Æfingar alla þriðjudaga frá apríl út júní 2008
birt í öfugri tímaröð:
Gullfallegar ævintýragöngur í blíðskaparveðri...

Molddalahnúkar, Ölkelduhnúkur og Dalaskarðshnúkur 24. júní
Akrafjall 10. júní
Keilir 2. júní
Glymur og Hvalfell 27. maí
Drottning 20. maí
Lambafell, Lambafellsgjá og Hörðuvallaklof 13. maí
Stóri Meitill 6. maí
Grímmannsfell 29. apríl
Vörðuskeggi 22. apríl
Litla Sandfell og Geitafell 15. apríl
Litlil Meitill 8. apríl
Valahnúkar og Húsfell 1. apríl
 

Molddalahnúkar - Ölkelduhnúkur - Dalskarðshnúkur - Klambragilslaug

22 Toppfarar mættu á síðustu æfingu fyrir sumarhlé og jafnframt þeirri fimmtugustuogþriðju frá upphafi og gengu á þrjá hnúka við Reykjadal og Ölkelduháls samtals 11,7 km leið á 4:17 - 4:35 klst en inni í þeim tíma var freistandi afvegaleiðing í heita læknum í Klambragili sem svo sannarlega var notaleg eftir þriggja hnúka göngu.

Góður endir á frábæru göngutímabili sem staðið hefur samfleitt frá því þjálfarar fóru í sumarfrí í fyrra í júlí.
 Þeir kveðja nú hópinn aftur í júlí-mánuði og mæta galvaskir í ágúst enda bíða þá spennandi fjöll til að toppa...

Lagt af stað yfir Varmá í botni Ölfusdals við Hveragerði.

Veðrið mjög gott til göngu en þó svalt aðeins í norðangolunni til að byrja með; hálfskýjað, N4 og 13°C.

Nýjar konur mættu á þessa æfingu; þær Olga og Hjördís en Olga var aðeins með okkur síðasta sumar og féllu þær vel inn í gönguna þó heldur væri þessi æfing flóknari í sniðum en vanalega með heitu baði og þremur hnúkum og svona.. vonandi mæta þær aftur...

Gengið um háhitasvæði Ölfussins sem tengist svo Hengilsvæðinu og Nesjavallasvæðinu.

Gönguslóðar eru um allt og verksummerki Orkuveitunnar sömuleiðis eins og á öllu þessu háahitasvæði en hún stendur sig vel í göngukortagerð og heldur úti fínum skála á svæðinu svo þetta er alltaf tvíbent.

Ótrúlega virkt svæði nánast í bakgarði Hveragerðis og svona líka nálægt þjóðvegi 1.

Ragna, Ingi og Soffía Rósa...

...hraðir göngumenn sem sést vel á myndinni...

...þetta eru ekki stutt rólyndisleg skref...

...hraðinn fer ekki á milli mála...

Svona fólk á að fara Laugaveginn í einum rykk og 24 tinda eins og fleiri röskir göngumenn Toppfara.

Grasigrónar grundir í dalverpum á leiðinni og vaxa nokkrar hitakærar jurtir á þessu hitasvæði (t. d Laugadæla og Naðurtunga sem eru á válista) en um leið er það jafn hrjóstrugt, þurrt og afskekkt að sjá eins og Ísland oft er þrátt fyrir rennandi heitt vatn neðanjarðar og um allt... þetta land er sérstakt...

Hópurinn þéttur.

Þjóðvegur eitt niður Hellisheiðina austan megin efst á mynd.

 

Rjúpnabrekkurnar langt komnar.

Áfram gakk um slóða sem mikið er genginn enda margir sem leggja leið sína í heita lækinn og er fólk þarna á hverju kvöldi yfir sumartímann, Íslendingar og ferðamenn.

Hingað væri forvitnilegt að koma að vetrarlagi áður en allt snjóar í kaf með höfuðljós í myrkrinu og fara í lækinn með stjörnubjörtum himni... verðum að prófa það einhvern tíma...

Kvöldsólin hátt á lofti og iljaði vel en það var kalt þegar dró fyrir sólu enda norðanátt ríkjandi sem aldrei er hlý.

 

Djúpagil framundan sem Reykjadalsá rennur volg um og smám saman kólnandi eftir því sem sunnar rennur.

Líparít og móberg...

... mosi og gras...

...kaldar lækjarsprænur og bullandi heitir hverir...

heiður himinn og kvöldsól... ský og norðangola...

Ísland er land andstæðna eins og kannski náttúran er öll í eðli sínu... bara einna skýrast á landi eins og Íslandi...

Reykjadalir svokallaðir.

Molddalahnúkar vinstra megin.

Öldelkuháls svo og Tjarnahnúkur beint fyrir miðjuog Lakahnúkur í hvarfi aftan hans, Hrómundartindur og Kyllisfell (göngum þau næst), Grasdalshnúkur hægra megin og Dalafell svo lengra hægra megin út af mynd sem við skulum líka síðar ganga.

Bara forréttindi að eiga fullt af fjöllum ógengnum í lífinu...

Komin að heitri Reykjadalsánni sem á upptök sín m. a. í heitum hver innst við Ölkelduháls.

Rjúkandi hiti og varmi af ánni.

Sjá rjúkandi hveri innar í dalnum við Klambragil þar sem lækurinn er vel heitur til baða og svo sjóðandi heitur innar og varla er hægt að skola hendurnar þar í læknum.

Vel gekk að stikla á steinum yfir og fín æfing fyrir Laugaveginn...

Þjálfarar ákváðu að breyta leiðinni og fara fyrst á Molddalahnúka áður en gengið yrði innar í dalinn til að nýta betur yfirferðina og ná þannig örugglega öllum hnúkunum og heitu baði á sama kvöldi.

Hinir skyldu fara inn dalinn með Báru og upp Ölkelduháls og hittast á Ölkelduhnúk. Þannig fengju allir sína göngu óháð formi.

Hópurinn orðinn það röskur að þrír hnúkar, 12 km og heitt bað í náttúrulaug er ekkert mál á einu þriðjudagskvöldi...

Fimm kusu að fylgja Báru inn dalinn og geyma Molddalahnúka að sinni en hinir fóru greitt upp og reyndu á þol og endingu.

Sjá Molddalahnúkana framundan hópnum á mynd.

Hjördís,Olga og Helga Sig. gangandi framhjá einum bullandi hveranna sem ósuðu meðfram stígnum utan við Molddalahnúka.

Komin upp Ölkelduháls og Ölkelduhnúkur framundan.

Hópurinn efst að liðast niður eftir að hafa gengið upp Molddalahnúka í lausu undirlagi og bratta, niður þá og svo upp á Ölkelduhnúk en hækkanir og lækkanir voru talsverðar til samans á þessari göngu.

Nestistími á Ölkelduhálsi og alls kyns mál á dagskrá.

Gengið niður að Ölkelduhálsi þar sem heitur hver Reykjadalsárinnar rýkur upp í dalnum.

Gengið niður Ölkelduháls að Klambragili.

Dalfell og Dalskarð framundan.

Heitur hver þar í hlíðinni við skála að nafni Dalasel sem Orkuveita Reykjavíkur rekur en í honum eru kojur fyrir  10 - 20 manns, borð og stólar.

Sjá heiðina áður en komið er á Molddalahnúka hægra megin efst.

Heit Reykjadalsáin ofarlega í dalnum (ef hún heitir því nafi þetta ofarlega) og Guðjón að taka myndir.

Sjá mátti slóða upp norðurhlíð Molddalahnúka.

Þar er komið upp á heiði þeirra áður en hnúkarnir rísa norðar og er svolítil viðbótarganga á þá þessa leiðina sem hópurinn sparaði sér með uppgöngunni suðaustan með.

Flestir voru ekki búnir að fá nóg enda toppgöngumenn á ferð og örkuðu því auðvitað upp á Grasdalshnúk sem rís hæstur hnúkanna á þessu svæði og geymir Dalasel og heitan hver ofarlega í hlíðum sér sem gefur svip á dalinn í heild.

Þjálfari skoðaði skálann og skrifaði göngu Toppfaranna í gestabókina svona af kurteisi fyrir vel við höldnum skála sem opinn er öllum er vilja hafa næturstað þarna eina nótt.

Reykjarstrókarnir í fjarska við Stóra Reykjafell vinstra megin, vestan Ölkelduhálss fyrir miðju nær og svo við Hengil hægra megin.

Ölkelduhnúkur vinstra megin, Stóri Meitill, Bláfjallagarðurinn, Skarðsmýrarfjall og Vörðuskeggi.

 

Komin upp á Grasdalshnúk í þessu milda og friðsæla veðri sem þarna ríkti og frábæru útsýni til  norðurs að Þingvallavatni og fjallgörðunum norðan Þingvalla.

Voru þetta Jarlhettur tindarnir þarna?

Þórisjökull eða Langjökull?

Þarna þurfum við að ganga og læra á svæðið, fullt af spennandi fjöllum norðan Þingvalla sem þegar eru komin í sigtið fyrir næsta vetur og ár...

Flestir mættir þetta kvöld:

Páll, Guðjón Pétur og Örn efst.

Soffía Rósa, Helga Björns., Kristín Gunda, Þuríður, Ingi, Ragna, Þorbjörg, Íris Ósk, Guðmundur Ólafur, Alexander, Roar, Halldóra Þórarins og Halldóra Ásgeirs.

Bára tók mynd og Olga, Hjördís, Gylfi Þór, Hjörleifur og Björgvin sátu hjá á síðasta hnúknum.

Suðurlandsvegur, suðurströndin, Skálafell á Heillisheiði aftan Guðjóns Péturs,  virkjunin á Hellisheiði og Stóri Meitill fyrir aftan fjallgöngugarpana.

Gengið niður Grasdalshnúk með Molddalahnúka vinstra megin, Skálafell á Hellisheiði, Ölkelduhnúk hægra megin og svo Stóra Meitil svona voldugan í fjarska..

Útsýnið ofan af suðurhlíð Grasdalshnúk.

Sjá reykjarstrókana á svæðinu um allt.

Dalasel niðri í dalverpinu og slóðinn svo niður í dalinn.

Heiti lækurinn - Reykjadalsá neðar í Klambragili ef hún heitir svo þetta ofarlega (lækurinn rennur saman við læk sunnan Molddalahnúka og gæti heitið Reykjadalsá eftir þann samruna).

Líklega um 39°C og þolanlegt í hálftíma eða svo en þá þarf maður fljótlega að fara að kæla sig.

Dásamlegt var að baða sig þarna í straumnum undir beru lofti, kyrrð og friði og var baðið kærkomið okkur göngumönnunum og góður endir á göngutímabilinu.

Flestir komnar ofan í og var dagskrá júlí mánaðar m. a. skeggrædd þar sem þjálfarar taka sér kærkomið hlé í júlí eftir samfellda dagskrá alla þriðjudaga frá því í byrjun  ágúst í fyrra.

Hjörleifur tók að sér að halda utan um dagskrána og komu margar góðar hugmyndir fram. 

Sjá dagskránna í júlí fyrir þá sem vilja á www.hjolli.com en þar er og lýsing með myndum af hverri göngu að henni lokinni.

Þau sem ekki fóru í lækinn lögðu fyrr af stsað til baka og sameinuðust í bíla en þannig varð gangan aðeins endasleppt hjá þeim sem var miður. Næst koma allir m eð baðföt!

Þorbjörg og Kristín Gunda að koma sér í göngugallann aftur fyrir heimferð.

Heita baðið er virkilega notalegt eftir stranga göngu að kveldi til því líkaminn verður vel heitur og mjúkur á eftir og hálf svífur til baka á heimleiðinni...

Allt brölt í og úr fötum og þvælingur á táslunum um steinana... hálf ber við öllum viðstöddum er vel þess virði fyrir þá tilfinningu.

Þessi heita laug hefur það umfram flestar aðrar á Íslandi að vera vel grasigróin niður að laugarbarmi og því ein sú þægilegasta að fara í.

Hún býður einnig upp á  marga staði til að fara ofan í eftir því hve neðarlega maður fer út frá hitastigi þar sem lækurinn kólnar sunnar svo þetta er alger lúxus.

Heimleiðin í dreifðum litlum hópum á skeggræðum alla leið.

Háhitasvæðið í Rjúpnabrekkum ofan við Varmá og malarstæðið í Ölfusdal.

Þessi síðasta æfing fyrra æfingatímabils ársins 2008 gaf 11,7 km á 4:35 klst. eða styttra með tinda upp á 402 m (Molddalahnúkar), 437 m (Ölkelduhnúkur) og 457 m (Grasdalshnúkur) með hækkun samtals upp á 591 m þar sem farið var talsvert upp og niður.

Þjálfara þakka fyrir sig í bili og vona að allir eigi góðar stundir í besta mánuði ársins á Íslandi, hlaði batteríin ef þess þarf, skipti um umhverfi og sigri sinn eigin tind í júlí...

Munið.. það jafnast ekkert á við að fara ótroðnar slóðir... til þess eru þessar æfingar... að þjálfa með meðlimum sjálfstæði til þess að fara á eigin vegum um óbyggðirnar...

... þó síðan sé skemmtilegast að ganga saman allt árið um kring við allar aðstæður veðurs, færðar og birtu...

 


A K R A F J A L L

...eitt fegursta fjallið í sögu klúbbsins...

... var gengið þriðjudaginn 10. júní á 52. æfingu af 22 toppförum undir leiðsögn Akurnesinganna Guðjóns Péturs og Inga sem sýndu félögum sínum bæjarfjallið sitt við glimrandi aðstæður veðurs og skyggnis.

Mögnuð kvöldganga sem tókst að jafna gullna vetrargöngu hópsins á sömu slóðum í desember.

Akrafjall sannaði ótvírætt að það býður upp á eina flottustu fjallgöngu sem hægt er að ná í nágrenni höfuðborgarinnar.

Gangan endaði í 11,5 km á 5:13 klst. upp 653 m með hækkun upp á 584  og voru menn komnir í Ártún um hálf eitt leytið
og því heim í hús kringum 01:00 um nóttina...


Er það ekki nákvæmlega þetta sem maður gerir á björtum sumarkvöldum á Íslandi?
Að vaka fram yfir miðnætti á fjallgöngu með sólina við sjóndeildarhringinn?

Norrænir galdrar sem ekkert jafnast á við...

Lagt var af stað kl. 18:25 í rigningu og súld frá malarstæðinu við vatnsból Akurnesinga í mynni Berjadals vestan Akrafjalls.

Það var sól daginn áður, fyrr um daginn og dagana á eftir en þarna þurfti endilega að liggja blaut ský yfir... hvað var málið?

...en það átti eftir að breytast...

Hálfskýjað - logn - V1 - 12°C - rigning í byrjun en svo hálfskýjað og gullroðið sólarlag í lokin.

Mættir voru 22 manns með Erni þjálfara þar sem Bára sat heima með slasað hné.

 Með í för voru tveir nýir meðlimir sem Bára harmaði að fá ekki að ganga með en komu þá í stað hennar, nefnilega Írunn systir og Ástþór, 14 ára, sonur hennar en þau gengu með Erni Leggjabrjót laugardeginum á undan í sérstakri fjölskyldugöngu og voru því að fara 28 km á fjórum dögum með engar fjallgöngur að baki síðustu mánuðina.

Guðjón Pétur og Ingi stjórnuðu göngunni þar sem þetta var bæjarfjallið þeirra og þeir höfðu lagt metnað sinn í að kynna það fyrir félögum sínum sem best.

Gengið var á syðri hluta Akrafjalls, upp Reynisása og var slóðinn góður en þó aðeins bratt a einum kafla.

Rigning en logn og hlýtt.

Gengið til suðausturs upp að Háahnúk með Faxaflóa, Hafnarfjall og  Borgarnes að baki.

Komin upp á syðri hamrana með stórkostlegu útsýni til suðurs að Reykjavík og inn Hvalfjörð.

Áfram var gengið að hæsta tindi sunnan megin.

Rétt áður en komið var að hæsta tindi syðri hnúks Akrafjalls ætluðu Akurnesingarnir hópnum spennandi útúrdúr áður en upp á hann var gengið...

Farið var niður með klettunum og gengið utan í þeim með Hvalfjörðinn á hægri hönd.

Ekki fóru allir þennan krók, sex kusu að bíða og röltu í staðinn upp á Háahnúk í 571 m hæð (555 m lmi).

Stefnt var að klettanös neðar sem heitir...

Þingmaðurinn.

Klettur með ásýnd andlits.

 

Gengið niður að klettanösinni.

Hvílíkt ævintýri á björtu sumarkveldi.

Ingi, Ástþór 14 ára, Halldóra Á., Roar, Helga Bj., Ásta, Hjörleifur, Alexandere, Stefán Alfreðs., Þorleifur, Grétar Jón, Þorbjörg, Íris Ósk, Soffía Rósa og Guðjón Pétur.

Sólargeislarnir skinu í bakaleiðinni.

Magnaður staður.

Mynd tekin ofar í slóðanum til baka.
Gengið neðan við hamrana.

Á Háahnúk í 571 m hæð skv. gps (555 m skv. Landmælingum).

Ástþór, Alexander, Helga Sig., Ásta, Halldóra Á., Roar, Soffía Rósa, Ingi, Guðjón Pétur, Heiðrún, Þorleifur, Rannveig, Íris Ósk, Grétar Jón.
Írunn, Björgvin, Hjörleifur, Stefán Alfreðs., Helga Björns., Þorbjörg og Björn fremst og Örn tók mynd.

 

 

Ingi, annar leiðsögumanna Akrafjalls...

...að sýna hvernig maður toppar tind !

Eftir Háahnúk var gengið norðaustur niður Berjadalinn sem klýfur Akrafjall í tvennt og stefnt á hæsta tind fjallsins, Geirmundartind sem nær tæpum 90 m hærra en Háihnúkur.

Stiklað yfir Berjadalsá.

 

Þjóðsagan um landslag Akrafjalls er skemmtileg en þar segir af  tröllkonu af Snæfellsnesi sem sótti sér fjall eitt fagurt á Suðurlandi en brá svo þegar sólin kom upp þar sem hún var þá stödd við Akranes, missti við það fjallið úr höndum sér og það klofnaði í tvennt þar sem Berjadalur liggur á milli.

Hún sjálft breyttist svo í steininn Jókubungu en hún er talsvert austar en hópurinn gekk um þetta kvöldið.

 

Komin niður í 239 m hæð og og því er 414 m hækkun framundan eftir að hafa hækkað sig úr 69 m í upphafi upp í 571 m...

Komin upp á brúnina austan við Geirmundartind með stórkostlegt útsýni norðvestur yfir Snæfellsnes og Borgarfjörð.

Hafið og heimurinn í fanginu...

Eitt af ótal gullnum augnablikum þessa kvölds.

Hjörleifur tók upp á því að taka mynd af ljósmyndaranum og náði svona ótúlega góðri mynd af hópnum í heild.

Flottur hópur og dásamlegt fólk... flottur tindur og yndislegt veður...

Hvar vorum við eiginlega sem ekki gengum þetta kvöld?

Hamrarnir með skýjahulu í eftirdragi að reyna að hrista hana af svo þessir göngumenn fengju nú alveg tært útsýni.

Þokuslæðingurinn var stöðugt á hreyfingu.

Þessar björtu sumarnætur... jafnast ekki á við nokkuð...

Hamrarnir í kvöldsól vestursins.

Skarðsheiðin í baksýn og allur fjallahringurinn fyrir sjónum til austurs.

Akranes er á fallegum stað...

Á Geirmundartindi:

Björgvin, Rannveig, Soffía Rósa, Ástþór, Roar, Þorbjörg, Grétar Jón, Þorleifur, Íris Ósk, Írunn, Alexander.

Helga Björns., Hjörleifur, Ingi, Ásta, Björn, Guðjón Pétur, Stefán Alfreðs.

Örn tók mynd.

Halldóra Á., Heiðrún og Helga Sig. fóru aðra leið.

Ein af mörgum frábærum myndum kvöldsins.

Akrafjall í hnotskurn.

Guðfinnuþúfa framundan.

Björgvin toppaði Guðfinnuþúfu einsamall og sá örugglega ekki eftir því.

Undirlagið orðið grófara en ofar og erfiðara að fóta sig þennan hluta áður en grasið tekur við neðst.

Kvöldsólarlagið breyttist stöðugt með hverri fegurðinni af annarri.

 

Sólin

fangar þá

Björgvin

Guðjón Pétur

Inga

Roar

og

Stefán Alfreðs.

og gyllir landslagið sem þeir spekúlera þarna í.

Leiðsögumenn kvöldsins.

Akurnesingarnir

Guðjón Pétur og Ingi.

Þeir buðu hópnum af miklu metnaði upp á eina ógleymanlegustu fjallgöngu í sögu klúbbsins með sinni einstöku natni.

 

 

Sólin að setjast og kvöldið fullkomnað.

Með 11,5 km að baki á 5:13 klst. upp tvo hnúka Akrafjalls; 571 m og 653 m með hækkun upp 502 m + 414 m eða samtals hækkun 916 m í heild!

Göngunni lauk rétt fyrir miðnætti og menn voru komnir í Ártún um 00:30 og flestir því heima um kl. 01:00.

Flestir sjálfsagt fundið fyrir þreytu og svefnlitlum vinnudegi daginn eftir en engri eftirsjá...

Það er nefnilega ekkert sem toppar svona kvöld...

Takk fyrir kvöldið Akrafjall, Guðjón og Ingi...

 

K E I L I R  
Á   R E Y K J A N E S I

51. æfing var þriðjudaginn 2. júní á keili á Reykjanesi og mættu tíu manns, þar af hann Ástþór, 11 ára og tvö gömul andlit frá í fyrra, þeir Björn og Stefán Alfreðs.

Það var ágætis gönguveður eða S3 og 11°C, háskýjað og gott skyggni og svo aðeins rigningardropar í bakaleiðinni.

Lagt var af stað kl. 18:11 og var veðrið friðsælt og gott þó það hafi verið svolítið svekkjandi að sólin sem skein í heiði fyrri hluta dagsns skyldi ekki njóta sín líka um kvöldið.

Komin yfir hraunið og að slétta kaflanum að Keili.

Aðdragandi Keilis er seigur og úfinn um hraunið en þeim mun skemmtilegri og ólíkur mörgum öðrum göngum við borgina

Uppgönguleið var suðaustan megin sem er brattari og beinni upp en um leið meira gefandi þar sem öxlin skyggir meira sýn.

Slóðinn upp og fjalllendið til suðausturs að baki.

Skriðurnar aðeins lausar í sér en gott að ganga.

Komin upp í vorum við í 395 m hæð skv. gps..

Hvíld, útsýni, nesti, spjall.

Aðeins gola uppi en ekkert í líkingu við rokið í fyrra og skyggnið sömuleiðs mun betra.

Eitthvurt árið fáum við sól og heiðan himinn á Keili...

Keilisfarar:

Ástþór, 11 ára

Soffía

Stefán Álfreðs

Björn

Helga Björns

Ragna

Kristín Gunda

Björgvin

Hjörleifur

Örn

 

Niðurleiðin um öxlina og Keilisbörn neðar.

Falleg leið, fjölbreytt og þægileg í góðum slóða en þó aðeins varasamt á móbergsklöppunum eins og oft er.

Hægt að fara hring en sá slóði er sunnar og myndi sá hringur bæta einhverju við heildargöngumagn.

Aðeins rigningardropar þegar komið var að bílunum.

Þó mætingin hefði mátt vera betra þetta kvöldið var afraksturinn góður; 7,8 km á 2:27 klst upp í 392 m hæð með 266 m hækkun.

Keilir er kyngimagnaður staður sem vert er að heimsækja árlega.

Sjá smæð mannsins í hrauninu sem þarna hefur runnið; feðgarnir Ástþór og Hjörleifur nánast samhverfa umhverfi sínu.

 

50. æfing Toppfara var þriðjudaginn 27. maí á einn fallegasta stað í nágrenni höfuðborgarinnar, að hæsta fossi landsins, Glym og upp á Hvalfell í botni Hvalfjarðar.

Mættir voru 16 manns í frábæru gönguveðri, logni, hlýju, stöku sólargeislum og góðu skyggni.

Glimrandi góð kvöldganga sem skilaði okkur í bæinn
kl. 23:50... án þess að nokkur sá eftir einni mínútu.

Ein fallegasta æfingin í sögu klúbbsins þar sem gengið var milli gróðurbelta frá gróðursælum botni Hvalfjarðar upp gljúfur um fossa og gil, á reisulegt Hvalfellið um napurt gróft grjót og mosa, niður 300 m langan snjóskafl á skó-skíðum, bringunni (Páll) eða afturendanum og gegnum skóg, fossa og ár til baka að bílunum með birkiilminn í vitunum.

Er hægt að ná betri kvöldgöngu en þetta...?

Lagt var af stað gangandi kl. 18:08 í hálfskýjuðu veðri, lygnu og hlýju í botni Hvalfjarðar með Hvalfellið framundan, gróðurinn í blóma um allt, birkiilminn í lofti og árniðinn í fjarska.

Á Botnsheiði var skv. veðurstofunni S7 og 8°C.

Þjálfari mældi hitann á einföldum mæli 9°C á niðurleiðinni.

Gengið var vestan megin að klettunum við árfarveg Botnsár sem gáfu góða sýn upp eftir ánni að gljúfrinu er geymdi Glym enn ofar og það fór ekki framhjá neinum að við vorum virkilega komin í náttúruparadís.

Gengið niður að hellunum sem farið er í gegnum til að komast niður að ánni.

Farið var yfir Botnsá á símastaur með stálvír til stuðnings og gekk það vel hjá öllum enda traust og áin saklaus að sjá.

Gengið svo upp austurhlíðarnar á góðum slóða með mögnuðum útsýnisstöðum framundan.
Fótað sig upp stíginn í lausaskriðum og var grjótið anzi laust.

Slóðinn eftir gljúfrinu.

Stundum bratt niður og reyndi kannski aðeins á fyrir þá lofthræddustu en yfirleitt traustur slóði og magnað að fóta sig rólega nær fossinum í þessu fallega umhverfi.

Fljótlega fór að sjást í efsta hluta Glyms, niðurinn heyrðist og gljúfrið dýpkaði.

Þegar komið var að fyrsta góða útsýnisstaðnum að sjálfum Glym urðu menn hljóðir.

Alda hér dolfallin fyrir sýninni.

200 m hár foss (198 m eða 160 m) innst í tignarlegu gljúfri.

Hér er vel hægt að sitja í þögn og njóta í algeru tímaleysi.

Fuglarnir minntu á að þetta er heill heimur sem við vorum heppin að fá að heimsækja.

 

Klöngrast upp brattan slóðann sem var auðveldar að príla á en halda mátti í upphafi.

 

Komin á klettinn sem gefur sýn á fossinn í heild;

Glym í öllu sínu veldi.

Fuglarnir á sveimi allt um kring og okkur fannst það öfundsvert að geta flogið um gljúfrið frjáls og engum háður...

Útsýnið til baka niður ánna.

Múlafjall í baksýn.

Þorbjörg, Íris Ósk og Þuríður alls óhræddar á klettabrúninni að kíkja niður í botn gilsins.

Hreiður í hverri skoru.

Sjá fuglinn á syllunni undir stúlkunum...

Voru þetta Ritur, Fýlar...?

Þjálfari gleymdi að ganga á sér fróðari menn með þetta.

Gengið svo aðeins lengra að hærri klettanös þar sem við gátum borða nesti í logninu og notið útsýnisins með veldi Botnsár allt um kring.

Södd og sæl gengum við svo áfram upp eftir brúninni að fossinum.

Hér hvarf birkið og við tók grófara grjót og mosi.

Sjá fuglinn á öllum syllum og skorum.

 

Komin að upptökum fosssins.

Örn, Þuríður og Halldóra Þórarins.

Sjá bjargið hægra megin og sylluna sem var krökk af fugli.

Gengið var svo ofan fosssins og snúið til suðausturs að Hvalfelli.

Allir ánægðir með fallegan göngutúr upp eftir ánni og nú tók við hin eiginlega fjallganga.

Umhverfið breytt þar með, hrjóstrugt grjót og mosi og annar gróður að baki.

Hvalfell hér framundan og við komin hálfa leiðina upp í um 400 m hæð.

Bara 450 metrar eftir... við getum þetta.

Gengið um mjúkt undirlag mosans nokkuð rösklega og stefnt að hryggnum þar sem snjóskaflinn liggur heill niður.

Útsýnið til baka niður í Hvalfjörð úr neðri hlíðum Hvalfells.

Akrafjall sem við göngum eftir tvær vikur lengst framundan á mynd.

Efstu hlíðar Hvalfellsins.

Grjótið nokkuð gróft á stundum en mosinn gaf gott undirlag lengi vel.

Síðasti kaflinn var eins og tröppugangur upp hlíðina um gróft grjótið með mosann á milli þar til undir það síðasta.

Slóði alla leið upp nokkuð greinanlegur en leiðin annars greið og gefandi með góðri hækkun í hverju skrefi og enga lofthræðlukennd eins og Baula býður upp á þar sem hér var grjótið tiltölulega fast í sér og ekki eins gróft.

Komin á topp Hvalfells í 853 m hæð skv. gps (852 m) eftir 783 m hækkun frá bílastæðinu.

Góður kvöldgöngutúr það.

Útsýnið gott en þó ský yfir Botnssúlum efst og eins sáust ekki toppar Oks eða Skjaldbreiður en Hvalvatn og nágrenni blasti við, Hvalfjarðarbotn og Skarðsheiðin séð austan frá.

Með Hvalfjarðarbotn í bakið, vinstra megin er Múlafjall, Þyrilsnes, Reynivallaháls og Akrafjall lengst í burtu.
Þyrill hægra megin, Brekkukambur, Botnsheiði og Skarðsheiðin fjær.

Guðjón Pétur, Ásta, Helga Sig., Roar, Björgvin, Ragna, Bára, Þuríður, Kristín Gunda og Páll.
Alda, Guðmundur Ólafur, Íris Ósk, Þorbjörg og Halldóra Þórarins.
Örn tók mynd.

Eftir góða útsýnisstund var lagt af stað niður til suðvesturs og stefnt að þessum góða snjóskafli sem þjálfarar fundu nokkrum dögum áður í könnunarleiðangri og myndi gefa okkur 300 m lækkun á smá tíma.

Komin að skaflinum.

Niður hann fórum við skíðandi á skónum, eða rennandi á afturendanum eða jafnvel maganum eins og Páll með tilheyrandi ljóma í sálinni af slíkum leik.

Búin að lækka okkur si svona um 300 m á örfáum mínútum.

Sumir fóru hratt niður en aðrir fóru varlegar.

Tilfinningin ólýsanleg.

Eins og að renna sér fram af himinbrún niður á jörðina.

Hallinn var talsverður í brekkunni en engin greinanleg hætta, skaflinn þegar blautari en nokkrum dögum áður og fínasta færi.

Botnssúlur lengst til vinstri með skýjahulu efst.

Fórum ofan í nyrðra gilið og upp aftur um skaflinn þar sem ætlunin var að fara sunnan við bæði gilin.

 

Stóragil svo sunnar og hér komin mun neðar og vestar þar sem gróðurinn tók við með lækkandi hæð og skaflarnir urðu kuldaleg fortíð Hvalfellsins í samanburði.

Eins gott að renna ekki á lausu grjóti yfir frosinni jörð þarna niður... það var þó ekki svo þarna eftir hlýindi síðustu vikur en getur verið varasamt snemma að vori.

Hópurinn svo neðar í gilinu þar sem vel sást niður um gilið.

Fuglabjarg og vatnsföll, smálækir og birkitré í gljúfrinu.

Annað eins Glyms-gljúfur í mótun næstu áratugina?

Hluti af hópnum við Stóragil með Hvalfell í baksýn.

Upp fórum við vinstra megin á hryggnum (skaflinn yfirlýstur á mynd)
og niður stærsta skaflinn sem sést hægra megin á myndinni.

Með efsta hluta Glyms svo í baksýn.

Örn, Roar, Þorbjörg, Þuríður, Páll, Kristín Gunda, Ragna, Ásta, Halldóra Þ., Björgvin og Helga Sig.

Fjóra vantar á mynd fyrir utan Báru en þau fóru á undan niður með ánni og sömu leið til baka að bílunum.

Okkar hinna beið angandi birkiskógurinn við árnar sem við fórum í gegnum og var stefnt að Hvalskarðsánni en hana prýða einnig gullfallegir fossar sem bættust í safn okkar á þessu svæði.

Gegnum skóginn gengum við fram að hengibrún að Hvalskarðsá.

Efri hluti fossaraðarinnar í ánni.

Fetuðum okkur eftir brúninni sem var skógi vaxin eins og birkið gat komið því við svo varla var pláss fyrir gönguslóða.

Allir orðnir vanir að príla á brúnum með hlíðina niður að á.

Fossaröðin svo í heild í Hvalskarðsá.

Fallegur og tær hylur sem væri freistandi að kasta sér út í á sólríkum degi...

Gengið niður í gilið að ánni til að komast yfir hana

Yfir ánna var stiklað en eitthvað fipast við það svo strákarnir tóku grjót til að tipla á milli stóru steinanna.

Smá pása hinum megin árinnar eftir volkið.

Vorum minnt á það að á góðum skóm sem vel er borið á má leyfa sér að stíga talsvert á kaf án þess að blotna.

Kannski erum við almennt of rög við að stíga aðeins í bleytu þegar maður tiplar svona yfir á og ágætt að gera þetta reglulega til að verða aðeins kærulausari og öruggari.

Fossinn í Hvalskarðsá sem ekki finnst nafn á?

Gengið var svo sunnan með Hvalskarðsá þar til hún sameinaðist Botnsá og gengið með henni að brúnni.

Ægifagurt og síbreytilegt umhverfi með fossandi árnar öðru megin og gróðurinn hinum megin.

Hér er hægt að koma með heilu fjölskylduna og eyða deginum saman við árnar, fossana, gilin og skóginn og gleyma tímanum..

Lokakaflinn um sveitina að bílunum...klukkan um ellefu en engan veginn hægt að átta sig á því fyrr en raunveruleikinn minnti á það.

Þetta var gullin kvöldstund sem ekki er hægt að setja  viðeigandi mælikvarða á en þó ljóst að þetta voru 10,8 km á 4:53 klst. upp í 853 m hæð með 783 m hækkun.

Glymur - Hvalfell - Stóragil - Hvalskarðsá...

... úr grænum gróðri yfir bláa á, upp hvítfyssandi Glym í brúna möl Hvalfells og gráan mosa, niður hvíta snjóbreiðuna að marglitum giljum um ilmandi skóg og fossandi ár að mistruðum Hvalfjarðarbotni aftur...

Góður hringur sem verður án efa árlega á dagskrá Toppfara!

(ath frásögnin miðar að fleiri myndum er hér eru og því virkar textinn samhengislaus!).

 

49. æfing var þriðjudaginn 20. maí á Eldborg, Drottningu og Stóra Kóngsfell á Blafjallasvæðinu og mættu fjórtán manns.

Þar af hún Ragna sem var að bætast í hópinn og Ástþór, 11 ára sem var að koma í annað sinn.

Veðrið var gott; háskýjað, milt, hlýtt og þurrt þrátt fyrir rigningu í bænum.

Gengið var fyrst um Eldborgina meðfram gígbarminum norðan megin og er gígurinn djúpur og fallegur.

Komið niður af Eldborginni þar sem hún opnast til norðurs og gjáin litla framundan.

Drottning í bakgrunni en upp á hana var gengið beint með skriðunum og var færið gott, tiltölulega blautur jarðvegur.

Litið til baka að Eldborginni og séð hvernig hún opnast en gjáin liggur svo langt til norðurs.

Hraunmikið umhverfi á þesu svæði og fallegt um að lítast þegar ofar dregur.

Bláfjallagarðurinn í bak okkar en hann verðum við að ganga endilangan frá Vífilsfelli (655 m)að Bláfjallahorni (702 m) með viðkomu á hærri hnúkum en Vífilsfelli og með útsýni austur yfir Jósepsdal og Þrengslasvæðið og vestur yfir hraunbreiðuna að höfuðborginni.

Komin á Drottningu sem mældist 521 m há og var hækkunin 90 m miðað við 431 m upphafshæð.

Hér gengið af syðri hnúk yfir á þann nyrðsi með Rauðuhnúka á bak við sem gaman væri að ganga alla á einnig.

Á Drottningu í góðu skyggni, þurrki en svolitlum vindi.

Lygnara í bænum en þar var rigning svo þetta var mun betra en í fyrra þegar við gengum þetta í rigningu og roki og engu skyggni.

Snjóskaflar efst á Drottningu eins og síðar reyndist einnig á Stóra Kóngsfelli.

Gengið niður skriðuna vestur á Stóra Kóngsfell sem sést í norðurhornið á hér.

Sjá úfið hraunið á milli.

Gengum yfir það um slóða sem er nokkuð greinanlegur á köflum.

Snjóskaflar, gjótur og gjár á milli og getur verið erfitt yfirferðar ef ekki er fylgt góðri leið.

Ástþór fann auðvitað fullt af hellum og forvitnilegum stöðum en fékk engan skilning á því hjá fjallgöngufólkinu að vilja staldra við, fá ljós og fara í hellaskoðun...

Gengið upp Stóra Kóngsfell með skriðunum sem eru aðeins lausar í sér.

Ástþór hér að príla í grjótinu sem var voða gaman að henda niður í leiðinni.

Gígar til suðurs, þrír talsins nálægt Stóra kóngsfelli sem vel er hægt að ganga næst þegar við göngum hérna og veðrið er gott.

Þríhnúkar enn lengra sem ekki sjást þrír fyrr en norðar af þjóðveginum.

Þá þarf auðvitað að ganga síðar...

Stutt eftir á Kóngsfellið.

Vindurinn tók smám saman við þegar ofar dró.

Ástþór gætti þess að setjast í miðjum Kóngshlíðum og virða fyrir sér veldi þess...

Þriðji gígurinn hér vinstra megin og fjallgarður Hlíðarvatns? til suðurs.

Komin á Stóra Kóngsfell í 608 m mældri hæð.

Rok og svalt en skárra útsýni en síðast.

Þá sást ekki niður með fellinu og flestir töpuðu áttum þó þjálfarar væru með svæðið skýrt í höfðinu.

Borðuðum nesti á skjólsælum stað vestan með.

Þar lá snjóskafl niður hjallann og var freistandi að renna sér eins og fram af fjallinu en það var engin hætta á ferð þó halda mætti annað af mynd.

Borgin og sundin hér til vesturs en sjást illa á myndinni.

Mættir:

Björgvin
Halldóra Þ.
Halldóra Á.
Helga Sig.
Roar
Soffíá Rósa
Kristín Gunda
Örn
Guðmundur G.
Þuríður
Hjörleifur
Ragna
Ástþór

og Bára tók mynd.

Gengið svo niður til suðurs eftir góða nestispásu og heilmiklar umræður um merkingar, hálfmaraþon, fatnað, Fimmvörðuháls og annað.

Fórum gilið með móbergsklöppunum til baka sem er ágætis niðurleið og sú sama og síðast.

Hraunið milli fjallanna beggja.

Allir í sama göngugír og haldið nokkuð vel hópinn.

Gengið meðfram Drottningu sunnan megin.

Þar er vel greinanlegur slóði sem er lýst í bók Ara Trausta og Péturs Þorleifs. og hentar vel ef menn vilja sleppa Drottningu á leið að kóngsfellið.

Ggöngutúrin er hins vegar það stuttur að við mælum með Drottningu í leiðinni enda gaman að sjá útsýnið frá báðum fjöllum.

Æfingin gaf tæpa 4,9 km á 2:19 klst. sem var mun lengur en síðast og til marks um hve veðrið var mun betra í þetta skiptið, bara róleg og afslöppuð æfing á góðu kvöldi.

Hækkunin var 90 m upp í 518 m hæð og svo 177 m upp í 608 m hæð.

 

48. æfing var þriðjudaginn 13. maí sem var fjölskylduferð á Reykjanesið í Lambafellsgjá, upp Lambafell og á Hörðuvallaklof.

Æfingin var sérstaklega ætluð fyrir unga Toppfara sem vilja koma með okkur í fjallgöngu og skoða hvar tröllin eiga heima í fjöllunum...

Hún var í sama anda og jólaæfingin sem var fyrir jól og verður þessi vorferð árleg í maí fyrir alla fjölskylduna eins og í desember ár hvert.

Mættir voru 16 fullorðnir, þar af tveir makar; María og Jónas og sjö börn; Ester 3ja, Hilmir, 3ja, Einar 7 ára, Ívan Alex 7 ára, Erna 8 ára, Hrefna 8 ára og Ástþór 11 ára... eða samtals 23 manns og hundurinn Kjarri.

Gengið var frá malarstæðinu við Trölladyngju norður að Eldborg sem hverfur óðum í málarnámi og að Lambafellinu.

Veðrið var dásamlegt eða logn, hlýtt og hálfskýjað eða NV3 og 10°C.

Krakkarnir hlupu upp um allt og út um allt og nutu sín vel í friðsældinni.

Gengið var vestan með Lambafelli að muna gjárinnar sem opnast að neðan til norðurs.

Tvö yngstu börnin voru aðeins lengur yfirferðar en hin öll en áttu þó auðvelt með þetta enda auðvelt að gleyma sér í dúnmjúkum mosanum og kynjóttum klettunum.

Það var enn snjór í botni gjárinnar og þá tekur sjálfsagt við bleyta fram eftir sumri svo líklegast er þurrasti og þægilegasti tíminn að ganga hana síðla sumars eða snemma að hausti.

Gengið af stað inn gjánna.

Hún er magnað fyrirbæri fyrir jafnt fullorðna sem börn að heimsækja.

Sjá snjóskaflana sem fljótlega tóku við innar í gjánni.

Sumir um 1 metra þykkir ennþá.

Mynd í góðri stækkun til að sýna áhrifin af því að vera milli þessara klettaveggja.

Í snjólausu undirlagi síðla sumar er örugglega talsvert dimmara inni í gjánni en þarna var og sterkari upplifun innilokunar jafnvel.

Klettaveggirnir kölluðu á klifur og væri forvitnilegt að vita hvort menn séu í slíkum tilburðum þarna.

Snjóskaflarnir ótrúlega þykkir ennþá - sjá hrygginn sem myndaðist sums staðar í miðjunni þar sem skaflarnir bráðna út frá veggjunum.

Helga Björns hér að komast yfir hrygginn og Ingi að aðstoða eins og alltaf.

Þarna var betra að gæta að börnunum sem gleymdu sér í klettasalnum og óðu áfram í ævintýralegu umhverfi.

Bára, þjálfarinn með Hilmi 3já ára og Einar fjallasafnarinn mikla í forgrunni.

Komin upp gjánna og litið til baka til norðurs.

Einstök náttúrusmíð.

Spjallað uppi á Lambafelli ofar gjánni með Keili í baksýn.

Gengum svo alla leið upp á Lambafellið sjálft.

Hér Trölladyngja og Grænadyngja í baksýn.

Tignarleg fjöll og afskaplega girnileg til göngu... þau eru á dagskrá 2009...

Smá klöngur sem var bara gaman fyrir krakkana.

Nestispásan uppi á Lambafelli.

Fínir nestisstaðir eru beggja vegna Lambafells í skjóli og grænni lautu en veðrið var svo gott að við gátum bara borðað uppi við.

Þjálfari var með kassettutæki með sér og disk með íslenska evróvisjón-laginu og ætlaði svoleiðis að draga krakkana annan rúnt um gjánna og halda fjalladiskó þar milli klettaveggjanna og kanna hljómburðinn í leiðinni... en gleymdi að kaupa batterí á leiðinni úr bænum og var mjög svekkt...

Þetta verður að prófa síðar.

Dæturnar hennar Halldóru Þórarins, Erna og Hrefna sýndu slíka göngutilburði að þær feta án efa í spor móður sinnar og verða fjallakonur miklar...

Lambafellsgjárfarar:

Fullorðnir:

Grétar Jón, Guðmundur, Guðjón Pétur, Örn, Heiðrún, Ingi, María, Þuríður, Páll, Hjörleifur, Soffía

og Þorleifur, Helga Björns, Jónas, Halldóra Þórarins.

Börn

Ester, Ívan Alex, Einar, Hilmir, Erna, hrefna, Ástþór og hundurinn Kjarri.

Bára tók mynd.

Þarna skildu leiðir og fimmtán manns héldu áfram að Hörðuvallaklofi en átta dóluðu sér við Lambafellið til baka.

Þeir Einar, Ívan og Ástþór fóru því alvöru fjallgöngu þetta kvöld og fóru létt með það...

"Hvenær er næsta fjallganga pabbi"?

Stelpurnar skoppuðust um alla móa og fundu þvílíka fjársjóði og dularfulla hella og gjótur að það var með ólíkindum.

Hilmir og Ester höfðu engan veginn í við þær en reyndu samt að fylgja...

Það voru verksummerki um tröll og dularfull dýr um allt...

Hörðuvallaklof í baksýn þar sem hinir gengu þvert eftir hryggnum.

Gengið austan með Lambafelli.

Gönguslóðar þarna allt um kring...

Til suðurs að Eldborginni.

Móinn og hraunið orðið fallegt að lit með hlýjindunum síðustu vikurnar.

Sjá hópinn hér í fjarlægð ganga um Hörðuvallaklof og gígröðina út frá Grænudyngju. Útsýnið er allt annað hinum megin; Mávahlíðar til norðurs, Hörðuvellir nær, Fíflvallafjall til austurs, Dyngjurnar tvær til suðurs, auðgengilegri að sjá en vestan megin og svo heill heimur handan þeirra, Sogin, og vötnin Spákonu-, Djúpa- og Grænavatn. Kleifarvatn svo lengra til austurs en auðvitað munum við á endanum ganga þetta allt saman.
Það felast dýrmæti í því að eiga óendanlega marga staði eftir til að skoða á lífsleiðinni...

Hér koma þau niður af hæsta punkti sem mældist 275 m hár (ath. síðar samanburð, mældis 243 fyrr, ekki mælingu að finna hjá lmi.is). Hópurinn gekk eftir gígröðinni allri og fóru m. a. ofan í einn gíginn að skoða, hann var of flottur til annars. Þetta er fallegt umhverfi þarna og gjöfult til útivistar heilan dag. Synd að myndavélin varð eftir á Lambafelli.

Jarðhitinn á svæðinu að gufa upp úr jörðinni við Eldborgina.

Hundurinn Kjarri vakti mikla lukku krakkanna og var að fara í sína fyrstu gönguferð með hópnum.

Vonandi fær hann að koma með aftur...

Gengið til baka að bílunum með Keili í baksýn og Oddafellið þar fram eftir öllu.

Kvöldið gaf 3,3 km fyrir Lambafellsfara og 6,7 km fyrir Hörðavallaklofsfarana fimmtán.

Upp var farið í 172 m (Lambafell) og  275 m (Hörðuvallaklof). Hækkunin því 64 m og 167 m miðað við 108 m byrjunarhæð.

Þetta tók 2:37 klst. og var dýrmæt kvöldstund í frábæru veðri.

Vonandi fáum við að sjá þessa duglegu krakka aftur á fjallgöngu með hópnum.

 

47. æfing var þriðjudaginn 6. maí á Stóra Meitil í Þrengslunum og mættu 14 manns í rigningu og roki og blindaþoku, þar af einn nýr, hann Björgvin.

Veðrið lofaði ekki góðu á leiðinni austur Þrengslin, rífandi vindur og rigning og þokusúld yfir öllu ofan 300 metrum.

Mættir voru auðvitað nokkrir þeirra sem láta ekki svoleiðis stöðva för en æfingin reyndist hin hressilegasta ganga í frískandi rigningu en krefjandi þoku hvað rötun varðar.

Gengið var upp hlíðarnar sunnan við Stórahvamm áleiðis Milli Meitla en svo kallast heiðin milli Litla og Stóra Meitils  og voru snjóskaflar í efri hlíðum.

Þokan tók af allt skyggni og var eingöngu hægt að ganga eftir gps þetta sinnið, en þjálfari var einhvurra hluta vegna ekki með punkt í tækinu af toppnum frá því síðast, svo vel kom sér að Roar var með slóðina okkar frá því í nóvember sem hægt var að nota til viðmiðunar svo tindurinn færi ekki framhjá okkur.

Þorbjörg, Íris Ósk, Hildigunnur og Guðmundur Ólafur að væta sig að innan til að hafa þetta sanngjarnt miðað við vætuna að utan...

Hvannadalshnúkur í umræðunni frá því um helgina og varla runnin af okkur gleðin frá því þá...

Þokan var þykk en myndavélin var líka orðin blaut svo áhrifin aukast af því lélega skyggni sem þarna var.

Gengið var nokkuð í hlykkjum Milli Meitlanna þar sem tilfinning og gps skiptust á að ráða för en okkur rataðist ágætlega rétt leið og villtumst ekki í þokunni þökk sé gps.

Umhverfið var orðið kunnuglegt þegar nálgast tók tindinn og brekkuna þar upp og könnuðumst við sum við okkur á toppnum frá því í nóvember í fyrra.

Þá var ólíkt betra veður þó vetur væri, glampandi vetrarsól og útsýni allan hringinn.

Nú sást ekki einu sinni í gíginn og engan veginn hægt að sjá fyrir sér einu sinni barminn þarna sem hann liggur til austurs og beinlínis býður upp á að vera genginn í góðu tómi...

Tómi sem bíður betri tíma í betra veðri...

Regnblauta liðið á Stóra Meitli:

Björgvin, Hjörleifur, Örn, Íris Ósk, Guðjón, Roar...

... Helga Sig., Helga Björns, Íris Ósk, Þorbjörg...

... Jón Ingi, Ingi, Guðmundur Ólafur og Hildigunnur.

Bára tók mynd á regnblautri vél...

Komin á tindinn í 532 m hæð skv. gps en stærri Meitill er mældur 514 skv. Landmælingum.

Í nóvember mældum við hann 520 til 526 svo heldur rokkar þetta nú til eins og venjulega, en gaman að skrá alltaf mælda hæð til a bera saman með tímanum.

Sjá má á gps-myndinni hvernig við fórum vestari slóðina að tindinum en tilfinning þjálfara kallaði á að fara enn vestar en við fórum og má þakka slóðinni sem Roar var með að við fórum þó þetta rétt.

Við förum svo nokkuð austarlega til baka en tilfinningin í minningunni er akkúrat öfug, manni finnst við hafa gengið austari leiðina upp og undirstrikar þetta hve lítið er að marka þessa tilfinninguna í rötun þegar þokan er svona mikil.

Við réttum okkur svo ekki nógu vel af í bakaleiðinni, nema jú við stefnum í raun á bílana, en tökum svo sveig að brekkunni sem við vildum miða okkur við. Þar förum við svo of langt til norðvesturs en þá var líka gps-ið farið að mótmæla því og segja að við værum farin að fjarlægjast brekkuna aftur þó tilfinningin segði annað. Að lokum hefur áhrif að við göngum stundum eftir landslagi og erum að miða okkur við mismunandi punkta.

Það var auðvitað augljóst þegar að brekkunni kom að við vorum komin að vesturhlíðinni niður á láglendi auk þess sem heyra mátti í umferðinni á Þrengslavegi en það var engu að síður gagnlegt að reyna að láta þetta passa við gps-in og tilfinninguna og mikið var erfitt að átta sig á því hvort við vorum komin of sunnarlega eða norðarlega að brekkunni.

Þetta var því hin fínasta gps æfing og gott að æfa notkun þeirra á svona kvöldi þegar engin leið er að rata eftir tilfinningu og hollt að finna vel fyrir því til að hafa varann á þegar gengið er í blindaþoku eins og þessari.

Sjá á mynd Roar og Guðjón að skoða gps-in sín sem ásamt gps-tæki þjálfara tryggðu að við villtumst ekki í þokunni sem hefði verið mjög auðvelt miðað við lítið skyggni.

Auðvitað fundum við svo í lokin smá brekku til að renna okkur í þarna í lokin niður vesturhlíðina

Hver trúir því að við séum enn að renna okkur í snjó í maí?

Æfingin varð á endanum 6,9 km löng á 2:05 klst. með 284 m hækkun upp í 532 (514 m) hæð.

Allir sælir með mun auðveldari göngu en halda mátti miðað við veður þar sem fyrst og fremst reyndi á rötun og vatnsheldni klæðnaðarins en nokkuð annað.

Rigningin var góð og kærkomin til þess að losa okkur við þessa snjóskafla sem mega alveg fara í bili svo þetta fari nú að vera sumarlegra áður en það verður komið fram í júní...

 

46. æfing var þriðjudaginn 29. apríl og mættu 16 manns á Grímmannsfell í sólríku veðri en hvössum vindi og köldum þegar ofar dró. Þar á meðal var Einar Logi, 7 ár sem safnar nú fjöllum óðum með hópnum.

Þar sem þetta var nú vikan fyrir Hvannadalshnúk var ráðgert að þetta yrði rólegt og fremur samráðsfundur á dóli en hörku fjallganga... en þegar toppfarar koma saman þá er voðinn vís...

Gengið var á báðar heiðar Grímmannsfells með viðkomu á hæstu hnúkum norðan og sunnan megin, Stórhóli og kolhóli/Hjálmi og gengið Katlagilið vestur niður í Helgadal og engu linnt fyrr en 11,4 km voru að baki á þremur og hálfri klukkustund.

Hvar enda þessir toppfarar...? nema jú auðvitað á Hvannadalshnúk næstu helgi..!

Lagt var af stað kl. 18:01 í fallegu veðri en úfnu ofar fjalla og var vindurinn fljótt allhvass svo erfitt var að halda velli strax í fyrstu brekkum Grímmannsfellsins.
Ástandið versnaði þegar ofar dró og menn settust og skriðu síðasta spölinn að þessum skjólstað til vesturs en enginn bliknaði... við skyldum klára þetta saklausta fjall sem sannarlega leynir á sér þó það væri brjálað rok!

 

Leiðir skildu fljótlega milli fyrstu og síðustu manna en æfingin var eiginlega farin í þremur hópum.

Sá fyrsti sneri við þegar uppgangan var hálfnuð og gengu þau Örn og Heiðrún í rólegheitunum að bílunum og dóluðu sér í Helgadal fram eftir kveldi.

Þorleifur og Einar Logi, Grétar Jón og Mirek gátu auðvitað ekki haldið í við hröðustu menn með yngsta göngumanninn á áttunda ári og því fóru hinir fyrstir alla leið að tindinum en þéttu þó hópinn öðru hvoru.

Í samanburði við æfingu hópsins á sama fjall í lok september í fyrra er ljóst að gönguhraðinn og form meðlima er allt annað en fyrir hálfu ári síðan...

Skýjafarið var úfið en fallegt og útsýnið óskert til allra átta.

Hér með vestasta hluta Grímmannsfells að baki, Flatafell sem mældist 442 m en ee sagður vera 436 m.

Gengið nú um sléttar lendur að hæsta tindi sem var nær en síðast þegar gengið var á Grímmannsfell... menn greinilega í betri göngugír núna...

Þuríður og Helga Björns hér á góðum hraða til austurs með Esjugarðinn til norðurs.

Sérstakt var landslag himinsins þetta kvöld, grá og úfin skýin beint yfir okkur í bland við hvít og saklaus ský við fjöllin í kring og himininn blár þar handan sem hleypti sólinni að með gulri slikju yfir allt svo hitnaði bæði mosi og grjót.

Gengið á hæsta tind Grímmannsfells, Stórhól sem mældist 490 - 493 m hár en skilgreinist sem 482 m.

Það var logn á toppnum eftir mjög hvassa uppgöngu og var óskiljanlegt þetta brúnalogn sem virtist ríkja á jafn lágu felli og Grímmannsfelli eins og við höfum kynnst á hærri fjöllum.

Útsýnið óborganlega til suðurs en svona var það allan hringinn.

Hverjir eru bestir spurði Einar Logi og við tóku hlátrasköll og gleði... svona á auðvitað að segja þegar verið er að taka hópmynd!

Roar, Hjörleifur, Helga Björns., Þuríður, Þorleifur, Grétar Jón, Guðmundur Ólafur, Mirek og Guðjón.

og

Jón Ingi, Þorbjörg, Einar og Ingi.

Bára tók mynd, Heiðrún og Örn vant við látin í bakaleiðinni.

Í toppfarísku bríieríi sem farið er að renna á hópinn einu sinni í viku var ákveðið að ganga yfir á hina heiði Grímmannsfells þar sem næst hæsti punktur þess rís sunnan megin er kallast Kolhóll eða Hjálmur.

Skildu þá leiðir þannig að allir héldu áfram nema Þorleifur og Einar Logi, Grétar Jón og Mirek.

Gengið var auðvitað mjög rösklega og engin leið fyrir venjulegan mann að halda í við svona lið en dásamlegt var þetta, með rokið í bakið og fjallgarðinn framundan, mjúkan mosann eða snjóinn og gyllt landslagið allt um kring.

Hópurinn var þéttur á fallegum útsýnisstað til suðurs þar sem fjöllin voru nefnd, bæði sigruð og sigtuð af hópnum á liðnum og komandi mánuðum.

Þjálfari átti fullt í fangi með að halda aftur af félögum sínum til að hafa þetta nú sanngjarnt fyrir alla í hópnum... flestir í dúndurformi og þá er auðvitað dásamlegt að nota það og tipla hratt yfir heiðina að tindinum... en með herkjum tókst að gera þetta nokkuð samfélagslega þétt í hóp.

Það var vel þess virði að taka þennan viðbótartúr. Sjónarhornið annað en af Stórhól og frábært að fara svona vítt og breitt um jafn viðfemt fjall og Grímmannsfell. Sannarlega þekkir maður það vel eftir svona túr.

Komin á hæsta punkt suðurhnúksins er kallast Kolhóll eða Hjálmur í 463 m hæð (456 m)

Vindurinn talsverður en skapið í lagi og töfrarnir til staðar fyrir þá sem einmitt nenna þessu í veðri sem þessu.

Kort af svæðinu skoðað og komist að því að vatnið til suðurs heitir Bjarnavatn.

Gengið svo niður í Katlagil til norðurs og sneitt framhjá gljúfrinu í botninum sem ekkert varð vestar og fóru þjálfari og fleiri því fýluferð á meðan Jón Ingi, Guðjón og Ingi fóru beint niður og yfir sprænuna án nokkurra vandræða.

Snjóskaflarnir lágu yfir læknum í óðaönn að leysast upp til vorsins en við bleyttum okkur ekkert og fórum bara hratt yfir.

Dásamleg sumarblíðan ríkti svo í Katlagili, skjól og logn, hiti og friður... annar heimur en uppi á heiðunum.

Kvöldsólin og vesturlandslagið skartaði sínu fegursta.

Gengið var með suðurhlíðum norðurheiðarinnar (Stórhóli) með Katlagil á vinstri hönd og var undirlagið mosi, grófir steinar og sléttir og möl.

Útsýnisstaðurinn í botni Katlagils þar sem katlarnir njóta sín vel.

Roar, Þuríður, Helga Björns, Ingi, Þorbjörg, Guðjón, Guðmundur Ólafur og Hjörleifur.

Gengið rösklega til baka að bílunum norður Helgadal með Kolhól í baksýn.

Gönguhraðinn hreinlega sést á myndinni... það var ekki bara brjálaður vindur þetta kvöld heldur líka brjálaðir göngumenn á ferð... kannski brjálæði að ganga í þessu roki og ekkert annað að gera en að ganga eins og brjálæðingur... best að hætta þessu brjálæðistali í bili...

Afráið var að fara ekki um hlíðarnar heldur með skóginum og veginn til baka og var einstaklega gaman að kynnast þessum heimi þarna, fallegur gönguslóði og gott að vera innan um trén.

Kistufell Esjunnar í fjarska undir árás hvítra skýja, kvöldsólarroðinn um allt og allir í góðum gír.

Strákarnir fjórir sem slepptu Kolhól skiluðu sér stuttu á undan síðustu mönnum. Heiðrún og Örn biðu þá enn en Þorleifur gaf Erni far í bæinn enda var hann frá af bakverkjum sem daginn eftir greindust sem brjósklos og ollu því að Hvannadalshnúkur er fyrir bí fyrir hann að sinni.

Kvöldið gaf af sér 11,4 km göngu á 3:35 klst. upp í 493 m hæð með 409 m hækkun.

Hverslags göslaragangur þetta var svona nokkrum dögum fyrir hnúkinn skal í engu svarað... þetta voru bara við... í dúndurformi að njóta þess að fara út á kvöldi sem jú var hvasst... en það var samt hægt að gera afskaplega gott út því og kynnast Grímmannsfelli eins og best er á kosið.

Kannski er fjallamennskan fyrst og fremst þetta... að gera það besta úr aðstæðum hverju sinni og láta ekkert tækifæri framhjá sér fara til að kynnast nýjum stað óháð öðru.

Hvannadalshnúkur framundan og veðurspá ekki með því besta... Göngum við ekki bara upp úr skýjunum og inn í sól og blíðu í toppanda þessa hóps sem alltaf er verðlaunað erfiðið sitt?

 

45. æfing var þriðjudaginn 22. apríl og mættu 14 manns á Hengilssvæðið við Hellisheiðarvirkjun í sæmilegu veðri sem rættist úr er leið á.

Lagt var af stað gangandi kl. 17:41 eða hálftíma fyrr úr bænum þar sem þjálfarar töldu þetta heldur tæpt fyrir kvöld á þessum árstíma við þungt færi, en um leið var æfingin áskorun og ætlunin að þetta yrði krefjandi æfing fyrir Hvannadalshnúksfara;  löng yfirferð á röskri göngu í þungu færi í kapphlaupi við birtu og tíma.

Frammistaðan þetta kvöld fór fram úr þeim væntingum sem gerðar voru til hópsins því ráðgert hafði verið að þetta myndi taka 4,5 - 5 klst. og þá allur hópurinn reyndar, en úr varð að helmingur hópsins tók alla leiðina á styttri tíma og skilaði sér til baka löngu áður en myrkur skall á.

Úrtölur borga sig sjaldnast og áræðni skilar sér ótvírætt!

Veðrið var kuldalegra við fjallsrætur í 317 m hæð en í bænum eða A9 og 6°C þó reyndar væri skjól þarna í botni Sleggjubeinsdals.

Gengið var upp að Sleggjubeinsskarði um mosa, möl og snjóskafla og var hækkunin heldur hressileg svona í byrjun á langri göngu.

Þegar upp var komið var leiðin greið og gengnir 3 km á einni klukkustund um heiðar Húsmúla með talsverðan móthliðarvind úr norðnorðaustri.

Komin áleiðis upp að skarðinu með Hellisheiðarvirkjunarsvæðið í baksýn, Stóra Reykjafell og Lambafell.

Slóðinn að Skeggja er vel mótaður og varðaður en þó er auðvelt að villast þarna eins og fimm toppfarar gerðu á laugardagsmorgni nokkrum í október s. l. þar sem ekki sásts milli stika og landslagið varð einsleitt í þykkri þokunni.

Þarna var skyggnið gott en þó þokuslæðingur á Skeggja og ekki hægt að sjá í hann eða hæsta hnúkinn frá skarðsmynninu við syðri enda Innstadals.

 

Miklar leysingar eru á Hengilsvæðinu sem óðum losar sig nú við vetrarbúninginn og eftir sátum við í drullunni upp á ökkla stundum þegar farið var yfir moldarmölina með frosti.

Mosinn er flottastur...

Rokið var hressilegt og sumum hætt að lítast á blikuna með að ganga alla leið að Skeggja, en aðrir voru einbeittir og vissu vel að þeir gátu þetta.

Klettar, brekkur, heiðar... Húsmúla.

Útsýnið var frábært þrátt fyrir talsvert skýjafar fyrri hluta kvöldsins en svo hreinsaðist mikið til og sólarlagið naut sín síðari hlutann.

Hér horft til suðvesturs yfir að Mosfellsheiði.

Litið til baka yfir syðri hluta Húsmúla.

Aðeins glittir í Skarðsmýrarfjall vinstra megin, svo Stóra Reykjafell, tindurinn á Litla Meitli, Stóri Meitill, Geitafell, Lambafell og svo bláfjallagarðurinn hægra megin með Vífilsfell enn lengra til hægri en ásýnd hans er falleg frá Húsmúla.

Það er mjög gefandi þegar gengið er á fjöll allt um kring á ákveðnu svæði að skoða mismunandi hliðar hvers fjalls fyrir sig. Hvert fjall hefur mörg andlit og það getur jafnvel verið erfitt að átta sig strax þegar horft er frá öðru sjónarhorni en áður.

Rokið var anzi hvasst á þessum kafla og erfitt að fóta sig á tímabili. Hvernig stóð á þessum vindhviðum?

Fallegu klettastríturnar á Húsmúla til norðvestvesturs sem virðast ekki eiga nafn, en það er mikil synd því þetta er magnaður staður í góðu veðri.

Gengum í hlíðinni og var leiðin nokkuð greið í leysingunum, frost að mestu farið úr slóðanum og leðjan eftir því.

Komið að dröngunum, sjá rennblautan slóðann.

 Rokið enn þó nokkuð þarna og aðgát því þörf við skarðið og ekki hægt að njóta útsýnisins með þessari ei stöku klettaumgjörð.

Hópurinn við stærsta klettadranginn að reyna að nærast aðeins í rokhviðum með heiminn að fótum sér...

Ágætis tilbreyting frá útsýninu úr mötuneytinu í vinnunni alla daga sem í besta falli gefur fjarlægja fjallasýn með manngerða steypu á milli...

Þetta er miklu flottari matsalur...

Stefán Heimir, Guðjón Pétur, Jón Ingi, Halldóra Þórarins., Halldóra Ásgeirs., Silla, Herdís Dröfn, Helga Björns., Ásta, Alexander, Ingi, Örn og Bára bakvið myndavélina.

Hjörleifur, hvar ertu?

Farið svo upp afganginn af strítunum á hæsta punkt Húsmúla sem mældist 707 m skv. gps en er skilgreindur 616 m skv. korti og Landmælingum Íslands.

Þarna var frostið að mestu farið úr jarðveginum í brattanum og gott að fóta sig, mun betra en t. d. í sumarþurrkinum sem ríkti árið 2007.

Gengið ofan af Húsmúla með Hengilinn sjálfan ef svo má segja framundan og Vörðuskeggja sem var alveg í skýjunum yfir þessum duglegu toppförum að heimsækja sig á slíku vorkvöldi sem þessu.

Hann reyndi sem mest hann gat að afsaka sig að vera ekki búinn að klæðast sumarbúningnum með því að fara mjúkum höndum um þessa sjö toppfarar sem gengu alla leið og nutu heimsóknarinnar því að fullu.

Hér voru snjóél og nístingskuldi í vindinum.

Hengilsfundur... Skeggjafundur...

Hér afréðu þeir sem rösklega geta farið yfir og voru ekki tímabundnir að halda áfram að Skeggja, hann var jú bara í rúmlega 2 km fjarlægð miðað við gönguleið (1,7 km í beinni loftlínu) og agalega freistandi að halda áfram...

Sólin enn hátt á lofti og fyrirséð að það yrði að mestu skjól á þeirri gönguleið sem framundan var í fjallasal og giljum sem liggja að hæsta tindi.

Reyndar þyngra færi með hæðinni í meiri snjó en hva, þá er bara að skóflast yfir eða renna sér á ofurhraða...

Hinir sneru við, ánægðir með það sem komið var, tæpa 5 km í mótvindi og stundum hávaðaroki í blautu færi og falleg gönguleið í farteskinu nú þegar.

Þeir sjö sem héldu áfram tóku við myndavélinni svo afrita mætti æfinguna alla leið og þar með grét Bára í bakaleiðinni yfir öllu myndefninu sem bar við appelsínugulan kvöldhimininn í bland við bláma himins og hvítu skýjahnoðranna... grænku mosans, brúnku malarinnar og svertu klettanna... 

Landslagið er nefnilega annað þegar snúið er við og ásýndin oft allt önnur...

Þó skemmtiegast sé að ganga hring almennt á göngu er oft annar heimur í bakaleiðinni...

Landslagið skiptir um ham eftir sjónarhorni, birtu, tímasetningu dags, veðri, færð, árstíma, jafnvel ferðafélögum sem hafa mismunandi skynjun á umhverfinu og smita út frá sér...

Hjörleifur hér að stíga upp Skeggja með Innstadal í baksýn.

Vörðuskeggjafararnir sjö:

Stefán heimir, Herdís Dröfn, Ásta, Guðjón Pétur, Hjörleifur, Ingi og Örn.

Örn var svo vindrokinn við myndatökuna að fókusinn náðist ekki betur. Vindhviðurnar voru hvassar þetta kvöld.

Magnað útsýnið ofan af Skeggja til Þingvallasvæðisins með Stefán Heimni í forgrunni.

Hann gekk á snjóþrúgunum á hluta af bakaleiðinni sem eru snilldargræjur á þessum árstíma eftir vetur sem þennan.

Pása við tindinn á Skeggja.

Hávaðarok var eingöngu á tindinum og miklu betra útsýni en tilefni gafst til miðað við ásýndina frá Húsmúla, enda hreinsaðist svo alveg til þegar þau voru snúin til baka.

Við hin sem gengu rösklega til baka þessa stundina sáum vel til tindanna frá Sleggjubeinsskarði en ekkert í félagana okkar... þau væntanlega of smá í fjarlægðinni.

Örn hringdi ofan af tindinum innan við mínútu eftir að Bára hafði sagt við göngufélagana að "nú væru þau örugglega komin upp" og var gaman að heyra frá þeim.

Hugskeyti virkar greinilega jafnvel og gsm...

Útsýnið af skarðinu við Skeggja til vesturs og skýjafarið sem létti svona á sér þegar leið á kvöldið.

Bakaleiðin í klettum og snjósköflum, sólarlagi og góðum félagsskap.

Það var stemmning hjá Vörðuskeggjaförum sem voru hæstánægðir með afrekið.

Snjóskaflast niður að Innstadal.

Lækjarsprænurnar að koma undan fannferginu.

Herdís Dröfn, Stefán Heimir, Ingi og Hjörleifur.

Guðjón fór niður með lækjunum og virti betur fyrir sér leysingarnar.

Á háhitasvæðinu sem þarna er bráðnar snjórinn sums staðar neðan frá og það getur verið varasamt að ganga þarna um.

Fyrri hópurinn lenti í slíku rétt áður en komið var í bílana þar sem Silla og Alexander stungust upp í klof og gripu í tómarúm þar undir. Fyrst fór Silla og þegar Alexander ætlaði að hjálpa henni stakkst hann líka á kaf og Helga Björns kom til hjálpar? ath.

Er enda mælst til þess á sumum svæðum að fylgja eingöngu slóðanum því hitinn getur verið banvænn þar sem heitast er.

Æfingin skilaði af sér 4:10 klst. um 12,6 km langa leið upp í 814 m hæð hjá Vörðuskeggjaförum sem helmingurinn af hópnum afrekaði en hinir sjö gengu Húsmúlann þveran og endilangan á 9,1 km göngu á 3:09 klst. upp í 707 m hæð (skv. gps / 616 m skv. LMÍ).

Frábært kvöld í fjölbreyttu en svolítið vetrarlegu landslagi og veðri sem fór úr kulda, roki og smá éli á kafla í fallegt kvöldsólarlag og friðsælt logn í meðvindi bakaleiðarinnar.

Allir mættir mega vera ánægðir með góða nýtingu á kvöldi sem þessu við þær aðstæður sem þarna voru.

Hengilsvæðið bíður okkar síðar í sumarlegra landslagi og fjölbreyttum leiðum. Enn einu sinni kynntumst við heilum heimi út af fyrir sig og er þessi einstakur fyrir hlýja liti jarðhitans, fjölbreytileika hrikalegra klettanna og útsýnisstað sem fátt jafnast á við.

 

44. æfing var þriðjudaginn 15. apríl á Geitafell og Litla Sandfell við þrengslin og mættu 26 manns.

Þar af voru Þórunn, Ölver og Mirek að mæta á sína fyrstu æfingu en Mirek gekk þó með okkur á Syðstu-Súlu í október s. l.

Einnig voru með í för Einar, 7 ára og hundurinn Bjartur, en það má spyrja sig hvort nokkur sjö ára Íslendingur sé að fara jafn miklar fjallgöngur og Einar hefur verið að gera frá því síðasta haust.

Veðrið var gott, hálfskýjað, SA og 6°C en snjór yfir öllu eftir snjókomu síðustu daga og vetrarlegt á svæðinu.

Lagt var af stað kl. 18:06 og fór hraðari hópurinn upp Litla Sandfell (295 m) en hinir tóku stefnuna á Geitafell sem var í 3,5 km fjarlægð og því ágætis upphitunargöngutúr.

Litla Sandfell hér í baksýn og glittir lengst vinstra megin í síðari hópinn að koma niður.

Gengið var að mestu í snjó sem ekki var svo djúpur né þungur miðað við margar göngur okkar í vetur enda hlýindi og sólin iðin við að bræða þetta burtu með vorloftinu.

Gjótur eru á svæðinu sem voru auðvitað huldar snjófargi og urðu nokkrar á leið hópsins.

 Hjörleifur skaust niður í klof á útleiðinni og Örn í bakaleiðinni og var þetta heldur óásjálegt þegar Örn sópaði ofan af þeim sem þeir rákust ofan í.

Fyrri hópurinn hér með Geitafellið framundan og Litla Sandfell að baki.

Tveir góðir saman

Bjartur og Einar léku á als oddi.

Brýnt var fyrir Einari að fylgja hópnum vegna þessara gjóta en það gat nú verið erfitt þegar maður eru sjö ára og hundurinn að ærslast með manni...

Gengið upp Geitafell austan megin.

Brekkan í byrjun var brött en holl fyrir þolið...

Pása með nesti eftir bröttu brekkuna.

Komin í 316 m hæð og eftir voru því 197 m upp og 1,5 km. áfram.

Hvannadalshnúkur í umræðunni.

KLettahnúkarnir á Geitafelli.

Gengið með hlíðinni og upp hinum megin en færið var mun betra þetta kvöld en fyrir tveimur vikum í könnunarleiðangri þjálfara. Þá var minni snjór á svæðinu, frost og hálka eftir langvarandi frost.

Skýjafarið var fallegt með sólarlagið í vestri.

Gengið uppi að næst hæsta tindinum framundan.

Fallegir klettar þarna og frábært útsýni þó skyggnið væri ekki nógu gott þetta kvöld.

Pása við klettinn norðan með sem er synd að ekki skuli vera hæsti punktur þar sem hann er fallegasti staðurinn á fellinu.

Gengið að hæsta punkti í vestri þar sem auðvitað var hráslagalegast... hávaðarok og kalt eins og vanalega á toppnum.
Galvaskir Geitafellsfarar:

Efri frá vinstri:

Þórunn, Guðmundur, Stefán Jóns, Guðjón, Helga Sig., Hjörleifur, Íris Ósk og Mirek.

Neðri frá vinstri:

Bjartur (sést aðeins í afturfæturnar), Þóra, Klara, Halldóra Á., Roar, Jón Ingi, Þorleifur, Einar, Ingi, Örn, Soffía Rósa, Kristín Gunda, Guðmundur Ólafur, Helga Björns. og Bára bak við myndavélina.

Á mynd vantar Grétar Jón, Þorbjörgu og Ölver sem sneru við á Litla Sandfelli og fóru aukaferð þar upp með tilheyrandi renneríi til að koma Ölveri á snjóbrekkubragð Toppfara en ekki bara fjallabragðið...

 

Gullfallegt skýjafarið naut sín það sem eftir leið ferðar þar til fór að rökkva.

Einar fékk far með pabba á bakinu öðru hvoru enda ekkert stuð í göngu á jafnsléttu...

Ingi var okkur til samlætis og hópurinn svo framar.

Skálafell á Helliheiði í gyllru sólarlagi og skýjahnoðrar á toppnum.

Mögnuð sýn.

Skáhalt niður brekkuna aftur og ráð að passa Einar.

Þeir runnu svo aðeins niður Ingi og Einar en fóru ekki langt.

Kvöldsólarlagið í vestri en við austan megin og sáum þetta bara undan brúnum Geitafells.

Svona umhverfi hlýtur að bæta sál og líkama.

Tunglið komið á stjá...

Það var komið kvöld og fljótlega fór að skyggja...

Bungurnar niður af fellinu suðaustan megin.

Hópurinn mun framar - sjá vinstra megin í snjónum og fleiri hópar þar á milli á leiðinni.

Litla Sandfell í órafjarlægð framundan, Litli Meitill þar fyrir aftan og svo Stóri Meitill og Lambafell lengst til vinstri.

Stóra Sandfell o. fl. hægra megin við Litla Meitil og svo Skálafell á Hellisheiði.

Þetta kemur smám saman... við endum á því að ganga á öll þessi fjöll og þekkja landslagið allt um kring.

Hópurinn kominn niður brekkuna og á jafnsléttuna með stefnuna á Litla Sandfell... sjá línuna vinstra megin á mynd.

Brekkan stórskemmtilega sem við skrikuðum eða renndum okkur niður.

Mikið spjallað og notalegt að ganga svona á jafnsléttu fyrir og eftir fjallgöngu.

Komum í bílana kl. 21:31 síðustu menn eða eftir 3:25 klst. göngu en fremstu menn voru 3:12 klst. allan túrinn og fóru Guðjón og Soffía t. d. aftur upp Litla Sandfell í bakaleiðinni.

11,4 km að baki Sandfellsfara en 11,0 km hjá þeim sem gengu eingöngu á Geitafell. Hæðin 513 m og hækkunin 297 m en með Litla Sandfelli 295 m og hækkunin 82 m.

Dásamleg kvöldstund í fallegu skýjafari ogágætis veðri og færi... vorvetrarlegu ef svo má kalla.

Þetta er annar heimur þarna úti.

 

43. æfing var á Litla Meitil í Þrengslunum þriðjudaginn 8. apríl og mættu 15 manns, þar af tvær nýjar, þær Klara og Þóra og til viðbótar hann Einar, 7 ára og Ester tæplega 3ja ára.

Þá var hundurinn Bjartur með í för og var gaman að fá hund aftur á æfingu en þeir hafa varla sést síðan síðasta haust, nema Bella tvisvar í vetur.

Veðrið var frábært í upphafi æfingar eða sól og blíða, A4 og 3°C... en við  enduðum í skýjuðu veðri og snjókomu...

Það var sól og sumar í bænum og síðasta laugardag á Eyjafjallajökli en þegar við ókum austur og í þrengslin var farið þangað sem vetrarríkið er enn við lýði. Snjór yfir öllum fjöllum og skaflar niður hlíðarnar.

Lagt var af stað kl. 18:09 og gengið í norður upp ljúfar bungur Litla Meitils sem gera gönguna skemmtilega þar sem nýtt landslag tekur við á hverju barði með vaxandi útsýni og aldrei illkleift.

Eyjajökulsfarar voru auðvitað óðamála í viðrun á síðasta laugardegi og allir alsælir með ótrúlegan dag.

Þrátt fyrir þann langa dag voru allir í góðum göngugír og engin eftirköst að ráði.

Útsýnið til suðsuðvesturs að Litla Sandfelli (295 m) og Geitafelli (509 m)sem eru á dagskrá viku síðar, 15. apríl.

Sólin enn að gylla allt umhverfið en skýjað til austurs.

Pása í einni brekkunni.

Færið var gott mest alla leiðina, mjúkur mosi og grjót í möl, snjóskaflar og snjóbrekkur en þær áttu eftir að flækja málin aðeins þegar farið var niður hinum megin.
Útsýni til allra átta og gaman að vera smám saman að kortleggja landið kringum höfuðborgina á æfingunum svo landslagið verður sífellt kunnuglegra og nafngreinanlegra.
Til suðurs yfir til Þorlákshafnar.

Eyjafjallajökull austar í skýjahulu því miður.

Ingi var röskur upp þennan klett með Ester á bakinu og fékk örugglega toppþolæfingu út úr þessari brekku.

Nestispása á toppnum.

Skýin tekin við og sólin farin.

Sátum þarna í næðingnum og nenntum ekki einu sinni að finna skjólbetri stað, bara farin að aðlagast íslensku veðri og látum okkur bara hafa það... vitum að okkur hitnar um leið og við göngum af stað.

Plön um að panta vindhelda skel frá Cintamani  sérmerkta fyrir Toppfara, helzt fyrir hnúkinn. Allir sammála um að það sé sniðugast að panta slíka flík fyrir sumarið.

Á niðurleiðinni norðan megin tóku brattar snjóbrekkur við og var reynt að finna skaplegustu leiðina fyrir alla í hópnum.

Harðfenni talsvert svo það var ráð að passa Einar sem var sleipur eins og áll og fór strax að renna niður brekkuna. Ingi tók það auðvitað að sér og endaði með hann í fanginu...

Þjálfari var svo heppinn að fá lánaða myndavélina hennar Þorbjargar á æfingunni þar sem gleymst hafði að hlaða hina eftir jökulinn... en kunni nú ekki mikið á þessa sem krafðist stillinga og tók þjálfari því ekki góðar myndir, sumar hreyfðar og birtan ekki nýtt vel í ljósaskiptum.

Takk fyrir lánið Þorbjörg, án þess væru engar myndir til af æfingunni.

Bjartur dansaði glaður fram og aftur um allan meitilinn í snjónum og var hvergi smeykur.

Einar reyndi að ná til hans en hann var nú ekki alveg á því svona almennt...

Heldur dreifðist úr hópnum á þessu kafla þar sem Hanna hafði sleppti tindinum og farið til móts við hópinn vestan með og voru menn ólmir að koma til móts við hana sem fyrst. Það getur farið um mann einsamall á ókunnum slóðum.

Menn hjálpuðust að, Ingi, Stefán Heimir og fleiri aðstoðuðu við að bera Ester í fanginu, Helga tók bakpokasætið og kunni litla prinsessan nú bara vel við þetta ókunna lið sem gaf henni kex og hélt henni og stóra bróður á háhest og allt!

Gengið niður brekkurnar til suðurs um gilið vestan megin sem er gullfallegt að sumri til, en naut sín ekki í þetta skiptið í þungskýjuðu veðri og snjósköflum.

Sjá Einar og Guðjón upp á klettinum. Einar skellti sér þarna upp með aðstoð Guðjóns sem var ekkert skrítið, bjargið bauð upp á svoleiðis ævintýri fyrir hraustan strák.

Betri klettamynd náðist því miður ekki af klettaklifrurunum í myndavélarvandræðunum.

Í bakaleiðinni voru Örn, Ingi og Heiðrún þau einu sem héldu sig við planið og gengu að Votabergi, en vonandi komum við því við næst, það er þess virði að skoða þessa mögnuðu náttúrusmíð sem seitlar sífellt af vatni.

Á lokasprettinum var komin snjókoma og þungskýjað yfir umhverfinu.

 Hvað var eiginlega í gangi?

Ekið var svo í bæinn þar sem veðrið var mildara...
...en svo snjóaði um kvöldið og daginn eftir...
...og svo kom sólin aftur...


Þessar umhleypingar!

Æfingin skilaði 5,7 km göngu  á 2:23 klst. upp 270 m í 482 m hæð.

 

Örn, Ester Þorleifur, Þorbjörg, Guðjón, Íris Ósk, Hanna, Hjörleifur, Stefán...
Stefán Heimir, Helga Sig., Ingi, Einar, Heiðrún, Klara og Þóra...  í lok æfingar með Meitilinn í snjókomu.

Takk fyrir góðan göngutúr á mörkum vors og vetrar.

 

42. æfing var þriðjudaginn 1. apríl á Húsfell í Hafnarfirði og mættu 18 manns, þar af hún Kristín 11 ára sem er dugleg að safna fjöllum, Þórey gestur og gamall félagi frá í sumar sem er að koma inn aftur, hann Jón Ívars... og Kristín Gunda náði hópnum svo á göngu.

Veðrið var fallegt og lygnt en svalt; hálfskýjað, A5 og 3°C.

Skuggar smalamanna eins og Heiðrún orðaði það hér með hópinn að nálgast Valahnúka...

Gengið var frá Kaldárbotnum sunnan við Valahnúka með Helgafellið á hægri hönd og gengið upp á hnúkana miðja þar sem Örn stefndi á stríturnar fallegu austan megin.

Í fyrrahaust gengum við eftir Valahnúkunum endilöngum og klöngruðumst niður kletta sem ekki hentaði öllum þó hollt væri þeim sem tókust á við það.

Við ákváðum að láta það vera í þetta skiptið, þar sem von var á einhverri hálku. Tökum þá leið kannski í haust og förum þá gegnum Valaból sem skartar sínu fegursta á sumrin.

Valahnúkar mældust 208 m háir á gps (hækkun 122 m) og er freistandi að telja þá  með í tölfræðinni svo þeir flokkast sér hér með.

Útsýnið var ægifagurt á þessu kvöldi. Heiðskírt til norðurs og austurs en skýjað sunnan og vestan með.

Landslag hnúkana skákar bæði Helgafelli og Húsfelli... þetta er alltaf spurning um gæði en ekki magn...

Páll, Þórey, Hjörleifur, Guðjón, Soffía Rósa, Guðbrandur, Íris Ósk, Þuríður, Ragnheðiur, Kristín, Stefán Heimir, Örn, Ingi, Heiðrún, Helga Sig., Jón Ívars og Bára tók mynd. Kristín Gunda ekki búin að ná hópnum þarna.

Klettastrítur Valahnúka með Bláfjöllin, Þríhnúka, Grindaskörð, Bollana og Lönguhlíðar í baksýn.

Bláfjöllin austan með og Lönguhlíðar vestan með. Grindaskörð og Bollar á milli. Verkefni okkar síðar í vor...

Gengið af Valahnúkum að Húsfelli, sem er enn í talsverðri fjarlægð,
tæpa 2 km. í burtu...

Sólin skein skært þennan dag og kvöld í nyrðri byggðum borgarinnar og fengum við eitthvað af henni á þessu svæði, en ekki mikið þar sem skýin höfðu náð að hrannast upp sunnar.

Gengið var um möl og mosa og kulnað kjarr í vetrarhörkunni sem enn ríkir  þarna, á leiðinni að Húsfelli og voru fjöllin innar í landi öll mun meira snjóug niður í neðstu fjallsrætur.

Pása svo í neðri hlíðum Húsfells.

Eyjafjallajökull á spjalldagskránni... flestir á leiðinni þangað og veðurspáin góð...

Skyldum við enn einu sinni vera ljónheppin?

Uppgangan var aðeins brött í skriðunum neðst en svo fallega óraunveruleg um kletta og klappir eins og á Helgafellinu og styttri og auðveldari en sýnist í fyrstu.

Komin á toppinn með 360° útsýni í tærri mynd vetrarsvalans.

Óteljandi mörg fjöll fyrir fótum okkar sem við höfum gengið á eða stefnum á...

Snæfellsjökull t. d. sólarrauður við sjóndeildarhringinn... nú vitum við allt um þessa tvo hnúka  þarna á toppnum... þekking í forréttindaflokki.

Logn og þægilegt en fyrstu menn kólnuðu fljótt í svalanum.

Mikið spjallað og hópurinn sífellt að kynnast betur.

Heiðrún á toppnum...

Ein af þeim sem byrjuðu síðla vetrar og hefur ekki misst úr æfingu síðan. Þannig eflast menn hratt og halda sér vel við efnið. Hún er komin á fjallabragðið...

Esjan í baksýn en myndavélin sýnir engan veginn þetta kristaltæra útsýni sem þarna var.

Gengið niður af Húsfelli með Helgafell framundan og Valahnúkana dreifða þar framan við (norðan við).

Gengið var fremur rösklega til baka og dreifðist vel úr hópnum enda margir orðnir nautsterkir göngumenn.

Æfingin skilaði rétt tæpum 9 km. (8,95) á rúmum 2:45 klst. síðustu menn, upp í 300 m. hæð skv. gps með 214 m. hækkun, en með Valahnúkum og hólnum við Húsfellið var hækkunin samanlagt 493 m.

Fínasti göngutúr fyrir Eyjafjallajökul sem býður okkur í heimsókn eftir fjóra daga...

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is