Tindferð 82: Nyrsta, Rauða og
Innsta Jarlhetta
laugardaginn 25. ágúst 2012
Töfrandi
Jarlhettur
Sautján Toppfarar fóru kyngimagnaða ferð um Jarlhettur við Eystri Hagafellsjökul í Langjökli laugardaginn 25. ágúst í svölu en lygnu veðri og frábæru skyggni þar sem gengið var á Nyrstu Jarlhettu, Rauðu Jarlhettu (Rauðhettu) og Innstu Jarlhettu...
Lag var af stað frá Skálpanesi... skála hálendismanna við austanverðan Langjökul þar sem Montainers af Iceland m. a. gera út á sleðaferðir um jökulinn en sjá mátti rútu koma með ferðamenn niður að jöklinum síðar um daginn þar sem raðir af snjósleðum biðu þeirra og eru greinilega geymdir á jöklinum yfir sumartímann. http://www.mountaineers.is/Snowmobiles/
Gengið var um stórgrýti úr 822 m hæð niður í 684 m við jökulsprænurnar sem ganga úr jöklinum framhjá nyrstu Jarlhettunum...
... en þær létu lítið yfir sér og voru varla nema þornandi leirinn þennan dag sem þýddi smá drullumall fyrir göngumenn...
Eftir stórgrýtið... og leðjuslaginn... tók fyrsta fjallgangan við... Nyrsta Jarlhetta ef svo má heita sem rís í nokkrum bungum norðaustan við Innstu Jarlhettu og var sömu gerðar og aðrar Jarlhettur... grjótskriður, lausagrjót og móbergsklettar...
Útsýni dagsins alveg eðal... hér að Bláfelli á Kili sem er á dagskrá í desember í ár ef bílfæri og veður leyfir...
Uppi á Nyrstu Jarlhettu var komið fram á brúnir umkringdar jökullóni þar sem ísjakar spókuðu sig um í svalanum...
Víglína
dagsins... á fjallshrygg Nyrstu Jarlhettu
sem liggur að jökulsporðinum
Nyrsta Jarlhetta er margtindótt og við þræddum okkur um þá alla með ólíkt útsýnið á hverjum stað...
Innsta Jarlhetta hér í baksýn, vestan megin við lónin og Nyrstu Jarlhettu...
Við vorum komin inn í töfraland Jarlhettna og sáum suðureftir tindaröðinni ofan af fyrstu Jarlhettu dagsins og stóðumst ekki mátið að taka mynd ef skyggnið myndi nú breytast... spáð rigningu alls staðar fyrir sunnan og vestan þennan dag en sól á miðhálendinu þar sem við vorum nánast stödd... enda slapp þetta vel hjá okkur á fallegum, háskýjuðum degi með sólina á köflum að gylla allt...
Ástríður,
Björn, Ólafur, Örn, Thomas, Gylfi, Hildur
R., Guðmundur V., Lilja Sesselja og Kári.
Ofan af Nyrstu Jarlhettu sáum við fallegan rauðbrúnan hvassan koll... og þjálfari varpaði því til hópsins að nefna þessa Jarlhettu eftir að við vorum búin að sigra hana... og Gylfi kom með besta nafnið; Rauðhetta sem við köllum Rauðu Jarlhettu í samræmi við aðrar nafngiftir á svæðinu (Staka, Stóra, Innsta Jarlhetta)... snilldarnafn Gylfi!
Listaverkin á þessari gönguleið voru óteljandi... við vorum í steinaríki þar sem hvorki fuglar né flugur... fiskar né fiðrildi létu sjá sig...
... og máttum hafa okkur öll við að komast gegnum þessa bergheima...
... sem bauð upp á sérhannaðan veitingastað með sveigðu og beygðu móbergi fyrir stóla og borð... ....Design a la glaciere Langjökull... og við fengum okkur að borða í dýrðinni...
Örn fann fína leið niður af veitingastaðnum gegnum hamra og lausagrjót... Rauða Jarlhetta framundan.
... þar sem fara þurfti hægt og varlega í þurrum jarðveginum...
Fyrstu menn ekki lengi að þessu...
Sjá tunglkennt landslag Jarlhettna... minni hólar og hæðir sem liggja samhliða stærri klettum...
Litið til baka upp á Nyrstu Jarlhettu þar sem hópurinn kemur niður...
Við stefndum næst á Rauðu Jarlhettu... skyldi hún vera göngufær þarna upp klettana...? Við vissum ekki til þess að menn hefðu verið að ganga þarna upp og þjálfarar þóttust hafa séð uppgönguleið þarna í könnunarleiðangri um daginn...
Innsta Jarlhetta í baksýn á leið upp á norðurtaglið á Rauðhettu...
Við vorum komin yfir á Rauðhettu... þar sem bergið varð rauðara eftir því sem ofar dró... .
Vorum ekkert að flýta okkur um þennan töfraheim... þar sem mórautt jökullón var umkringt gönguslóða dagsins... Nyrstu Jarlhettu í austri... Rauðu Jarlhettu í suðri... Innstu Jarlhettu í vestri... og Langjökli í norðri...
...sem við
gengum um í þessari röð þó ekki kæmumst við
hringleið frá Innstu Jarlhettu að
skriðjöklinum
Á norðurtagli Rauðu Jarlhettu með Nyrstu Jarlhettu í baksýn...
Heimur Rauðhettu var mjúkur og hlýr...
... og útsýnið yfir töfraheim Jarlhettnanna í suðri kom sífellt betur í ljós...
Í norðri mátti sjá snjósleðaraðir Mountaineers of Iceland á jöklinum...
Leiðin upp á hæsta tind Rauðhettu var mun greiðfærari að sjá en úr fjarska...
Það var helst að klettahaftið efst yrði smá klöngurverkefni...
... en þar reyndist vera fyrirtaks geil sérhönnuð fyrir okkur...
... og við vorum í engum vandræðum með að klöngrast þarna upp...
Ofar tóku berar móbergsklappirnar við...
...skreyttar misgráum steinum sem gáfu hald frekar en að renna undan skónum...
Það var sannarlega þess virði að gera krók á leið að Innstu Jarlhettu um þessa hettu...
Hæsti tindur var í suðri...
... og endaði á hengiflugi niður snarbratta sundurskorna hamrana sem við gátum varla treyst að gæfu sig ekki...
Útsýnið fram af brúninni ef maður lagðist á magann og kíkti niður... Ath! Þetta eru ekta litir beint úr myndavélinni - ekkert búið að eiga við myndirnar úr þessari ferð frekar en vanalega á þessari vefsíðu nema við gerðum undantekningu og jukum contrastinn á hópmyndinni sem tekin var á þessum stað og er efst í ferðasögunni.
Sjaldan höfum við fengið annað eins útsýni... minnti á Fögrufjöll og Langasjó...
Hildur R., Bára og Súsanna... með í maganum af öllu þessu útsýni sem fátt toppar ;-)
Á tindinum að dást áð útsýninu... þetta var sannarlega veisla...
... sem við héldum áfram að njóta það sem eftir lifði dags því hún var rétt að byrja þarna á Rauðhettu...
Enn eitt dæmið um hversu stærri heimurinn er á hverju fjalli ef gengið er á það en ætla má úr fjarska...
Vel greiðfært var móbergið...
... og ljósmyndararnir voru þeir einu sem drógust aftur úr þennan dag eins og gjarnan þessa mánuðina...
Geilin góða þar sem fóta þurfti sig varlega niður...
...og Kári aðstoðaði eins og herforingi þá sem fóru niður klettana..
Niður skarðið var svo farið í dalinn sem liggur sunnan við Innstu Jarlhettu...
... úr mórauða heiminum hennar Rauðhettu...
...niður á blásvarta sandinn sem umlykur svæðið á láglendinu...
... og sumar Jarlhetturnar alla leið upp á tind...
Síðasti kaflinn niður...
Við tók sandauðnin skreytt stórgrjótum sem flogið höfðu niður af Rauðu og Innstu Jarlhettu...
Grýttar fjallsrætur Rauðhettu...
Eflaust magnað að ganga kringum Rauðhettu að sunnan og austan...
Við héldum inn grýttan sanddalinn og tókum svo að hækka okkur upp fjallsrætur Innsu Jarlhettu þar sem brattinn er minnstur...
Engu að síður
krefjandi göngufæri þar sem lausagrjótið á
klöppinni þvældist fyrir...
Það var engu líkara en að við gengjum í stanslausu málverki hettunnar... og hefðum getað fyllt myndavélarnar af grjót- og klettamyndum...
Komin upp á suðurhálsinn á Innstu Jarlhettu...
... þar sem úsýnið tók við yfir Mið-Jarlhetturnar og stærsta jökullónið á svæðinu...
Nestisstund
nr. tvö... menn vildu nærast áður en
lokabardaginn hæfist
Við tóku krefjandi skriður alla leið upp á tind...
Í útsýni sem hvergi verður lýst... Stóra Jarlhetta vinstra megin og Mið-Jarlhettur, jökullón, Eystri Hagafellsjökull, Hlöðufell og Skjaldbreið í fjarska en við tókum eftir snjóföl efst á Hlöðufelli sem rís í tæplega 1200 m hæð... jebb, greinilega snjóað í rúmlega 1100 m hæð!
Hægt er að
fara skriðurnar alla leið frá hálsinum og
upp á tind... eða þræða sig fyrst með
klettunum áður en gilið tekur við...
Sjá syðri
hálsinn vel hér.
Farið að sjást í leiðina upp á efsta tind...
Ekkert gefið eftir og við þræddum áfram gegnum skriður, kletta og lausagrjót...
Göldrótt mynstur og lygilegar litasamsetningar um allt...
Skriðjöklarnir í suðri ofan við vestara mið-lónið... eflaust gaman að þræða upp skerin þarna...
...ef hægt er að komast að fyrir leðju...
Skriðurnar tóku við upp á efsta tind og við tókum þetta á spjalli, draumum og hlátri...
Landslagið stórbrotnara eftir því sem ofar dró...
...og önnur sýn gafst á Jarlhetturnar... m. a. þá allra bröttustu í miðaustri sem Gylfi skírði af stakri snilld Kambhettu. Ekki spurnig að ganga einn daginn frá Skálpanesi að Hagavatni innan um töfraveröld Jarlhettnanna og koma kannski við á einni af hettunum í miðið þar sem við höfum nú gengið á nokkrar í suðri og norðri...
Austurtindur Innstu Jarlhettu...
Síðasi
kaflinn upp á efsta tind... þar sem berjast
þurfti við grjóthrun, lausagrjót og bratta
áður en hann var sigraður...
Örn kominn á efsta tind sunnan megin...
... og Guðmundur V og Ólafur norðan megin en
þeir þveruðu hlíðina efst og fóru þar upp og
flestir fóru þá leið
... sem Björn, Bára og Örn sjást klífa hér á mynd frá Áslaugu af fésbók - takk fyrir lánið Áslaug!Kambhettu í fjarska en Sandvatn fjærst..
Tindur Innstu
Jarlhettu er allur laus í sér - alla leið upp - og var allur
að molna að ofan Það var svo sannarlega þess virði að bíta á jaxlinn og sigra þennan tind...
Rauða Jarlhetta... sem var heilmikið klöngur og tignarlegur tindur fyrr um daginn... svo smá og saklaus ofan frá hæsta tindi Jarlhettnanna... ... og Bláfell í baksýn lengst uppi vinstra megin!
Útsýnið til
norðausturs... Hvítárvatn, Hofsjökull og
Kerlingarjföll nánast "fyrir neðan okkur"
fannst manni...
Eystri Hagafellsjökull í norðaustri með austurhrygg Innstu Jarlhettu nær.
Útsýnið niður á Jarlhetturnar sem virtust ósköp smáar þarna niðri... meira að segja Stóra Jarlhetta sem er 943 m há.
Umferðin um
tindinn var einbreið og lítið hægt
að spóka sig um...
Hildur og
Sylvía á efsta tindinum sjálfum...
Kambhettan hans Gylfa í fjarska fyrir
neðan...
Hluti af hópnum... sem ekki þurfti að fara yfir haftið eins og við hin til að komast skárri leið niður af tindinum... Gerður, Lilja Sesselja, Thomas, Áslaug, Ólafur, Guðmundur V., Irma, Súsanna og Gylfi en Steinunni vantar á mynd.
Kári og Örn komu okkur yfir... Kári með því að stilla sér upp á versta kaflanum... algerlega berskjaldaður fyrir því að vera ýtt óvart niður af þeim sem hann var að hjálpa... og Örn með því að losa um grjótið og leiða menn áfram upp brekkuna eftir haftið sjálft... en það var eiginlega sama hvað losað var mikið grjót... það var allt laust í sér og við héldum á köflum að þeir myndu loka okkur inni á tindinum með öllu þessu sópi...
Þetta leið ekki sérlega vel út og fara þurfti varlega...
... en við létum okkur hafa það þar sem við vildum heldur fara niður hina leiðina heldur en sömu leið niður og við komum upp um hrygginn þar sem brattinn og lausagrjótið var það mikið...
Þetta gekk vel og allir komumst heilir yfir... Takk Kári fyrir aðstoðina og ósérhlífna hjálpsemina öllum stundum í þessum klúbbi... ;-)
Skjálfandi af gleði, lofthræðslu eða andakt yfir útsýninu... héldum við af stað niður...
... staðráðin
í að halda þétt hópinn... gæta að hverju
skrefi og staf til að sópa ekki niður
grjóti... halda yfirvegun og rósemd...
Og það gekk mjög vel...
Við gengum sem einn maður niður... .
og skiptum svo í tvö lið þegar neðar var komið...
...þar sem fyrri hópurinn fór í skjól neðar áður en seinni hópurinn tók skriðuna niður..
Litið til
baka upp eftir leiðinni... ekkert mál fyrir
nokkra klöngrara í blautu veðri þar sem
jarðbegurinn er betur bundinn saman...
...enda minnti
þessi kafla óneitanlega á
Herðubreið
Hver hjálparhöndin var uppi með annarri...
... og
vinalegt bros á sumum vörum sem skipti
sköpum þegar farið er um varasama kafla
Día fór sínar eigin leiðir og leist stundum ekkert á blikuna... en kláraði alla leið upp og niður og sat fyrir á réttu köflunum ;-)
Komin úr verstu skriðunni og baaaaara eftir að klöngrast niður lausagrjót um móbergskletta og skriður nokkra tugi metra...
... en við vorum í æfingu frá því um morguninn og létum okkur hafa allt... varla búin að melta það að hafa komist upp og niður annan eins tind og þennan þarna á Innstu Jarlhettu...
Og við tókum þriðju og síðustu matarpásuna með Jarlhetturnar allar í fanginu í suðri...
Örn valdi leið
niður grjótskriðu í suðri í stað þess að
fara krók um suðurhálsinn
...þó hún byrjaði í sömu krefjandi lausagrjóti á klettum og í skriðum því hún breyttist fljótt...
...í fínustu sandrennu sem var kærkomin hvíld frá stanslausu klöngrinu...
... og við runnum niður á köflum...
... í sömu botnlausu fegurðinni sem einkenndi þennan dag...
Litið til baka leiðina sem farin var niður - fínasta leið ef menn vilja ekki krækja sér upp á suðurhrygginn en hann er vel þess virði að ganga á þar sem útsýnið beggja megin ofan af honum er stórkostlegt. Í könnunarleiðangri á fjallið fyrr í ágúst fór Örn upp austar sem var meira krefjandi leið um lausar grjótskriður þar sem krækja þarf þá fyrir til að komast á tindinn... fyrir þá sem eru að velta uppgönguleiðum fyrir sér... eins virðist leið frá lóninu austan megin vel fær til að byrja með en er líklega alveg ófær ofar til að komast á tindinn nema krækja sér þá ofar hringinn hinum megin - en sú leið gæti verið skemmtileg síðar til að skoða aðra tinda Innstu Jarlhettu því þeir eru nokkrir eins og við sáum vel þegar við gengum neðan við hana síðar um daginn.
Fremstu menn nánast sofnaðir ;-).... meðan þeir öftustu skiluðu sér niður á láglendið úr skriðunum...
Aftur var farið um skarðið við Rauðhettu... hægt að krækja fyrir hana austan megin og strauja beint í bílana sem er styttra og greiðfærara... en við vorum hvergi hætt... áttum eftir jökullónið og skriðjökulinn... þetta var tindferð í hæsta gæðaflokki þar sem fjallstindur dagsins var bara ein af mörgum perlum dagsins...
Sem fyrr segir er láglendisganga um töfraland Jarlhettna... fyrir þá sem vilja ekkert með fjallgöngur að gera... hreint ævintýri sem er vel þess virði að leggja í...
Komin ofar í Rauðaskarð ef svo má kalla milli Rauðhettu og Innstu Jarlhettu sunnan megin við lónið... þar sem Kambhetta og fleiri hettur sjást vel... eitt það magnaðasta við Jarlhetturnar er hversu ólíkar þær eru þó þær liggi þarna allar í tindaröðum frá norðaustri í suðvestur...
Hinum megin skarðsins... úr svart-grá-bláa heiminum beið okkar brúni-rauði-guli heimurinn...
... þar sem gengið var meðfram mórauðu jökullóninu...
...um sendna... smágrýtta... stórgrýtta... jökulrudda ströndina...
Rauða Jarlhetta í baksýn - Nyrsta Jarlhetta á hægri hönd göngumanna og Innsta Jarlhetta á vinstri hönd...
Það andaði köldu frá sorgmæddum... lúnum... söndugum... sigruðum jöklinum...
... sem barðist hatrammt fyrir lífi sínu undir fótum okkar...
...við grjótið sem hafði yfirhöndina...
... og játaði sig sigraðan fyrir grýtinu...
Við tókum eina hækkun í viðbót upp á norðurtagl Nyrstu Jarlhettu...
Þar gafst gott
útsýni gafst yfir víglínuna... og á Innstu
Jarlhettu þar sem við sáum tindinn tæpa...
Sem betur fer létum við freistast til að ganga að jöklinum fremur en taka styztu leið að bílunum fyrir grjótið...
... því þar leyndist enn eitt ævintýrið áður en dagurinn var allur...
... í leðjuslag við sandinn sem sauð jökulinn í hrönnum...
... og við gengum um skriðjökulinn sjálfan sem lá í blóði sínu við grýttan jaðarinn...
...og lak í stríðum straumum undan ísnum... niður af honum í fossum... og út í grjótið... ..
Ljósmyndarar Toppfara máttu varla mæla...
... og hefðu getað verið þarna klukkutímunum saman...
... að mynda orrustur hvert sem litið var...
Framandi landslag sem sagði stóra sögu um hop jöklanna sem mega sín lítils í spánarveðri heilu sumrin þessi árin...
Svarti sandurinn einangrandi því hann nær að halda kuldanum frá lofthitanum og sólarhitanum...
Stundum var manni ekki sama... hvað leyndist þarna undir... einhverjir með brodda í pokanum en það var ekki ætlunin að nota þá þennan dag og því var hann ekki staðalbúnaður... enda þurftum við ekki á honum að halda...
Hvílíkt magn af vatni, ís, sandi...
Sömu sprungulínurnar í jöklinum og í móberginu á Rauðhettu...
Stundum náðu þær langt niður og vatnið rann strítt undir okkur...
... eða lá í kyrrlátum pollum sem biðu eftir því að sameinast einhverju fljótinu síðar...
... í sprungum sem sumar voru meira en tíu metra djúpar... en náðust ekki á mynd af einskæru hugleysi ritara (kannski á Gylfi góða mynd af dýpstu sprungunni?).
Íshellar undan jaðrinum og við þræddum okkur vel fyrir ofan þá...
Fossar og jökulveggir annars staðar og við þræddum okkur líka vel fyrir ofan þá...
... þar til við fundum góða leið út í grjótið aftur þar sem ekki biði okkar þverun á sprænum eða lónum...
Það var fagur staður...
... þar sem
fossar runnu í lítillæti kuldans sem ríkti
þennan dag en voru hvítfyssandi vikuna á
undan í könnunarleiðangri þjálfara
Leðja þarna þar sem jökull og grjót mættust en Kári kom mönnum á þurrt land... þ.e.a.s. grjót...
... við sem síðustu vorum tímdum varla að fara úr þessu ísa-landi...
... og teygðum lopann eins og hægt var...
Þetta var veisla ljósmyndarans...
... í jöklaheimi þar sem landslagið breytist stöðugt og er ekki eins daginn eftir...
Sjá vatnið renna niður af jöklinum alla röndina (droparnir lenda á vatninu fyrir neðan).
Gylfi og aðrir ljósmyndarar gátu ekki hætt...
Umsátur... íshella umkringd grjóti á alla vegu...
Hún átti ekki sjens úr þessu...
Síðustu menn yfirgefa veisluna...
Kuldinn sem
var lentur á landinu þessa dagana er farinn
að breyta landslaginu kringum jökulinn fyrir
veturinn eftir leysingar sumarsins...
Síðasta kaflann gengum við í smá- og stórgrýti og allt þar á milli að bílunum við Skálpanes...
... í sömu litadýrðinni og einkennt hafði þennan dag...
Takk fyrir okkur virðulegu Jarlhettur... þetta var sannarlega veisla á heimsmælikvarða...
Alls 16,3 km á 9:19 - 9:25 klst. upp í 810 m hæð á Nyrstu Jarlhettu, 878 m á Rauðu Jarlhettu og 1.093 m á Innstu Jarlhettu með alls hækkun upp á 1.581 m miðað við 822 m upphafshæð en lækkun niður í 684 m við jökullónin.
Gönguleiðin á korti. Slóðinn niður að jöklinum er jeppaslóði sem nýttur er af snjósleðamönnum á jöklinum.
Við vorum lúin en himinlifandi með stórkostlegan dag á fjöllum... en þau allra hörðustu fóru ekki í bæinn heldur í skála Ferðafélags Íslands við Hagavatn - sem rís við Syðstu Jarlhettur - þar sem þau grilluðu, gistu og gengu á Stóru Jarlhettu daginn eftir í sól og blíðu við berjamó: tengill á myndasíðu Gylfa - vantar myndir þar - Alger snilld hjá þeim ;-)
Sjá myndaveislu leiðangursmanna á fésbók: www.facebook.com. Allar myndir þjálfara úr ferðinni hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T82JarlhetturNyrstaRauAOgInnsta250812
Sjá myndir
Thomasar úr ferðinni: Sjá myndir Gylfa Þórs úr ferðinni:
|
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|