Tindferð 124
Núpshlíðarháls og Selsvallafjall
laugardaginn 6. febrúar 2016
 

Fallega hvasst á Séstvarlafjalli...
nei, Selsvallafjalli á Núpshlíðarhálsi :-)
Hverjir muna eftir "Séstvarlakórnum" á Þingeyri í mögnuðu sumarferðinni vestur á firði árið 2010?
... sem söng með okkur langt fram á nótt "í miðbæ Dýrafjarðar"...
Hvílíkt snilldarnafn.... það ásótti ritara endalaust með þessu "Selsvallafjalli"
...það þyrfi eitthvurt nafnlaust fjall á fá viðlíka nafngift.. :-)


Unglingarnir Batman og Slaufa sem smituðu hormónagelgjunni út til göngumanna svo um munaði
Stelpur! Þarna er komin skýringin á rafmagninu inni í húsi... eða hvernig var þetta aftur.. :-)

Vindurinn var það eina sem á móti blés í febrúartindferðinni á Selsvallafjall á Núpshlíðarhálsi..
laugardaginn 6. febrúar þegar 21 Toppfari og einn gestur ásamt unglingunum Batman og Slaufu
...
t
óku 16,1 km göngu á 6:06 - 6:14 klst. upp í 373 m hæð með alls hækkun upp á 734 m miðað við 33 m upphafshæð...

og það eina sem skyggði á þennan dag... fyrir utan vindinn var eftirsjá þjálfara að hafa snúið við 1,6 km fyrr en áætlað var...
en næstum allir voru því samt fegnir á því augnabliki þar sem vindurinn fór upp í 21 m/sek í efstu hlíðum...
enda komum við í bæinn um fjögurleytið og menn komust í heita pottinn, út að borða og í leikhús... sem var ansi vel sloppið á toppfarískum tindferðadegi... ritari þjálfara vissi ekkert hvað hún átti af sér að gera eftir svona "stutta tindferð"... og endaði á að baka rjómabollur fyrir kvöldmat... jú, það var hægt að sætta sig við rjómabollur í staðinn fyrir 3,2 km viðbót á 1,5 klst sem upphafleg gönguáætlun gerði ráð fyrir :-)

Þjálfari var búinn að lofa dagsbirtu við upphaf göngu um níuleytið... og það stóðst...
það var göngubjart kl. 9:01 þegar lagt var af stað upp hraunið við Vigdísarvallaveg...

... en lygna veðrið sem var í kortunum fyrr í vikunni... var fokið út í veður og vind....
og stífur vindur að norðaustan mættur í gönguna líka og átti ekkert eftir að gefa eftir nema á skjólgóðum stöðum...

En það var dúndrandi stemning í hópnum... og gleðin skein svo skært allan daginn að það varð að einhverju undarlegu logni
sem kom okkur kílómetrunum saman í norðurátt áður en við ákváðum að sleppa síðasta kaflanum og snúa fyrr við...

Þessir hreinu og tæru bleiku og bláu litir sem einkenna himinn hávetrarins eru ávanabindandi...
og gefa einhverja óáþreifanlega orku gegn myrkrinu, kuldanum og vindinum
ef bara maður hefur vit á að fara út í óbyggðirnar og nýta daginn...
sagði þjálfari á snjáldru daginn eftir gönguna...

 

Vígalegur hamraveggur varðaði leiðina upp á Núpshlíðarhálsinn sjálfan...

... og Örninn fann góða snjóbrekku til að fara niður um...

Færið heldur hart og gott að hafa keðjubroddana...
eða góðar klær á loppunum eins og Batman og Slaufa sem skoppuðust himinlifandi allan daginn...

Litið til baka um aukahálsinn á leið á sjálfan fjallshrygg Núpshlíða...

Stóri hamradalur hét þessi dalur og er eflaust ægifagur að sumri til líka...

Það birti hratt og óskaplega fallega af degi og við böðuðum okkur í birtunni...

Núpshlíðarhálsinn var fagurlaga á ótal stöðum þó hvergi komist hann nærri stóra bróður sínum Sveifluhálsinum
sem býður upp á ótal tignarlega tinda... jafnvel sunnan megin þar sem fáir fara um...

Þetta var fjórða tindferðin okkar um hálsana á Reykjanesi... fyrsta og þriðja í glimrandi fögru veðri á Sveifluhálsinum,
önnur í dulúðugu veðri til að byrja með en svo skall á lífshættulegur stormur í bakaleiðinni á syðri Sveifluhálsinum
og loks fórum við í dumbungi og svo rigningu um Móhálsatinda...
...og þessi á Núpshlíðarhálsinum þennan dagvar þarna mitt á milli...
vindur jú en annað dásamlegt svo það er erfitt að segja hvort við eigum inni gott veður eður ei...

... og þá eru ótaldar óteljandi kvöldgöngurnar á þriðjudögum sem reglulega eiga sér stað á Reykjanesinu...

Litirnir og birtan með úfinn himininn af norðaustanáttinni var með einhverju ekta villtu yfirbragði...
...það var eitthvað einstaklega tært og fagurt við andrúmsloftið þennan dag...

... þrátt fyrir vindinn sem ólmaðist mest í skörðum og meðfram tindum...

... en menn eru öllu vanir í þessum klúbbi og fótuðu sig upp í hvössum hliðarvindi af gömlum vana...
og vorum við sammála um að þó það hafi hvarflað að manni að fresta göngunni vegna vindsins
sem jókst í veðurkortunum þegar nær dró göngudeginum, þá var allt annað með okkur;
úrkomulaust, gott skyggni, dagsbirta, einföld gönguleið, gott færi, sterkur hópur og þjálfarar í banastuði.

Áhættustig í mati þjálfara var því eingöngu 2 stig af 10:
birta, hitastig, vindur, úrkoma, skyggni = 5 atriði veðurs
og svo göngufæri, erfiðleikastig/hættustig gönguleiðar, staðsetning frá byggð/björgun, ástand/reynsla leiðangursmanna, ástand þjálfara
= 5 utanveðurs-atriði
Á léttum degi (núll stig) er bjart, hlýtt (en ekki of heitt), logn/gola, úrkomulaust, óskert skyggni (ekki þoka eða úrkoma), létt færi, einföld og hættulítil gönguleið, staðsetning nálægt byggð (björgun), vanir og vel þjálfaðir göngumenn skráðir og ekki of hátt hlutfall af nýliðum eða óvönum og loks þjálfarar í góðu standi en ekki slappir eða illa fyrirkallaðir...

Allt þetta skiptir máli og getur veikt eða styrkt ferð eins og þessa og jafnvel skipt sköpum ef eitthvað gerist...
og er ástæðan fhyrir því að þjálfarar áhættumeta hverja tindferð...
við skulum gera það hér með allur hópurinn saman og venja okkur á að hugsa þetta svona í hvert sinn :-)

Það voru tveir unglingar í þessari ferð... Batman og Slaufa sem eru bæði rúmlega 1,5 árs gömul...
og gelgjan lak af þeim og náð að smitast yfir í leiðangursmenn svo um munaði... :-)

Sjónarhornin voru mörg svo falleg þennan dag...
en vindurinn tók þau mörg af manni þar sem maður var upptekinn við að halda sér uppréttum fyrir honum !

Þarna lá hann... aflíðandi og öruggur fjallshryggurinn á Núpshlíð alla leið á Selsvallafjall...

Já, hvað áhættumat varðaði þá er þessi leið hættulítil...

Við tókum okkur smá útsýnispásu með hafið úfið undir stormuðum himninum...
og leituðum að vetrarsólinni sem þjálfari var búinn að segja að myndi marra úti á hafi... :-)

En í staðinn fengum við iðandi skýin að leika sér af fingrum fram á bleikum himninum
svo þessi grái litur blandaðist fallega við þann bláa og bleika ásamt hvíta og svarta litnum...

... þetta var listaverk af náttúrunnar hendi þarna beint fyrir framan okkur um allt og við bara gangandi innan í því
eins og ekkert væri sjálfsagðara... sem það er svo sannarlega ekki...
mikil synd hvernig við vanmetum það sem fyrir augum okkar er hvern dag...
og það er ekki fyrr en maður les um þakkláta franska áhorfendur að þáttaröðinni Ófærð á RÚV
að maður gerir sér grein fyrir að bara nokkur sjónarhorn á fjöll í snjó, snjóbyl og skafla... eru nóg til að halda Frökkum límdum við sjónvarpið... drekkandi í sig vetrarlandslagið... og þegar maður stendur sjálfan sig að því að vera eins og þeir...
óskandi þess að fá fleiri og lengri sjónarhorn af landslaginu á Sigló og Seyðisfirði og minna af fólki (að fólki Ófærðar ólöstuðum samt!)...
þá gerir maður sér grein fyrir að maður er landslagsfíkill"... svo einfalt er það... og þar með komin önnur ástæða fyrír því að maður er alltaf í sæluvímu í óbyggðunum og endalaust að þvælast þetta í tíma/veðri og ótíma/óveðri allan ársins hring... og getur heldur ekki hætt að svala forvitninni um erlent landslag sem togar líka sífellt í mann... af fenginni reynslu af því að hafa kynnst ölpunum í Frakklandi, Ítalíu og Sviss, Perú, Slóveníu, Nepal... og þessa dagana er það pólska og slóvakíska landslagið sem togar okkur af landi brott í september komandi...

Slaufa elskar að leika sér í snjónum...

... en hún gleymir aldrei henni Siggu sinni sem hún passar vel sama hvað...

Það sóttist ótrúlega vel norður eftir...

... þó stundum greiddist hressilega úr hópnum...

... en við vorum að njóta... alls sem þessi dagur bauð upp á og spáðum ekkert í klukkuna...

Keilir og félagar hans í suðri kölluðust á vestan megin við okkur og Sveifluhálsinn austan megin...

Sólin enn ekki komin á loft en löngu farin að slá tóna sína um allt...

... og lofa öllu fögru þó lítið hafi orðið úr efndum...
eða var það þjálfarinn sem lofaði sól...
eða Norðmenn er það ekki... ha? :-)

Eitthvað einstakt við að kanna ótroðnar slóðir og vafra um á nýjum leiðum
sem gefa manni alveg ný sjónarhorn á fjöll sem við höfum margsinnis gengið á... en aldrei séð úr þessari áttinni...

Björn Matthíasson er klárlega afreksmaður Toppfara... sem aldrei hikar og er alltaf til í allt...
fyrsti maður á listann á Mont Blanc á næsta ári... nema við höldum plani
og förum tíudagatíuáraafmælisævintýraferðina um Ísland sem þjálfari var byrjaður að kokka en hikar svo við að baka...

Keilir þarna vinstra megin... en sunnan hans eru nokkrar aðrar keilur ansi líkar honum sem fáir hafa gengið á...
en við vitum þó af Antoni, Hjölla og Ísleifi... og jú Batman tók þjálfara í könnunarleiðangur um þá í fyrra...

Þetta var eins og sýnishorn af ægifegurð Sveifluhálssins...
dásamlegt engu að síður þó tignarleikinn væri ekki í sömu hæðum...

Skyndilega breyttist birtan... og varð hlý og smá gul og brún...

Sólin var komin upp og þá gáfu bleiku og bláu litirnir smám saman eftir...

Með sólinni komu úrkomubelti að norðan...

En við sluppum enn og gengum í sólargeislunum dágóða stund...

Skýjafarganið sem vindurinn hafði dustað klukkustundum saman ofan af landinu lá eins og hrúgald úti á hafi
en sólin náði samt að krafla sig hálfpartinn í gegnum ósköpin í einhvern klukkutíma eða svo...

Og þá gengum við í svo fallega björtu og fórum geyst yfir...

Keilir reisulegur í norðri... þarna höfum við nokkrum sinnum farið upp sunnan megin, austan og norðanvestan...
eigum bara eftir hávesturhliðina...

Selsvallafjall sést varla fyrr en nær dregur...

"Séstvarlafjall" er nafn sem við eigum eftir að nýta einn daginn á ónefndan tind...
sem margir hverjir leynast munaðarlausir úti í óbyggðunum...

Landslag hans kallaði á hópmynd og þarna verður gaman að koma á þriðjudegi að sumri til og bera saman...

Sjónarhornin þennan dag voru ansi mörg svo hrein og tær...

Keilir og Driffell...
við ætlum að bæta Driffelli í safnið í maí og öllum þessum litlu fellum allt í kringum hálsana á Reykjanesinu !

Með tindinn á Selsvallafjalli í baksýn.
Efri: Örn, Anna Jóhanna, Guðmundur Jón, Sarah, Maggi, Erna, Hlöðver,Kolbrún, Aðalheiður, Guðmundur V.,
Örn Alexanders., Njóla, Svavar, Björn Matt., Doddi.
Neðri: Katrín Kj., Gerður jens., Sigga Sig. að passa Slaufu fyrir Batman, Jón Tryggvi, Jóhanna Fríða, Helga Edwald og Bára tók mynd

Jú við ætluðum eftir öllum hálsinum að Grænavatns- og Djúpavatnseggjum sem þarna rísa eins og hryggir í fjarska...

og því lá leiðin nú niður í mót...

En vindurinn jókst og gerði okkur nánast ókleift að spjalla saman...

Við leituðum skjóls bak við lítinn klett og réðum ráðum okkar...
menn voru á því að komið væri nóg af barningi við vindinn...
og þjálfarar samþykktu það og gott var látið heita með 1,6 km leið enn framundan að settu marki
við eggjarnar sem hefðu eflaust gefið okkur fallegt sjónarhorn...
en það var varla þess virði gegn stífum vindinum beint í fangið...

Svo haldið var niður af hálsinum til baka... og veðrið snarbatnaði um leið... og þá kom efinn... "ef við bara hefðum látið okkur hafa það einn og hálfan kílómetra í viðbót"... en það má ekki láta svona... við áttum alveg eins von á að heimleiðin yrði erfið þó reyndin yrði önnur...

Dásamlega friðsælt í notalegum dal á leiðinni til baka þar sem við tókum nestispásu og ræddum næstu fjallasigra erlendis...
þar sem sumir eru alltaf til í allt og þá er svo gaman :-)

Mont Bland, Kilimanjaro, Aconcagua... fyrir utan allt hitt maður !
Þjálfarar eru til í þetta allt... og líka "10 daga 10 ára afmælisferð" um hæstu fjöll allra landshluta...
en bara ef Toppfarar eru það líka af einhverri alvöru... :-)

Og í þeirri orku svifum við til baka... og nutum þess að fá snjókomuna í bakið og sólina gegnum skýin í fangið...

Já, þetta var geggjað gaman...
og frábært að fá þennan barning við vindinn og snjóinn til að styrkjast og eflast með öllum þessum kílómetrum...

Leiðin lá um Vigdísarvallaveg... sem er leiðin í Bláalónsþrautinni... sem er einn af fjórum Landvættunum... sem nokkrir Toppfarar ætla að taka þátt í... og enda í Bláalóninu á eftir og skála eftir 60 km hjólreiðar um óbyggðirnar frá Hafnarfirði um Reykjanesið gegnum Grindavík og alla leið í Bláalónið... ekki leiðinleg jaðaríþrótt það :-) http://bluelagoonchallenge.is/

Og þá er nú eins gott að skyggnið verði betra en þetta...

Jú, það batnaði fljótt aftur og við sáum niður í Hamradal...

... þar sem við tókum ekta hláturspásu til að hlaða orkuna á ný...

... og kláruðum síðasta spölinn í bílana himinlifandi með klukkuna sem var lygilega lítið...

Dagurinn var varla byrjaður og við að klára miðlungs langa göngu í frekar krefjandi veðri...

Hvílíkur hópur... komin út úr snjónum og ofan úr fjöllunum og út í hraunið aftur...

Doddi, Anna, Sigga Sig., Örn Alexanders., Katrín Kj., Guðmundur Jón, Svavar, Örn, Erna, Maggi, Hlöðver, Björn Matt., Guðmundur Víðir, Kolbrún.
Aðalheiður, Gerður Jens., Sarah, Helga Edwald, Jóhanna Fríða, Njóla, Jón Tryggvi og Bára tók mynd og Slaufa er þarna hjá Gerði og Batman að biðja hana um að koma frekar að leika en vera með á myndinni :-)

Þar sem þetta hafði ekki falið í sér eina einustu áskorun nema að stíga næsta skref...

...valdi þjálfarinn skemmtilega leið niður um lungamjúkan mosa og kjarr... svona til að fá einhverja tilfinningu fyrir bratta :-)

... sem skreytti síðustu skrefin að bílunum...
og skilaði okkur þannig söddum og sælum til manngerðra heima aftur... með sólina enn hátt á lofti...

Frábær nýting á fallegum degi í einstakri birtu og tæru skyggni...
og hressandi snjókomu og vindi þegar ekki lét best...
já, fínasta upphitunartindferð fyrir komandi afreksgöngur vors og sumars...

Alls 16,1 km á 6:06 - 6:14 klst. upp í 373 m hæð með alls hækkun upp á 734 m miðað við 33 m upphafshæð...

Alla ljósmyndir þjálfara hér:
... og frábærar myndir leiðangursmanna á snjáldru :-)
 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir