Tindur 33 - Strútur 20. febrúar 2010

Strútur
Fjall nr. 100 í sögu Toppfara


Anna Elín, Aníta Roland, Anton, Auður, Ágústa, Áslaug, Ásta H., Bára, Björgvin J., Björn, Eiríkur, Eyjólfur, Gerður, Guðjón Pétur, Gurra, Halldóra Á., Hanna, Harpa, Heiðrún, Heimir, Helga Bj., Helgi Máni, Hildur Vals., Hjölli, Hlynur, Hrafnhildur, Ingi, Inga Lilja, Kári Rúnar, Kristín Gunda, Lilja K., María, Petrína, Rikki, Roar, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Sigrún, Simmi, Snædís, Steinunn, Stefán A., Súsanna, Svala, Valgerður og Örn.

... með Eiríksjökul í baksýn sem er tindurinn á dagskrá 17. apríl...

Söguleg tímamót urðu hjá Toppförum laugardaginn 20. febrúar þegar 47 félagar gengu á eitthundraðasta fjallið í sögu klúbbsins... í 163. fjallgöngunni og 33. tindferðinni... á Strút í heiðskíru veðri en köldu og allt upp í -22°C á tindinum með vindkælingu skv. Ingamæli. Gangan var hluti af vetrarferð hópsins í Húsafell þar sem gist var tvær nætur í nokkrum bústöðum og áfanganum fagnað í heita pottinum á eftir og slegið upp veislu með ljúffengu grilli um kvöldið, gítarsöng, karókí og dansi fram á nótt. Fallegt veður var alla helgina og ævintýri líkast að dvelja í Húsafelli með glitrandi jöklana allt um kring og tindrandi snjóinn í skóginum í vetrarsólinni.

Gengið var frá bílveginum á hálsinum en í stað þess að fara hefðbundna leið með veginum var farið um lendur Kalmanstungu sunnan megin í hlíðunum um gil og skurði og upp suðurhlíðarmegin á tindinn og svo niður á Lambafell og í norður niður að Hraunkarlinum á Arnarvatnsvegi norðan við Strút sem gerði alls 14,9 km göngu á 5:24 - 5:43 klst. upp í 958 m mælda hæð (937 m) með 658 m hækkun miðað við 299 m upphafshæð.

Ferðin hófst á föstudeginum þegar menn komu sér upp eftir og gistu í sex bústöðum á svæðinu og í Gamla húsinu.

Algerlega var það ógleymanlegt að koma upp í Húsafell í rökkrinu með snjóinn yfir öllu svæðinu... keyra Eyjólf í bústaðinn sem hann gisti í ásamt Birni Matt... koma í notalegan bústaðinn þar sem Björn stóð yfir þremur pottum á eldavélinni, fá heimalagað hvítvín í glas og spjalla... kíkja svo til stelpnanna í næsta bústað sem þar sátu prúðbúnar við rauðvínslegna kvöldmáltíð...

... ekki má gleyma þegar við mættum Lilju, Petrínu og Hlyn á myrkvuðum vegaslóðanum í skóginum... enn að leita að bústaðnum með kortið af svæðinu á lofti... ?ha, hvað voruð þið aftur lengi að finna bústaðinn...? :-)

Allir hittust á óformlegum planfundi um kvöldið í Gamla húsinu þar sem lagðar voru línur helgarinnar og komist að þeirri niðurstöðu að það tæki nú "bara 15 mínútur að ganga á Strút"... og einhverjir stungu upp á koma sér bara vel fyrir í Húsafelli yfir helgina og vera ekkert að þessu flandri uppi um fjöll... það væri nóg að horfa á málverkið í húsinu af fjallinu... dúndurstemmning var í hópnum...

Kristaltært veðrið á laugardagsmorgninum gaf af sér fagran morgunhiminn
og loforð um bjartan göngudag enn einu sinni í vetur.

Sameinast var í bíla við þjónustumiðstöðina í Húsafelli þar sem níu manns komu frá Reykjavík um morguninn
og Strútur og Eiríksjökull blöstu við okkur í norðaustri, hvítir og tærir.

