Tindur 20 - Helgrindur í tveimur ferðum með vikumillibili
sunnudaginn 22. febrúar og laugardaginn 28. febrúar 2009


Helgrindur í brakandi blíðu
... í annarri göngunni í röð...

Sjö toppfarar að meðtöldum þjálfurum gengu á Helgrindur á Snæfellsnesi laugardaginn 28. febrúar
þar sem ekki komust allir síðasta sunnudag.

Veðrið lék við göngumenn og var gengið í ökkladjúpum snjó um einstakan fjallasal í sólríkju og logni.
Einlæg ósk félaganna frá fyrri helginni um góða ferð okkur til handa rættist...

Kærar þakkir elskurnar...

En þeir Ingi, Guðjón Pétur og Simmi voru í símasambandi við okkur á fjallinu þennan dag
alla leið frá Strút í Borgarfirði í svipaðri hæð og fögnuðu með okkur ofan af sínum tindi :-)


Mynd: Guðjón Pétur:
Heiðrún, Ingi, Gurra, Simmi, Guðjon Pétur og María á tindi Strúts í 937 m hæð.

Örn, Soffía Rósa, Hjölli, Gnýr, Helga Björns., Stefán Alfreðs og Bára ...
 fóru
12,4 km á 6:37 klst. upp í 998 m hæð með 953 m hækkun...



Mynd: Gnýr - fleiri góðar myndir frá honum eru á Facebook.


...og tókust á við krefjandi snjóbrekkur og sprungnar hengjur...
með svimandi fögru útsýni til sjávar í suðri og Grundarfjarðar í norðri
með Kirkjufellið eins og snjóhvítan brúðkaupskjól úti á hafi...

Magnaður staður til að vera á í veðurblíðu vetrar...

Frábært að báðar ferðirnar á Grindurnar skyldu heppnast svona vel og bæta hvor aðra upp með ólíku útsýni og færi !

Við verðum að fara um þetta svæði að sumri til...
og ganga á
Kaldnasaborgir, Tröllkerlingu, Tröllabarn, Örninn og Stakksfellið og... Kirkjufellið og...
Svona er þessi fjallafíkn... maður getur ekki beðið eftir næsta tindi...

 


Sjá uppgönguleið og niðurgönguleið gróflega teiknað inn á.
Takið eftir hvað brekkurnar og skaflarnir eru saklausir í fjarlægð en stærri nær sbr. nærmyndir hér neðar.

Við lögðum af stað korter í tíu eftir skraf og ráðagerðir um uppgönguleið
en þjálfarar vildu að allur hópurinn kynntist því að takast á við verkefnið saman þó þeir réðu för almennt.

Þetta var fyrsta undanfaratindferðin í sögu klúbbsins þar sem ekkert okkar hafði gengið áður um þessar slóðir...

Nautnin af slíkri göngu... að fara um nýjar slóðir í fyrsta sinn af eigin raun draup af þjálfurum
sem annars eru vanir að vera búnir að fara könnunarleiðangra áður...

Þetta er hámark fjallamennskunnar...

Bóndi Kálfárvalla hafði ráðlagt þjálfara í síma deginum áður að fara austan megin við bæði gilin og taldi næst bestan kost að fara um hrygginn milli giljanna. Við skoðuðum brekkurnar frá bílunum og sáum kosti og galla við hrygginn, austari leiðina og litum jafnvel til gilsins austast við klettana þar sem ekki var nokkur snjóflóðahætta... en enduðum á að fara austan við gilin og þræða klettarjáfið upp brekkuna til að forðast snjóflóðasvæðið sem mest.

Það var þó hægarar sagt en gert þar sem smá skafl í fjarska reynist oft vera stærri þegar að er komið...

Á þessari leið var snjórinn stöðugt rúllandi niður í litlum snjóboltum sem er klárt merki um snjóflóðahættu og við máttum vera viss um að almennt væri snjóflóðahætta á svæðinu þar sem harðfenni var undir frá síðustu helgi og nýfallin snjór eftir snjóbyl vikunnar ofan á.

Þjálfarar mátu það svo að yfir harðfenninu væri það þunnt lag af snjó og á það litlu svæði að hættulegt snjóflóð væri ekki mögulegt. Einnig að snjórinn væri það mjúkur ofan á að ef maður rynni af stað í hálkunni undir þá yrði það ekki langt án þess að ná að stoppa sig í snjónum auk þess sem brekkurnar voru aflíðandi neðar og grjótið tæki þá við þó ekki yrði það þægilegt.

Það hefur sýnt sig að snjóflóð þurfa ekki að vera stór til að vera banvæn enda er köfnun eða ofkæling ekki eina dánarorsök í snjóflóði heldur og höfuðhögg þegar skollið er á kletta, eða t. d. fall þegar farið er fram af brúnum neðar í brekku o. s. frv. Við fylgdum klettunum í kanti snjóbrekkunnar og sneiddum framhjá snjósköflum í breiðunni eins og ráðlagt er að gera á snjóflóðahættusvæði en skiptar skoðanir voru innan hópsins með hversu krefjandi þessi brekka var.

Þær eru nokkrar lengri, brattari og hálari brekkurnar sem hópurinn á að baki og sýnir það sig á svona stundum að reynsla gefur ákveðið öryggi. Það er reynsla hópsins í heild að við aðstæður sem þessar finnst sumum hífandi skemmtilegt á meðan öðrum er lítið skemmt enda ekki þægilegt að renna af stað í hálku niður bratta brekku og finna hve varnarlaust maður er við slíkar aðstæður.

Þarna þurftum við helst að vera í gormum eða broddum og með ísexina á lofti... annað var óþægilegt...
en um leið stórkostlega gefandi að komast upp svona brekku við þessar aðstæður.

Sjá Helgu Björns og Gný að koma fyrir klettavegginn
alsæl með afrekið,

Bara mögnuð fjallamennska...

Uppi á hamrabrúnum Kálfársvalla biðu snjóbreiður Kálfárdals brakandi mjúkar og ferskar.
Sjá móta fyrir
Kálfá í sköflunum.

Gengið í skuggum af tannhvössum klettunum í austri sem líktust neðri góm á skrímsli sem við vorum föst ofan í...
eða var þetta
"ekki eins og fótatær sjáiði"...???
Sjá efstu mynd.

Nestistími í skarðinu ofar með stórkostlegt útsýni til suður og vesturs...
Kominn í safn
stórfenglegra nestisstaða Toppfara...
Þetta minnti óneitanlega á Eyjafjallajökulsferðina í rjómablíðu hækkandi sólar komandi vors...

Eftir skarðið beið annar fjallasalur og hnúkar og klettar tóku að kallast á við göngumenn...
..."sjáðu mig, sjáðu mig... getur verið að ég sé Böðvarskúla..."

Örn hér kominn á undan að hægra horni nafnlausa vatnsins í dalsbotni.
Stakksfell og Örninn sitt hvoru megin við okkur (ekki á mynd) ...
og að því er við héldum þá
Böðvarskúla, Tröllabarn og Tröllkerling...

"Jú, þetta hlýtur að vera Böðvarskúla... ef maður miðar við fjarlægðina...
en samt á maður víst ekki að sjá hana fyrr en í lokin... en þetta hlýtur að vera hún
..."

Stundum þyngdust snjóskaflarnir og urðu næstum hnédjúpir þegar verst lét en almennt var þetta ökkla/kálfadjúpur snjór... Allsendis ólíkt færinu helgina á undan þegar gengið var á hörðum snjóbreiðum á gormum eða broddum...

Fínasti lærdómur að sjá hvað sama svæði getur breyst mikið milli nátta að vetri til m. t. t. færðar og veðurs.
Bóndinn hafði upplýst þjálfara um það að snjóbylur hafi gengið yfir svæðið eina nóttina í vikunni og almennt hafði verið frost þessa viku svo við vissum nokkurn veginn hvað beið okkar...

Smám saman drógumst við ofar... komin á vald Helgrinda
og létt snjóþokufjúk umlukti okkur á köflum með sólargeislana skínandi í gegn.

Þarna stefndum við upp á öxlina að Böðvarskúlu sem við héldum vera hægra megin (út af mynd) og skildum ekkert í því afhverju Örn beygði ekki til hægri inn á hnúkinn... en þá var þetta bara enn ein áfanginn að hæsta punkti Helgrinda sem beið enn framar eða norðar og birtist okkur þarna uppi...

Við vorum sem sé dregin inn í feluleikur Helgrinda...

Þarna er hún loksins...

En við ákváðum að taka eina mynd uppi á hólnum með kúluna í baksýn ef þetta ótrúlega skyggni myndi ekki haldast.
... mitt í svona aðgerðum eins og sólaráburði, vatnsdrykkju og svona...

En þegar lagt var galvaskt af stað á Böðvarskúlu... drífum okkur upp... þá gengum við fram á snjóhengju...
við ætluðum nefnilega upp hrygginn þarna vinstra megin í vestri (sem er líklega uppgönguleiðin almennt?).

Hvernig kæmumst við að Böðvarskúlu... þetta var of bratt og hættulegt... við réðum ráðum okkar og gengum til austurs... kæmumst við þarna niður?  "Getum við ekki bara farið niður þessa hengju" sagði kvenþjálfarinn...

... en í því skaust Helga niður að nára um sprungu á hengjunni og þar með var ljóst að við vorum ekki að fara niður um hana... Sjá síðar mynd af henni á niðurleið !

En hengjan jafnaðist sem betur fer út austnorðaustar og brekkan beið okkar svo ofar, ávöl og hættulaus.

.. og náði alla leið upp að snjóhengju milli Böðvarskúlu og Rauðukúlu...

...með svimandi fögru útsýni til norðurs yfir Grundarfjörð og Kirkjufell...

Engan veginn hægt að átta sig á áhrifunum nema vera á staðnum í hita og svita göngumannsins sem gengið hefur um snjóútbreiddan fjallasal umkringdur tindum og kemur skyndilega fram á slíka brún með heiminn eins og að fótum sér...

Sjá myndbandið af þessum fyrstu augnablikum á YouTube:

www.youtube.com/BaraKetils

Böðvarskúla var vestan megin - til vinstri - og við gengum af stað en þá mótmælti gps-tæki Arnar og hann sneri yfir á Rauðukúlu sem leit út fyrir að vera meiri hnúkur en Böðvarskúla... en svona var þetta alla leiðina... Böðvarskúla var í feluleik innan um hnúkaröðina sem stingur sér eftir fjallgarðinum er gnæfir yfir Grundarfjörð...
og við tókum þátt í þessum feluleik því hann gefur alsælu fjallgöngumannsins við að kanna ókunnar slóðir í fyrsta sinni...

Stuttu síðar áttuðum við okkur þarna sem við vorum hífuð á Rauðukúlu yfir fegurðinni og skutumst upp á hæsta punkt...

Jú, þessi er  var nokkrum metrum hærri... 998 m... þetta er þá Böðvarskúla... en Rauðakúla var 987 m...

Hjörleifur að "chilla" á Rauðukúlu með Böðvarskúlu í fjarska.
 

Nestisstaðurinn á hengjunni milli hnúkanna...
...þar sem við töluðum óðamála í símann við Skagamenn, vini og vandamenn í rjómablíðu
en fljótlega svölu veðri af kyrrsetunni.

Niðurleiðin var rösk, glaðleg og létt...

Við vorum náttúrulega drukkin af fegurð Helgrinda og svifum niður...

... og skoðuðum Helgusprungu á leiðinni í flissandi kæruleysi tindasigurvegaranna...

... en fórum samt varlega... þegar tekin var mynd á sprungunni...

Snjórinn var okkar tryggi ferðafélagi í þessari ferð og fékk sér mynd af sér...

... og brosið var líka með í för alla leið og hvarf aldrei af andlitunum...
Það er að mörgu leyti skemmtilegast að ganga í litlum hópi á svona degi...
þá dreifist ekki úr honum um allt og allir eru sem einn maður...

Hér sést helsta verkefni Helgrindarfara almennt...
Hin mjög svo
bratta brekka Kálfárvalla frá láglendinu upp í fjallasalinn
... eins hversdagslegt og furðulegt og það nú er fyrir jafn hrikalega nefndan stað eins og
Helgrindur...

Almennt eykst snjóflóðahætta er líður á daginn og sól hefur skinið á snævi þaktar brekkur í suðri.

Örn og Hjörleifur skutust á undan hópnum á niðurleiðinni og könnuðu aðstæður í brekkunni
en þeim leist ekki nógu vel á sömu niðurleið og við fórum fyrr um daginn.
Talsvert hafði þó bráðið alveg af snjónum í suðurhlíðunum og líklegast fær leiðin meðfram austara gilinu þar sem grjótið stakkst að mestu upp úr (sömu leið og hópurinn fór fyrir viku síðar),
en afráðið var að fara örugga leið um grjótgilið austast.

Það gekk vel í sporum Arnarins sem skólfaðist fyrir okkur um þennan hála snjóskafl efst - sjá efri mynd.

Og svo klöngruðumst við niður grjótið...
og
renndum okkur loks niður síðustu metrana...
og
gengum svo mosann og sinuna að bílunum...

 
Alsæl með dásamlegan göngudag sem stendur upp úr sem einn sá besti í sögu klúbbsins...

... og úti var ævintýri...


Sjá gps-slóðina: Gula er okkar leið, bláa trackið er af netinu sem við höfðum inni tækinu á göngunni.

Takið eftir hvar settir voru inn punktar: Punktur 4 er merktur þar sem fyrra track fór beinustu leið á punkt 5 (vantar á korti),  líklega þar sem þeir gengu niðurleiðina beinni og slepptu vinstri beygjunni að snjóhengjunni sem við gengum fram á. Að sumri til er líklega gengið fram á misgengi þarna á sama hátt og við gengum fram á snjóhengju og því er í raun beinni leið til frá punkti 4 til 5 (eins og við komumst að á bakaleiðinni) en landslagið hefur eflaust áhrif þarna og leiðir menn líklega ósjálfrátt að misgenginu sem veldur þessari vinstri óþarfa beygju.

Nákvæmlega svona pælingar gefa manni meiri reynslu fyrir næstu ferð...


Hæðarmynd af göngunni:
Sjá Rauðakúlu vinstra megin - fyrri toppurinn og svo Böðvarskúla hægra megin -
seinni toppurinn sem er aðeins hærri en það munar sáralitlu skv. þessum prófíl.

Nokkur ráð varðandi undirbúning fyrir göngu um slóðir sem maður hefur ekki farið um áður:

Þjálfarar gengu eftir gps-punktum frá Leifi Hákonarsyni á www.wikiloc.com
og höfðu merkt helstu punkta inn eftir að skoða kort af svæðinu,
trackið í heild í stóra gps-tækið og sex punkta í hand-gps-tækin:

Punktarnir voru eftirfarandi:

Upphafsstaður, brekkubrún, skarðbrún, hægri endi vatnsins, beygjan upp að Böðvarskúlu, Böðvarskúla.

Við vorum svo með trackið í heild í stóra gps-tækinu, en það er almennt hvimleitt að elta track og þurfa þá sífellt að vera að horfa á gps-slóðina, betra að hafa nokkur kennileiti í minni og nokkra punkta og líta eftir því öðru hvoru á gps-handúrinu, þ. e. hvort maður sé á réttri leið og punktarnir passi við landslagið. Sé maður búinn að skoða kortin vel fyrir gönguna þarf maður varla að horfa á gps-ið ef skyggni er gott, maður veit að þetta er brúnin, skarðið, vatnsendinn... nema í þetta skipti var gott t.d. að hafa vatnsendann merktan nákvæmlega þar sem vatnið var snjólagt og öruggast að geta verið viss um að vera að sneiða famhjá því. Eins var ekkert náttúrulegt kennileiti sem við vissum um þar sem snúið er upp að Böðvarskúlu og þar var gott að hafa gps-punkt sem dæmi þó oft sé svo að þegar að er komi þá skilur maður á landslaginu afhverju snúið er þarna til hægri ...

Gps-tækin eru ekki óbrigðul og því er nauðsynlegt að gera ráð fyrir því að þau klikki og vera undirbúinn með kort af svæðinu meðferðis, áttavita og vera alltaf meðvitaður um áttirnar. Sjá sjálfan sig í huganum ganga á kortinu... Hafa fest sér í minni af korti (eða finna á korti á staðnum) stór og löng kennileiti eins og vatn, slóða, árfarveg, jafnvel þjóðveg, há vel þekkjanleg fjöll, skurði, grindverk, skóg...  og vera meðvitaður um þau á göngunni sem viðmið og mögulega útgangspunkta með áttavita ef maður þarf að staðsetja sig til áttunar eða ganga fram á mjög langt kennileiti sbr. rötunarnámskeiðið.

Gott er að:

*Skoða fleiri en eitt kort af svæðinu - mjög gott að ná niður í 1:50-75.000 en þau eru oft vandfengin.
*Skoða má kort af netinu hjá Landmælingum Íslands - www.lmi.is - kortaskjár og Atlaskort og prenta þaðan út - þysjun niður í 1:10.000 mest.
*Gaman er að safna smám saman kortum af hverjum landshlutum og eignast gömlu kortin af einstökum svæðum en síðast þegar ég vissi var hægt að kaupa þau hjá ferðakortum af gömlum lager - www.ferdakort.is.
Þau eru ekki á vefsíðu þeirra samt en mér skilst að þau hafi ætlað að gefa þau áfram út.
*Fá track eða gps-punkta hjá félögum eða á netinu - þjálfari er tengdur vef sem deilir tröckum www.wikiloc.com - skrá þarf sig þar inn með lykilorði.
*Hafa þarf ákveðinn vara á að fá track frá fólki sem maður þekkir ekki og ekki getur útskýrt leiðina, sérstaklega ef maður getur ekki séð hvers vegna trackið er þessa leið og manni finnst að það eigi að fara aðra leið. Leiðarval fer nefnilega alltaf eftir ýmsum þáttum eins og færi á ólíkum árstíðum og geta áhrifaþættir verið ólíkir þeim aðstæðum sem maður gengur svo sjálfur um.
*Fá leiðbeiningar frá félögum sem hafa farið um svæðið, gangandi akandi, ríðandi...
*Fá leiðbeiningar frá heimamönnum á svæðinu - þeir eru yfirleitt drjúgir þekkingar á eigin slóðum.
*Skoða veraldarvefinn... þar eru oft ferðalýsingar og ljósmyndir af svæðinu, gönguleiðinni eða þar í kring og getur verið gott að átta sig umhverfinu af myndunum og lesa um reynslu annarra.
*Fá fréttir frá þeim sem nýlega hafa farið um svæðið og geta sagt manni til um færi, ástand o.s.frv.
*Fylgjast vel með veðurspá vikuna fyrir gönguna meðal annars m. t. t. snjóflóðahættu.
Norski veðurvefurinn www.yr.no býður upp á að slá inn staðarnöfn eins og Helgrindur til að fá veðurspá á því svæði eingöngu og þar er t. d. hægt að sjá hitastigið og svo hvað hitastigið er miðað við vindinn (
-2°C / feels like -7°C)

Sjá síðar nánar um snjóflóðahættu en þjálfarar eru ekki vanir slíku mati né með reynslu af að umgangast svæði þar sem slík ógn stafar almennt af, en lásu sér mjög vel til um hana fyrir þessa ferð og lærðu heilmikið á einni ferð. Þeir þurfa eins og aðrir að safna í reynslubankann hvað þetta varðar en nákvæmlega svona ferð þar sem maður er stöðugt að lesa í umhverfið og greina... veitir manni sífellt meiri reynslu, styrk og öryggi til að takast á við fjallgöngur að vetri til...

Ástundun er besta æfingin !

Það er almennt gífurlega lærdómsríkt að þurfa að rata sjálfur á ókunnri slóð og vera ekki á ábyrgð leiðsögumanns.
Við mælum með því við alla félaga að kynna sér ofangreind atriði fyrir hverja gönguferð hópsins því þannig þjálfar maður smám saman með sér hæfni til að fara á eigin vegum þegar mann langar út að ganga á nýjum stað...

Ekkert í fjallamennskunni kemur í stað þess
að koma í fyrsta sinn á nýjar slóðir...

Sjá allar myndir þjálfara úr ferðinni á www.picasaweb.google.com/Toppfarar
 

 


Helgrindur í blíðskaparveðri


Mynd: Gylfi Þór:
http://gylfigylfason.123.is/ 

Sigfús, Gylfi Þór, Simmi, Roar, Arnar Þór, Guðjon Pétur, Ingi, Sigrípur Sig., og Hildur vals.

Tindur nr. 20 var sigraður af níu toppförum sunnudaginn 22. febrúar
í lygnu veðri kringum frostmark og góðu skyggni til vesturs og suðurs.


Mynd: Roar: Gengið upp snjóhengjuna með Böðvarskúlu vinstra megin.

Fresta þurftu göngunni um einn dag vegna vonskuveðurs á laugardeginum en Jón Gauti bauðst til að fara á sunnudeginum og komust níu galvaskir toppfarar með - sjá mynd ofar.


Mynd: Roar:
Gengið til austurs eftir hnúkaröðinni.

Sjá frásögn Gylfa á Facebook:

GeGengið með Toppförum án okkar ástkæru farastjóra reyndar, á Helgrindur (988m) sérlega glæsilegur fjallgarður rétt austan við Snæfellsjökul.
Mættir: Arnar, Guðjón Pétur, Gylfi Þór, Hildur Vals., Ingi,Roar, Sigríður Sig., Sigfús, Simmi að ógleymdun Jón Gauta fjallaleiðsögumanni.
Gengið var á Böðvarskúlu sem er hæsti hlutinn og efsti hlutinn þræddur enda afar gott verður og útsýni a.m.k. til suðurs.
Gangan tók 7 klst. með góðum útúdúrum en 14 ,3 km. voru gengnir. Gengið er frá bænum Kálfárvöllum sunnan megin. Fyrstu 300 hæðarmetrarnir voru frekar mjög brattir en eftir það var þetta jöfn hækkun að mestu. Ofan fyrstu brekku var Kálfárdalur og var gengið eftir honum til norðausturs en síðan haldið til norðvesturs upp á tindinn. Í 500 m var snjór og mjög harður eftir rigningar og frost. Úrvals göngufæri og þegar ofar dró hvarf vindurinn og var gangan í alla staði frábær, með hrikalegum klettamyndunum, harðfenni, sól, smáþoku og lygnu veðri. Helst vantaði að sjá aðeins ofan í Grundarfjörð en norðanmegin var þoka.


Mynd: Gylfi Þór: Tröllkerling?

Þjálfarar komust ekki en fengu fréttir af tindinum og eftir gönguna...
og sæluvíma Helgrindarfaranna fór ekki framhjá manni...
þau bókstaflega svifu dagana á eftir...
og því var áfráðið að fara aðra ferð næstu helgi fyrir þá sem ekki komust á sunnudeginum - sjá frásögn ofar.

Sjá frábærar myndir á facebook frá Gylfa Þór,
... og á myndasíðu hans:
http://gylfigylfason.123.is/ 
.. og á myndasíðu fjallaleiðsögumanna

http://www.flickr.com/photos/icelandicmountainguide/sets/72157614299660581/

Kærar þakkir fyrir að deila myndunum með þjálfara fyrir vefsíðuna, Gylfi Þór, Roar og Jón Gauti... !
Það er ótækt að skrifa ferðasögu af göngu sem maður tók ekki þátt í svo ég tók frásögn Gylfa af fésinu og kvaldi myndir af svæðum sem seinni hópurinn gekk ekki um.

 

  

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir