Tindferð 204
Hellismannaleið
frá Landmannahelli til Landmannalauga
leggur 3 af 3 eða síðasti leggurinn á þessari gönguleið frá Rjúpnavöllum
laugardaginn 22. ágúst 2020

Landmannahellir til Landmannalauga
á þriðja og síðasta legg Hellismannaleiðar
meðfram þremur vötnum... gegnum sindrandi svarttinnuslegið hraun...
upp í litrík fjöll og niður í fegurstu vinina á Íslandi...

Landmannahellir til Landmannalauga... gengið úr hrjóstrugu hálendi Hellismanna meðfram þremur vötnum...
 gegnum sindrandi hrafntinnu-slegið Háölduhraunið fram á brúnir Vondugilja þar sem dýrð Torfajökulssvæðisins og Landmannalauga blasti við í sinni stórfenglegu litadýrð og formfegurð sem á einfaldlega engan sinn líka á Íslandi...

... tekinn aukakrókur upp á Suðurnám 925 m sem varða svæðið að norðan og eru í öllum mögulegum litum og formum
og loks gengið niður og inn í þetta einstaka landslag Landmannalauga þar sem auðvitað var endað í náttúrulauginni sjálfri umvafin litríkum fjöllum og bláum himni... hvílík staður að enda á...

... alls tæpir 20 km á 7 klst á þessum þriðja og síðasta legg Hellismannaleiðar í geislandi glöðum félagsskap...

Takk elskurnar fyrir sérlega nærandi samveru í þessu gullfallega landslagi
sem fær hjartað alltaf til að slá hraðar af aðdáun og lotningu...
 #hellismannaleið #TakkÍsland #landmannalaugar

Ferðasagan hér:

Reglur um sóttvarnir í almenningssamgöngum giltu í rútunni þennan dag... allir með andlitsgrímur eftir að seinni bylgjan eða bylgja tvö af Covid-19 reið yfir síðsumars þetta sögulega ár 2020... og sem fyrr var lagt af stað kl. 6:00 frá Rvík sem gefur okkur færi á að ná svona flottum göngum þetta langt frá borginni án þess að vera komin seint heim á laugardagskveldi... sannarlega þess virði í hvert sinn...

Keyrt upp í Landmannahelli þar sem gangan hófst og þar var farið á salernið og borgað samviskusamlega fyrir það hjá skálavörðum enda mjög vel þegið að geta farið á salerni í byrjun göngunnar...

Sjá Sauðleysur hér fyrir miðri mynd... Heklu með snjó þarna á bak við... og Krakatind aðeins að stingast upp úr við hliðina...

Mjög mikið af fólki á tjaldsvæðinu... óvenju margir að okkar mati og skálavörður var sammála... þetta var sérkennilegt á þessum árstíma...

Lagt var af stað kl. 9:10 frá Landmannahelli... í algeru logni og ágætlega hlýju veðri miðað við klukkuna... enda margir á stuttbuxum...

Gönguleiðin fer framhjá hluta af skálunum á svæðinu... og þar var einn fyrrum Toppfari sem við náðum að kasta kveðju á... hún Sylvía Reynisdóttir en konurnar sem þarna gistu voru á leiðinni á Löðmund þennan dag... konunginn á svæðinu með sínar mörgu kórónur...

Litið til baka yfir svæðið... skálarnir í einkaeigu nær og tjaldsvæðið fjær þar sem hús skálavarðar er...
fjallið Sáta og Langasáta yfir svæðinu...

Við gengum á slóða alla leiðina en áttum eitthvað erfitt með að elta hann alltaf og enduðum stundum á kindagötum sem leiddu út frá stígnum og gleymdum að horfa á stikurnar... en komum okkur alltaf aftur á rétta slóð :-) 

Útsýnið til Rauðufossafjalla sem eru fjórir móbergsstapar í hnapp og taka mikið pláss og sjást nánast alls staðar frá að fjallabaki... en við stærri stapana fjóra eru allavega tveir lægri nafnlausir stapar norðan megin sem rugla menn stundum í ríminu... en sjá hattlaga stapann vinstra megin sem gnæfir yfir upptökum Rauðufossakvíslar... efsti tindur Krakatinds sést svo kíkja upp á milli þeirra og Sauðleysur sem eru nær og hylja nánast alveg Heklu sem er þarna á bak við...

Kristaltært loftið og fallegt veður...

Þessi þriðji leggur Hellismannismanna og í raun sá númer tvö líka mætti kalla 3ja vatna leiðir... því á þessum legg skreytir Löðmundarvatn, Lifrarfjallavatn og Dómadalsvatn leiðina... og á legg tvö eru það Hrafnabjargarvatn, Sauðleysuvatn og Herbjarnarfellsvatn...

Löðmundarvatn svo fallegt þennan dag...

Lifrarfjöll hinum megin vatnsins... og Lifrarfjallaháls... og fjær hægra megin eru Mógilshöfðar...

Fjallshlíðar Löðmundar hér vinstra megin og Löðmundarvatnið svo kyrrlátt og friðsælt í morgunsólinni...

Við gengum meðfram vatninu í hlíðum Löðmundar og hafði kvenþjálfarinn hlakkað mikið til þessa leggjar...
en við gengum á Löðmund í sögulegri vetrarferð... flottur kafli á leiðinni...

http://www.fjallgongur.is/tindur149_lodmundur_fjallabaki_041117.htm

Skemmtilegur kafli á leiðinni...

... og tignarlegar brúnirnar á Löðmundi ofan okkar...

Sauðféð var mjög hátt uppi í hlíðunum og klettunum í fjallinu...

Löðmundur... ekki fegursta sjónarhornið á þetta svipmikla fjall... en samt flottur héðan... sjá hæsta tind hægra megin... og þann sem er alveg lengst til hægri...

... hér erum við uppi á honum þann 4. nóvember arið 2017... algerlega mögnuð ferð í vetrarfærð en ennþá bílfært inn eftir á venjulegum jeppum...

Örn rakti sig eftir stígnum meðfram Löðmundarvatni og var kominn á kindagötur áður en hann vissi og skyndilega voru engar stikur... þær lágu eftir austurströnd Löðmundarvatns og við þurftum að koma okkur aftur inn á rétta leið... sem var ekki flókið í þessu veðri og skyggni... :-)

Við borðuðum nesti hér í dældinni...

... og náðum að kynnst nýjustu nýliðunum svolítið og gestunum sem voru með í þessari göngu...

Uppi á Lifrarfjallahálsi var útsýnið mjög gott yfir svæðið...

Lifrarfjallahálsinn genginn hér... og Mógilshöfðarnir framundan vinstra megin...

Útsýnið til austurs enn lengra upp á hálendið...

Lifrarfjallavatn... svo djúpt og kyrrt... allt öðruvísi en hið saklausa Löðmundarvatn... Kirkjufell svipsérstaka fjallið hægra megin við miðju... þaðan sem við lögðum af stað í ævintýralegu gönguna í fyrra á Hábarm, Grænahrygg, Hrygginn milli gilja og Jökulgil...

Litið til baka á Löðmund og vatnið hans...

Við stöldruðum lengi við hér og nutum orkunnar frá vatninu...

Leiðin okkar framundan hér... upp Dómadalsháls undir Mógilshöfðum... inn að Suðurnámi og niður í Laugar hinum megin við fjöllin...

Vatnið fjær er líklega Eskihlíðarvatn... nema þetta sé Krókslón... þetta var nýtt landslag fyrir okkur og nýtt útsýnisssvæði svo við vorum öll að átta okkur á staðarháttum...

Gengið var meðfram Lifrarfjallavatni að hluta... og mann langaði mikið að fara alveg niður að vatninu...

Mógilshöfðar... Stórhöfði nær og Litlhöfði fjær...

Djúpblámi Lifrarfjallavatns var dáleiðandi...

Maður hefði viljað dvelja við þetta vatn og andi því betur inn... en það var ekki tími til þess... við vorum á langri göngu og töfrarnir voru rétt að byrja...

Löðmundur hér handan vatnsins til norðurs...

Stórhöfði og Litlhöfði í Mógilshöfðum... þeir eru á vinnulistanum yfir "Fjöllin að fjallabaki" - safnseríunni...

Dómadalsleið... akstursleiðin sjálf... stöku bílar á stangli...

Ofan af Lifrarfjallahálsi var gegnið yfir Dómadalsveginn sjálfan og upp Dómadalshálsinn...

Jón Bragason leiðsögumaður okkar á Lónsöræfum árið 2016 var með okkur í ferðinni...

Sjá texta hér úr síðunni "Heiðursfélagar Toppfara" sem þjálfari er að leggja lokahönd á um Jón:

"Jón var leiðsögumaður okkar í 4ra daga ferð um Lónsöræfi þar sem hann sá um göngur tvo heila daga frá Múlaskála; annars vegar upp í Tröllakróka og hins vegar á Sauðhamarstind en báðar ferðir voru stórkostlegar og mjög ólíkar, sú fyrri yndisganga um töfraheima Lónsöræfa og sú síðar sannköllum afreksganga á bratt og hátt fjall sem gnæfir yfir Lónsöræfum.

Jón heillaði okkur upp úr skónum í þessari ferð með leiðsögn af stakri ljúfmennsku og fagmennsku í senn. Sagnamennskan hans og heillandi afgreiðsla mála báða þessa stórkostlegu göngudaga gaf okkur ógleymanlegt augnablik sem gleymast aldrei."

http://www.fjallgongur.is/tindur131_lonsoraefi_110816.htm

Áður en farið er upp á Dómadalshálsinn er þetta fallega gil þar sem við gátum náð okkur í vatn...

Falleg vin á þessari leið...

Innar...

Litið til baka...

Uppi afvegaleiddu kindagötur okkur enn einu sinni... þar til við áttuðum okkur á að stikurnar voru hvergi... og réttum kúrsinn af :-)

Það átti víst að fara upp þessar brekkur hér... :-)

Litið til baka... Löðmundur trónandi með krúnurnar sínar yfir svæðinu...

Þetta er lengsta og "erfiðasta" brekkan á þessari leið...

... en við tókum hana bara hver á sínum hraða sem er best...

Stórhöfði hér í baksýn... svo fallegir Mógilshöfðarnir...

Við þyrftum að ganga á þá eftir hressilegt rigningartímabil... þar sem mosinn er þá grænni en ella á löngum sólarköflum...

Komin upp í 820 m hæð... og hér var magnað útsýni til norðurs... ef menn fóru til vinstri og út á brún...

... sem fæstir gerðu því miður...

Löðmundur... Lifrarfjallavatn... Dómadalsvatn... Eskihlíðarvatn...

Við spáðum í útsýnið og fjöllin og Jón benti okkur á Sveinstind við Langasjó... þar sem við vorum um daginn...

Talsvert mý er oft á þessari leið... það var smá ávæningur af því þennan dag og einhverjir settu upp vargskýlu... en þetta truflaði fæsta...

Suðurnámur framundan fjær... marghnúkótt fjall...marglitt... formfagurt... já, afskaplega fjölbreytt...

Úsýnið til norðausturs... Sveinstindur við Langasjó þarna lengst hægra megin... magnað !

Ofan af Dómadalshálsi gengum við niður í töfraheima Háölduhrauns...

... þarna glitraði hrafntinnan um allt... og landið var sérstakt á að líta...

Þessi form á hálendinu... ekki góður aðdráttur í myndavélinni...

Suðurnámur vinstra megin... farið að glitta í marglit fjöllin á Torfajökulssvæðinu...
Bláhnúk og Brennisteinsöldu... ljósari að lit en fjöllin nær...

Háalda hér... hún er á listanum okkar... og verður gengin næstu árin... ekki spurning...

Frábærir nýliðar komnir í hópinn í haust... þau þekkjast innbyrðis að hluta til og eru öll í toppformi...
gleði og skemmtilegheit fylgir þeim... :-)

Niðri við Háölduhraun áðum við aftur og gátum aftur fyllt á vatnsbrúsana...

Tveggja metra reglan í gildi... og menn virtu hana mis afgerandi...

... en það var víst mýið líka sem fékk menn til að staðsetja sig úti á miðju túni...

... en ekki í einum hnapp í skjóli innar í gilinu þar sem mýið lék á als oddi...

... en fyrir flesta var mýið ekki að trufla...

Áfram var haldið upp í Háölduhraun...

Sérstakar myndarnir í landslaginu... formin fönguðu okkur ekki síður en litirnir þennan dag...

Myndirnar fönguðu þetta ekki...

... sjá formin hér...

... eins og þykkt mjúkt dúandi teppi að ganga á þessu... sérstakt...

Við mættum nánast engum göngumönnum þennan dag... ef nokkrum... en það voru margir hjólreiðamenn á ferð...
að hjóla öfuga okkar leið... eða hringleiðir um svæðið...

Skyndilega birtist litríkt svæði Landmannalauga framundan... þessi ljósu fallegu fjöll... þarna vorum við á Hámarmi í fyrra... fjallshryggnum með snjónum efst hægra megin á mynd... Suðurnámur vinstra megin... Bláhnúkur nær hægra megin... Barmur ljós undir Suðurnámur...

Litið til baka eftir teppalagða kaflanum í Háölduhrauni...

Það var ekki hægt annað en vera himinglaður með þennan fallega dag...

Helga Atla, Bjarni, Marsilía, Kolbrún Ýr, Alexander, Ásta Jóns og Haukur.

Við gengum greitt til þessa gimsteins sem við sáum að beið okkar...

Suðurnámur... Barmur... Hábarmur... Bláhnúkur...

Bláhnúkur... Brennisteinsalda... Gráskalli... Breiðalda...

Komin niður dalinn við Suðurnámur með brúnina ofan við Vondugil framundan...

Suðurnámur... það var ekki spurning að fara hér upp í leiðinni...

Alexander gestur, Ásta gestur, Kolbrún Ýr og María Guðsteins gestur létu hér við sitja og héldu áfram hefðbundinni Hellismannaleið... og skemmtu sér konunglega það sem eftir var og höfðu það gott í Laugum meðan við hin skiluðum okkur niður...

Þessar brúnir... hér vorum við lengi að njóta sýnarinnar sem blasti við ofan af þeim...

Kirkjufell.... Barmur... Jökulgilið... Hábarmur... Bláhnúkur... Námskvísl... Vondugiljaaurar...

Bláhnúkur og Brennisteinsalda... Vondugil nær...

Gráskalli... Breiðalda... og uppgönguhryggur nær...

Magnaður staður að vera á !

Háalda svo falleg og litrík... engin spurning að ganga á hana og fleiri öldur á þessu svæði í einni fjallabaksferð...

Við nutum þess að mynda og njóta...

Stórfenglegur staður...

Litríkur Suðurnámur alveg í stíl við umhverfið... (kk.et.nf.).

Vondugil í nærmynd... Skalli þarna efst vinstra megin... smá glittir í Bláhnúk... Brennisteinsalda...

Bláhnúkur og Hábarmur fjær þar sem við stóðum í fyrra...

Svona var útsýnið hinum megin frá... ofan af Hábarmi... 1. september árið 2019...

Kirkjufellið, Barmur, Halldórsfell og Jökulgilið nær...

Við áttum hins vegar stefnumót við nýjan tind í safnið... Suðurnám...

Það kom okkur á óvart hversu mikill slóði var þar upp...

... og vorum stuttu fyrir ferðina búin að komast að því að það er mjög flott hringleið á Suðurnám frá Landmannalaugum þar sem farið er eftir öllu fjallinu og niður við veginn þar sem vinin í Laugum opnast...

Fjalli skipti litum og fangaði okkur eins og önnur á þessu svæði...

Við gáfum okkur mjög góðan tíma og stöldruðum við á ýmsum útsýnisstöðum...

Fyrri hópmynd dagsins hér... frábær hópur á ferð og flottir gestir :-)

Efri:
Ágústa H., Örn, Jórunn Atla, Alli, Kolbeinn, Silla, Þorleifur, Sigga Sig., Heimir, Haukur, Jóhann Ísfeld, Steinunn Sn., Jón Bragason gestur og Ása.

Neðri:
Sigrún Bj., Gulla, Sigríður Sara Sigurðardóttir gestur, Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir gestur, Sigrún E., Ágústa, Beta, Inga Guðrún, Ásta Birna Hauksdóttir gestur, Bjarni, María E. Guðsteinsdóttir gestur, Kristbjörg, Helga Atladóttir gestur.

Bára tók mynd, Bónó og Moli voru með og fjögur leiðangursmanna slepptu Suðurnámi.
Batman var því miður heima þar sem þjálfarar treystu honum ekki í langa rútuferð... en sáu svolítið eftir því þar sem félagar hans, Bónó og Moli voru með...

Áfram var haldið upp...

Ágústa Toppfari til margra ára... Silla skráði sig í klúbbinn í sumar... og Tinna skráði sig í klúbbinn eftir þessa ferð...

Fínasta leið upp á stíg alla leið... ekki hægt annað en mæla með þessum útúrdúr ef menn ganga Hellismannaleiðina...

Laus og þurr í sér jarðvegurinn...

Vinir á fjöllum... Þorleifur, Sigrún Eðvalds og Ása...

Hvílíkt útsýni !

Við mættum hér fyrstu göngumönnum dagsins... ekki á Hellismannaleið í raun heldur á ferðamannaleiðinni um Suðurnám...

Magnaður stígurinn... hér komið skarð í bergið...

Síðasti kaflinn upp... gengið úr gulu í grátt í rautt í gult... þetta svæði er engu öðru líkt... önnur líparítsvæði landsins eru alltaf í mini-útgáfu af Landmannalaugasvæðinu... Sogin, Móskarðahnúkar, Kverkfjöll, Lónsöræfi o.m.fl.

Komin upp á brún...

Nú opnaðist útsýnið til allra átta... og við gátum séð leiðina okkar að baki til Löðmundar og Sátu við Landmannahelli...

Himininn svo fallegur og hreinn þennan dag...

Hábarmur, Bláhnúkur, Brennisteinsalda og Vondugil...

Skýfuglar...

Þorleifur og félagar eru gleðisprengja inn í klúbbinn... takk fyrir það elskurnar :-)

Efst tók gráminn aftur við til að tempra þennan gula og rauða aðeins...

Háalda... Litlhöfði... glittir smá í Rauðufossafjöll... og loks Stórhöfði í baksýn...

Það verður magnað þegar við erum búin með öll þessi fjöll og getum farið yfir svæðið í huganum gegnum minningar af göngum á þeim öllum... þessi hér væri gaman að ganga á með létta snjóföl ofan á síðla hausts...

Veislan Landmannalaugamegin var heldur meiri en til vesturs yfir Dómadalssvæðið...

Það var kyngimagnað að koma fram á efstu brúnir Suðurnáms...

Loksins kynntumst við þessu fjalli í návígi... eftir margra ára vangaveltur...

...en við eigum samt eftir að ganga á það aftur og fara á alla hnúka þess og kíkja niður Frostastaðavatn...
það er önnur upplifun en sú sem við fengum þennan dag af Hellismannaleið...

Útsýnið til Kirkjufells og Barms og Hábarms og Bláhnúks...

Allir að njóta og spá í landslagið...

Við vildum hvergi vera nema hér... á þessari stundu...

Loks var tími til kominn að halda áfram niður á Hellismannaleiðina aftur...

Háalda, Litlhöfði, Rauðufossafjöll og Stórhöfði... öll eftir nema Rauðufossafjöll...

... en þau voru gengin í magnaðri ferð með Krakatindi árið...:

http://www.fjallgongur.is/tindur146_krakatindur_raudufossafjoll_120817.htm

Þessir litir voru heilandi fyrir sálina...

... og formfegurðin sömuleiðis...

... en þetta tvennt er eflaust skýringin á því að við og aðrir komum hér á hverju ári...

Hvernig er annað hægt... þetta er svakalegt landslag !

Litið til baka...

Niðurleiðin gekk vel og menn voru röskir á þurrum slóðanum...

Sjá slóðann neðar niður að Hellismannaleið...

Mikið spjallað og spáð og menn að kynnast innbyrðis og gestirnir smellpössuðu í hópinn...

Mjög falleg leið... og fjall sem við verðum að kynnast betur síðar...

Farin að nálgast slóðann niður að Uppgönguhrygg... þeir eru ansi margir með því nafni á svæðinu...

Síðasta sinn á brúninni að horfa niður á Landmannalaugasvæðið...

Nú komu nokkrir hjólahópar í viðbót á móti okkur... þessir voru á rafmagnsfjallahjólum... alger snilld !

Slóðinn ansi troðinn hér og illa farinn...

Litið til baka...

Vondugil... lúmskt fallegt og um leið illilegt nafn á þessum giljum...

Nú bættist bara í litadýrðina og hlýleikann...

Þjálfari tók ekki annað í mál en að ná hópmynd hér...

Ágústa, Heimir og Bjarni... konur Toppfara eru ekki síðri en strákarnir í töffraraskapnum...

Fossinn ofan við Vondugil... Breiðalda og Tröllhöfði og Gráskalli hér...

Kvenþjálfarinn bað menn að bíða fyrir hópmyndina... Örn tók þessa mynd...

Mögnuð hópmynd og ein sú flottasta á árinu !

Klettadrangarnir í Tröllhöfða í Breiðöldu... eða ætli þetta sé ekki Tröllhöfði þarna vinstra megin ?
... og svo Gráskalli fjær ? ... við höldum það allavega... þar til við göngum á þessa tinda eitthvurt næsta árið :-)

Nú fóru menn hver á sínum hraða hér niður og út eftir Vondugiljaaurum yfir Námskvíslina...

Sumir fóru greitt og nutu sín... aðrir hægar og nutu þess að taka myndir...

Námskvíslin orðin ansi framlág hér... þessir aurar voru sérlega heilandi staður að ganga um... hér væri hægt að hlaða sig á hverju ári náttúruorku sem varir án efa í marga mánuði... eins og hún gerði fyrir okkur sem vorum hér...

Vondugil... Tröllhöfði í Breiðöldu...

Barmur gulur handan við aurana...

Litið til baka á uppgönguhrygg... fossinn við Breiðöldu...

Námskvíslin...hún reyndist vera saklausar dreifðar sprænur á þessum tímapunkti á sumrinu þetta árið...

Uppgönguhryggur og hluti Suðurnáms...

Mýrlendara norðaustar á aurunum...

Óskaplega fallegt og heilandi að ganga þarna niður eftir...

Utan í Laugahraunbreiðunni hér...

Mýrarslýið...

Litið til baka að Háöldu... Uppgönguhrygg... Suðurnámi...

Suðurnámur...

Þessi græni litur...

Grænn er eiginlega litur ársins 2020... hann kemur einhvern veginn mikið við sögu í tindferðunum þetta árið...

Við fengum ekki nóg af þessu landslagi... þessum litum... þessari óbilandi náttúrufegurð... sem þrífst hérna í mikilli hæð og blómstrar eins og enginn sé morgundagurinn stuttan tíma yfir hásumarið...

Palli hennar Kristínar Sifjar og vinur hans (æj, búin að gleyma nafninu hans!) vinkonu kvenþjálfarans mættu okkur á hjólunum sínum... en þeir voru sko ekki á rafmagnshjólum... bara venjulegum fjallahjólum... ekkert væl á þeim bænum að þeirra sögn... en þeir voru samt búnir að hjóla upp á Brennisteinsöldu niður að Hatti og til baka og voru að taka hringleiðina um Suðurnám þegar við mættum þeim... aðdáunarvert og örugglega geggjað gaman !

Bláhnúkur og Laugahraun að speglast í tjörninni í Vondugiljaaurum...

Hvílík fegurð...

Friðurinn...

Suðurnámur speglast í sömu tjörn hinum megin...

Síðasta kaflann vorum við komin inn á gönguleiðina um Laugaveginn eða styttri hringleiðir á Landmannalaugasvæðinu...
Suðurnámur hér í baksýn...

Tjörn við Laugahraunið...

Háalda og leiðin niður Uppgönguhrygg og svo Vondugiljaaurar...

Síðasti kaflinn til Landmannalauga... hér var umferð af ferðamönnum...

Suðurnámur...

Bláhnúkur og Brennisteinsalda...

Litið til baka...

Brátt birtist Landmannalaugasvæðið sjálft...

Magnaður staður...

Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og tjaldsvæðið... Jökulgilskvíslin að koma niður meðfram Barmi ofar...

Hvert skref var heilagt á þessari leið sem sum okkar hafa gengið eða hlaupið nokkrum sinnum í hina áttina á leið um Laugaveginn... mikið var gaman að koma hér öfuga leið og enda í Laugum...

Svo fallegt...

Skálinn... glæsileg staðsetning...

Nær... er til flottari staðsetning á fjallaskála á Íslandi... jú, allt í lagi... ég skal róa mig :-)

Heiti lækurinn neðar...

Bílastæðið...

Salernin og sturturnar...

Hérna vorum við í lok júní í dumbungi sem breyttist í eina hlýjustu nótt sumarsins á svæðinu...
einmitt þegar við gengum Laugaveginn á einni nóttu...

Þá var allt svo blautt á svæðinu...

... og rigningarlegt... en það rættist aldeilis úr...

http://fjallgongur.is/tindur201_laugavegurinn_einni_nottu_260620.htm

Tjaldsvæðið... lítið af tjöldum miðað við oft áður... vegna Covid-19...

Sjoppan og rútusvæðið...

Fyrstu menn komnir í grasið og farnir að hvíla og nærast og slaka og njóta...

Yndislegt... svona á að enda göngurnar...

Ágústa H., Jón Braga, Ásta J., Ása, Tinna, María E.G. fjær...
og Beta, Ásta Birna, Sigrún E., Gulla og Þorleifur nær.

Skál í karla- og kvennabjór :-) :-) :-)
Jón Braga og Ása.

Þessi sjoppa er tær snilld...

Sumir lögðust bara í grasið við rútuna og fengu sér kaldan þar...

Það var rífandi stemning um allt svæðið :-)

Kolbrún ýr, Kristbjörg, Steinunn Sn. og Jóhann Ísfeld.

Auðvitað fórum við í lækinn !

Hitinn í læknum rann þannig að menn þéttust ósjálfrátt saman og reyndu samt að virða 2ja metra regluna í leiðinni...

... en sumir vönduðu sig v elí fjarlægðarreglunni og tóku enga áhættu...

Við tímdum ekki heim... menn sömdu við þjálfara um að vera lengur og við lengdum tímann um eina klukkustund úr því við vorum svona snemma komin úr göngunni... vorum lent um 15:30 á svæðinu í stað 17:00... og ákváðum að leggja af stað kl. 17:30... tveimur tímum eftir að fyrstu menn lentu í Laugum... en samt hefðum við viljað vera lengur... þetta var svo ljúfur og fallegur endir á flottum göngudegi...

Það var erfitt að koma sér af stað en það beið okkar 3ja tíma akstur og ráð að vera ekki of lengi...

Sumir slepptu alfarið læknum og nutu þess bara að spjalla og viðra daginn í grasinu...

Sigrún E., Kolbeinn, Ágústa Þ., Gulla, Ásta Birna og Ásta J.

Meiri fíflaskapurinn alltaf í strákunum :-) ... æj, þetta heldur okkur ungum :-)
Örn með exina og Kolbenn á gapastokknum...

Silla, Kolbeinn, Örn, Ágústa H., Kolbrún Ýr, Helga Atla, Bjarni, Heimir, Sigga Sig. og Ágústa Þ.

Þessi sjoppa er svo mikil snilld... hér á maður alltaf að versla smá... svo hún lifi af...

Jæja... rútan beið... og langur akstur heim...

Allir aftur með andlitsgrímu... ekkert vesen á mönnum með það... meira ástandið...

Guðmundur Guðnason er okkar fjallabílstjóri til marga ára... rekur fjölskyldufyrirtækið Rútubílar og kann þetta fram í fingurgóma... við erum örugg með honum... ljúfmennska, alúð, yfirvegun og þjónustulund í hæsta gæðaflokki... takk fyrir okkur Guðmundur :-)

Alls 19,6 km á 6:51 - 7:06 klst. upp í 932 m hæð með alls 845 m hækkun úr 600 m upphafshæð.

Leiðin á korti hér...


Öll Hellismannaleiðin hér á korti... fyrsti leggurinn sá guli... svo rauði og loks græni...

Fyrsta gangan, frá Rjúpnavöllum til Áfangagil:
http://www.fjallgongur.is/tindur157_hellismannaleid_020618.htm

Ganga tvo frá Áfangagili í Landmannahelli:
http://www.fjallgongur.is/tindur172_hellismannaleid_2_300519.htm

... og ofangreind saga var svo leggur þrjú... allar þrjár mjög ólíkar göngur... hver með sinn sjarma og einkenni...

Takk fyrir okkur Hellismenn og þeir sem bjuggu þessa gönguleið til :-)

... og takk Hugrún Hannesdóttir fyrir sérlega góða lýsingu á leiðinni
sem við studdumst mikið við þegar við fórum þessa leið :-)

Gps-slóðin hér:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=56917228

Myndbandið af ferðinni hér:
https://www.youtube.com/watch?v=WwEq-MdpjoU&t=16s

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir