Tindferð 116
Sólheimajökull - skriðjöklanámskeið
laugardaginn 21. mars 2015
 



Ísklifur og lærdómur
á Sólheimajökli
í mun betra veðri en nokkur þorði að vona


Elena, Maggi, Lilja Bj., Irma, Míó, Svavar, Hjálmar, Örn, Raggi, Doddi, Björn, Jóhannes og bára tók mynd.

Laugardaginn 21. mars kenndu Raggi og Míó hjá www.asgardbeyond.is okkur broddatækni, leiðarval, áhættustjórnun sporagerð og ísklifurtækni á Sólheimajökli þar sem veðrið var langtum betra en áhorfðist miðað við spá... þurrt, hlýtt, lygnt og smá sólarglæta öðru hvoru sem hrakti allar tilraunir skýjanna til að senda eitthvað niður á okkur... og tókst það algerlega fyrir utan 3ja mínútna haglélið fyrir ísklifrið og dembuna sem kom þegar við vorum að kveðja leiðsögumennina á bílastæðinu í lok dags...

Við byrjuðum á að græja okkur og leiðbeinendur fóru yfir helstu atriði varðandi brodda og ísexina...
en þar kom í meginatriðum fram það sama og í fyrri vetrarfjallamennskunámskeiðum Jóns Heiðars...

Mismunandi axir eftir smekk og tilgangi... ansi flott ísöxin hans Björns frá 1954 sem hann keypti í Þýskalandi
en öxin sú hefur farið með okkur marga svaðilförina á fjöll gegnum árin...

Elena, Doddi, Maggi, Irma, Björn og Hjálmar með Ragga leiðbeinanda.

Björn, Hjálmar, Örn, Svavar, Lilja Bj. og Jóhannes en Bára tók mynd.

Yndislegt veður og langtum betra en spáin gaf loforð um... sólin kærkomin þegar hún náði í gegn og vor í lofti...

Sólheimajökullinn aldrei komist á kortið hjá Toppförum svo þetta var fínasta leið til þess...
að broddast og íslifrast smá í honum...
hann hopar hratt...

Míó fór svo betur yfir broddana með okkur... notkun, ásetningu og hinar ýmsu gerðir...

Komin á broddana, allir í beltum og með ísöxina í hönd...
einhverjir með hjálma en við skipumst á að hafa þá í klifrinu...

Fallegur var hann Sólheimajökullinn... og iðandi af lífi...
þarna "landið í örri mótun og mjög kvikt... steinar falla, ísbrýr hrynja og íshellar falla saman og víða er kviksyndi nálægt jöklinum"
eins og sagði á aðvörunarskilti á gönguleiðinni að jöklinum...

Byrjað var á broddatækni þar sem reglurnar voru rifjaðar upp og við æfðum okkur upp og niður og til hliðar í báðar áttir...

Þarna var mikil synd að þeir Toppfarar skyldu ekki vera sem hafa verið óöruggir á hálkubroddunum og lítið gengið á jöklabroddum
því svona æfing er skínandi leið til að æfa og festa í taugaminninu sínu hversu vel broddarnir halda ef maður beitir þeim rétt...

Sjá fyrri samantekt af námskeiði
Að ganga á broddum:

*Stíga jafnt á yfirborðið svo broddarnir nái allir að grípa taki í hjarnið en ekki stíga á ská (eins og maður gerir í skóm og hliðarhalla þegar maður stingur jarkanum á skónum inn í brekkuna til að mynda syllu í jarðveginn - alls ekki gera þetta ef maður er á broddum heldur nýta alla broddana til að grípa í hjarnið með því að ganga "flötum fótum").

*Lyfta fótum vel upp til að reka ekki broddana í hjarnið og detta fram fyrir sig. Með broddunum erum við komin með "lengri fætur" og auðvelt að gleyma sér þegar líður á daginn og menn orðnir þreyttir eða kærulausir. Líkaminn vanur ákveðinni vegalengd sem hann þarf að lyfta fætinum upp og stíga næsta skref (flókin taugalífeðlisfræðileg athöfn) en þegar maður er kominn á brodda þarf maður að muna að lyfta hærra upp til að reka sig ekki niður undir.

*Ganga aðeins gleitt með smá bil milli fóta til að flækja ekki broddunum hvor í annan eða flækja broddunum í skálmarnar og detta um sjálfan sig af þeim sökum eins og margir hafa reynt (sbr. rifnar skálmar á hlífðarbuxum v/broddanna). Chaplin eða skíðastökkvarar hér fyrirmyndin.

*Taka stutt skref til að hafa betra vald á hverju skrefi.

*Stíga föstum skrefum niður í snjóinn en ekki léttum svo broddarnir nái að grípa vel í snjóinn (ef hált færi).

*Ganga með framhlið manns vísandi niður brekkuna ef undirlagið er mjög frosið, bratt og hált til að ná sem jöfnustu gripi - en ekki "ganga á hlið" eins og maður gerir vanalega á göngu í hliðarhalla. Á við í mikilli hálku, svelli eins og t.d. á
Kerhólakambi í desember 2007 þar sem við fórum vel yfir þetta og æfðum ofl. ferðum.

*Þegar hálkan er minni en samt til staðar skal ganga í hliðarhalla með því að snúa "efri" fæti, þ.e. fætinum sem er ofar í brekkunni í göngustefnu en "neðri" fæti um 45° niður í móti til að nýta betur yfirborð broddana og hafa meira vald/öryggi á göngunni. Með því að ganga zikkzakk upp brekku er gott að hvíla kálfana með þessu þar sem maður beitir efri og neðri fæti misjafnt eftir því hvernig maður snýr mót hallandi brekkunni.

Sjá samantekt af fyrri námskeiðum
Að ganga með ísexi:

*Ef farið er í brodda skal alltaf taka ísexi með í hönd líka því þá er maður kominn í hálkufæri þar sem nauðsynlegt er að geta stöðvað sig með ísaxarbremsu.

*Halda skal í ísexina með breiðara skaftið fram og beittara skaftið snýr aftur (oddurinn) og venja sig á að halda alltaf á henni svona þar sem viðbragðið til ísaxarbremsu liggur beinast við í þessari stöðu...

...en á skriðjökli er þetta ekki endilega reglan þar sem við erum meira að nota exina til að styðja okkur við hjarnið en beita ísaxarbremsu og Raggi fræddi okkur um það að í kanadíska fjallaheiminum og evrópska er reglan með breiðara skaftið fram ekki endilega reglan... - ath betur!

*Ef gengið er í hliðarhalla skal ísexin ávalt vera í þeirri hendi sem snýr að brekkunni til þess að viðbragðið ef maður dettur sé einfaldara við að grípa til ísaxarbremsu.

*Sé gengið niður brekku getur verið gott að styðja ísexinni aftan við sig til að hafa stuðning/hald.

Eftir góðar æfingar á broddunum ræddum við leiðarval og áhættumat/áhættustjórnun sem komið var inn á reglulega þennan dag...

Nú var kominn tími á að æfa broddagöngu beint upp brekku... það var erfiðara en það lítur út fyrir ef brekkan er brött..

Muna... ýta með táberginu en ekki tánum... það skiptir sköpum...

Við gengum ofar upp á jökulinn og þar féll Hjálmar við... hafði stigið nettlega ofan í svelg sem þarna lá eins og saklaus pollur...

Jebb... bullandi vatn þarna og botninn vissum við ekkert um...

Svelgir myndast þegar vatn byrjar að renna niður í þrönga sprungu sem víkkar stöðugt er líður á sumarið og vatnið bræðir ísveggina. Hringlaga ip þeirra gera orðið nokkurra metra í þvermál og þeir geta orðið mjög djúpir... Raggi lýsti þessu vel þegar þeir gerðu tilraun eitt sinn og létu stein falla niður í svelg en það liðu 7 sekúndur (ath?) áður en hljóðið skilaði sér af botninu... reikni hver sem vill...
Fall í svelg er lífshættulegt og engin leið að vita hvert maður skila sér ef hann er umfangsmikill...

Rigningarúði byrjaði allavega tvisvar fyrri hluta dags og þá héldum við að rigningin sem var í kortunum væri komin... en svo hvarf hann jafn skjótt og hann kom en stundum kom golan með og því leituðum við að skjóli fyrir nestispásu sem NB þurfti að biðja um... fleiri en Örninn sem gleyma alveg að borða í óbyggðunum :-)

Ferðamenn um allt á jöklinum og Jóhannes giskaði á um 200 manns þennan dag... e.t.v. meira en það !

 

Eftir nestið færðum við okkur ofar upp á jökulinn á sléttuna þar sem hann er ekki byrjaður að brjóta sér leið niður á láglendið...

Þar skoðuðum við stærri svelgi... en þeir eru stærstir efst í jöklinum þar sem við fórum ekki... þessi bullaði vatninu upp í þrengslunum...

Leit út eins og saklaus skafl ofan á ísnum... en reglan er þessi að ganga aldrei á snjó heldur eingöngu ís þar sem maður getur verið viss um að fast land er undir fótum...

...saklaust eitt skref ofan á svona svæði getur endað illa...
sneiða skal því framhjá því á föstu langi og taka enga áhættu...

Eftir fróðleik um skriðjökla, leiðarval, veðurfar, bráðnun ofl. var komið að sporagerð og ísklifri...

Til þess fórum við að austari jaðrinum á jöklinum...

Skoðuðum stóran svelg í leiðinni...

Sjá drýlana eða stríturarnar á jöklinum...  en þeir eru aurkeilur sem víðast sjást á skriðjöklum og myndast þegar aska eða set safnast fyrir ofan á jöklinum og nær að einangra ísinn þannig að hann bráðnar síðar en ísinn í kring og situr eftir eins og fagurkmótaðar strítur ofan á jöklinum...

Askan um allt...

Það er vel hægt að týna sér í mjúku landslagi skriðjökulsins... og leiðarval er vandmeðfarið þar sem aðeins einfaldara er að þræða sig upp jökulinn með útsjónarsemi framhjá svelgum og sprungum... en ansi erfitt að koma sér til baka þar sem allt lítur eins út og þú getur verið komið langt niður aftur þegar þú kemst ekki lengra og þarft að þræða þig aftur upp eftir til að finna rétta ranann sem þú fórst upp um og er kannski sá eini færi allan jökulinn sbr. Svínafells- og Skaftafellsjöklar...

Þarna var annar hópur í ísklifri...

Við ætluðum að gera þetta á eftir !

Sprungurnar saklausar enda enn vetur...

Sporagerð... heil vísindi á bak við þau í leiðsögumannaheiminum þar sem reglurnar eru strangar og menn verða að gera spor þar sem alllur fóturinn kemst í sporið... en hér í hópi eins og okkar er nóg að spora vel út þannig að menn geti fótað sig sæmilega og reglan um að spora vel fyrir næsta mann er mikilvæg... ekki slétta sporið út þannig að síðustu menn lenda í vandræðum... o. m. fl.

Allir fengu að spora... Maggi hér með góð gleraugu frá Dynjandi sem dugðu vel gegn íshrönglinu sem skaust um allt við höggin...
http://www.dynjandi.is/is/vorur/group/oryggisgleraugu
- kosta rúmar 2000 kr., glær og duga vel sem snjógleraugu í stað skíðagleraugnanna
í þessa endalausa snjóstormaveðri sem ríkt hefur í vetur...

... og gott að færa sig upp í brekkurnar þar sem vanda þurfti sporin til að renna ekki...

Síðasta verkefni dagsins... ísklifrið... við byrjuðum á tryggingunum ofan á ísveggnum...

Hreinsa yfirborðið og nota tvær ísskrúfur, h
nýta áttuhnút og má nota ólæsta karabínu þar sem ekkert reynir á losaralegan þvæling
en annars er góð regla að vera með læsanlega ef mögulegt er að okkar mati...

Ísinn skoðaður sem kemur upp úr skrúfunni... verður að vera samfelldur og ekki loft því þá er tryggingin ekki nægilega góð...
yfirborð, veðurfar, hitastig, sólargeislar o.fl. hefur þarna áhrif...

Karabínan komin á, hnúturinn og línan... tvær tryggingar til öryggis...

Þegar búið var að tryggja skall á með hressilegu slyddulegu hagléli... og við flúðum niður með ísveggnum...
en þegar búið var að ná í hlífðarbuxurnar og klæða sig úr göngubeltinu til að fara í regnbuxur... fór sólina aðeins að skína...
þetta var búið jafn skjótt og það byrjaði...

Tvær línur niður og hjálmar á alla sem stóðu undir veggnum...

Leiðbeinendur byrjuðu á að sýna okkur klifrið í raun... og Míó gerði það á ógleymanlegan máta...

... númer tvö og svo úúha til skiptir... við gleymum þessu aldrei :-)
broddar beint inn, stutt, treysta línunni, rétta vel úr handleggjum, halda ró ofl.

Við vorum látin taka öll hlutverk...
tryggja líka niðri og halda tvö meðan eitt okkar klifraði og það var virkilega gaman að fá að gera það...

Tvöfalda hjóliin og hvernig krækt var í það neðan við sleðann í beltið haldarans...
annar svo fyrir aftan sem tók línuna eftir því sem hún losnaði...
Þarna mátti ekki gleyma sér eina sekúndu og halda athyglinni á klifraranum allan tímann...

Örninn byrjaði í lengri brekkunna...

Og Elena í þeirri styttri...

Bára komin efst... skylda að ná upp þannig að maður sæi yfir jökulinn til austurs... geggjað gaman !

Hjálmar, Irma og ferðamaður þarna lengst vil vinstri...

Maggi kominn upp í lengri brekkunni og Doddi að byrja í styttri brekkunni...

Hópmynd !

Irma, Björn Matt Raggi og Maggi
Lilja Bj., Jóhannes, Örn, Míó, Hjálmar, Elena, Doddi og Svavar.
Bára tók mynd.

Doddi á ísnum... þetta var sko ís en ekki hjarn eins og þarna um árið á Svínafellsjökli
þegar við prófuðum þetta líka eftir misheppnaða göngu á Hnúkinn :-)
 

Höfðinginn tók þetta alla leið án þess að hika...

Þetta var meira en að segja það en ótrúlega gaman og gott að kynnast þessu... og margir vildu meira...

Björn og Jóhannes á ísnum...

Lilja hætti við að sleppa ísklifrinu og skellti sér upp vegginn án þess að hika... og var líka til í meira :-)

Mjög gaman að fá að sjá um tryggingarnar og skiptast þannig á hlutverkum...

Þeir félagar voru hafsjór af fróðleik og aldrei komið að tómum kofanum...

Elena í öskunni innst í sprungunni...

Við vildum meira... ekki spurning að fara aftur í meira ísklifur en þetta...
fá að setja skrúfur í vegginn og halda áfram upp...
kannski í Eilífsdalnum eða hvar sem menn eru vanalega...?

... en það var mál að linni...
klukkan að ganga fimm og við ætluðum í sund og út að borða og svo að koma okkur í bæinn...

Jökullinn undir ruðningnum...

Broddarnir skolaðir í jökulvatninu...

Ágætis upplýsingar um Sólheimajökul og skriðjökla við upphaf gönguleiðarinnar...
þessi jökull gæti horfið á 100-200 árum ef áfram heldur sem horfir...

Mýrdalsjökull... eigum alltaf eftir að ganga á Kötlukolla... :-)

Þegar komið var í bílana gerðist það sem við vorum öll búin að búa okkur undir allan daginn... það fór að rigna... og það hressilega svo við höfðum stutta lokaviðrun eftir daginn og drifum okkur í sund á Hellu þar sem það var lokað þegar komið var á Hvolsvöll en það hafði þær afleiðingar að við fengum eingöngu að fara í sturtu á Hellu, ekki í pottinn þar sem við komum eftir kl. 18:00...

Einn sveittur og einn kaldur eða álíka í Árhúsum á Hellu var ansi notalegur endir á deginum...

Vor í lofti í sveitinni en vetur daginn eftir í bænum...
það vorar klárlega fyrr í þessum landshluta þó veðrið þennan dag hafi auðvitað líka haft heilmikið um þetta að segja :-)

Takk kærlega fyrir okkur Míó og Raggi !

Fagmennska, lærdómur, friðsæld og gleði einkenndi þennan dag og skilaði okkur hungruðum heim í meira ísklifur...
og þakklátum með faglega  leiðbeinendur og langþráða útivera með dásamlegum göngufélögum :-)
Vá hvað við lærðum mikið á notalegum degi sem leið allt of hratt !
Geggjaður dagur og synd að fleiri Toppfarar upplifðu þetta ekki með okkur.

Allar myndir dagsins hér:
https://plus.google.com/photos/104852899400896203617/albums/6131212742007837873?banner=pwa

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir

laga