Tindferð 88 - Múli, Trana og Möðruvallaháls laugardaginn 5. janúar 2013


Læðst um lítinn veðurglugga
bak við Móskarðahnúka
á fallegri göngu í mildu veðri, sæmilegu skyggni og fínu færi

Loksins komust Toppfarar á fjall...
í fyrstu göngu sinni frá því á þriðjudagsæfingu þann 18. desember ...
og frá því í síðustu tindferð á Hrútaborg og Kolbeinsstaðafjall 11. nóvember sem þá var í þröngum veðurglugga milli illviðra...
 að þessu sinni bak við Móskarðahnúka um Múla, Trönu og Möðruvallaháls í norðausturhorni Esjufjallgarðsins...
... á fyrstu baksviðs-göngu ársins í anda þema tvöþúsundogþrettán...

Ætlunin var að fara sjaldfarnar slóðir um Múla og Trönu og niður um nyrðri fjallsrætur Móskarðahnúka á tvo litla, nafnlausa tinda sem þjálfarar nefndu Eyjadalshnúka og rísa í botni Eyjadals... og snúa loks við um þröngt fallegt gilið milli Trönu og Móskarðahnúka sem endar í Svínaskarði... og taka þrjá kílómetra skurk niður að bílum... og allt átti þetta að gerast í brakandi fallegu vetrarveðri, þessari bláu og bleiku heiðrkíru sem einkennar þennan dimmasta tíma ársins... innan um kristaltær snævi þakin fjöllin...

...en bákaldur raunveruleikinn reyndist allur annar þegar á hólminn var komið þessa fyrstu helgi ársins 2013...  því þessi rósrauði draumur þjálfara hefði þýtt rúmlega 14 km göngu á sex til sjö klukkustundum sem var of langt miðað við nískan veðurgluggann sem átti víst að enda á mikilli úrkomu upp úr klukkan eitt á laugardeginum og standa yfir í fjórar klukkustundir... og sunnudagurinn bauð ekki upp á nægilega stórt svigrúm í veðrinu... svo menn gerðu bara sínar ráðstafanir og tóku flotta hrygginn norðan við Trönu í staðinn á hringleið niður um Möðruvallaháls... þessi vetur lætur sannarlega ekki að sér hæða...


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Lagt var af stað í myrkri en úrkomulausu veðri og sæmilegu skyggni til fjalla kl. 9:03... eftir smá leðjuslag frá veginum um sumarhúsahverfið Norðurnes norðaustan megin við Esjufjallgarðinn...

Gengið var upp með Múli sem segja má að sé austasti hluti Esjufjallgarðsins (nema Skálafell fái að vera með!) og var hann auðgenginn í þessu færi... líka í klöngrinu efst um hrygginn... sem er enn eitt dæmið um að sakleysislegir múlar geti alveg verið skemmtilegir uppgöngu ;-)


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Útsýnið suðsuðaustur að Svínaskarði um Svínadal með Skálafell í skýjunum...

Útsýnið með Múla niður í Svínadal með nyrstu fjallsrætur Hádegifjalls hægra megin...

Smá klöngur efst á hrygg Múla...

Ingi, Áslaug, Bestla í hvarfi, Björn Hermanns, Jóhanna Karlotta og Lilja Sesselja...
öll í góðum málum á fjalli þennan dag ;-)

Á heiðinni yfir á Trönu tók snjórinn loks við í einhverju magni...
með klakann innan um um rennblauta skaflana í snjóhengjum niður í Eyjadal...



...og menn neyddust til að fara á broddana þeir sem ekki voru þegar komnir í þá...

Átján voru þau sem lögðu í hann og veðjuðu á nægilega gott veður til notalegrar göngu innan um lægðirnar:
Áslaug, Lilja Sesselja, Bestla, Ingi, Björn H., Björn Matt, Jóhannes, Jóhanna Karlotta og Lilja G.
Jóhanna Fríða, Ósk, Lilja Kr., Óskar Wild, Gerður Jens., Irma, Svala og Hildur Vals en Örn leiðangursstjóri tók mynd 
og hinn þjálfarinn lá lasin heima.

Eftir útsýnistúr af hæsta Tindi Trönu og af brúnum hennar niður í Eyjadal þar sem nokkuð vel sást til fjalla hinum megin dalsins og niður í Hvalfjörð en lítið á sjálf djásnin í suðri, Móskarðahnúka og Laufskörð... þar sem gæta þurfti að snjóhengjunum í vesturbrúnum...


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

...var stefnan tekin á hrygginn fagra milli Trönu og Möðruvallaháls... sem heitir því sérkennilega nafni Fremra högg að sunnan og  Heimrahögg að norðan... en högg í landslagi þýðir víst stallur sem átti vel við...

...og var hryggurinn greiðfær í þessu blauta sumarfæri í rúmlega 600 m hæð...



...sem var sérkennilegt eftir helfrosið fljúgandi hála ástandið í könnunarleiðangri þjálfara um slóðirnar í byrjun desember í fyrra...
en það var svo sem ekki langt í hálkuna á köflum...

Virkilega falleg leið...


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Útsýni niður að Laxá í Kjós og Sandfjall sem rís eins og lítill álfakollur í dalnum og gefur mikinn svip... en það er á dagskrá í sumar...

Á bröltinu um hrygginn sá Jóhannes á eftir stafnum sínum niður brekkuna hér á mynd niður í Eyjadal...

 

...og lét sig hafa það að klöngrast niður eftir honum í þessum bratta...

...sem er honum og örfáum öðrum ofurmennum Toppfara líkt ;-)

Félagarnir hér á brúnunum að svipast um eftir meistaranum með áhyggjusvip... ;-)


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Leiðangursstjóri dagsins með Óskari Wild, Díu og Lilju Kristófers...


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Útsýnið niður með Trönu um Eyjadal yfir á Seltind sem var sjöundi tindurinn á níutindagöngu um Flekkudal Esjunnar þann 17. maí 2012... en það eru tíu tindferðir á milli þessara gangna því Flekkudalurinn var  sjötugastaogsjöunda tindferð klúbbsins og þessi um Trönu sú áttugastaogáttunda... en Seltindur er kominn á dagskrá ársins 2014... ;-)

Skýin voru til friðs þennan dag... á hreyfingu með vindhviðum sem komu og fóru á efri stigum dagsins...

... en aldrei kom rigningin sem spáð var að kæmi um eittleytið yfir þetta svæði...

...hún lét ekki sjá sig fyrr en allir voru löngu komnir í bílana og óku heim á leið um Mosfellsdalinn í mesta sakleysi...

Stundum glitti í bláan og bleikan himininn...

 ...en það var aldrei meira en það enda lúrðu skýin yfir Esjunni eins og það bar fyrir sjónir okkar sem vorum í bænum þennan dag
og mændum til fjalla með hugann hjá félögunum...

Múli hér að baki frá því fyrr um morguninn... Skálafell í fjarska hægra megin og Hádegisfjall vinstra megin en það liggur utan í Skálafelli að norðnorðaustan og er líka nefnt Skálafellsháls á kortum... og verður vonandi gengið með Írafelli í lok mars í ár... með sólina aðeins hærra á lofti en þessa dagana ;-)


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Komin niður á Möðruvallaháls í snjó og mosa... Sandfell í Kjós ótrúlega svipmikið í fjarska...

Litið til baka til fjalla í suðri... Múli og austurbrúnir Trönu nær á mynd...

Sólin fór á loft kl. 11:13 og settist kl. 15:51... ekki langur dagur... sérstaklega ekki þegar það er þungbúið... þeim mun dýrmætara að ná nokkurra klukkustunda útiveru á þessum stystu og myrkustu dögum..

Esjuhorn vestan megin við Eyjadal... sem var áttundi tindur göngunnar okkar um Flekkudal þann 17. maí 2012...


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Séð út með Eyjadal frá Möðruvallahálsi en Eyjadalur skiptist í minni dali innar undir Móskörðum í Hrútadal norður undir Seltindi, Suðurárdal niður undir Móskarðahnúkum og Norðurárdal niður undir Trönu...

Niður var snúið ofan af Möðruvallahálsi um góða leið í sköflum og svo mosa og möl...


Mynd fengin að láni frá Óskari Wild - takk Óskar minn ;-)

Útsýnið ágætt niður í Svínadal sem er hrein paradís á góðum sumardegi í sumarhúsabyggðinni þarna umkringd fjöllunum allt í kring... ÍIrafell og Hádegisfjall í fjarska og enn fjær er Kjölur í Mosó sem þjálfarar eru með í sigtinu fyrir flotta vetrargöngu...

Nesti á niðurleið þar sem fyrra nesti var tekið á uppleið...
Það var ekki sérlega hlýlegt þarna uppi í þessu veðri... þó ekki væri hægt að kvarta þessi dægrin ;-)

Hreint sumarfæri í þessum endalausu rigningum síðustu sólarhringa... snjóflóðahættu-áhyggjur þjálfara í gilinu milli Móskarðahnúka og Trönu líklegast með öllu tilefnislausar... vonandi nær snjórinn að gæða fjöllunum lífi lengra fram eftir vetri þegar sól hækkar á lofti og brakandi bjartur snjórinn nýtur sín vel...

Alls um 9,7 km á 4:48 klst. upp í 693 m á Múla, 742 m á Trönu og 673 m á Möðruvallaháls ef svo má kalla hálsinn alla leið frá Höggunum...
sem þýddi að menn voru komnir í bæinn upp úr hálf þrjú og nóg eftir af laugardeginum... hvílík forréttindi í lífi Toppfarans sem er vanur að koma í bæinn um kvöldmatarleytið eftir göngu... getum nú alveg vanist þessu svona endrum og sinnum... þó smekkur klúbbsins sé allur löngu göngu megin í tindferðunum ;-)

Þversnið göngunnar.

Sjá göngu dagsins á korti...
Gula línan er ganga dagsins... sú svarta er sú sem ætlunin var að fara þar til veðrið setti strik í reikninginn...

Kærkomin útivera í frábærum félagsskap

Ekki spurning að taka Eyjadalshnúka og gilið niður í Svínaskarð síðar... við gefum ekkert eftir frekar en áður og tökum þær gönguleiðir sem ekki nást vegna veðurs um leið og hægt er... leitum því færis til að komast á Bláfell á Kili... um Bláfjallahrygg... og upp með Glym kringum Hvalvatn ef góðir dagar gefast á þessu ári... þess vegna næstu helgi ef vel viðrar eða hvað ? ;-)

Takk allir fyrir að láta slag standa þennan dag !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir