Allar þriðjudagsgöngur frá október út desember 2017
 í öfugri tímaröð

Valahnúkar 12. desember.
Vífilsfell 5. desember.
Esjan hefðbundin leið upp að steini 28. nóvember.
Búrfellsgjá 21. nóvember.
Móhálsatindar, Hellutindar og Sandfellsklofi 14. nóvember.
Helgafell Hafnarfirði 7. nóvember.
Geithóll Esju 31. október.
Tröllafoss og Haukafjöll 24. október.
Lágafellshamrar og Lágafell 17. október.
Eldborg nyrðri og syðri 10. október.
Vörðuskeggi um Skeggjadal Dyrafjöllum 3. október.

Í bleikum skýjum
á hefðbundinni Esjugöngu

Þjálfarar nenntu ekki þriðjudaginn 28. nóvember að taka 7,5 km göngu á Eyrarfjallið á rúmum 3 klst. með tilheyrandi lengri akstri og lélegri mætingu því það er nefnilega skýr fylgni milli mætingar og erfiðleikastigs í göngunum... og ákváðu að skella inn einni hefðbundinni Esjugöngu á þriðjudegi eins og í gamla daga... þegar við fórum Esjuna og Úlfarsfellið til skiptis alla þriðjudaga árið 2007 fram yfir áramótin... þar til við nenntum því ekki lengur og fórum að fara á önnur fjöll í febrúar 2008... og nutu þess í botn að rifja upp þessa skemmtilegu leið upp að steini um Einarsmýri nema nú var snjór yfir öllu og búið að lagfæra stíginn sem var í þó nokkrum krókaleiðum upp eftir...

... og ný skilti komin á leiðinni sem þjálfari tók mynd af af rælni þar sem hún hélt að þessi skilti væru búin að vera þarna lengi og hneykslaðist á sjálfri sér að vera ekki búin að fara þarna upp svona lengi... sem er reyndar líka hundinum að kenna... eða þ.e.a.s. mannmergðinni sem er þarna alltaf og veldur að það er ekki hægt að fara með hund með sér lausan á fjall á Esjuna hefðbundna leið... og ekki dettur manni í hug að fara á fjall með hund í bandi... hundsins vegna sem hlýtur að vilja njóta frelsins ef mögulegt er eins og hver önnur skepna á þessari jörð...

En svo kom í ljós að þessi skilti eru ný og þau voru formlega vígð daginn eftir af Ferðafélagi Íslands
en höfundur er sá sami og af fína skiltinu við Heklurætur... Árni Tryggvason, björgunarsveitarmaður
sem kenndi okkur með miklum myndarbrag á gönguskíðin hér í hitteðfyrra þegar við prófuðum ýmsustu jaðaríþróttir...

Fáir aðrir á fjallinu þetta kvöld en fyrstu árin og í árlegri Esjugöngu okkar á dimmasta tímanum árin á eftir hittum við mjög sjaldan aðra þegar komið var myrkur á Esjunni en líklega hefur þetta breyst og umferðin aukist með þessum fjölda gönguklúbba sem náð hefur að festa sig í sessi þó reyndar furðanlega margir veigri sér enn við að taka göngur í myrkrinu...

... og fara þá á mis við nákvæmlega þessa töfra... birtuna sem er engu lík... og spjallinu í dimmunni þar sem svo auðvelt er að vera nákvæmlega í núinu... núvitund er ekki flókið fyrirbæri í fjallgöngum... en haustfagnaðurinn sem breyttist í jólalegan vetrarfagnað síðustu helgi á Vikrafelli og Hraunsnefi var í umræðunni og við ekki ennþá komin niður á jörðina eftir þessa snilldahelgi... sjá sér ferðasögu af Vikrafellinu...

... en aftur að birtunni sem af fjöllunum stafar á einstakan hátt af snjónum... og stundum tunglinu sem gefur áþreifanlega birtu
og upplifist eingöngu þegar farið er út úr borginni... að ekki sé talað um stjörnubirtuna, norðurljósin...

Ofar tók vindurinn við á kafla og það blés ágætlega en það var eiginlega frískandi eftir lognmolluna neðar
þar sem maður var kominn úr ullarpeysunni og belgvettlingunum og farinn að hafa það allt of gott... :-)

Guðmundur Jón, Jóhanna Fríða, Herdís, Davíð, Karen Rut, Ólafur Vignir, Jóhann Ísfeld, Steingrímur, Ingi og Örn
en Jóhannes fór á undan og Bára tók mynd og hundarnir voru þessir allra hörðustu í klúbbnum þessa dagana og mæta alltaf... Batman, bónó og Moli sem eru farnir að eiga ansi flott fjallasafn í fótunum sínum og margar hverjar alvöru vetrarferðir...

Himininn var sérstaklega fagur þetta kvöld og við fengum borgina í fangið á leið til baka og
tunglið skínandi upp undan bleikum skýjunum... svo við geystumst af orku niður eftir...
og nokkrir renndu sér langa kaflann frá steininum gegnum mýrina... vá hvað það var GAMAN...

Niðri var eiginlega sumar og næstum því sól sko ! :-)

... allir glaðir...eða réttara sagt í vímu eftir frábæra göngu og hörkupúl... og því á flugi með alls kyns pælingar um merkingar á bílana sína... Jóhanna Fríða ein af ofurkonum Toppfara sem allt geta og allt gera í hífandi gleði og orku... sem einmitt einkennir oft fjallgöngufólk og hlaupara og annað útivistarfólk... það er pottþétt orkunni og heiluninni að þakka sem við fáum með útivistinni.... sem er ástæðan fyrir þemanu á næsta ári.... nauðsynlegt að gera sér einfaldlega grein fyrir þessu svo við hættum ekki þessu puði þegar stundirnar koma að við nennum ekki... en allavega... aftur að Jóhönnu Fríðu... sem búin er að merkja sinn alvöru jeppa Fjallaflandrara en merkið er hannað af henni og útfært af Jóngeiri Þórissyni hjá Pamfill - www.pamfill.is - sem á heiðurinn af öllum merkingum Toppfara gegnum árin... og við skorum á Steingrím sem sýndi okkur nýja bílinn sinn að merkja hann nú "Afi adrenalín"... ekki slæmt að eiga slíkan afa ! :-)

Alls 6,2 km á 2:05 - 2:13 klst. upp í 617 m hæð með alls hækkun upp á 614 m miðað við 8 m upphafshæð.

Tvær þriðjudagsgöngur eftir fram að jólum og svo lenda jólin á þriðjudegi svo það er engin milli jóla og nýárs
svo það er eins gott að nýta æfingarnar og mæta... Syðsta súla er tindferð desember mánaðar og það lítur vel út með veður... vonandi náum við að fara í þá göngu því þessi árstími er töfrar og ekkert annað !
 

 


Stundum er gengið í miðju málverki...
um Búrfellsgjá í vindi og vetri

... en náttúran er auðvitað tilefni þess að mörg fögur málverk hafa orðið til...
og því er langtum merkilegra að ganga um í henni sjálfri en einhvurju málverki...  :-)

Mikill vindur í kortunum hindraði ekki 18 manns til að mæta þennan þriðjudag 21. nóvember...
og þar af mættu Helga Edwald, Hjölli og Svala eftir hlé og Vallý kíkti í heimsókn
en annars voru þetta Arnar, Bára, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gunnar Már, Hjölli, Ingi, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Fríða, Njóla, Ólafur Vignir, Steinunn Sn., Súsanna og Örn ásamt Bátman, Bónó og Mola...

Snjór var yfir öllu og birtan því sérstök
og færi mjög gott en fara þurfti varlega yfir gjótur og gjár sem skaflar huldu á köflum...

Bleikur litur af upplýstum himninum frá borgarljósunum einkennir göngurnar á þessum árstíma
og þessi birta skreytir óvart ansi fallega í myrkrinu..

Gengið var fremur rösklega upp í gígbarminn og var ætlunin að ganga gígbarminn og fara niður í gíginn að borða nesti...

En það blés hvasst og enn verra var það uppi í skarðinu... þar sem vindurinn er reyndar gjarnan verstur því það þrengist um hann... en það var lítill áhugi á að berjast í vindi og borða í kulda og því afréðum við að láta þessa innkomu í gjána nægja
og sleppa hringleiðinni þar sem vindhviðurnar voru mjög hvassar og ófyrirsjáanlegar...

Alltaf svolítið svekkjandi að stytta göngurnar en flestir voru sáttir við að snúa við
enda allir gíraðir inn á notalega göngu Búrfellsins í Heiðmörk...

... enda versnaði veðrið á leið til baka
og þá kom feginleikurinn... jú, það var bara vitleysa að fara alveg upp á barminn...
en svo bankaði eftirsjáin áfram aðeins... kannski var þetta skárra efst en í skarðinu...
við hefðum nú alveg getað... nei, hættu þessu ! :-)

Kyngimagnað og ekkert annað... kvöldgöngur í myrkri að vetrarlagi gefa eitthvað alveg sérstakt
sem sumarið, vorið og haustið gera ekki... hver árstími hefur svo sannarlega sinn sjarma...
við myndum aldrei vilja vera án þessa árstíma á fjöllum þrátt fyrir allt myrkrið, kuldann, vindinn, ófærðina...
þetta er engu líkt...

Alls 5 km á 1:24 klst. upp í 168 m hæð meða lls hækkun upp á 90 m eða svo.

Haustfagnaðurinn sem breyttist í jólavetrarfagnað vegna skyndikosninga 28. október
framundan næstu helgi og stemning í hópnum...
 

 

Í töfrandi snjóhríð
upp og niður hryggi, gil, kletta, gljúfur og dali
að finna einhvern veginn leið í myrkrinu... hríðinni...
um Móhálsatinda, Hellutinda og Sandfellsklofa

Þriðjudaginn 14. nóvember lá nýfallin mjöll yfir öllum fjöllum og fellum kringum höfuðborgina
og við mættum galvösk til göngu við Vigdísarvallaveg í ljósaskiptunum...

Í raun ekki svæði sem sniðugt er að taka kvöldgöngu um þegar skollið er á myrkur...

... en sleppur vel ef snjór er yfir öllu... svo lengi sem skyggni er gott í úrkomuleysinu...

Það var hins vegar spáð úrkomubeltum sem fara áttu yfir svæðið fyrri hluta kvöldsins
og þessi spá rættist orðrétt...

... en það var heiðskírt á milli hryðja... og svo fallegt að engin orð fá þessari fegurð lýst...

Í fjarska glitraði gullin höfuðborgin með upplýst skýin af borgarljósunum... en annars var myrkrið allt í kring...
fyrir utan týrurnar sem við sáum gjarnan í í námunum rétt hjá bílunum
og var mikilvægt kennileiti ásamt borgarljósunum...

... og umferðarljósunum meðfram Reykjanesbrautinni...

Gengið var rösklega til að byrja með eftir Vígdísarvallavegi en farið svo upp þar sem ás liggur frá hryggjunum til vesturs
og veldur stórri beygju á veginum þegar keyrt er... hjólað... skokkað... eða gengið þessa leið... leið sem er mjög skemmtileg að sumri til og þjálfarar hlupu í vor í könnnunarleiðangri fyrir óbyggðahlaup Toppfara árið 2018 þar sem ætlunin er að hlaupa um Vigdísarvallaveg meðfram Móhálsatindunum öllum alla leið að Djúpavatni, Grænavatni og Spákonuvatni... um Sogin og svo framhjá Keili niður á Reykjanesbraut... um 25 km leið eða svo... geggjuð leið !

Brekkan var brött en vel fær í snjónum...
en keðjubroddarnir fóru á fæturna á þessari uppleið og komu sér vel þó færið væri almennt mjúkt og öruggt þetta kvöld...

Þegar upp á Móhálsatinda var komið eftir bröltið um brekkuna misstum við skyggnið og snjóhríðinni tók við... með engu skyggni framundan og því gekk Örninn eftir landslagi og stefndi á punktinn sem þjálfarar áttu af Hellutindum sem við höfum gengið á í tindferð um Sveifluháls 2010... og þá sem fyrsti tindur... en eins á þriðjudagskveldi þar sem gengið var á Háuhnúka norðan megin við Vatnsskarðið og svo um Sandfellsklofann alla leið á Hellutindana fyrir nokkrum árum síðan...

Mjög erfið rötun og auðvelt að láta afvegaleiðast vegna landslags og lélegs skyggnis...
og við hefðum allt eins þurft að snúa við áður en að Hellutindum kom sökum illfærs landslags...
en þetta hófst betur en við þjálfarar áttu von á... og brátt vorum við komin á Hellutindana sjálfa...

Töfrarnir við að ganga svona í snjónum innan um klettana...
upp og niður síbreytilegt landslagið voru engu líkir...

Þegar lent var á Hellutindum var þessi hríð búin í bili og við tók fallegt veðrið aftur...
þar sem skyggni var frábært og við nutum þess að horfa á norðurljósin birtast í vestri yfir Reykjanesbrautinni
og standa í myrkrinu í snjónum í fjöllunum með borgarljósin lengst í fjarska...

Myrkrið er áþreifanlegt á þessum tíma í fjöllunum á þriðjudögum... en þegar snjórinn liggur yfir landsinu þá er hann jafnmikill birtugjafi og höfuðljósin... en á allt annan hátt... við sjáum hvernig landið liggur nær og fjær í hinu stóra samhengi... gátum sem dæmi vel séð Kleifarvatnið sem dimman poll í austri... og Vatnshlíðina alla hinum megin hvíta og dulúðuga... en höfuðljósin gefa okkur svo skýra birtu nær... til að sjá hvar best er að fóta sig í nærumhverfinu næstu skref...

Myndirnar sem nú eru teknar á símana eru mun betri en þær sem teknar voru fyrstu árin í myrkrinu með myndavélunum...
en stundum koma myndirnar ansi skemmtilega út... eins og þessi af Reykjanesbrautinni...

Flottur hópur mættur...
Erna, Jóhanna Fríða, Agnar, Steinunn Sn., Jóhann Ísfeld, Súsanna, Björn Matt., Guðmundur Jón, Gunnar Már, Örn,
Karen Rut, Njóla og Doddi en Bára tók mynd og Batman, Bónó og Moli skoppuðu með í snjónum...

Ofan af Hellutindum var stefnan tekin eftir hálsinum til baka og helst um Sandfellsklofann að Vatnsskarðinu og þaðan í bílana...
við vildum sniðganga klettabröltið sem mest um Móhálsana...

... en það tókst ekki sem skyldi...
landslagið er of flókið á þessum slóðum og við fórum aaaaaðeins meira upp og niður
en við hefðum kosið svona á þriðjudagskveldi milli hryðja...
en myndatökurnar voru óborganlegar... :-)

Ljósverur á fjöllum... :-)

Það skiptust á hreint skyggni og dásemdar friður... og snjóhríð á köflum sem einnig gaf einhverja töfra...

.... með mjög skemmtilegu brölti í brekkum... giljum... dölum... hryggjum... bókstaflega...

... þar sem allt mögulegt og ómögulegt var til umræðu okkur öllum til gamans
svo hlátrasköllin gullu um allt niður að kleifarvatni...

... og leiðin var mun skemmtilegri en þjálfara minnti svona í saklausu "norðurtaglinu á Sveifluhálsinum" í raun...

Örn náði þessari skemmtilegu borgarljósahiminmynd af Agnari og Guðmundi...

... en það tókst ekki að ná hópmynd í sömu birtu þegar við reyndum... :-)

Jóhanna Fríða prófaði að kaupa þessa keðjubrodda sem eru mun ódýrari en Kahtoola...
endilega prófa allt og vera gagnrýnin á útivistarfatnaðinn þar sem verð segir ekki nærri nándar allan sannleikann
um gæði búnaðarins...

Mitt í endalausum þrælingnum til baka skall á enn ein snjóhríð...
... sem skreytti þennan kafla ansi fallega...

og var bara njotaleg í bakið... en truflaði rötunina hjá Erni sem sá ekkert nema rétt fram fyrir sig
og því var gengið eftir gps-punktinum að bílunum fyrst og fremst...

En það er einmitt svo gaman og áhugavert að prófa þetta... ganga eftir tilfinningu, minni, landslagi og gps
og sjá hvað kemur í ljós... ekki elta slóð eða þekkta leið... sjá bara hvað gerist... það kemur oft á óvart...
sérstaklega þetta kvöld þar sem landslagið var mun margslungnara en við áttum von á...

Þetta var síðasta brekkan... héldum við... en ekki alveg... við vorum austar en tilfinningin sagði manni... það er auðvelt að villast í svona landslagi og skyggni... og nauðsynlegt að vera með gps eða gott kort í símanum... og best að hafa alltaf örugga punkta í gps-tækinu... og helst vera með fleira en eitt tæki í gangi... og alltaf með vara rafhlöður...

og lesgleraugun maður !!! ... þjálfarar mega ekki gleyma þeim lengur ! :-)

Batman var kominn með mjög stóra og þunga snjóbolta utan um hárin sín þegar leið á gönguna
sem þyngdi hann verulega og var honum til trafala...

... en það var meira en að segja það að losa þetta... hann hafði enga þolinmæði í það með okkur
komst sjálfur ekki á þessi svæði með tennurnar og hljóp bara áfram...
þjálfarar hafa aldrei séð þetta svona slæmt...

Þetta var síðasta brekkan upp í mót... við náðum okkur í mikla hækkun alls þetta kvöld...
sem reif verulega í, í snjóþyngslunum...

Loksins vorum við komin og stutt eftir... en vá hvað þetta var kyngimagnað kvöld... algerir töfrar...

... og myndirnar alger snilld... :-)

Alls 7,2 km á 2:31 klst. upp í 323 m á Móhálsatindur, 384 á hellutindum og 214 á Sandfellsklofa
með alls hækkun up á 396 m miðað við 133 m upphafshæð.

Geggjað kvöld - meira svona !
 

 

Norðurljósadýrð
á Helgafelli í Hafnarfirði
... í fyrsta snjó vetrarins...

Fyrsti snjór vetrarins lá þunnur yfi Helgafelli í Hafnarfirði þriðjudaginn 7. nóvember
í blíðskaparveðri... lygnu, svölu og léttskýjuðu...

Við fórumhefðbundna leið upp gilið á leið upp
og spáðum í að fara niður um hraungatið til baka ef veður leyfði...

Frost í jörðu og pollarnir á leiðinni ísi lagðir að hluta...

Gilið er mjög skemmtileg leið... mun fallegri en öxlin...
en Helgafellið er klárlega fegursta fjallgangan af þeim allra algengustu í kringum Reykjavík...

Hundarnir í Toppförum hafa alltaf gefið okkur mikið... innlifun, þakklæti, gleði, hugrekki... og algert traust...
Moli bíður eftir eigendum sínum og dettur ekki í hug að stinga þá af...

Fegurðin þetta kvöld var einstök...

Njóla var með höfuðljós með rauðum lit í skálinni kringum peruna... sem varpaði rauðum lit á snjóinn...
og við fengum netta jólastemningu við þennan rauða bjarma...

Stjörnurnar tóku brátt að lýsa af himni þegar rökkrið skreið yfir...

... og bjarminn af borginni lýsti upp himininn...

Birtan var eins og hún gerist best á fjöllum þegar snjórinn er kominn...

Töfrar sem engin orð né myndavélar ná... svona lagað upplifist á staðnum...

Norðurljósin tóku að kræla á sér um leið og birtan þvarr nægilega mikið til að þau yrðu sýnileg...
það tóku ekki allir eftir þeim fyrr en við vorum komin upp...
en við sem vildum ganga ljóslaus vorum aftar og sáum þau koma smátt og smátt...

Síðustu metrarnir upp á tindinn...

Uppi skriðu norðurljósin um allt fyirr ofan okkur og við báðum alla að slökkva ljósin...
öðruvísi er ekki hægt að njóta dýrðarinnar...

Þetta var sýning á heimsmælikvarða eins og svo oft áður í myrkrinu á veturna á fjöllum...

Í bakaleiðinni skrýddust þau áfram um allan himinn
og við nutum fegurðarinnar fyrir ofan okkur sem mest við gátum...

Við enduðum á að fara gilið til baka... ekki öxlina og ekki hraungatið því uppi var gjóla og vindurinn sunnan megin
og menn vildu frekar fara niður í skjólið norðan megin í gilinu...

Yndisleg samvera og ægifagurt kvöld sem gaf okkur mikið... heilun og hreyfingu eins og þeir gerast bestir þriðjudagarnir að vetri til... þetta er ástæðan fyrir því að við elskum veturinn líka... án hans myndum við ekki njóta sumarsins eins vel... þetta er einstsakur tími á árinu og vert að njóta hans sem mest við getum...

Alls 4,8 km á 1:44 klst. upp í 452 m hæð með alls hækkun upp á 452 m miðað við 93 m upphafshæð.
 

 

Regnvotur Geithóll

Þriðjudaginn 31. október mættu eingöngu sjö manns á æfingu í suddaveðri, engu skyggni og auðu færi...
en hlýju engu að síður... og lygnu... svo jákvæðum hlutum sé nú haldið til haga...

Í svona veðri... auðri jörð... rigningu... og myrkri...
er skyggni með allra versta móti og engin leið að rata nema með stuðningi gps... nema slóði sé fyrir hendi...
... og það reynir á höfuðljósin sem aldrei fyrr... hugsa sér að fyrstu árin vorum við með mun lélegri ljós en nú...
skil ekki hvernig við fórum að þessu þá...

Gleðin var alls ráðandi þetta kvöld og brosin lýstu upp allt sem þurfti...
karlmenn í meirihluta eins og yfirleitt alltaf í Toppfaragöngunum þó félagatalið sé nokkurn veginn kynjajafnt...
eki það að við séum upptekin af þessu...
nema jú stolt þjálfara yfir að hafa svona hátt hlutfall karlmanna í gönguhóp almennt hefur ekki farið framhjá neinum :-)

Nákvæmlega þetta er ástæðan fyrir því að við förum á fjöll allt árið um kring...
við allar aðstæður... sama hvað... forréttindi að eiga svona glaða félaga að... sem eru alltaf til í allt... sama hvað :-)

Jóhanna Fríða, Guðmundur Jón, Gunnar Már, Ólafur Vignir, Herdís, Davíð... og Örn tók mynd...
Bára var veik heima... og hundurinn Batman rennblotnaði og var lengi að jafna sig eftir gönguna...
suddarigning hentar loðnum hundum engan veginn og gerir þá einfaldlega aðframkomna...

Takið eftir hvernig allir eru í stíl við dumbunginn sem einkenndi þessa göngu...
það var enginn litur að ná almennilega í gegn í þessu veðri !

Alls 7,2 km á 2:30 klst. upp í 553 m hæð meða lls hækkun upp á 588 m miðað við 11 m upphafshæð.

Aðdáunarverð frammistaða !
 

 

Gengið í sólsetrinu
upp gljúfur Leirvogsár að Tröllafossi
og um Haukafjöll til baka

Höfðingja Toppfara... Birni Matthíassyni 77 ára, var fagnað eftir komuna frá Nepal í byrjun æfingar þriðjudaginn 24. október...
þar sem hann gekk upp í Grunnbúðir Everest með nepalska leiðsögumanninum okkar, honum Rishi Kumar
og lék hann sér að verkefninu... hélt því meira að segja fram að grunnbúðirnar hefðu nú bara verið 5.261 m háar eins og húfan sýnir hér og ekki hinar eiginlegu búðir Grunnbúðir Everestfara... en fyrrum Grunnbúðarfarar klúbbsins samþykktu það nú ekki og léku húfum sínum merktum 5.365 m gegn þessari kenningu...

... og við rifjuðum upp einmitt þessa misræmi í hæðartölum á þessum slóðum...
 
þar sem ýmsar tölur sáust þegar við vorum þarna... allt upp í 5.540 m...
sem einnig átti við um Kala Pattar tindinn sem sum okkar gengu einnig á
en hann er og gefinn út í nokkrum hæðartölum á svæðinu
og við mældum hann 5.643 m háan... svo misræmið er endalaust á þessum slóðum...

... en eftir situr að við gengum sannarlega upp í grunnbúðirnar
sem eru ekkert annað en þetta grýtta, stóra svæði hér...
þar sem hundruðir manna dreifast í fjölda tjalda í grýtinu á hverju vori...
en ekkert tjald er á þessum árstíma þarna að hausti..

Sjá ræturnar á Khumbú-ísfallinu hægra megin
þar sem stigarnir eru eina leiðin til að komast í gegnum og upp jökulinn áleiðis á Everest...

Sjá nánar hér og um allt á veraldarvefnum:
https://en.wikipedia.org/wiki/Everest_Base_Camp

En... við vorum nú bara stödd á Íslandi á einföldu þriðjudagskveldi í sumarlegu veðri...
þremur árum eftir að 18 Toppfarar gengu upp í þessar búðir í lygilegasta landslagi nokkurn tíma...
... og Arngrímur einn af nýliðum klúbbsins frá því í vor... er þarna í þessum skrifuðu orðum... að ganga þessa sömu leið...
við mælum eindregið með því að fleiri Toppfarar skelli sér til Nepal... það er þess virði...

Frábær mæting í veðurblíðunni og sólarskap við völd...

Jóhannes, Gunnar, Guðmundur Jón, Örn, Svavar, Sigga Sig., Heiða, Gunnar Már, Guðrún Helga, Arnar.
Remí gestur Davíðs, Steingrímur, Ingi, Björn Matt., Guðlaug, Karen Rut, Davíð og Agnar
en Bára tók mynd og Batman og Slaufa féllust enn einu sinni í faðma af gleði að fá að hittast í fjallgöngu :-)

Gengið var norðan megin við Leirvogsá upp að gljúfrinu sjálfu eins og svo oft áður
... en það er á dagskránni næsta sumar að ganga hinum megin upp eftir og skoða gljúfrið vel þeim megin
og vaða ánna ofan við fossinn og fara til baka hinum megin árinnar og vaða aftur til að komast í bílana...
bara gaman að æfa smá vað yfir ískaldar ár að sumri til :-)

Það var synd að við skyldum vera að ganga í austurátt...

... því sólarlagið var óskaplega fallegt í vestri og engin leið að njóta þess nema snúa sér sífellt við...

... en þeir sem venja sig á að njóta sólseturs eru búnir að læra að það er síbreytilegt...

... og nauðsynlegt að njóta augnablikanna meðan þau vara því annars missir maður af miklu...

Gönguslóðinn er einfaldur til að byrja með inn eftir ánni og svo liggur slóðinn upp í brekkurnar ofan við gljúfrið...

... en við héldum áfram inn eftir og freistuðumst til þess að ná að klöngrast í hlíðinni ofan við ána innar...

... þar sem oft hefur verið flókið að koma sér alla leið...

... sérstaklega þegar meira er í ánni og klaki í brekkunum ofan við hana eins og í febrúar 2011...

Litið til baka... hvílíkur dásemdarstaður til að vera á í ljósaskiptunum...

Ofan við gljúfið var haldið áfram í átt að fossinum... sjá Skálafellið sem var sigrað fyrr í haust í hörkugöngu sem mun færri mættu á en núna... já, við ætlum að passa þetta mun betur á næsta ári... að hafa styttri göngur annað hvert skipti því það er langtum meiri mæting í þær en þessar löngu kvöldgöngur... við höfum líklega farið aðeins of mikið fram úr okkur á þessu ári með öllum þessu löngu kvöldgöngum... enda 10 ára afmælisár og okkur greinilega of mikið í mun að ná öllum flottu kvöldgöngunum inn á sama árinui... en samt náðust hvort eð er ekki nándar nærri allar flottar kvöldgöngur inn á dagskrána í ár...  og bíða því óþreyjufullar ársins 2018... þær njóta sín eflaust betur með léttari göngum á milli... jebb... við skulum róa okkur aðeins í dagskrárgerð ársins 2018 :-)

Litið til baka niður eftir gljúfrinu... svona landslag er heilandi... svona kvöld er orkugjafi...
svona ganga er heilsubætandi ekki síður á sál en líkama...

Tröllafoss birtist svo ofar í öllum sínum mikilfengleik... einn af mörgum fossum sem aldrei rata í fréttirnar... sem enginn er að gera veður út af... og allt of fáir að njóta... hann yrði líklega vinsælli ef það ætti að fara að virkja hann... stundum mættum við líta okkur nær... og hafa vit á að njóta þess sem er fyrir fótum okkar... en ekki óskapast yfir einhverju sem er utan okkar seilingarfjarlægðar og við höfum lítið vald yfir... hér er staður til að njóta allt árið um kring... njótum hans sem oftast !

Við gengum niður að góðum útsýnisstað ofan hans... ef gengið er hinum megin að honum er hægt að fara niður í gljúfrið og ganga upp með flúðunum og alveg að fossinum... sé það er gert á góðu sumarkveldi má skynja hversu krafturinn er óhugnanlega mikill í ekki stærri fossi en þessum... og maður fær á tilfinninguna að geta sogast niður í jörðina ef maður dytti ofan í pyttina sem liggja undir vatnsflaumnum þarna í ekki bara fossinum sjálfum heldur og flúðunum neðar... varasamur staður tl að vera á en kyngimagnaður... skoðum hann betur á næsta ári...

Við gengum ofan við fossinn úr því það var ennþá skyggni...

Mikilfenglegt og áhrifamikið að horfa á hann héðan í rökkrinu og friðnum sem þarna ríkti...

Rökkrið réði hér með... ekki sjens að þvælast yfir á Þríhnúka sem eru þarna rétt hjá í myrkrinu
nema til að klöngraast án þess að njóta útsýnisins sem var ekki sérlega spennandi...

...svo við héldum áfram för yfir á Haukafjöll þaðan sem einstakt útsýni gefst yfir á Móskarðahnúkana alla, Laufskörðin öll og Hátind sem og Skálafellið og Svínaskarð... Svínaskarð... þar fer staður sem við höfum ekki gengið á en þjálfarar þekkja hlaupandi... og þar á bak við eru sjaldfarna Írafellið, Hádegisfjall og Skálafellsháls sem við gengum einu sinni á að vetri til... og enduðum í myrkri.... það er kominn tími á þau fjöll aftur og það að sumri til...

Til baka þvældumst við í myrkrinu með roðasleinn himininn yfir borginni og Örninn sniðgekk okkar hefðbundnu leið niður bungurnar að bílunum og valdi vinstri beygju niður á stíginn meðfram ánni... til að hlífa landi staðarhaldara og girðingum þeirra enda alger óþarfi að valta þar yfir með gönguslóðana meðfram ánni... 

Alls 5,4 km á 2:04 klst. upp í 266 m hæð meða lsl hækkun upp á 402 m miðað við 105 m upphafshæð.

Skínandi góð kvöldganga... flestar Kvöldgöngurnar í safni Toppfara eru á þessu bili sé safnlistinn skoðaður...
kringum 6 km á 2 klst...
við skulum passa að hafa slíka annan hvern þriðjudag á næsta ári og ekki lengri en það...
... þessar lengri svo í hitt skiptið til tilbreytingar...
 

 

Lágafellið öfuga leið
í vindi og rigningu
en hlýju veðri og sumarfæri

Þriðjudaginn 17. október fórum við Lágafellshamrana í Úlfarsfelli upp en ekki niður...
frá Lágafellskirkju en ekki Lágafellslaug...
og enduðum á Lágafellinu endilöngu í stað þess að byrja á því...

... og það var stórskemmtilegt að upplifa þessa leið í hina áttina...
... leið sem við höfum farið átta sinnum áður milli jóla og nýárs eða þar um bil frá upphafi klúbbsins...

Mjög þétt hækkun upp Lágafellshamrana...
svo vanda þurfti fótmálið og vera þolinmóður upp lungamjúkan og óskaplega fallegan mosann...
... hefur hann aukist eða er þetta bara öðruvísi í myrkrinu í desember ?

Við sniðgengum grjótskriðuna sem við höfum vanalega runnið niður um í góðum sporunum í mölina eða snjóinn...
og héldum okkur vestan megn við rennuna alla leið upp...

... sem var fínasta leið og mun öruggari en skriðan beint í skarðinu...

En þó runnu nokkur grjót svo á það reyndi en allir vanir að kalla og passa sig...

Rjúpan var í bunkum uppi á hömrunum og virtu þær okkur fyrir sér forvitnar og steinhissa
á þessum þvælingi ferfætlinga og tvífætlinga hópsins í rokinu...

Fimmtán mættir... flott mæting í ekki sérlega góðu veðri en stuttur akstur eflaust haft sitt að segja...
það munar um að sleppa heillar klukkustundar akstri hvora leið...
á ársíma þegar freistandi er að skríða bara undir teppi þegar heim er komið eftir vinnudaginn...

Guðmundur Jón, Heiða, Agnar, Sigga, Arnar, Guðrún Helga, Davíð, Jóhanna Fríða, Doddi, Njóla, Herdís, Ingi og Örn en Bára tók mynd og Batman, Slaufa og bræðurnir Bónó og Tinni nutu kvöldsins með okkur en Bára tók mynd :-)

ttu brekkuna var gengið eftir Úlfarsfellinu til austurs og farið niður í skóginn og yfir á Lágafellið
þar sem föngulegur göngustígur sem við höfum aldrei áður gengið afvegaleiddi okkur heldur til norðurs
en við náðum áttum aftur í myrkrinu hinum megin þar sem við gengum í jaðrinu á nýja hverfinu í Mosó...
og náðum að ganga allt Lágafellið upp og niður hnúkana áður en farið var niður að kirkjunni...

... og náðum með því fullum 6 kílómetrum á tæpum tveimur tímum eða 1:56 klst.
upp í 272 m hæð á Úlfarsfelli ofan Lágafellshamra og 123 m á Lágafelli
með 371 m hækkun miðað við 90 m upphafshæð
svo það var eins gott að við tókum svona stóran hring :-)

Mjög áhugavert að sjá leiðina í dagsbirtu og reyna sig við brekkuna upp en ekki niður
en... það munar heilmikið um jólaljósin... og töfrana í algeru myrkrinu í desember...
Þetta einstaka andrúmsloft sem einkennir þessa leið og maður fann vel að vantaði...
undirstrikar vel að það er þess virði að fara hana á hverju ári...
 nákvæmlega á þessum dimmasta tíma ársins í desember...

Við höldum okkur við heimabyggð í næstu viku líka...
og förum spennandi leið upp í Gunnlaugsskarð í mun meiri bratta en Mosfellsbærinn bauð okkur upp á
og sambærilega meiri hrikaleik í hömrum og klettum :-)
 

 

Eldborg syðri og nyrðri
í fallegu Lambafellshrauni
en þungbúnu veðri

Þriðjudaginn 10. október náðum við loksins að ganga á báðar Eldborgirnar í Lambafellshrauni
en ekki bara aðra þeirra...

... þrátt fyrir að veðrið væri ekki það besta... rigning öðru hvoru og smá gola...

Leiðin er mjög skemmtileg frá Lambafellshnúknum sjálfum...
stikuð alla leið... enda hluti af Reykjaveginum...

Eldborg nyrðri... sú sem við gengum á hér um árið í erfiðu veðri...
bauð upp á flotta litasamsetningu í rauða hrauninu sínu mitt í græna mosanum...

Tíu manns mættir... Gunnar Már, Heiða, Karen Rut, Ólafur Vignir, Jóhannes, Davíð, Heimir, Sigga Sig, Agnar
og Örn tók mynd en Bára var að vinna enn einn þriðjudaginn í röð...

Gengið var eftir gígbarmi Eldborgarinnar áður en haldið var yfir á þá syðri...

... mosasléttan haustlitaslegin á milli...
þessi leið er heilandi og nauðsynleg einn daginn aftur í fallegu veðri og meira sumri...

Eldborg syðri... ekki alveg eins og sú nyrðri... grænni og ekki þessi rauða möl... en erfitt að átta sig á því í rökkrinu...

Rökkrið komið og höfuðljósin nauðsynleg á slóðum sem þessum þar sem engin kennileiti frá vegi né borg
vísa veginn eða áttina...

En... gígbarmurinn engu að síður rakinn allan hringinn í rökkrinu áður en snúið var við í myrkrinu...

... og gengið í myrkrinu um stíginn til baka alla leið í bílana...

Alls 9,2 km á 2:58 klst. upp í 442 m hæð með alls hækkun upp á 264 m miðað við 288 m.

Aðdáunarvert að ná þessu á þessum árstíma og þessum þungbúnu birtuskilyrðum...
Þetta var allra síðasta langa gangan í ár... við lofum..
nú förum við í kringum 2ja klukkustunda göngur meira og minna fram að áramótum...
gjarnan nær borginni en á bjartari tíma ársins...
... þar til annað sannast allavega :-)
 

 

Kyngimagnað samspil
birtu og landslags
á Vörðuskeggja um Skeggjadal

Þriðjudagsgöngurnar síðustu vikurnar hafa verið hvur annarri fegurri...
á sólarlagsslegnum kvöldum eða undir friðsælum skýjabreiðum himninum...

... þriðjudagskvöldið 3. október var ekki undanskilið...
en þá var gengið á Vörðuskeggja styttri leiðina norðan megin um Skeggjadal úr Dyrafjöllum...

Töfrandi fagurt landslag sem er heilun út af fyrir sig að ganga um...
eins og svo oft áður á saklausum þriðjudagskvöldum...

Síðsumars... og á haustin skartar náttúran sínu fegursta í raun... því þá eru litirnir skærastir... dýpstir...
hraust-rakinn í fullvaxta gróðrinum og algert snjóleysið eftir sumarið einkennir þennan tíma...
og hefur oft gefið okkur litríkustu göngurnar og myndirnar...

Vörðuskeggi er virðulegur tindur...
og tignarlegri þessa leiðina úr Dyrafjöllum frekar en um Innstadal að sunnan yfir Húsmúla...
en sú leið er mun lengri og frekar dagsferð
þó við höfum farið þá leiðina nokkrum sinnum í gegnum tíðina á björtum kvöldum...

Báðar leiðir mjög spennandi sem óbyggðahlaupaleiðir ekkert síður en gönguleiðir...
skokkandi á stígunum og mosanum... í grjótinu og skriðunum...
og séu þær sameinaðar og farið endilangt um báðar...
og til baka um Marardal þá er maður búinn að fara í veislu á saklausum laugardagsmorgni langhlauparans...

Eiai verulega áskorunin á þessari leið að norðan er langa brekkan upp Skeggjann sjálfan...

Mjög fallegt veður þetta kvöld en þegar komið er í yfir 800 m hæð er ekki sjálfgefið að fá skyggni...
þó það sé bongóblíða í bænum og allt í kring...

Þetta átti við Vörðuskeggja þetta kvöld... fínasta skyggni neðar... en þokuslæðingur efst...
eins og sést vel að átti við Esjuna einnig...

Sautján manns mættir...

Lilja Sesselja, Olgeir, Ólafur Vignir, Steinunn Nn., Jóhanna Fríða, Súsanna, Guðmundur Jón, Arnar, Guðrún Helga, Svavar, Jóhannes, Davíð, Herdís, Jóhann Ísfeld, Erna
og seinna bættist Agnar við en hann kom seint og lagði bílnum einum dal fyrr því miður en elti hópinn engu að síður uppi...
 og Batman, Bónó og Moli skoppuðu með og Örn tók mynd... en Bára var að vinna þetta kvöld...

Brekkan upp á Vörðuskeggja tekur vel í og gefur þessari leið góða æfingu í brölti í skriðum...
Jóhanna Fríða með nýjan göngustaf sem hún keypti á Spáni í gönguferð í september...

Útsýnið úr hlíðum Skeggjans áður en þokuslæðingurinn tók við ofar...
séð til Þingvallavatns yfir Dyrafjöll... Skjaldbreið lágreist ávöl þarna hægra megin við miðju...
sjá hvernig skýjabólstrarnir léku við tindana í Botnssúlum vinstra megin...

Og svo kom þokan á tindinum sjálfum...

Rjúpur voru þarna um allt...

Dulúðin uppi á tindinum var kyngimögnuð... en það var gott veður uppi þó gola léki við kinn...

Agnar náði hópnum þegar menn voru farnir að koma sér niður í skjól fyrir nesti...
hraðinn á honum svo mikill við að ná hópnum að hann náðist ekki í fókus á mynd :-)

Okkar bíður ekkert nema myrkrið framundan... og þá eru höfuðljósin okkar besti vinur...

Fallegt var það kvöldið...

Birtan var einstök... bjartur himinn... rökkvað landslag... bjart... en samt myrkur...

Höfuðljósin hafa margfaldast í birtugæðum frá því við byrjuðum veturinn 2007 - 2008
að ganga í fyrsta sinn í myrkri á fjöll í lífinu... þetta er ekki alveg eins flókið núna árið 2017...

Eitt höfuðljós lýsir hvorki meira né minna en svona... ekki einhvur ljóstýra á stíginn til að greina milli steinanna...
heldur gott skyggni tugi metra fram á við :-)

Norðurljósin skreyttu svo lokakaflann að bílunum... svona kvöld verða vart flottari...

Alls 7,5 km á 3:01 klst. upp í 811 m hæð með alls hækkun upp á 600 m miðað við 356 m upphafshæð.

Þjálfarar eru alltaf að lofa því að göngurnar séu að styttast með haustinu...
hún er samt frekar löng gangan næsta þriðjudag...
en að mestu í hrauni á tiltölulega jafnsléttu landslagi... en þó upp og niður hólótt landslag...
þetta hlýtur nú að fara að léttast eitthvað úr þessu ! :-)

En... meðan ekki viðrar um helgar fyrir tindferðir eins og núna um helgina svo fresta þurfti Hlöðufelli...
þá lifum við á þriðjudagsgöngunum sem gefa dýrmæta útiveru og alvöru æfingu...
 svo verum bara þakklát og umvefjum hvert kvöld sem við fáum svona upp í hendurnar...
hvílíkt lán að komast í göngu í svona birtu og svona landslagi...  :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir