Tindferð 209
Kálfstindar þrír tindar og eitt fell
laugardaginn 24. október 2020
Kálfstindar
3ja
tinda
leið
Fjallaveislan sem blasir við ofan af hæsta og nyrsta Kálfstindinn á Þingvöllum er engu lík... yfir Þingvellina alla og svo nær yfir Hrafnabjörg, Tröllatinda, Hrútafjöll, Tindaskaga, Skefilsfjöll, Skjaldbreið, Klukkutinda, Skriðu, Skriðutinda, Jarlhettur, Kálfstind hinn staka, Högnhöfða og Rauðafell... næst okkur... og svo 360 gráðu útsýni allan hringinn frá Keili til Heklu, frá Þórisjökli til Vestmannaeyja, frá Botnssúlum til Eyjafjallajökuls... óteljandi fjöll landsins allan hringinn... ... afreksganga með meiru í mjög krefjandi NA- vindi en hlýindum, auðu færi að mestu og mjög góðu skyggni .. þar til moldrok kom með vaxandi vindinum er leið á daginn... en þá vorum við á niðurleið... frh í seinni hópmynd dagsins sem var tekin til suðurs af hinum leiðangursmönnum dagsins...
...hinir leiðangursmenn dagsins... sýnin til suðurs eftir öllum fimm Kálfstindum Þingvalla ofan af hæsta tindi þeirra sem er nyrstur í um 900 m hæð... tindurinn Kleifur (okkar nafngift) sem var einnig genginn, Flosatindur þar aftar með klettótta nefið sitt (oftast genginn og þekktastur allra fimm Kálfstindanna) en hann var genginn í bakaleiðinni af helmingi hópsins... og svo illkleifir syðstu tveir í hvarfi... ... mjög krefjandi landslag á tvo eða þrjá bratta tinda og eitt Þverfell til viðbótar til upphitunar í byrjun... í miklum bratta á alla þrjá... einstaklega lausgrýttu landslagi sem reif verulega í og var erfitt yfirferðar með sviptivindana stöðugt lemjandi á okkur allan daginn... algert afrek að gera þetta...við tökum ofan fyrir leiðangursmönnum dagsins :-) Alls um 13 +/- km á 7,5 - 8 klst. upp í tæplega 898 m hæð með alls hækkun um 1.600m hæð... tölfræðin segir allt um erfiðleikastigið ! Ferðasagan í heild hér: Laugardaginn 24. október var mikill vindur í veðurkortunum... en hlýtt... úrkomulaust... og ekki von á mikilli hálku þó stefnt væri á tæplega 900 m háa tinda... svo áhættuþáttur dagsins var eingöngu einn hvað varðar veður... Sjá hér Kálfstinda blasa við gegnum framrúðu þjálfara á leið keyrandi að Þingvöllum... héðan sést vel hvernig innsti Kálfstindurinn er hvítastur og hæstur af þeim öllum... en þeir eru í raun sex talsins... Flosatindur er þeirra mest áberrandi frá Þingvöllum... sá með hornin tvö í suðurhryggnum... enda er hann oftast genginn og sá sem nefndur er í 151 fjalla bókinni sem margir eru enn að vinna eftir enda fengur mikill og án efa einn af stærstu þáttum þess að fjallgöngur jukust mikið síðustu tæpa tvo áratugi... Þegar keyrt er inn að Laugarvatnshelli frá Lyngdalsheiði blasa austurhliðar Kálfstinda við og hrikaleikur þessara bröttu, háu tinda er óumdeildur... Hér sjást fimm af sex Kálfstindunum... allir nafnlausir nema Flosatindur í miðið... í höfuðið á Flosa í Brennunjálssögu en við nefndum hina tindana á sínum tíma í fyrstu göngu Toppfara á Kálfstinda árið 2010 eftirfarandi: þann syðsta "Suðra"... svo "Illkleif" þar sem við vildum ekki útiloka á sínum tíma að það væri hægt að finna leið upp á hann... næstur er svo Flosatindur... og norðan við hann rís "Kleifur" sem við gengum á þennan dag 2020... og lengst hægra megin er sá hæsti af þeim öllu sem við nefndum "Norðra" ... og var líka genginn þennan dag... en ofan af honum lúrir saklaus fjallsbunga sem er í sömu röð og hinir Kálfstindarnir og verður að teljast með þeim frekar en öðrum fjallshryggjum á svæðinu... og því telst okkur til að Kálfstindarnir séu sex talsins alls... og við nefndum þann nyrsta þá engu nafni og sá hæsti svolítið rangnefndur þar sem hann er ekki þeirra allra nyrstur eftir allt saman... en skýring er sú að þá sáum við ekkert ofan af Norðra fyrir þoku... Malarvegur er alla leið að kjarrinu hér með hægri beygju af Laugarvatnshellisveginum og er hann fólksbílafær að undanskilinni smá holu á einum stað en þetta slapp með þá fólksbíla sem voru á ferð þennan dag... þessir fólksbílar geta meira en maður heldur ! :-) Við lögðum af stað gangandi kl. 9:18... í góðu skjóli neðan við ásana af Þverfelli... en hvínandi vindinn ofar og norðar... bíðandi eftir okkur... hér með Flosatind í baksýn... alls skráðu sig 20 manns í þessa ferð... fjórir hættu við, Anna Sigga, Gerður Jens, Jóhanna D. og Vilhjálmur... Björgólfur bættist við á föstudagskvöldið þegar afföllin voru byrjuð... og Agnar mætti við Össur án þess að vita hvort það væri pláss... og Marsilía sneri svo við þegar komið var upp á Þverfellið þar sem rokið gekk strítt gegn okkur í fangið og maður varð að vera með einbeittan gönguvilja og ansi viljugan kraft til þess að berjast áfram í þessu veðri til að geta haldið áfram... Syðstu Kálfstindarnir sem hvorugur hefur verið klifinn að því er við best vitum... Þverfellið varðar leiðina upp að Kálfstindum og við fórum bara yfir það eins og síðast... fyrsta brekkan upp og niður var því um þetta aukafjall dagsins... sem við töldum ekki með í Þingvallafjallaáskoruninni þar sem það er í algeru hvarfi frá Þingvöllum... Þverfellið mældist 356 m hátt... þar tók vindurinn á móti okkur hvass og einbeittur... en hlýr... og það var sumarfæri... og engin úrkoma... og gott skyggni... og því var eina verkefnið það að ganga gegn vindinum... við héldum þí ótrauð áfram og vorum alveg ákveðin í að ná þessum tveimur tindum sem hér blasa við svo nálægt að maður efaðist strax um að þetta yrði langur dagur... en það var ranglega áætlað... enda átti reynslan frá fyrri ferðum að vera búin að kenna okkur að þessir tindar eru tafsamir sökum bratta upp og niður þrisvar sinnum... Kleifur hér vinstra megin nokkurn veginn að birtast... og lengst í fjarska Norðri... brúnir fjallgarðsins svo hægra megin... Flosatindur hér svo fagur og svipmikill... fegurstur allra Kálfstindanna... og þeirra frægastur... Ofan af Þverfellið fórum við yfir kjarrið og lyngið að Káflsgili... Þórkatla tekur riddarann alla leið... búin að prjóna pils í sömu litum og mynstri og peysuna sína... Alger snilld og til eftirbreytni... prjónarar Toppfara... við höfum verk að vinna ! Kálfsgilið er mjög fallegt, grýtt, illfært, djúpt og þröngt... við lögðum ekki inn í það eins og árið 2011... þar sem jarðhræringarnar á Reykjanesi sátu enn í okkur frá því um daginn... enda var ekki ætlunin að fara þar inn hvort eð er... En það var ánægjulegt að skoða það ofan frá... Þarna fórum við inn um árið 2011... á snjósköflum með grjóthrunið ofan okkar í vorleysingunum...
Engin smá náttúrusmíð... ef maður bara gefur sér tíma til að fara inn og skoða... Haustið er snjólaust árið 2020... lítið sem ekkert látið á sér kræla sunnanlands fram í nóvember þegar þetta er skrifað... Við þveruðum gilið neðst... til að komast í brekkurnar austan við það... Skemmtilegt klöngur þarna og greinilegt að fleiri en við höfum verið á sömu slóðum... Uppi á brúninni... eftir nestistíma ofarlega í brekkunni í skjóli og góðu útsýni yfir suðurlandið... Brúnirnar ofan við kálfsgilið... tignarlegt og ægilegt að sjá ofan í það... Þornaður árfarvegur eftir fjöllunum... við fórum yfir hann og upp á Kleif... Í fjarska rís Kálfstindurinn sem er hæstur... og við fórum á síðar um daginn... hann köllum við Norðra þar sem einhver lætur okkur fá viðurkenndara nafn... Brekkan á Kleif var krefjandi... löng... grýtt... brött... Hún var farin á þolinmæðinni og samræðugleðinni þar sem 2ja metra reglan var nánast meistaralöguð (e.slettan: masteruð)... Landslagið þennan dag var erfitt... erfiðara en áhorfist úr fjarlægð... eins og allar fyrri ferðir á þessa tinda... Sýnin úr brekkum Kleifs til Flosatinds... þessi brekka er næst besta leiðin upp á hann... norðan megin... besta leiðin er sú algengasta sunnan megin úr Flosaskarði... en samt eru þær erfiðar... vestur- og austurhliðin eru brattari og varasamari... samt höfum við farið þær líka... þjálfarar í könnunarleiðangri vestan megin... og fyrsta Kálfstindaferðin var farin niður austan megin... þar sem við lentum í honum kröppum en komumst klakklaust niður svona að mestu... http://www.fjallgongur.is/tindur37_kalfstindar_010510.htm Stutt eftir... við erum að venjast 2ja metra reglunni... flestir passa sig vel... Það eru ómetanleg forréttindi að ganga á fjöll með fólki úr öllum atvinnugreinum... með alls kyns skoðanir á alls kyns málefnum... og best af öllu að heyra önnur sjónarmið en manns eigin... til að dýpka skilninginn á málefnum líðandi stundar... Botnssúlurnar farnar að veifa okkur úr vestri... Hrútafjöllin hér nær... og Hrafnabjörgin svo á milli... allt Þingvallafjöll sem við erum búin að ganga á eða á leiðinni að fara á áður en árið er liðið... Síðasti spölurinn upp á Kleif... með Flosatind í baksýn... magnað útsýnið af þessari fjallstindaröð... Tindurinn á Kleif mældist 825 m hár... Hæsti tindur Hrútafjalla þarna brúnn framundan... og svo taka við lækkandi Hrútafjallatindar og svo Skefilsfjöllin... það verður mjög áhugavert að sjá hvort skilin sem við áætlum á milli þessara fjalla séu rétt út frá landslagi tindaraðarinnar... þar sem Hrútafjöllin eru ávöl og mjúk... en Skefilsfjöllin skafin og hvöss... Hæsti Kálfstindurinn svo hér séð frá efsta tindi Kleifs... Norðri köllum við hann og var hann næstur á dagskrá dagsins... Fjær eru Klukkutindar o.m.fl... Útsýnið vestur til Botnssúlna... Hrútafjöll nær... Hrafnabjörg þarna á milli... Útsýnið til Flosatinds og Þingvallavatns... Útsýnið til Laugarvatns... Örn kannaði leiðina niður fyrst... síðast var snjór yfir öllu hér og það eru ólíkar aðstæður en þegar jörð er auð... Við vorum lengi að koma okkur hér niður... sumir reyndar öruggari en aðrir... en margir meira og minna alltaf að renna til og jafnvel detta... Færið skánaði þegar komið var neðar... þá mýktist jarðvegurinn enda meira frost í jörðu eftir því sem ofar dregur í fjöllunum... Smá áning hér við rætur Kleifs eftir krefjandi fjallgöngu niður í mót... 2ja metra reglan alveg að gera sig... Milli Kálfstinda er bugðótt landslag þar sem ekki verður hjá því komist að fara litlar brekkur upp og niður... Hér var heljarinnar snjóhengja í gilinu... frosin... það sem er fyrst að koma að hausti... er yfirleitt síðast að fara að vori... Norðri lengst til hægri... Litið til baka að Kleif... brekkan okkar blasir við héðan... þarna niður var ágætilega bratt.. Við brugðum aðeins á leik í snjóhengjunni eins og alltaf... Ágætis tilbreyting í landslaginu... Ótrúlega mikið snjómagn skafist hér fram af og safnast upp... miðað við auðu jörðina um allt í kring... Silla gleðigjafi... alltaf brosandi og glöð... ein af mörgum afskaplega dýrmætum nýliðum ársins... Framundan var Norðri... brattur... snjóhvítari en hinir... von á hálku... en saklausar brekkurnar að sjá neðan frá... Við lögðum því að stað broddalaus og ákváðum að sjá til... Fljótlega komin í hliðarhalla en snjórinn tiltölulega mjúkur þó smá svellað væri undir... Litið til baka að Kleif... Flosatindur í hvarfi... Útsýnið til Hrútafjalla og Botnssúlna... Ofar var útsýnið svona... Hér jókst vindurinn og var einna verstur á þessum kafla allan fyrri hluta dagsins... Við tókum þetta á þolinmæðinni og mjökuðumst upp... en vindurinn og hart færið olli því að menn voru að detta og renna til endalaust... Það munaði um að vera með stafi... vindur, halli og hálka eru þannig blanda að stafir gera heilmikið... En það var tiltölulega hlýtt... og magnað skyggnið... svo við bara nutum þess að kljást við þessa brekku... Flosatindur að birtast aftan við Kleif... Jebb... þetta var erfitt... að halda sér á fótum og detta sem sjaldnast... Nærmynd af Kleif og Flosatindi í röð... Hengillinn hægra megin og Þingvallavatn og svo Úlfljótsvatn vinstra megin... Fremstu menn komnir upp og þar sem við öftustu menn börðumst gegn vindinum og börðumst við að halda okkur uppistandandi sáum við að efstu menn virtust í góðum málum... ekki standandi á hlið til að vera uppréttir heldur í tómu kæruleysi við að njóta útsýnisins... og þá vissi maður að við vorum í vindstrengjunum sem gjarnan liggja hvínast eftir hlíðum og þrengjast í skörðum... og það var ráð að koma sér bara upp á tind sem fyrst... í brúnalognið dásamlega... Brátt tók landslagið fjær að birtast... Tröllatindarnir þrír hér í nærmynd ofan Hrútafjalla... Nestistíminn uppi á tindinum greinilega byrjaður... Já, það var lygnt uppi... en hvínandi vindur meðfram hlíðunum... brúnalogn enn einu sinni... Tindurinn á efsta Kálfstindinum er alvöru... hann er brattur til allra átta og ofan af honum blasir útsýni við allan hringinn... Hér með í raun sjötta Kálfstindinn... svo við skulum hér með telja þá sem sex tinda... og því er þessi nafnlaus af okkar hálfu... Fjær vinstra megin eru nyrstu Hrútafjöllin og svo Skefilsfjöllin sem eru fimm tindar og þrír þeirra sjást héðan... Ofar vinstra megin er Tindaskagi og Skjaldbreið hvít ofar... hægra megin við miðja mynd er efst Skriða og framan við hana Hrútatindar og Klukkutindar og hægra megin við Skriðu eru Skriðutindar... Við erum búin með Tindaskaga, Skjaldbreið og Klukkutinda... en eigum eftir Hrútafjöll sem verða gengin á þessu ári... og svo eru Skefilsfjöll á dagskrá árið 2021... og þá eru eftir Skriða, Hrútatindar sunnan hennar og Skriðutindar austan hennar... þetta kemur allt saman... smám saman... með því að njóta hvers sigurs fyrir sig... og njóta þess að eiga eitthvað nýtt eftir að upplifa... Efst fjærst sáum við til Jarlhettna... Kálfstinds, Högnhöfða og Rauðafells við Brúarárskörð... Til suðsuðvesturs röðuðu hinir Kálfstindarnir sér til Þingvallavatns... og fjöllin öll kringum vatnið blöstu við... Sem fyrr skreyttu Hrútafjöll, Hrafnabjörg, Ármannsfell og Botnssúlur ofl. sýnina til vesturs... Þar sem tindurinn var brattur til allra átta var erfitt að ná 16 manna hópmynd með 2ja metra millibili Örn, Bjarni með Batman, Kolbeinn, Helga Rún, Bjarnþóra nær, Marta og loks Sigurður Kj. Svona hefði hópmyndin verið ef við hefðum öll getað hrúgast saman og haft útsýnið aftan við hópinn... Hópmyndin til suðurs... Þórkatla, Fanney, Agnar, Björgólfur, Sigrún E., Davíð, Sandra, Silla og hvert fór eiginlega Þorleifur ? Bára tók báðar myndir. Meðan verið var að mynda seinni hópinn vildu hinir leggja af stað niður en það var ómögulegt því það truflaði baklandið á myndinni Bjarni og Helga Rún hér að leggjast í jörðina stillt og samvinnuprúð :-) :-) :-) Allir komnir á keðjubrodda og þannig gekk niðurgangan af Norðra glimrandi vel og við vorum enga stund niður... Munum þetta... ef jarðvegur er frosinn og auður þá er gott að fara á keðjubroddana þó það sé enginn snjór... Hálu kaflarnir í hliðarhallanum voru ekkert mál á keðjunum... þessir keðjubroddar skiptu sköpum þegar þeir komu fyrir þá sem ganga á fjöll allt árið um kring í öllu færi... mjög oft eiga þeir við þegar ísbroddar = jöklabroddar eiga ekki við... einmitt eins og þennan dag niður þessa brekku... Mjög flott leið og gaman að upplifa þetta svæði í betra skyggni og auðu færi í samanburði við árið 2012 þegar hér var mun meiri snjór og þoka yfir að hluta til... Það er oft einfaldast að hafa bara snjó yfir öllu... eins og 1. maí árið 2012... komin átta ár síðan... ótrúlegt... Öllu hlýrra hér árið 2020... Norðri að baki og ekkert eftir nema Flosi... en það var spáð versnandi veðri og við fundum aukninguna í vindinum í bakið á þessum kafla og að manni læddust efasemdir um hvort við ættum að fara upp á Flosatind ef veðrið versnaði enn... þ.e. hjá kvenþjálfaranum... Örn var ekkert á því að gefa þennan Flosa eftir sko... :-) ... "krefjandi tindar að baki og krefjandi landslag framundan alla leið niður í bílana"... svona vinnur úrtöluröddin í manni endalaust :-) Á milli tinda eru ekkert nema brekkur upp eða niður... ekkert láglendi... engin hvíld á neinum kafla í Káflstindum... þetta er hæðótt landslag með meiru... Skarðið milli Kleifs og Hrútafjalla þar sem við vildum fara vestan við Flosatind til að komast að honum sunnan megin um Flosaskarð... Hér var lygnt og smá friður... Flosatindur vinstra megin... Hrútafjöll svo langtum ávalari hægra megin... Gilið milli Flosatinds og Hrútafjalla... við fórum niður um það... Örn vildi halda hæðinni til að spara hækkunina upp á Flosatind... og fór því í hliðarhalla hér utan í Flosatindi... Það var mikill léttir að komast niður... og geta haldið áfram á jafnsléttu... þetta var nú meira landslagið... :-) Sjá fremstu menn hægra megin þarna í miðri hlíðinni... Örn gulur (frábær þessi gula úlpa !) og svo má sjá rauðu og bláu litina... Landslagið mjög fallegt í Hrútafjöllum þar sem farið var niður í Flosaskarð... Við héldum vel áfram og efri hópurinn kom sér á sama hátt út í Flosaskarðið þar sem við hittumst öll aftur... Hér mættumst við þar sem aftari hópurinn hækkaði sig svo aftur upp og fremri menn lækkuðu sig að hluta... Hér spáðum við í spilin... áttum við að halda bjartsýnni áætluninni og fara upp á Flosatind þó vindurinn væri orðinn mjög mikill eða sætta okkur við varaplanið sem var að fara á hæsta Kálfstindinn og Kleif (sem voru að baki) og láta þar við sitja eins og við áttum alveg eins von á að yrði raunin þar sem spáð var versnandi veðri er liði á daginn ? Það mátti búast við krefjandi klöngri frá skarðinu og alla leið upp og hvínandi vindi efst... Það varð því úr að Örn fór upp með Agnar, Bjarna, Davíð, Helgu Rún, Kolbein, Sigurð og Þorleif... En Bára ákvað að bíða í skarðinu með Bjarnþóru, Björgólf, Fanneyju, Mörtu, Söndru, Sigrúnu E. og Þórkötlu... Við sem eftir vorum sátum og spjölluðum og fannst tíminn lengi að líða... og þegar við spáðum í hvort þau væru komin langleiðina á tindinnn... Niðurgönguleiðin er að mestu á stíg frá Flosaskarði en í heilmiklum hliðarhalla og brölti á köflum... Mjög falleg leið en grýtt og með beljandi vindinn beint í bakið þá var þetta bara nokkuð krefjandi ganga eins og það ætti nú almennt að vera kærkomið að fá vindinn ekki í fangið... en hann var það mikill að þó hann væri í bakið þá var hann of sviptivindasamur til að vera okkur í hag... eflaust þessum bröttu fjöllum um að kenna því þar sem vindar leika við mörg aðskilin fjöll skapast sviptivindar sem eru algerlega ófyrirsjáanlegir... þannig var það þennan dag... Við tókum þetta sem einn hópur og þéttum okkur reglulega... Stígurinn orðinn mjög greinilegur á þessum kafla og hefur troðist mikið frá því við vorum hér fyrst fyrir 10 árum síðan... Flosatindur hér uppi... en þetta er bara neðri kletturinn í suðurhlíðunum... hæsti tindur sést ekki... Á smá kafla í hliðarhallanum er farið ofan við bergsprungu þar sem fara þarf varlega og Bára varaði menn við... því sprungan er mjög þröng og ekki gott að renna niður skriðuna og ofan í sprunguna... sjá lengst til hægri neðri hlutann af henni... en brattinn ofan við hana er mun meiri en hér... engar myndir teknar af varasamasta kaflanum eins og oft áður... Hins vegar rann Sandra og féll við niður þessa brekku hér þar sem allt var öruggt neðar... en tókst að gera það mjög pent og var ekki lengi að koma sér aftur upp á stíginn... ekki góð tilfinning að sjá hana detta svona... en hún og fleiri voru dettandi mörgum sinnum þennan dag... og við vorum nokkur með marbletti eftir daginn... sem sagði sitt um erfiðleika göngunnar... Áð hér þar sem kjarrið tók við... við vorum komin á öruggar slóðir hér... Við gengum greitt niður alla þessa leið frá Flosaskarði... frábær frammistaða... og vorum komin í bílana kl. 16:24... Allir saddir og mjög sælir með ansi sætan sigur á þessum bröttu glæsilegu tindum sem eru þeir næst erfiðustu að klífa af öllum Þingvallafjöllunum á eftir Botnssúlunum sjálfum... Eftir smá viðrun og spjall keyrðu menn heim en Bára þjálfari beið í bílnum og stillti sig inn á að þurfa að bíða í um klukkutíma eða jafnvel lengur... en hafði meiri áhyggjur af því að eitthvað kæmi fyrir efri menn og þeir væru of langt í burtu til að geta kallað á hjálp... Þegar allir bílar voru farnir af bílastæðinu nema Björgólfur og Þórkatla... sáum við skyndilega skærgulan blett í hliðarstígnum þarna upp frá... og hann virtist einn... og hann fór frekar hratt yfir fannst manni... og þá lagðist að manni kvíði... var Örn að loftkastast þarna niður til að sækja hjálp ? Hafði eitthvað komið fyrir ? Nei... allt í einu sá maður rauða og bláa bletti fyrir aftan hann... og léttirinn tók yfir... dj. snillingar þetta lið... þau voru komin alla þessa leið niður og fóru greitt yfir... Bára hljóp yfir til Þórkötlu sem var enn ekki lögð af stað á bílnum sínum en hún sá þau líka og við gátum ekki annað en dáðst að þessu fólki... þau börðust upp þriðja Kálfstindinn þennan dag í versta vindinum sem bauðst uppi... heilmikinn bratta í erfiðu lausagrjóti... og skautuðu svo greitt niður... Léttirinn var mikill að sjá þau koma niður... þetta fór sem betur fer vel... en að þeirra sögn var þetta krefjandi tindur... bröltið var heilmikið... vindurinn var svakalegur efst og þau þurftu að halda hvort í annað á kafla þar sem þetta var svo sviptivindasamt... sex komust alla leið á tindinn en Bjarna og Sillu leist ekki á ástandið efst og sneru þar við... sem hinir lýstu sem svo að "þau hefðu tekið þá skynsamlegu ákvörðun um að snúa við"... Örn þjálfari sagði eftir á að hyggja að þetta hefði verið það krefjandi aðstæður að í raun hefðu þau átt að sleppa þessum tindi... ... því þegar upp á tindinn var komið var bálhvasst og miklir sviptivindar... menn reyndu að finna sér skjól gegn þeim og fremstu menn settust niður meðan hinir skiluðu sér alla leið upp... menn náðu samt að taka myndir og myndbönd af tindinum sem var vel af sér vikið (Agnar og Sigurður)... þegar allir voru komnir á tindinn var snúið strax til baka... efsta kaflann frá tindavörðunni gengu menn tveir og tveir saman þar sem einhverjir voru nærri foknir en tindurinn á Flosa er brattur á alla kanta þó það sé heilmikið pláss uppi... svo gekk mjög vel að fara niður og hópurinn var fljótur að koma sér í skaplegri vind neðar en vindurinn hélt samt áfram að sópa öllum ofan af fjallinu til suðurs... enda versnandi vindur er leið fram að kveldi... Naglar... það er eina orðið yfir þá sem fóru á Flosatind... einmitt þessi sigur er svo gefandi... og situr mest eftir... Meðan Bára beið eftir hópnum skullu á svo miklir vindar á bílastæðinu að það var ekki möguleiki að opna bílhurðina áveðurs... og bíllinn vaggaði heilmikið á bílastæðinu þar sem hún beið og vonaði það besta... og þess vegna jókst óttinn um efri hópinn... en svo lagaðist vindurinn á milli... og var í sæmilegu lagi þegar hópurinn kom niður svo hægt var aðeins að spjalla og viðra það sem var að baki... menn voru augljóslega þrekaðir en alsælir með það sem var að baki... Afreksfólk ekki spurning ! Kolbeinn, Agnar, Silla, Þorleifur, Bjarni, Helga Rús, Davíð, Sigurður, Örn og Batman Með Flosatindinn sinn í baksýn :-)
Þessi ferð var þrekraun fyrir alla leiðangursmenn og næst erfiðasta gangan á árinu á eftir Laugaveginum á einum degi... hún skákaði meira að segja Leggjabrjót fram og til baka sem er meira en að segja það að ná að toppa í erfiðaleikastigi takk fyrir ! Alls 12,2 - 14,5 km á 7:36 klst. fyrri hópur og 8:06 klst. seinni hópur (munar nákvæmlega 30 mín á hópunum !) Gula slóðin þau sem fóru niður úr hliðarhallanum á Flosa og slepptu Flosatindi og skærblái þau sem héldu hliðarhallanum og fóru svo upp á Flosatind... Ekki mikil viðbót að sjá á korti í samanburði við heildarvegalengd ferðarinnar en krefjandi kafli eins og nánast öll þessi leið er... Á heimleið rökkvaði fljótt og við keyrðum inn í myrkrið í borginni... enn einu sinni upplifir maður för úr einum heimi í annan þegar komið er heim úr tindferð... raunveruleikinn sem er að baki allan daginn á fjalli... verður lygilegur og einhvern veginn óraunverulegur í samhengi borgarinnar... og maður skilur ekki afhverju fyrsta fréttin í sjónvarpinu segir ekki frá för okkar á fjallið... ekki að það sé raunhæft... heldur er tilfinningin og upplifunin svo sterk eftir svona dag... hún snertir mann það djúpt að allt annað bliknar í samanburði... og fréttir af Covid-19 blikna líka... en slá mann sannarlega niður á jörðina aftur því miður... Vá, hversu dýrmætt það er að fara á fjall á kóftímum... og ná að gleyma veirunni heilan dag... og fá áminningu um að það er meira til á þessari jörð en kórónuveiran... vonandi nær þríeykið og allir þeir sem starfa á einhvern hátt með mál veirunna... og allir þeir sem kljást við veiruna á einhvern hátt... að ná sér í svona algleymi frá henni endrum og eins... við komumst hreinlega ekki í gegnum þetta erfiða tímabil nema einmitt svona... fara út úr alvarlegu aðstæðunum og einbeita okkur algerlega að einhverju öðru í nokkra klukkutíma... helst heilan dag... þannig fæst orka til að halda áfram þrautagöngunni... Takk #Fjallorka fyrir hleðsluna sem þessi ferð gaf okkur öllum... sætan sigurinn á krefjandi fjallstindum... slaginn við íslenska vindinn sem þrátt fyrir allt frískar og styrkir mann eins og ekkert annað... #TakkÍsland fyrir okkur... Gps-slóðin hér: https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=59880949 Myndbandið hér: https://www.youtube.com/watch?v=fWbU3W_1caQ&t=12s
|
Við erum á toppnum... hvar ert
þú?
|