Herðubreið sigruð !


... í upphafi göngunnar...

Magnað hálendisævintýri...
 
...er að baki Toppfara helgina 6. - 9. ágúst þegar
31 félagar fóru 4ra daga ferð inn á Möðrudalsöræfi og toppuðu Herðubreið í blíðskaparveðri og einu viðfeðmasta útsýni sem gefst á Íslandi.

Gengið var síðari daginn um umhverfi Öskju og fengum við frábært veður allan tímann.
Stemmningin var einstök í þessari ferð og maður er bljúgur af þakklæti fyrir toppgistingu, -veður, -göngur og -stemmningu í hópnum sem til samans gerðu þessa ferð að einni ógleymanlegustu í sögu klúbbsins.

 Herðubreið er hæsti íslenski fjallstindurinn sem hópurinn hefur toppað ef ekki eru teknar með tilraunagöngur á Hvannadalshnúk og göngurnar kringum Mont Blanc í fyrra og er það vel við hæfi því gangan var tæknilega sú erfiðasta í sögu klúbbsins þar sem ekki er auðvelt að fara saman 30 manns upp brattar hlíðar Herðubreiðar í grjóthruni allan efri hluta fjallshlíðarinnar.

Við vorum svo lánsöm að Sæmundur, landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs bauðst til að leiðsegja okkur upp drottninguna og féll hann vel inn í gáskafullan hópinn sem réð hann á staðnum til að fara með okkur á fornu Inkaslóðina Machu Picchu í Perú Suður-Ameríku árið 2011... og Sæmundur reyndist okkur það vel að hann var gerður að heiðursfélaga Toppfara í hópi manna Jóns Gauta, Guðjóns Marteins hjá ÍFLM og Olivers í Chamonix Frakklandi...

------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hér kemur ferðasagan...

Lagt var af stað úr bænum kl. 8:00...
Framundan var rúmlega 
600 km ferðalag á 11 -12 klst. frá Reykjavík inn í Drekagil við Dyngjufjöll á Möðrudalsöræfum...
Nestisstopp var í
Vatnsdalslundi (sjá mynd) og á flugvellinum á Akureyri þar sem Halldóra Þ. bættist í hópinn
n Hildur Vals hafði þá sameinast hópnum á leiðinni
auk þess sem Sigga og Heimir ætluðu að keyra öræfin á fjórhjólum og hitta okkur í Drekagili.

Matarpása var svo kjötsúpa og brauð á Hótel Reynihlíð við Mývatn.

Og Möðrudalsöræfi tóku við inn að Herðubreiðarlindum og Öskju...

Árnar voru vatnslitlar og slóðinn fólksbílafær...
Leiðin sóttist mun betur en nokkur þorði að vona...

Herðubreið heilsaði okkur með virktum í kyrrlátu og hlýju veðri í Herðubreiðarlindum...

Herðubreið er eldfjall sem varð til við gos undir jökli á síðustu ísöld og er hún því eldri en tíu þúsund ára gömul...
Húnner dæmigerður
móbergsstapi með bólstrabergi neðst, þykkt lag af móbergi ofar sem sést m. a. í hömrum fjallsins og efst situr svo hraunið með keilulaga tindi sem er hluti af gígbarminum sjálfum en gígurinn er fullur af snjó, ís eða vatni eftir árstíma.

Skýkollur var á höfði hennar en að sögn skálavarða var hún ekki búin að taka ofan í þrjár vikur...

Dreki... aðstaða Ferðafélags Akureyrar í Drekagili - www.ffa.is.

Þarna gistum við í þrjá daga í nýlegum, frábærum skála og fór svo sannarlega vel um okkur þar.

Helga Björns og Þorbjörg gistu í tjaldi við skálann í hreinu lofti og engum hrotum...

Nýji skálinn til vinstri (okkar) og sá gamli hægra megin.

Gylfi Þór kom með mini-fartölvu og Hjölli var ekki langt undan með aðstoð þegar kom að nettengingunni.. svo við fengum nýjustu veðurspánna um kvöldið sem skipti sköpum fyrir gönguna og má þakka Gylfa rétta tímasetningu á göngunni daginn eftir m. t. t. veðurs, sólar og skyggnis.

Við komumst að því um kvöldið þegar spáin var skoðuð að brottfararáætlun kl. 5:00 um morguninn sem Sæmundur, landvörður mælti með út frá almennu skýjafari Herðubreiðar hentaði ekki miðað við veðurspánna...

Bára og Gylfi fóru á fund Sæmundar um kvöldið (sjá skála landvarða á mynd og tjaldstæði fjær) þar sem tekin var sú ákvörðun að leggja af stað kl. 9:00 frá skálanum þar sem rigna átti um morguninn, létta til upp úr hádegi og sólskina frá kl. 14:00...   Allir voru dauðfegnir að þurfa ekki að vakna kl. 4:00...

Þessi veðurspá stóðst eins og stafur í bók...

Nestið smurt með morgunmatnum upp úr kl. 8:00 með rigningarsúldina úti við... og smám saman létti til þegar leið að hádegi... einmitt þegar við vorum lögð af stað gangandi upp drottninguna...

Vegaslóðinn að uppgönguleið Herðubreiðar er torsótt á köflum og við ákváðum að slást ekki við hraunið of lengi...

...heldur fara gangandi síðustu kílómetrana að uppgönguleiðinni.

Sjá mynd efst í frásögn þar sem tekin var hópmynd við rætur Herðubreiðar.

Gangan meðfram Herðubreið var ægifögur um ljósan vikur innan um stór grjót sem hrunið höfðu úr Herðubreið með tímanum.

Eggert (1.332 m) fjær á mynd.

Allir fullir tilhlökkunar fyrir spennandi göngu í blíðviðrinu...

Malarstæðið við uppgönguleiðina með Kollóttadyngju (1.188 m) í baksýn.

Ein úr hópnum tók þá ákvörðun að ganga ekki upp á Herðubreið að sinni og gekk hún einsömul til baka að bílunum og fór gegnum hraunið á bílnum hans Gylfa Þórs. Þá hafði ein úr hópnum ekki ætlað sér þarna upp þó hún kæmi með í ferðina svo á endanum vorum við 29 Toppfarar sem lögðum í hann þennan dag.

Hópurinn hafði lesið sér til um göngu á Herðubreið úr ýmsum áttum, m. a. frásögn Bjarna E. Guðleifssonar úr nýútkominni bók hans "Á fjallatindum - Gönguferðir á hæstu fjöll í sýslum landsins" en sú lýsing þótti  nokkuð fráhrindandi og óheppileg fyrir væntanlega Herðubreiðarfara... en í ljós kom þegar á reyndi að lýsingin var raunsönn miðað við okkar reynslu af fjallinu og átti því fullt erindi við þá sem undirbúa sig fyrir göngu á Herðubreið (þó við hefðum verið mörg sem syrgðum þessa kvíðavekjandi frásögn fyrir hönd margra í hópnum daginn fyrir gönguna).

Þá höfðu þjálfarar verið í sambandi við "leiðsögumann Herðubreiðar", Ingvar Teitsson, en hann er leiðsögumann Ferðafélags Akureyrar og Íslands og leiðsegir á Herðubreið ár hvert í ágúst og hefur gengið á fjallið með hópa árum saman. Hann gaf þjálfurum upplýsingar um gönguleiðina sem slíka, gps-punkta og tölur sem nýttust vel í þessari ferð, kærar þakkir !

Lagt var af stað kl. 10:48 - sjá uppgönguleiðina á mynd, farið upp hægra megin milli tveggja skaflanna þeim megin.

Við vorum svo lánsöm að ekki var nokkur maður á svæðinu nema við þennan dag... við vorum einkagestir Herðubreiðar...

Fyrst var farið um góðan slóða og sóttist gangan vel.

Sífellt létti til og útsýnið var magnað úr hlíðum Herðubreiðar.

Brrattinn á uppgönguleiðinni var stundum 45°...

Og fyrsta pásan var við klettinn góða...

Kaffi Klettur hlýtur hann að heita !

Í sama 45° hallanum eins langt og myndin nær að sýna hann...

Hingað til hafði slóðinn verið auðveldur en nú breyttust aðstæður snarlega...

Klöngrast var upp klettahaft eftir nestið og inn á brattar hlíðarnar ofar...

Sjá Kaffi Klett neðar.

Þarna var talsvert grjóthrun og nauðsynlegt að þétta hópinn í eina línu sem ekki gæti hrunið á af þeim sem ofar voru
og völdu Sæmundur og Örn hrygginn þarna við snjóskaflinn.

Veðrið farið að leika við okkur og útsýnið glitrandi fagurt...

Herðubreiðarfjöll (.1.096 m) næst í fjarska og útsýni norður að Mývatni.

Þarna var hópurinn allur kominn í eina línu upp og hægt var að þvera til vinstri í átt að vörðunni á brúninni...

Síðasti hjallinn að vörðunni góðu við brúnina... þetta var að hafast upp versta kafla Herðubreiðar...

Nestispásan  svo á brúninni með útsýnið í fangið og allir hífaðir af fegurðinni og því sem var að baki...
brattar skriður Herðubreiðar og eingöngu spottinn upp á tindinn eftir...

Hér kom í ljós að Sæmundur er leiðsögumaður á fornu Inkaleiðinni Machu Picchu í Perú Suður-Ameríku... gönguleiðinni sem Toppfarar hafa haft augastað á síðan 2007 og ákváðu í mars s. l. að fara árið 2011...

Sæmundur var ráðinn á staðnum enda öðlingur mikill sem töfraði okkur öll frá fyrstu kynnum...

Kristbjörg, Lilja og Ásta að leggja af stað frá brúninni að tindinum.

Petrína, Sigga Rósa og Sæmundur.

Sjá neðar brattann niður eftir af brúnum Herðubreiðar.

Tindurinn beið okkar innar á fjallinu í seilingarfjarlægð.

Og hópurinn gekk áfjáður um stórgrýtið með fjöllin allt um kring í fjarska.

Heiðrún, Sigga Rósa og Sigga Sig.

Tindurinn að nálgast... nú orðinn skýlaus og við lengdum ólm skrefin...

Stöku snjóskaflar á leiðinni og eflaust best að ganga ofan á Herðubreið í eintómum snjó.

Útsýnið magnað alla leið norður í land á Kerlingu Eyjafjarðar, m. a... of langt mál að tíunda útsýnið
en maður sér nánast yfir Ísland í góðu skyggni þarna uppi...

Hvers lags lán var þetta með veðrið... maður var svo glaður og þakklátur í hjartanu...

Tindurinn í brattri og stórgrýttri brekkunni síðasta kaflann...

Sælan draup af vörum göngumanna og það var varla svo að menn tækju eftir þessum bratta eða grýtinu...

Þokan skall svo á tindinn þegar viðgengum upp á hann og því var ekkert skyggni þessa fyrstu mínútu þegar við sigruðum Herðubreið í mældri 1.700 m hæð - er 1.682 m há skv. Landmælingum...

En skyndilega dróst leikhústjald Herðubreiðar frá og við tókum andann á lofti...

Útsýnið var einstakt í hátindavímunni sem sveif á okkur öll þarna uppi...

Kollóttadyngja ( 1.188 m) og Eggert (1.332 m) í baksýn

Enn fjær Sellandafjall (988 m) og Bláfjall (1.222 m).

Herðubreiðarfararnir þrjátíu - frá Gylfa Þór - tekin með fjarstýringu:

Sæmundur landvörður, María, Kalli, Hrafnhildur, Skúli, Jón Ingi, Hjölli, Lilja, Guðjón Pétur, Sigga, Bára, Ásta, Heiðrún Petrína, Heimir,Herdís Dröfn, Kristín Gunda, Helga, Hildur Vals, Ingi, Þorbjörg, Íris Ósk, Kristbjörg, Gylfi Þór, Sæmundur Siga Rósa, Halldóra Þ., Ragna, Stefán Alfreðs., og Örn.

Gígurinn sem tindurinn er hluti af... hvílíkt stærðarinnar náttúrufyrirbæri á jafn litlum stað á fjallinu...

Sjá Herðubreiðartögl (1.070 m) niðri í baksýn.

Það væri spennandi að ganga gígbarminn allan hringinn ef einhver á leið þarna um aftur í góðu veðri...

Átján stelpur...

...og tólf strákar

Stelpurnar að taka mynd af strákunum...

Loks var skrifað í gestabókina og teknar myndir um allt og af þeim sem vildu í félagatalið...

Jú, það þurfti víst að fara niður aftur...

Aðdráttaraflið slíkt að hæglega var hægt að gleyma sér þarna í langan tíma...

Við vorum skýjum ofar... bókstaflega...

Gárungar hópsins bjuggu til Báruvörðu á meðan hún tíndist niður af tindinum með síðasta mann...

Og stelpurnar buðu upp á koníaksstaup eða var þetta Gammel Dansk eða Jagermeister...
sem yljaði manni glatt eftir kuldann á tindinum...

Aftur komin að nestisstaðnum við vörðuna á brúninni...

Degi tekið að halla og sólin farin að steikja okkur úr vestri...

Niðurleiðin valin svolítið neðar en á uppleiðinni...

...en svo var þverað yfir hlíðina eins og á leiðinni upp.

Sjá vörðuna í fjarska þarna uppi... svo ósköp litla...

Brattinn sést ágætlega á myndinni og hvernig grjótið rennur af stað úr slóðanum.

Hópurinn þéttur í einni línu á hryggnum og farið svo niður á ská að Kaffi Kletti.

Á þessum tímapunkti hrundi grjót út efri hlíðum og flaug gegnum hópinn á staðnum sem þarna sést á myndinni hér ofar og voru þar fyrir þau Heimir, Sigga og Halldóra Þ.  Grjóthrinan fór einhvern veginn gegnum þau en Halldóra fékk stórt grjót á lærið sem marðist við höggið. Þetta var óhugnanleg upplifun enda treystum við brekkunum þar með ekki og vorum stöðugt að fylgjast með hlíðinni fyrir ofan þar til við vorum komin neðan við Kaffi Klett.

Þessi reynsla staðfestir fyrri frásagnir af göngum á Herðubreið, að ekki eingöngu skal varast grjót frá göngumönnum ofar heldur er að koma grjót niður án þess að nokkur sé fyrir ofan - hugsanlega úr slóðanum sem við höfðum farið um fyrr. Við tókum einnig eftir því að eftir þetta var stöðugt grjóthrun í hlíðinni og við margkölluðum "grjót" en oft náði það að stöðvast ofar.

Sýnin þegar hnullungarnir rúlluðu niður skaflana fyrir neðan okkur var ófrýnileg  og þar hefði maður ekki viljað hafa nokkurn mann fyrir neðan en við svipuðumst oft um einhver merki um aðra göngumenn þar sem hrunið frá okkar hópi var mjög mikið og engan veginn ráðlegt að vera fyrir neðan okkur í raun.

Að lokum skal nefnt að við veltum því fyrir okkur hvort sólin sem bakaði hlíðarnar í vestri væri að hafa áhrif á jarðveginn og kalla fram meira grjóthrun þegar leið á daginn en fyrr um morguninn þegar við fórum upp hlíðina því þá upplifðum við ekki þetta stöðuga hrun ofar. Þá vorum við reyndar ekki nýbúin að fara þar um sem gæti einnig verið orsökin, þ. e. að við vorum búðin að hreyfa við jarðveginum, en það skýrir samt ekki allt hrun því það voru grjóthnullungar að renna alls staðar frá í hlíðunum, ekki eingöngu úr slóðanum okkar.

Lausagrjótið var slíkt að það var skárra að feta sig á föstum jarðvegi þó hann væri í miklum halla...

Og það var viss léttir að klára síðasta grjóthrunskaflann að Kaffi Kletti.

Eftir það var leiðin greið...

Brakandi sólarlagið var á andlitum sem skinu skært af Herðubreiðargleði alla leið niður að fjallsrótum...

Þjálfari hafði lagt upp með ljóðakeppni um Herðubreið í upphafi ferðar en fylgdi því svo ekkert eftir... engu að síður kviknaði ljóð hjá einni úr hópnum sem skilaði sér í síma þjálfara síðar um kvöldið og var lesið fyrir hópinn í lok ferðarinnar:

Ljóð Ástu Þórarins sem hún samdi eftir á göngunni frá fjallsrótum að bílunum:

Herðubreiðarhátign klifin
Á hæsta tindi skýin rifin.
Og þrjátíu manns,
þutu´ upp með glans.
Nú þreytt en yfir sig hrifin.

En fyrsta limran var með þessum skyndi-enda í byrjun - í lókal-gríni:

Herðubreiðarhátign klifin
Á hæsta tindi skýin rifin.
Herrar og frýr,
flest nema Gnýr,
Af þéttbýlisdrottningu´varð hrifinn.

Ásta Þórarinsdóttir

Nú er bara að svara í ljóði Gnýr... !

Síðustu kílómetrana á jafnsléttu meðfram hlíðum Herðubreiðar að bílunum
svifum við á
ósýnilegum skýjum fjallgöngumannsins...

Að hugsa sér þessa stærðarinnar grjóthnullunga...

...við vorum smá í tignarleik öræfanna...

Ljóð Siggu Rósu af Herðubreið sem hún sendi þjálfara í tölvupósti eftir ferðina... í sama bréfi og hún skráði Rikka sinn í klúbbinn... hann ætlaði sko ekki að missa af svona ferð aftur... :

Herðubreiðin hrikaleg
háar brattar skriður.
Lofthræðslan hún laumar sér
er við lítum niður.

Toppförunum tekst þó allt
á tindinn öll við fórum.
Með styrkri leiðsögn Sæmundar
við saman alltaf stóðum.

Sigríður Rósa Magnúsdóttir Hansen

Sumir fengu sér einn kaldan... eeehhhh... volgan... en aðrir voru drukknir þessari náttúrulegau háfjallavímu sem rennur ekki af manni fyrr en mörgum dögum síðar eftir svona dag... dag sem líður aldrei úr minni... þegar þessar línur eru skrifaðar í lok ágúst er víman enn ekki runnin...

Tölur dagsins urðu eftirfarandi: 13,2 km á 8:52 - 9 klst. upp í 1.700 m hæð (1.682 m) með 1.048 m hækkun.

Hæð mældist 1.699,7 m en er 1.682 m skv. Landmælingum.

Sjá svörtu línuna - track fengið frá wikiloc - Halldór Ingi - þeir hafa farið svolítið lengra til vinstri en við upp á brúnina.

Sjá hvernig varðan á brúninni er merkt til að finna aftur niðurgönguleiðina ef þoka skellur á uppi.
Nauðsynlegur punktur hverjum þeim sem gengur á Herðubreið!

Gps-slóðiðn okkar af Herðubreið:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=28861685

Sturta, grill og gaman um kvöldið... I

Ingi fór fyrir góðri skál með hópnum fyrir frábærum göngudegi... einum þeim besta í sögu klúbbsins...
Næsti dagur var ekki síðri...

Herðubreið bauð góða gótt  í töfrum næturinnar... með smá skýhoðra fyrir kodda...

----------------------------------------------------------

Askja og magnþrungið umhverfi hennar...

Daginn eftir var aftur smurt nesti at stakri snilld og nutu sumir góðs af því með hverjum þeir deildu bíl, nesti og svona...

Ragna er án efa yfir-nestis-kokkur Toppfara !!!

 Herðubreið bauð okkur auðvitað góðan daginn, var að leggja koddan frá sér og var greinilega komin á fætur
í vaxandi blíðviðrinu þessa helgina og skýleysi það sem eftir var.

Maður fékk ekki nóg af að mæna hana og mynda... "þarna vorum við"... á tindinum...
...og hér með vitum við nákvæmlega hvernig það er að standa á tindi Herðubreiðar...
Hvílíkur auður...

Skraf og ráðagerðir með hvað skyldi gera þennan dag.

Frjáls dagur en þjálfarar höfðu lagt upp með göngu kringum Öskju eða á Þorvaldsfjall sem liggur við Öskju eða léttari göngur um svæðið sem er gjöfult fyirr gönguferðir. Öskjuhringur  og/eða  Þorvaldstindur þýddu mjög langa göngu daginn eftir Herðubreið sem flestir voru ekki tilbúnir í. Landverðir mæltu með göngu frá Dreka um Dyngjufjöll að Öskju annað hvort frá skálanum eða frá Öskju eða fram og til baka svo menn sammæltust um að sumir myndu ferja bíla yfir að Öskju og ganga leiðina til baka á meðan aðrir gengu frá skálanum og tóku upp bílana í bakaleiðinni.

 Sigga og Heimir fóru náttúrulega á fjórhjólunum sínum inn að Öskju...

Askja og Víti

Einn fegursti staður Íslands og í uppáhaldi margra Íslendinga...

Víti er sprengigígur sem varð til við lok goss í Öskju árið 1875. Vatn hefur safnast þar fyrir og er hitastig breytilegt eftir því hver mikið leysingarvatn rennur í það en að jafnaði er það um 30°C. Dýpst er það í miðjunni rúmir átta metrar.

Í umbrotum á svæðinu í ágúst eftir veru okkar þar hefur vatnsyfirborð Vítis lækkað og jarðskjálftar riðið fyir Herðubreiðarsvæðið sem sýnir vel hversu lifandi þetta svæði er.

Auðvitað fórum við þarna niður þó bratt væri... færið gott í þurrkinum...
En sjá mátti hvernig menn höfðu vandræðast þarna um í leðjunni í votviðri.

Íris Ósk gaf ekki eftir þó vatnið væri kalt... ekki heldur Heiðrún og Stefán...

Við hin tókum ekki áskorun Írisar, horfðum bara á og tókum myndir...

Sjá myndir á fésbók og myndasíðu Gylfa af göngu hins hópsins :http://gylfigylfason.123.is/

Kristín Gunda skoraði svo á hópinn á fésbókinni eftir ferðina að synda næst í Lagarfjóti þegar við göngum á Snæfell...

Það yrði alveg í stíl við Herðubreið og Víti... og hún var tekin á orðinu... Snæfell og Lagarfljót á dagskrá 5. - 8. ágúst 2010...

Skagamennirnir flestir fóru ekki niður í Víti og voru þau lögð af stað upp fjöllin á göngu meðan á busli okkar stóð.
Við sem eftir voru ákváðum að ganga upp á tindana næst Víti og áleiðis yfir á Dyngjufjöll að Dreka. Þarna var kvenþjálfarinn  ekki búin að gefa upp drauminn um göngu kringum Öskju þó enginn ætlaði að taka við þeirri áskorun og tíminn væri orðinn ansi naumur...

Á endnum varð þetta fyrsti áfanginn á hringleiðinni um fjallgarð Öskjuvatns...

"Vinir Herðubreiðar" í 1.392 m hæð á fjallgarðinum ofan Vítis:
Bára, Jón Ingi, Hildur Vals., Heimir, Örn og Stefán Alfreðs.
Sigga Rósa, Sigga Sig., og Íris Ósk.

Útsýnið ólýsanlegt enda skýrara skyggni en deginum áður ofan af Herðubreið.

Vatnajökull, Kerling í Eyjafirði, Fagradalsfjöll í Vopnafirði, Kinnafjöll?, Dyrfjöll í Borgarfirðir Eystri (á dagskrá sumarið 2011),
Kárahnúkar, Snæfell (á dagskrá í ágúst 2010)... útsýnið náði út fyrir hið óendanlega...
Heimir var naskur að koma auga á fjöllin allt um kring og við trúðum vart okkar eigin augum...
Þetta er málið, koma sér upp á hæstu tinda inn til landsins og horfa á fjöllin í öllum landsfjórðungum...

Við þræddum okkur með fjallshryggnum um Dyngjufjöll og reyndum að koma auga á þá sem höfðu fari á undan frá Víti og þau sem gengu á móti okkur frá Dreka... "þarna eru þau"... en svo voru þetta alltaf bara erlendir ferðamenn...

Herðubreið alltaf með okkur og umhverfið óskaplega fallegt.

Snævi þakið Snæfell í fjarska en hér skildu leiðir og Bára, Örn og Stefán Alfreðs lögðu í hann kringum Öskju á meðan hinir gengu að Dreka og voru samferða Skagamönnum sem við loks gengum uppi. Við hittum á Inga, Hjölla, Þorbjörgu og Herdísi Dröfn sem höfðu góða sögu að segja af Fróafrenjunni Skagamanna en þau höfðu farið á hæsta tindinn í austri sem er rúmlega 1.400 m hár... - hér vantar sko mynd !!!

---------------------------------------------------

Askja - gangan kringum vatnið
Bára - Örn - Stefán Alfreðs

Askja kallast sigdældin og eldstöðvarnar í Dyngjufjöllum. Öskjuvatnið sjálft er hluti þessa svæðis og varð til við jarðfall í eldsumbrotum árið 1875. Það hefur hingað til verið dýpsta vatn Íslands, um 220 m en missti þennan titil í sumar 2009 til Jökulsárlóns vegna umbrota þar. Miklar eldstöðvar eru við Öskju, og hafa orðið gos þar á sögulegum tíma, síðast árið 1961 þegar Vikrahraun rann.

Þorvaldsfjall myndar bratta og háa barma Öskju í suðri og rís hæst á Þorvaldstindi 1.510 m.

Gangan kringum Öskjuvatn er ein magnaðasta ganga sem þjálfarar hafa farið.

Ægifagurt, síbreytilegt og litríkt landslagið lék þar stórt hlutverk, sífellt önnur sýn á Öskjuvatn frá brúnum fjallanna kringum það, stórkostlegt útsýnið allan hringinn til norðurs, svo austurs, suðurs og loks vesturs og að lokum lék veðrið við okkur allan tímann sem hafði auðvitað heilmikið að segja...

...að ekki sé talað um að ganga nýjar, óþekktar slóðir án þess að vera með track né upplýsingar frá öðrum um gönguna og vita í raun ekki hvort leiðin sé greið fyrir utan almennar upplýsingar um göngu kringum Öskjuvatn sem virtust ekki vera frá fólki sem hefði í raun gengið hringinn. Landverðir Dreka og Herðubreiðarlinda höfðu t. d. ekki farið þennan hring  og gátu ekki uppplýst okkur um gönguleiðina en þar mætti gera bragarbót á almennt. Sæmundur hafði gert tilraun til þess að ganga á Þorvaldstind en þurft frá að hverfa vegna veðurs enda í raun víðsjárverð leið einsamall á ferð.

Eftir okkar reynslu þennan dag mælum við eindregið með göngu þennan hring í góðu veðri. Hún er fær öllum ágætlega vönum göngumönnum og krefst ekki sértæks búnaðar eða sérstakrar varúðar annarrar en vanalega á fjallgöngu. Æskilegast væri að stika þessa leið og við sjáum fyrir okkur skipulagðar göngur á vegum Ferðafélagsins í framtíðinni... gönguleiðin er vel þess virði eins og auðvitað margar gönguleiðir á Íslandi sem ekki er unnt að anna vegna manneklu og tímaskorts.... svona er Ísland nú magnað land...

Að lokum skal nefnt að það væri forvitnilegt að vita hvort fleiri hafi lent í sömu sjálfheldu og við lentum í síðar á leiðinni að baki Þorvaldstindi en við fengum staðfest að maðurinn sem gekk sama dag og við lenti í sömu sjálfheldu svo hugsanlegt er að ganga kringum öskju sé fær eftir öllum tindunum nema þennan stutta spotta?... sjá síðar.

Tindarnir á þessari leið eru óteljandi og breyttust stöðugt hvað undirlag, lit og erfiðleikastig varðaði.

Öðru hvoru sáum við nýleg spor eins manns.. sem hurfu og birtust í tíma og ótíma og var okkur stundum viðmiðun og stundum huggun þegar leiðin vakti ugg... Þar sem ganga kringum Öskju virðist ekki algeng vorum við farin að halda að þetta hlyti að vera andi Von Knebels sem þarna leiddi okkur áfram um rétta stigu... og varð þessi nærvera sterk og sannfærandi og situr eftir sem órjúfanlegu hluti þessarar göngu í minningunni.

Það var svo stórmerkilegt þegar Örn fann blogg þessa manns af göngu þennan dag eftir helgina þar sem það staðfestist að sama dag hafði Stefán nokkur Bjarnason gengið þessa leið... þetta var þá ekki Von Knebel... en samt...
Sjá slóð bloggsins neðst í þessari frásögn - líka af herðubreiðargöngu hans í annarri ferð.

Leiðin var greið lengi vel, alla leiðina austan megin og suðaustan megin en þyngdist um miðbik suðurhliðarinnar við hæstu tindana á Þorvaldsfjallssvæðinu sjálfu þar sem landslagið varð hrikalegast.

Við vorum ekki viss hver tindana var Þorvaldstindurinn sjálfur (ekki merktur og ekki pláss fyrir vörðu... tindurinn er hvöss varða í sjálfu sér) og tókum t.d. myndir af okkur á einum tindinum sem ekki reyndist svo hæstur... því þeir hækkuðu enn meira eftir því sem lengra var gengið þó okkur sýndist annað.

Oft virtust tindarnir ókleifir í fjarska og við veltum reglulega fyrir okkur hvort við kæmumst lengra eða yrðum að snúa við og vorum stundum undir það búin... en þeir voru yfirleitt greiðfærari þegar nær dró !  NB...ekki er allt sem sýnist...

Þorvaldstindur í baksýn - klifinn hinum megin í bratta og teknar myndir í þrengslunum þar.

Við vorum bergnumin af útsýninu sem tók við til suðurs að Kverkfjöllum, Bárðarbungu, Vatnajökulsbreiðunnar, Tungnafellsjökuls, Gæsavatnaleiðar, Vonarskarðs, Trölladyngju, Þríhyrnings norðan Vatnajökuls, Hofsjökuls...
...og svo mætti lengi telja...

Eftir að Þorvaldstindi var náð (í baksýn á mynd) gengum við eftir nokkrum öðrum tindum
en lentum svo við suðvesturhornið í
sjálfheldu í björgum sem urðu gróf og ófær.

Örn reyndi að finna leið um þessi björg með þverhnípi niður á vatnið öðru megin og þverhnípi niður á láglendið hinum megin. Okkur leist ekkert á þetta og loks sneri Örn við eftir nokkrar tilraunir í klöngri við að finna leið...

Það var greið leið grátlega stuttu handan þessara bjarga en engin fær leið gegnum þau svo við játuðum okkur sigruð eftir að hafa náð að þræða nokkurra klukkustunda göngu um alla tindana umhverfis Öskju og fórum neðan við klettana þarna og svo upp á brúnina aftur vestar sem var greið alla leið niður á láglendið sem tók við vestan megin vatnsins (sjá á mynd bak við strákana hvar við komum aftur upp á fjallgarðinn þar sem ávalir tindarnir tveir bera við hægra megin).

Við tók breiða Mývetningahrauns sem var vel greið... þó það hefði t. d. verið áhyggjuefni ofan af fjallgarðinum hvort við kæmumst yfir hraunið... og þar stóð eldri varðan um þá félaga Walther von Knebel jarðfræðings og Max Rudloff málara sem fórust á vatninu 10. júlí 1907 þar sem þeir voru við jarðfræðiathuganir á Öskjusvæðinu. Varðan var reist af austurrískum leiðangri sem stundaði rannsóknir sunnan Vatnajökuls árið 1950 til minningar um þá félaga en þeir voru taldir hafa lagt í feigðarförina frá þessum stað.

Seinni varðan var svo norðaustan við vatnið, eftir langa göngu þar um hraun og ljósan létan vikur sem gaf stundum eftir eins og snjór niður í tómið... og þar lásum við orð félaga okkar frá því fyrr um daginn.

Þetta var varðan sem unnusta von Knebels, Ina reisti ári eftir andlát hans, árið 1908 þegar hún heimsótti Öskju í nokkra daga til að leita ummerkja um unnusta sinn og láta sannfærast um andlát þeirra félaga þar sem ýmsar sögusagnir gengu um hvarf þeirra.

Orð hennar áttu vel við þá kvöldkyrrð sem ríkti þegar við kvöddum Öskjuvatn
...ein í heiminum með síðustu sólargeislana leikandi við hlíðar Þorvaldsfjalls...:

"Fáum dauðlegum mönnum er búin jafn konungleg gröf og þeim báðum,
sem hér hvíla í þessu tígulega, bjarta fjallavatni.
Konungar einir þarfnast eilífðar aðseturs í gröf sinni,
þar sem þeir eru bornir til jarðneskrar hvíldar.
Skyldu þeir, eftir mannlegum skilningi,
njóta meira næðis sem hvíla í gullnum steinþróm Escorial-hallarinnar
eða grafhýsum egypskra faraóa?
Hér ríkir friður dýpstu alvöru á björtum sumardögum og dimmum vetrarstundum - öld eftir öld."

Ína von Grumbkow 1908

Gangan að bílunum var rösk en einhvern veginn treg að hluta... aðdráttarafl staðarins hafði enn vald á manni en um leið vorum við með hugann við félagana sem voru fyrir löngu búnir með sína göngu þennan dag... eflaust farin að grilla og mýkja sig mildum veitingum sem var orðið ansi freistandi tilhugsun eftir svitastorkinn dag um ókunnar slóðir sem stundum voru ógnvekjandi og nánast ósigrandi... en þeim mun sætari þegar þær voru að baki... í óræðum félagsskap Von Knebels og Rudloffs og óteljandi fjallstinda og jökla Íslands allt um kring...

Ingi hringdi í okkur akkúrat þegar við ókum "heim" á leið en hann hafði verið í reglulegu sambandi við okkur á leiðinni. Okkar beið tilbúinn matur og meðlæti í skálanum sagði hann í símann... orð fá ekki lýst feginleikanum sem þessar fréttir fengu okkur... við þurftum ekki að byrja á að grilla og elda eftir langan dag... bara fá okku einn kaldan, heitan mat og beint í sturtu... þökk sé dásamlegum félögum...

Hér mældist Þorvaldstindur 1.530 m skv. gps.

Lækkunin fyrst á grafinu er gangan niður í Víti !

Sjá hvernig við gengum eftir fjallsbrúnum alla leið frá Víti en þurftum stuttu eftir Þorvaldstind að snúa neðar við hrygginn og krækja okkur upp á fjallshrygginn aftur við suðvesturendann.

Alls 24,9 km á 10:42 klst. með langri töf í Víti upp í 1.530 m hæð með alls hækkun upp á 1.667 m.
(Gangan sjálf þennan hring hefði tekið hugsanlega um 9 klst. á röskri göngu ef frá eru teknar tafir við Víti o.fl.
en gæti vel tekið upp í 12 klst. á góðu róli.)

Gps-slóðin okkar af Öskjuhringnum:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=28861504

Móttökurnar í skálanum þegar síðustu göngumenn dagsins skiluðum sér í hús voru ógleymanlegar...
Og við tók síðari kvöldvakan í þessari ferð sem
Ingi og Heiðrún tóku að sér svo sómi var að.

Keppt var í spurningaleik og Actionary og fleiri leikjum við mikil hlátrasköll og blússandi keppnisskap
sem tryggði að enginn sofnaði snemma þetta kvöld...

Örn átti afmæli 9. ágúst og var sunginn afmælissöngurinn á miðnætti...

Daginn eftir var vaknað snemma og öllu pakkað á metttíma...
Langur akstur breið okkar í annan landshluta...
Veðrið enn betra og við tímdum ekki heim...

Bára þjálfari þakkaði fyrir frábæra ferð með einstökum félögum
og las að lokum upp
ljóð Ástu sem lýsti vel þeim áhrifum sem Herðubreið hafði á okkur - sjá ofar.

Drekagil var kvatt í sól og blíðu.

Og Herðubreið fékk sína kveðju frá hópnum með innliti í Herðubreiðarlindir sem blómstruðu í veðurblíðunni.

En þar sýndi Sæmundur okkur Eyvindarkofa þar sem hann hélst við í útlegð
í aðdáunarverðri útsjónarsemi við dapran kost.

Við gátum kvatt Sæmund með virktum og þakkað honum einstök kynni og leiðsögn á Herðubreið.

Heimferðin gekk mjög vel með bensíni og ís á Mývatni og pizzum og meðí á Greifanum á Akureyri...
... og vorum við komin í bæinn um kl. 21:30...

Fésbókin logaði og menn settu inn magnaðar myndir á veraldarvefinn...

Við vorum bókstaflega
bergnumin dögum saman eftir magnaða ferð um hálendi Íslands
... landi sem ekkert í heiminum skákar hvað varðar
fegurð, fjölbreytni og mikilfengleik...

Herðubreið var ekki söm í huga okkar...
né vorum við
söm eftir kynni við hana í þessari ferð...


Mynd frá Gylfa Þór

Sjá áhugaverðar slóðir:

*Alla myndir þjálfara úr ferðinni á myndasíðu Toppfara
 http://picasaweb.google.com/Toppfarar

*Myndir úr fyrri ferðum Ferðafélags Akureyrar á Herðubreið, m. a. 100 ára afmælisgöngu Herðubreiðar  árið 2008: http://www.ffa.is/gallery

*Grein Ingvars Teitssonar, leiðsögumanns FA og FÍ Akureyri á Herðubreið til margra ára.
Hann skrifaði grein um göngu á Herðubreið í vefriti Landverndar á ári fjalla 2002:
http://landvernd.is/arfjalla2002/

*Magnaður útvarpsþáttur um Öskju, Ódáðahraun og göngur á Herðubreið frá þeirri fyrstu fram að 100 ára afmælisgöngu FÍ á hana í fyrra á Rás 1. Þar er m.a. upplestur á Fjallgöngu eftir Tómas Guðmundsson sem fær mann bara til að tárast af einlægri upplifun af eigin reynslu á fjöllum… upprifjun á örlagaríkri sögu fyrstu göngumanna á fjallið o. m. fl.  
Rás 1 þann 7. júlí kl. 13:00 “
Á sumarvegi”:
http://dagskra.ruv.is/ras1/4470072/2009/07/07

*Blogg mannsins... þess sem við héldum að væru spor eftir Von Knebel... sem gekk kringum Öskju sama dag og við
en fram kemur hvernig hann fór neðan við illfærustu tindana í lokin eins og við gerðum:
http://stefanbjarnason.blog.is/blog/stefanbjarnason/

*Ganga 24x24 manna á Herðubreið og Þorvaldstind við Öskju í lok september 2007 - allt snævi þakið!:
http://www.24x24.is/photogallery.php?album=78


*Umhverfisstofnun af svæðinu sem við ferðuðumst um:
http://www.ust.is/Natturuvernd/Fridlystsvaedi/Natturvaetti/nr/1576

*Og NAT Norðurferðir eru oft með góða mini-pistla af merkisstöðum og -leiðum á landinu og kort og upplýsingar um skála: http://www.nat.is/travelguide/ferdavisir_halendid.htm 


*...Og flottar myndir og myndband af snjósleðaferð á Herðubreið í vetur hjá Gylfa Þór á fésbókinni og ferðir úr myndinni á myndasíðu hans:www.123.is/gylfigylfason.

Fréttir af jarðskjálftum á Herðubreið stuttu eftir að við gengum á hana: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item294711/

...og á mbl:
http://www.mbl.is/mm/frettir/forsida/2009/08/19/skjalfti_ad_staerd_3_5_vid_herdubreid/

Bloggsíða Sæmundar landvarðar:
http://saemi.123.is/

Síða ÍT-ferða sem fara með okkur til Perú árið 2011:
http://itferdir.is/subcategories.php?id=4&idsub=51

Gps-slóðiðn okkar af Herðubreið:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=28861685

Gps-slóðin okkar af Öskjuhringnum:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=28861504

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir