Tindferð 160
laugardaginn 25. ágúst 2018
Háskerðingur Kaldaklofsfjöllum frá Álftavatni

Háskerðingur ? ... jú...
fegursti útsýnisstaður á landinu...

Fimmta ferðin upp um Friðlandið á Fjöllin að Fjallabaki - seríunni...
var farin laugardaginn 25. ágúst árið 2018...

Að baki voru kyngimagnaðar ferðir
... á Bláhnúk, Hamragilstind, Suðurskalla, Hatt, Uppgönguhrygg, Skalla, Vörðuhnúk og Brand 29. ágúst 2015...
... Barmur, Jökulgil, Hryggurinn milli gilja, Grænihryggur, Sveinsgil og Halldórsgil þann 3. september 2016...
... Krakatindur og Rauðufossafjöll þann 12. ágúst 2017
.. og loks skelltum við okkur í aukaferð upp á Löðmund þann 4. nóvember í fyrra 2017...
með snjó yfir öllu mitt í töfrum hálendisins...

Það var því kominn tími á að ganga á hæsta tindinn á fegursta svæði landsins...
litríku fjöllunum kringum Jökulgilið þar sem Grænihryggur og Kanilhryggur liggja...
si svona... inni á milli ótal hryggja og dala...

Veðurspá var góð þennan dag... smá ógnun af rigningarskúrum af og til...
en við vorum vongóð um að sleppa og lognið og hlýindin sem voru í kortunum lofuðu góðu...
enda var morguninn þessa síðustu helgi í ágúst heiðgulur af sumarsælunni sem beið okkar uppi á hálendinu...

Þetta var ekki eingöngu fjallgönguferð... heldur og jeppaferð um slóðir sem ekki allir höfðu keyrt áður
og því var spenningurinn ekki síður í kringum akstursleiðina sjálfa...
en þjálfarar voru búnir að liggja yfir veðurspám og tala við nokkra jeppamenn um færið inn eftir og vatnssöfnun í ánum...
minnugir þess að hafa oftar en einu sinni verið á tæpasta vaði yfir Markarfljót og Kaldaklofskvísl...

Eitt af mörgum kostum þessa fjallgönguklúbbs er nægt framboðið af jeppum til farar eins og þessarar... það er ekki nóg með að það sé nóg af jeppum... við getum alltaf valið stærstu jeppana og því enduðum við á að skilja jeppa þjálfara heima á sínum 31 tommu... allir heppar dagsins voru á stærri dekkjum og í engum vandræðum með það sem var framundan...

Jóhann Ísfeld hér að hleypa lofti úr dekkjunum þegar komið var inn á leiðina upp með Keldum...

Leiðin inn með Keldum en sérstaklega skemmtileg og sannarlega "að fjallabaki"...
þar sem maður fær að sjá hinar hliðarnar á fjöllunum sem eru að baki okkar gegnum árin...
Þríhyrningur hér... en aksturinn norðan við hann minnti þjálfara á löngu liðna áætlun um að ganga á hann þvert og niður norðurhlíðarnar einhvurn daginn... sú leið blasti við þegar nær var komið og lofar góðu...

Tindfjallajökull var og skoðaður baksviðs á leiðinni inn eftir
og vakti enn og aftur upp margar hugmyndir um göngur framtíðarinnar...

Þegar komið var inn að Laufafelli hófst hinn eiginlegi jeppaakstur... leiðin fram að því var greið og hraðfarin...

Aksturinn gegnum hraunið sunnan við Laufafellið er ævintýri líkast og minnti á Dómadalsleið...

Fegursti tíminn á árinu á hálendinu... snjórinn farinn sem mest hann getur... grænkan loksins komin í köld fjöllin...
og sólin farin að lækka á lofti með tilheyrandi bleikum, rauðum og appelsínugulum litum...

Til að komast framhjá Laufafelli þarf að keyra nokkur hundruð metra ofan í Laufalæk
sem gerir þennan kafla að akstursleið sem maður man alla tíð frá því maður fór hann fyrst...

Því miður mistókst upptaka þjálfara á akstrinum með Laufalæknum en aðrar upptökur tókust
og samantekið er aksturinn hér:
https://www.youtube.com/watch?v=EBNRNRM552o&t=18s

Virkilega skemmtileg leið sem við nutum öll að fara um...

Við mændum upp í fjöllin... og hrukkum við þegar skýhnoðrar létu sjá sig...
var nokkuð að þykkna upp í fjöllunum... ?...

Laufafell... eitt af fjöllunum sem við þurfum að skella okkur upp á og bæta í safn "Fjallanna að Fjallabaki"...
ekki löng né flókin né erfið ganga... og því tilvalið að grípa góðan dag og leggja á þetta fjall haustdag einn...
 eins og við gerðum með Löðmund... þó það sé komin smá snjóföl yfir allt...

Markarfljótið reyndist mun greiðfærara en við höfðum haft áhyggjur af
enda farið ofarlega... þar sem eingöngu kvíslar úr Rauðufossafjöllum eru mættar á svæðið...
og ekki jökulvatnið úr Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli né Tindfjallajökli...
sem rennur neðar út í þessa magnaða stórfljót...

Þjálfari var búinn að fá alls kyns ráð frá jeppamönnum um hvar væri best að fara yfir...
en leiðin neðar eins og slóðinn var... reyndist greið og best...

Smátt og smátt kom ævintýraheimurinn í ljós eftir því sem ofar dró...

Tindfjallajökull... mjög fallegur frá Friðlandinu...

Leiðin um ásana niður að Álftavatni er sérlega falleg og gefur gott útsýni um allt svæðið...

Við þurfum svo að fara upp í Hungurfit einn daginn...
þar leynast fögur fjöll sem þjálfarar skoðuðu fyrir nokkrum árum og bjuggu til Toppfaraferð...
meðal annars Stóra og Litla Grænafjall...

Torfatindur vinstra megin og Stóra Grænafjalll fjær... Tvíeggjar hægra megin...

Komin að Álftavatni... spegilslétt vatnið segir allt um veðrið sem var þennan dag...
þangað við göngunni lauk... því þá skelltu veðurguðirnir sannarlega í lás á eftir okkur...

Jeppagengið hans Magga... á Bellacruisernum:

Agnar, Gunnar Már, Aðalheiður, Davíð og Maggi.

Fjallaflandrarinn hennar Jóhönnu Fríðu:

Heiða Björk, Birgir, Jóhanna Fríða og Erna.

Gamli Gráni hans Inga:

Bára, Örn, Ingi og Bjarni.

Uxinn hans Jóa:

Kolbrún Ýr, Sarah, Jóhann Ísfeld og Ísleifur.

Við skildum jeppana eftir á beygjunni áður en snúið er að skálunum sjálfum við Álftavatn og héldum af stað gangandi kl. 9:22...
já... það er þess virði að vakna kl. 5:00... og leggja af stað keyrandi kl. 6:00... í svona ferð...
og það átti eftir að reyna á þetta í göngunni... því rétt eftir að við yfirgáfum hæsta tind...
mættu skýin á svæðið og veðrið breyttist...

Við gengum í raun miðjulegginn af Laugavegsgönguleiðinni öfuga leið frá Álftavatni nánast upp að Hrafntinnuskeri en áttum eftir að beygja stuttu áður að Háskerðingi og horfa niður á skálann í Hrafntinnuskeri ofan af tindinum...

Talsverð umferð gangandi fólks var á svæðinu sem kom okkur á óvart á þessum tíma dags...

Við vissum jú, að Laugavegurinn sem gönguleið er vinsæl allt sumarið fram á haustið...
og þá aðallega erlendir ferðamenn...

...en að það væru að koma svona margir gangandi niður að Álftavatni rúmlega níu um morguninn...
hvenær í ósköpunum lögðu þau þá af stað frá Hrafntinnuskeri ?... um sexleytið ?

Grashafakvísl er eina vaðið á þessari leið...

... og við komumst upp með að stikla á steinum yfir hana...

... og þurfa ekki að vaða á táslunum...

Framundan var löng og ströng brekkan upp... svokölluð Álftavatnsbrekka...

... sem reynist Laugavegshlaupurum oft þrautin þyngri að halda velli... jafnvægi... og hraða...
án þess að steypa lærvöðvana í krömpum og þreytu
sem jafnvel hefur stundum skemmt afganginn af hlaupinu fyrir þeim sem ekki æfa brekkur nægilega vel...

Fjallasýnin sem þessi leið gefur kom smátt og smátt í ljós...

... og þó maður hafi farið þessa leið mörgum sinnum... þá kom fegurðin engu að síður á óvart...
þetta er einstakt svæði og Laugavegsgönguleiðin á réttilega skilið að vera talið með fegurstu gönguleiðum í heimi...

Við mættum nánast eingöngu erlendum ferðamönnum... í misgóðu ásigkomulagi...
þessi stúlka hér á sandölum... sagðist vera með blöðrur á hælunum eftir gönguna
deginum áður frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker...

Slóðinn er vel troðinn alla leiðina... eiginlega of mikið... það er ráð að rukka inn á þessa leið að okkar mati... og nýta peningana í uppbyggingu á svæðinu... takmarka jafnvel fjöldann á henni.... en ekki stýra umferðinni í eina átt eins og FÍ hefur verið að hóta síðustu ár... þar spilar eflaust fyrst og fremst inn í hagsmunir þeirra með að einfalda sölu á gistingu í skálunum sínum... og rök um að það trufli upplifunina að mæta fólki sem er að fara í aðra átt... vegur ekki nægilega þungt að okkar mati í samanburði við þær takmarkanir sem það veldur... því það hlýtur að vera skemmtileg upplifun að ganga Laugaveginn í báðar áttir...

Slík boð og bönn eru vandmeðfarin... og við vonum innilega að FÍ komist ekki upp með þessa fyrirætlun sína...
nær væri að takmarka fjöldann á leiðinni og rukka inn gjald eins og er gert á mörgum þekktum gönguleiðum...
en það þýðir minni tekjur í náttstað... það þarf allavega að vera alveg ljóst þegar svona ákvarðanir eru teknar
að viðskiptahagsmunir séu ekki hinir raunvegulegu ástæður þó huldar séu og þær faldar bak við önnur rök...

Þessi ganga okkar væri ekki möguleg ef búið væri að banna göngu öfuga leið um Laugaveginn...
og það verður að segjast eins og er... að þetta var allt önnur upplifun... að ganga í þessa átt heldur en hina hefðbundnu...
 þó þetta væri í fimmta sinn sem kvenþjálfari fer hér um...

Hópmynd með veisluna sem Álftavatnsbrekkan gefur... þrjá jökla... og fjöllin öll frá Álftavatni að Emstrum...

Töffararnir mínir... ljúflingarnir mínir...

Ingi, Jóhanna Fríða, Gunnar Már, Bjarni, Kolbrún Ýr, Örn, Heiða Björk, Davíð, Birgir, Maggi, Erna, Ísleifur, Jóhann Ísfeld,
Sarah, Aðalheiður, Agnar og Bára tók mynd og Batman smalahundur þefaði allt uppi sem þefað gat á svæðinu...

Samveran og samræðurnar í svona göngu eru ómetanlegar... við bindumst böndum sem eru órjúfanleg...
og valda því að þó einhver detti út úr göngum jafnvel árum saman... eru tengslin enn jafn sterk...
og væntumþykjan gagnvart félögunum jafn mikil...

Kvenþjálfari laug því að hópnum að dökki tindurinn sem skagaði yfir svæðinu og rís við Háskerðin væri Skerinef...
en hún komst að því að það var ekki rétt... Skerinef var ofar og innar... þetta var Svartihryggur svokallaði...

Náttstaður erlendra ferðamanna um nóttina... magnaður staður til að tjalda... undir Svartahrygg...

... og minnti á tjaldbúðirnar sem við gengum einnig fram á í sumar á leið á Kristínartinda...

Álftavatnsbrekkunni var loksins að ljúka... ofar beið hópurinn og var farinn að borða nesti...
Sjá Álftavatn vinstra megin.

Háskerðingur kom nú í ljós... og var sem betur fer skýlaus... þetta myndi vonandi sleppa...
það væri grátlegt að vera komin með ský á hann og ekkert útsýni loksins þegar við værum komin þarna upp...

Nestisstaður við Jökultungurnar... einn af ævintýralegustu stöðunum á landinu...

Slæðufoss í Jökultungum... Laugavegsgönguleiðin ofan við hann...

Í átt að Mýrdalsjökli... Útigönguhöfði ? og Ófæruhöfði ? ... já líklega...

Álftavatn og nágrenni... hvílíkur staður... !

Stóra súla, Hattfell, Brattháls - Illasúla, Stóra Grænafjall og Torfatindur...

Við skulum ganga á öll þessi fjöll næstu árin... hættum ekki fyrr en þau eru öll komin í safnið...

Dásamleg nestispása hér á mosanum... blankalogn og heitt í sólinni...

Skýin voru farin að safnast upp... við vildum ná þessum tindi áður en þau yfirtækju svæðið...
sem gat vel gerst því það átti að þykkna upp upp úr hádeginu...
það var ráð að halda áfram...

Við vorum enn stödd á Laugavegsgönguleiðinni sjálfri en það styttist í að fara út af henni
og stefna á þennan flata tind sem skreytir margar ljósmyndirnar af þessum kafla Laugavegarins...
og þjálfarar hafa haft augastað á í mörg ár...

Svartihryggur er ekki svo svartur þegar nær er komið...
hann ver sig með grýttu gili sem veldur að það er aðeins flóknara en svo að skella sér þarna upp si svona á leið um Laugaveginn...

En hann er vel fær ofar frá snjónum við Háskerðing... en fyrirætlanir þjálfara um að gera þetta ef aðstæður leyfðu urðu ekki að veruleika enda var Háskerðingur fullkominn tindur og einhvern veginn var óviðeigandi... hálfgerð helgispjöll... að upplifa annan tind þegar þangað var komið...
sálin hafði einfaldlega ekki pláss fyrir meira...

Laufafell og Hekla þarna í fjarska niður með Jökulgili...

Já... það var önnur upplifun að fara þessa leið öfuga leið... við ætluðum einu sinni að ganga Laugaveginn öfugan
og byrja á Fimmvörðuhálsi... það varð ekki úr því miður... við ættum að gera þetta einn daginn... eins og reyndar svo margt annað...
en orð eru til alls fyrst... við erum nú þegar búin að framkvæma margt sem einu sinni var fjarlægur draumur...

Merkingar á Laugaveginum fara batnandi... var virkilega svona langt í Hrafntinnusker ?

Jökultungurnar eru sérstakur staður... litirnir og hitinn eru mætt...

Slæðufossinn... algerlega magnað... sjá tvo smáa göngumenn uppi hægra megin...

Fegurðin á þessari leið var heilandi... og við vorum marga daga að ná áttum eftir hana...

Jarðhitinn var um allt þarna uppi... ótrúlegur staður til að vera á...

Nú beygðum við út af hefðbundinni gönguleið Laugavegarins og héldum í átt að Háskerðingi...

Háhitasvæði framundan innan um ísinn sem aldrei fer allt árið um kring...

Litið til baka...

Þessi græni litur... mosinn á hálendinu lætur ekki að sér hæða...

Komin í þúsund metra hæð en hiti um allt...

 ... og litirnir magnaðir...

Gul fjöll og grænar hlíðar...

Þrátt fyrir allan hitann á svæðinu þrjóskaðist sífrerinn við...

Við eltum gps-slóð frá fleiri en einum sem farið höfðu upp á Háskerðing og enginn slóði virtist vera á leiðinni...

Rauðir lækir... þetta minnti á upptök Rauðufossa...

Við gengum gegnum jarðhitasvæðið og hverirnir drundu um allt...

Einhver kraftur var þarna... svo langtum stærri en við...

Og litirnir maður minn... ekki af þessum heimi... svo einfalt er það...
einmitt þess vegna gefa þessar göngur manni eitthvað óraunverulegt...
sem erfitt er að lýsa fyrir þeim sem ekki voru á staðnum...

Gullnir litir á öllum skalanum...

Allt litrófið var þarna...

Mosi sem þolir allt... og lifir allt af...

Þetta var mjög falleg leið að jöklinum...

Ekki langt síðan þessar hlíðar urðu snjólausar...

Menn fundu slóð ofar en það var of seint... Örninn elti sitt gps og það fór þessa leið... og við eltum...

Hann valdi viljandi að fara ekki upp á ásana fyrir ofan því það þýddi brölt upp í mót
til þess eins að lækka sig aftur niður á jökulinn í stað þess að fara snjóinn jafnt og þétt upp eftir...
en þetta reyndist fínasta leið til baka...

Hlýjan í litunum var einstök...

Lungamjúkt landslag og formfagurt...

Þarna var funhiti og blankalogn... þrátt fyrir að vera komin í ellefu hundruð metra hæð...

Hvílíkur staður til að vera á...

Við vorum komin á jökul og það var vert að fara varlega...
en hallinn var slíkur að engar jökulsprungur áttu að flækja för...

...en þær mátti sjá ofar þar sem meiri halli kom í landslagið...
og við áttum eftir að stíga yfir þrjár rifu-sprungur á leiðinni...

Frábær hópur á ferð...
þessi ferð fór í sérflokkinn og við áttum eftir að rifja hana upp næstu vikurnar með sérstakt blik í augum...
sérstaklega þegar helgi eftir helgi var rok og rigning og engin leið að fara á fjall...

Sjá færið hér... í fínasta lagi...

Ekkert fikt með myndirnar úr þessari göngu frekar en vanalega... þetta svæði á það ekki skilið...
myndirnar eiga að fá að vera eins og þær voru teknar... það þarf ekki að ýkja litina eða samsetninguna í myndunum... eins og allt of algengt er að gera... sem veldur að þetta fallega svæði veldur svo vonbrigðum þegar menn eru búnir að liggja yfir ýktum ljósmyndum af lygilegum litum sem standast ekki raunveruleikann... litirnir eru nefnilega lygilegir eins og þeir eru... njótum þeirra frekar en falsmynda takk :-)

Þessi blái og guli litur...

Frá jökli til jökuls... og allt þar á milli...

Þessi síðasti kafli upp á Háskerðing leyndi á sér upp jökulinn...

Fremstu menn nutu þess að fara á sínum hraða síðasta kaflann upp skaflinn...

Þrír Kilimanjaro-farar í ferðinni (Bjarni, Ingi, Kolbrún Ýr) og einn Everest Base Camp fari (Birgir)...

Síðustu menn fóru þetta á hlátrasköllum og líflegum umræðum...

... og skemmtu sér konunglega í hverju skrefi...

Við fórum síðustu metrana á gleðinni og þakklætinu yfir að fá að vera þarna á þessum stað á þessari stundu...

Sniðgengum skaflinn sem var frosinn á jöðrunum á köflum og smá sprungur í honum neðar...

Sjá hér ofan á Svartahrygg... ekki flókið að ganga á hann héðan og eftir bungunum út í enda
og þaðan niður og mun gilið til baka... ekta Toppfaraútúrdúr... en ekki í þetta sinn...
sem betur fer því veðrið versnaði hratt eftir að við snerum við...

Sýnin ofan af brúninni efst... skaflinn og grjótið efst... Jökultungurnar, Álftavatnsbrekkan, Álftavatnsfjöllin og Tindfjallajökull...

Skúraleiðinar mættar á svæðið sunnar og vestar... og Tindfjallajökull að hverfa í skýin...

Útsýnið niður að Hrafntinnuskeri...

Það var eins gott að drífa sig upp og njóta útsýnisins áður
en þessi tindur félli líka í valinn á skúraleiðingunum sem voru farnar að ógna svæðinu...

Á austurbrúnunum blasti skyndilega allt svæðið kringum Jökulgil og Landmannalaugar að Torfajökli við okkur
og varð þetta ein áhrifamesta brún sem við höfum nokkurn tíma upplifað...

Til norðurs...

 

Til suðausturs... sjá Hábarm efstan á miðri mynd... við ætlum að ganga á hann næst...

Torfajökull hægra megin á mynd...

Smá nærmynd á símanum... þarna mátti sjá Hatt og Uppgönguhrygg sem við gengum á árið 2015...

Og Barm og Hrygginn milli gilja að Grænahrygg sem við gengum á árið 2016...

Hábarmur nær... á hann er best að ganga frá Kirkjufellsvatni...
og við munum þá fara að Grænahrygg í leiðinni og til baka...

En svo er líka spennandi að ganga á önnur fjöll á svæðinu... spáum í þetta... !

Torfajökull... þessi tindur virðist ekki eiga nafn í Torfajökli...
svo við munum þá skíra hann einhverju fögru nafni út frá örnefnum á svæðinu
þegar við göngum á hann í framtíðinni ef ekkert nafn finnst þegar að þeirri göngu kemur...

Löðmundur fjærst margtindóttur... sem við gengum á í fyrravetur í magnaðri ferð í sjálfum nóvember takk fyrir !

Útsýnið var kyngimagnað allan hringinn...

Við vorum í sæluvímu og fengum okkur nesti og dönsuðum og sungum á tindinum...
jebb... það var farið alla leið sko !

Útsýnið niður að Álftavatni... sjá skúraleiðingarnar...

Skerinef... loksins komst það í augsýn og fékk rétta viðurkenningu á tilvist sinni :-)

Mýrdalsjökullinn allur... og Mælifellssandur norðan við hann... við verðum að fara á þetta svæði takk í náinni framtíð !

Til suðausturs... Torfajökull vinstra megin...

Nær til suðausturs - frá Jóhanni Ísfeld.

Tindurinn á Háskerðingi var viðfeðmur og gjöfull á útsýnisstaði...

Moli, Jóhann Ísfels og Davíð að skoða öll fjöllin nær og fjær...
við sáum til Vatnajökuls og leituðum að Sveinstindi við Langasjó...

Torfajökullinn sjálfur hér útbreiddur...

Og nær - mynd frá Jóhanni Ísfeld.

Afstaðan ofan af Háskerðingi til vesturs - Hekla efst og Laufafell vinstra megin - frá Jóhanni Ísfeld.

Allar ljósmyndir Jóhanns úr ferðinni hér - magnaðar myndir !

https://photos.google.com/share/AF1QipMyOjUmuYM0Aj8jEpNIDPgQji1Ls2Y71tuM6uRd5iCQq6zQF-zw4JAek5jatHZrLQ?key=UnBVR2JueWtfR3NjbDdoWGpqSTFkSTIzMklHWWx3

Við vorum stödd á mögnuðum útsýnisstað...

Niður að Hrafntinnuskeri með Löðmund og Suðurnámur þarna lengst í fjarska.. og Sprengisand enn fjær...

Nesti og dans og söngur...

Þjálfari lagði til um morguninn kl. sex... að spila þetta lag og dansa við það á tindinum
og þessir snillingar bara gerðu það eins og ekkert væri ! :-)

https://www.youtube.com/watch?v=GxMN5_zUpcI

Stelpurnar á Háskerðingi :-)

Erna, Jóhanna Fríða, Kolbrún Ýr, Helga Björk, Bára og Sarah.

Strákarnir fengu því miður ekki mynd af sér... en þeir voru 11 á móti 6 konum í þessari ferð...
karlmenn nánast alltaf í meirihluta Toppfaragangna...
*sem er frábært því almennt er það öfugt og konur í miklum meirihluta :-)

Jebb... hópmynd hér... ekki spurning... yfir fegursta stað landsins... Jökulgil og nágrenni...

 

Við munum aldrei gleyma þessum stað...

Davíð, Agnar, Jóhann Ísfeld, Kolbrún Ýr, Bjarni, Maggi, Örn.
Birgir, Helga Björk, Ísleifur, Jóhanna Fríða, Sarah, Erna og Ingi,
Bára tók mynd.

Við lögðum af stað niður í sól og blíðu og það veður átti eftir að ríkja meira og minna á niðurleiðinni
utan eins skúrs sem skall á okkur efst í Jökultungunum... svo stytti upp aftur...
en þykknaði fljótt og við vorum komin í helkulda við Álftavatn eftir gönguna...
sem var í hróplega ósamræmi við það sem á undan var gengið...

Niðurleiðin var ekki síður falleg og nú með hálendið kringum Álftavatn og jöklana þrjá í fanginu frá hæsta punkti...

Hrafntinnan glitraði innan um gulu steinana... Maggi fann einn gullfallegan...

Já... við hættum ekki fyrr en öll þessi fjöll eru komin í safnið...

Enginn gekk á Háskerðing þennan dag nema einn hópur erlendra ferðamanna sem voru undir fararstjórn íslenskrar konu
en hún var að fara þarna upp í annað sinn frá því fyrir 20 árum síðan... 
hún var í skýjunum eins og við og bókstaflega ölvuð af fegurðinni þegar við mættu þeim fyrr um daginn á uppleið en þau á niðurleið...
þau voru að koma frá Hrafntinnuskeri og tóku aukakrók hingað upp þar sem veðrið var með besta móti...
og því komu þau hér upp við ásana hægra megin á myndinni... og fóru sömu leið niður... voru klukkutíma á undan okkur eða svo...
en þar sem við fo´rum vinstra megin við ásana enduðum við á að fara á undan þeim niður að Álftavatni...
það munaði það miklu um þessa beygju...

Við svifum niður... ölvuð er eina rétt orðið yfir ástandið...
og það sást vel á þessu fólki sem við höfðum mætt þegar við fórum upp...
nú skildum við afhverju þau voru svona hífuð... eftir að hafa verið þarna uppi...

Hópurinn þéttur eftir grjótið...
því miður kláruðu Aðalheiður og Gunnar Már ekki hér upp...
Aðalheiður var ekki í góðu dagsformi þennan dag og Gunnar Már var í meiðslum...
en þau fengu engu að síður lungað úr fegurðinni fyrir utan útsýnið til austurs ofan af Háskerðingi...

Fegurðin þennan dag... þessir litir... þessar andstæður...
eins og að ganga í lygilegu og óraunverulegu málverki klukkutímunum saman...

Nú ákváðum við að fara ásana upp og niður að stígnum í stað þess að fara jarðhitasvæðið til baka...

Litið til baka... Háskerðingur ennþá skýlaus... en það varaði ekki mikið lengur...

Smá brekka hér upp á litríku fjöllin... nafnlaus því miður... eins og mörg á þessu svæði...

Lygilegir litir... form... og áferð...

Stundum er raunveruleikinn lygilegri en skáldskapur...
það á sannarlega við um landslagið í Friðlandi að Fjallabaki...

Hryggurinn eða ásinn út frá Háskerðingi reyndist skínandi góð leið til baka...

Við vorum í skýjunum...

Fengum ekki nóg af því að horfa... í allar áttir...

Snjóskaflarnir utan í fjöllunum á þessu svæði gefa þeim sjarma eins og ekkert annað...

Hér niðri var leiðin sem hinn hópurinn fór... gönguleið Laugavegsfara er handan við ásinn...

Við fórum hins vegar inn á slóðina sem Birgir og fleiri höfðu fundið á leið upp á Háskerðing... þá vissum við það...
þessi slóði fer sem sé upp á ásana og svo niður þá og upp skaflana á hæsta tind...

Sjá skýin læsa sig utan um tindinn hægra megin... veðrið var að breytast fyrir framan augun á okkur...

Myndirnar sem teknar voru þennan dag voru stórkostlegar... og við ýktum þær ekkert í tölvunni...

Þess þurfti ekki... þessi fegurð er alveg nógu mikil til að fá aukaslag í hjartað...

Skýin farin að yfirtaka Háskerðing sjálfan...

Þetta var að verða búið... þetta magnaða veður sem við höfðum fengið...

Orðið skýjaðra almennt og blámi himinsins hverfandi...
en átti samt eftir að þrjóskast við áður en yfir lauk...

Háhitasvæðið náði upp á ásana...

... og við skoðuðum leirhverina á niðurleið...

Allt var svo fallegt... líka slímið ofan í lækjunum... þetta er einstök veröld eins og engin önnur...

Það eru ekki bara litirnir... heldur og mýktin í forminu...
og áferðinni á landinu á þessu svæði sem snertir mann djúpt og skilar manni ekki sama manni til baka úr svona ferð...

Háskerðingur kominn hramminn á skýjunum...
það var eins gott að við fórum svona snemma úr bænum... keyrðum geyst... héldum vel áfram...
og náðum upp og niður í dýrðinni þarna áður en útsýnið hvarf...

Skyndilega dimmdi yfir... skúraleiðingarnar gengu yfir en engin var úrkoman enn sem komið var...

Við leituðum að hjörtum...

... handa Katrínu Kjartans ofurkonu sem er að jafna sig á liðskipaaðgerð á hné...

Brátt vorum við komin á hefðbundna gönguleið Laugavegarins...

... og gátum enn ekki stillt okkur um að dást að útsýninu niður að Álftavatni...

Fleiri á ferð en við...
allt erlendir ferðamenn nema íslenski fararstjórinn sem við hittum á leið upp á Háskerðing...

Þarna var orðið svalara...

Háskerðingur barðist hetjulega og hristi af sér fyrstu skýin sem gerðu atlögu að honum...

Við nutum enn góða veðursins og þess að eiga bara eftir að ganga niður í mót í bílana...

En... svo skall á úrkoma... rigning sem var þétt og ákveðin...
og við þorðum ekki öðru en klæða okkur í hlífðarföt...
þó grunur læddist að manni að þetta myndi vara stutt...

Háskerðingur yfirbugaður í bili...

Við strunsuðum niður þakklát fyrir að hafa náð þessum fallega degi...

En svo létti aftur til og við fengum sól og blíðu lungað úr þessari leið niður...

En það tók því ekki að klæða sig úr...
nema jú, það varð svo heitt að flestir gáfust upp og klæddu sig aftur úr öllu...

Stuðlabergssteinninn við Grashagakvíslina...

Blíðan ríkti enn sem komið var og við nutum þessa sumarveðurs út í yztu æsar...

En... það voru blikur á lofti...

Nokkuð greiddist úr hópnum síðasta kaflann niður í bílana...

Mikið var gott að þurfa ekki að ná í vaðskóna hér...

Orðið aftur bjart og himinblátt til fjalla...

Þjálfari fann þennan hjartastein við Grashagakvíslina og sendi Katrínu kjartans með hjartans-bata-orku-kveðjum...
og lofaði henni og Guðmundi Jóni að fara með þau á Háskerðing þegar hún væri búin að ná bata...

Það verður sérstök höfðingjaganga...
þar sem Birni og Gerði og Aðalheiði verður sérstaklega boðið...
því þau fimm fylla á næstu árum höfðingjahóp Toppfara sem eru 70 ára og eldri...

Síðasti kaflinn að bílunum var drýgri en mann minnti...

Þannig er það einnig í Laugavegshlaupinu...
óþolinmæðin eftir Álftavatni þegar Grashagakvísl sleppir er sársaukafull...
þarna fer maður lemstraður eftir löngu brekkurnar og trúir því ekki að það séu ennþá einhverjir kílómetrar í skálana við Álftavatn...

Við VERÐUM einhvern tíma að taka ofurgöngu um allan Laugaveginn í einum rykk... um 15 - 18 klukkustíma...
förum þegar bjart er allan sólarhringinn... og veðurspá hagstæð... með gott nesti... og léttan fatnað og skó...
og vöðum bara á blautum skónum út í árnar... ekkert að flækja neitt... tökum góðan matarpásur í skálunum
en göngum þess á milli jafnt og þétt... margir í þessum klúbbi geta þetta leikandi ef þeir æfa sig fyrir það...

Komin í bílana... eftir rúma sex klukkustunda göngu... mun styttri tíma en við áttum von á
þrátt fyrir að njóta mikið og staldra oft við á leiðinni...
það munar um það að fara slóða mestmegnis af leiðinni og vera í góðu veðri og góðu færi...

Alls 14,8 km (misjafnt milli tækja) á 6:05 - 6:19 klst. upp í 1.288 m hæð
með alls hækkun upp á 987 m miðað við 565 m upphafshæð.

Leiðin á korti... sjá hvar beygt er út af Laugavegsleiðinni...

Samhengið við fyrri göngur á sjálfu Torfajökulssvæðinu:

Gula slóðin ganga dagsins 2018
Græna slóðin 2015 á Hatt og Skalla
Bláa slóðin á Barm og Hrygginn milli gilja að Grænahrygg 2016

Fjær eru svo göngurnar á Krakatind, Rauðufossafjöll og Löðmund
og svo má auðvitað telja allar Heklugöngurnar með ef svo má segja :-)

Við erum greinilega rétt að byrja... sem eru forréttindi...

Gleðin var við völd í lok göngunnar...
og allir til í að keyra ekki sömu leið til baka heldur um Emstruleið að uppástungu þjálfara...

Það þýddi smá innlit í skálana við Álftavatn...

... gott að komast á salernið eftir gönguna og fá sér handþvott...

Það var skelfilega napurt þarna... blés hressilega og hiti rétt yfir frostmarki...
orðið þungbúið yfir öllu svæðinu og fjallasýnin nánast horfin...
svo kuldalegt að meira að segja mestu útilegugeiturnar í hópnum hugnaðist ekki að tjalda þarna...

Með ólíkindum hvað veðrið var orðið kalt og napurt þarna eftir sólina og blíðuna uppi í fjöllunum stuttu áður...

Skýin komin  niður hlíðarnar þar sem við gengum fyrr um daginn...
það skall einfaldlega hurð nærri hælum hvað veðrið varðaði þennan dag...

Við fengum smá ráðgjöf hjá skálaverðinum varðandi jeppafærið um Emstruleið yfir Kaldaklofskvísl og Bláfjallakvísl...

Teikning á vegg skálavarðar...

Þarna má sjá árnar sem göngumenn þurfa að vaða...
Kaldaklofskvísl er brúuð fyrir göngumenn og báðar Emstruárnar eru brúaðar fyrir bíla og menn
en vaða þarf Grashagakvísl. Bratthálskvísl, Bláfjallakvísl og Þröngána...

Fjallasýnin frá tjaldstæðinu við Álftavatn... Illasúla er lágt fjall... þarna sést að Stóra Grænafjall er þarna megin
og ekki þar sem Hattfellið var svo seinna um daginn... og virtist vera merking á Hattfellinu sem gat ekki verið...

Álftavatn er orðinn myndarlegasti staður...

Og það sem kom mjög á óvart... veitingastaður með bjór og kaffi og kökum og vöfflum !!!

Hvenær fór þetta eiginlega í fréttirnar ?

 ... og afhverju er þetta ekki í boði á fleiri stöðum á hálendingu ?

Þó fyrr hefði verið...

Þetta minnti óneitanlega á alla fjallaskálana í gönguferðunum erlendis... magnað alveg...

TAKK fyrir að hafa svona stað á þessum stað !

En... við áttum eftir að keyra heim í þrjá klukkutíma...
það var eins gott að gleyma sér ekki í súkkulaðikökum og bjór...

Fjölskylda á ferð á hjólum milli Hvanngils og Álftavatns...

Stórasúla...

Komin ofar... sjá bílana koma upp úr frá Bratthálskvíslinni...

Stórasúla... við verðum að ganga á hana einn daginn...

Hvanngil... hlýlegri staður en Álftavatn... sem er fagur staður í fjarska...
*en einvhern vegin nánast alltaf kuldalegur þegar að er komið... Hvanngil einhvern veginn öfugt...
hlýr þegar að er komið þó ekki líti hann glæsilega út í fjarska...

Kaldaklofskvísl þarf að keyra yfir... þar er eingöngu göngubrú...

Hún er oft erfið... en var saklaus sem lamb þennan dag...

Þetta var bara gaman...

Bláfjallakvísl... hún var búin að vera erfið síðustu daga... en reyndist svipuð og Kaldaklofskvíslin...

Hún er mjög köld fyrir hlaupara og göngumenn sem þurfa að vaða hér...

Stórkonufell ?

Hattfell í fjarska...

Emstruáin efri... ógnvekjandi jökulá sem rennur í gegnum sandana...

Einhyrningur svo á útleið eftir Markarfljótið þar sem Hvítmaga bættist við það úr Tindfjallajökli...
og er alltaf magnað svæði að sjá... Krókur... en þar hefði verið hægt að beygja inn að Hungurfit
sem er svæði sem við þurfum að skoða betur einn daginn...
svæðið hans Ágústar :-)

Leiðin frá Kaldaklofskvísl er mjög greið alla leið niður í Fljótshlíð
og þetta sóttist betur en við áttum von á...

Tindfjallajökull... hér sést líparítið sem er í honum... Ýmir og Ýma eru nefnilega ljós á lit...
loksins þegar snjórinn fer af þeim síðla sumars...

Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull... orðið þungbúnara... Rjúpnafell og Útigönguhöfði og fleiri fjöll...

Við rifjuðum upp 5 ára afmælisgönguna á Einhyrning í sparifötunum með drykkjarstöðvar á hinum ýmsustu stöðum :-)

Markarfljótsgljúfur... jeppaferð upp á hálendið er ævintýri út af fyrir sig...
og þess virði að vera í bíla meira og minna heilan dag... fyrir þá sem elska landslag...

Gilsáin er nú komin í rör og því enginn ofarlega í Fljótshlíð...
og því er leiðin upp í Emstrur í raun greið alla leið þannig séð...

Batman er vanur að vera í sínum bíl og ekki annarra... hann var ekki sáttur við að vera bundinn aftast í farangursrýminu hjá bakpokunum (sem hann er alltaf líka í sínum bíl) og vildi vera eins nálægt fólkinu sínu og hann gat... og því lagðist hann ofan á bakpokana og lá með snoppuna á sætisbökunum og steinsofnaði þannig... sáttur með daginn... eins og allir almennilegir smalahundar eru eftir svona göngudag...

Dælt í dekkin aftur á Hvolsvelli... við spáðum í það hvor leiðin væri styttri og greiðfærari...
Keldur eða Emstrur...
og niðurstaðan var sú að leiðirnar eru nákvæmlega jafn langar...
og báðar með ár til að fara yfir... Markarfljótið og Laufalækur annars vegar
og Kaldaklofskvísl og Bláfjallakvísl hins vegar...


Fjallaflandrarinn hennar Jóhönnu Fríðu... smitandi lífsgleði alla leið á þessum bæ... :-)

Jeppasafarí upp á hálendið að hausti að safna fjöllum úr friðlandinu... "Fjöllin að fjallabaki"... er klárlega komið til að vera á hverju ári...
helst 2 - 3 slíkar ferðir á hverju hausti... á fjöll á slóðum sem annars eru ekki aðgengileg...
við skulum ná Prestahnúk og Klukkutindum áður en veturinn skellur á...
og jafnvel meira ef veður og stemning leyfir !

Myndbönd þjálfara samantekin ásamt bestu ljósmyndunum á Youtube:
https://www.youtube.com/watch?v=73iEC2XR_4k&t=9s

Gps-slóðin af göngunni á Wikiloc:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=28861382

Hvílík veisla...
Hvílíkir ferðafélagar eins og alltaf...
... þið eruð einfaldlega best ! :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir