Ölfusvatnsfjöll og félagar
í kvöldsólarkyrrð
og haustlitum

Þingvallafjöll númer 25 og 26 voru gengið þriðjudaginn 15. september í enn einu blíðskaparveðrinu þetta árið á þriðjudagskveldi en veðurblíðan á þessum öðrum degi vinnuvikunnar hefur verið með ólíkindum allt kóf-árið mikla 2020...

Þetta er ein fegursta kvöldgangan sem gefst á þessu svæði...
til jafns á við Arnarfellið sem lúrir nánast hinum megin við vatnið...

... og skákar leiðum á þekkt flott fjöll eins og Búrfell í Grímsnesi sem hér blasir við í fjarska...

Víkur, tjarnir og ásar sem skreyta Þingvallavatnið allan hringinn eru hvert öðru fegurra og það er búið að vera sérlega gefandi að upplifa þetta svæði frá öllum hliðum... í öllum veðrum... á öllum árstímum... nú var það haustið með sínum djúpu, gjöfulu litum...

Við byrjuðum á Ölfusvatnsfjöllunum sjálfum... sem við töldum fjall eitt af tvö þetta kvöld...

Súlufell hér á bak við... Kyllisfell innar...
Stapafell með Hrómundatind enn hærra beint fyrir aftan sig og hluti af Mælifelli lengst til hægri...

Hagavík... lengst vinstra megin... þar sem við leggjum bílunum þegar gengið er á Sandfell og Mælifell...
 líklega fegursti staðurinn við Þingvallavatn...

Komin upp á hæsta tind Ölfusvatnsfjalla þaðan sem gefst magnað útsýni yfir Þingvallavatnið og á öll fjöllin á svæðinu...

Þessi fjöll teygja sig til norðurs að vatninu og enda í smá höfða sem heitir Lambhagi og við enduðum á áður en snúið var við...

Frábær mæting fimmta þriðjudaginn í röð á þessu ári... alls 37 manns...

Ágústa, Ása, Ásta J., Bára, Bjarni, Bjarnþóra, Björgólfur, Brynja, Elísa, Gerður Jens., Guðný Ester, Guðmundur Jón, Guðmundur V., Gunnar, Haukur, Helgi Máni, Hjölli, Inga Guðrún, Jóhanna D., Karen Rut, Katrín Kj., Kolbeinn, Lilja Sesselja, María E., María Björg, Marta, Oddný, Sandra, Sigríður Lísabet, Sigrún Bjarna, Sigurður Kj., Silja, Stefán Bjarnar, Vilhjálmur, Þórkatla, Örn og Þórey, vinkona Silju og Sigríðar Lísabet var gestur kvöldsins og fékk undanþágu með að skrá sig í klúbbinn þar sem við erum eiginlega búin að loka á skráningar vegna fjölda... og Batman og Myrra voru ferfætlingar kvöldsins...

Sem betur fer... vorum við svona mörg að njóta þessarar fegurðar...

Lægra Ölfusvatnsfjallið framundan.. í beinni línu við Miðfell og Dagmálafell handan vatnsins...

Gefandi samvera og umræður með meiru þetta kvöld...

Sandfell og Mælifell vinstra megin... Hengillinn efst ofan við nesjavallavirkjum...
og sólstafir yfir Hátindi og Jórutindi í Grafningnum...

Glæsilegar brúnirnar á Ölfusvatnsfjöllunum...

Gildurklettar hér framundan... og ofan við þá lúrir Lambhagi úti á vatninu nánast eins og eyja...

Við reyndum að virða friðhelgi þeirra sem eiga bústaði á þessu svæði með því að ganga eingöngu í fjörunni og hvergi inni á landi þeirra...

... og uppskárum gullfallega leið meðfram vatninu sjálfu...

Ölfusvatnsfjöllin hér í baksýn...

Haustlitirnir svo fallegir... þetta er orkumikill árstími sem án efa gefur okkur dýrmæta hleðslu áður en veturinn skellur á...

Það er eitthvað heilandi við það að ganga meðfram gjálfrandi öldunum...

Virðing... botnlaus... fyrir náttúrunni sem lifir í mun betra jafnvægi við umhverfi sitt en við mennirnir...

Sterkleg og falleg strá ofan á smá mosabreiðu... ofan á grjóti... í sandfjöru.... með öldur Þingvallavatns vaggandi til og frá...

Haustlitir....

Hvílík snilldarinnar fegurð... samneyti... jafnvægi... elja...

Nú neyddumst við til að fara upp í land til að halda áfram för...

... og gengum upp með Gildruklettum sem svo heita á þessu svæði... .

Framundan var Lambhaginn sjálfur...
sem sakir staðsetningar og fegurðar fær að standa sem sér tindur í tölfræðisafni Toppfara og í Þingvallaáskoruninni...

Lúpínan virtist vera að taka yfir allt svæðið á Lambhaga...
fylgjumst með þessu næstu árin og sjáum muninn eftir fimm ár eða svo...
getur verið að hún láti annan gróður í friði ?

Nesti úti í enda... með Þingvallavatnið útbreitt fyrir framan okkur...

Friðsæld og kyrrð eins og hún gerist best....

Eins metra reglan í gildi og eingöngu sambýlingar sitjandi hlið við hlið...

Menn fara vel eftir þessum reglum enda dreifast nestistímar og hópmyndir um allt þetta árið...

Ofurhjónin Guðmundur Jón og Katrín Kjartans... meiri reynsla er vandfundin innan raða Toppofara...
þau hafa mætt og gengið meira en nokkur annar í klúbbnum...
örugg og ólofthrædd... og alltaf til í göngu sama hvernig veðrið er...

Eins og síðast fórum við alveg niður að vatninu úti í enda...

Þar er klettur einn sem fékk smá heimsókn frá fremstu mönnum... Erni, Hjölla og Kolbeini...

... og svo frá Ingu Guðrúnu, Ásu og Sigurði Kjartans...

... og loks fóru Silja og Sigríður Lísabet þarna upp...

Við röktum okkur eftir fjörunni til baka...

Algert logn... dásamlegt veður...

Austan megin Lambhagans er kofi í niðurníðslu...

Þar stóð vodkaflaska á borðinu... fallega byggt hús af metnaði  á sínum tíma...
nú er greinilega enginn sem heldur þessu við...

... eins og þetta er fallegur staður...

Einbúi var síðasti formlegi viðkomustaður kvöldsins... telst ekki sem sér tindur en er skemmtilegur uppgöngu í bakaleiðinni...

... og gefur mjög fallegt útsýni yfir svæðið og gönguleið kvöldsins um láglendið frá Ölfusvatnsfjöllum...

Við kveiktum á höfuðljósum síðasta kaflann til baka eftir veginum og móanum... en þjálfari steingleymdi að taka mynd af því... fyrstu höfuðljósum vetrarins... en tók þessa í staðinn á heimleið um Nesjavallaleið í myrkrinu..

Alls 9,2 km á 3:17 - 3:19 klst. upp í 249 m á Ölfusvatnsfjöllum og 173 m á Lambhaga
með alls 436 m hækkun úr 124 m upphafshæð...

Yndislegt að ná svona fallegri göngu áður en myrkrið skall á... nýtum haustið vel.. það er sannarlega vel þess virði...

Hrafnabjörg og félagar framundan um helgina ef veður leyfir... en við ætlum þó veðurspáin sé ekki mjög góð... þar sem við þurfum að halda vel á spöðunum til að ná öllum þessum fjöllum á Þingvöllum... áður en árið er liðið...
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir