Tindferð 207
Hrafnabjörg, Tröllkarl, Tröllbarn, Tröllskessa og Þjófahnúkur
laugardaginn 19. september 2020

Hrafnabjörg
 Tröllatindar og Þjófahnúkur
í bröttu klöngri... sviptivindum... rigningarskúrum
en dulúðugu umhverfi og mögnuðu skyggni allan tímann

Brattkleifir og mjög fáfarnir Tröllatindarnir þrír... sem við klöngruðumst upp á alla þrjá á efsta tind í lausu móbergi og miklum bratta... þar sem vel reyndi á styrk og lofthræðslu... tekin ofan af fyrsta tindi dagsins, Hrafnabjörgum á Þingvöllum... og endað á fimmta tindinum, Þjófahnúk í bakaleiðinni...

... aðdáunarverð frammistaða með meiru þar sem flestir tóku verulega á stóra sínum en gáfu hvor öðrum styrk og hjálparhönd... framar vonum að ná fimm glæsilegum tindum með rysjótta veðurspá í farteskinu og rigningarskvettur af og til, þéttan suðaustan vind og erfiða sviptivinda þegar verst lét en hlýtt, sólarglætur öðru hvoru og ægifagurt skyggni allan tímann...

Alls 13 km á 6 klst. á sannkölluðum Hringadróttinsslóðum sem voru ekki fyrir lofthrædda... en færar í krafti hópsins sem fór þetta á gleðinni og samstöðunni eins og hún gerist best í þéttum tólf manna hópi... vá... vel gert... dj.snillingar !

--------------------------

Veðurspáin var ekki góð þennan dag... en þetta gat vel sloppið fyrir horn þar sem úrkoman var lítil á þessu svæði... og þó það væri mikill vindur.. þá höfðum við sumarfærið... dagsbirtuna... og hlýjindin... þannig að eingöngu tveir af fimm álagsþáttum veðurs voru verkefni dagsins... vindur og úrkoma...

Haustlitirnir í algleymi og dýrindis akstur um Þingvelli skreytti daginn...
sjá hér Reyðarbarmana nær og Kálfstinda fjær en þeir eru á dagskrá í október...

Stóri Dímon er eitt af nokkrum fjöllum sem bankað hafa á dyrnar í Þingvallaáskoruninni og óskað eftir því að fá að vera með... og við höfum sagt já... hann verður tekinn þegar við göngum á Hrútafjöll í nóvember... eins gott að það verði bílfært hér inn eftir þá... annars neyðumst við til þess að ganga alla leiðina að Hrútafjöllum...

Veðrið var ágætt keyrandi úr bænum þennan morgun og sólin skein í heiði á köflum... en svo komu rigningardropar á okkur einmitt þegar við vorum að klæða okkur við bílana... og svo létti til um leið og við gengum af stað... svona var þessi dagur... síbreytilegt veðrið úr bláum himni í fjarska og svo rigningarskúr sem endaði í nánast slyddu á köflum...

Hrafnabjörg var fyrsti tindur dagsins... og svo Tröllatindarnir og Þjófahnúkur... við höfðum ráðgert að fara jafnvel eingöngu á Hrútafjöll ef veðrið væri arfaslakt... en þar sem það reyndist í stakasta lagi þegar að var komið þá héldum við áætlun með tindana fimm... en vorum stöðugt undir það búin að snúa við í bílana ef veðrið versnaði... sem það gerði ekki...

Hrútafjöllin hér í baksýn á leið upp á Hrafnabjörg...

Uppi á efsta tindi Hrafnabjarga var þoka og ekkert skyggni og við ákváðum að taka þá beina línu yfir á Tröllatindana... en á sama augnabliki opnaðist allt og við sáum niður til Þingvallavatns... mynd tekin ofan af tindinum.... ekta útgáfa af veðri dagsins...

Allir mættir aftur á tindinn að taka mynd... hér voru menn búnir að bæta á sig klæðnaði... þetta leit ekki vel út þegar skúraleiðingarnar gengu yfir... en um leið og stytti upp varð allt betra...

Hrafnabjörg mældist 776 m há og var hæsti tindur dagsins...

Hrafnabjörg sem dagsganga ein og sér, er stutt og létt og nauðsynlegt að ganga eitthvað meira þegar búið er að keyra svona langan veg inn á þetta svæði...

 

Tröllatindarnir eru því tilvaldir með fannst okkur á sínum tíma...

... sem og Þjófahnúkurinn sem stendur stakur í bakaleiðinni...

Allt blautt og mjúkt og mjög þægilegt yfirferðar...

Tröllatindarnir þrír vinstra megin... og Þjófahnúkur hægra megin...

Skriða fjærst vinstra megin... Skefilsfjöll, Skriðutindar, Klukkutindar og Hrútafjöll...

Hrikaleikur Tröllatindanna opiniberuðust okkur smám saman þegar nær dró...

Haustlitirnir svo fallegir hér eins og á Rauðöldum helgina á undan... en í langtum minna magni...

Bak við Tröllatindana þrjá má sjá Tindaskaga vinstra megin... hann er næsta tindferð... í byrjun október... þangað er eingöngu fært jeppum og jepplingum... við þurfum því sumarfæri á akstursleiðinni... og viljum helst fá sumarfæri gangandi á þá þar sem leiðin er í nokkrum bratta... vonum það besta...

Árið 2011 fundum við mjög bratta klöngurleið upp á Tröllkarlinn sem við nefndum þann hæsta af Tröllatindunum...
hér upp mjóa hrygginn beint fyrir framan okkur... við hristum höfuðið yfir vitleysunni í okkur þarna um árið...

Upp vegginn var það hér...

http://www.fjallgongur.is/tindur59_hrafnabjorg_ofl_210511.htm

Útsýnið til Mjóufellana vinstra megin... Söðulhólar litlir fyrir miðri mynd.. þeir eru sömu gerðar og Stóri Dímon... vilja vera með í Þingvallaáskoruninni og verða gengnir í örskotstúr á leið heim af Tindaskaga... en að sögn Gunnars sem á bústað með Maríu E. á Þingvöllum... en þau ganga mikið á þessu svæði... þá eru Söðulhólarnir mjög fallegir þegar nær er komið...

Eingöngu tólf manns mættir í þessa ferð... veðrinu líklega fyrst og fremst um að kenna... og kannski því að þetta var þriðji laugardagurinn í röð sem við vorum með tindferð... Syðsta súla í byrjun sept var aukaferð fyrir Þingvallafjallasafnarana...

Elísa, Kolbeinn, Bjarni, Gunnar, Sigurður Kj., Þórkatla, Fanney, Bjarnþóra, Agnar og Örn
en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...

Á mynd vantar Bigga sem var farinn á undan...

Þjálfarar fóru könnunarleiðangur hér fyrir mörgum árum og fundu ekki góða leið niður af Hrafnabjörgum svona nálægt Tröllatindunum... og árið 2011 fórum við sunnar niður en hér... en við ákváðum að sjá hvort við fyndum leið hér niður...

Mosamús... svo fallegt... Þórkatla fann þetta líklega...
hún er nösk á fegurðina í nærumhverfinu eins og fleiri góðir ljósmyndarar í klúbbnum...

Þetta lofaði góðu til að byrja með hér niður...

... og Örn fann svo þessa lækjarrennu í klettunum... en annars hefðum við þurft að hækka okkur aftur og finna gömlu niðurleiðina...

Nákvæmlega svona var þessi dagur... tilraunakenndur í upp- og niðurleiðum í móbergi og bratta...

Katlarnir í lækjarrennunni...

Tafsamt klöngur en skemmtilegt...

Sjá neðan frá...

Saklaust að sjá héðan en tók tíma að fóta sig niður... Sigurður Kj. hjálpsamur við félaga sína... einmitt það er málið í svona ferð...

Við ákváðum að fá okkur nesti hér... undir klettaveggnum... í algeru skjóli gegn vindinum... og rigningarskúrnum sem lagðist yfir allt svæðið á þessum tímapunkti og við sluppum algerlega við...

Tær snilld !

Nú var haldið til Tröllatindanna þriggja...

... og í stað þess að fara bröttu 2011-leiðina á Tröllkarlinn héldum við meðfram honum og freistuðum þess að fara niðurgönguleiðina frá fyrri Toppfaraferðinni margumræddu árið 2011...

Magnaðir klettaveggir þegar nær var komið... þessir Tröllatindar eru alvöru...

Í þessum vegg fundum við leið sem gæti vel verið fær upp og þá þarf ekki að skáskjóta sér fram fyrir fjallið...

... en í stað þess að fara alla leið á niðurgönguleiðina gömlu... lögðum við fyrr í hann upp... fannst eitthvað tilvalið við að fara bara upp á hrygginn sem gæfi góða leið áleiðis á tindinn...

... þetta var jú góð hugmynd til að byrja með...

... en svo runnu á okkur tvær grímur...

Uppi var hryggurinn brattur beggja vegna og lítið hald ofan á honum...

Örn, Agnar, Gunnar og Þótkatla voru ekki lengi að koma sér upp hrygginn og áleiðis upp eftir... en við hin hikuðum... og sumir sögðust ekki ætla að fara þessa leið enda sviptivindar miklir og erfitt að halda sér öruggur á hryggnum... en undanfarar sögðu að leiðin væri mun skárri eftir hrygginn... og Elísa og Kolbeinn fikruðu sig örugg áfram... og við hin ákváðum að prófa að fara klofvega upp hrygginn... því þannig héldist maður öruggur ofan á honum... eins og Bjarnþóra var þegar byrjuð að gera og það gaf okkur öllum möguleika á að komast yfir þennan erfiða kafla...

Þetta gekk vel... og ofan af hryggnum var farið í hliðarhallanum hér og áfram...

Biggi valdi að sleppa þessari hryggjarleið og lækkaði sig frá hryggnum eins og var varaplanið... og kom í hliðarhallanum yfir þessa leið..

Svo var fikrað sig upp eftir í mun betra landslagi en ofan á hryggnum alræmda...

Tröllbarnið og Tröllamamma eða Tröllskessan eins og við köllum hina tindana tvo hér framundan...

Smá hvíld eftir krefjandi kafla um hrygginn... úff, þetta var alvöru !

Leiðin ofar svo upp á efsta tind...

Meiri snillingarnir í þessari ferð !

Rúmlega helmingur hópsins að taka á stóra sínum en lét sig hafa það... magnað !

Flott leið og héðan sáum við góða leið niður svo það var óþarfi að kvíða niðugönguleiðinni...

Stór björg innan um móbergsmolninginn allann...

Já... alla leið upp á efsta tind...

Sigurvíman var alltumlykjandi... í eftirskjálftum uppgönguleiðarinnar...

Tröllkarlinn mældist 630 m hár...

Sigur ! ... Vel gert !

Þessi mynd var NB tekin áður en við fréttum af 75 manna smiti föstudeginn 18. september...
sem hratt þriðju bylgju C19 faraldursins af stað... og gaf okkur sjokk síðar um daginn...

Magnað útsýni af tindinum...

Hér til hinna Tröllatindanna sem við áttum eftir að toppa síðar um daginn...

Niður sömu leið til að byrja með...

Fyrst niður saklausari hluta hryggjarins...

Sjá hér leiðina sem Gunnar benti á af austurhliðinni... fín leið upp hér...

Hér beygðum við niður brekkuna...

Fín leið niður... gættum að grjóthruni og fórum varlega...

Hreindýramosi á vergangi... Gunnar sá þá fjúka um í lausum búntum... og við spáðum í hvað ylli...

Litið til baka upp niðurgönguleiðina...

Komin niður og Tröllabarnið næsta verkefni en það er auðvelt uppgöngu...

Kolbeinn fann þennan móbergsúrgang :-) :-) :-) ... og við hlógum ógurlega:-)

Tröllkarlinn... með Hrafnabjörg þar fyrir aftan... tveir tindar búnir af fimm þennan dag...

Upp-og niðurgönguleiðin vinstra megin...

Tröllbarnið var saklaust og létt yfirferðar...

Tindurinn hér... það mældist nánast jafn hátt og mamma sín.... 618 m hátt...

Þjófahnúkur héðan... síðasti tindur dagsins...

Eldvörpin um allt svæðið í löngum línum sem allar liggja eins og hinir fjallshryggirnir á svæðinu...
þetta er eldheitt svæði með svakalega gossögu...

Áning ofan á Tröllbarni með Tröllskessuna framundan... fjórða tind dagsins... hann reyndist okkur ófær alla leið upp á efsta tind í könnunarleiðangri þjálfara árið 2010 og með Toppförum árið 2011 þar sem við fórum áleiðis upp en ekki alla leið...
en átti eftir að gefa okkur færa leið núna árið 2020...

Útsýnið til Tindaskaga, Skriðu og félaga...

Hæsti tindur Hrútafjalla... það var ansi bjartsýnt að ætla að ganga á hann sem sjötta tind dagsins... við vorum búin að fá alveg nóg á fimmta tindinum eftir krefjandi brölt allan daginn...

Hæsti tindur Skefilsfjalla... þau eru ógengin í klúbbnum og bíða spennt eftir okkur... eins og Skriða og Skriðutindar... en við erum búin með Klukkutinda... og það var svakaleg ferð í krefjandi bratta og vetrarfæri !

http://www.fjallgongur.is/tindur162_klukkutindar_271018.htm

Fallegt hraunið á milli... sjá gígaröðina... Tindaskagi vinstra megin...

Tröllmamma beið okkar þolinmóð... eða Tröllskessa réttara sagt svo maður haldi sig við upprunalega nafngift okkar...

Fín leið niður af Tröllbarninu...

Mjög fallegt landslagið hér á milli...

Sýnin til vesturs til Ármannsfells...

Norðurhlíðar Tröllbarnsins...

Suðurhlíðar móðurinnar...

Við skáskutum okkur einnig meðfram henni til norðurs... vissum að upp ásinn sunnan megin væri ekki fært alla leið upp...

Klöngruðumst svo hér upp í skarðið í fjallinu...

Flottur staður og stutt eftir á efsta tind... hér áttum við von á að fara ekki lengra...

... en Örn ákváð að skoða aðeins leiðina þarna upp...

... meðan við biðum róleg...

Sýnin til Ármannsfells og Mjóufellanna...

Örn kominn upp og við skelltum okkur þá á eftir honum... en hann var samt ekki búinn að kalla á okkur og sagði eftir á að hann hafi í raun ekki ætlað að gera það þar sem þetta var of bratt... en það vissum við ekki og héldum að við ættum að koma okkur þarna upp...

Smá klöngurkafli efst upp á tindinn sem var nokkuð krefjandi... eitt þrep þar sem maður hafði ekki mikið hald...
en annars var þetta ágætis leið þannig séð í góðum hópi með hjálparhendurnar á lofti (allir í vettlingum)...

Gróðurinn aðdáunarverður... hangandi hér á rótunum eftir rennsli niður í leysingum...

Engar myndir teknar á erfiðasta kaflanum... þá var maður að klöngrast...
allir himinlifandi að ná efsta tindi á þriðja og síðasta Tröllatindinum...

Hinir tindarnir fjórir þennan dag:

Þjófahnúkur... Tröllbarnið nær... Tröllkarlinn þessi dökki og loks Hrafnabjörgin hægra megin aftast...

Sigurinn var sætur og menn tóku myndir af sér á tindinum...

Tröllskessan mældist 620 m há...

Vesturhlutinn... Ármannsfellið þarna hinum megin hraunbreiðunnar...

Suðvesturhryggurinn...

Sýnin frá suðvesturhryggnum...

Niður norðurhrygginn...

Skefilsfjöll... löng tindaröð eins og hinir fjallahryggjarraðirnar...

Við reyndum að slaka aðeins á og hvíla okkur eftir bröltið og njóta hæsta tinds...

... og kvíða ekki fyrir niðurgönguleiðinni sem beið okkar og við höfðum áhyggjur af hvernig myndi ganga...

Horft niður hér leiðina upp...

Menn byrjuðu á að fara niður sömu leið og við komum upp...

En Agnar og fleiri fóru þessa leið upp og þurftu þá að skáskjóta sér undir stórt bjarg á þröngum kafla...
þau fóru þessa leið niður og hún reyndist betri niður en við áttum von á...

Brattinn á þessum kafla... nánast beint upp á klöngri...

Litið til baka úr skarðinu...

Eftir nesti við fjallsrætur móðurinnar héldum við til baka...
með vindinn í fangið og síðasta tind dagsins framundan... Þjófahnúk...

Tindaskagi aldeilis nálægt okkur þarna...

Það læddist alveg að okkur sú hugmynd að sleppa honum og eiga hann bara inni með Hrútafjöllum...
en við vissum að það væri ekki gott að geyma þennan tind... og létum okkur hafa það...

Stór gjá neðan við Þjófahnúk... Tröllkarlinn og Hrafnabjörg lengra frá...

Leiðin upp á Þjófahnúk var barnaleikur eftir klöngrið upp Tröllaforeldrana...

Kolbeinn fann þetta beisli... og Gunnar ákvað að hirða það...

Vorum varla að hafa orku í þetta eftir allt klöngrið sem var að baki... en vissum að þetta væri stutt uppgönguleið eftir allt sem var að baki...

Útsýnið til Tröllafjölskyldunnar... sjá gjánna og eldvörpin...

Hér skall á skúr sem stóð ekki lengi yfir frekar en hinir...

Litið til baka... betra myndir núna í gamla símanum hjá Erni en nýja símanum hjá Báru...

Komin upp... Þjófahnúkur mældist 696 m hár...

Við sáum til Þingvalla milli skúraleiðinganna... það var sól litlu sunnar en þar sem við vorum...

... og birtan af sólinni náði inn á okkar svæði...

Tröllatindarnir þrír... verða aldrei samir okkur eftir uppgöngu á þá alla þrjá...

Brugðið smá á leik á tindinum og svo farið niður...

... straujandi niður skriðurnar í frelsi eins og það gerist best á svona fjalli...

Þjófahnúkur er mjög fallegt fjall og ekki spurning að menn gangi á hann með Hrafnabjörgum ef þeir á annað borð keyra hingað upp eftir...

Hann gefur betra útsýni um svæðið en Hrafnabjörg í raun þar sem það fjall er svo viðfeðmt... og eldstöðvarnar allar og tindarnir sjást ekki eins vel frá Hrafnabjörgum eins og ofan af Þjófahnúk sem er líklega besti útsýnistindurinn af öllum fimm tindum dagsins...

Leiðin til baka var fjölbreytt um hraunbreiðurnar... þar var þessi mosabrú yfir eina sprunguna...

Gígur á miðri leið... einn af mörgum á svæðinu... eflaust þess virði að ganga bara eftir þessum eldvörpum og sleppa fjöllunum ef mönnum hugnast það... en þá reynda áttar maður sig ekki nógu vel á hvílíkt landslag er þarna... nema fara upp í fjöllin og horfa niður og sjá samhengi hlutanna... þess vegna erum við alltaf uppi í fjöllunum... það er mun meira gefandi en láglendið þó það sé dásamlegur heimur út af fyrir sig...

Hreindýramosaþúfurnar...

Eldborgin...

Þjófahnúkur hinn formfagri...

Haustlituð tjörn á miðri leið... og hæsti tindur Hrútafjalla í baksýn...

Komin í bílana þar sem menn fengu þær fréttir að 75 manns hefðu greinst smitaðir af Kórónuveirunni föstudaginn 18. september.. en Agnar hafði reyndar sagt einhverjum það í miðri göngu... en ekki kvenþjálfaranum sem fékk sjokk... og bað alla um að fara mjög varlega... sem betur fer höfðum við ekkert sameinast í bíla... allir komið á sínum bíl... og Fanney eingöngu fengið jeppafar hjá þjálfurum frá afleggjaranum inn að Bragabót... ein aftur í og við öll þrjú með andlitsgrímu þennan stutta kafla... við höfðum gert allt rétt... nema hrúgast öll saman á tindinn...

Á leið heim skiptust á skin og skúrir... og voru andstæðurnar sláandi... þessi dagur var rysjóttur með meiru... en mun betri en við áttum von á... og kenndi okkur þá lexíu enn einu sinni að veðrið er yfirleitt mun betra en áhorfist og spáð er... þegar maður er kominn á staðinn og vel búinn... með rötunina á hreinu og góðan hóp í kringum sig...

Alls 12,7 km á 6:11 - 6:14 klst. upp í 776 m á Hrafnarbjörgum, 630 m á Tröllkarlinum, 618 m á Tröllbarninu, 620 m á Tröllskessunni og 696 m á Þjófahnúk... með alls 997 m hækkun úr 529 m upphafshæð...

Leiðin á korti...

Aðdáunarverð frammistaða og frábær samstaða og hjálpsemi einkenndi þennan dag...
og mjög gaman að sjá styrkinn og öryggið í brattanum hjá þeim sem áttu auðvelt með að fara mesta klöngrið
og eins hvernig allir tóku á stóra sínum þegar á reyndi...
og voru boðnir og búnir til að rétta næsta manni hjálparhönd eða stappa stálinu í þá sem þess þurftu...

Virkilega vel gert !

Myndband af ferðinni í heild hér:

https://www.youtube.com/watch?v=EfyZfPiXpN0&t=59s

Gsp-slóð af göngunni hér:

https://www.wikiloc.com/hiking-trails/hrafnabjorg-trollatindar-thjofahnukur-190920-57265314

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir