Æfingar alla þriðjudaga frá apríl út júní
2010
birt í öfugri tímaröð:
Tjarnarhnúkur, Lakahnúkur, Hrómundartindur og Tindagil 29. júní
Fremra og Innra Mjóafell og Gatfell 22. júní
Kerhólakambur 15. júní
Laufskörð og Móskarðahnúkar 8. júní
Glymur og Hvalfell 1. júní
Tröllafoss, Stardalshnúkar, Þríhnúkar og Haukafjöll 25. maí
Grímmannsfell 18. maí
Ármannsfell 11. maí
Trölladyngja, Grænadyngja, Hörðuvallaklof og Lambafellsgjá 4. maí
Geirmundartindur 27. apríl
Lambafell og Lambafellshnúkur 20. apríl
Húsfell 13. apríl
Þríhnúkar Bláfjöllum 6. apríl
Í töfraheimum á
144. æfing var þriðjudaginn 29. júní og voru 44 Toppfarar mættir til göngu í kyngimagnaðri undraveröld Öldkelduhálss.
Sökum veikinda Báru (ekki HM veikin) mætti ránfuglinn einn á æfinguna og þrumaði yfir mannskapnum í byrjun æfingar. Lýsti hann því yfir að vegna þess hversu kloflangur hann væri myndi hann bæði leiða gönguna og reka lestina. Bað hann hröðu göngumennina um að hægja aðeins á sér og hina hægari að bíta á jaxlinn og fara aðeins hraðar enn venjulega . Brýndi Örninn fyrir viðstöddum að hlýða einu sinni svona til tilbreytingar og leyfa sér að stjórna hraða göngunnar ;-) Þetta gekk eftir svona lengst af og héldum við hópinn nokkuð vel og þéttum reglulega.
Fyrsti hnúkurinn Tjarnahnúkur var sigraður auðveldlega (en engin var tjörnin) og þar blöstu við Lakahnúkur og Hrómundartindarnir. Eftir stutt stopp á Tjarnarhnúk var ráðist til atlögu við Lakahnúkinn sem er mjög glæsilegt fjall. Þjálfari fékk símtal frá Báru foringja Toppfara á Lakahnúki þar sem hún vildi auðvitað fylgjast með gangi mála og upplýsti um stöðu í leik Spánverja og Portúgala (0:0 - Spánverjar duglegri að sækja en vörn Portúgala framarlega og þétt).
Eftir stutt stopp á tindi Lakahnúks var haldið áleiðis að Hrómundartindi. Þar var stoppað í grunnbúðum og menn fengu sér orkumikinn forrétt sem samanstóð af þremur rúsinum, 1/8 hluta banana og tveimur vatnssopum.
Loks var lagt á brattann og
Hrómundartindur sigraður eftir snarpa uppgöngu.
Hópurinn þræddi hrygg Hrómundartinds og skellti sér svo niður þægilega skriðu og áðu í Tindagili. Þar tóku menn hraustlega til matar síns og borðuðu... og borðuðu... og borðuðu...
Eftir góða matarpásu, liðaðist hópurinn áfram eins og ormur inn hið ægifagra Tindagil þar sem Örninn blés til hópmyndatöku (sjá efstu mynd). Svo var tölt áfram og þétt öðru hvoru. Á þessum kafla teygðist all verulega á hópnum. Síðasta stopp var á línuveginum. Þar biðum við eftir síðustu mönnum.
Þarna skiptist hópurinn í tvennt enda einhverjir orðnir hræddir um að bílarnir þeirra yrðu læstir inni á bílastæði N1. Þeim sem lá á gengu veginn niður að bílastæði en hinir eltu Örninn samviskusamlega eftir stikaðri leið í gengum bullandi hverasvæðið. Það kom í ljós að sú leið var mun auðveldari en vegurinn þar sem við sluppum við þá hækkun sem vegurinn bauð upp á og að auki er að mati Arnarins alltaf skemmtilegra að ganga um stíga en vegi. Þannig að allir komu á svipuðum tíma á bílastæðið.
Göngveður var fínt, skýjað en samt þokkalegt
útsýni, lygnt og úrkomulaust. Alls 10,6 km ganga á 4:14 klst. up í 531 m - 551 m og 562 m hæð með alls 811 m hækkun milli hnúka og fjalla miðað við 361 m upphafshæð og lækkun niður í 243 m í Tindagili.
Sjá fleiri myndir
hjá Gylfa á
http://gylfigylfason.123.is/album/default.aspx?aid=182924&lang=en
|
Þeysireið um Þingvelli
143. æfing
var þriðjudaginn
22. júní
og mættu
32 manns
Þetta var löðurmannleg leið en fararstjóra tókst að finna lítilsháttar klöngur í byrjun til að koma mönnum í gírinn ;-)
Gengið var með löngu, mjóu fellunum sem liggja meðfram Meyjarsæti og Lágafelli austan Sandkluftavatns. Hafdís Ragna hér að líta til Meyjarsætis... ein af ötulustu og ástríðufyllstu göngumönnum klúbbsins af Skaganum...
Gengið var upp sunnan megin með Þingvallavatn og fjöll þess allt um kring innan um mosagrónar hraunbreiðurnar.
Ásta Snorra og Fríða... "...Í húsum sem er sjaldan læst... "og "...Þóóóó... rarinn..." að hætti Þorvaldar Arasonar trúbadors Þingeyringa...
Ofan af Mjóufellunum gafst sjaldfengið útsýni á tindaraðirnar sunnar Skriðufjalla, m. a Hrafnabjörg (á mynd) sem við munum ganga á á næsta ári og svo Kálfstinda, Tindaskaga, Skefilsfjalla og Klukkutinda. Björn, Margrét, Erna, Súsanna, Svala, Ásta S. og Fríða.
Mjóafell Innra hér framundan ofan af tindi Fremra Mjóafells með Skjaldbreið fyrir miðri mynd, Hlöðufell í skýjunum og norðurenda Tindaskaga hægra megin.
Ofan af
Fremra Mjóafelli
var ágætis klönguræfing um kletta og lausar
skriður og náði Halldóra Þórarins okkur á
þessum kafla
Mjóafell Fremra
hér að baki og Lilja Sesselja og Hafdís
Ragna að klífa ótrauðar
Innra Mjóafell
sem var ansi bratt á köflum Ármannnsfell hægra megin og einhvers staðar þarna niðri skoppa Erna og Margrét til baka þar sem þær tóku styttri útgáfu af æfingunni og luku þar með tæplega 5 km göngu. Við mælum eindregið með því að menn mæti á æfingu og taki styttri útgáfuna eins og þær gerðu, frekar en að sleppa því að mæta ef æfingin er krefjandi, því það er endalaus barningur að komast í fjallgönguform ef maður mætir sjaldan ;-)
Innra Mjóafell var án efa lengsti samfelldi fjallshryggurinn sem við höfum gengið, alls rúmlega 4 km löng leið sem endaði á tindi Innra Mjóafells í 547 m hæð með frábæru útsýnin á Ármannsfell, Botnssúlur, Hvalfell, Kvígindisfell, Þverfell, Fanntófell, Ok, Þórisjökul, Stóra Björnsfell, Langjökul, Hlöðufell, Skriðu og tindaskagana í austri. Við veltum því fyrir okkur hvort þetta væri Gatfell og svo getur vel verið því það kemur lægð á hryggnum áður en maður gengur upp á þennan hæsta hluta Innra Mjóafellsins. Norðan við þennan tind rís hins vegar annar lágur hnúkur með vörðu ofan á sem mætti halda að væri Gatfell en hann er mun lægri en þessi og alls ekki víst að hann nefnist Gatfell svo það er allt opið með þetta af okkar hálfu en við teljum þetta tind Innra Mjóafells þar til annað sannast. ATH! Innskot 26. maí 2020: Jú, þetta er Gatfell þessi tindur innst, Innra Mjóafell nær að lægðinni sunnar.
Mættir voru:
Efri:
Hanna, Hjölli, Ágúst, Björn, Leifur, Svala,
Torfi, Hrafnkell, Kári Rúnar, Stefán A.,
Anton Pétur, Halldóra Þ. og Örn. Á mynd vantar Ernu og Margréti sem sneru fyrr við og Báru sem tók mynd. Og Skuggi, Tímon og Tína hnoðast þarna einhvers staðar um ;-)
Bakaleiðin var um dalinn milli Mjóafellanna og Lágafells um þornaðan árfarveg, skriður, möl, sanda, mosa og grasbala og fór hver á sínum hraða svo skildi talsvert á milli og endaði með að fremstu menn voru 3:37 klst. og síðustu 3:54 klst. á alls 12 km göngu upp í 390 m og 547 m hæð með 317 m hækkun eða alls um 600 m hækkun í göngunni.
Skínandi sumarganga í skýjuðu, lygnu og
hlýju veðri |
Á Hengiflugi um Kerhólakamb
Í logni, skýjuðu veðri og 12 stiga hita lögðu 31 Toppfari af stað upp vestasta hluta Esjufjallgarðsins þriðjudaginn 15. júní.
Förinni var heitið á Kerhólakamb upp hefðbundna leið upp með mynni Gljúfurdals og upp tunguna milli Árvallalgils/Bolagils og Hestgils.
Þetta var þétt hækkun alla leið svo svitinn rann stríðum straumum... enn ein afreksgangan á þriðjudagskveldi yfir bjartasta tíma ársins þegar Toppfarar kunna sér ekki hóf fyrir sumarkæti ;-)
Mættir voru:
Efst: Sirrý,
María, Hjölli, Rósa, Fríða,
Hrafnkell, Ingi, Heiðrún,
og Ásta H. Þar af Stefán Arnar 18 ára, sonur Alexanders að koma í sína aðra göngu með hópnum. Á mynd vantar Brynju sem sneri við vegna hnémeiðsla og heilsast vonandi sem fyrst vel ! Skuggi og Dimma voru alveg í stíl og fylgdu okkur eins og skugginn upp gil, gljúfur, hamraveggi og klettabrúnir ;-) Á Níphól í tæplega 600 m hæð þar sem fyrri nestispásan var í blíðskaparveðri með höfuðborgina í fjarska í suðri.
Upp á Kerhólakamb í 855 m hæð var komið eftir 2:12 klst. göngu og læddist þokuslæðingur í hamrabjörgunum en útsýni var óskert niður Blikdalinn og umhverfið allsendis ólíkt göngunni okkar um þann dal í mars á þessu ári... fyrir þá sem vilja rifja þá göngu upp: http://www.fjallgongur.is/tindur34_blikdalsfjallahringur_200310.htm
Niður Kambshornið var geyst farið með fallega sýn til vesturs yfir á Akrafjall og sjá mátti jökulþúfurnar á Snæfellsjökli rísa úr skýjabreiðunni í fjarska (sést ekki á þessari mynd). Þetta stóðust Skagamenn ekki og fóru aðra leið niður en við hin, um Smáþúfurnar niður á viktarplanið í mynni Blikdal og lengdu gönguna sína talsvert með tilheyrandi kraftgöngu alla leið niður ;-)
Niður var farið aðra leið, stefnan tekin á Laugargnípu sem aldrei hefur fengið að komast að í göngu hópsins fyrr en nú... veðrið gott og hópurinn sterkur, ekkert myrkur og skyggni gott ... auðvitað notuðum við tækifærið til að skoða þessar hamrabrúnir sem líta hrikalegar út og nánast ókleifar en reyndust vel göngufærar og stærri heimur en maður hefði ætlað.
Þessi aukakrókur þýddi 700 m viðbót og um hálftíma lengri göngu en var vel þess virði...
Stórkostlegir hamraveggir, mosagrónir klettasalir og iðandi fuglabjörg niður með vesturbrúnum Esjunnar sem gefa sterkan svip á þennan hluta hennar þegar ekið er vestur fyrir á þjóðvegi eitt... hér með með minninguna af þessu landslagi greypt í huga manns, ríkari en áður í næstu akstursferð norður í land... Við fundum meira að segja fullkomið tjaldstæði á einni klettanípunni... sjá myndina hér ofar!
Ægifegurð eins og
best verður á kostið og mann setti hljóðan
Sjá Stefán Arnar, Alexander og Ástu H. að kíkja
fram af brúninni
Þegar ekki var lengra komist var snúið yfir á tunguna austan við Árvallagil / Bolagil (fer eftir kortum) og farið um lækjarsprænu sem smám saman endar í gljúfrinu neðst.
Æfingunni lauk eftir 7,7 km göngu á 4.10 - 4:24 klst. göngu upp í 855 - 863 m mælda hæð með 800 m hækkun skv. gps.
Vestfjarðafarar í
ferðagírnum og framundan hæsti tindur þess
landshluta næstu helgi
Mæli með að horfa á stikluþáttinn um
Vesturgötuna sem Elías ruddi og við munum ganga
annan daginn frá upphafi til enda þó ekki væri
nema slíkum manni til heiðurs fyrir fágæta
framtakssemi, frumleika, staðfestu og dugnað! Til að flækja annasamt líf Toppfara tilkynnti þjálfari þá ákvörðun að gengið yrði á Dyrfjöllin í Borgarfirði Eystri í sömu ferð og á Snæfell og féll sú ákvörðun aldeilis vel í flesta í hópnum enda ein glæsilegust fjöll landsins ;-) En lifum í núinu... Vestfirðir... here we come... |
Ein af fegurstu gönguleiðum á suðvesturhorni landsins var gengin á æfingu þriðjudaginn 8. júní í blíðskaparveðri og dulúðugri þoku á köflum sem sveipaði göldróttu landslagi skarða laufs og móa einstökum blæ sem sjaldan gefst á ekki hærri fjöllum.
Gengin var öfug leið en fyrr í sögu klúbbsins, upp með Gráhnúk og hrygginn að Laufskörðum og þaðan yfir á Móskarðahnúka.
Gangan sóttist mjög vel á þéttri uppleið með góðum pásum og rólegheitastemmningu í veðurblíðunni en þó léku þokuský við fjallstoppana svo landslagið breyttist með hverri mínútu á áhrifamikinn hátt.
Laufskörðin tóku á og voru sumum spennandi ævintýri en öðrum krefjandi verkefni með frábært útsýni yfir á Þverárkotsháls og Hátind sem hér sést á mynd 909 m hár og enn keikur af fornri frægð þess að vera talinn hæsti tindur Esjunnar þar til Hábunga uppgötvaðist 914 m há inni á miðri grjótbreiðu Esjunnar.
Á köflum var þetta bratt og laust í sér í þurrkinum en keðjur til stuðnings og hver studdi annan þegar á þurfti að halda.
Eyjadalur til norðurs með Suðurárdal og Norðurárdal minni innst í dalsbotni (Suðurárdalur hér beint af mynd) og minnti þjálfari á að tveir dalir Esjunnar af fimm væru komnir í safnið í frábærum hringleiðum 2007 og 2010 með nokkrum tindum í leiðinni... næsti dalur er Eilífsdalur árið 2011 í spennandi hringferð...
Snædís, Hermann, Gerður, Ásdís, Reynir, Ágúst og
Harpa...
Sjá
Slóðinn var með erfiðasta móti, skraufþurr og laus í sér en þetta sóttist vel og fóru nánast allir þennan kafla.
Á
meðan fyrstu menn byrjuðu að tínast yfir skörðin
til baka náðu
Við Laufskörðum tóku Móskarðahnúkar með sínum
myljandi fallegu líparítskeljum
Hnúkarnir voru gengnir allir fimm að þeim hæsta
með þokuslæðinginn allt um kring og þó hvergi.
Mættir voru 50 manns: Alma, Anna Elín, Anton, Auður, Ágúst, Ágústa, Árni, Ásdís, Bára, Berglind, Bylgja, Droplaug, Dóra, Eiríkur, Elsa Inga, Finnbogi, Fríða, Gerður, Guðjón Pétur, Hafdís, Halldór, Hanna, Harpa, Heimir, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Hrafnkell, Jóhannes Jón Júlíus, Kalli, Leifur, Lilja B., Lilja K., Lilja Sesselja, María, Óskar Bjarki, Reynir, Rikki, Roar, Sif., Sigga Rósa, Sigga Sig., Sirrý, Sigrún, Snædís, Steinunn, Torfi og Örn.
Þar af voru Alma og Torfi á fyrstu göngu
sinni með hópnum
Lilja Sesselja komin skýjum ofar á leiðinni upp á hæsta tind með útsýnisgloppur niður á Leirvogsvatn og Geldingatjörn...
Toppfara-ára Hönnu af Skaganum... Ára eða baugur sem fylgdi okkur upp á hæsta tind og er sólstafur einhvers konar af hvaða tegund...? Sjá fróðleik frá veðurstofunni: http://vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/893
Í 813 m hæð á hæsta tindi skv. gps var logn og sæla í svalri þokunni og við vorum bókstaflega skýjum ofar með sólina og Hátindinn Esjunnar einan upp úr skýjabreiðunni en öðru hvoru opnuðust glufur og við sáum niður Svínaskarð, Eyjadal eða að Skálafelli og niður láglendið í suðri. Enginn á leiðinni niður í þessari stórkostlegu fjalladýrð þar til Örn búmmaði menn af stað; "boom, boom, voila..."
Guðjón Pétur skellti sér yfir á vesturöxl hæsta tinds og var sýnin til hans dulúðug svo við tókum andann á lofti, en hann sagði sína sýn yfir á hópinn líklega hafa verið magnaðri þar sem hópurinn stóð bókstaflega "ofan á skýjunum" ...en hann var því miður ekki með myndavélina !!! Ekki spurning að rölta þennan aukakrók í næstu ferð að ári... og ekki spurning að fara um hásumarið aftur til að geta slakað á í fjalladýrðinni með værukærð íslenskra sumarnótta sem þetta kvöldið gaf okkur 9 km æfingu á 4:12 - 4:26 klst. upp í 813 m með 663 m hækkun miðað við 150 m upphafshæð eða alls rúmlega 1.000 m hækkun milli tinda! Enn ein gangan þarna í sól og veðurblíðu með enn einni útgáfunni af fegurð fjalla á heimsmælikvarða sem endaði á stuðlabergsskoðun á niðurleið að bílunum... bílunum já, það aftur... manngerðum fyrirbærum sem blikna í samanburði við smíð náttúrunnar sem þarna blívur óháð öllu sem á gengur. Í fyrra gengum við þetta í september í bókstaflegu kapphlaupi við tímann og dagsbirtuna þar sem við lentum í rökkri um Laufskörðin og myrkri til baka niður fjallshrygginn með höfuðljós á enni og tunglið í fanginu í magnaðri göngu... hugsið ykkur... og ákváðum þá að fara þessa leið öfuga að tillögu Hjölla og hafa þá nægan tíma og birtu að hásumri. Án þess að skyggja á aðrar magnaðar æfingagöngur í sögu klúbbsins þá standa Móskarðahnúkar og Laufskörð upp úr fyrir framandi og áhrifamikla fegurð í gullinni sól og veðurblíðu öll þau fjögur skipti sem Toppfarar hafa heimsótt þá, þar sem hver einasta heimsókn hefur snert menn og skilað þeim á einhvern hátt breyttum til baka eftir kvöldið eins og raunin varð þriðjudagskvöldið 8. júní 2010...
|
-
Glymur Hvalfell -
Í
Maríuhöfn á Hálsnesi í Hvalfirði barst Svarti dauði til Íslands með
skipi Einars Herjólfssonar árið 1402. Sögur segja að skipverjar hafi ekki
einu sinni komist upp úr Hvalfirði eftir löndun áður en þeir létust
og höfðu sumir þá þegar fallið á hafi úti, Það var kvöld nokkurt eftir sólríkan dag og rigningarskúra seinnipartinn að regnbogi fagur teygði sig yfir verkefni fjallgönguklúbbsins Toppfara sem þann daginn var leiðin "Glymur Hvalfell" og lá fuglasöngur og birkiilmur í lofti en þá var árið 2010 og Svarti dauði herjaði hvergi...
Alls söfnuðust 49 manns saman við hellismunann á leiðinni niður að Botnsá með hrikalegt Glymsgljúfur í baksýn...: Anna Elín, Anton, Auður, Ágúst, Ágústa, Árni, Ásdís?, Ásdís Olsen, Áslaug, Ásta H., Bára, Björgvin J., Björn, Bylgja, Dóra, Eiríkur, Elsa Inga, Erna, Fríða, Gerður, Guðjón Pétur, Gylfi Þór, Hafdís Ragna, Hafdís systir (Inga), Hanna, Harpa, Heiðrún, Helga Bj., Hermann, Hildur V., Hrafnkell, Ingi, Inga Lilja, Jóhanna, Jóhannes, Jón Júlíus, Ketill, Lilja B., Lilja Sesselja, Margrét Nanna, María, Reynir, Sigga Rósa, Sirrý, Sigrún, Siggi bróðir (Jóhannesar), Sif, Stefán og Örn. Þar af voru Ágúst, Ásdís, Bylgja, Hafdís, Jóhanna og Siggi að koma í sína fyrstu göngu með hópnum. Leiðina vörðuðu tíkurnar Dimma, Día, Drífa og Tína.
Framundan var ein fjölbreyttasta gönguleið sem um gefst og lá hún m. a. gegnum helli niður að á.
... þar sem við tók veglegur trjástólpi yfir Botnsá og var förinni heitið með birkigrónum hlíðum gljúfursins. Skemmst frá að segja féll enginn í lækinn nema tíkurnar og fékk Tína að fara sömu leið og hinar þegar Antoni var farið að leiðast þófið við árbakkann ;-)
Er ofar dró gljúfrinu gengust menn smám saman á vald Glyms sem þarna trónir í hrikalega fögru ríki sínu.
Ærin verkefni lagði hann fyrir gesti sína um tæpistigu þó nokkra sem fór misvel í þá en það var með ráðum gert... menn skyldu þroska með sér færni til slíkra gönguslóða sem hafa gjöfulra sjónarhorn en hinar dæmigerðu íslensku heiðar og lendur hrjóstrugu óbyggða landsins.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa hvaðan Glymur fékk nafn sitt... Sjá hér stytta útgáfu af sögunni : Bóndasonur nokkur frá Melabergi í Miðnesi varð viðskila við félaga sína í eggjatöku í Eldey og ekki tókst að ná honum úr eynni fyrir veturinn. Þegar til hans náðist sumarið eftir, sagði hann til sín hafa komið álfkona sem tók hann upp á sína arma (bókstaflega!). Stuttu síðar ber því við að í Hvalnesi stendur vagga með barni við kirkjudyr að lokinni messu. Prestur tekur barnið upp en enginn vill kannast við það, fyrr en að ber konu sem hrifsar barnið af presti, horfir hvössum augum á bóndasoninn og segir hann muni gjalda þess að gangast ekki við barninu sem hafi orðið til úti í Eldey. Því næst hverfur hún en bóndasonurinn verður að ægilegu illhveli sem sest að í Faxaflóa og eirir þar engu, fyrr en prestur nokkur seiðir hvalinn upp ánna sem rennur í fjörðinn (Botnsá). Var það með miklum erfiðsmunum sökum vatnsskorts og þegar hann kom að gljúfrinu fram af Botnsheiði urðu þrengslin svo mikið að allt nötraði og skalf svo glumdi í sem í jarðskjálfta. Af þessu dregur fossinn nafn sitt og heitir æ síðan Glymur og hæðirnar ofan hans Skjálfandahæðir. Presturinn gafst ekki upp og kom hvalnum í vatnið sem á upptök þeirra áa er renna niður Hvalfjarðarbotn og heitir það síðan Hvalvatn en þar sprakk hvalurinn. Þessu til sönnunar má finna hvalbein á þessum slóðum þetta langt frá hafi svo trúi hver sem verða vill ;-)
Eftir gott innlit til Glyms kvöddu menn með virktum og 12 félagar sneru við með gljúfrinu vestan megin eftir viðburðaríka þverun Botnsár, en hinir 37 áttu erindi við Hvalfellið sjálft og þótti áhlaup þeirra afrek hið mesta.
Sem
fyrr ríkti sól
í sinni Toppfara þar sem sólargeislarnir
leituð þá uppi
á heiðunum
Lítið gott gafst af verksummerkjum um frekari göngu á Hvalfellið þar sem þokan byrgði sýn og var fátt um magnað útsýni ofan af tindinum í 855 m hæð (852 m) sem þótti miður þar sem fjallið er einkar víðsýnt um Suður- og Vesturland og austan megin niður á þriðja dýpsta stöðuvatn landsins, Hvalvatn (160 m) með Jökulsárlón (260 m) og Öskju (220 m) dýpri og Þingvallavatn (140 m) það 4. dýpsta, þá Þórisvatn (113 m), Lögurinn (12 m), Kleifarvatn (97 m), Hítarvatn (84 m) og Langisjór það 9. dýpsta eða 75 m djúpt (heimild: Landmælingar Íslands). Snjóskafl nokkur sem jafnan hefur gefið þessu föruneyti snarpa 300 m lækkun í 50° bratta á þessari leið gafst ekki að sinni sökum snjólétts vetrar með eindæmum en í staðinn var Örninn (með sjón eins og þeirri fuglategund er einni lagið, sjá neðar!) ... búinn að merkja sér í sjónminni (alla leið frá bílastæðiðnu í Botni fyrr um kvöldið) góða mosagróna niðurgönguleið sem gafst vel þó tímalengd göngunnar lengdist sem því nam um tæpan hálftíma. Örninn hefur x4 sinnum skarpari sjón en maður með fullkomna sjón, augun skarta tvöföldum fókus þannig að hann sér fram og til hliðar á sama tíma og hann kemur auga á fisk í vatni í mörg hundruð feta fjarlægð í miðju flugi, þegar sjómenn eiga erfitt með að festa sjónar á þeim í nálægð af skipshlið enda eru fiskar dekkri að ofan til að fela sig í sjónum fyrir óvinum sínum...
Með lækkandi hæð vék svöl þokan og rigningin uppi fyrir sumarhlýjindum neðar og við tók fjölbreytt bakaleiðin um litrík gljúfur Stóragils og blómlegan birkiskóginn áður en Hvalskarðsáin var þveruð stiklandi á steinum og árbarmar Botnsárinnar mýktu aðeins úr mönnum þreytuna sem óhjákvæmilega var farin að segja til sín eftir alls 11,1 km göngu á 5:32 - 5:34 klst. upp í 855 m hæð (852 m) með 790 m hækkun miðað við 65 m upphafhæð skv. gps.
Afreksganga með
meiru og sannkölluð
eldskírn þeirra sem fóru alla leiðina í fyrstu
göngu sinni með Toppförum Mögnuð frammistaða á mergjaðri gönguleið...
gegnum helli ...geri aðrar gönguleiðir betur í fjölbreytileika... Það
er greinilega
allt hægt á
þriðjudagskveldi að sumri til á Íslandi
Til samanburðar skal
þess getið að í fyrri göngum Toppfara þessa sömu leið höfum við
gengið |
S
u m a r g a n g a
Það var heitt í veðri og fuglasöngur á brún
þegar 31 Toppfari ásamt Dimmu og Þulu Farið var um góðan slóða meðfram gljúfri árinnar með viðkomu á fögrum útsýnisstöðum yfir ánna, með sýn um fjallahringinn allt um kring og á fjöllin sem framundan voru þetta kvöldið... m. a. Stardalshnúka við Skálafell...
Og útsýni yfir á Þríhnúkana í Mosó sem löguðu sig vel að Móskarðahnúkum fjarska... Leifur, Anton, Hermann, Súsanna, Halldór, Anna Elín, Skúli, Guðrún Helga, Birna, Anna Sigríður, Inna, Gerður, Harpa, Helga Björns, Árni... m. a. á mynd.
Tröllafoss var skoðaður í nærmynd með göngu niður í gljúfrið...
... og upp vatnslitla ánna að hylnum sem holast hefur gegnum tíðina niður bergið ofan af fossinum þar sem við litum niður í hyldýpi fleiri hylja og náðum ekki til botns með göngustafnum...
Menn máttu ekkert vera að því að vaða í
rólegheitunum yfir
Leirvogsá
og stikluðu ákveðnir yfir grynningarnar
Þegar nær dró Stardalshnúkum kom risavaxið
stuðlaberg
þeirra í ljós
Það mátti vart sjá hverjir sátu þarna í viðfeðmi stórbrotins landslags vinsælasta klifursvæðis landsins... Alexander, Anna Elín, Anna Sigríður, Anton, Auður, Árni, Bára, Birna, Björgvin J., Gerður, Guðrún Helga, Hafdís, Halldór, Hanna, Harpa, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Inga Þóra, Inna, Jóhannes, Leifur, Lilja K., Sigga Sig., Sirrý, Sigrún, Skúli, Súsanna, Svala og Örn ásamt drottningunum Dimmu og Þulu.
Eftir Stardalshnúka þar sem gengið var upp í 315 m hæð og hæsti tindur geymdur þar til síðar, var klöngrast yfir á Þríhnúka sem stóðu sannarlega undir nafni... þrír stuðlabergsklæddir hnúkar sem liggja eins og þrír hnúar á trölli fram á lendurnar þarna og var brölt upp og niður þá alla ... þetta var sannarlega klönguræfing... Auður, Alexander, Lilja K. og Anna Elín.
Haukafjöllin voru síðasti fjalllendi kvöldsins og þar gafst gott útsýni á væntanlega gönguslóð Toppfara eftir tvær vikur á Laufskörð og Móskörð þriðjudaginn 8. júní þar sem ætlunin er að fara fyrst upp hrygginn að Laufskörðum og þaðan yfir á Móskarðahnúka eða öfugan hring miðað við vanalega að uppástungu Hjölli í fyrra.
Hver fór svo með sínum hætti yfir Leirvogsánna til baka að bílunum... Jóhannes á vaðskónum, helmingur hópsins stiklandi á steinum með aðstoð Antons, hinn helmingurinn yfir grynningarnar á eftir Erni neðar í ánni og Gerður á táslunum upp að hnjám... ...það er gott að viðra tærnar í svölu vatninu eftir göngu.. Skínandi fögur kvöldganga ...sem reyndist 7,4 km á 3:06 klst. upp í 161 m (Tröllafoss) - 315 m (Stardalshnúkar) - 291 m (Þríhnúkar) og 268 m (Haukafjöll). Þríhyrningur á laugardaginn í aukagöngu sem virðist ætla að slá í gegn miðað við viðbrögð félagsmanna... vonandi í góðu skyggni af þessu lága en frístandandi fjalli í þvílíku útsýninu sem þaðan gefst á þægilegri göngu um glæsilega tindaröð þess.
|
****** Grímmannsfell vegið ******
Fimm dögum
eftir spor Toppfara á
hæsta tindi
Íslands í sögulegri ferð
Mættir voru 39 manns í blíðviðrisskapi og var veðrið alveg sammála í upphafi... ...logn og hlýtt og fuglasöngur í láði...
Þessi árennilegi hópur sem ekkert vílar fyrir sér og á aragrúa erfiðra fjallgönguferða að baki vill krefjandi fjallalíf og hóf strax barning mikinn við Grímumanninn sem fjallið er kennt við, án frekari vitneskju um þennan dularfulla Grímar sem ekki er vitað nákvæmari nafnadeili á ... og tókust þegar á við þróttmikið arkerí upp vesturhlíðarnar og linntu ekki látunum fyrr en Grímmann lá í valnum á Stórhól í 494 m hæð hrakinn og blautur. Sögur segja að ólýsanlegt blik hafi lýst af augum þeirra sem ákafastir hafi verið af vígahópnum en þar fóru þeir sem markað höfðu spor sín á Hvannadalshnúk með blóði, svita og tárum nokkrum dögum áður og ómeðvitað svarið þess eið sín á milli að ekkert á Íslandi skildi liggja ósigrandi eftir slíkt víg og nefndust þau Anna Elín, Anton, Áslaug, Bára, Halldór, Hjölli, Lilja K., Petrína og Örn.
Vígamenn kvöldsins voru : Alexander, Anna Elín, Anna Sigríður, Anton, Auður, Ágústa, Árni, Áslaug, Bára, Björgvin J., Dóra, Ellen María, Gerður, Guðrún Helga, Hafdís, Halldór, Halldóra Á., Hanna, Helga Bj., Hermann, Hjölli, Inga Þóra, Jóhannes, Jón Sig., Jón Júlíus, Leifur, Lilja K., Lilja Sesselja, Petrína, Rikki, Sigga Rósa, Sirrý, Sigrún, Stefán A., Súsanna, Svala, Vallý og Örn.
Þar að
auki var Inna, 15 ára dóttir Antons með
í þriðju för sinni með Toppförum... Föruneytið naut dyggrar verndar vígskáu tíkanna Dimmu, Díu, Drífu, Tínu og Sebru.
Föruneyti Toppfara hélt því áleiðis til
baka um fagurt Katlagilið og
afréðu forvígismenn þess að
fara næstu vígaslóð
Víg dagsins var alls 8,3 km með 2:53 klst. bardaga upp í 494 m aftökustað með 409 m áreynslu...
...geri aðrir betur að klæðast herklæðum
að kveldi til fyrir slíkt víg
... þetta
var ómeðvituð upphitun fyrir Þríhyrning
á Njáluslóðum 29. maí... |
Alls mættu 38 manns á æfingu nr. 137 þriðjudaginn 11. maí þar sem gengið var á eitt af svipmiklu fjöllum Þingvalla, Ármannsfell. Veðrið var skínandi gott um daginn en það þykknaði upp með kvöldinu og fór að rigna á göngumenn þegar komið var upp á fellið í suðri.
Gangan sóttist vel að hæsta tindi í góðu skyggni og sæmilegu útsýni sem gaf sérstaka þokukennda sýn á fjöllin í kring eins og Botnssúlurnar hér í vestri. Syðsta Súla lengst til vinstri og svo Miðsúla, glittir í Vestursúlu fjær og svo er ónafngreind hæð þarna lengst til hægri sem er fjallshryggur til norðurs og hluti af Súlnabergi (kalla hana Austursúlu?) en Háasúla reis smám saman handan hennar í fjarska. Norðursúla ekki í sjónmáli en hún liggur nær Vestur- og Háasúlu Hvalfjarðarmegin.
Ármannsfellið telst ekki með skemmtilegustu fjöllum til göngu; þétt kjarrið við fjallsrætur eru jú, ljúft þó það flækist kannski um mann, mosinn og lyngið dásamlegt, en svo taka við hálar móbergsklappir ofar með lausum steinum og mjög grýtt og hæðótt landslag að tindinum sem ekki sést fyrr en nær dregur í norðri. Þarna er heill heimur af giljum og gljúfrum, lægðum og hæðum sem gera það að verkum að það eru engin afgerandi kennileiti á fjallinu nema tindurinn sjálfur sem er "lítil" klettanípa og það svipmesta á fjallinu fyrir utan gljúfrin og gilin í hlíðunum og skálina sem hann liggur utan í og Stórkonugil í austri. Reyndar er hann ágætlega stór í nálægð en lítill í samanburði við stærð og umfang fjallsins í heild og því kærkomin tilbreyting frá grýtinu þarna uppi enda eina góða myndin sem náðist í þessari göngu ;-)
Mættir voru: Alexandere, Anna Elín, Ana Sigríður, Anton, Auður, Ágústa, Árni Ásdís, Bára, Droplaug, Dóra, Ellen María, Gerður, Hafdís, Halldóra þ., Hanna, Helga B.,, Hermann, Hildur V., Hjölli, Hrafnhildur, Hrund, Inga Lilja, Jón Júlíus, Kalli, Kistinn, Leifur, Óskar Bjarki, Roar, Sirrý, Sigrún, Skúli, Stefán A., Súsanna, Svala, Vallý og Örn. Þar af var Anna Sigríður á sinni fyrstu æfingu.
Uppi var hráslagalegt og menn fljótt kaldir af golunni og bleytunni, sérstaklega ef þeir voru ekki vel búnir en þessi ganga kennir mönnum að vera ALLTAF með hlífðarfatnað með sér. Við erum afskaplega góðu vön síðustu marga mánuði og þó það sé komið sumar þá er aldrei að vita um veðrið uppi á fjöllum. Veðrið bauð ekki upp á stemmingu fyrir aukakrókinn að Grasdalahnúk, þokan að læðast yfir og Hnúksfara óþreyjufullir að fara heim og pakka fyrir ferðina daginn eftir svo við snerum við til baka eftir nestispásu.
Í bakaleiðinni tók þokan við og útsýnið hvarf með öllu og þar með þau örfáu kennileiti í fjærsta umhverfi sem hægt er að notast við á Ármannsfelli. Þjálfarar gengu eftir gps og fararstjórinn notaðist eins og alltaf eingöngu við minni og gps-punkta en ekki track en bar sig þó sig reglulega saman við aftasta þjálfarann sem var með track af leiðinni. Fljótlega kom í ljós að við vorum að ganga of fljótt til hægri enda landslagið ókunnugt þarna sem það lokkaði okkur niður á við svo við vorum fljótt komin of langt áleiðis hlíðarnar í suðri til að geta leiðrétt þetta öðruvísi en að skorast yfir nokkur gil og ása. Úr þessu hefði orðið ágætis hringleið með hollu brölti í fallegra landslagi en stórgrýtinu uppi, en svo illa vildi til að Kristinn hrasaði illa þegar hann tók eitt af stórstökkum sínum niður malarbrekkuna - maður sem er fótafimur með eindæmum og snöggur að skjótast sínar leiðir meðfram félögum sínum - og kúveltist svo að slæmt tog kom á vinstra hnéð. Þar með varð leiðin ógreiðfærari fyrir lemstraðan mann sem haltraði en hann var strax kominn með hnéhlíf frá Helgu Björns (ekta Helga vinur í raun) og tók ekki annað í mál en að koma sér sjálfur niður í bíl. Anton náði að stytta leiðina fyrir hann eitthvað með því að taka á móti honum þar sem veguinn kom nær ásnum þar sem við komum yfir og var Kristinn ótrúlega fljótur að koma sér í bílinn á hörkunni einni saman. Við sendum honum okkar bestu batakveðjur, vonum það besta og fáum fréttir af þróun mála hjá honum. Skínandi góð rötunaræfing sem hefði mátt enda betur Alls 7,7 km á 3:36 klst. upp í 777 m hæð með 592 m hækkun. Athugið að þessi æfing var ágætis dæmi um hve menn tapa áttum fljótt í þokunni, hve kennileiti skipta miklu máli til rötunar og hve mikilvægt það er að hafa gps-punkta til að leiða sig til baka. Það er umhugsunarvert að við fórum nákvæmlega sömu leið til baka og í vetrargöngunni forðum í sömu blindaþokunni. Eins og klukkur vorum við komin að sömu klettunum í suðri þar sem við tókum hópmyndina og lentum vestan megin við Bolabás (ásinn) eins og forðum daga. Þetta er merkileg rötunar-tilrauna-niðurstaða. Í báðum tilvikum gengum við eftir gps en létum hallann niður í móti afvegaleiða okkur of mikið til hægri því ósjálfrátt þegar maður er að fara til baka ofan af fjalli, þá vill maður lækka sig og lætur landslagið leiða sig að ákveðnu leyti til baka í ákveðinni afneitun með að trúa því að maður þurfi að hækka sig í bakaleið á niðurleið sem er samt akkúrat það sem landslagið þarna uppi á Ármannsfelli býður upp á. Það hefði verið "beinast" að ganga eftir trackinu allan tímann eða notast við track-back og fara samviskusamlega eftir línunni á gps-inu óháð landslagi því þá hefði bakaleiðin verið beinni - (leiðn er reyndar s-laga sem er villandi) - þó hún hefði verið tilbreytingasnauðari þar sem þá er maður að ganga sömu leið til baka sem er alltaf gaman að forðast. Þjálfarar eru lítið fyrir að ganga svona bókstaflega eftir gps eins og menn hafa kynnst áður, einfaldlega af því það er hvimleitt og vélrænt í mjög svo náttúrulegu ferli eins og fjallganga og önnur útivist er og maður tapar tilfinningu og innsæi fyrir að lesa umhverfið og rata eftir minni... en í þoku og uppi á fjalli eins og Ármannsfelli þá er track-back náttúrulega bara betra ;-) Meiri pælingar um þetta og leiðréttingar /viðbætur við frásögn á æfingunni síðar - þetta er unnið í miklu hasti ! ;-) Nú erum við rokin austur í Skaftafell að ganga á hæsta tind landsins í þriðju tilraun... ;-)
|
Dulúð á tröllaslóðum Reykjaness
136. æfing var þriðjudaginn 4. maí og mættu 46 manns og nokkrir hundar í dásamlegu veðri eða algeru logni og vel yfir 10°C hita og þokusúld á köflum. Gengið var upp á Trölladyngju, og Grænudyngju, um Hörðuvallaklof og gegnum Lambafellsgjá á fjölbreyttri og fagurri slóð í dulúðugri súld sem læddi þokunni á köflum um göngumenn.
Mættir voru í stafrófsröð:
Þar af var Droplaug að mæta í sína fyrstu göngu.
Dimma, Día, Drífa, Dofri, Ísabella, Tara, Tína
og fleiri?...
Trölladyngja gaf ágætis útsýni yfir á Spákonuvatn í fjarska hér á mynd en fjær voru Grænavatn og svo Djúpavatn í hvarfi norðan Fíflavallafjalls.
Þjálfarar eru nú þegar búnir að ákveða "þriggja
vatna göngu" á þessum slóðum Þarna uppi sáum við til Jóhannesar og Lilju B. keyra inn hraunið og skilja bílinn eftir suðvestan megin við Trölladyngju en með því móti komust þau inn á okkar slóð að Grænudyngju og misstu af engu nema fyrsta tindi. Jóhannes sprækur eftir Þverártindsegg en magnaðar myndir úr þeirri göngu má sjá hjá honum á fésbókinni.
Uppi á Grænudyngju gæddum við okkur á nesti en nú hefur sumarið tekið völdin með lengri þriðjudagsgöngum og nauðsynlegt að taka með sér eitthvað í gogginn og nóg að drekka fyrir alvöru fjallgöngur á þriðjudögum ,-)
Eftir göldróttar hlíðar um klettaslóð Grænudyngju með Fíflavallafjall á hægri hönd í þokunni tók hraunhryggurinn við um Hörðuvallaklof með talsverðu brölti og klöngri og var synd að fá ekki allt útsýnið þaðan til beggja hliða fyrir þokuslæðingnum sem þó gaf svo fallega áferð á umhverfið. Sveifluháls svo enn lengra í austur en hann er á dagskrá í desember í ármeð göngu kringum Kleifarvatn í leiðinni.
Þokan þynntist smám saman með lækkandi hæð og í norðurendann á klofinu var leiðin orðin greið og mosamjúk með góðu útsýni til Mávahlíða í austri (út af mynd), spennandi tindaskaga þar sem langt þarf að fara um til að heimsækja... Ennþá engin rigning né úði sem bara lét sjá sig fyrir og eftir göngu kvöldsins ;-)
Ofan af Hörðuvallaklofi var gengið greitt um góða slóð yfir hraunið að Lambafelli sem býður upp á einstaka upppgönguleið bókstaflega í gegnum sig og má ætla að þetta teljist til náttúrundra Reykjaness.
Hérna er gaman að koma með fjölskylduna, börn
(fara varlega) og erlenda gesti...
Örn missti stjórn á hjörðinni sinni eftir Lambafellsgjá (þetta er hans afsökun ;-) ) enda vaninn að menn gefi í þegar snúið er til baka að bílunum (mjög góð þolþjálfun að nota tækifærið og arka alltaf síðasta kaflann að bílunum) en Bára þrjóskaðist við og skaust upp á síðasta tind kvöldsins, Lambafellið sjálft og fremstu mönnum tókst að sannfæra Örn um að leyfa henni að ráða svona einu sinni svo menn sneru við og tóku lokasprettinn þangað upp og gárungar höfðu á orði að þarna sannaðist loksins hver það væri sem réði á endanum ;-) Ofan af þessu lága felli (188 m) gafst góð yfirsýn á gönguleið dagsins og sneru menn sælir í bílana eftir dúndursumargöngu upp á 7,8 km á 3:42 - 3:44 klst. upp í 405 m hæð með 695 m hækkun alls milli allra fjalla. Sumarið er tíminn... ...þegar það er hlýtt úti, gott göngufæri, mildara veður, dagsbirta fram úr hófi, léttari föt, minni farangur, meira nesti og nóg að drekka... já, lengri göngur á þriðjudögum yfir kærkomið sumarið við toppaðstæður til ævintýra í óbyggðum... manni finnst maður ósigrandi á þessum árstíma eftir krefjandi aðstæður vetrarins og óhjákvæmilegt að hafa göldróttar fjallgöngur á dagskrá alla þriðjudaga þar til haustið tekur við í september... þó maður komi seint og lúinn heim undir miðnætti...;-)
|
Geirmundartindur ...í gríni og glensi var genginn geyst...
Þriðjudaginn
27. apríl
mættu 44 manns á
æfingu nr. 135
og gengu á hæsta tind
Akrafjalls
Kannski var hægt að kenna nýjum skónum þjálfaranna um jákvæðnina yfir erfiðleikastiginu... hjónin loksins komin á nýja gönguskó fyrir brúðkaupsgjöfina frá hópnum í janúar og aldeilis fær í allan sjó... þrátt fyrir fullyrðingar strákanna um að það hafi þurft að fylgja Erni fyrstu skrefin á meðan hann var að venjast búnaðinum og halda velli í þeim... já, svona var látið allt kvöldið ;-)
Guðjón Pétur teymdi okkur um sömu tæpistiguna og í nýársgöngunni 2009 en þá var þoka og ekkert sást niður hlíðarnar til að skella mönnum skelk í bringu... en nú fannst mönnum þeir geta skollið beint á bringuna alla leið niður á Hafnarfjall eða jafnvel Snæfellsjökul en héldu sig á jörðinni samt og þræddu góðan slóðann með tilheyrandi ævintýrablæ sem kryddaði gönguna óneitanlega og er eitt af því sem gerir Akrafjall að einu af uppáhaldsfjalli þjálfara og margra Toppfara... heill heimur af óteljandi krókum og kimum, útsýnisstöðum og gönguleiðum...
Menn voru "hlýðnir á köflum" þetta kvöld þrátt
fyrir "tinda í grennd" og settust allir stilltir
á
Guðfinnuþúfa
fyrir myndatöku Sjá vel greinanlegan gönguslóðann hinum megin Berjadals sem liggur upp á Háahnúk með suðurbrúnum Akrafjalls (Suðurfjall). Erfitt er að skilja hví sú leið er svona miklum mun vinsælli en Geirmundartindur á Norðurfjalli nema ef vera skyldi ógreiðfærari og erfiðari leið því ekki er útsýnið og landslagið síðra og því kemur "hjarðeðlið" upp í hugann sem er víst svo ríkjandi í Íslendingum ef marka má umræður þessa dagana um aðdraganda hrunsins...
Stilltu göngumennirnir hennar Guðfinnu: Efri: Sigrún, Árni, Snædís, Helga Sig., María, Kalli, Auður, Steinunn, Kristinn, Hanna, Björgvin J., og Jón Júlíus. Neðri: Gnýr, Nanna P., Sigga Sig., Þula, Harpa, Lilja K., Ágústa, Heiðrún, Simmi, Eiríkur, Hafdís, Anna Elín, Stefán A., Gerður, Anton, Hjölli, Ingi, Jóhannes, Óskar Bjarki, Lilja Sesselja, Gylfi Þór, Rósa, Hrafnhildur T., Guðjón Pétur, Örn, Sirrý, Guðrún Helga, Áslaug, Dóra og Svala. Á mynd vantar Lilju B., Elsu Ingu og Arnar sem sneru fyrr við. Þar af voru Arnar og Guðrún Helga K. að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og Hafdís í boði móður sinnar. Bára tók mynd.
Útsýnið var óborganlegt í kvöldmistrinu og Snæfellsjökull, Snæfellsnesið í heild, Hafnarfjall, Skarðsheiðin útbreidd, Strútur, Eiríksjökull, Ok, Geitlandsjökul, Langjökull, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Kvígindisfell, Skjaldbreið, Hvalfell, Botnssúlur, Kvígindisfell og Esjan í sjónmáli. Göngumenn hér á norðurbrúnum Akrafjalls hægra megin og Hafnarfjall og Heiðarhorn á Skarðsheiði (hvítur lengst til hægri) í bakgrunni.
Ef
grannt er skoðað má sjá
Kristinn
fara tæpistigu utan í hlíðinni... en hann er af
þeirri góðu gerð Toppfara
Kvöldsólin lét ekki svo lágt að heilsa ekki upp á gesti fjallsins sem vinkar henni þegar hún kveður á kvöldin og fylgdi hún okkur allt til enda með skuggalegu gullnu yfirbragði...
Gylfi Þór á gamalkunnum slóðum sem greyptar eru í minni hans og sex annarra Toppfara sem gengu um Akrafjallið í heild í desember 2007 í gullinni vetrarsól - sjá nákvæmlega sama stað í allt öðrum búningi: http://www.fjallgongur.is/aefingar/2_aefingar_okt_des_2007.htm Nanna P., Lilja Sesselja og Sirrý einnig á myndinni með Skarðsheiðina útbreidda og fjallakransinn allan hringinn en brúnir Akrafjalls nær. Þarna er bratt og gott gil til uppgöngu að sumarlagi og í bjartsýniskasti kviknaði von með þjálfara að fara þarna niður um til að geta gengið í skjóli fyrir austanáttinni og fengið yl kvöldsólarinnar úr vestri í bakaleiðinni, en snjóhengjan var of stór og skaflinn langur og háll svo við héldum áætlaðri gönguleið niður í Berjadalinn og með Berjadalsánni til baka. Loksins fengu menn að næra sig í skjólgóðum Berjadalnum og þar héldu Perúfarar akút-fund um ferðatilhögunina að ári sem hefði eftir á að hyggja hentað betur í lok göngunnar til að kljúfa hópinn ekki í tvennt svona í samheldni kvöldsins. Skemmst frá því að segja þá var það niðurstaða fundarins að það væri allt of mikið um svefn í þessari Perú-ferð og lagðar fram nokkrar tillögur um hvernig menn gætu komist hjá því að vera endalaust sendir snemma í rúmið af þjálfara með svefnpillu alls 23 nætur í röð...sjá síðar fundargerð ;-) Líklega nægir þessi glettni til að lýsa hugarfari Perúfaranna sem víla ekkert fyrir sér og hlakka óendanlega mikið til þessarar sögulegu ferðar... Skorað er á alla áhugasama að skrá sig á biðlistann sem þegar er byrjað að ganga á.
Útsýni kvöldsins kristallaðist í síðustu fjallasýninni að Snæfellsjökli og Snæfellsnesi í kvöldsólinni... ... þegar gengið var niður Selbrekku að bílunum eftir 8,5 km göngu á 3:17 - 3:24 klst. upp í 651 m hæð með 581 m hækkun miðað við 70 m upphafshæð. Hörkuæfing sem reif... grínlaust... vel í ;-)
Kálfstindar fram undan 1. maí í
kröfugöngu Toppfara um enga leti á laugardaginn
;-) |
Lambafell og Lambafellshnúkur
134. æfing var þriðjudaginn 20. apríl á Lambafell og Lambafellshnúk í Þrengslunum. Vetrarveður ríkti enda snjókoma í kortunum og var ekið úr bænum í rigningu sem fljótlega breyttist í slyddu og varð svo að snjókomu þegar komið var að Hellisheiðinni þar sem beygt var inn Þrengslin... svo ekki sást einu sinni í verkefni dagsins á hægri hönd... eða S5 og 2°C skv. Veðurstofunni. Helmingur hópsins fór eftir orðum þjálfara í tölvupóstinum um að mæta kl. 17:30 á N1 Ártúni en hinn helmingurinn var mættur samviskusamlega við fjallsrætur eins og mælst var til um í tilkynningu æfingarinnar á vefsíðunni en því var um að kenna að vetrartíminn var þar inni fyrir slysni og baðst þjálfari afsökunar á þessum mistökum.
Við hittumst sem sé ALLTAF á N1 Ártúni frá
1. apríl
til 30. september
ár hvert yfir "sumartímabilið"
Mættir voru þrátt fyrir vetrarveður alls 36 manns... Efri: Hanna, Kristinn, Skúli, Björn, Sigga Sig., Hermann, Örn, Gerður, Roar, Hrafnkell, Hildur V., Stefán A., Snædís, Óskar Bjarki, Hjölli, Anton, Jón Júlíus, Björgvin J., Rósa, Sirrý, Heimir, Árni og Reynir. Neðri: Hrund, Áslaug, Svala, Súsanna, Anna Elín, Irma, Dóra, Sigrún, Lilja K., Ásdís og Alda Á. en hún var að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum. Bára tók mynd og á mynd vantar Halldóru Þórarins sem sneri við áður. Día, Drífa og Þula voru "líka í sumarskapi" á þessari þriðju "sumaræfingu" þjálfara í humm...ha... vetrarveðri...
Gengið var á Lambafell í austurhlíðum og upp á hæsta tind með engri viðkomu á Lambafellshálsi sem er fjallstaglið er teygir sig í suðurátt en gæti verið gaman að tölta um í góðu veðri síðar... Þarna sneri Halldóra Þórarins við og þær Ásdís og Alda náðu hópnum eftir snarpa uppgöngu. Uppi á Lambafelli opnaðist skyndilega útsýnið og skýin sem stuttu áður höfðu kyngt niður á okkur snjókornunum hreinsuðust frá og við blöstu öll fjöllin sem þegar eru komin í safnið... Hengillinn með Vörðuskeggja hæstan, Stóra Reykjafell, (Hrómundartindur), Skálafell á Hellisheiði, Stóri Meitill, Litli Meitill, Litla Sandfell, Geitafell, Bláfjallahorn, Bláfjallahryggur, Ólafsskarðshnúkar, Sauðadalahnúkar og Blákollur... allur fjallahringurinn í nærumhverfinu ofan af Lambafelli kominn í safnið nema Staki hnúkur og Gráuhnúkar sunnan megin við þjóðveginn á Hellisheiðinni norðan við Stóra Meitil... Útsýnið fjær til norðurs hefði svo innihaldið allt frá Akrafjalli að Skjaldbreið og lengra ef skyggni hefði verið betra... með fjöllum sem flest eru komin í safn Toppfara...
Færið var gott og engin hálka fyrsta kaflann í mjúkum snjónum
enda 2 - 3°C en niðurleiðin aðeins sleip í
skriðunni niður af Lambafelli
og einhverjir komnir á gormana, m. a. Sigga Sig.
á keðjur
með 10 mini-broddum
sem henta Toppförum miklu betur fyrir næsta
vetur en hálkugormarnir þar sem þeir slitna
fljótt enda ekki framleiddir fyrir fjallgöngur.
Þarna milli fjallanna vorum við í 346 m hæð og nokkuð ljóst að Lambafellshnúkur fær að flokkast sem sér fjall með 111 m hækkun þar sem hann stendur stakur utan við Lambafell og ekki sjens að stökkva eða skreppa á milli ;-)
Uppi á Lambafellshnúk var brölt í góðu klöngri og brattri leið (fínasta æfing fyrir Kálfstinda!) með ágætis útsýni yfir á Hellisheiði og sagði Áslaug þar uppi góðan rjúpnaveiðibrandara sem Björn tók ekkert persónulega... ;-)
Niðurgangan var sömuleiðis kröpp og því skínandi góð brattaæfing áður en bakaleiðin var svo farin um skarðið sem geymir merkta gönguleið frá Nesjavöllum, um Hengilinn m. a. yfir á Syðri og Nyrðri Eldborg og "Fjallið eina" alla leið gegnum Bláfjallasvæðið yfir á Reykjanes og bentu gárungar á það hve tilvalin þessi leið væri fyrir Björn að ganga beinustu leið út á Keflavíkurflugvöll en hann átti hugsanlega að komast loksins með flugi til Tenerife seinna um kvöldið eftir margra daga seinkun vegna eldgossins í Eyjafjallajökli... ;-) Við gengum hins vegar ekki svona langt þetta kvöld... (þó við göngum oft ansi langt á gríninu ;-) ) heldur héldum meðfram Lambafelli í bakaleiðinni og gegnum námusvæðið sem sífellt gengur meira á jarðveg fjallsins með síbreytilegri ásýnd þess og vorum komin í bílana eftir 6,1 km göngu á 2:48 - 2:55 klst. upp í 561 m og 457 m hæð með 398 m og 111 m hækkun eða alls um 516 m hækkun með öllu þetta kvöld miðað við 274 m upphafshæð á Lambafell og 346 m á Lambafellshnúk. Væn vetrarganga sem aldeilis rættist vel úr !
|
Hamskipti
á Húsfelli
Alls mættu
42 manns mættu á
133. æfingu
þriðjudaginn 13. apríl í
dumbungsveðri eða þungskýjuðu, SV4 og 7°C
Gengið var
hefðbundin leið yfir
Valahnúka með viðkomu á strítum þeirra
Hrafnhildur Tryggva og Rikki hér með stríturnar og Helgafell í Hafnarfirði í fjarska.
Gengið var yfir mosa og kjarr með Húsfellið framundan hér á mynd Það var vor í lofti og yfir tíu manns ekki í hlífðarbuxum heldur göngubuxum og það var góð tilfinning... Hamskiptin eru hafin frá vetri yfir í vor og sumar. Það alltaf jafn dásamleg tilfinning þegar maður áttar sig á hvílíkum harðindum maður hefur gengið í yfir veturinn til samanburðar við hlýtt og milt sumarið þegar maður getur mætt léttklæddur á æfingu...
Mættir voru:
Efri:
Neðri: Bára tók mynd Þar af voru
Ásdís og Margrét Hanna að mæta í sína fyrsty
göngu Día og Drífa skoppuðust í gleðinni með og eins tíkin með Helgu Björns - ath nafn?
Húsfellið var svo gengið í sömu kyngimögnuðu móbergsklettunum og eru í Helgafellinu og er nú kominn tími til að þvælast aðra leið þarna um, fara norðar og að hömrunum þar að klöngrast t. d.
Til baka var arkað meðfram Valahnúkum með viðkomu í Valabóli og klöngrast um klettana til baka svo æfingin varð aldeilis góð í vegalengd, hækkunum og klöngri eða alls 8,8 km á 2:40 - 2:45 klst. upp í 297 m hæð með 207 m hækkun miðað við 90 m. upphafshæð eða alls hækkun upp á 440 m milli hnúka og fjalla.
Vorleg æfing í hamskiptum árstíðanna |
Þríhnúkar á þeytingi
Við vorum
27
manns
sem létum veðrið "ekki stoppa okkur heldur
þjálfa" Veðrið var "ekki sem best" eða hálfskýjað, NV13 og 0°C en ákveðið var að sýna "þjálfunarlega staðfestu" og halda sig við áætlunina (og fara ekki á varaplanið sem var Esjan) þar sem skyggni var gott og hitastig ágætt þó vindur blésu skv. veðurspá, og vera þá frekar tilbúin til að snúa við ef veðrið væri afleitt og fara styttra. Þetta var nú einu sinni fyrsta æfingin á "sumartímabili" skv. þjálfara og ótækt að það væri "ófært" á hana ;-)
Veðrið var svo með ágætum þegar að fjallsrótum var komið (og NB bílfæri autt fyrir þá sem huga á þessar slóðir á næstunni) en vindurinn byrjaði að blása ofar og feykti okkur upp á þrjá tinda svæðisins svo vel reyndi á.
Gengið var frá bílveginum í norðri, talsvert austar en í síðustu göngu á Þríhnúka og gengin öfug leið á hnúkana miðað við þá, þ.e. fyrst á Þríhnúkagíginn sjálfan þar sem dýpsta og næststærsta hraunhvelfing heims liggur niður um op sem nú er girt af til öryggis - og endað á þeim hæsta í vestri með viðkomu á miðhnúknum.
Þríhnúkagígur
er eitt merkasta náttúruundur landsins,
120 m djúpur
og var lengstum talinn botnlaus
Hnúkurinn mældist 549 m hár og var ekki stætt þarna uppi nema ofan í nestislautinni góðu svo lítið fór fyrir hringferð um hellisopið, í raun stórhlættulegt að þvælast þarna um og við snerum snarlega niður vestan megin. Sjá ferðasögu frá göngunni þarna í fyrra í blíðskaparveðri: http://www.fjallgongur.is/aefingar/9_aefingar_agust_sept_2009.htm
Niður af Þríhnúkagíg var niðurleiðin strembin gegn öflugum vindi þar sem snjórinn kastaðist móti mönnum og þarna loksins komu skíðagleraugu og lambhúshettur sér að góðum notum í vetur ;-)... en bíddu, er ekki komið sumar hjá Toppförum? Sjá hér hina tvo hnúkana í fjarska.
Fjúkandi Toppfara kvöldsins voru...
Efri:
Örn, Ketill, Roar, Hjölli, Björgvin, Eyjólfur,
Gísli, Hrafnkell, Hanna, Súsanna, Rósa, Ásta H.,
Óskar Bjarki, Kári Rúnar, Hrund, Kristinn og
Anton. Með Þríhnúkagíg í baksýn
Jú, allir ákváðu að fara upp á næsta hnúk þó í boði væri að ganga meðfram honum og gekk það mun betur en upp á Þríhnúkagíg og mældist hann lægstur þeirra þriggja eða 547 m hár.
Lítið pláss var fyrir hópinn á honum svo menn fóru fljótlega niður aftur og stefndu á síðasta hnúkinn. Útsýnið víðfeðmt í allar áttir og synd að geta ekki notið þess fyrir vindinum.
Þriðji hnúkurinn var hæstur en auðveldastur uppgöngu í vestri og mældist 562 m hár.
Niður af honum var farið um norðvesturhlíðar Þríhnúka með Grindaskörð, Bollana og Lönguhlíð hér í baksýn á mynd.
Eftir bratta brekku niður hamrana í norðri var
farið á skeið að bílunum og lauk æfingunni
Allir ánægðir með gott dagsverk miðað við
veðurspá og raunveður á staðnum enda
Fimmvörðuháls
ennþá í beinunum, vöðvunum, fótunum, orðunum,
huganum... já hverri frumu þeirra sem þangað
fóru á skírdag eða aðra daga
Hressandi búnaðar- og veður- æfing sem gaf gott
innlegg i reynslubankann. |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú? |