Tindferð 211
Krossfjöll, Tjarnarhnúkur, Lakahnúkur og Hrómundartindur
þingvallafjöll nr. 43, 44, 45 og 46 árið 2020
laugardaginn 12. desember 2020
Krossfjöll Tjarnarhnúkur Maður hefur ekki lifað sem Toppfari... ... fyrr en maður er búinn að fara í tindferð sem er mörgum kílómetrum lengri en áætlað var... nokkrum klukkustundum lengri en lagt var upp með... maður byrjar og endar sömu dagsgönguna í myrkri... er búinn að vaða ár um hávetur... uppgötva gullfallegar, nafnlausar náttúruperlur sem hvorki finnast í bókum né á kortum... klöngra brattar óþekktar leiðir í von um að þurfa ekki að snúa við... vera með þjálfurum í að leita að nýjum leiðum um fáfarnar slóðir sem fáir ef nokkrir hafa farið um áður... ... vera alveg búinn að fá nóg en samt ennþá mjög langt í bílana sem sjást hvergi og maður kemst að því að maður getur samt gengið í nokkra klukkutíma í viðbót... vera alveg búinn á því og farinn að hugsa þjálfurum þegjandi þörfina en verða svo innilega þakklátur þeim þegar maður er loksins kominn í bílinn... vera búinn að missa af kvöldmatnum, tónleikunum eða boðinu sem maður ætlaði í eftir gönguna... koma svo þreyttur heim að maður nennir varla í sturtu... finnast að gangan sem er að baki ætti að fara í fréttirnar, hún var svo rosaleg... steinsofna eldsnemma í sófanum á laugardagskvöldi og missa alveg af kosýkvöldinu... ... vakna lúinn, sár og teygður daginn eftir en finnast það vera sæluhrollur... vera svangari en venjulega allan sunnudaginn... vera sífellt að melta alls kyns atvik úr göngunni sem safnast stöðugt upp í huganum og gefa nýja vinkla og perlur í minningabankann... ganga um ölvaður af fjallasælu dögum saman og þrá meira af sama skammti... spá í hvort þetta hafi nú verið sniðugt ha... og komast að því að erfiðleikastigið gaf manni meira... þreytan, tíminn, vesenið var margfalt þess virði... upplifunin stærri en allt sem er í boði innan borgarinnar... ... langa strax í næstu ferð... og standa sig sífellt að því að vilja aftur nákvæmlega þessa orkutæmingu... þessa taugastrekkingu... þessa algjöru þenjun á líkama og sál sem gefur eitthvað meira en allar venjulegu göngurnar þar sem á vísan er að róa og allt stenst í áætluðu ferðaplani... Mikilvægast af öllu er að vera þakklátur... og glaður... og góð hvert við annað... Sem sé EKTA Toppfaraganga ! Take it or leave it ! :-) Jamm... svo voru mörg þau orð... sem þjálfari skrifaði daginn eftir þessa ferð... sem tæmdi allt úr okkur... og gaf svo mikið... þrátt fyrir frekar óspennandi færi... erfiðan árstíma... og lág fjöll þannig séð... Veðurspáin var ekki spennandi þessa helgi... mikill vindur dögum saman... alla helgina... og við spáðum í hvort sunnudagurinn væri skárri... en svo reyndist ekki vera þegar nær dró helginni... svo við létum slag standa... og lögðum í hann... vitandi að sumarhitinn og sumarfærið væri með okkur... en þegar á hólminn var komið var lítill vindur þennan dag nema rétt jú ofan á Tjarnarhnúk kannski... og mun hvassara í bænum bæði um morguninn en sérstaklega um kvöldið... sem var samkvæmt spánni... Við ákváðum að leggja af stað úr bænum kl. 9:00 í stað átta... til að ná okkur í dagsbirtu í byrjun göngunnar þar sem við vissum af hættulega heitum lækjum rennandi í byrjun göngunnar... og þar sem veðrið var ekki spennandi vissum við að það yrði erfitt að leggja af stað gangandi í miklum vindi og myrkri... það yrði skárra í birtu... en svo var lítill vindur reyndar á Nesjavöllum þegar þangað var komið um morguninn... þegar við lögðum af stað við Adrenalíngarðinn kl. 10:03...
Þjálfarar höfðu skoðað svæðið um daginn og spáð í leiðarval og ákveðið að fara frekar frá þessum stað en norðar við endann á Stangarhálsi en þaðan er líka hægt að ganga og smá afdrep fyrir bíla... en engin leið að hópaskipta 2 x 10 bílum eða svo þar sem við fórum í tveimur hópum í þessa göngu... og því var lendingin að fara frá Adrenalíngarðinum að fengnu leyfi Nesjavallavirkjunar sem þjálfari hringdi í fyrr í vikunni til að fá fá í leiðinni upplýsingar um svæðið... viðmælandanum þótti mikið til koma að hópurinn ætlaði alla leið á Hrómundartind núna í desember... og við vorum sammála um hversu ægifagurt þetta svæði er... en það kom okkur enn meira á óvart eftir þessa göngu... Nesjavallavirkjun öll uppljómuð í morgunbirtunni... með Hengilinn og Vörðuskeggja í baksýn... þar upp ætlum við næstu helgi frá Hellisheiðarvirkjun... Stangarháls var fyrsta brekka dagsins... en þær urðu ansi margar þegar degi lauk... Stangarhálsinn er ansi langur frá suðri til norðurs og endar við hringveginn kringum Þingvallavatn... Sjá hér Botnssúlurnar og Ármannsfell handan vatnsins... Við fylgdum til að byrja með stikuðum stíg og slóða... en fórum svo af honum þar sem við ætluðum upp í fjöllin en ekki um svæði Nesjavallavirkjunarmanna... Mjúkur snjór og frábært færi á þessum árstíma... Hópaskiptingin var Örninn með 8 manns og Báran með 9 manns... Vel gekk almennt að halda hópunum í tvennu lagi... en þetta var í annað sinn sem við gerðum þetta og því ekki búin að slípa þetta nægilega til... en mistök aftari þjálfarans var aðallega þau að fara of nálægt hóp 2 og vera sífellt komin í skottið á þeim fyrr en varði... en samt gætandin þess að halda rúmlega 2ja metra fjarlægð sem féll ekki vel í kramið hjá öftustu mönnum í hópi 1... og við einsettum okkur að passa þetta mun betur í næstu ferðum... sem var Akrafjall þriðjudaginn á eftir en þar voru hóparnir með mjög löngu bili á milli allt kvöldið sem var mun betra... en þetta er vandmeðfarið og ógnar öryggi að hluta til... svo vonandi náum við að læra af reynslunni og fínpússa þetta vel fyrir næstu ferðir... Milli Stangarhálss og Krossfjalla er fallegur dalur sem heitir Þverdalur... þar renna penir lækir sem voru ísilagðir að hluta... ... og við færðum okkur þá ofar á ísinn í hópi tvö og komumst yfir án þess að lenda í vandræðum... Innar í dalnum var svo annar lækur... hann var léttari yfirferðar en sá fyrri... Uppi á þeim fjallsás gátum við ekki betur séð en að Krossfjöll væru sunnar og ofar... og stefndum þangað... ... en í leiðinni fengum við okkur nesti eftir leit að skjóli... sem var nokkuð hér ofan í gilinu... þarna tókum við smá pásu og nærðumst í hálfgerðum næðingi... en þetta var nauðsynleg og góð orkuáfylling... Sjá klettinn hér í miðjum fjallsrana Krossfjalla... glæsilegur... hann var það sem við stefndum að... en okkur grunaði að það væri hærra ofar í landinu... sem reyndist rétt... og því er þetta ekki hæsti tindur Krossfjalla... Hann var ofar og við héldum því áfram upp eftir til suðurs... Hrómundartindur hér vestan megin að sjá... og Ölfusvatnsáin þarna niðri rennandi... Litið til baka... með Mælifellið marghnúka í baksýn... Hæsti tindur Krossfjalla hér framundan... Stapafellið og Súlufellið hér í fjarska... Krossfjöll mældust 574 m há... Við stöldruðum stutt við á Krossfjöllum og héldum niður í dalinn Tjarnarhnúkur og Lakahnúkur eru ansi klesstir upp við Hrómundartind enda fannst þjálfurum á sínum tíma þegar þeir fóru könnunarleiðangur á Hrómund árið 2008 að það væri fáránlegt að taka ekki þá tvo með... Gunnar Bjarna var sömu skoðunar... en hann var á hraðferð þennan dag þar sem hann þurfti að ganga á Stapafell og Mælifell í leiðinni til að nýta ferðina... og sú staðreynd dró ekki úr honum að fara á þessa tvo tinda líka... þrátt fyrir að kvenþjálfarinn reyndi að sannfæra hann um að þeir "tilheyrðu varla Þingvallafjöllunum þar sem þeir væru eiginlega trónandi yfir Ölkelduhálssvæðinu frekar en Þingvallasvæðinu"... sem voru rökin sem við vorum með fyrir okkur sjálft til að sætta okkur við að sleppa þeim eftir að það varð ófært inn að Hrómundi nema frá Nesjavallavirkjuninni... því það var upphaflega planið að fara á þessa þrjá í nóvembersumarfæri og spá í það þegar upp væri komið hvort við gætum talið þá sem Þingvallafjöll... en Gunnar sagðist ætla á alla þrjá, það tæki því ekki að sleppa þeim... og þegar þjálfarar sáu leiðina upp á Hrómundartind frekar bratta beint upp... á meðan það var þessi fína leið aflíðandi á Tjarnarhnúk... þá ákváðu þeir að gera það sama og fóru í humátt á eftir Gunnari eftir að allir voru búnir að vaða ána... takk Gunnar ! :-) Hér varð ljóst að við komumst ekki undan því að vaða... áin var ekkert frosin... og orðin ansi vatnsmikil þó við værum komin ofar í landslagið enda safnar hún úr nokkrum ám ofar í landinu... Gunnar var hér farinn á undan okkur og óð ána á meðan við skiluðum okkur niður... Menn fundu sinn stað til að vaða... hver langt frá öðrum í bjástrinu við að klæða sig í vaðskó... sem var fínt á þessum fjarlægðartímum... Gunnar kominn yfir... hann var enga stund að koma sér upp í fjöllin... Hópur tvö að skila sér niður... og hópur 1 byrjaður að vaða... Vaðið var nokkuð svipað alls staðar... hvergi djúpt og mest neðan við hné... Áin var furðulega hlý... þetta var undarlega létt vöðun... enda hlýtt og lygnt þarna... Maður hefur ekki lifað sem Toppfari... fyrr en maður er búinn að vaða ár að vetri til... Þetta var dásamlega frískandi ! Hópur tvö farinn nokkuð á undan hópi eitt... ... en svo náðum við þeim í brekkunum upp á Tjarnarhnúk... kvenþjálfarinn gleymdi því alltaf að við værum ekki saman... ... en við reyndum eins og allir gera á kóftímum... að fara eftir öllum reglum eins og manni frekast er unnt... Gefandi samvera og líflegar samræður... hlátur og skoðanaskipti... spekúleringar og ferðaplön... yndislegt ! Kolbeinn og Jóhanna Diðriks hér að koma upp í hópi eitt upp á Tjarnarhnúk... Tjarnarhnúkur var léttur uppferðar... Krossfjöllin hér í baksýn... Hér uppi kom rokið... líklega var þetta eini staðurinn þennan dag sem það blés eitthvað að ráði... Sólin var lág í suðri... og myndaði þessa gullnu rönd við sjóinn... Fanney sem kom í klúbbinn og er búin að taka hverja krefjandi gönguna á fætur annarri með stæl... Þetta var töfrandi stund þarna uppi á Tjarnarhnúk... hann mældist 526 m hár... ... og útsýnið var ótrúlegt... af þessum saklausa litla formfagra gíg... Ísland... best í heimi ! Reykjadalurinn þar sem Klambragilslaug... heiti lækurinn sem allir fara í... þarna niðri fyrir miðri mynd... Dalafell vinstra megin og Molddalahnúkar hægra megin... fjær er Skálafell á Hellisheiði... Til norðausturs voru okkar tindar... Lakahnúkur hægra megin... og Hrómundartindur vinstra megin... Hópur 2... til að tefja smá tímann og leyfa hópi 1 að fara niður í friði svo við værum ekki alltaf að ná í skottið á þeim... Sigrún Bjarna, Bjarnþóra, Steinar R., Bjarni, Silla, Haukur, Guðný Ester og Inga Guðrún en Bára tók mynd. Búin með tvo tinda af fjórum... þetta gekk vel... Hvílíkt sjónarspil þennan dag í birtunni... þessi árstími er kyngimagnaður ! Nú þræddum við okkur upp eftir Lakahnúk... Kattartjarnirnar... Stóra og Litla... Búrfell í Grímsnesi fjær... Álftatjörnin svo sunnar og ofar í landslaginu... Landslagið á Lakahnúk er magnað... Stórskorið móberg sem gott er að ganga í... Hópur eitt var kominn á tindinn fyrst og við héldum okkur niðri í rólegheitunum og fórum svo aðeins neðan við tindinn í hópi tvö.... Þessi tindur er áhrifamikill sakir glæsilegs útsýnis... Þorleifur hér að fagna tindi þrjú af fjögur þennan dag... Aðdáunarverður göngumaður hann Þorleifur... Eðalkonurnar Bjarnþóra og Inga Guðrún... Töfrarnir nást ekki á mynd... sjá glitta í hóp 1 fara hér niður bak við klettana hægra megin... Örn freistaði þess að fara hefðbundna leið okkar niður gilið og halda hæð með því að vera í hliðarhalla utan í Lakahnúk og fara þannig að Hrómundartindi... Áhyggjur kvenþjálfarans af færinu niður gilið voru óþarfar... hér var ekki snjóflóðahætta... Frá gilinu er svo klöngur í hliðarhalla utan í tindinum í stað þess að fara alla leið niður og svo upp aftur... Þetta tókst með ágætum... ekki snjóflóðahætta hér því snjórinn var almennt grunnur og stutt í bergið og mosann Litið til baka með Tjarnarhnúk hægra megin... Hrómundartindur hér í öllu sínu veldi við Lakahnúk... magnaður staður... Sama mynd fjær... til að ná fallegri birtunni beggja vegna... Litið til baka... Birtan og ,litirnir voru stórfenglegir þennan dag... Kjölur vestan við Búrfell á þingvöllum... Hér var ágætis veður til að byrja með og hópur 1 var byrjaður að fá sér nesti... Það var öruggast að hafa báða þjálfarana með upp þó annar hópurinn væri að fara fyrst... ... og því leiddi Örn upp eins og áður... ... en við hefðum betur farið í keðjubroddana eins og Bára var að spá í hér niðri... ... því á þessum litla kafla hér var smá glerjað færi í klettunum og betra hald í smá broddum... ... en þetta slapp og þeir sem neðar komu voru komnir í brodda þar sem við kölluðum á þau niðri að fara í þá... Broddafólkið komið af stað hér... Uppi var stórkostlegt að vera... við hefðum svo sem getað verið hér tveir hópar en þetta var samt gott því með þessu gátum við valsað um allt án þess að þurfa að gæta að því að víxlast ekkert milli hópa... Hvílíkt útsýni til Þingvalla... hér liggur allur fjallshryggur Hrómundartinds til norðurs... sem við höfum alltaf rakið okkur eftir á þriðjudagskvöldið þegar gengið er á þessa þrjá tinda og svo um Tindagilið til baka sem er töfrastaður... og við skulum fara um sumarið 2022... Sætur sigur ! Allir í sæluvímu með afrek dagsins... Inga Guðrún hér... ein af mörgum flottum kvengöngumönnum klúbbsins sem eru alveg að fíla erfiðleikastigið ! Botnssúlurnar og Búrfell í Þingvallasveit í sérstakri sólarbirtu... Hrafnabjörg, Þjófahnúkur, Hrútafjöll, Kálfstindarnir, Reyðarbarmarnir og svo Miðfell og Dagmálafell nær í sömu einstöku birtunni... Við gáfum okkur góðan tíma til að njóta hér... þetta var töfrastund... Ótrúlega flott að ná þessu um miðjan desember... Hópur 1: Haukur, Bjarni, Sigrún Bjarna, Silla, Bjarnþóra, Steinar R. og Inga Guðrún en Guðný Ester sleppti þessum tindi og Bára tók mynd. Við leituðum að sporum eftir Gunnar en fundum engin fyrst og höfðum áhyggjur af honum... sáum hann aldrei á göngu nema fyrst upp á Tjarnarhnúk... en svo sáum við sporin hans innar... hann virtist hafa farið upp austan megin... nú vantar alveg smá ferðasögu frá honum ! Súlufell nær... og Þrasaborgir fjær... Krossfjöllin... Hengillinn... leiðin okkar þennan dag... Sjá hvernig Ölfusvatnsáin liðasts meðfram Krossfjöllum... þarna verðum við að ganga um og skoða vel að sumarlagi... Katrín Kjartans og Guðmundur Jón sem komu á eftir okkur og voru ekki hluti af hópunum... Jæja... best að fara niður og leyfa hópi tvö að komast hérna upp... Það var vandasamara að fara niður en upp... og nú voru allir í broddunum sem skipti öllu... ... en flestir í hópnum eru fimir göngumenn og ekki lengi að koma sér niður svona kletta... Örn beið uppi eftir sínum hópi... og sagði öllu sínu fólki að fara líka í brodda áður en þeir færu upp... Sjá hér Lakahnúk hægra megin á mynd... glæsilegur fjallasalur svo ekki sé meira sagt... Hópur eitt löngu tilbúinn í tindinn og farin að bíða sem var ekki skrítið... það var kalt að bíða í skarðin með vindinn rúllandi á milli tinda... Meðan hópur eitt fór upp borðuðum við í hópi tvö... en veðrið var ekki gott... mikill vindur fór um skarðið og enginn friður var að borða í rólegheitunum... þjálfari leitaði skjóls í bakpokanum sínum með því að setja handleggina inn í svarta plastpokann sem er innan í honum... það er ótrúlega gott að gera það... Hópur tvö á hæsta tindi dagsins... og fjórða og síðasta... Hrómundartindi: Kolbeinn, Þórkatla, Fanney, Björgólfur, Elísa, Þorleifur, Vilhjálmur, Jóhanna D. og Örn tók mynd. Við vorum snögg að borða meðan hinir voru uppi...
... en þau gáfu sér líklega minni tíma en við til að vera uppi því miður... Sjá nærmynd af þeim að koma niður... rauðklæddir efst uppi... Við sáum fína leið beint niður af Hrómundartindi... þar sem engin klettabelti gætu flækt för... Snjórinn mjúkur í gegn og öruggur... Lakahnúkur og Tjarnarhnúkur þegar litið var til baka... Við renndum okkur niður nokkur hundruð metra... þetta var ein lengsta brekkan í sögunni... tvær brekkur með smá skotti á milli... og ef maður fór alla leið niður að gilinu þá var þetta orðið mjög langur kafli... Það er einhver mögnuð heilun við að fara svona rennandi niður snjóinn... ... við ærsluðumst eins og krakkar í snjóbrekkunum... Það er einhver sérstök heilun við að renna sér svona niður langar snjóbrekkur... ótrúlega nærandi... Sólarlagið var að byrja... Við áttum langan veg framundan til baka... yfir ána og nokkra fjallsása... Hengillinn í sólarlaginu... Þjálfarar freistuðu þess að fara beinni leið til baka í bílana sem þýddi aðeins öðruvísi leið en upp eftir... sem þýddi að við fundum þennan glæsilega steinboga sem lá yfir ána og gaf okkur sem klöngruðumst hann frí frá því að vaða... en þessi beina leið var brekkumeiri en leiðin um morguninn og eftir á að hyggja hefði verið betra að fara sömu leið til baka... en maður veit aldrei nema prófa... það er alltaf skemmtilegra að fara ekki sömu leið heldur einhvers lags hring... og ef við hefðum rakið okkur sömu leið til baka þá hefðum við misst af þessum steinboga... svo hvað það varðar þá var aukið erfiðleikastig í bakaleiðinni alveg þess virði að uppgötva þennan ævintýralega stað... Kolbeinn prófaði að klöngrast upp bogann... það var hugrakkt af honum... því það var engin leið að vita hvort hann gæfi eftir eða væri fær... hann fór varlega og komst yfir... Örn fór á eftir og flestir í hópi eitt... og svo nokkrir úr hópi tvö... ... en sumir völdu bara að vaða eða jafnvel fara á skónum hratt yfir með legghlífarnar yfir sem hindrar ansi mikið að vatnið nái inn í skóna... Já, hann var freistandi þessi steinbogi... Þórkatla og Fanney fóru á eftir Erni... vel gert stelpur ! Bára þjálfari að klöngrast yfir... þetta var ekki breitt... en vel fært og hægt að halda sér vel í klettinn... ... það var gott að vera kominn yfir sko ! :-) Menn völdu sér mismunandi leiðir yfir ána... Mergjaður staður... hingað komum við án efa aftur... Steinboginn ofan frá... Takk fyrir okkur Ölfusvatnsá... Hér skreið rökkrið inn... og við áttum langan veg eftir í bílana... Það dimmdi skyndilega frekar hratt... og við náðum í höfuðljósin... ... meðan hópur eitt hlúði að Þorleifi sem var farinn að glíma við lágan blóðsykur sem átti eftir að trufla hann það sem eftir var göngunnar... Flestir vanir myrkurgöngum með höfuðljós... það er orðið ansi létt að ganga með ljósin nú orðið... þau eru orðin að hálfgerðum flóðljósum og lýsa heilu dalina upp.... Þessi ganga var fjölbreytt... myrkrið bætti enn einum vinklinum við hana... Það er vandasamara að halda hópinn í myrkri... og um leið halda báðum hópum á sömu leið án þess að einhver verði viðskila... Allir orðnir þreyttir... og þjálfarar og hópurinn farinn að spá hvort þessi leið til baka væri ekki sú besta... hún virtist gefa fleiri brekkur en út eftir um morguninn... og þjálfarar sáu eftir því að hafa ekki elt bara eigin slóð frá því fyrr um daginn... en þegar við skoðuðum svo gps-sniðið af göngunni þá kemur í ljós að í raun fórum við minni hækkun og lækkun í bakaleiðinni... Myrkrið blekkti svolítið og ýkti erfiðleikastigið... þannig að léttar brekkur uxu okkur í augum... Á síðasta kaflanum var Gunnar mættur... búinn að ganga á Mælifellið og á Stapafellið eftir hina fjóra tindana... Rétt í lokin tókst okkur svo að taka ranga beygju þar sem við vorum að koma yfir Stangarhálsinn sem við þó leiðréttum fljótt Á þessum lokakafla var Þorleifur aftur að kljást við blóðsykurinn sinn en hann var svo lánsamur að fá að nýta ljósið frá Elísu þar sem hann var ekki með höfuðljós... en það er samt ekki gott að hafa ekki eigið höfuðljós til að lýsa nákvæmlega hvar maður er að stíga niður og það var nóg til þess að hann rann illa á svellinu niðri á láglendinu og fékk hnykk á bakið... en áfram hélt hann og áfram var gleðin við völd... aðdáðunarvert með meiru...
Það er meira en að segja það að halda tveimur hópur alveg aðskildum þegar komið er myrkur og við viljum vera á sömu leið... Allir lúnir og búnir á því... en himinlifandi með magnaðan dag... fjórir tindar... miklu meiri vegalengd og tímalengd en áætlað var... og hækkunin umtalsvert meiri en við áttum von á... vá, virkilega vel gert ! Bílastæðið var fullt af slabbi... svona er veturinn... en vandamálunum var ekki lokið... bíllinn hans Bjarna var dauður með öllu... og brást ekkert við rafmagnsgjöf frá þjálfarabílnum... svo hann var búinn að semja um far með þjálfurum í bæinn og láta svo sækja sig þaðan á Skagann... en þá kom Kolbeinn sem allt kann og skipti um rafhlöður í bíllyklinum... og bíllinn fór í gang... miklu veseni afstýrt... þökk sé Kolbeini sem þjálfarar tóku loforð af að hætta aldrei í Toppförum takk fyrir ! :-) Þjálfurum reiknaðist til að ganga dagsins væri alls 17,5 km á 8:18 klst. upp í 337 m á Krossfjöll, 526 á Tjarnarhnúk, 550 m á Lakahnúk, 574 m á Hrómundartind með alls 1.343 m hækkun úr 159 m upphafshæð... hvílíkur afreksdagur ! Með erfiðustu göngum ársins... Afreksdagur með aðdáunarverðu fólki sem naut þess í botn að gera þetta ! Gps-slóðin hér: Myndbandið hér:
|
Við erum á toppnum... hvar ert
þú?
|