Lagt var af stað gangandi kl. 9:31 í norðaustan golu og -5° frosti en skv. veðurstofu var NA4 og -7°C kl. 12.00 á Holtavörðuheiði sem lýsti betur veðrinu á Strút en veðurtölurnar úr Húsafelli.

Við gengum inn í daginn þar sem sólin kom smám saman á loft í suðaustri yfir jöklunum.

Sigrún, Hrafnhildur T., Hildur V., ? Anna Elín, Heiðrún og Aníta fremstar á myndinni.

Aníta kom alla leið frá Colorado þar sem hún var í heimsókn hjá Rikka, bróðursínum og varð fimmtug föstudeginum á undan
og var henni vel fagnað af því tilefni síðar um kvöldið.

Ekki var farið um vegaslóðann á Strút eins og algengt er (og lýst er í bók Ara og Péturs) heldur sunnar með landi Kalmanstungu sem er sundurskorið giljum og gljúfrum innan um skurði og ræktuð svæði.

Nokkrir helfrosnir skurðir urðu á vegi okkar sem gáfu tilbreytingu í annars fremur einfaldri leið á tindinn.

Smám saman varð allt hvítara þegar ofar dró og umhverfið kyngimagnað í frostinu og sólinni.

Á hægri hönd í suðri glitruðu Okið vestast, svo Þórisjökull, Geitlandsjökull, Langjökull og loks Eiríksjökull austast...
Sigurðarfell (658 m) svo næst okkur í suðri innan um jöklana, Hafrafell (1.167 m), Hádegisfell nyrðra (865 m), Hádegisfell syðra (1.069 m) og Prestahnúkur (1.226 m) fjærst... spennandi fjöll framtíðarinnar... þar sem Þórisjökull er sá eini sem þegar er í safninu okkar...

Tindur Strúts blasti við í austri og leiðin var drjúgari en ætla mátti...gps tækið taldið niður kílómetrana...

Strútur vinstra megin og Eiríksjökull hægra megin.

Töfrandi frostmyndanir á leiðinni eru "fylgihlutir" vetrargangnanna og Ásta hefur verið dugleg að mynda þau listaverk en þjálfari stóðst ekki mátið þegar þessi klettur stóð keikur í hlíðinni og benti manni á hvassar brúnir Baulu í fjarska í norðvestri.

Þetta var fínasta gönguleið, í skjóli fyrir norðaustangjólunni og útsýnið magnað niður hlíðarnar sunnan megin.

Sjá menn koma inn í suðurhlíðunum í færi sem var með besta móti.

Hópurinn þéttur og veðrið lygnt...

Eiríksjökull og Snæfellsjökull í umræðunni m. a... þar sem þjálfarar viðruðu hugmynd um aukaferð á Snæfellsjökul sem "píslargöngu" á föstudaginn langa... og tóku menn vel í það...

Uppi á öxlinni var haldið áfram og enn var skjól af hæstu bungum.

Sjá myndband tekið hér:http://www.youtube.com/watch?v=nlG5gLao4gk

Rikki með einum skarpleitum frostkarli sem líktist skoppara með derhúfu að stara á Strút
á meðan Rikki virti útsýnið fyrir sér í suðvestri.

Eiríksjökull - Langjökull - Hafrafell.

Loksins vorum við komin á síðasta sprettinn... bílvegurinn upp á tindinn... Hjölli kallaði í galsanum "varið ykkur á bílunum..." það var líklega eina mögulega hættan á þessari gönguleið dagsins... en það var engin umferð á fjallinu þennan dag svo við nutum göngunnar í einrúmi.

Ingi hér farinn að mæla vindinn og kælinguna þar sem við vorum ekki lengur í skjóli...

Síðustu metrarnir upp...

Helfrosið mastrið á tindinum... mögnuð listasmíð vetrarins...

Innskot:

Sjá myndina sem Guðjón sendi Helgrindarförum fyrir ári síðan, þann 28. febrúar 2009.... þegar hann gekk á Strút ásamt Maríu, Simma og Gurru, Inga og Heiðrúnu sama dag og við gengum á Helgrindur í seinni ferðinni þar sem tvær ferðir urðu á þann tind vegna illskuveðurs
- sjá ferðasögu Helgrinda hér.- en við vorum í símasambandi ofan af tindunum...

Bára, Roar og Halldóra að klára síðasta spölinn upp.

Umverfið var magnað og útsýnið allt um kring.

Það var -22°C þarna uppi í vindkælingunni skv. Inga og lítið hægt að gera og varla borða fyrir kulda
enda ekki skjól fyrir nema hluta af hópnum.

Við ákváðum að drífa af hópmynd og koma okkur niður í skárra hitastig fyrir hádegismatinn.

Í góðu veðri hefði verið gaman að mynda töluna 100 með göngumönnum og Eiríksjökul í baksýn...
en við gerum bara viðlíka gjörning síðar...

Myndbandið af tindinum: http://www.youtube.com/watch?v=ZXqamtaxjFM&feature=related

Niður var farið geyst með Húsafell í vestri og Skarðsheiði og Hafnarfjall hvít og greinileg í fjarska.

Útsýnið var tært og skýrt þennan dag.

Nesispásan var hin notalegasta í suðurhlíðinni miðað við kuldann og við fylgdumst með jeppaleiðangri á Langjökli í fjarska.

Lambafell var á dagskrá eftir tindinn og Hraunkarlinn svo niður á Arnarvatnssvegi.

Mikið dró úr kuldanum með hverjum metranum neðar...

Lambafell hér fyrir framan göngumenn... ósköp saklaus viðbót við tindinn og mældist 659 m hár en er 654 m á kortum.

Tindur Strúts í fjarska í suðaustri frá fjallsrótum Lambafells.

Á Lambafelli með magnað útsýni til norðvesturs - Baula og Tröllakirkja á Holtavörðuheiði sáust mjög vel þennan dag.

Guðjón Pétur bauð upp á aukatúr af tindinum og var fróður um svæðið og er hér að spekúlera í landslaginu með Hjölla.
Guðjón hefur farið á Strút ansi oft í alls kyns útfærslum, m. a. frá bústaðnum sínum í Húsafelli eins og ekkert sé...

Kári Rúnar á góðum útsýnisstað af Lambafelli til austurs yfir á Eiríksjökul.

Niður af Lambafelli var farið um góða brekku niður á jaðar Hallmundarhrauns - sjá farveg Norðlingafljóts fjær.

Gengið var eftir Arnarvatsnvegi þar til komið var að Hraunkarlinum svokallaði... hugrökkustu stelpurnar kysstu hann... þ. e. Valgerður og Anna Elín og tóku á orðinu aðvörunina um að ella biði ferðamannsins hin mesta ógæfa...

Sjá má hvernig hann nánast teygir sig að Önnu Elínu til að taka við kossinum...

Við tóku grasigrónar lundir á klakabundinni leið og Ingi reyndi við svellhlaup svokallað í vangaveltum um mögulega vetrarólympíuleika Toppfara... minnug sumarólymíuleikanna í Herðubreiðarferðinni...

Hérna fórum við greitt og sólin skein í heiði.

Heiðrún, Ingi, Súsanna, Heimir og Björn... kærkomnir félagar á fjöllum...

Fara þurfti upp á fjallsræturnar aftur til að komast beinustu leið að bílunum og þá greiddist vel úr hópnum.

Ganga dagsins varð 14,5 km á 5:24 - 5:3 klst. upp í 958 m hæð (937 m) með 658 m hækkun miðað við 299 m upphafshæð.

Sjá Lambafellið hægra megin og svo hjallann upp hlíðina til að komast að bílunum.

Reykjavíkurliðið fór í bæinn alsælt þar sem við höfðum haldið okkur innan tímarammans og lokið göngunni um þrjúleytið og þau voru því í bænum um fimmleytið... við hin dóluðum okkur niður í Húsafell, fórum í pottinn og sumir fengu sér eitthvað mýkjandi...

Heiri potturinn í sundlauginni fylltist fljótt en það telst til afreka að velta sér upp úr snjónum
eins og nokkrir gerðu áður en þeir fóru ofan í !

Kokka-hópurinn tók til við eldamennsku og voru menn boðaðir til veislu kl. 19:00 og borðhald skyldi hafist kl. 20:00.

Grillmeistararnir hefðu nánast frosið í hel úti við hús...
ef ekki hefði verið fyrir reglulegar áfyllingar í sérstök meistaraglös...

Roar, Kári Rúnar og Ingi.

Strákarnir fluttu grill úr bústöðunum og komu með aukagaskúta fyrir stóra veislu...
...svona snilld gerist víst ekki af sjálfu sér.

Þröngt var setið í stofunum tveimur en Ingi hafði komið með aukaborð til að allir gætu setið fínt við borð.
Skagastrákarnir sátu svo bara inni í eldhúsi og snæddu þar í mestu makindum eins og húsmæðurnar forðum daga sem aldrei settust við matarborðið heldur þjónuðu fjölskyldunni ósérhlífið frá fyrsta til síðasta bita...

Skagaborðið svokallaða með nokkrum reykvískum Toppförum.

Stelpuborðið sem þó sátu við fjórir karlmenn en þeir höfðu í nógu að snúast innan um hlátrasköll kvennanna...

Kokkarnir og aðstoðarmenn báru náttúrulega til borðs ... hvílík þjónusta...

Myndbandið af borðhaldinu: http://www.youtube.com/watch?v=El65h1YkAwE&feature=related

Úrbeinað, grillað lambalæri, smjörsteiktar kartöflur í púrrulauk og grænmeti, piparostasósa með sveppum og ferskt grænmeti.

Guðjón Pétur, Ingi, Simmi, Örn, Stefán A., og Helgi Máni.

Uppvaskarar kvöldsins voru svo Eyjólfur og Svala... þau voru óstöðvandi á meðan við hin snerumst í kringum þau
og gengum frá og eins og mest við máttum.

Rikki mætti með gítarinn og hafði útbúið feitt sönghefti Toppfara í 2. útgáfu þar sem Helguvers var aftast:

Toppfarar þeir tölta á fjöll
telja það vera gaman
Alltaf heyrast hlátrasköll
er hópurinn kemur saman

Í vetrarkulda, vindi og sól
vaða Toppfararnir
Álpast upp á hæð og hól
heldur veðurbarnir

Til Húsafells nú ligur leið
Leggjum Strút að velli
Þótt gangan verði varla greið
við forðumst alla skelli

Umbarassssa....

Höfundur: Helga Björnsdóttir, febrúar 2010.

Koníaksstofan... Örn, Heimir, Guðjón Pétur, Stefán Alfreðs og Simmi...

Ingi sló upp dansi og það var sko dansað...

Snakk á eftir og ídýfur... allt í umræðunni og enginn orðinn þreyttur ennþá... en um helmingur hópsins var búinn að fá nóg í kringum miðnætti og fór stilltur "heim í bústað"... Þeir sem entust lengur fengu gæðastimpil þjálfarans sem sagði að úr því þau gætu enst langt fram á nótt við dans og söng eftir 15 km göngu í frosti og vindi þá væri þeim ekkert ofviða... :-)

Karókísöngvarar kvöldsins fá lokaorð þessarar ferðasögu...

Valgerður, Sigga Rósa og Ágústa að syngja Mamma Mía af hjartans lyst með DJ Inga við stjórnvölinn.

Dansinn dunaði og söngurinn ómaði til þrjú þegar þjálfarar fylgdu síðasta manni heim... eins og alltaf...

Heim var farið daginn eftir, eftir hefðbundna tiltekt og óhefðbundnar uppákomur eins og stíflu í klóaki þar sem sérþekking Inga og röggsemi Heiðrúnar kom sér vel.. en ekkert, bókstaflega ekkert gat skyggt á þessa ferð þrátt fyrir það...

Frábær helgi sem hefði ekki getað verið betri hvað allt varðaði...
...veðrið, fjallið, útsýnið, stemmninguna, félagana, matinn, sönginn, dansinn, stuðið...

Sjá allar myndir úr göngunni á http://picasaweb.google.com/Toppfarar

Sjá myndböndin á Youtube: http://www.youtube.com/results?search_query=BaraKetils&search_type=&aq=f

Athugið: ferðasögur tindferða vinnast á nokkrum dögum með lagfæringum og viðbótum.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir