hafa farið að Morsárlóni sem fáir hafa séð í nálægð...
eftir að hafa gengið á Miðfellstind og að Þumli sem eru einn svipmesti tindurinn í Skaftafelli...

Ómetanleg ferð sem verður dýrmætari eftir því sem árin líða...

En þennan marsdag vorum við bara stödd í Skorradalnum og rifjuðum upp góða tíma...
á milli þess sem við bogruðum undir þessa kræklinga... hlógum og kölluðum á hvort annað svo enginn týndist...

Dásamlegur kafli og vel þess virði að hafa farið rangan veg inn að Skorradalsbotni
því annars hefðum við aldrei fengið svona fallegan endi á göngunni...

Vegurinn var svo genginn smá kafla og niður á sumarið við eiðið...
 þar sem vordrullan var þvegin af skónum...

Þetta var létt ganga þó frekar löng væri...
klukkan ekki margt og einhverjir höfðu orð á því að við hefðum vel getað tekið Þyril í leiðinni...

Já, þetta er létt leið og því hægt að mæla með henni við alla sem eru eitthvað að ganga...
yndisleg útivera og mjög gaman að ná henni loksins í safn Toppfara...

Við skulum fara hana aftur síðsumars... meðan allt er enn í blóma... fara þá Skorradalsmegin í hina áttina...
það verður spennandi að sjá leiðina í hina áttina... og á öðrum árstíma...

Það voru heilir 5 km frá þessum stað inn í botn að endastað hefðbundinnar Síldarmannagötugöngu...

Takk Skorradalsvatn... fyrir falleg kynni af þér í vetrarham... friður þinn er einstakur... og fegurðin óumdeild...

Alls 16,7 (16,6) km á 6:24 klst.

Klukkan var ekkert... ekki orðin fjögur og við búin að ganga...
heimkomin vorum við um fimmleytið... þrátt fyrir ferjun bílanna fram og til baka...

Upp í 492 m hæð með alls 601 m hækkun miðað við 28 m upphafshæð.

Sjá okkar leið gula, bláa hefðbundin leið niður í botn Skorradals og sú bleika frá Alexeir á Wikiloc þar sem þau reyndar lækka sig niður í botn og ganga svo jeppaslóðina til vesturs en leiða má líkum að því að þau hafi gert eins og við að keyra slóðann meðfram vatninu og þetta hefði þá líklega verið sá staður þar sem þau treystu sér ekki til að fara lengra ? Væri gaman að vita það :-)

Sjá árnar sem þarf að fara yfir ef farið er austarlega eins og hefðbundin leið er, en við sluppum við með okkar vesturleið...
Lendurnar nær vatninu eru mjög fallegar að sumri til í grósku og lækjum en þjálfari fór vestar við Fitjáá þegar hún fór sumarið 2018.

Sjá afstöðuna í stærra samhengi... Skorradalsvatn er með eindæmum ílangt stöðuvatn...
væri gaman að ganga eftir því öllu í nokkrum göngum...

Eftir göngu beið okkar að keyra sama jeppaslóðann til baka og ná í bílana við Þyril í bakaleiðinni heim..

Snjórinn farinn sem var um morguninn... vegurinn bljúgari...
og nú fóru menn úr bílnum sem var lægstur þegar hann fór yfir mestu vatnskorningana...
Jóhanna Fríða hefði betur mátt fara á sínum fjallabíl...

Þegar lent var við þyril var annar gönguhópur að ljúka sinni göngu að Glym og um brúnirnar til baka
og því var líf og fjör þegar við kvöddum sæl og þakklát með einstaklega fallegan dag ...
hlaðin orku af víðáttu og tærleika sem hvergi gefst nema í óbyggðunum...

Hvílíkt lán að hafa heilsu og tækifæri til að geta upplifað svona dag... si svona... 
það er langt frá því sjálfsagt í stóra samhengi heimsins... og vert að minna sig á það reglulega...

Sjá myndband af göngunni í heild hér:
https://www.youtube.com/watch?v=V0HoZe64RVo

Sjá slóðina okkar á Wikiloc þar sem sjá má fleiri útgáfur af göngum um Síldarmannagötur frá öðrum:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=34332266

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir